Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Batteríið búið - lokadagur ferðarinnar ekki til á mynd

Ég kom úr 10 daga ferðalagi um landið í fyrradag og kom með fullt af fínum myndum heim á stafrænu myndavélinni minni.  Sumir ferðafélagar mínir voru ekki eins heppnir og gátu ekki tekið myndir síðasta dag ferðarinnar því að batteríð í myndavél þeirra entist ekki ferðina.  Ég gat lánað tveimur þeirra aukabatterí sem ég var með, en tveir aðrir voru með vélar sem í þarf aðra tegund af batteríum. 

Vegna þessa vandræða vina minna hef ég ákveðið að skrifa nokkur hollræði til þess að ná betri endingu úr batteríunum og annað því tengt:

  • Skoða ekki myndirnar (play mode) áður en tökum er lokið því skjár myndavélanna eyðir mikilli orku úr batteríinu.  Þegar nauðsynlegt er að skoða myndir til að kanna hvort að mynd hafi heppnast er best að stilla sýndina (display) þannig að með fylgi upplýsingar um tökuhraða og ljósop (ásamt grafi yfir dreifingu myndpunkta á gráskalanum).
  • Halda myndavélinni heitri með því að vernda hana frá köldum vindi.  Best er að hafa sérstaka myndavélatösku sem strekt er framan á mann þannig að auðvelt sé að koma vélinni strax í skjól á milli þess sem myndir eru teknar.
  • Hafa "eftir-skots skoðunartíma" (review time) stuttan (t.d. 4 sek) þannig að myndin logi ekki á skjánum of lengi.  Það er gott að venja sig á að kíkja strax á tökuhraðann (shutter speed, lokuhraða), því að ef að hann er minni en 1/60, þá er líklegt að myndin sé hreyfð og það þurfi að taka aðra mynd (t.d. auka ISO í 400 í rökkri og setja T á 1/60-80 handvirkt).
  • Nota ekki skjáinn til að taka myndir þegar mynda þarf mikið og langt gæti liðið áður en hægt sé að endurhlaða batteríið.  Það er auðvelt að venja sig á að taka myndir gegnum sjónglerið (viewfinder), en þess þarf að gæta að slökkva á skjánum áður (oftast ýtt á "display" takkann) svo orkusparnaður náist. 
  • Hafa með sér a.m.k. eitt aukabatterí sem er fullhlaðið frá því deginum áður (eða nokkurra daga gamalt).  Hleðsla battería dvínar smám saman og því þarf að hressa uppá varabatteríin fyrir ferðir.  Reyna skal að nota þau af og til sem fyrsta batterí.  Setja skal hlíf á skaut batteríanna við geymslu. 
  • Varast að geyma þau við hlið minniskorta því segulsvið þeirra gæti mögulega skemmt gögnin á minniskortunum.
  • Gott er að eiga straumbreyti fyrir lágspennurafmagn bíla svo hægt sé að endurhlaða batteríin á bílferðalagi milli göngustaða.

Sé þessum ráðum fylgt ættu batteríin að endast í a.m.k. heilan dag, ef ekki tvo (mismunandi eftir myndavélum) þrátt fyrir töku á 300-500 myndum á dag.  Þegar gengið er á jökul er sérstaklega mikilvægt að hafa góða tösku fyrir vélina og skýla henni strax eftir að búið er að smella af.  Rafkerfi flestra stafrænna myndavéla er viðkvæmt og því getur frost drepið á þeim ef það fær að næða um þær nógu lengi (t.d. umfram 2-5 mínútur í roki).  

Ég lýk þessu með einni mynd úr gönguferð minni með vinum um Hornstrandir.  Myndin sýnir ferjubát í baði undir fallegum fossi rétt við Hornbjargsvita.

IMG_8361-adj-600px

Gleðilegt myndasumar!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband