Úr limbó

Þetta er átakanlegt.  Vesalings kaþólsku prestarnir hafa legið yfir þessu "vandamáli" síðustu ár og hafa nú tekið út þessa bábilju.  Það er gott að það fækkar ruglinu hjá þeim en því miður eru önnur váleg tíðindi úr Vatikaninu.  Erkibiskup Austurríkis er mikill sköpunarsinni og vinnur í því að gera fólk afhuga þróunarkenningu Darwins.  Páfinn daðrar við þetta líka og setur sköpun Guðs einhvers staðar með þróunarkenningunni.  Þetta er í sókn hjá þeim því fylgjendum þeirra sem trúa bókstaflega á sköpunarsöguna fer fjölgandi en með nýjum umbúðum "vitsmunalegrar hönnunar (guðs)" halda þeir að hún sé fræðileg og á borð berandi sem sannleikur.  

Það er hreint hlægilegt en samt hrollvekjandi að lesa í þessari frétt að Vatikanið hafi "rannsakað" þetta í áratugi.  Þetta eru ekki neinar rannsóknir ekki frekar en karp presta á prestaþingi nýlega.   Þetta er gróf misnotkun á hugtakinu rannsókn.  Undanfarin ár hafa forsvarsmenn trúfélaga víða á Vesturlöndum (sérstaklega USA) misnotað vísindaleg hugtök í þeim tilgangi að slæva vitund fólks á því hvar mörk vísinda og hindurvitna / trúar liggja.  Þetta hefur tekist að nokkru leyti og það er kominn tími til að spyrna við fótum.


mbl.is Óskírð börn ekki lengur í forgarði vítis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er hvergi að finna neitt Helvíti í Biblíunni sem er einhver vist þar sem einhverjir kveljist um eilífð.

Það hefur heldur ekki reynst mögulegt að sanna vísindalega þróunarkenningu Darwins. Hún er því enn kenning, ekki vísindalega sönnuð. Steingervingafræðin rennir hins vegar stoðum undir það að þróunarkenningin hafi ekki við nein rök að styyðjast.

Siggi (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 12:11

2 Smámynd: Viðar Eggertsson

Það eru órúlega margir trúvillingar hér í blogheimum sem tjá sig um menn og málefni án þess að nokkur sjái á þeim deili. Eins og þessi "Siggi". Ég er reyndar farinn að halda að þetta sé allt einn og sami maðurinn, sá sem stundur kallar sig "Jón Val Jensson".

Hvað sem því líður þá finnst mér ólíkt "Sigga" hann vera einstaklega góður - og skemmtilega rökvís!

Takk

Viðar Eggertsson, 27.4.2007 kl. 12:15

3 identicon

Þökk fyrir Viðar. Ekki er ég trúlaus né villingur, né heldur Kaþólskur eins og hinn mæti Jón Valur heldur í Þjóðkirkjunni.

Teljir þú að ég hafi rangt fyrir mér með Helvítið þá einfaldlega sýnir þu mér það í Biblíunni hvar það er staðfest. Sömuleiðis með vísindalega sönnun á Darwinskenningunni og steingervingafræðinni. Ég hvet menn til þess að kynna sér þetta.

Siggi (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 12:21

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Siggi!

Mikið helvíti væri nú illa farið fyrir prestum ef ekki væri minnst á Helvíti eða eitthvað skylt fyrirbæri í Biblíunni.  Ertu að gefa í skyn að þeir hafi skáldað þetta sjálfir, án guðdómlegs leyfis?  Þetta er guðfræðilegt hneyksli!  Hvernig skýrir þú annars "Hann steig niður til heljar, reis á 3. degi aftur..."  Hvaða "heljar" eru þetta?

Það er merkilegt að sjá bull þitt um fræði Darwins.  Þú veist greinilega ekki hvað kenning er.  Áður en vísindalegar athuganir eru viðurkenndar sem kenningar eru þær fyrst settar fram sem tilgátur.  Nái tilgátan vísindalegum stuðningi með fjölda rannsókna óháðra aðila á fjölmörgum stöðum, kallast hún kenning.   Það er því ekkert "bara" við það að vera kenning.  T.d. sú tilgáta að hátt kólesteról valdi skemmdum í æðavegg kransæða varð ekki að kenningu fyrr en búið var að rannsaka málið í tætlur út frá frumufræði, efnafræði, vefjafræði, faraldursfræði og loks meðferðarrannsóknum.  Þróunarkenning Darwins er ein sú best rannsakaðasta tilgáta sem nokkurn tíman hefur verið borin fram í lífræði.  Hún er studd með milljónum sönnunargagna, bæði úr heimi steingervinga og í frumufræðinni og erfðafræðinni.  Ekki er vitað hvernig lífið varð til en þróunarkenningin gefur okkur skýringu á því hvernig lífsformin þróuðust stig af stigi úr einföldum í flókin.  Sköpunarsinnar eru haldnir þeirri rökvillu að ef það yrði svo að þróunarkenningin stæðist ekki, þá væri sköpunarsagan sjálfkrafa sönn.  Þeir halda að með því að finna "göt" í þróunarkenningunni (sem skipta engu máli) sé hægt að fylla þau með "vitsmunalegri hönnun Guðs".   Hvernig ætla þeir svo að útskýra þennan hrikalega flókna skapara?  Hvernig varð þessi flókni skapari til?  Gerðist það "púff"? 

Svanur Sigurbjörnsson, 27.4.2007 kl. 14:02

5 Smámynd: Viðar Eggertsson

"Siggi" hversvegna kemur þú ekki fram undir fullu nafni og með þau auðkenni að fólk viti við hvern það er að tala? Þú lætur þér það í léttu rúmi liggja að mér virðist. Það er merkilegt að fólk vilji rökræða úr launsátri, ekki kristilegt athæfi það. Það er mjög einfalt að skrá sig inn með bloggsíðu og birta þar mynd af sér með upplýsingum hver maður er. Það væri auðvelt líka fyrir þig.

svo hlakka ég til að heyra útskýringu frá þér hvað varð um Limbo og hversvegna það er bara horfið. Var það Guð sem gaf skipanir um þetta eða...?

Viðar Eggertsson, 27.4.2007 kl. 14:22

6 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Jóhannes Páll II. páfi fór þess á leit árið 2004 að guðfræðileg staða óskírðra látinna barna yrði skýrð. Sjá hér: [1] Ég sá ekkert um að þetta hefði tekið áratugi í frétt mbl.is. Þar kom þó fram að limbó hefði aldrei verið kennisetning kirkjunnar. Kenningin um Limbó hefur aldrei verið skilgreind sem kennisetning kirkjunnar. Hún var guðfræðileg tilgáta sem að mestu hvíldi á kenningu hl. Ágústínusar um erfðasyndina en var hafnað sem boðun fyrir löngu og guðfræði nútímans hafnar henni. Kannski hefði þetta þurft að koma fram skýrar í frétt mbl.is en kannski hefur fólk bara ekki lesið hana nógu vel. Hvað varðar sköpunartrúna þá er ólíklegt að hún nái yfirhöndinni í kaþólsku kirkjunni sjá t.d. hér: [2]

Ragnar Geir Brynjólfsson, 27.4.2007 kl. 22:16

7 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Aths. mig langar að leiðrétta mig hérna, ég sá 'áratugi' þarna efst í fréttinni en þegar heimildin er skoðuð stendur 'several years'. Svo virðist sem 'several years' breytist í 'áratugi'. Skv. mínum heimildum sem ég vísa á hér að framan þá hófst þessi vinna 2004.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 27.4.2007 kl. 22:36

8 identicon

Viðar. Það segir sig sjálft í fyrstu athugasemdinni minni hér að "limbó" á sér ekki neina stoð í Biblíunni og fellur því auðvitað um sjálft sig sem einhver "guðfræði" og fyrir þá sem eru trúaðir á annað borð og treysta "manualnum", Biblíunni, þá varðar þá lítt um eitthvert limbó sem Vatikanið digtaði upp og afsagði svo núna árhundruðum seinna. Þeir komust upp með svona á meðan þeir meinuðu fólki að lesa Biblíuna og héldu messur á latínu sem enginn nema menntamenn kunnu.

Svanur. Það er mér að meinalausu að kalla Darwinsfræðin tilgátu, kenningu eða hvað sem þú vilt. Ég notaði það nafn á þetta sem flestum er tamt að nota. Kenningarnar/tilgáturnar sanna vísindamenn með því að kalla fram, í þessu tilfelli þróun tegundanna, endurtekna "þróun" á sma hátt aftur og aftur.  Þetta hefur ekki tekist enn. Steingervingar sem hafa fundist forsögulegir segja þá sögu að flestar þær tegundir þekktar nú voru eins á forsögulegum tímum. Það að ég bendi á þetta gerir mig ekkert sjálfkrafa að sköpunarsinna, síður en svo. Ég er bara einfaldlega að benda á alvarlegt svarthol Darwinskenningarinnar um þróun tegundanna. Við lestur bókar Darwins þar um þá kemur nú í ljós að hann var sjálfur mesti efahyggjumaðurinn á þessi skrif sín.

Siggi (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 03:37

9 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Það búið að ala svo á ótta hjá fólki af bókstafstrúarfólki og "tilgátum" sérheilagra siðapostula og dýrlinga hinnar heilögu kirkju að enn þann dag í dag gerist það að nýfædd börn sem eru mjög veik og vart hugað líf eru skírð í snatri og eftir þessu hlaupa prestarnir í staðinn fyrir að segja við fólk að þetta skipti engu máli. Óskírð börn fari ekki í forgarð helvítis.  Þó að ljótt sé að segja þetta er þetta samt satt.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 29.4.2007 kl. 12:33

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já það er mörg guðfræðiþvælan sem hefur verið fundin upp.  Með tilkomu vísinda, húmanisma og lýðræðislegrar hugsunar s.l. 2 aldir hafa kirkjudeildir og klaustur orðið að gefa eftir völd sín og þvælu, hverja á fætur annarri.  Því miður sér ekki fyrir endann á því enn og það er ótrúleg þversögn að nú á tímum þegar aðgengi að vísindum og upplýsingum hefur aldrei verið betra, er alls kyns heilsukukl og kreddukenningar trúfélag í nýjum búningum í talsverðri sókn.  A.m.k. eru þessir hlutir mun áberandi í fjölmiðlum en áður mér finnst ég vera meira var við þessar hugmyndir í kringum mig.  Maður vonar að þetta sé e.t.v. bara svona því að maður horfir meira í kringum sig eftir þessu en áður en því miður held ég að þetta sé veruleikinn.  Á móti kemur að það er fullt af fólki sem berst fyrir heilbrigðri skynsemi og siðferði reistu á rökum.  Það er ekki öll nótt úti enn.  :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 29.4.2007 kl. 14:02

11 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Þótt ég sé "andlega sinnuð" þá er ég mjög jarðbundin  Svanur......... ég vil ganga svo langt að það verði bannaðir gjörningar á samkomum hinna ýmsu öfgatrúarsafnaða sem miðast að því að afhomma og aflessbía ungt fólk sem er að læra að sættast við kynhneigð sína. Þetta er ekkert annað en "andlegt ofbeldi".  Veit um dæmi sem endaði með sjálfsvígi eftir svona ofbeldi. Mér finnst þetta svo ógeðslegt að það hálfa væri nóg. Sjá bara dæmið um Byrgismálið.  Sá einstaklingur sem kenndi sig við Krist komst ansi langt á einhverju hallelújakjaftæði. Ég vil ekki að neinir trúarhópar eða einhvers konar hjálparsamtök "trúaðra" sem reka meðferðarheimili fái ríkisstyrki. Það á eingöngu að vera rekið af professional fólki, en á svoleiðis heimilum mega vera kapellur fyrir þá sem vilja og allir eiga að hafa aðgang að presti ef þeir vilja, svo og sálfræðingi etc. Er ríkið ekki ennþá að styrkja þessi trúfélög sem reka meðferðarheimili? Og styðja þannig við þá skilyrtu hjálp sem þar er í boði. Mér verður illt í hjartanu þegar ég hugsa um þessi mál.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 29.4.2007 kl. 18:09

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég er algerlega sammála þér í þessu Margrét og þarna þarf pólitískan vilja og breytingu í stjórnkerfinu og meðal almennings til að setja þetta í faglegan farveg.  Jú, það eru enn ríkisstyrktar stofnanir í gangi á vegum trúfélaga.  Meðhöndlun fíkla er eitt stærsta trúboðið á landinu.

Svanur Sigurbjörnsson, 29.4.2007 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband