Ábyrgðin er okkar, ekki vætta

Í gegnum aldirnar hefur þorra fólks, almúganum verið stýrt af valdi og hugmyndum sem setja því skorður og stað fyrir neðan þá sem fara með völdin.   Bestu stjórnendunum varð ljóst að ekki dugði að hóta valdi einu sér heldur varð að fanga hugann líka.   Þannig náði Hitler til dæmis tvöföldu valdi yfir þorra Þýsku þjóðarinnar.  Þessar hugmyndir hafa jafnan krafist algerrar hlýðni og aðdáunar á foryngjanum.  Ekkert svigrúm var leyft fyrir efasemdir eða mótbárur.  Fylgja eða falla, voru kostirnir.  Á miðöldum var tvennt sem hafði slíkt ægivald yfir fólki, kirkja og konungsríki.  Kirkjan var meistari í að hlekkja hugarfarið.  Engar aðrar trúarhugmyndir voru leyfðar og trúin var alger.   Konungar urðu að leika með og vald þeirra var talið koma beint frá guði.  Þetta hentaði þeim vel því engar aðrar ástæður eða réttlætingar þurfti. 

Þessar forsendur tóku að bresta eftir því sem frjálsum hugum fjölgaði í Evrópu og uppgötvanir á sviði eðlisfræði, efnafræði, stjörnufræði, líffræði og verkfræði tóku að gjörbreyta heimsmyndinni og færa fólki verkfæri og nýjar aðferðir til að komast betur af.  Aldrei hafði kirkjan stuðlað að slíku þó svo einstaka munkar eins og Mendel hafi iðkað vísindi í einangrun sinni.  Þá urðu lýðræðishugmyndir til í Frakklandi sem byggðu á hugmyndum heimsspekinga um náttúrulega skipan í þjóðfélaginu og draumurinn um jöfnuð stétta og kynja tók sín fyrstu spor í raunveruleikanum.  Þetta var húmanismi.  Kirkjan barðist á móti en fræði vísindamannanna voru of nákomin afkomu og líðan fólksins þannig að bylgja þessarar endurreistu rökhugsunar og veraldlegs lífsviðhorfs varð ekki stöðvuð.   Kirkjan og kreddur kristinnar trúar urðu fyrir hverju áfallinu og ósigrinum á fætur öðrum.  Jörðin var ekki lengur 6000 ára, maðurinn var skyldur apanum en ekki guði, sólin var í miðju heimsins og jörðin ekki flöt, ungt fólk fór að velja sér maka sjálft, kynlíf var ekki lengur skítugt og sjálfsfróun blindaði engan, skírlífi úreltist, konur máttu kjósa og vera prestar, hjón máttu skilja, konur fengu yfirráð yfir líkama sínum, siðfræðin þroskaðist í takt við rökfræðina og mannréttindasáttmálar óháðir trú og menningu litu dagsins ljós.  Þetta gerðist þrátt fyrir trúarbrögðin og á meðan tregu hopi þeirra stóð en ekki vegna þeirra eins og margir trúarleiðtogar vilja telja okkur trú um í dag. 

Eftir seinni heimsstyrjöldina og sérstaklega uppúr hippatímabilinu og byltingu í kynlífsviðhorfum urðu kirkjudeildir hins vestræna heims einungis máttlausir skuggar af því sem þær voru áður.   Eftir stóð að kirkjan hélt velli vegna trúarlegra athafna sem höfðu heilmikið félagslegt gildi.  Þetta voru skírnir (nafngiftir), fermingar (viðurkenning unglinga, manndómsvígsla), giftingar (staðfesting sambands og fjölskyldugleði) og jarðarfarir (huggun og kveðja).  Söfnuðir svartra í USA tóku þetta skrefi lengra og með söng og baráttumessum voru kirkjur þeirra bæði skemmtun og pólitískt hæli.   Almennar guðsþjónustur hinna hvítu voru hrikalega leiðinlegar og eru víða enn.  Aðeins örfáir fóru í messur. 

Í dag notar kirkjan tölur úr alls kyns samkomum sem hýstar eru í kirkjunum til að bæta hina tölfræðilegu ásýnd.   Kirkjan lifði af sinn versta tíma og hefur nú potað sér inn í líf fólks á öðrum forsendum.   Eftir að prestar uppgötvuðu að þeir höfðu ekki föðurlegt vald yfir fólkinu þurfti að endurskipuleggja krossförina.  Guð er nú einungis með í aftursætinu (eða falinn í skottinu).  Nú hefur kirkjunnar fólki tekist að skapa þá ímynd að þjónusta þeirra og nærvera sé til mikilla bóta fyrir "andlegt ástand" alls fólks í neyð og hvarvetna geti prestar þjónað hlutverki sem að öllu jöfnu hefur talist atvinna sálfræðinga og geðlækna.  Tólf spora meðferð AA-samtakana hefur átt drjúgan þátt í þessari endurreisn trúarinnar.   Trúarleiðtogar víða um heim hafa uppgötvað að með því að blanda saman vísindum og trú eða hreinlega sannfæra fólk um að trú sé vísindi, er hægt að fá drjúgan fjölda fólks til liðs við sig.  Þetta hefur gerst hér heima í auknu mæli.  Hver man ekki eftir rannsókn Gunnjónu á bæninni.  Hún taldi sig hafa sýnt fram á vísindalega að bænin virkaði.  Ég las rannsóknina og sá fljótt að á henni voru stórir gallar og niðurstaðan markleysa.  Morgunblaðið hampaði samt þessum "vísindum" í hástert með áberandi greinum og sterkum fyrirsögnum. 

Niðurstaða könnunar sem Þjóðkirkjan fékk gerða hjá Capacent Gallup árið 2004, kom í ljós að um 75% þjóðarinnar sögðust trúa á einhvern æðri mátt.  Um 49% sögðust vera kristnir.  Um 19% sögðust vera trúlausir.  Aðeins 8% sögðust trúa því að himnaríki tæki við eftir dauða sinn.    Um 84% voru þá í Þjóðkirkjunni en það hlutfall hefur lækkað í um 82% á síðasta ári.  Það er því ljóst að það eru ekki nærri allir kristnir sem eru í Þjóðkirkjunni og ég veit um fullt af fólki sem heldur sig þar eingöngu vegna hins félagslega þáttar.

Þurfum við trúna?  Þurfum við kirkjubyggingar og kirkjuleg félagsheimili sem kosta okkur hundruðir milljóna?  Þurfum við kirkjudeild sem kostar 3.5 milljarð á ári í rekstri og fær að auki fé til að reka sinn prestaskóla, þ.e. Guðfræðideild innan Háskóla Íslands?  Til samanburðar má nefna að rekstur HÍ kostar um 4 milljarða á ári.  Mánaðarlaun sóknarpresta eru á milli 400-500 þúsund plús tekjur af vissum athöfnum og grunnlaun biskups eru um 880 þúsund.   Kirkjan fær ríflega 800 krónur á hvert "sóknarbarn" mánaðarlega og að auki tekjur úr "jöfnunarsjóði" sem er ætlaður uppbyggingu á húsnæði hennar.  Eru greiðslur þegnanna til þjóðkirkjunnar í samræmi við það mikilvægi sem hún er talinn hafa af þorra fólks?  Viljum við þetta?  Viljum við borga fyrir rekstur kirkna sem standa oftast tómar?    Hversu mikið vill kristið fólk greiða fyrir hina "guðdómlegu blessun"?  Hefur það rétt til að nota svo mikið af almannafé í þessa starfsemi? 

Þið vitið hverju ég svara.  Hér liggja mikil tækifæri til að spara og beina fé okkar til uppbyggingu hugvísinda og þeirra sífjölgandi meðferðarúrræða sem heilbrigðisvísindin færa okkur með hverju árinu sem líður.   Samfélög trúaðra eða ótrúaðra, t.d. húmanista eiga að vera einkarekin og njóta sömu meðferðar af hálfu ríkisvaldsins.   Það er tímaskekkja að halda sérstakri vernd yfir einu trúfélagi og leyfa því að hafa forgang eða sérstakan aðgang að stofnunum og nefndum á vegum ríkisvaldsins.  Mannréttindi snúast ekki um það hver sé í meirihluta, heldur að tryggja að allir hafi jafna aðstöðu.  Á Íslandi skortir þessi mannréttindi og það er brotið á minnihlutanum.  Trúlausir fá ekki að skrá félag sitt og njóta "sóknargjalda"  og ásatrúarmenn fá ekki úthlutað úr jöfnunarsjóði.  Stjórnvöld hlýða biskupi líkt og hann sé "fjórða valdið" og þingmenn láta leiða sig undir flaggi kreddufestu eins og félaga í trúarkölti inní kirkju til blessunar frá þjóni guðs fyrir setningu þings sem er algerlega veraldlegt (secular) í eðli sínu.  Frakkar afnámu þetta fyrir 100 árum og því var fagnað innilega árið 2005.  Hvar erum við stödd?

Ég virði skoðanafrelsi og trúfrelsi og mun því aldrei meina fólki um að trúa hverju því sem það vill.  Hins vegar tel ég ekki allar skoðanir jafn góðar og mun berjast fyrir þeim skoðunum sem ég tel bestar fyrir mína nánustu og þjóðina.  Sú barátta hlýtur einnig ákveðnum skoðunum (reglum) og ég samþykki ekki baráttu hroka, yfirgangs, valdnýðslu eða ofbeldis.  Ég aðhyllist samtalið frekar en þögnina.  Ég sætti mig ekki við stöðnun og rökleysur.  Að heiminum steðjar ein sú hræðilegasta rökleysa sem maðurinn hefur nokkru sinni fundið upp, en það er trú.  Trú á hið yfirnáttúrlega, hið almáttuga og hið óvéfengjanlega.   Í innsta hring er öfgatrúarfólkið en utan um, í æ minna trúarlega sterkum lögum eru hinir óviljandi hlífðarskildir, hóftrúarfólkið og fólkið með "barnatrúnna".   Í stað þess að öfgatrúarmenn standi naktir og einir uppúr sléttu skynseminnar með sínar banvænu trúarkreddur og guðshræðslu, er urmull af hófsemisfólki þétt við hlið þeirra (hugmyndafræðilega) og afsakar guð þeirra.  Munum að guð Abrahams er hinn sami leiðtogi Osama Bin Ladens og Karls Sigurbjörnssonar biskups.  Páfinn er einnig trúbróðir biskups.  Biskup lofaði páfa þrátt fyrir að páfinn boði enn að eigi skuli nota getnaðarvarnir og halda úti klaustrum og skírlífi presta (ævarandi uppspretta pedophilu) .   Sameinaðir undir vættinum "guði" afsaka trúarbrögðin hvort annað og valda því hugmyndafræðilegum skaða um heim allan. 

Það er tími til að breyta þessu og heiminum smám saman í leiðinni.  Við hér á þessari afskekktu eyju eigum að gera okkar besta til að vera til fyrirmyndar.  Við höfum með okkar litla þjóðfélagi tækifæri til að vera í fararbroddi mannréttinda í heiminum.  Byggjum framtíðina á heilbrigðum skoðunum, ekki ævagömlum stofnunum sem halda í kreddur.  Þorum að breyta og nota aðeins það besta okkur til leiðsagnar.   Aðskilnaður ríkis og kirkju er frekar flókin framkvæmd, rétt eins og afnám kvótakerfisins yrði, en hver segir að lífið sé auðvelt?  Hér þarf að byrja að taka fyrstu skrefin og stefna í rétta átt.  Ég hef sagt minn frið í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svakalega finnst mér þetta vera mikil afbökun á mannkynssögunni.  Ástæðan fyrir því að frelsi jókst og tök kaþólsku kirkjunnar minnkuðu var útbreiðsla á Biblíunni og hugmyndafræði Lúthers. 

Þeir menn sem síðan lögðu grunninn að þeim vísindum sem við höfum í dag voru kristnir menn sem trúðu á Guð sem sinn skapara, menn eins og Blaise Pascal , Robert Boyle , Isaac Newton , John Herschel , Samuel F. B. Morse , Michael Faraday , Charles Babbage , James Prescott Joule , Lord Kelvin , James Clerk Maxwell , Gregor Mendel , Louis Pasteur og Wernher von Braun svo nokkrir séu nefndir.

Varðandi núverandi stöðu þá tel ég þessar athugasemdir frá manni að nafni Michael Egnor ( http://nymag.com/nymetro/health/bestdoctors/2005/11963/  ) þar sem hann fjallar um þessi mál, sjá: http://www.uncommondescent.com/biology/michael-egnor-responds-to-michael-lemonick-at-time-online/

Mofi (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 11:20

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Vissulega hafa margir vísindamenn haft guðstrú en vísindin sjálf sem þeir komu á framfæri byggðu ekki á trúarhugmyndum og sumir þeirra þurftu að fela hugmyndir sínar í áraraðir áður en þeir þorðu að koma með þær fram af ótta við ofsóknir kirkjunnar.  Þannig lét Kopernikus ekki gefa út sólmiðjukenningu sína fyrr en eftir að hann dó.  Það sem ég er að benda á er að trú á hið yfirskilvitlega er í eðli sínu óvísindaleg og stuðlar ekki að framgangi rökhugsunar eða vísindalegri nálgun.  Ein og sama persónan getur haft bæði trú og vísindalega hugsun en þegar trúin er farin að hafa afgerandi áhrif á lífsskoðanir og pólitískar stefnur og gjörðir viðkomandi (nú eða ákvarðanir varðandi heilsufar) er veruleg hætta á ferðinni.  Við höfum dæmin allt í kingum okkur. 

Svanur Sigurbjörnsson, 21.3.2007 kl. 12:10

3 identicon

Eitt dæmi þar sem vísind sjálf koma út frá trúarhugmynd eru uppgvötanir Matthew Maury á hafstraumum sem komu beint frá versum í Biblíunni. Annað dæmi sem mætti nefna væri Louis Pasteur en hans hugmyndir voru að mörgu leiti endurspeglun á heilsufarsreglum Gamla Testamentisins og hann sagði að hans rannsóknir á náttúrunni færði hann nær Guði.

Varðandi Kopernikus þá var hann mjög trúaður og sömu leiðis Galileó, þeirra trú var bara öðru vísi en trú þeirra samtíma manna. Þegar þú segir að trú á hið yfirskilvitlega sé óvísindaleg þá ertu að skilgreina vísindi þannig að þau útiloka tilvist Guðs en alvöru vísindi hljóta að vera aðferðafræði til að auka skilning okkar á raunveruleikanum og ef Guð er til þá mun þín skilgreining á vísindum takmarka þá þekkingarleit. 

Annað sem ég finn fyrir í þessum orðum er sú hugmynd að menn geta verið án trúar en það tel ég afskaplega hæpið. Ef þú lest athugasemdirnar hans Michaels Egnors þá finnst mér þær varpa góðu ljósi á núverandi stöðu vísindaheimsins þar sem ákveðin skoðun er hálf partinn bönnuð og það er nóg að spyrja spurninga til að fá yfir sig haug af móðgunum af því að þær gefa í skyn vantrú á Darwinisma. Spurningar eins og Egnor kemur með hérna:
<blockquote>
Can random heritable variation and natural selection generate a code, a language, with letters (nucleotide bases), words (codons), punctuation (stop codons), and syntax? There is even new evidence that DNA can encode parallel information, readable in different reading frames.

I ask this question as a scientific question, not a theological or philosophical question. The only codes or languages we observe in the natural world, aside from biology, are codes generated by minds.
</blockquote>

Mofi (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 12:40

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þú ert greinilega trúaður Mofi.  Þú hittir naglann á höfuðið; fólk getur vel lifað án trúar og tel ég það betra líf.  Reyndar er trú flestra hér á Íslandi það lítil að hún hefur ekki mikil áhrif á líf þeirra og er það vel.  En það má gera betur og það trúarbákn sem hér er haldið uppi á ekki heima í nútímalegu þjóðfélagi.  Gott dæmi um mann sem lifði vel án trúar er Björgúlfur Guðmundsson sem lést í hárri elli fyrr í mánuðnum.  Þessi sómamaður þjónaði Skagstrendingum og þjóðinni með verkalýðsbaráttu og hreppstjórn um áraraðir.  Hann sagði mér í gríni að hann hefði gengið frá kistunni sinni þannig að hún væri klædd að innan með óvígðum torfþökum.  Hann vildi sem sagt ekki að fyrir slysni færi hann í vígðan reit. 

Svanur Sigurbjörnsson, 21.3.2007 kl. 13:01

5 identicon

Minn punktur er að það er gífurlega erfitt að hafa enga trú þegar kemur að því að útskýra heiminn í kringum okkur og þegar kemur að stóru spurningum lífsins; hver er ég, hvaðan kem ég og hvað verður um mig. Hvernig getur það síðan eiginlega verið betra líf að lifa þannig að þetta líf er það eina og eftir þetta þá er allt búið? Ef þú ættir að útskýra fyrir þessari konu hérna ( http://www.123.is/crazyfroggy/default.aspx?page=home ) að þín "trú" sé betra líf?

Mofi (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 14:11

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Mér varð á í "messunni".  Hinn mæti Skagstrendingur hét Björgvin Brynjólfsson en ekki "Björgúlfur Guðmundsson".   Ég biðst afsökunar á þessu og íhuga að fara í minnispróf.

Svanur Sigurbjörnsson, 21.3.2007 kl. 15:54

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það er "gífurlega erfitt" að finna aðrar skýringar á "heiminum í kringum okkur" þegar því manni eru sögð ósannindi (í góðri trú) um heiminn allt frá barnæsku.  Margir segjast hafa sína "barnatrú" og vilja því ekki taka þeirri áskorun að hafna fáránlegum hugmyndum sem þeim voru kenndar í barnæsku, ekki síst vegna þess að margt gott fólk kenndi þeim vitleysuna.  Þetta fólk er ekki sérlega trúað og lætur sér nægja að það sé eitthvað gott eintak í Biblíunni og að Jesús hafi verið góður gæi.  Þetta fólk hugsar frekar lítið um trúmál og hefur ekki skoðað þau í þau samhengi sem ég lýsi í grein minni.  

Svo er trúfólk eins og þú sem kjósa að finna sér allt til staðfestingar á trú sem það getur í raun ekki réttlætt með rökum.   Þú gafst upp hlekk að sögu barns sem lifði af verulega slæmt heilamar og höfuðkúpubrot í fyrstu athugasemd þinni hér að ofan.  Læknirinn sem meðhöndlaði þennan dreng vissi hvað hann var að gera eins og fram kemur í sögunni.  Það er því honum að þakka og skjótum viðbrögðum föðursins að barnið lifði og náði heilsu.  Börn hafa líka miklu meiri endurnýjunargetu í vefjum sínum en fullorðnir og því hefði fullorðin manneskja varla lifað þetta af án þess að stórskaðast.  Þú horfir trúlega á þetta þannig að heilagur andi hafi bjargað barninu, þannig hugsar trúfólk.  Slíkt er út í hött og gerir ekkert gagn. 

Lífið er búið eftir að það slökknar, einfalt og fallegt.  Líf okkar heldur áfram í börnum okkar og okkar er minnst af verkum okkar, góðum og / eða slæmum.   Hvað þarf maður meira?  Lífið er fyrir dauðan, ekki eftir.  Það er mikið betra að sætta sig við þetta og lifa í samræmi við það.  Ég hef orðið vitni af fólki sem í angist sinni hefur beðið eftir kraftaverki fyrir hönd deyjandi ættingja.  Þetta fólk neitaði að horfast í augu við það sem var óumflýjanlegt og það jók aðeins sársaukann.  Tökum lífinu með reisn en ekki þrá eftir skýjaborgum.

Svanur Sigurbjörnsson, 21.3.2007 kl. 16:13

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ef að þú, Mofi, aðhyllist hugmyndir Michael Egnor sem þú lýsir að ofan og gefur hlekk á (síðu sköpunarsinna) ert þú greinilega sköpunarsinni og trúir því að jörðin hafi orðið til fyrir tilstuðlan æðri veru sem hafi með "vitsmunahönnun" sinni skapað okkur.  Þessi Egnor er á hrikalegum villigötum og er fastur í nýguðfræðilegri hugsunarflækju.  Þróunarkenning Darwins er sú best studda líffræðikenning sem við höfum í dag.  Ég ætla ekki að fara útí það það nánar hér en bendi á bækur Richard Dawkins um málið (The Selfish Gene og The Extended Phenotype), og einnig á síðustu bók hans "The God Delusion" sem hefur vakið mikla athygli og opnað hugi margra um hættuna af trúarbrögðunum. 

Svanur Sigurbjörnsson, 21.3.2007 kl. 16:41

9 identicon

Öllum er sagt eitthvað í barnæsku og flestir hér á landi kynnast aldrei neinu öðru en þróun Darwins. Að heyra að Guð skapaði heiminn er ekki hið sama og heyra alvöru rök fyrir sköpun og alvöru gagnrýni á Darwin. Svo þegar flest fólk er komið á tvítugs aldurinn þá hefur það heyrt rök fyrir þróun en litla sem enga gagnrýni svo ekki nema von að Ísland sé það land í heiminum þar sem þróun er mest samþykkt.

Ástæðan fyrir síðunni um barnið var aðeins til að gefa smá hugmynd um hver Michael Egnor er svo að hans orð hefðu meira vægi. Menn gefa meiri gaum að orðum virst heilaskurðlæknis en flestra annra.  Mér finnst hans gagnrýni einstaklega upplýsandi, þar sem hann aðeins spur spurninga og fær svívirðingar í staðinn af því að þróunarsinnar meiga ekki heyra neitt neikvætt um Darwin.

Varðandi Dawkins og hættur trúarinnar. Eins og ég sagði, það trúa allir einhverju um hvaðan við komum og hvað verður um okkur. Mín trú er að allir menn eru skapaðir af Guði og þeirra líf heilagt og við getum öll átt von um eilíft líf ef við biðjum um fyrirgefningu og veljum að gera rétt í lífinu.  Hvaða slæmar afleiðingar getur þessu trú haft?  Ef við skoðum t.d. þessi orð Darwins:

Darwin: Thus from the war of nature, from famine and death, the most exalted object which we are capable of conceiving, namely, the production of higher animals, directly follows.

Hvað gott getur komið frá svona trú? 

Endilega farðu aðeins nánar út í afhverju þú telur hugmynd Darwins vera svo vel studda, gefa kannski dæmi um topp þrjú atriðin sem þú telur styðja hana best.

Mofi (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 10:27

10 identicon

Svo þetta er ekki allt gagnrýni hjá mér og kannski neikvæðni þá langar mig að benda á myndina "Unlocking the mystery of life" - http://nwcreation.net/videos/unlocking_mystery_life.html  

Þar sem þú ert menntaður í svona fræðum þá munt þú kannski skilja þennan fyrirlestur um uppruna lífs sem maður að nafni A.Wilder Smith hélt, sjá: http://nwcreation.net/videos/biogenesis_scientific.html

Mofi (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband