Búum börnum okkar merkimiðalaust skólaumhverfi og frið frá trúboði

Vegna kynningar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra á nýju frumvarpi til breytingar á grunnskólalögum hafa sumir fulltrúar Þjóðkirkjunnar farið hamförum í fjölmiðlum undanfarið og hrópað hátt yfir því að "kristilegt siðferði" sé nú verið að hrekja úr skólunum af "frekjugangi minnihlutahóps".

Ef rétt er haft eftir á bls 2 í 24-Stundum í dag þá sagði Karl Sigurbjörnsson biskup að "Siðmennt væru hatrömm samtök".   Maður verður nánast kjaftstopp að sjá svona siðlausar og algerlega staðhæfulausar ásakanir.   Er hann alveg að missa sig yfir því að "sóknarfærin" hans og Þjóðkirkjunnar á trúboði í grunnskólum landsins eru í hættu vegna frumvarps sem er í samræmi við ályktanir Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna og Mannréttindadómstóls Evrópu frá því sumar? 

Getur Karl biskup ekki unað því að menntastofnanir landsins hafi almennt siðferði að leiðarljósi en í kynningu á frumvarpinu segir orðrétt:

Í frumvarpi um leikskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um kristilegt siðgæði barna er ákvæði um að efla almenna siðferðisvitund þeirra. Í frumvarpi til laga um grunnskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um að starfshættir skólans skuli mótast af kristilegu siðgæði verði ákvæði um umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Þarna er verið að lýsa siðferðisgildum sem ég vona að allt gott fólk geti verið sammála um, sama úr hvaða trúfélagi það er, enda eru þau í samræmi við "gott siðferði og allsherjarreglu" eins og segir í lögum um skilyrði fyrir skráningu trúfélaga á Íslandi.   Hver er þá ógnunin við kristnina eða Þjóðkirkjuna?  Er hún einungis að hnýta í Siðmennt vegna þess að hún missir mögulega sérréttindi sín til trúarlegs starfs og kristniboðunar innan skólanna?  Á Siðmennt skilið að vera kölluð "hatrömm samtök" vegna baráttu sinnar fyrir mannréttindum, jafnrétti, veraldlegu menntaumhverfi barna og frið frá trúboði og innrætingu.  Börn eiga rétt á upplýsingu og fræðslu svo þau geti síðar tekið sínar sjálfstæðar ákvarðanir um mál eins og lífsskoðanir (þ.m.t. trú) og stjórnmál.   Engum dettur í hug að leyfa stjórnmálaflokkum að vera með starfsemi sína í skólum.   Ætti eitthvað annað að gilda um trúfélög?Til þess að leiðrétta aftur þær rangtúlkanir og ósannindi sem fóru á kreik vil ég segja:
  • Siðmennt er EKKI á móti Litlu-jólunum.   "common!"  krakkar að dansa kringum jólatré.  Jólin hafa víða skírskotun og húmanistar halda flestir jól.
  • Siðmennt er EKKI á móti kristinfræðikennslu í skólum.
Nánari útskýringu á stefnumálum Siðmenntar varðandi menntamál barn hvet ég ykkur til að lesa í fréttatilkynningu Siðmenntar sem má lesa alla hérNjótum nú jólaundirbúningsins og jólaljósanna í sátt og förum þann veg sem tekur tillit til allra og mismunar ekki né skilur útundan börn í skólum landsins vegna lífsskoðana foreldra þeirra.   Styðjum frumvarp Þorgerðar Katrínar því það er mikilvægt skref í þá átt. 

-----

PS: Ég vil benda á góðar greinar Matthíasar Ásgeirssonar á bls 38 í Fbl og Valgarðs Vésteinssonar á bls 28 í Mbl í dag.
mbl.is Siðmennt ekki á móti litlu jólunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Má ekki alveg eins segja að kirkjan sé hatrömm stofnun?

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.11.2007 kl. 16:53

2 Smámynd: Guðmundur Gunnlaugsson

Þjóðkirkjan á Íslandi er bara að átta sig á því að þjóðarmeðvitundin er að kicka inn og reynir sitt besta til þess að mála hitt liðið sem eitthvað slæmt. Þessi ummæli biskups sýna það best. Verður gaman að sjá þróunina í trúarmálum hérlendis í kjölfarið af þessum breytingum.

Legg líka til að heimspeki og sálfræði (hluti hennar) verði kennd í grunnskólum, sem skylda! Það besta sem hægt er að fræða ungt fólk og börn um er hvernig eigi að hugsa og hvernig mannlegt eðli virkar. Frekar segi ég að bíða með kennslu á fögum eins og trúabragðafræði/kristinfræði þangað til einstaklingarnir hafa getu til þess að dæma fyrir sjálft sig (hvenær sem það er)!

Guðmundur Gunnlaugsson, 30.11.2007 kl. 17:12

3 Smámynd: Sporðdrekinn

Þessu er ég sammála, það á bara að vera trúbragðarfræði og í þeirri námsgrein ætti "öllum" trúm að vera gert jafnt.

Sporðdrekinn, 30.11.2007 kl. 17:24

4 identicon

Ég verð alltaf jafn þakklát þegar Siðmennt lætur í sér heyra varðandi þessi mál. Kærar þakkir :)

María (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 18:42

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég tel löngu kominn tíma á að fjarlægja trúarbrögð úr stjórnarskránni líka!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 19:00

6 identicon

Sæll Svanur og takk fyrir síðast;o)

Því miður blasir sú staðreynd við að bæði þjóðkirkjan og hin kaþólska eru í þvílíkri tilvistarkreppu. Mörg tilsvör Karls eru væmin og hann er eins og stjórnmálamaður og þorir ekki einu sinni að svara um það stendur í raun í Biblíunni um mörg málefni.

Ég tel mig vera mjög trúaðan og geri mitt besta í að virða skoðanir og sannfæringu náungans, en ég veit að jólin eru ekkert annað en heiðinn siður og á ekkert með Kristna trúa að gera. Samkvæmt sagnfræðilegum staðreyndum héldu gyðingar aldrei upp á afmæli á tímum Jesús en aftur á móti héldu heiðingjar utan Ísraels Palestínu upp á afmæli, (lesið nánar um uppruna Jóla á vísindavef HÍ!).

En börnin mín þrjú elska þessa sólstöðu hátið sem merkir að jólasveinar koma til byggða og allir keppast við að hengja upp ljós og fjölskyldur koma saman og gleðjast yfir góðum mat. Það er Kirkjunarmönnum/Kaþólikkum að kenna að (splæsa) saman öllum þeim hátíðum sem bæði Rómverjar héldu upp á, Víkingar (Ásatrúarmenn eru ennþá fúlir út í prestana að hafa stolið af þeim jólunum), og allt þetta til að ná að sameina sundraða Evrópu, og öllu þessu var troðið upp á Jesús Krist.

Hann fæddist by the way ekki í desember! Hann var þrítugur er hann skírðist af Jóhannesi skírara og var þrjú og hálft ár að prédika orð Guðs, var krossfestur á páskunum og við förum hálft ár aftur í tímann frá páskum lendum við í október.

Egyptar héldu til dæmis líka upp á sólsstöðuhátíðinna 25. desember upp á endurrisu sólarguðs þeirra Rahs...

Plís elskurnar mínar, elskið hvort annað og gleðjist saman, en ekki tengja jólin við Jesú Krist.

Hvað sungu Helga Möller og Eiki Hauks svo hátt og snjallt? "Jólastjarnan hefur svarað mínum bænum!". Bíddu við (Kristnir) eigum aðeins að biðja til Guðs í nafni Jesús Krist.

Hvað söng Bono á sínum tíma með Band Aid (hann sjálfur var brjálaður yfir þessum texta!), "Well Tonight Thank God It's Them Instead of You!" (Hér var átt við öll hungruðu börnin í Afríku sem fengu ekki Jólakalkúninn og allar Nintendo tölvurar...

Kær kveðja,

Óli Kr. 

Óli Kr. (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 19:32

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þér hérna Svanur.  Enda tóku kristnir menn upp siði fólksins til forna, m.a. jólin til að fá fólk til fylgilags við trúna.  Jólin eru upphaflega hátíð þess að sól hækkar á lofti, það geta því allir fagnað á jólunum.  Hvað varðar kristilegt hugafar og siðferði.  Þá er það líka tekið ófrjálsri hendi.  Því hvert og eitt okkar hefur sitt innbyggða umburðarlyndi og kærleika, sem er innsta þel okkar huga, en ekki komið til vegna kristninnar.  Þar er því verið að snúa hlutunum á hvolf.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.11.2007 kl. 20:19

8 identicon

Sæll Svanur. Það er enginn friður fyrir mér.  Ég las greinina þína um kristnifræðslu o.fl. Þetta var mjög góð grein. Þú talar um að börn eigi öll að fá að læra það sama burt séð frá skoðunum foreldra. En ef foreldrar eru mjög hörð á skoðunum sínum og óska eftir að börnin þeirra séu ekki  t.d. í kristnifræði verður að taka tillit til þeirra óskar. Þetta eru jú þeirra börn og foreldrarnir bera ábyrgð. Yoga er ekki bara leikfimi og leið til slökunar. Yoga er  trúarbrögð frá Austurlöndum. Ég veit að börnum hefur verið kennt Yoga. Mér finnst foreldrar hafa rétt á að segja nei takk ef þau vilja ekki að börnin þeirra taki þátt í Yoga.

 

Ég sá í athugasemdum til þín að fólk vildi líka að börnin lærðu trúarbragðarfræði, sálfræði og heimspeki. Ég sé ekkert til fyrirstöðu að auka víðsýni barna og unglinga. Ef þeim er kennt um íslam, þá fá þau að vita að flest fólk sem aðhyllist þessa trú er venjulegt fólk sem þráir frið, sátt og samlyndi. En við vitum að það er hópur sem gerir það ekki. Ég vil meina að því fyrr sem börnin fái að vita þetta geti það stuðlað að minni fordómum. Ég þarf ekkert að segja þér hvort ég vil kristnifræði í skólum eða ekki.   Gangi þér vel með allt sem þú tekur þér fyrir hendur. Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 00:12

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

kærar þakkir öll (nema Ragnar Örn) fyrir góðar athugasemdir og jákvæðni.  Ég held að flestir hafi þá skynsemi að sjá að þessi almennu siðferðisgildi eru fyrir alla og um þau á að geta ríkt sátt. 

Ragnar Örn!

Þú gerir þig út fyrir að fylgja kristnu siðferði en samt ertu hér með dónaskap og nafnaköll.  Ég kíkti á bloggið þitt og þar ertu með færslu sem er full af rangfærslum um Siðmennt.  Dæmi:

Hvað vill þessi "siðmennt" eiginlega uppá dekk?? Á að banna jólin? Eða páskana? Ísland er kristið og ef þetta lið er svona mikið á móti því að börn fái að læra um kristni býr það kannski í vitlausu landi??Ég veit bara að ekki mun´di ég sakna þess ef svona fólk flytti eitthvað annað bara!!!

Siðmennt hefur aldrei talað um að banna jól eða páska.  Siðmennt er ekki á móti því að börn fái að læra um kristni en vill ekki að þeim sé hún innrætt í opinberum skólum.  Það er augljóst að þú hefur ekki mikið umburðarlyndi og vilt okkur burt af landinu svona rétt eins og landið væri einkajörð kristinna.  Þó að um 90% fólks sé skráð í kristna söfnuði hér, játa aðeins um 49% kristna trú skv. Gallup könnun árið 2004.  Um 69% eru trúaðir á eitthvað, 11% óvissir og 19% eru "ekki trúaðir".   Þú sérð því að þessi hópur sem þú vilt losna við er um 1/5 hluti þjóðarinnar.  Ég legg til að þú kynnir þér betur málefni og stefnur hópa sem þú ákveður að úthrópa og úða meiðyrðum.  Þú ert ekki líklegur til að vinna fólk á band þíns kristilega siðferðis með þessu móti.

Svanur Sigurbjörnsson, 1.12.2007 kl. 01:42

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Leyfum börnum okkar að fá að eiga, tjá og lifa trú sína með frjálsum tjáningarhætti í söng, myndlist, föndri og skreytingum fyrir jólin og hafa sín litlu jól í friði -- þvert á móti því sem 'Siðmenntar'-maðurinn Bjarni Jónsson krafðist eða boðaði í fimmtudagsviðtalinu í 24 stundum. - Leyfi mér svo að vísa hér á lengra innlegg mitt um þetta sama mál á vef Hans Haraldssonar.

Jón Valur Jensson, 1.12.2007 kl. 12:06

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Áhugavert. Takk fyrir þessa grein.

Hrannar Baldursson, 1.12.2007 kl. 12:44

12 identicon

Kristilegt siðferði er trúarkommúnismi, get ekki að því gert en þetta er bara það sem blasir við mér við að heyra í kristnum, ekki öllum en mjög mörgum.

DoctorE (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 13:12

13 identicon

Góð grein Svanur og þarft innlegg í umræðuna.

Þórólfur (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 13:49

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Hrannar

Svanur Sigurbjörnsson, 1.12.2007 kl. 14:18

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Jón Valur

Af hverju ertu að viðhalda þessari rangfærslu um að Bjarni varaformaður Siðmenntar hafi viljað afnema Litlu jólin.  Blaðamaður 24-stunda gerði mistök.  Það er búið að leiðrétta það með fréttatilkynningu sem fjölmiðlar hafa birt bæði á visir.is og mbl.is   Einnig er búið að leiðrétta það á sidmennt.is, vantru.is og fjölmörgum bloggum, m.a. í grein minni hér að ofan, en þú skrifar hér athugasemd í þessum dúr, líkt og þú hafir ekki lesið greinina.  Vinsamlegast lestu þær greinar sem þú gerir athugasemdir við frekar en að dreifa óhróðri og rangfærslum út um allt. 

Svanur Sigurbjörnsson, 1.12.2007 kl. 14:20

16 identicon

Sæll og blessaður.

Ég las í greininni þinni:  Börn eiga rétt á upplýsingu og fræðslu svo þau geti síðar tekið sínar sjálfstæðar ákvarðanir um mál eins og lífsskoðanir (þ.m.t. trú) og stjórnmál.  Hjartanlega sammála.

Einnig: Njótum nú jólaundirbúningsins og jólaljósanna í sátt og förum þann veg sem tekur tillit til allra og mismunar ekki né skilur útundan börn í skólum landsins vegna lífsskoðana foreldra þeirra.  Sama hér.

Ég las jákvæðni í greininni þinni. Sendi góðar kveðjur þvert yfir landið okkar til þín.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 14:30

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

'Trúarkommúnisma' gátu menn horft upp á í hinni stöðnuðu, afturhaldssömu Austur-Evrópu, þar sem ekkert tjáningarfrelsi gilti í fjölmiðlum (og jafnvel víðast hvar í sumum þjóðfélaganna), þ.e.a.s. ekki fyrir önnur lífsviðhorf en efnishyggju Marxismans. Sömuleiðis mátti horfa upp á hann í harðstjórnarríkinu Kína, Norður-Kóreu, Eþíópíu o.fl. ríkjum, þar sem Marxistar komust til valda.

Svanur, ég sé ekkert innlegg frá Bjarna Jónssyni, varaformanni Siðmenntar, á þessari síðu né á hann minnzt í grein þinni efst á síðunni. 'Common!'-tal þitt þar um, hvað Siðmennt vilji og vilji ekki, getur ekki þurrkað út orð hans í 24 stundum. En eruð þið kannski nýbúnir að gera góð kaup í grænsápu?

Ég er á hlaupum, en fer svo rétt strax í þessa fréttatilkynningu Siðmenntar, sem þú vísar á.

Jón Valur Jensson, 1.12.2007 kl. 14:38

18 identicon

Að þú skulir tala um tjáningarfrelsi Jón kemur úr hörðustu átt, maðurinn sem ritskoðar bloggið sitt á fullu, allir sem syngja ekki í jákórnum eru útilokaðir með fáránlegum ástæðum.
Allir eru fullkomlega frjálsir svo lengi sem þeir fylgja kristnum gildum... ég veit ekki hver þessi kristnu gildi eru, getur einhver sagt mér hver þau eru.. fyrir utan að segja fólki að það sé bara einn guð og ef menn fylgja honum ekki þá eru menn pyntaðir til eilífðar... hljómar eins og hótun í mínum eyrum.
Eru kristnir kannski búnir að afbaka boðskap frelsara síns svo þau falli betur að þeirra hugmyndafræði þar sem völd,þvinganir og peningar ráða ríkjum

DoctorE (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 15:29

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

"DrE" heldur áfram að skrökva, vitandi þó, að á mínum vef eru og hafa verið umræður á fullu um margvísleg mál til og frá og andmælendur mínir ýmsir hverjir ekki ósáttari við orðaskiptin eftir á en svo, að þeir sendu mér nokkrir góðar kveðjur og jafnvel meðmæli (sjá HÉR) í tilefni af 200.000. flettingunni sem nýlega átti sér stað á Moggavefsíðu minni. Sumir hafa hins vegar komið sér út úr húsi á vefsetri mínu; óskráðir, sem mér er ókunnugt um, eiga þar ekki að fá inngöngu, né heldur þeir sem guðlasta, og þeir sem ganga langt í persónuóhróðri detta þar sömuleiðis út eftir að hafa verið varaðir við.

Jón Valur Jensson, 1.12.2007 kl. 16:30

20 identicon

Ef ég geri ráð fyrir því að guð sé til þá hlýtur raunverulegt guðlast að ætla guði sínum að leggjast niður á sama stig og ófullkomnir menn sem vilja láta ídolísera sjálfa sig og láta menn liggja við fætur sína og ef ekki þá er eilífðar hegning málið... slík hegðun er eins langt frá því að vera guðleg eins og hægt er að komast.
Það er ekki hægt að tengja slíka sálarflækju við veru sem á að vera óendanlega betri, kærleiksríkari og gáfaðri en við, þetta atriði undirstrikar að dæmið er gert af mönnum og engum öðrum.
Liggur í augum uppi en óttinn við dauðann blindar menn fyrir þessari augljósu staðreynd

DoctorE (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 17:48

21 identicon

Post Scripture.

Svanur er það eðlilegt ef maður er ekki á sömu skoðun og þú að það sé vegið að þér í persónusvívirðingum og andlegu ofbeldi? þú ert kallaður geðsjúklingur með einn þann erfiðasta geðsjúkdóm (scitzhophrenic) sem fyrir finnst fyrir það eitt að leggja fram mótrök? www.vantru.is er skemmdur vefur alveg eins og Krossinn og co! Ofstæki er þar í hvívetna og skiptir einu hvaða sagnfræðilegu eða vísindarök þú færir þar fram, eða þú ert þeim ekki sammála ertu vangefin! Sorry en svona er þetta!

Eina sem ég sagði var að ég er trúaður og trúi á Jesús og að ég telji að líðræðið sé allt og ofmetið hugtak. Heldur má segja að fasistmi sé við völd í okkar daglega heimi í dag!

Lestu bloggið mitt til að skilja betur;o)

Kær Kveðja,

Óli Kr.

Óli Kr. (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 19:05

22 identicon

Lýðræði u spelled it wrong Óli, kannski vegna þess að þú veist ekki hvað orðið táknar
Jesú vil ekki lýðræði... ertu að tala um það... ég vorkenni þér

DoctorE (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 01:44

23 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

maður berrassar sig hjá Jóni Vali og heldur að hann sé "umburðarlyndur"....kannski???...en

http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/380378/

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.12.2007 kl. 02:16

24 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Talar þú Svanur fyrir alla meðlimi Siðmenntar? Persónulega þekki ég til meðlima Siðmenntar sem vilja ekki heyra minnst á jesú í skólum fyrir jólin.

Ef útloka á kristni úr jólahaldi skólanna þýðir það að ekki má syngja Heims um ból og Í Betlehem er barn oss fætt, þá nýfæddur Jesú og slík lög sem eru sungin á litlu jólum grunnskóla. Nú ekki má þá heldur leika helgileikinn um fæðingu Jesú eða föndra engla.

Skyldu kennarar eiga að fá refsingu ef þeir brjóta þessar reglur? Kanski getum við lært af Kína þar sem allt tal um Jesú er bannað og fólk hefur verið fangelsað, pyntað og líflátið fyrir að eiga Biblíur eða stunda trú á Jesú 

Guðrún Sæmundsdóttir, 2.12.2007 kl. 14:44

25 Smámynd: Theódór Norðkvist

Bjarni Jónsson hjá Siðmennt er einfaldlega tvísaga í þessu máli. Annað hvort var hann að ljúga þegar hann sagði að Siðmennt væru á móti helgileikjum, eða þegar hann (eða Siðmennt) segjast ekki vera á móti litlu jólunum.

Litlu jólin hjá kristnu fólki er að mestu helgileikur til að boða fæðingu Frelsarans. Að segjast vera á móti helgileikjum í skólum, en þykjast samt samþykkja litlu jólin er eins og að segja við einhvern: Þú ert velkominn í heimsókn, ef þú skilur hægri handlegginn þinn eftir heima hjá þér.

Gaman væri að vita í hvoru tilfellinu Siðmenntarmenn eru að ljúga.

Theódór Norðkvist, 2.12.2007 kl. 14:52

26 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Guðrún

Ég er stjórnarmaður í Siðmennt og kann því stefnu félagsins.  

Einhvers staðar þarf að draga línuna varðandi trúarlegt innihald í skólastarfi.  Ég geri mér grein fyrir að trúarlegir söngvar eins og "Heims um ból" eru sungnir á litlu-jólunum.  Það eru líka margir söngvar sungnir sem eru óður til jólanna sem hátið gleði og samveru með fjölskyldu.  Jólasveinarnir eru trúarlega hlutlausir a.m.k. okkar rammíslensku 13.  Litlu jólin eru mikil menningarhátið fyrir börn og foreldra þeirra og kennara.  Siðmennt setur sig ekki á móti þeim.

Theodór

Þér er greinilega mikið í mun að koma einhverri lygi á fulltrúa Siðmenntar.  Hvergi hef ég heyrt að fólk, kristið eða ekki, telji Litlu jólin sem helgileik, hvorki að hluta né fullu.  Helgileikir eru sérstök leikrit eða sviðsetningar sem með beinum hætti vísa í ritningar og sögur Biblíunnar og fjalla ekki um annað.   Sé þessi skoðun þín til meðal fólks, þá er hugsanlegt að blaðakona 24-stunda hafi tekið orðum Bjarna á þennan veg og leyft sér að tala sérstaklega um Litlu-jólin út frá tali Bjarna um helgileiki.  Það er mjög óvarlegt og óvönduð vinnubrögð.

Svanur Sigurbjörnsson, 2.12.2007 kl. 15:06

27 Smámynd: Theódór Norðkvist

Helgileikir eru sérstök leikrit eða sviðsetningar sem með beinum hætti vísa í ritningar og sögur Biblíunnar og fjalla ekki um annað.

Ágæti læknir, hefur þú aldrei farið á litlu jólin? Þar er langoftast leikrit um Maríu og Jósef, sem er byggt á sögu Matteusarguðspjalls um Jesúbarnið. Ef það er ekki helgileikur þá veit ég ekki hvað helgileikur er.

Ef Siðmenntarmenn vilja ekki úthýsa helgileikjum út úr grunnskólum, þá hljóta þeir að vilja úthýsa litlu jólunum í því formi sem þau eru.

Ergo, þeir eru að ljúga, annaðhvort þegar þeir segjast ekki vilja helgileiki, eða þegar þeir segjast ekki vera á móti litlu jólunum.

Theódór Norðkvist, 2.12.2007 kl. 16:24

28 identicon

Aldrei voru leikrit um Maríu og Jósef hluti af þeim litlu jólum sem ég tók þátt í á minni 10 ára grunnskólagöngu.  Ég hef heldur ekki heyrt af slíkum helgileikum frá börnum sem tengjast mér sem ganga/gengu í aðra skóla. "Langoftast" er kannski ekki orð við hæfi, Theódór.

María (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 16:43

29 Smámynd: Theódór Norðkvist

Langoftast, oftast eða stundum er ekki aðalatriðið. Það er staðreynd að leikritið/helgileikurinn um Maríu, Jósef og Jesúbarnið er oft leikið á litlu jólunum, auk þess sem aðaltilgangur jólanna hér á Íslandi er að fagna fæðingu Frelsarans. Þau hafa því ótvírætt trúarlegt yfirbragð.

Theódór Norðkvist, 2.12.2007 kl. 17:11

30 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þú getur haldið áfram að deila um skilning á því hver litlu jólin eru.  Helgileikir hafa ákveðna skilgreiningu og það er misjafnt hvort að þeir eru haldnir á sama degi og litlu-jólin eða ekki.  A.m.k. er það ekki skilyrði fyrir Litlu-jólum að helgileikir séu haldnir á sama tíma.  Er það skilyrði af þinni hálfu Theódór?

Aðal atriðið hér er að fulltrúi Siðmenntar nefndi aldrei Litlu-jólin á nafn í þeirri upptalningu sem Siðmennt hefur litið á sem trúarlega starfsemi eða trúboð í skólum og því er það ljóst að Siðmennt er ekki á móti Litlu-jólunum.   Einstaka trúlausir foreldrar hafa e.t.v. ekki viljað að börnin sín tækju þátt í litlu-jólunum en það er ekki algengt.  Það er þó spurning ef mjög miklu trúarinnihaldi er komið í dagskránna (prestar messi, helgileikir, ritningarorð o.s.frv) hvort að Litlu jólin séu þannig gerð að trúboði.  Mér sýnist á skrifum þínum Theódór að slíkt myndi gleðja þig.

Svanur Sigurbjörnsson, 2.12.2007 kl. 18:01

31 Smámynd: Theódór Norðkvist

Já, ég skal alveg viðurkenna það, enda er mér illa við þau grófu mannréttindabrot sem felast í því að meina börnum að heyra um Jesú Krist.

Má ég skilja svar þitt þannig að þú viljir láta ritskoða hverja einustu dagskrá litlu jólanna hjá hverjum einasta skóla til að tryggja að þar sé nú örugglega enginn heilgileikur, eða tilvísun í trúarbrögð, svo að það sé alveg öruggt að enginn móðgist?

Að gamni mínu fletti ég upp á Google orðasambandinu "litlu jólin". Þá voru yfirleitt myndir úr grunnskólum. Í nær hverju einasta tilfelli sem ég skoðaði, fyrstu 10-15 niðurstöður, voru myndir frá jólaleikritinu um Maríu, Jósef og Jesúbarnið. Vilja Siðmenntarmenn eyðileggja þetta fyrir fólki?

Theódór Norðkvist, 2.12.2007 kl. 18:24

32 identicon

DoktorE. 

Líðræði, Lýðræði. Potatoe, Potetoe. Laxness fær að rita sitt án skítkasta, aðrir drukkna í flór frá fávitum.

DoktorE undirstrikar bara það sem ég skrifaði hér fyrr um. Persónuárásir og skítköst er það eins sem sumir eru hæfir með. Kasta grjóti úr glerhúsum.

Það er svo gaman þegar fólk skítur sig í fótinn með fallbyssu;o)

Kær kveðja og megi Guð vera með þér DoktorE, því ég má ekki vera að því!

Óli Kr.

Óli Kr. (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 19:05

33 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Theódór

Þú ert ekki einn í heiminum.  Þú hefur þau mannréttindi eins og aðrir að boða trúna á Jesú í þínum söfnuði og einkalífi.  Skólar eru ekki trúarstofnanir og eiga að mennta um trú og lífsskoðanir, ekki boða þær eða stunda. 

Vilji skólar gæta trúarlegs hlutleysis eiga þeir að gæta þess að allir krakkar geti notið litlu jólanna óháð trúarskoðun foreldra þeirra. 

Ég hef svarað þér hvað ég tel Litlu-jólin vera og hvað helgileikur er.  Google er ekki orðabók eða kista skilgreininga.

Svanur Sigurbjörnsson, 2.12.2007 kl. 19:14

34 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þú kemur þér undan því að svara spurningunni, Svanur. Mega helgileikrit vera sett upp í grunnskólum, að mati Siðmenntar, ef þau eru liður í dagskrá litlu jólanna?

Sem betur fer ráð jafnfámenn samtök og Siðmennt, þó hávær séu, ekki dagskránni í hverjum einasta grunnskóla landsins, en ég vildi gjarnan fá svar við spurningunni.

Theódór Norðkvist, 2.12.2007 kl. 19:37

35 Smámynd: Theódór Norðkvist

PS Mér þætti gaman að vita hvað Bjarni Jónsson sagði við blaðamann 24-stunda, fyrst hann nefndi ekki að hann vildi banna litlu jólin. Innanbúðarmaður í Siðmennt eins og Svanur hlýtur að geta svarað því.

Theódór Norðkvist, 2.12.2007 kl. 19:39

36 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Theódór 

Mitt persónulega álit er að helgileikir eigi ekki erindi sem reglubundir árlegir dagskrárliðir í skólum, t.d. finnst mér að helgileikur um fæðingu Jesú eigi ekki að vera fast á dagskrá á sama degi og Litlu jólin séu haldin.  Kristið fólk getur skipulagt slíkt í kirkjum sínum eða félagsheimilum.  Það getur hins vegar verið eðlilegt að stundum séu sett á svið leikrit á vegum skólabarna og kennara um trúarlegar sögur og hafa þar einnig inni sögur úr ásatrú og frá öðrum goðsögnum, t.d. grikkja eða rómverja.  Slíkt getur talist eðlilegur hluti af því að fræðast um trúarbrögð og forna menningarheima. 

Siðmennt hefur þá stefnu að helgileiki eigi ekki að hafa í skólum.  Nánari útfærsla á því hefur ekki verið gefin út af félaginu.

Bjarni talaði um "helgileiki" við blaðamann 24-Stunda eins ég er búinn að segja þér.  Hann eins og margir fleiri gera greinamun á helgileikjum og Litlu-jólunum.

Þetta er eins nákvæmt svar og ég get gefið þér. 

Svanur Sigurbjörnsson, 2.12.2007 kl. 20:20

37 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þakka þér fyrir svarið, þetta verður þá að duga. En ég held að þú hafir ekki hugsað þá hugsun til enda að fara að hafa leikrit úr ásatrú og öðrum goðsögnum grikkja og rómverja, nema þú sért að gantast. Ef það yrði gert myndu litlu jólin standa yfir allan daginn! Ég held að það væri engum til hagsbóta, allra síst börnunum, sem yrðu þreytt og pirruð.

Theódór Norðkvist, 2.12.2007 kl. 20:42

38 Smámynd: Sigurjón

Þegar ég var strákur í skóla, lékum við helgileikinn í kirkjunni eitthvert kvöld í desember.  Litlu jólin komu þeim helgileik ekkert við.

Sigurjón, 3.12.2007 kl. 14:05

39 identicon

Hvað meinar þú Theódór, ertu að segja að það sé of lítill tími í skólum til þess að stunda nokkuð nema þjóðkirkju kristni.
Tata kirstilegt siðferði :)

DoctorE (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 14:57

40 identicon

Básúnublásandi maður um tilurð lýðræðis, þú hinn mikli DoktorE, er það lýðræði að velta af stóli stjórnvöldum sem hafa átt að vera lýðræðiskostnar að valdi fóksins?

NOPE!

Er BP (Brithish Petrolium),fékk ekki einkaleyfi yfir olíuleiðslum Írans á sjötta áratuggnum frá þeirra lýðrræðiskjörna forseta Írans, ákvað CIA að steypa honum af stóli! 

Leyniskjöl CIA eru hér í dag opinber um þetta mál kallinn minn!

Hvað gerðist í CIA opperation AJAX?

ÞAÐ ER ALLT OPINBERT Í DAG GOTT FÓLK!

Lestu betur mannkynssögunna áður en þú ferð að dæma aðra!!!!

So f.... you too!

Olafur Sveinsson (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 01:06

41 Smámynd: Óli Jón

Það er leitt að þessi góða og þarfa umræða skuli sí og æ vera afveigaleidd með smáatriðum á borð við það hvort Heims um ból verði sungin á jólahátíðum í skólum. Okkur er öllum hollast að beina sjónum okkar að aðalatriðum umræðunnar og láta smáatriðin liggja á milli hluta. Að mínu mati eru þessi atriði helst:

  • Stundum vísindalegt og hlutlægt skólastarf á skólatíma
  • Bjóðum almenna og hlutlausa fræðslu um trúarbrögð í skólum
  • Trúarleg ástundun og uppfræðsla fari fram utan skólatíma

Með þessu er ekki verið að svipta börnin neinum réttindum. Þeir sem kjósa að fræða börn sín um trú gera það sjálf í sínum frítíma með trúarlegri iðkun heima eða í kirkju.

Er þetta ósanngjarnt fyrirkomulag?

Óli Jón, 9.12.2007 kl. 03:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband