Tekist á um Vinaleiðina

Á fimmtudaginn n.k. verður haldinn málþing um Vinaleiðina á vegum félags SUS, Huginn í Garðabæ.  Fundarstaður verður í Tónlistarhúsi Garðabæjar að Kirkjulundi 11 (hljómar eins og heimavöllur Þjóðkirkjunnar), kl 20:00.  Þingið er opið öllum.

Til máls í framsögu taka Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, f.h. Þjóðkirkjunnar og Bjarni Jónsson, f.h. Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.   Þessir sömu ræðumenn voru meðal mælenda á málþingi sem félag nemenda í Kennaraháskóla Íslands héldu fyrir nokkrum vikum. 

Trúarleg starfsemi í skólum er alvarleg tímaskekkja.  Mismunun gagnvart minnihlutahópum er tímaskekkja.  Við höfum vel flest okkar vaxið uppúr þessum rangindum á síðasliðnum 60 árum eða svo og siðferði nútímamannsins hefur þróast með þeirri jarðbindingu gildismatsins sem húmanisminn í kjölfar Frönsku borgarabyltinganna hafði í för með sér.  Sex af fyrstu forsetum Bandaríkjanna voru svokallaðir "deistar" og trúðu ekki á guð nema að því leiti að eitthvað guðlegt gæti hafað hafið allt saman en síðan hefði náttúran tekið við.  Deistar trúðu ekki á persónulegan guð og Thomast Jefferson frægasta dæmið.  Annar merkur maður var Abraham Lincoln en hann sagði Biblíuna ekki sína bók. 

Allar framfarir í mannréttindum síðustu alda og áratuga hafa byggt á því að rökstuðningur sigraði kreddur og lýðræðishugmyndin spratt uppúr heimsspekinni.  Upp úr myrkri miðalda stigum við m.a. vegna þess að kirkjan var aðskilin frá ríkisvaldinu.   Framfarirnar urðu þrátt fyrir afturhaldssemi kirkjudeilda en ekki vegna framfara innan þeirra sjálfra.  Framfarir vestrænna kirkjudeilda fylgdu svo í kjölfarið vegna þess að kenningar eins og þróunarlögmál Darwins brutu niður hindurvitni eins og sköpunarsöguna og þar með stóran hluta af heimsmynd trúaðra.   Lengi vel þráuðust trúarleiðtogar við og deildu hart á þróunarkenninguna, en til þess að halda velli og einhverri virðingu urðu kirkjurnar að gefa eftir.  Þannig er saga stóru kirknanna s.l. 2-3 aldir.  Bókstafurinn hefur vikið fyrir húmanískum viðmiðum sem smám saman hafa orðið hornsteinn nútíma siðferðis. 

Það er því alger tímaskekkja að kirkjan vaði á ný inn í ríkisstofnanir (aðrar en sína eigin) með afkárleika eins og upprisuna, kraftaverkalækningar og meyfæðingar í farteskinu.  Það þarf ekki persónudýrkun á sögupersónunni Jésú til að skilja væntumþykju og tillitssemi.  Nútíma sálfræði / hugfræði / hegðunarfræði byggir á mun flóknari og þróaðri hugsun en er að finna í Biblíunni eða námsefni presta í HÍ.  Prestar eða djáknar eru ekki fagfólk nema í guðfræði og eiga ekki faglegt erindi við börn nema að foreldrar þeirra vilji tala við þá í kirkjum landsins um trúarlegt uppeldi.

Prestarnir segja; "á forsendum barnanna" eða "á forsendum skólanna".   Hvernig í ósköpunum eiga börnin að fara í viðtal við fulltrúa trúarbragða á eigin forsendum?  Getum við ætlast til að börn hafi mótaðar skoðanir og prestar gæti sín að ýta ekki við þeim?  Getum við ætlast til að barni sem líður illa stýri viðtali á sínum forsendum?  Það er leiðbeinandans, þ.e. þeim fagaðila sem treyst er fyrir barninu, að stýra viðtalinu og hjálpa barninu á þeim forsendum sem viðkomandi telur barninu fyrir bestu.  Þannig eiga "forsendur skólanna" að virka.  Skólinn á ekki að sætta sig við neitt nema fullnumið fólk í klínískri sálfræði, félagsfræðinga og námsráðgjafa til þess að ráðleggja foreldrum, börnum og stundum kennurum um það sem börnunum er fyrir bestu. 

Þjóðkirkjan getur ekki troðið sér inn í skólanna af því að hún er enn stærst.  Það er með ólíkindum sá félagslegi vanþroski og skortur á réttsýni sem forysta Þjóðkirkjunnar hefur sýnt í þessu máli.  Hún neitar að sjá að skólar eru ekki vettvangur trúarlegrar þjónustu eða starfsemi, sama hver á í hlut.  Hið veraldlega húmaníska umhverfi verður að vernda í skólum landsins því það er hið eina umhverfi sem er trúarlega hlutlaust.    Líkt og með stjórnmálaskoðanir á hvert barn rétt á því að fá skólagöngu og opinbera þjónustu í friði frá trúarskoðunum.  Það þýðir ekki fyrir kirkjuna að segja að þeir tali ekki um trú í Vinaleiðinni.   Það er aldrei hægt að líta á starfsemi presta eða djákna, í störfum á vegum kirkjunnar sem annað en trúarlega og er því beint eða óbeint trúboð í eðli sínu. 

Vinaleiðin og trúarleg starfsemi í skólum skal út.  Byggja þarf upp stuðningskerfi skólanna með faglegum leiðum og er það hlutverk yfirvalda og skólanna.  Bjóðum börnunum aðeins upp á það besta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þvermóðska, óbilgirni og yfirgangur virðast vera einkunnarorð kirkjunnar manna í þessu máli (kristið siðgæði?). Grunnskólalög, aðalnámskrá og alþjóðalög um borgaraleg réttindi skulu hunsuð og brotin. Tilgangurinn helgar meðalið. Og í hugum þessara manna, sem hafa atvinnu af því að hafa vit fyrir okkur í eilífðarmálunum, - og vit fyrir stjórnvöldum þegar kemur að réttindum samkynhneigðra eða skemmtiferðum "óæskilegs" fólks - er tilgangurinn að bjóða AÐEINS upp á það besta... þjóðsögur og hindurvitni bronsaldar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Reynir (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband