Færsluflokkur: Íþróttir

Þrekmótamenningin - öflugur samruni grunníþrótta

Merkileg þróun á sér stað í íslensku íþróttalífi sem segja má að hafi átt ákveðið upphaf í byrjun 9. áratugarins (1980 og áfram).  Ég er að tala um þrekmótin sem eru sprottin úr grasrót ófélagsbundinna íþróttamanna sem komu á fót þrekmótum annað hvort byggðum á eigin hugmyndum eða samkvæmt erlendum fyrirmyndum.  Áður en ég lýsi þrekmótunum ætla ég að fara aðeins í þann sögulega aðdraganda að myndun þessara þrekgreina, sem ég þekki, en er alls ekki tæmandi lýsing.

Upp úr 1980 hófst nýtt tímabil í líkamsræktarmenningu Íslendinga þegar fólk gat komið úr felum kjallara og bílskúra þar sem það lyfti lóðum eða spennti út gorma og byrjað að æfa styrktaríþróttir í nýtilkomnum líkamsræktarstöðvum.  Þessar stöðvar voru í fyrstu litlar (sbr. Orkubótina í Brautarholti) en stækkuðu og fjölgaði nokkuð ört næstu árin á eftir (Ræktin Laugavegi og stöðvar í Engihjalla og Borgartúni og íþróttahúsinu Akureyri).  Fyrir þennan tíma var skipuleg kraftþjálfun aðeins stunduð af kraftíþróttamönnum og var frægastur æfingastaða þess tíma Jakabólið í Laugardalnum.  Það var því ekki tilviljun að fyrrum ólympískir lyftingamenn (jafnhöttun og snörun) og kraftlyftingamenn (bekkpressa, hnébeygja og réttstöðulyfta) voru á meðal frumkvöðla í rekstri þessara stöðva og að auki kom inn nýtt blóð áhugamanna um vaxtarrækt sem byggði á hugmyndinni um hið fullkomna stærðarjafnvægi vöðvahópanna í fagurfræðilegu flæði. 

Kostur vaxtarræktarinnar fram yfir kraftsportið átti að vera aukin áhersla á fleiri endurtekningar og meira alhliða þjálfun með þætti þreks, en í reynd fór lítið fyrir því og sportið varð fórnarlamb massagræðginnar.  Mikil steranotkun í bæði kraftgreinunum og vaxtarræktinni skyggði alltaf á orðstírinn og þessar greinar náðu aldrei sérstökum vinsældum þó að lengi framan af hefði vaxtarræktin dregið að sér mikið af forvitnum áhorfendum sem oftar en ekki voru í aðra röndina að hneykslast á ofurskornu og íturvöxnu útliti keppendanna.  Ég æfði mikið á þessum tíma og tók mikinn þátt í skipulagningu móta um 3 ára skeið (1986-1989).  Það var þó ljóst að þetta var að bresta og sú breiða tilhöfðun sem vonast var til með að vaxtarræktin hefði, varð aldrei að veruleika.  Ég man að ég sá fyrir mér í kringum 1990 að það þyrfti að koma inn með einhverja "function" í vaxtarræktarhugtakið.  Sýningin ein á vöðvabyggingunni náði ekki flugi m.a. vegna þess að "free posing" hluti keppninnar krafðist listræns þroska til þess að einhver skemmtan væri af því að horfa á.  Afar fáir keppendur náðu almennilegu valdi á því.  Það var einhvern veginn vonlaus staða að búast við því að testósterónlyktandi hörkutól legðu stund á fagurfræðilegan vöðvadans í ætt við listdans á skautum.  Einn helsti meistari slíkrar listar var Frank Zane sem vann Mr. Olympia keppnina 3 ár í röð (1977-79) og í sögu vaxtarræktarinnar einn af aðeins þremur sem nokkru sinni náðu að vinna Arnold Schwartzengger.  Upp úr 1984 þegar hinn ofurmassaði Lee Haney hóf sigurgöngu sína, var massinn ráðandi yfir hinum fagurfræðilegu þáttum vaxtarræktarinnar og æ fleiri "mind blowing" massatröll komu fram á sjónarsviðið.  Fræðimenn í heilbrigðisgeiranum komu fram með hugtakið "öfugt lystarstol" (reverse anorexia, Adonis complex) yfir þá áráttufullu massasöfnun sem þessir íþróttamenn virtust vera haldnir.  Áráttan náði út fyrir alla skynsamlega varkárni í æfingum og notkun vaxtaraukandi hormóna.  Þá fór að bera á alls kyns efnanotkun eins og notkun þvagræsilyfja til að losa vatn fyrir keppni og örvandi efna til að öðlast meiri æfingahörku.  Það kom fyrir að keppendur drápu sig með þessari iðkan og gerðist það bæði erlendis og hérlendis, a.m.k. með óbeinum hætti, þ.e. óheilbrigðar aðferðir við undirbúning móta áttu þátt í dauðsföllum.  Þrátt fyrir þetta var enginn raunverulegur áhugi innan kraftíþrótta og vaxtarræktar til að reyna að "hreinsa upp" þessar greinar.  Sem dæmi, þá var frekar tekið það til bragðs að segja Kraftlyfingasambandið úr ÍSÍ, en að gegna boði um löglega boðað skyndilyfjapróf á Jóni Páli Sigmarssyni (af hálfu lyfjanefndar ÍSÍ).  Árið 1991 sá ég að vaxtarræktin var ofurseld massagræðginni og ég missti áhugann á íþróttinni.  Sú hugsjón sem ég hafði heillast af, þ.e. alhliða þjálfun vöðvahópa líkamans í átt að þeirri fagurfræðilegu möguleikum (samræmi og fallegt flæði) sem hver einstaklingur bjó yfir, hafði lotið í lægra haldi fyrir takmarkalausri massasöfnun.  Mér fannst að þessi íþrótt ætti e.t.v. séns (í átt til heilbrigðis) ef inní hana kæmi "function", þ.e. að við hana væri bætt keppni í þreki eða einhvers konar leikni.  Að sama skapi yrði að setja þak á massann því annars kynni fólk ekki að hætta.  Með hömlulausri lyfjanotkun var ekki ljóst hvort að nokkur takmörk væru fyrir massasöfnuninni.  Ég hætti afskiptum og fylgdist ekki einu sinni með, nema hvað auðvitað fór það ekki fram hjá manni að stóru mennirnir Jóhann Möller yngri og Jón Páll Sigmarsson létust um 1-2 árum síðar, langt um aldur fram.  Engar einhlítar skýringar eru á dauða þeirra, en í tilviki Jóns Páls þar sem talsverð opinber umræða hefur farið fram, hefur möguleikinn á skaðsemi mikillar steranotkunar nánast verið kæfður.  Jón Páll var elskaður af þjóðinni fyrir nánast barnslega jákvæðni sína, baráttuvilja, húmor og útgeislun gleði og áhyggjuleysis.  Hann varð ímynd þess að við Íslendingar gætum allt, bara ef við gæfum okkur öll í verkefnin.  Ekki ósvipað því viðhorfi sem stuðlaði að "efnahagsundrinu Ísland" sem á endanum hrundi í blindri afneitun í október 2008.  Ekkert mátti skyggja á þessa fallegu ímynd Jóns Páls og ofurhetjumynd kraftíþróttanna og enn þann dag í dag hef ég ekki séð heiðarlegt mat á þessum skuggaheimi kraftíþróttanna í riti eða mynd. 

Breytingar áttu sér þó stað og sú hugmynd sem ég fékk var greinilega í hugum margra annarra og varð að veruleika nokkrum árum síðar, þ.e. "function" kom inn í dæmið og alls kyns fitness keppnir spruttu upp.  Vinsældir strongman keppnanna hafa eflaust haft sín áhrif einnig því í þeim var mikið líf og keppendur þurftu nokkurt þrek auk gífurlegra krafta til að eiga séns á sigri.  Síðar komu einnig inn keppnir sem erlendis eru kallaðar Classical bodybuilding, þ.e. klassísk vaxtarrækt þar sem takmörk eru sett á þyngd keppenda miðað við hæð þeirra og þannig í raun sett þak á massasöfnunina.  Nafnið er athyglisvert því í því virðist felast viðurkenning á því að hin upphaflega klassíska vaxtarrækt hafi í raun ekki haft endalausan vöðvamassa að takmarki sínu.  Í rúman áratug stóð þátttaka í vaxtarrækt nánast í stað og afar fáar konur vildu taka þátt, en eftir að fitness keppnirnar byrjuðu virðist hafa losnað um stíflu í þeim efnum.  Þessar keppnir leggja meiri áherslu vissar staðalímyndir kvenleika og nýta sér ákveðin atriði úr fegurðarsamkeppnum eins og að nota háhælaða skó.  Massinn á að vera minni en mér sýnist á myndum frá keppnum fitness.is að hann sé síst minni en var áður hjá íslenskum vaxtarræktarkonum, en er auðvitað langt frá því að vera eins og þær erlendu (aðallega USA og Evrópa) voru orðnar í massastríði 9-10. áratugarins.  Ég get ekki að því gert að mér finnst þessi hugsun að vera á háhæluðum skóm í bikiníi sem myndar V-laga uppskorning beggja vegna þannig að í eitlaríkt nárasvæðið skín og rasskinnarnar berast nær alveg, en aftur kviðvöðvarnir sjást minna, vera hálfgerð keppni í því að þora að sýna það sem áður mátti ekki sýna frekar en að hafa eitthvað íþróttalegt eða fagurfræðilegt gildi.  Nárasvæðið er eitt hið óásjálegasta svæði líkamans þegar öll fita er farin í kringum eitlana og við blasa óreglulegar kúlur.  Litur sérkennilegra samfastra bikinía í módelfitness keppninni er oftar en ekki verulega sterkur og væminn með gljándi doppum eða glansandi leðri.  Aftur hugmynd sem ég tengi frekar við spilavíti, súlustaði, chorus line stelpur, cheer leaders og aðrar kynlífshlaðnar kvenímyndir, en íþróttir.  Að auki er ljóst að brjóstastækkunaræði nýfrjálshyggjumenningarinnar lifir þarna það góðu lífi að brjóst sumra keppenda hafa nánast sigrast á þyngdaraflinu.  Með því að gifta saman vöðva- og þrekíþrótt, fegurðarsamkeppni, ímyndir úr módel- og kynlífsbransanum, brúnkukremsbransann og fæðubótarbransann hafa fitnesskeppnirnar náð að líta út eftirsóknarverðar í augum fleiri ungra kvenna en áður.  Þó að það gleðji mig að massagræðgin hafi fengið þak, þá finnst mér þessi þróun í raun ekki hafa gert mikið til að gera vaxtarræktar-tengdar íþróttir heilbrigðari og þá á ég ekki bara við hið líkamlega.  Það er svo ótrúlegt að það virðist ekki vera hægt að sýna líkamsvöxt sinn án þess að gera úr því gervihlaðna glamúrsýningu.  Meðalhófið fær ekki að njóta sín. 

Annað fitness þróaðist einnig hraðbyri uppúr 9. áratugnum þó upphaf þess megi rekja 10-15 ár fyrr, en það var skokkið og svo maraþonæðið.  Æðsti draumur skokkarana var ekki lengur Neshringurinn plús 400 metra skriðsund í Vesturbæjarlauginni, heldur hálft maraþon og svo heilt árið eftir.  Svo dugði það ekki til og allir vildu teljast flottir hlupu Laugaveginn (Landmannalaugar-Þórsmörk) eða fóru í einhvers konar ofur-þolíþróttir eins og hrikaleg hjólreiðamaraþon, Vasa-skíðagangan, iron-man þrígreinar (sund, hjól og hlaup) og svo 100 eða 200 km hlaup og loks 48 klst vegalengdakapphlaup (langt í frá tæmandi listi). 

Þessar þol- og kraftíþróttir má kalla grunngreinaíþróttir því þær beinast að þessum grundvallarþáttum í líkamlegri getu, krafti og þoli.  Greinar eins og fimleikar sem komu inn með grunnþættina snerpu og liðleika auk krafta og náðu einnig meiri vinsældum á meðal almennra iðkenda. Fimleikafólk hafði oft einn besta grunninn fyrir fitness greinarnar nýju (t.d. Kristján Ársælsson margfaldur icefitness meistari).  Áður en þessar grunngreinar fóru að splæsast saman í nýjar greinar þróuðust þær í hömlulausar útgáfur sínar, þar til ákveðinn hópur fékk nóg og þörf fyrir skynsamlegar takmarkanir sköpuðust.  Enn halda menn áfram í að kanna hversu langt þeir/þær geta gengið án þess að hreinlega drepa sig (sumir drepa sig reyndar eða missa heilsuna), en blikur eru á lofti að nýjar greinar sem hafa þær lengdartakmarkanir sem þær gömlu höfðu (t.d. 800 m hlaup), en byggja á alhliða getu úr öllum tegundum grunngreinanna, séu að ná talsverðum vinsældum.  Þetta eru því nokkurs konar tugþrautir hinna almennu sportista sem krefjast ekki þeirrar miklu tækni og stærðar valla sem greinar tugþrautarinnar gera. 

Þetta eru þrekmótin Þrekmeistarinn, Lífsstílsmeistarinn, Crossfit leikarnir, BootCamp keppnin og loks Skólahreysti fyrir eldri grunnskólabörnin.  Hér er um hreinar "function" keppnir í orðsins fyllstu merkingu að ræða því gríðarlegt alhliða þol, líkamsstyrk, snerpu og að nokkru liðleika þarf til að ná árangri í þessum mótum. 

Þrekmeistarinn og Lífsstílsmeistaramótið byggja á 10 greina braut sem ljúka á á sem bestum tíma en Crossfit leikarnir er mót með breytilegum æfingum sem sameina krafta og snerpu lyftingagreinanna tveggja (ólympískar og kraft) auk greina úr vaxtarrækt (t.d. upphýfingar), gamallar útileikfimi (burpees hopp), ýmissa áhalda (ketilbjöllur og þyngdarboltar) og gamla góða skokksins (en upp brekku að hluta).  Áberandi er að þátttakendur í þessum þrekmótum koma úr öllum áttum íþrótta og öllum aldri.  Mjög góð samkennd og velvilji ríkir á milli keppenda þrátt fyrir harða keppni um toppsætin.  Mikil íþróttamennska ríkir og ekkert prjál er í gangi.  Það er því að skapast ákveðin þrekmótamenning sem lofar góðu.  Helsti vandinn hefur verið að fá keppendur til að framkvæma allar æfingar rétt og ganga sumir þeirra á lagið ef dómarar eru linir og kjarklitlir við að refsa fyrir ógildar lyftur.  Keppendum til hróss má þó segja að þeir hafa verið mjög umburðarlyndir gagnvart mismunun sem þetta hefur stundum skapað og er það til marks um þann almenna anda gleði yfir þátttöku og jákvæðni sem hefur ríkt. 

Nú í fyrsta sinn í ár er efnt til svokallaðrar þrekmótaraðar 4 keppna þar sem allir helstu aðilar þrekmóta munu krýna allsherjar meistara þrekmótanna eftir að keppni í mótunum öllum líkur.  Samstarfsaðilarnir eru Lífsstíll í Keflavík (Lífsstílsmeistarinn 14. mars), CrossFitSport (Kópavogi og Seltjarnarnesi, CrossFitleikarnir 23. maí) BootCamp (BootCamp-leikar) og Þrekmeistarinn Akureyri (Íslandsmót þrekmeistarans í nóvember).  Allt eru þetta ný mót nema Þrekmeistarinn og því er að skapast mikil breidd og fjölbreytni í þrekmótum. 

Crossfitleikarnir eru nýafstaðnir og reyndi þar meira á kraftaþátt þreksins en í Þrekmeistaramótunum og Lífsstílsmeistaranum.  Leikarnir voru haldnir úti á malbikiðu plani í Elliðaárdalnum móts við Ártúnsbrekkuna.  Þessi útivera skilaði algerlega nýjum og ferskum vinkli á sportið og aðrar áherslur mótsins miðað við hin skiluðu breyttri sætaröðun keppenda því hreint þol (aerobic endurance) hafði minna að segja. Almennt var mikil ánægja með mótið og dómgæslan tókst að mestu með ágætum.  Crossfitleikarnir eru sérstakir að því leyti að þeir skiptast tvær deildir keppenda, meistaraflokk og almennan flokk, þannig að hinn almenni "dútlari" eins og ég gátu tekið þátt án þess að lenda í beinum samanburði við "ofurmennin" í meistaradeildinni.  Keppendur í almenna flokknum hjá konum og körlum voru þó almennt í góðu formi.  Má segja að þáttaka mín hafi verið ákveðin núllstilling, þ.e. þá sást hvað hinir voru í góðu formi miðað við hinn almenna kyrrsetumann (hef bara æft þetta í 2 mánuði).  Áberandi var að allir fengu hvatningu og mottóið var að ljúka sínu, sama hver tíminn væri.  Íþróttaandi jafnræðis og virðingu fyrir jákvæðri viðleitni sveif því yfir Elliðaárdalnum þennan tiltölulega veðurmilda laugardag.  Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá hversu ríka hvatningu til annarra keppinauta og þeirra sem áttu í mestu erfiðleikunum, kom frá Sveinbirni Sveinbjörnssyni, sigurvegara meistaraflokks karla.  Þar fer mikill íþróttamaður sem er gefandi á öllum sviðum íþróttamennskunar.  Konan mín, Soffía Lárusdóttir náði 3. sæti í almenna flokki kvenna og er ég ákaflega hreykinn af henni. 

Ég bind nokkrar vonir við þetta þreksport því í því liggja þeir möguleikar að fara ekki með það út í algert stjórnleysi og samfélagið í kringum það getur nært mjög alhliða þrek-líkamsrækt sem hentar breiðum hópi fólks.  Æfingarnar eru kröfuharðar en um leið aðlagaðar einstaklingum.  Hver og einn gerir sitt besta og oftast gott betur því með hjálp hvatningarinnar og milds jákvæðs hópeflis ná menn mun betri árangri en með því að dútla í sínu eigin horni.  Dálítið mismunandi aðferðir og áherslur eru á milli þessara æfingakerfa og virðist Cross-fit kerfið eiga erindi til breiðari aldurshóps en BootCamp kerfið sem hefur átt það til að vera talsvert óvægið og því meira innan álagsþols yngri hópsins.  Bæði kerfin hafa skilað iðkendum sínum miklum árangri.  Það er stundum stutt á milli árangurs og meiðsla og því þurfa þjálfararnir að hafa vakandi auga fyrir einstaklingum sem eru ekki tilbúnir í hörð átök og byggja þá upp hægar en hina.  Mikill áhugi á skólahreysti mótunum á örugglega eftir að skila sér í meiri þátttöku þrekmótanna þegar fram líður.  Þá held ég að þessar þjálfunaraðferðir eigi eftir að skila sér í aukni mæli í grunnþjálfun boltaíþróttanna eða annarra tæknilegra íþróttagreina.  Það verður spennandi að sjá hver þróunin verður næstu árin.  Vonandi fáum við sport sem leggur áherslu á heilbrigða hugsjón ekki síður en kappið.  Maður leyfir sér að dreyma stundum.  ;-)


Dugnaður

Ég byrjaði fyrir rúmum 6 vikum að æfa svokallað Cross fit undir leiðsögn þjálfara í Sporthúsinu Kópavogi.  Þetta hefur verið erfiður tími því maður tekur miklu meira á því og gerir hluti sem maður taldi óhugsandi undir leiðsögn þeirra góðu þjálfara sem sjá um æfingarnar.  Þetta er alhliða þrek og skilar mjög mikilli starfsorku og getu til margs kyns áreynslu, t.d. fjallgöngu.   Árangurinn lætur heldur ekki á sér standa og ég hef tekið talsverðum framförum frá því nánast zero-ástandi sem ég var í mælt út frá þreki. 

Konan mín er einnig í þessum æfingum (er miklu betri en ég) og benti mér nýlega á myndbandsbút af fötluðum manni sem kallar ekki allt ömmu sína.

Hér er myndbandið.  Ef þessi vilji og dugnaður þessa illa leikna manns er ekki hvetjandi, þá er ekkert hvetjandi.

 http://media.crossfit.com/cf-video/CrossFitJournal_WarriorAdvantagePre.wmv

Er maðurinn ekki ótrúlega duglegur?


Kauphöllin eða Laugardalshöllin?

Á myndinni sjáum við Teit Örlygsson fagna hressilega sigri Stjörnunnar í bikarmótinu nýlega.  Það er nokkuð á þessari mynd sem sker mig í augað.  Hvað með þig?  Er myndin tekin í Kauphöllinni eða Laugardalshöllinni?

Ég á við fötin sem þjálfarinn sigursæli skartar.  Um nokkurt skeið hafa íslenskir körfuboltaþjálfarar Teitur fagnar (mynd: Vilhelm)tekið um klæðavenju starfsbræðra sinna í NBA deildinni í USA, en það er sterkasta og vinsælasta deild heimsins í körfubolta.  Sjálfsagt er að læra af þeim merku þjálfurum sem þar eru en þurfa íslenskir þjálfarar að apa allt eftir þeim eins og páfagaukar?  E.t.v. voru þeir bara eins og aðrir í góðærinu að læra af Wall Street, kauphöll þeirra í USA.  Við vitum hvernig það fór.  Íþróttafélögin hafa undanfarin ár selt allt sem þau gátu til styrktaraðila sinna.  Íþróttahúsin og deildirnar sjálfar bera nöfn fyrirtækja og verðlaunin sömuleiðis.  En þurfa þjálfararnir að vera í klæðnaði fjármálageirans?  Sem betur fer hefur þetta ekki gerst í handboltanum.  Hugsið ykkur Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara æpandi á hliðarlínunni á næsta EM í stífum jakkafötum! 

Ég vil hvetja þjálfara körfuknattleiksmanna að halda í íþróttahefðir og klæða sig úr jakkafötunum.  Maður tekur ekki svona villt fagnaðaróp í Höllinni klæddur eins og markaðsstjóri.  Höfum smekk og ofurseljum ekki íþróttir.


Stórkostleg frammistaða

Það var unun að fylgjast með strákunum okkar í handboltanum á Ól 2008. 

Hvað skóp þennan sigur?

Ég held að skellurinn gegn Makedóníu hafi gagnast þeim vel, þ.e. þær ákvarðanir sem Guðmundur þjálfari tók með liðinu eftir þá tvo leiki fyrir Ólympíuleikana.  Sú reynsla hlaut að hafa gert þeim ljóst að fastur varnarleikur væri lykilatriði fyrir árangur á Ól í Bejing.  Þeir hugsuðu, leystu og framkvæmdu.

Þá var ljóst að sú mistök fyrri tíma að treysta bara á fáa menn til að spila í gegnum heilt stórmót, voru viðurkennd og Guðmundur treysti nú á breiddina í hópnum.  Bestu menn verða ekki bestu menn þegar búið er að nota þá í tætlur.  Hinn breiði hópur nú, sem allur vissi sitt hlutverk gekk beint til verks.  Þá var skynsamlegt að slaka á í leiknum gegn Egyptum.  Það er "stríðið" sem átti að sigra, ekki endilega hverja orustu.  Þeir hugsuðu, leystu og framkvæmdu.

Áberandi var hversu jákvæðir allir leikmenn voru garð hvors annars, sama á hverju gekk.  Ljóst var að það átti ekki að tapa niður því trausti sem menn höfðu á hverjum öðrum með gremju yfir tímabundnum erfiðleikum.  Menn fengu boltann strax eftir að þeir gerðu mistök og það var einfaldlega bara reynt aftur.  Leikmönnum eins og Snorra Steini, Arnóri, Guðjóni Vali og Loga var sýnt fullt traust í því að láta vaða á markið, aftur og aftur.  Þeir sköpuðu mörk upp úr því sem kallast ekki-færi.  Fyrir svona leikmenn og reyndar alla er mjög mikilvægt að vita að þeir hafa veiðileyfi og fullan stuðning.  Þeir hugsuðu hratt, leystu og skoruðu.

Sterkur hugur og einbeiting skóp þennan silfur-sigur umfram allt annað.  Þeir höfðu tæknina og líkamlegu getuna fyrir og e.t.v. aðeins franska liðið skákar þeim hvað það varðar.  Þess utan er það þekking, afstaða, hugrekki, samvinna, leikútfærsla og einbeiting sem skapar sigur í svo flókinni og hraðri flokkaíþrótt sem handboltinn er.  Hér skiptir ekki öllu máli stærð þeirrar þjóðar sem að baki liggur.  Hið sama höfum við upplifað í skákinni og nokkrum öðrum íþróttum.  Sjálfstraustið byggist á því að ná fram þeirri hámarks getu sem einstaklingarnir og hópurinnn með samspili sínu getur mögulega átt inni.  Ótta og efasemdum þarf að ýta til hliðar og baráttan þarf að vera allsráðandi, hvað sem dynur á.  Íslenska handboltaliðið hefur oft komist langt á þessu og spilað á stundum umfram getu, en hefur aldrei átt þennan stöðugleika og festu sem það sýndi nú.  Þekking og hugarfar liðsins er komið upp á þróaðra stig en áður.  Þeir sýndu einurð, þrautseigju og þroska.

Að öðrum ólöstuðum var Ólafur Stefánsson sá klettur sem setti eitt besta fordæmið.  Hans stóíska ró og sjálfsöryggi smitaði út frá sér.  Það var ljóst að andstæðingunum fannst hann vera lykilleikmaður íslenska liðsins því hann var tekinn úr umferð um tíma í nær hverjum einasta leik mótsins.  Gífurleg reynsla hans, yfirsýn og heimspekileg nálgun að leiknum er nú að skila sér til alls liðsins.  Hann og liðið hafa vaxið saman eins og óaðskiljanleg líffæri.  Það var unun að sjá hvernig hann leysti hraðupphlaupin.  Þá tókst honum einnig að blanda saman eigin gegnumbrotum eða uppstökkum með skoti á mark og því að gefa frábærar stoðsendingar.  Þannig hámarkaði hann þá ógnun sem stóð af honum sem sóknarleikmanni.   Ég hef aldrei séð hann ná þessu svo vel sem hann gerði nú og er það einnig frábærum meðspilurum hans að þakka sem nú gjörþekkja hann.  Ólafur sýndi forystu, öryggi og festu.

Hvar má gott bæta?

Hvíld og góður svefn milli leikja er það sem skiptir höfuðatriði fyrir einbeitingu hvers leiks.  Ég velti því fyrir mér hvort að svefnleysi og spenna hafi valdið því að liðið átti svo lítið í Frakkana í úrslitaleiknum.  Í einni frétt var sagt frá einum leikmanni sem kom ekki dúr á auga eftir sigurleikinn gegn Spáni.  Ég velti því fyrir mér hvort að það hafi átt við um fleiri leikmenn.  Fengu þeir frið fyrir velunnurum, ættingjum, vinum, frétttamönnum og öðrum í kringum sig til að hvílast?  Varð æsingurinn og eftirvæntingin eftir úrslitaleiknum of mikil?  Til þess að eiga séns í lið Frakka sem er skipað hástökkvurum í hverri einustu stöðu þarf algera einbeitingu.  Hún náðist greinilega ekki.  Hið svokallaða dagsform er flókið fyrirbæri í handknattleik og þar getur einbeitt og samstillt lið sigrað tæknilega betra og líkamlega sterkara lið með fullkomnum undirbúningi. 

Hermann Gunnarsson og fleiri hafa spekúlerað á þá leið að eftir sigurinn í undanúrslitunum hafi orðið spennufall og liðið hafi einfaldlega ekki hungrað nóg í að vinna úrslitaleikinn.  Svona eins konar "ég hef unnið nóg nú þegar" hugsun hafi náð yfirhöndinni og lokaneistann hafi vantað.  Ég held að þessu hafi verið öfugt farið.  Spennandi tilhugsunin, dagdraumarnir og gífurleg löngun þeirra og hungur eftir gullinu gæti hafa skemmt undirbúning þeirra fyrir úrslitaleikinn.  Í stað þess að líta á leikinn sem hvern annan leik, var æðið í kringum þetta að þrýsta á þá til að líta á þetta sem úrslitaleik.. og hvað þýðir það?  Það þýðir kitlingur í magann, taugaspenna, valkvíði og óróleiki.  Það þýðir að einbeitingin er á hugsuninni um stærð leiksins en ekki nóg á leiknum sjálfum.  Fyrir góðan ræðumann á ekki að skipta máli varðandi flutninginn hvort að talað er fyrir 20 manns eða 20.000, en ef spenna og kvíði nær yfirhöndinni aukast líkur á mistökum.  Landsliðið skorti reynslu í að vera í þessari stöðu og það kann að hafa haft áhrif.  Augnablikið var hugsanlega of stórt í hugum þeirra.  Þá skorti ekki vilja eða "hungur" til að vinna og fara alla leið.  Þá skorti einbeitingu til að hámarka möguleika sína á lokasprettinum hver sem orsökin kann að vera. 

Þakkir

Ég vil þakka landsliðinu fyrir einstaka framistöðu og íþróttamennsku.  Ég óska þess innilega að það hugarfar handboltalandsliðsins og sú nálgun sem frábært lið þjálfara, ráðgjafa, heilbrigðisstarfsfólks þeirra og stjórnanda HSÍ geti skilað einhverju til KSÍ, þ.e. landsliðs okkar í fótbolta, sem nú er í einni þeirri mestu lægð sem það hefur átt í frá upphafi.  Vonandi smitar þessi árangur handboltaliðsins rækilega út frá sér og verður öðrum íþróttum til hvatningar og betra gengis.  Áfram Ísland!


mbl.is Á verðlaunapallinum - myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Föst leikatriði" hjá Fótboltastofnun Íslands

Það eru rúm tvö ár síðan ég heyrði fyrst íþróttafréttamenn tala um "föst leikatriði" í fótbolta.  Mér hefur aldrei líkað við þetta orðalag en ekki alveg gert mér grein fyrir því hvers vegna.  Ég ætla gera tilraun til að útskýra það hér.  Ég hef alltaf haft taugar til fótboltans frá því er ég var krakki og vil halda boltanum frá því að hljóma eins og uppfinning úr tækniháskóla.

Í fyrsta lagi þá hef ég aldrei vitað til þess að fótbolti innihéldi eða samanstæði af "atriðum".   Orðið "atriði" er eitthvað sem ég hef f.o.f. tengt við leikhús, en kannski hafa menn hin síðustu ár farið að líta á knattspyrnuna sem einhvers konar leikhús eða sirkus.  Crying 

Í öðru lagi fæ ég ekki séð hvernig "laus leikatriði" gætu litið út en ætli það megi ekki tala um stungusendingar, þríhyrningaspil, kantspil og hraðaupphlaup sem slík?  Samkvæmt því mætti því tala um tæklingar, stunguskalla og pot sem "lárétt leikatriði".  

Í þriðja lagi sé ég ekki þörf á því að yfirgefa venjubundið knattspyrnumál og taka upp orðanotkun sem hljómar eins og út úr eðlisfræðiformúlu, leikhúsi eða skipulagsnefnd hjá borginni.  Fótbolti er leikur og á að hafa hressilegt tungumál.  Hvað varð um "fríspörkin"?  Nú er bara talað um aukaspyrnur.  Má ekki tala um fríspörk eða einhver önnur "-spörk" sem samheiti yfir horn og aukaspyrnur?  Kannski "dómspörk", t.d. "Eftir dómspörk var liðið á fá á sig mörk og bar það vitni lélegs varnarleiks.  (eða verður talað um "varnarleikatriði" eftir nokkur ár?)

Ég grátbið KSÍ að taka þetta hræðilega gelda stofnanamál úr knattspyrnunni.  Bjarni Felix hlýtur að "lúta í gras" fyrir þessu.  Er ég annars einn um þessa tilfinningu?  Hvað segja "kratspyrnubullur"? Tounge


Ljómandi tillaga í lok stjórnmálastarfs

Björn Ingi sýnir að hann hefur smekk fyrir góðum málum og þessi hugmynd um að reisa Robert J Fischer minnisvarða við Laugardalshöllina finnst mér vel við hæfi.  Heimsmeistaraeinvígi RJF og Boris Spassky árið 1972 í Laugardalshöll verður alltaf með þeim stærstu og minnisstæðustu viðburðum sem þar hafa farið fram.   Mér er til efs um að nokkur annar félagslegur viðburður hafi vakið jafn mikla athygli á Íslandi og þetta einvígi fyrir utan e.t.v. friðarfund Reagans og Gorbatsjovs. 

Sigur Bobby Fishcer hafði gríðarlegar afleiðingar, bæði í skáklífi um allan heim (t.d. fjöldi félaga í Bandaríska skáksambandinu tvöfaldaðist) og gagnvart pólitísku harðlífi fyrrum Sovétmanna sem töldu með yfirburðum sínum í ríkisstyrktri skákinni væru þeira að sýna fram á yfirburði kommúnismans.  Fischer braut á bak aftur jafnteflismaskínur þeirra og lyfti skákinni upp á stig áður óþekktrar aðferðar og snilli.  Þá hafði heimtufrekja Fischers þau áhrif að ekki var hægt að halda bestu stórmeisturunum (áskorendum heimsmeistaranna) lengur á horreiminni og keppnisaðstæður voru stórbættar.  Það var því undarlegt og nokkur þversögn að eigingirni Fischers gagnaðist þannig þeim sem á eftir komu.  Þrátt fyrir bresti Fischers var hann mikill íþróttamaður sem hafði mikil áhrif sem slíkur og minnisvarði um afrek hans væri góður staður fundinn við Laugardalshöll.  Skorti peninga skal ég gefa til þess 2000 krónur.


mbl.is Vill láta reisa Bobby Fischer minnisvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíðaparadísir - eingöngu erlendis?

Nú hef ég ekkert bloggað í rúma viku enda best á stundum að segja minna en meira.  Ég fór í vikulangt skíðaferðalag í Selva (Wolkenstein) í ítölsku ölpunum.  Svæðið var áður undir stjórn Austurríkis og hét þá Suður-Týról.  Þar er enn mikið töluð þýska en flestir tala svokallað ladino sem er sérstakt latneskt tungumál með ítölskun og þýskum áhrifum.   Ferðin er farin á vegum Úrval-Útsýn og var fararstjórnin til mikils sóma. 

Bærinn er í 1560 metra hæð og flestar brekkur byrja í 2200-2500 metra hæð þannig að það snjóar í þeim þó að vor sé komið í neðri byggðir.  Reyndar voru hlýindin það mikil í lok febrúar að snjóinn tók nær alls staðar upp nema á brautunum sem eru fylltar af framleiddum snjó á næturna.  Það er því tryggt að maður skíði ekki á grasbala í ferðinni.  Skíðapassinn veitir manni óheftan aðgang að svæði sem spannar tugi ef ekki nokkur hundruð kílómetra og í lokinn getur maður skoðað á netinu Marmoladahvar og hversu hátt maður fór og hversu mikið maður hafði skíðað.  Ég lauk um 160 km á 6 dögum í um 91 lyftuferðum.  Toppurinn á ferðinni var að ferðast með þyrlu uppá jökultopp sem kallast því skemmtilega nafni Marmolada og er í um 3400 m hæð.  Þaðan var skíðað og tók ferðin heim á hótel allan daginn.   Það er sem sagt hægt að skíða á svæðinu allan daginn án þess að fara nokkru sinni tvisvar í sömu brekku.   Eftir ferð í þetta draumaland var ekki laust við að manni væri hugsað til okkar litlu Bláfjalla.   Hvað er hægt að gera til að kreista út nokkur ár til viðbótar áður en hitnun jarðar gerir út af við skíðaiðkun hér?

Í nýlegri grein í mbl stakk starfsmaður svæðisins uppá því að reistar yrðu snjófoksgirðingar víðar á svæðinu til að binda snjóinn en hann fýkur annars bara burt.  Það væri ekki mikið vit í því að hefja snjóframleiðslu sem svo fyki burt.  Ég verð að segja að þetta hljómar mun viturlegra en að halda áfram að hrúga niður lyftum á svæðið.   Það þarf að gera eitthvað traust og árangursríkt fyrir skíðasvæðið, annars er þetta búið spil.  Hér þurfa okkar bestu verkfræðingar að leggja hausinn í bleyti og koma með góðar lausnir.  Þó að það sé dásamlegt að fara til fjarlægra landa til að skíða, verður að reyna eitthvað raunsætt til að halda í skíðaiðkun hérlendis.  Þessi íþrótt er einfaldlega of góð og skemmtileg til að missa af henni alfarið hér.

 


Frægir í form - síðasti þátturinn fór í loftið í gær

previewFifNú er þáttunum "Frægir í form" lokið og var fimmti og síðasti þátturinn sýndur á Skjá einum í gærkveldi.   Ég var ánægður með þáttinn og fannst hann skila jákvæðni og hvatningu.  Í heild vantaði e.t.v. eitthvað uppá að serían skilaði skýrari heilsufarsstefnu en ég vona t.d. að þau skilaboð að þyngdin er ekki eini mælikvarðinn á heilsufar hafi skilað sér.  Hinn útreiknaði ástandsaldur sýndi t.d. að Ragnheiður Sara var betur sett eftir þessar 6 vikur þrátt fyrir að vigtin sýndi sömu þyngd.   Hún hafði skipt út fitu fyrir vöðvamassa og aukinn forðasykur í lifur og vöðvum.   Það var ákaflega gott að vinna með öllum þátttakendunum og þau sýndu mikinn dugnað og áræði.  Það er ekki auðvelt að setja heilsufarsvandamál sín á borð fyrir alla landsmenn. 

Ykkur til upplýsingar þá er ástandsaldurinn reiknaður út frá samanteknum upplýsingum um lífaldur, hæð, þyngd, blóðþrýsting, blóðfitur, reykingasögu, næringarsögu og venjur, svefnvenjur og stress, aðlögunarhæfni og svo getu í þolprófi, þremur styrktaræfingum og liðleikamælingu.  Lokamarkmið hvers og eins er að ná mínus 10 árum í ástandsaldri miðað við sinn raunverulega lífaldur. 

Hvað finnst lesendum um þættina Frægir í form? 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband