Jafnaðarmennskan

Nú af nýafstöðnu landsþingi Samfylkingar gat ég ekki annað en velt fyrir mér á ný hvað Ingibjörg Sólrún og flokkssystkin hennar meina með orðinu "jafnaðarmaður".

Mér finnst þessi notkun á hugtakinu "jafnaðarmaður" eða "jafnaðarmenn" sérstök.  Hvers vegna kallar fólk í Samfylkingunni sig jafnaðarmenn?  Er þetta vel skilgreint hugtak?  Er þetta eftirsóknarvert?  Skilur Jón eða Jóna á götunni hvað átt er við?  Hvernig á hinn almenni kjósandi að skipta um skoðun (hver sem hún nú er fyrir), kjósa Samfylkinguna og verða allt í einu jafnaðarmaður?  Kærir fólk sig um slíka stimpla nema vita nákvæmlega hvað þeir þýða?  Forysta Samfylkingarinnar staglast sífellt á þessu en ég get ekki séð að þetta sé á hreinu, hvað þetta þýðir.  Kannski er ég bara svona heimskur. 

Stefnumál Samfylkingarinnar virðast vera blanda af ýmsu úr vinstri og hægri en megin áherslan er trúlega á velferðarmálin.  Er það að vera velferðarmálasinni það sama og vera jafnaðarmaður?  Ef svarið er já, þá spyr ég, er ekki Samfylkingin mun meira en það? 

Í hnotskurn er ég bara að reyna að segja að mér finnst það vafasamt af flokki sem vill ná inn breiðri fylkingu fólks að nota jafn þröngar eða óljósar skilgreiningar um sjálfan sig og "jafnaðarmaður".  Þá er "krati" ekki sérlega aðlaðandi og hefur varla mjög skýra mynd í huga fólks hvað merkingu varðar. 

Ég vil hvetja stjórnmálamenn að nota ekki þröngar skilgreiningar á sjálfum sér eða flokkum sínum.  Það er eitt að aðhyllast jöfnuð í þjóðfélaginu og annað að vera jafnaðarmaður.  Fólk er betur menntað í dag og það skilur margt að hvorki hreinn kapitalismi (auðvaldshyggja) né hreinn kommúnismi (óskhyggja öreiganna) gengur upp.  Í dag höfum við mildari öfgar, þ.e. nýfrjálshyggju (vini Björns Bjarnasonar) annars vegar og sósíalisma hins vegar (vinstri stefna) en samt eru þau stjórnmál sem hafa vinninginn blanda af þessu öllu, þ.e. forsvarsmenn blandaðs hagkerfis.  "Blandmaður" gæfi mér betri lýsingu en "jafnaðarmaður" a.m.k. hvað hagkerfið varðar.

Svo skilgreinast stjórnmál og stjórnmálamenn út frá fleiru en stefnu í efnahags- og velferðarmálum.  Mannréttindi, refsilöggjöf og umhverfisstefna eru einnig feykilega mikilvæg.  Hvernig flokkarnir móta stefnu sína í hinum ýmsu siðferðislegu álitamálum skipta verulegu máli.  Þá skipta viðhorf til vísinda og heilbriðiskerfis geysilega miklu máli.  Hjálpar þar eitthvað að heita "jafnaðarmaður".  Kannski eitthvað en það heillar mig ekki.  

Hvað finnst þér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég er sammála þér ,að Samfylkingarnafnið hæfir ekki Jafnaðarmannafl.Hélt alltaf að um tímabundið heiti væri að ræða.Við erum þó jafnaðarmannafl.með jafnrétti og bræðralag að leiðarljósi.Okkur vantar fleiri góða menn í flokkinn,vertu velkominn að skoða innri viði flokksins.

Kristján Pétursson, 18.4.2007 kl. 23:50

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Kristján. 

Ef til vill er ég að berjast við vindmyllu en mér finnst að Samfylkingin þurfi að endurskoða sjálfsímynd sína og færa sig frá því að nefna sig við aðeins eina stefnu í stjórnmálum.  Ég var á spjalli við mann úr Samfylkingunni í dag og hann sagði að "frelsið" í einkunnarorðum flokksins "frelsi, jafnrétti og bræðralag" væri það sem höfðaði til einstaklingsframtaksins og því rúmaði jafnaðarstefnan slíkt einnig.  Sjálfsagt er hægt að teygja á skilgreiningum hugtaka í allar áttir eftir hentugleika en ég vil hafa hugtök skýrt afmörkuð, hvort sem þau eru víð eða þröng.  Það er ágætis umfjöllun um jafnaðarstefnuna á wikipedia.org og þar má sjá að hún skiptist í ýmsar greinar.

Svanur Sigurbjörnsson, 19.4.2007 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband