Tími til að jarðtengja

Rómantík og öryggi eru ekki sami hluturinn.  Það sem kemur fram í rannsókninni eru staðreyndir málsins óháð tilfinningum og óskhyggju fólks.  Þó að það sé vinalegt að fæða heima hjá sér er það minna öruggt en á sjúkrahúsi.  Þessi Cathy Warwick, formaður félags ljósmæðra í Bretlandi er í ruglinu ef marka má þessa frétt.  Hún bendir á að með þessu sé verið að koma því að sjúkrahúsfæðingar séu áhættulausar en það er rangt hjá henni.  Það er verið að segja að þær séu áhættuminni.  Heimafæðingarstefnan hefur einkennst af því að halda því á lofti að fæðingar séu náttúrulegar og því ekki sérlega hættulegar.  Því miður er staðreyndin sú að fæðingar eru varasamur partur í lífsferlinu og gildir einu um náttúrlegheit þeirra.  Barnshafandi kona ætti alltaf að velja mesta öryggið fyrir ófætt barn sitt.  Heimafæðingar geta átt rétt á sér þegar um er að ræða heilsuhrausta konu sem hefur fætt áður og gengið mjög vel, þ.e. þegar áhættan er sem minnst.  Fæðingar eru þó alltaf óútreiknanlegar og barnshafandi kona þarf að gera sér grein fyrir því að hún og sérstaklega barnið eru öruggari með fæðingu á sjúkrahúsi.  Reiði þessarar Cathy Warwick yfir rannsóknarniðurstöðunni er óskiljanleg.  Það er eitthvað orðið að þegar forsvarsmaður heilbrigðisstéttar er farinn að halda í einhvern einn veg til að gera hlutina út frá tilfinningasemi í stað þess að vinna glöð út frá því sem hlutlaust er fundið út að er öruggast og best að gera. 

"Mamma, af hverju er ég lamaður í handleggnum?  Jú, drengur minn það er af því að ég vildi hafa það kósý og vinalegt og fæða þig heima!"


mbl.is Deilt um heimafæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef allir (einnig þú) slepptu "tilfinningaseminni" þá má benda á vel unnar og þverfaglegar leiðbeiningar Landlæknisembættisins um val á fæðingarstað sem sjá má á þessari vefslóð http://landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3304

Það er alveg rétt að vel þarf að velja þær konur sem fæða heima, þær þurfa bæði að vera hraustar, hafa fulla og eðlilega meðgöngu að baki og allt stefni í eðlilega fæðingu. Það vill svo til að stór hluti barnshafandi kvenna tilheyrir þessum hópi og getur því valið að eigin ósk þann fæðingastað sem þeim finnst sá öruggasti. Forsenda þess að heimafæðingar eru jafnöruggar og sjúkrahúsfæðingar að þessum skilyrðum uppfylltum, eru þær að við heimafæðinguna sé reyndur heilbrigðisstarfsmaður - það á svo sannarlega einnig við sjúkrahúsfæðingar. Konur í áhættuhópi ættu ekki að fæða heima og það dytti engri ljósmóður í hug að ráðleggja.

Síðasta setningin í færslunni þinni er með ólíkindum að heilbrigðisstarfsmaður hafi skrifað og er dæmi um fullkomlega órökréttan og órökstuddan hræðsluáróður sem heilbrigðisstarfsmenn eru yfirleitt ekki þekktir fyrir á þessari öld.

Ég legg til að við höldum áfram að bera virðingu fyrir gagnreyndri þekkingu hverrar heilbrigðisstéttar, öllum til heilla, ekki síst skjólstæðingum okkar.

virðingarfyllst,

Guðlaug Einarsdóttir

formaður Ljósmæðrafélags Íslands

Guðlaug Einarsdóttir (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 11:59

2 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Ég hugsa að eiginkona mín hefði látist ef við hefðum ekki átt okkar fyrsta barn á spítala. Það kom seint í ljós mikil blæðing í legi og hún fékk alveg helling af plasma í æð um nóttina og var undir eftirliti á meðan ég passaði upp á litla nýfædda garminn.

Kristinn Theódórsson, 17.8.2010 kl. 12:01

3 identicon

Jæja vinur. Ég bý í BNA og hér er það þannig að um leið og kona kemur inn á fæðingadeild þá er farið að reyna að gera fæðinguna að eins mikilli tekjulind og hægt er með því t.d. að þrýsta á að móðirin fái sér mænudeyfingu. Læknar hér þrýsta ákaft á að verðandi mæður fari í keisaraskurð, þannig eiga þeir ekki á hættu að fæðing valdi því að þeir séu kallaðir af heimili sínu um miðja nótt eða að hún trufli golfleik þeirra. Og þrátt fyrir alla þeirra tækni er dánartíði ungbarna hvergi hærri í í hinum iðnvædda heimi en einmitt hér. Það er ekki vegna heimafæðinga.

Ingimar Bjarnason (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 13:58

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Guðlaug

Við erum þá á sömu blaðsíðunni, en ef að fréttin er rétt, þá er kollega þín í Bretlandi óhress yfir þeirri niðurstöðu að heimafæðingar séu minna öruggar sem skýtur skökku við.  Auðvitað þarf að meta niðurstöður rannsóknarinnar út frá því hvernig var valið í hana.  Ef að "öruggar" konur voru eingöngu í rannsókninni kemur hún á óvart og maður skilur vonbrigðin, en ef að um er að ræða heimafæðingar hjá hópi kvenna sem voru ekki sérstaklega valdar til þess af ljósmæðrum, þá þarf niðurstaðan ekki að koma á óvart.  Síðasta setningin mín; já hún er kaldhæðin og óraunveruleg, en ég setti hana þarna til að vekja til umhugsunar.  Þegar heimaumhverfi verður ofan á í vali konu á fæðingarstað af því að viðkomandi líkaði ekki umhverfi spítala og öryggi barnsins er óvíst (frumbyrja eða saga um erfiðleika í fyrri fæðingu og heilsubrestur) þá er svona absurd samtal í raun hin hreinskilna túlkun á því sem gerðist. 

Sæll Kristinn.  Já það er ekki ólíklegt af lýsingu þinni að dæma.  Kveðja Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 17.8.2010 kl. 14:04

5 identicon

Þessi rannsókn hefur verið sérlega umdeild vegna þess hversu ófagleg hún er, eða þá öllu heldur þær ályktanir sem dregnar hafa verið af henni. Í henni eru t.d. bornar saman allar heimafæðingar, óháð því hvort þær hafi verið undirbúnar eða ekki, þmt óvæntar heimafæðingar undir hverskonar kringumstæðum og sérstaklega tekið fram að margar þeirra eru án tilsýnar heilbrigðisstarfsmanns.

Varðandi aðdraganda og viðbrögð við axlarklemmu, sem þú ert líklegast að vísa til í þínu absurd samtali eins og þú kallar það, þá leyfi ég mér að fullyrða að fleiri axlarklemmur verða á sjúkrastofnun en í heimahúsi. Þá eru það fyrst og fremst sérþekking og vanar hendur heilbrigðisstarfsmanns sem skipta máli, því tæki og tól verða þar að litlu gagni.

Ekki er hægt að draga ályktun af litlu broti af fæðingarsögu og því reyni ég það ekki en oft er það að fyrri inngrip í meðgöngu eða fæðingu, nauðsynleg sem ónauðsynleg, vefja upp á sig í stærra vandamál. Inngrip eru ekki gerð í heimafæðingum, heldur er kona flutt á sjúkrahús þurfi hún þeirra við. Það er því mjög vandasamt að bera slíkt saman. T.d. heyrði ég einu sinni þá röksemdarfærslu að "það var eins gott að ég fæddi á sjúkrahúsi, í heimafæðingu hefði ég örugglega dáið því blóðþrýsingurinn féll svo mikið af epidúraldeyfingunni." Það er nokkuð ljóst að viðkomandi hefði aldrei fengið epidúraldeyfingu í heimahúsi og því ekki þurft að óttast þá tilhugsun að hafa verið utan sjúkrahúss undir þeim kringumstæðum.

kveðja, Guðlaug

Guðlaug Einarsdóttir (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 14:52

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já Ingimar "vinur".  BNA hefur talsverða sérstöðu á meðal Vesturlanda og hefur sú þjóð við mun stærri vanda að stríða en hinar hvað almenna sjúkdómsbyrði varðar vegna gífurlegs fjölda af innfluttu fólki frá vanþróuðum ríkjum og slakrar uppbyggingar á heilbrigðistryggingakerfi.  Ungbarnadauði er því hærri en hjá hinum Vestrænu þjóðunum vegna mun hærri sjúkdómatíðni hjá mæðrunum.  Sem dæmi má nefna að sykursýki er margfalt stærra vandamál í BNA en Evrópu og sá sjúkdómur tekur mikinn toll af heilsu mæðra og ungbarna.  Það eru því allt aðrir þættir en þeir sem snúa beint að fæðingarhjálpinni sem ráða um tíðni ungbarnadauða í BNA.  Þrátt fyrir að einhver munur sé á tíðni keisara og mænudeifinga á milli BNA og Evrópu/Íslands, og einhver munur á tíðni heimafæðinga, eru það ekki þeir þættir sem orsaka muninn á tíðni ungbarnadauða.  

Tal þitt um að læknar séu bara hugsa um budduna og frítímann sinn og ýti því á keisara og mænudeyfingar er eitthvað sem ég hef aldrei heyrt, en það má vel vera að þetta líti þannig út þegar fólk kann ekki aðrar skýringar.  Ég hef heyrt aðrar skýringar sem ég ætla ekki að fara út í hér.

Svanur Sigurbjörnsson, 17.8.2010 kl. 15:15

7 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Hér tek ég sannarlega undir með Svani. Gersamlega óskiljanlegt að halda því fram að heimafæðingar séu jafn öruggar og á sjúkrahúsum. Já jafnvel þó „valið sé vel“

Hefði ég valið að fæða börnin mín heima (eftir NB fullkomlega eðlilegar meðgöngur, gekk reyndar 10 daga fram yfir með þá elstu en ég get ekki ímyndað mér að slíkt kæmi í veg fyrir að ég hefði fengið að eiga heima, hefði ég beðið um slíkt) hefðu báðar dætur mínar væntanlega orðið fyrir heilaskaða, það þurfti að hafa verulega hraðar hendur sérstaklega með þá eldri, læknir kallaður að akút (mjög grænt legvatn og komið niður í lungu. Barnið byrjaði ekki að anda fyrr en var pumpað upp úr henni). Sú fæðing tók ekki nema 4 klukkustundir frá því að ég var viss um að ég væri með hríðir, þar til barnið var fætt - og bara mínútuspursmál eftir að ljósmóðir áttaði sig á því að ekki var alveg allt með felldu. Sú yngri var ekki alveg jafn dramatísk þegar hún kom í heiminn en þó þurfti hún strax á hjálp að halda.

Jú jú, það er sjaldgæft að upp komi alvarleg tilfelli þar sem ekki næst að flytja móður og barn á sjúkrahús en þau geta sannarlega komið upp og ég vildi ekki vera ljósmóðirin sem hvatti móður til að eiga heima og þyrfti svo að segja: Já en þetta kemur næstum aldrei fyrir!

Ég las einu sinni grein eftir ljósmóður sem hafði unnið mikið í þróunarlöndum. Sú sagðist alltaf sjá rautt þegar hún heyrði röksemdafærsluna: Sjáið bara konurnar í Afríku, þetta er allt svo eðlilegt þar, þær bara skjótast bak við runna og eignast barnið sitt. (og já, þessi „rök“ hef ég heyrt oftar en einu sinni í svona umræðum. Sagðist hvæsa að viðkomandi: Farðu þá þarna suðureftir og sjáðu konu í barnsnauð deyja án þess að geta gert nokkurn skapaðan hlut, og komdu síðan aftur og segðu mér hvað þetta sé allt eðlilegt og fínt!!!

Móðir mín er sannfærð um að þessi heimafæðingaáróður sé upprunalega kominn frá körlum sem halda um peningabuddurnar - klárt það er talsvert ódýrara að láta börnin fæðast heima... (og móðgast nú örugglega ýmsir).

(ég er eiginlega hætt að lesa mbl og blog.is og hef held ég ekki skráð mig inn á blog.is síðan núverandi ritstjóri tók við blaðinu en þetta er mér mikið hjartans mál).

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 17.8.2010 kl. 15:59

8 identicon

 Svanur BNA hefur hærri dánatíðni ungbarna en flest vanþróuð ríki. Hér snýst umræðan þessi misserin um hvort það geti verið að há tíðni keisaraskurða valdi til. Um 80% þjóðarinnar hafa aðgang að í.þ.m. þokkalegri heilsutryggingu sem ætti að koma þeim í ágætis sjúkrahús ef það er það sem fólk vill.

 Mæðrum er ýtt út í keisaraskurði fyrst og fremst vegna þess að sjúkrahúsin græða meir á þeim en hefðbundnum fæðingum. Fyrst er spilað inn á hvað það er hentugt fyrir  þær að hafa ákveðin dag til þess að fara inn á spítala í uppskurð í stað þess að bíða í óvissu. Ef það dugar ekki til þá þegar nær dregur fæðingu eru þær sendar í sónar þar sem niðurstaðan er sú að fóstrið er orðið þetta gífurlega stórt að ekki þykir öruggt að fæða á eðlilegan hátt. Svo þegar barnið er skorið úr er það venjulega í fullkomlega eðlilegri stærð eða það sem verra er minna en gott þykir.

 @ Hildigunnur, Í flestum fylkjum BNA taka tryggingarfélögin ekki þátt að greiða fyrir heimafæðingu þannig að staðan er sú að fyrir spítalafæðingu þá hefðum við, ég og eiginkona mín, greitt $1000 en fyrir heimafæðinguna greiddum við $3000.

Ingimar Bjarnason (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 22:02

9 Smámynd: Kommentarinn

Ingimar þó að BNA séu mjög aftarlega á merinni í þessum málum þá ert aðeins að ýkja með að þeir standi flestum vanþróuðum ríkjum aftar. Hérna sjást tölur yfir dauða barna yngri en eins árs per 1000 lifandi fædd börn:

http://en.wikipedia.org/wiki/File:Mort.svg

Þar sést að USA eru aðeins á eftir Evrópu, á svipuðu leveli og kúba en töluvert á undan flestum svokölluðum þróunarlöndum...

Kommentarinn, 18.8.2010 kl. 00:31

10 identicon

Eftir að hafa aflað mér mikilla upplýsinga um fæðingar, áhættur og annað tók ég mjög svo Upplýsta ákvörðun um að velja heimafæðingu. Samkvæmt því sem ég hef lesið að þá getur heimafæðing jafnvel verið öruggari en sjukrahúsfæðing, ef konan sjálf er heilbrigð fyrir. Umhverfi og líðan kvenna hefur mikið að segja um gang fæðinga...sem hefur svo áhrif á inngrip og lyfjanotkun í fæðingum.

Sandra Sif (IP-tala skráð) 18.8.2010 kl. 12:42

11 identicon

Þegar fæðingarstaður er valinn er aðalatriðið að öryggi ófædds barns sé í fyrirrúmi. Held því miður að þægindi og hugsanlegir fylgikvillar móðurinnar verði að vera í öðru sæti. Margt bendir til þess að nýbura sé betur borgið á sjúkrahúsi en í heimahúsi, m.a. rannsókn Lancet (sem er afar vandað og mjög gagnrýnið tímarit). Barnalæknar sem starfa á sjúkrahúsum eru einnig alfarið á móti heimafæðingum út frá sinni reynslu og erfitt að sjá að einhverjir annarlegir hagsmunir liggi að baki þeirri skoðun. Almenn skynsemi segir manni að þótt fæðing sé fallegt og náttúrulegt ferli þá er hún einnig áhættusamasti tíminn í lífi hvers barns. Það er engan veginn ásættanlegt að taka óþarfa áhættu á þeirri stundu. Valdi sjálf að eiga mín börn á sjúkrahúsi þar sem ég vissi að þar væru fagmenn í startholunum ef eitthvað kæmi óvænt upp varðandi börnin. Örfáar mínútur geta skipt sköpum.

Steinunn (IP-tala skráð) 18.8.2010 kl. 17:18

12 identicon

Svanur, ég er oft sammála þér en mér finnst þú of harkalegur í þessum pistli. Það sem mér finnst gleymast er að fæðing getur verið mjög erfið lífsreynsla sem, og ég leyfi mér að fullyrða, getur haft áhrif á andlega heilsu konunnar til lengri tíma. Ég tek undir með þér að það ætti að líta á staðreyndir. En þetta eru yfirleitt staðreyndir um líkamlega heilsu, ekki andlega heilsu, og andleg heilsa er allt eins mikilvæg. Það sem mér finnst réttasta leiðin persónulega er að gera sjúkrahússfæðingar eins kósí og heimilislegar og mögulegt er, og að það ætti að passa enn betur að líta ekki á konur sem "burðardýr" fyrir ófædd börn sín heldur einstaklinga með eigin þarfir og væntingar.

Heiða María Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.8.2010 kl. 03:22

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég botn eiginlega ekki í því hvað um er rætt, en tla að reyna.  Snýst málið um það geti hugsanlega verið kostur að forðast nálægð lækna og fagfólks við fæðingar?  Er kósílevellinn orðið læknisfræðilegt hugtak?  Er kósíið mælanlegt? Við hve mörg kósí eru lífslíkur barna bestar? Hvernig hækkar maður kósíið? Setur Ellý og Villa Vill á fóninn? Blúndugardínur og hekludúkar í meira mæli? Hansahyllur með myndum af ömu og afa og postúlínsstyttum úr dönsku sveitalífi um alamót?  Verst að ekki er hægt að spyrja börnin.

Ef ég hefði ekki fæðst á spítala, þá væruð þið ekki að lesa þessa athugasemd mína. Hugsið ykkur hvers heimurinn hefði farið á mis við.

Ef þetta fólk telur að læknisfræðin hafi þróast fyrir peningagræðgi, þá legg ég til að það finni sér helli eða torfbæ og flytji þangað.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.8.2010 kl. 04:34

14 identicon

Þetta finnst mér nú bara ótrúlegt!

í fyrsta lagi langar mig að biðja fólk um að lesa greinarnar og rannsóknirnar sem það vitnar  í ÁÐUR en það vitnar í þær - og í öðru lagi langar mig líka að biðja fólk um að lesa fleiri greinar um rannsóknir tengdar þessu efni áður en það tjáir sig.

Það var engin rannsókn í lancet, heldur einungis leiðari (sem er ekki ritrýndur) sem vitnaði í aðrar greinar. Þessi leiðari bendir m.a. á að það er hættulegra að fæða á spítala á kvöldin og um helgar en heima (skosk rannsókn). Svo er sú grein sem birtist i AJOG sem sýnir einna verstu niðurstöður fyrir heimafæðingar mjög illa unnin. Allar greinar birtar um öryggi heimafæðinga segja einnig að fyrir konur í lægsta áhættuflokki, sem hafa lærða ljósmóður (certified nurse midwife) til að sjá um fæðinguna, og stutt frá næsta spítalaséu jafn öruggar og fæðingar á spítala.

Það er vel skiljanlegt að þeir sem hafa barist fyrir rétti kvenna til vals á fæðingarstað verði reiðir þegar mikið veður er gert úr illa unnum rannsóknum sem gefa villandi niðurstöður.  En aðrar nýlegar rannsóknar eru ekki skoðaðar til sambanburðar. Sem dæmi má nefna hollenska rannsókn sem skoðar nýburadánartíðni, og tíðni innlagnar á vökudeild hjá konum í lægsta áhættuhóp (þ.e. þær sem mættu fæða heima) og bera saman heimafæðingar og spítalafæðingar. þar kemur í ljós að enginn marktækur munur er á milli heimafæðinga og spítalafæðinga.

Helga (IP-tala skráð) 24.8.2010 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband