Húmanismi - lífsskoðun til framtíðar

Hér fer grein mín sem birtist i Mbl í gær sunnud. 30. sept 07.:

Lífsskoðanir okkar hafa djúp áhrif á það hvernig okkur reiðir af og hvernig lífshlaup okkar verður í því samfélagi sem við búum í. Uppgangur húmanískra siðferðishugmynda hefur orðið til þess að miklar framfarir hafa orðið í mannréttindamálum  víða um heim og þá sérstaklega í hinum „vestræna“ hluta hans. Fólk  hefur losað sig undan kreddukenndum hugmyndum trúarbragða, afvegaleiddrar þjóðernishyggju og forræðishyggju, sem lifði góðu lífi á gullöldum kirkjulegra valda í Evrópu. Óskorað vald karlmanna hefur smám saman orðið að víkja og stærsti sigurinn vannst þegar konur fengu kosningarrétt á fyrri hluta 20. aldarinnar þrátt fyrir mikla andstöðu kirkjudeilda og íhaldssamra stjórnmálaafla.   Mismunun vegna kynþáttar eða kynhneigðar hefur víða mátt víkja en helst eru það trúfélög sem standa á móti rétti samkynhneigðra til að njóta sömu þjóðfélagsstöðu og aðrir í heiminum. 

Í húmanismanum felst heimsspekileg náttúruhyggja (að lífið eigi sér náttúrlegar skýringar), skynsemishyggja (treysta á vitræna getu okkar) og efahyggja, þ.e. að nýjar staðhæfingar eða tilgátur séu ekki teknar trúanlegar nema að þær standist rökfræðilega skoðun og prófanir, t.d. með aðferðum vísindanna.   Einn stærsti sigur húmanískra hugsjóna var stofnun Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) og gerð mannréttindayfirlýsingar þeirra.   Alþjóðasamtök húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) hafa alla tíð starfað náið með SÞ og það var fyrsti forseti alþjóðaþings IHEU, líffræðingurinn Julian Huxley sem var einnig fyrsti forseti menningar-, mennta- og vísindastofnunar SÞ, UNESCO árið 1946.  Einn þekktasti trúleysingi og mannúðarsinni síðustu aldar var Englendingurinn Bertrand Russell (1872-1970) sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1950 fyrir skrif í þágu frálsrar hugsunar.

Nú á tímum upplýsingaflæðis og alþjóðavæðingar er á ný sóst að skynsemishyggju og húmanískum gildum með lúmskri trúarlegri innrætingu, „pólitískt réttum“ yfirgangi bókstafstrúarfólks og uppgangi gervivísinda sem notfæra sér glundroða þann sem ófullnægjandi raungreinakennsla og stundum óvandaður fréttaflutningur um vísindi og læknisfræði hafa skapað í hugum fólks.  Vegna þessa hafa fjölmargir fylgjendur manngildissins og velferðar hins lýðræðislega samfélags risið upp og komið saman í æ meira mæli sem húmanistar víða um heim.  Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 hafa æ fleiri gert sér grein fyrir því að það eru ekki aðeins bókstafstrúarmenn sem ógna húmanískum gildum eins og mannréttindum heldur einnig hin svokölluðu hófsömu trúarbrögð með því að viðhalda grunninum að hinum trúarlega og forneskjulega hugmyndaheimi þeirra.

Margt  fólk er að vakna til vitundar um mikilvægi húmanismans, t.d. sem sú lífsskoðun sem er öflugusta vopnið gegn kúgun kvenna víða um heim.  Fyrirlestar baráttukonunnar Maryam Namazie á dögunum báru þess glöggt vitni.  Sómalski rithöfundurinn, femínistinn og trúleysinginn Ayaan Hirsi Ali benti einnig á hættuna af trúarlega tengdu siðferði í sjónvarpi og blöðum nýlega.

Á Íslandi hafa húmanistar átt sitt lífsskoðunarfélag frá 1990 en það heitir Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Á næsta ári á borgaraleg (veraldleg) ferming 20 ára afmæli og er það sérstakt ánægjuefni því nær 1000 ungmenni hafa hlotið húmaníska lífssýn í gegnum fermingarfræðslu félagsins  á þessum árum.  Það stefnir nú í metþátttöku á afmælisárinu.  Siðmennt nýtur ekki þeirra fríðinda að fá félagsgjöld í formi "sóknargjalda" innheimt og afhent af ríkinu líkt og trúfélög á Íslandi fá, þrátt fyrir að standa fyrir þau gildi sem stuðla að hvað mestri mannvirðingu, jafnrétti og bestu menntun allra landsmanna.  Ég vil hvetja það fólk sem telur sig vera húmanista að skrá sig „utan trúfélaga“ á skrifstofu Þjóðskrár og ganga til liðs við Siðmennt. Vefsíða félagsins er www.sidmennt.is. Þetta er mikilvægt því húmanistar þurfa að standa saman og verja og rækta gildi sín. Siðmennt þarfnast þess að fólk sem telur sig eiga samleið með húmanískum lífsgildum gangi til liðs við félagið til að stuðla að uppbyggingu veraldlegra valkosta við félagslegar athafnir eins og útfarir, nefningar og giftingar.  Það er sérstaklega ánægjulegt að í vetur mun Siðmennt bjóða uppá þjálfaða athafnarstjóra fyrir veraldlegar útfarir í fyrsta sinn.  Tökum höndum saman.

Imagine - minnisvarði um John Lennon

Þegar George Harrison dó árið 2001, var minnisvarðinn um John Lennon í Central Park, skreyttur blómum og fólk kom þar saman og söng lög eftir Harrison.   Það var eftirminnileg stund.  Þessi mynd er frá þeim stað árið 2004.  Minnisvarðinn "Imagine" vísar til samnefnds lags Lennons þar sem hann yrkir: "ímyndið ykkur heiminn án trúarbragða". 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ljómandi fínn pistill um þarfan félagsskap sem ég vona að muni vaxa og dafna á Íslandi.

Ég er einmitt búinn að segja mig út kirkjunni, skrá mig hjá Siðmennt og er meira en tilbúinn að greiða þar einhver félagsgjöld.

Kristinn (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 19:54

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Takk fyrir þennan frábæra pistil Svanur. Vona ég að sem flestir lesi. Kveðjur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 1.10.2007 kl. 23:14

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Kristinn

Frábært að fá þig með í Siðmennt.  Ég kíkti á heimasíðuna þína og las geysigóðan pistil þinn um trúarbrögð og lífsskoðanir þínar.  Verulega vel hugsað hjá þér og skemmtilega sett upp með öllum þessum tilvitnunum.  Þá er verulega gaman af ljósmyndunum þínum.  Snilld!

Svanur Sigurbjörnsson, 1.10.2007 kl. 23:37

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Kærar þakkir Margrét.  Þú ert einstök!

Svanur Sigurbjörnsson, 1.10.2007 kl. 23:40

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

En hvað með allar keyptar vísindalegar niðurstöður??? Það er vitað alls staðar og einnig innan vísindaheimsins að þær eru ekki allar sannar..heldur er hægt að fá keyptar niðurstöður sem styðja markaðinn. Við erum á villigötum ef við ætlum eingöngu að einblína í þá átt...Sumt er þess eðlis að vísindin geta ekki eða hafa yfir aferðafræði að búa sem útskýra hið óútskýranlega.  Það er enn svo margt ókannað og óútskýranlegt.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.10.2007 kl. 23:58

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég fæ ekki alveg séð hvað þú meinar með þessu Katrín Snæhólm.

Ef að niðurstöður eru falsaðar þá eru þær ekki sannar og þá alls ekki sönn vísindi.  Það má nota margt til ills, vísindalega þróuð verkfæri eða lyf.  Án góðrar dómgreindar á siðgæði verður ávinningurinn af vísindum harla lítill.  Ég sé ekki tilefni skrifa þinna því ekki mælti ég með fölsunum.  Vissulega er margt óútskýrt enn, en hefur þú aðrar aðferðir til þess að kanna heiminn en þær sem byggja á einhvers konar rökleiðslu?  Öll aðferðafræði sem leiðir til einhverrar sannrar uppgötvunar er vísindi.  Vísindi er bara safnheiti yfir aðferðir sem virka og leiða til nýrrar þekkingar, nýrrar nálgunar, nýs tækis eða nýs viðhorfs sem breytir lífi okkar. 

Svanur Sigurbjörnsson, 2.10.2007 kl. 00:47

7 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Og hvernig á hinn venjulegi meðalmaður að vita hvort er hvað?? á hverju skyldi hann taka mark?

Misvísandi niðurstöður vísinda eru stöðugt að birtast í fjölmiðlum....og það sem var áður vísindalega sannað er fallið dautt í dag. Undirstaða þeirrar visku  er dottin dauð. Þarf að finna bók eina sem fer yfir þetta í smáatriðum..verst að ég er að pakka fyrir flutninga og hef ekki aðgengi að viskunni úr bókunum mínum. En ég hef verið á húmanistaráðstefnu á Ítalíu einu sinni..þar var heiðursgestur forseti Zimbawbe. Er enn að velta fyrir mér hvernig stóð á því. Var meira að segja boðið í partý með honum og tók í hendina á honum sem ég myndi ekki gera í dag. Stundum er ekkert eins og það sýnist...ha???

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.10.2007 kl. 01:07

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Og má ég benda á það að ég var..kannski er ég það enn..húmanisti af lífi og sál. Í heil 7 ár andaði ég og lifiði humanismann....þar til ég sá að jafnvel innan hans var ekki allt sem sýndist. Það er eitthvað við grúppuhugsun sem verður oft svo þannig að fólk tapar sínum eigin gilldum og fer að reyna að falla inn í hópinn og gera alllt rétt samkvæmt kenningum annarrra. Og um leið að svíkja sjálft sig. No good!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.10.2007 kl. 01:24

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Fyrir flesta er erftitt að vita nákvæm skil á því hverju skal trúa varðandi vísindi en það er hægt að gefa út leiðbeiningar hvað það varðar.  T.d. er ráðlagt að trúa því sem samtök lækna og raunvísindafólks lætur frá sér, samtökum heilbrigðisstarfsfólks um ýmsa sjúkdóma eða vísindamanna um sín fræði.  Því miður er ekki hægt að taka fréttir blaða og sjónvarps nema með fyrirvara um þessi efni því iðulega túlkar mis vel þjálfað starfsfólk þeirra niðurstöður eða þýðir á rangan hátt.  Þetta fólk er oft ekki sérlega vel menntað í vísindum og því fyrirsjáanlegt að því mistakist.  Hins vegar er óafsakanlegt að hafa ekki dómgreind til að vita takmarkanir sínar og fá sér ráðgjafa til að fara yfir fréttir af vísindum og tæknilegum hliðum mála.  Sumir fjölmiðlar nærast á því að koma með krassandi efni og því furðulegra eða mótsagnakenndara sem efnið er, því meira sölugildi hefur það.  Mótsagnir vekja forvitni og umtal.  Því miður nær ábyrgðartilfinning ritstjóra sumra fjölmiðla ekki lengra en svo að skyldan við buddu eigendanna hefur algeran forgang.  Skemmtanagildið er númer 2 og aðgætni og vönduð frásögn er einhvers staðar til vara.  Svo hefur kuklurum hefur tekist ákaflega vel að koma sér inní fjölmiðla og birta þar ruglið sitt.  Það er óður til hindurvitna og gallaðrar þekkingaleitar í nafni heildrænnar heilsu og sjálfshjálpar. 

Fólk er margt farið að fá það á tilfinninguna að vísindin séu öll í mótsögn og fáu sé treystandi þar.  Vissulega eru mál sem illa gengur að ákvarða og sjá hvað sé best að ráðleggja en hinn stóri vísindalegi þekkingagrunnur stendur ákaflega traustum fótum og fer vaxandi með degi hverjum.  Taktu þér í hönd textabók í lífefnafræði, eðlisfræði, frumufræði, lyfjafræði og finndu þyngd þeirra og stærð.  Traust þekking þekur marga fermetra af hillluplássi og þá er ég að tala um bækur um eðli og gerð hluta, ekki dauðar upptalningar.   Allt er þetta þekking sem er sönnuð út frá margreyndum aðferðum og tilraunum.  Öll þessi þekking endurspeglast í þeirri tækni sem auðgar líf okkar og gerir þægilegra. 

Hvaða húmanistaráðstefna var þetta á Ítalíu?  Það er lítið hægt að segja um þetta nema að fá meiri upplýsingar.   Það er ýmislegt kennt við húmanisma sem nær ekki fyllilega að rísa undir nafni.  T.d. Sílóismi eða nýhúmanismi (sbr. Flokkur mannsins) á ekki nema að hluta til samgrunn með veraldlegum húmanisma (secular humanism) sem kom undir einu flaggi í International Humanist and Ethical Union arið 1951.  Sílóisminn kom frá Argentínumanni sem var nefndur Síló og innihélt fullt af alls kyns dulhyggju sem á ekkert skylt við hina klassísku manngildishyggju húmanista sem byggir á rationalisma.  Nýhúmanistar Sílós hófu stjórnmálabaráttu víða um heim en varð lítið ágengt. 

Já stundum eru hlutirnir aðrir en þeir sýnast.  Gangi þér vel að pakka!

Svanur Sigurbjörnsson, 2.10.2007 kl. 01:47

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Í raunsönnum húmanisma þarf að slá á strengi bæði einstaklingsfrelsis og samábyrgðar.  Bæði einstaklingar og heildir þurfa að njóta sín.  Gagnrýnin hugsun, málfrelsið og opin óþvinguð umræða er lykilatriði í allri umræðu sem kallast getur húmanísk.  "Grúppuhugsun" og þvingun til að gera aðra leiðitama er algerlega í andstöðu við siðrænan húmanisma.  Við rökræðum bæði innbyrðis og utanborð í Siðmennt.  Kíktu á uppáhalds gullkornið mitt uppi í höfundarhorninu. 

Myndlist þín sem þú sýnir á blogginu þínu er sannarlega húmanísk og ber mannlegri fegurð og reisn gott vitni.  Það væri gaman að vita af næstu sýningu þinni og koma og sjá.

Svanur Sigurbjörnsson, 2.10.2007 kl. 02:02

11 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Takk Svanur...það getur bara vel verið að ég kíki á siðmenntina þegar ég kem heim. Ég hef alltaf áhuga á a skoða og kynna mér það sem ég tel að geti orðið til þess að við getum skapað okkur mannlegri samfélög og betra líf saman.  Ekki þú og ég..ég meina sko við öll..mannkynið. Og við auðvitað þar meðtalin..ég og þú.

 Þú ert bara meira en velkomin á samsýningu okkar bloggvinkvenna sem við ætlum að vera með í Ráðhúsinu í lok ágúst á næsta ári.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.10.2007 kl. 09:12

12 identicon

Svanur

Takk fyrir innlitið á heimasíðuna mína og vingjarnleg orð, mér þykir hrósið gott. 

Kristinn (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 10:24

13 identicon

„Sílóisminn kom frá Argentínumanni sem var nefndur Síló og innihélt fullt af alls kyns dulhyggju sem á ekkert skylt við hina klassísku manngildishyggju húmanista sem byggir á rationalisma. Nýhúmanistar Sílós hófu stjórnmálabaráttu víða um heim en varð lítið ágengt.“

Er hér talað/skrifað af þekkingu um málið? Viltu ekki útlista nánar hverju þú ert að ýja að hér Svanur?

Ingibjörg (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 11:56

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Katrín Snæhólm.  Sammála.

Velkomið Kristinn.

Sæl Ingibjörg. 

 Þessa þekkingu hef ég frá vefsíðum nýhúmanista (fylgjendum Sílós) sem reyndar kalla sig húmanista án aðgreiningar frá húmanisma þeim sem IHEU stendur fyrir í yfir 100 löndum og á sér eldri félagslega sögu en nýhúmanisminn.  Þá er einnig gott yfirlit um þessi mál á Wikipedinunni.   Ef þú slærð inn "humanism" þar færðu upp veraldlegan / siðrænan húmanisma, ekki húmanisma Silós sem varð til upp úr 7. áratugnum eftir að hann fór með ljóðræna ræða í fjallshlíðum Síló fjalls.  Það er reyndar einnig á reiki hvað flokkast sem nýhúmanismi og er t.d. neohumanism e.t.v.eitthvað annað ef mig minnir rétt. 

"ýja að" segir þú Ingibjörg.  Þetta hljómar eins og þú hafir allt aðra mynd af þessu.  Mig skal ekki undra ef sú eina fræðsla sem þú hefur fengið um húmanisma er í gegnum Flokk Mannsins eða þeirra samtök erlendis.  Fyrrverandi formaður þeirra (sorry man ekki nafnið hans) fékk flott viðtal við sig í vetur á RÚV og þar talaði hann mikið um þann húmanisma sem hann aðhyllist.  Við nánari eftirgrennslan fann ég út að þetta er sú útgáfa sem Siló breiddi út og skiptist síðan upp í nokkra anga, m.a. pólitíska hreyfingu.  Það eru margar mannúðlegar hugmyndir í þessari stefnu en dulhyggjan og leiðtogavaldið (sbr einkenni költa) sem falla ekki að siðrænum húmanisma.  Það væri gott að heyra meira hvað liggur að baki þínu ýjunartali Ingibjörg. 

Svanur Sigurbjörnsson, 2.10.2007 kl. 12:23

15 identicon

„Þessa þekkingu hef ég frá vefsíðum nýhúmanista ... “ o.s.frv. segir þú Svanur.

Hvaða vefsíðum? Hvaða dulhyggju og leiðtogavald ertu að tala um?

Ingibjörg (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 22:22

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hér er hluti úr grein sem ég lauk ekki við s.l. vor.  Þetta ætti að svara spurningum þínum Ingibjörg.  Þú spyrð en leggur ekki mikið fram til málanna sjálf.  Gætir þú sagt mér þitt fullt nafn og frætt okkur á þínum skilningi þessa mála?

Hér er þetta:

Húmanismi Péturs er kenndur við "Húmanistahreyfinguna" (Humanist Movement, sjá í Wikipediu) og stefna hennar er kölluð "nýhúmanismi" (New Humanism eða Universal Humanism, sem ekki skyldi rugla saman við Neo-humanism sem er enn önnur stefna).   Þessi nýhúmanismi er uppruninn frá hugmyndafræði Argentínumannsins  Mario Rodríguez Cobos, sem fékk viðurnefnið Silo því að hann boðaði hugmyndir sínar í hlíðum samnefnds fjalls í Argentínu.  Húmanistahreyfingin var stofnuð árið 1969 og gaf Silo út bók um fræði sín sem nefnist Innri sýn.  Hann boðar þar hugarfarslega íhugun sem byggir m.a. á stjórn á "kraftinum" (the Force) og speki sem virðist ákaflega dulúðleg og órökræn.  Megin markmið út á við beinast að því að auka frið í heiminum og jöfnuð meðal manna.  Þeir berjst gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi, hvort sem það er efnahagslegt, líkamlegt, hugarfarslegt, kynferðislegt eða af öðrum toga.   Þeir hvetja til viðurkenningar á öllum menningarhópum og setja manngildið á undan öðru þ.m.t. trúarbrögðum.   Frelsi til skoðana og tjáningar skal virt.  Nýhúmanisminn tekur ekki beina afstöðu til guðstrúar og því geta bæði trúaðir og ótrúaðir verið meðlimir.  Þungamiðja í kenningum þeirra er að draga úr hvers kyns sársauka og þjáningu manna. 

Markmiðunum á að ná með því að stofna hópa nýhúmanismans um allan heim í þrenns konar félugum; 1. Mannþróunarhópa (The Community for Human Development, 1981) sem starfa að bættu siðferði og friðarhugsjón.  2. Pólitíska hópa (The Humanist Party, 1984, sbr. Flokk mannsins á Íslandi) sem kæmi hugsjónunum áfram pólitískt, og 3. Menningarmiðstöðvar (The Centre of Cultures, 1995), sem eiga að hjálpa fjölmenningarsamfélögum og beina athyglinni að húmanískum þáttum í menningu þjóða.  Félagar í Húmanistahreyfingunni eiga að koma saman vikulega, borga ákveðin gjöld til hreyfingarinnar og skipuleggja sig eftir ákveðnu stjórnskipulagi.  Pólitíski armurinn hafði um tíma sérstaka hreyfingu Græningja en vegna ruglings við aðrar græningjahreyfingar í Evrópu var græni armurinn felldur inn að nýju.  Hvarvetna í Evrópu fékk Flokkur mannsins litlar viðtökur og náði mest um 5% fylgi.  Hins vegar náði hann mest 30% fylgi í Argentínu á tímum Pinochets því allir vinstri flokkar voru bannaðir.  Flokkurinn hrundi niður fyrir 5% eftir að hinir venjubundnu flokkar fengu framboðsleyfi á ný.  Hér má sjá vefsíðu flokksins í Englandi.

Nýhúmanistar starfa mjög víða og vinna víða mikið mannúðarstarf, líkt og Pétur Guðjónsson gerir.   Mér sýnist að þessi hreyfing eigi fyllilega rétt á sér og mörg baráttumál hennar eru virkilega góð.  Hins vegar er þetta of takmörkuð hreyfing hugmyndafræðilega og speki hennar fyrir einstaklinga (íhugunin og slíkt) er ekki ekki uppbyggileg, enda daðrar hún við frumspeki (metaphysics) í anda trúarbragða eða hindurvitna.   Upphaflega stefnumótunin pólitískt virðist hafa verið of almenn og því ekki líkleg til að sameina fólk um sértækari málefni.  Stjórnskipulagið hefur verið gagnrýnt harðlega af sumum og hreyfingunni líkt við költ en það sverja félagar hennar einatt af sér og telja ómaklegt.

Svanur Sigurbjörnsson, 3.10.2007 kl. 01:35

17 identicon

Sæll Svanur og takk fyrir að svara.

Þú segir m.a.: „Þetta ætti að svara spurningum þínum Ingibjörg.“
Ef það sem þú skrifar hér að ofan (Nr. 16) er svar þitt við spurningum mínum þá verð ég að segja: Nei Svanur, þetta svarar ekki spurningum mínum.

„Þú spyrð en leggur ekki mikið fram til málanna sjálf.“ segir þú líka.  Það er rétt og byggist á því að ég kýs að afla mér upplýsinga áður en ég fer að rökræða til að tryggja að rökræðan byggi á sameiginlegum skilningi viðmælenda á forsendum rökræðunnar. En á þessu stigi get ég þó lagt til málanna það að mér vitanlega er ekkert fjall í Suður Ameríku sem heitir Silo og ekkert hæft í því að umræddur Mario Rodrigues Cobos hafi fengið viðurnefnið Silo á þann hátt sem þú segir.

Ég spyr hvaða dulhyggju þú sért að tala um í stefnu Húmanista en svar þitt segir mér ekkert um það. Engin greining, engin rök sem ég vonaðist þó til að fá frá þér. “...hugarfarslega íhugun sem byggir m.a. á stjórn á "kraftinum" (the Force) og speki sem virðist ákaflega dulúðleg og órökræn ...“  Mjög almenn yfirlýsing án nokkurs rökstuðnings.  

„... of takmörkuð hreyfing hugmyndafræðilega og speki hennar fyrir einstaklinga (íhugunin og slíkt) er ekki ekki uppbyggileg, enda daðrar hún við frumspeki (metaphysics) í anda trúarbragða eða hindurvitna.“

Halló, halló - hvað er nú þetta?   

Ágæt lesning hér:   http://www.corliss-lamont.org/hsmny/siloists.htm

Með góðri kveðju,

Ingibjörg (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 12:25

18 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Ingibjörg

Ég þekki ekki til frá eigin reynslu (samtölum eða þátttöku) þess sem kallað er í heimildinni sem þú bendir á, sílóista-húmanismi , annað en það sem ég heyrði frá Pétri Guðjónssyni í Kastljósinu og svo frá þeim vefsíðum sem ég las ofangreindan fróðleik úr.  Út frá því sem ég las þar mótaði ég ákveðnar skoðanir sem ég segi frá eins og þá að mér líki ekki tal um "the Force" og slíkt sem virtist mér vera dulhyggja.   Mér sýndist þessar heimildir vera góðar og því taldi ég óhætt að draga af þeim ályktanir.  Mér sýnist á skrifum þínum að þú hafir aðrar hugmyndir en ég hef ekki fengið þær frá þér.  Ég skal lesa þessa frekar löngu vefsíðu og skrifa svo aftur.  Hins vegar held ég að ég verði að fá frekara innlegg frá þér til þess að geta rætt þetta af einhverju viti.

Bestu kveðjur

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 3.10.2007 kl. 16:11

19 identicon

 Sæll Svanur.

„Út frá því sem ég las þar mótaði ég ákveðnar skoðanir ...“

„ ... að mér líki ekki tal um ...“

„... virtist mér vera ... “

„... sýndist þessar heimildir vera góðar ...“

Vísindalegt?  Rökfast?  Veit ekki!

Vinsamlegast, 

Ingibjörg (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 16:39

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Nei það felast ekki í þessu rök fyrir þessum skoðunum.  Ef þú vilt vita af hverju ég aðhyllist ekki dulhyggju eða tel "the Force" eitthvað slíkt verðurðu að bíða eftir því að ég rökstyðji það.  Ástæðurnar má finna t.d. í skrifum manna eins og Bertrand Russell, Richard Dawkins, Sam Harris og fleiri.  Orðin "sýnast", "virðast", - kannski ekki nógu ákveðið en það stendur.

Svanur Sigurbjörnsson, 3.10.2007 kl. 18:01

21 identicon

Takk fyrir heiðarleika þinn og hreinskilni Svanur.
Kveðja,


Ingibjörg (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 18:46

22 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég las þessa heimild sem þú bentir á Ingibjörg.  Það vantar dagsetningu á greinina og svörin.  Þetta sagði mér lítið en þó það að þessi húmanisti í NYC var að reyna að sjá hvort sameiginlegir fletir gætu komið á einhverju samstarfi milli síló-húmanista (Humanist Movement) og Húmanista (secular humanists).  Höfundurinn gagnrýndi að fólk ýtti öðrum sem í raun væru líkir að skoðunum frá sér í stað þess að starfa saman.  Ég er sammála þessu að mörgu leyti og tel að fólk óttist um of að litast af samstarfi við aðra og eru stundum óþarflega hræddir við að orðstír sinn eyðileggist við slíkt.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.10.2007 kl. 20:22

23 identicon

Svanur

„... las þessa heimild sem þú bentir á Ingibjörg.“ Þessa heimild sem þú eignar mér fann ég innan þess sem þú bentir á sem þínar heimildir. Í mínu námi í háskóla var rík áhersla lögð á að vanda til heimildaöflunar og að skoða sem flestar heimildir, líka þær sem kannski féllu manni ekki allt of vel í geð, og reyna síðan eftir bestu getu að fjalla „vísindalega/hlutlægt“ um viðfangsefnið.

Læt hér með lokið athugasemdum mínum um þessa færslu þína um húmanisma og óska þér alls velfarnaðar.

Vinsamlegast,


Ingibjörg (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 10:04

24 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Æ, ég hélt að þessi blóm hefðu verið vegna þess.  Ég var nú samt staddur þarna daginn eftir að hann dó.  Takk fyrir leiðréttinguna Hilmar

Svanur Sigurbjörnsson, 11.10.2007 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband