Fögnum 60 ára afmæli Mannréttindasáttmála SÞ!

Í dag 10 desember á Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 60 ára afmæli!

Í tilefni þess er vefsíðan www.KnowYourRights2008.org hleypt af stokkunum á vegum SÞ.

60 ára afmæli MRS SÞ

Þetta er mikill gleðidagur því mikilvægi sáttmálans verður seint ofmetið.  Á þessum árum hafa hundruðir mannréttindamála unnist vegna þeirrar fyrirmyndar sem sáttmálin hefur sett öllum þjóðum heims.  Sáttmálinn er viðurkenning á því að um heim allan gilda algild siðferðislögmál sem taka tillit til hvers einasta einstaklings og réttar hans til að lifa sómasamlegu lífi og eiga rödd sem hlustað er á án tillits til uppruna, kynþáttar, kyns, þjóðfélagsstöðu o.s.frv.

Sáttmálinn hafnar því að munur á menningu réttlæti t.d. kúgun og ofbeldi gegn konum eða minnihlutahópum. 

Þá er það mikilvægt að sáttmálinn hafnar mismunum byggða á lífsskoðunum, þannig að trúarskoðanir og lífsskoðanir án trúar eigi að njóta sömu tækifæra og meðhöndlunar af opinberum aðilum.  Börn eiga þann skýlausa rétt að njóta skólagöngu án afskipta utanaðkomandi félaga sem boða lífsskoðanir eða pólitískar stefnur.   Menntun barna á að vera á faglegum forsendum eingöngu og í höndum menntaðra kennara.

Þessu hefur Siðmennt talað fyrir og verið sjálfstæður verndari og stuðningsaðili Mannréttindasáttmálans á Íslandi.  Félagið er hluti af alþjóðlegum samtökum siðrænna húmanista sem kallast International Humanist and Ethical Union (www.iheu.org) en þau eru bara 5 árum yngri en sáttmálinn (stofnuð 1952).  IHEU hefur átt náið samstarf við SÞ og verið ráðgefandi aðili frá stofnun þess.  Fyrsti forseti alþjóðaþings IHEU, þróunarlíffræðingurinn Julian Huxley varð síðar fyrsti framkvæmdarstjóri UNESCO við stofnun þess.  UNESCO er Mennta-, vísinda- og menningarmáastofnun SÞ.  Stefnumál IHEU og Siðmenntar eru í anda Mannréttindasáttmálans.

Það er von mín að biskup Þjóðkirkjunnar, Sr. Karl Sigurbjörnsson sjái að sér og beri til baka ummæli sín um að Siðmennt séu "hatrömm samtök".   Slík ummæli varpa skugga á baráttuna fyrir viðurkenndum mannréttindum og eru ekki til þess fallin að effla vináttu eða mannvirðingu á meðal fólks. 

Siðmennt hefur vaxið mikið undanfarna 10 daga og það er fagnaðarefni að félagafjöldi hefur aukist um 15% á þeim tíma.  Það er ljóst að margir hafa skilið mannréttindabaráttu þess og vilja búa börnum landsins menntakerfi sem hefur góð og algild siðferðisgildi að leiðarljósi án trúarlegra merkimiða, sérréttinda, boðunar, iðkunar eða trúarlegrar starfsemi í skólum.  

Sem manneskja og húmanisti fagna ég þessum merkilega áfanga í "lífi" Mannréttindasáttmálans og segi:  Skál! Megi hann lengi lifa! húrra! húrra! húrra! HÚRRA!! Wizard


mbl.is Siðmennt svarar biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ég hef verið mjög hugsi undanfarna daga vegna ummæla biskups. Ég tek þau til mín þar sem ég tel að gera eigi greinarmun á trúarbragðafræðslu og trúboði í skólum. Rétt eins og gera á greinarmun á fræðslu um stjórnmál og áróðri. Ég hef einnig gert formlegar kvartanir til skóla vegna óvalkvæðra kirkjuferða og fleiri atriða sem tengjast umfjöllun um trúmál í skólum. Ég hlýt að vera hatrömm í augum biskups. Mannréttindasáttmálinn einnig.

Það er raunverulega alvarlegt mál þegar háttsettur opinber embættismaður talar svona til fólks þegar skírskotun í mannréttindasáttmála er jafnskýr og í þessu tilviki. Auðvitað get ég yppt öxlum og látið sem mér sé sama, mér er hins vegar ekki sama, ég fer fram á að hægt sé að taka mark á fólki sem er í forsvari fyrir þjóðkirkjunni. Ég er alin upp með hana að leiðarljósi og mitt nánasta fólk starfar þar. Þó ég hafi smám saman misst bókstafstrúna vil ég bera virðingu fyrir stofnuninni og þeim gildum sem hún segist standa fyrir.

Kristjana Bjarnadóttir, 10.12.2007 kl. 08:50

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Til hamingju Svanur og Siðmennt. ÉG tek undir orð þín Kristjana og vona að þessu fári biskups fari að ljúka?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.12.2007 kl. 09:54

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Hvað sem öllu öðru líður, þá fagna ég þessum áfanga og segi:

Skál fyrir afmælinu - afmælisbarnið lengi lifi!

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.12.2007 kl. 09:55

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk og skál í boðinu! 

Svanur Sigurbjörnsson, 10.12.2007 kl. 10:57

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég tek undir það sem þú segir Kristjana.  Þó að ég sé ekki trúaður þá vil ég ekki að forsvarsmaður Þjóðkirkjunnar sé henni til skammar.  Það er mjög margt gott fólk sem ég þekki innan hennar og það á ekki skilið að fulltrúi þeirra í trúmálum tali svona um Siðmennt. 

Svanur Sigurbjörnsson, 10.12.2007 kl. 11:01

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Samþykkja múslimsku þjóðirnar eða öllu heldur stjórnskipan þeirra, "að trúarskoðanir og lífsskoðanir án trúar eigi að njóta sömu tækifæra og meðhöndlunar af opinberum aðilum"? Það stórefa ég. Viltu gjöra svo vel að birta hér orðrétta þá grein Mannréttindayfirlýsingar SÞ, sem þú átt hér við?

"Börn eiga þann skýlausa rétt að njóta skólagöngu án afskipta utanaðkomandi félaga sem boða lífsskoðanir eða pólitískar stefnur. Menntun barna á að vera á faglegum forsendum eingöngu og í höndum menntaðra kennara," segirðu ennfremur. Viltu ekki staðfesta það með skýrri tilvísun í iorðrétta greina sömu Mannréttindayfirlýsingar, að þetta sé í raun stefna SÞ? Hyggurðu, að jafnvel Tyrkir og Kosowo-menn fari eftir þessu, hvað þá Súdanir, Íranir, Pakistanar og Sýrlendingar?

Jón Valur Jensson, 10.12.2007 kl. 11:14

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, eða Jemenar og Saudi-Arabar!

Jón Valur Jensson, 10.12.2007 kl. 11:16

8 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Jón Valur eigum við að bera okkur saman við múslimsku þjóðirnar?  Ef svo, af hverju?

Er þetta ekki hræðsluáróður, og ef við hugsum svona þá verðum við bara ofgakristin í stað ofgaislam!  Bæði jafn ömurlegt og einkennist af hatri, hræðslu, en alls ekki kærleika og umburðarlyndi. 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.12.2007 kl. 11:41

9 identicon

"Svo bætir böl að benda á annað verra"? Eða hvað?  Á hvern hátt réttlætir það mannréttindabrot hér á landi að benda á önnur verri í öðrum löndum?

Sigurlaug Hauksdóttir (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 11:44

10 Smámynd: Fannar frá Rifi

Það þýðir ekki að benda annað og verra þegar menn segjast standa fyrir umburðarlindi og kærleika. Umburðarlindi og kærleiki kristinnar trúar þarf að sýna á borði en ekki í orði.

Fannar frá Rifi, 10.12.2007 kl. 12:23

11 identicon

Áhugaverð „rök“ hjá Jóni Val. Næst reikna ég með að lesa blogg um jafnrétti kynjanna og sjá skírskotun til Sádí Arabíu sem svar við „vælinu“ í femínistum.

Kalli (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 14:59

12 identicon

Það getur engin heilvita maður hrópað húrra, hvað þá heldur skálað fyrir mannréttindasáttmála SÞ, eins og hann er fótumtroðinn um þessar mundir.

Ráðið sem á að fylgjast með að sáttmálanum sé fylgt eftir er samsett að meirihluta af fulltrúum þjóða sem enga virðingu bera fyrir mannréttindum. Ráðið lítur svo á að eina hlutverk þess sé að samþykkja ályktanir gegn Ísrael. Hýðingar fórnarlamba hópnauðgana, grýtingar og þjóðarmorð komast ekki á dagskrá.

Þeir sem hér hrópa húrra fyrir því að meira en helmingur þjóða innan SÞ virðir mannréttindi að vettugi, ættu kannski að finna sér tíma til að gangst undir próf í lesskilningi, áður en skálarnar verða miklu fleiri. 

Ragnhildur Kolka (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 16:53

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ragnhildur Kolka...fræddu mig meira um...

"Ráðið lítur svo á að eina hlutverk þess sé að samþykkja ályktanir gegn Ísrael. Hýðingar fórnarlamba hópnauðgana, grýtingar og þjóðarmorð komast ekki á dagskrá."...ég vissi þetta ekki???

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.12.2007 kl. 19:32

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það sem Jón Valur er að vitna í er að ýmsar Íslamskar þjóðir hafa þráast við að fara eftir Mannréttindasáttmálanum og hafa sumar þeirra gengið svo langt að búa til sinn eigin "Íslamiseraðan" sáttmála sem kenndur hefur verið við Cairo í Egyptalandi.  Annars ef þú vilt færa rök fyrir máli þínu Jón Valur skaltu fletta upp Mannréttindasáttmála SÞ og vitna í hann.  Á síðu Siðmenntar má finna þýðingar og samantektir úr honum ef þú átt erfitt með enskuna. 

Það sem Ragnhildur Kolka er að vitna í er það ófremdarástand sem varð í Mannréttindanefnd SÞ í kringum aldamótin og sér ekki enn fyrir engan á.  Það breytir engu um gildi sáttmálans - hann er jafn góður, þó að sumar þjóðir kunni ekki að meta hann og vilja halda áfram kúgun kvenna og minnihlutahópa í sínum löndum.  Íslamskar bókstaftrúarþjóðir hafa löngum haft horn í síðu sáttmálans og nefndarinnar og fóru með sinni ofurviðkvæmni og væli að hóta ýmsu gagnvart nefndinni, m.a. að hætta og fleira í þeim dúr.  Þá varð allt vitlaust ef kvartað var yfir mannréttindabrotum í Íslömskum löndum en sjálfsagt mál ef kvartanir beindust að Ísrael eða öðrum löndum.  Íslamskar þjóðir náðu sætum í nefndinni og það varð til þess að hún varð óstarfhæf í nokkur ár.  Hún var svo sett í gang fyrir 1-2 árum síðan minnir mig.   Það verður alltaf þannig að góðir sáttmálar ná aldrei meiru fram en siðferði þeirra sem að honum standa leyfir.  Það er aftur mikilvægt að gefa engan afslátt af þeim gildum sem í honum felast og halda áfram baráttuni fyrir því að vernda hann og fá honum framfylgt bæði heima fyrir og annars staðar.   Heimsfriður veltur á því að mannréttindi séu virt.  Ferðaöryggi okkar veltur á því einnig. 

Ég skil nú ekki Ragnhildur hvers vegna það er ekki í lagi að fagna afmæli Sáttmálans þó að það séu vandmál í heiminum við að framfylgja honum.  Mér var og er það fyllilega ljóst.  Þú ættir að e.t.v. að gangast undir próf í mannskilningi áður en þú dregur meira úr gleði okkar yfir stórafmæli sáttmálans.  Baráttan fyrir mannréttindum hefur enga þörf fyrir þessa neikvæðni á gleðistundu. 

Svanur Sigurbjörnsson, 10.12.2007 kl. 21:04

15 Smámynd: Viðar Eggertsson

Til hamingju með daginn þér allir sem þráið mannréttindi og upplýsta uppmræðu.

Viðar Eggertsson, 11.12.2007 kl. 01:31

16 Smámynd: Viðar Eggertsson

"umræðu." - átti þetta að sjálfsögðu að vera, bið forláts.

Viðar Eggertsson, 11.12.2007 kl. 01:40

17 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Kærar þakkir Viðar - sömuleiðis.

Svanur Sigurbjörnsson, 11.12.2007 kl. 03:14

18 identicon

Mannréttindasáttmáli SÞ var undirritaður í góðri trú. Það er fjærri mér að neita því. En eins og læknirinn hefur eflaust komist að í starfi sínu, geta nauðsynleg líffæri verið yfirtekin af illkynja meinum. Það er það sem átt hefur sér stað í mannréttindaráðinu.

Ólýðræðislegar þjóðir hafa tekið höndum saman við íslömsk ríki til að hindra eftirlit með mannréttindabrotum hjá þessum sömu þjóðum og hamra á Ísraelsmönnum, eins og svanurmd réttilega bendir á. Það er hinsvegar ekki rétt, þegar þú segir að þetta horfi nú allt til betri vegar. Ástandið er engu betra núna, ráðið fer aðeins með veggjum þegar hótað er að draga úr fjárframlögum til þess.  Það heldur þó sínu striki. Það eru heldur ekki bara íslömsk bókstafstrúarríki sem hafa horn í síðu mannréttinda, þau eru jú ekki nema tvö svo heitið geti, Kairó samþykktin varð til á ráðstefnu íslamskra  ríkja og samþykktin gengur þvert á mannréttindasáttmálann. Þessar óþjóðir gengust undir mannréttindasáttmálann við inngöngu í SÞ. Nú leggja þær ofurkapp á að taka sæti í ráðinu til að koma í veg fyrir að ákvæði sáttmálans nái til þeirra.

 Þegar illkynja mein ógnar lífi er oft ráðið að skera það burt. Í þessu tilviki þarf sú aðgerð að fara fram í fullri alvöru annars deyr sjúklingurinn. Skálaræður ykkar fara þá fram yfir líkinu. 

ragnhildurkolka (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 21:22

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þetta er ekki fjarri lagi þeirri mynd sem ég fékk af lestri greina um málið Ragnhildur.  Vonandi næst að bjarga "sjúklingnum", en til þess þarf nýja vakningu á meðal stjórnmálamanna og fólks sem kýs þá.  Hafna þarf radical Islam og láta ekki yfir sig ganga annars verður þetta skrípaleikur.   Ég held að Ísland gæti gert meira gagn í mannréttindanefndinni en öryggisráðinu, en það er önnur saga.  Nú er búið að skála og tími til að láta hendur standa fram úr ermum - ekki satt Ragnhildur? 

Svanur Sigurbjörnsson, 11.12.2007 kl. 22:17

20 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það verður erfiðara, ef eitthvað, að eiga við islamistafasistana, heldur en kristnufasistana!...en nauðsynlegt samt!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.12.2007 kl. 11:25

21 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Hvað sem má segja um brot ýmissa ríkja Sameinuðu þjóðanna gegn Mannréttindasáttmálanum þá er gleðilegt að þetta plagg skuli vera til sem ljósviti þeim sem berjast fyrir mannréttindum hvort sem þeir eru múslimar, kristnir, heiðnir eða engrar trúar.  Jarðarbúar til hamingju með sáttmálann!! 

Lárus Vilhjálmsson, 13.12.2007 kl. 00:25

22 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Akkúrat.  Takk fyrir það Lárus.  Við samfögnum þrátt fyrir allt.

Svanur Sigurbjörnsson, 13.12.2007 kl. 20:42

23 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Til hamingju og skál í boðinu

Búin að vera að lesa skrifin þín og hafði gaman að.  Gott hvað mikil hreyfing er komin á trúarþankaumræðuna og hvað margir eru að vakna og vilja breyta.

Kveðjur. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 14.12.2007 kl. 00:49

24 identicon

Er einhver hérna sem lítur á sig sem fórnarlamb vegna áhrifa kristilegra gilda á skóla ? Hefur þetta meitt einhvern..? Skaðað? Hvernig? Hvar?

Og hvernig nennið þið að hengja ykkkur upp í einhvern teksta..? hver sagði hvað og hvernig og hvenær? Þetta er komið út í ansi mikinn smáborgaralegan hugsunarhátt.. og þar situr bæði bókstafstrúar biblíufólk og heittrúaðir siðmenntingar.

Ef það væri stríð hérna eða fátækt eða harðstjórn þá værum við varla upptekin af svona smotteríi er það..

lítið bara aðeins í kringum ykkur.. opnið blöðin og lesið fréttirnar.. hvernig ættum við helst að nýta orkuna okkar best í dag í þágu alls mannskyns og jarðar? 

Þetta er bara spurning um með hvaða augum við lítum á hlutina og ekkert annað.. allir hafa rétt fyrir sér.

Björg F (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband