Manngildi og siðferði mannsins vegna er nóg

Í prentútgáfu Morgunblaðsins í dag 30. desember bls 44, birtist eftir mig svargrein sem fer hér að neðan.  Ég sendi með greininni mynd sem Mbl birti ekki (líklega vegna plássvanda).  Myndin verður því með hér en hún er tekin af Matthíasi Ásgeirssyni og kann ég honum þakkir fyrir að leyfa birtinguna.

----

Þann 21. okt. s.l. birtist svargrein Sigurðar Pálssonar fyrrverandi sóknarprests Þjóðkirkjunnar við grein minni frá 30. sept. „Húmanismi – lífsskoðun til framtíðar“. Það er ánægjulegt að Sigurður tekur undir með mér um mikilvægi húmanismans, en hann skrifar hins vegar greinina til að mótmæla því sem hann kallar að „[ég] spyrði saman guðleysi og húmanisma“. Honum sárnar greinilega að ég nefni ekki einhverja trúmenn sem jafnframt hafi verið málssvarar húmanískra lífsgilda.

Sigurður segir: „Að skilgreina húmanismann eða manngildisstefnuna fyrst og fremst sem guðlaust lífsviðhorf er fölsun“. Hann vísar svo til þess að í mannkynssögunni sé „fjarri því að allar greinar [manngildisstefnunnar] hafni trúarlegri sýn á tilveruna“.


Fyrst vil ég nefna að hvergi í umræddri grein sagði ég að kristnir gætu ekki tileinkað sér húmanísk gildi eða hefðu ekki gert það fyrr á öldum. Hins vegar hafa ekki nema örfáir trúarleiðtogar verið í forsvari fyrir manngildishyggju og miklu oftar barist gegn straumum frelsis og manngildis. Þannig var það með trúfrelsi, aðskilnað ríkisvalds og dómsvalds frá kirkjunni, afnám þrælahalds, kosningarrétt kvenna og nú síðast réttindi samkynhneigðra.

Forysta Þjóðkirkjunnar hefur ekki enn áttað sig fyllilega á rökréttum nútímaviðhorfum gagnvart samkynhneigð. Hún barði lengi vel hausnum við stein í aumkunarverðri tilraun sinni til að halda í bókstafinn og hvatti Alþingi til þess að skerða réttindi annarra trúfélaga til að taka sjálfstæða ákvörðun um hjónavígslu samkynhneigðra þar til nýlega.


Þau alþjóðasamtök sem s.l. 56 ár hafa borið nafn húmanismans, International Humanist and Ethical Union (IHEU), hafna hindurvitnum og þ.á.m. trú á guði. Almennt þegar talað eru um samtök húmanista og húmanisma er átt við IHEU og þann húmanisma sem þar er haldið á lofti. Siðmennt er aðildarfélag að þeim. Hinn venjubundni húmanismi nútímans er trúlaus og þar liggur mín skírskotun.


Vissulega hafa húmanísk lífsviðhorf verið til innan trúarbragða og fyrstu húmanistar endurreisnarinnar eins og t.d. Desiderius Erasmus frá Rotterdam voru trúaðir. Þeir fengu viðurnefnið húmanistar árið 1589 vegna þess að skrif þeirra lögðu meiri áherslu á frelsi mannsins en áður þekktist. Þeir grófu þannig óbeint undan guðdómleikanum og því óskoraða valdi sem kirkjan hafði tekið sér á hugum og líkamlegu frelsi fólks. Þjóðfélög þessa tíma voru gegnsýrð af kristinni bókstafstrú og það var ávísun á dauðann að segja sig trúlausan. Thomas Jefferson, sem var uppi um tveimur öldum síðar var einarður gagnrýnandi trúarbragða og taldi að siðferði væri ekki komið frá guðdómi heldur eðlislægri dómgreind mannsins.


Sigurður sagði svo: „Guðlaus lífsviðhorf fæddu ekki af sér manngildishugsjónina.“ Þessu er ég algerlega ósammála. Manngildishugsjónin hefur enga þörf fyrir guðshugmyndina og stendur algerlega sjálfstæð án hennar. Þó að bæði trúaðir og ótrúaðir hugsuðir sögunnar hafi komið fram með húmanískar skoðanir, þá byggðu þær ekki á guðfræði eða trúarlegum innblæstri. Þau trúarbrögð sem í dag teljast hófsöm og skynsamari öðrum eru það vegna þess að þau hafa fjarlægst nákvæma trú á orð trúarrita sinna og skilið eftir þann kjarna sem hvað helst samræmist húmanískum gildum og skynsemi. Þannig skiptir trúin á upprisuna og hina heilögu þrenningu ákaflega litlu máli fyrir megin hluta kristinna Íslendinga. Samkvæmt stórri Gallup könnun sem var gerð hérlendis árið 2004 trúa aðeins 8.1% því að þeir fari til himna eftir sinn dánardag. Siðferðislegt, lagalegt og menningarlegt umhverfi okkar er fyrst og fremst húmanískt, þ.e. óður til frelsi mannsins, hugvits og mannúðar, en ekki trúarlegrar náðar eins og forysta Þjóðkirkjunnar básúnar við hvert tækifæri.


Svo hneykslaðist Sigurður yfir því að ég vogaði mér að segja að hófsöm trúarbrögð búi í haginn fyrir hin öfgafullu heittrúarbrögð. Það er langt mál að færa fyrir því full rök en hér vil ég nefna eitt dæmi sem er okkur nærri. Á dögunum fór fram svokölluð Bænaganga sem margir kristnir Baldur Freyr messartrúarsöfnuðir stóðu að, þ.á.m. Þjóðkirkjan. Gengið var niður á Austurvöll og beðið um aukna kristinfræði og trúarlega starfsemi í skólum. Aðalskipuleggjandi göngunnar var maður sem vitað er að talar mjög niðrandi um samkynhneigða opinberlega. Í göngunni voru svo hermannaklæddir karlar sem báru fána og yfirbragð göngunnar varð því mjög þjóðernislegt (sjá mynd). Á meðan forgöngumaðurinn predikaði böðuðu þátttakendur út örmum líkt og öfga-evangelistar gera í Bandaríkjunum (Sjá grein Brynjólfs ÞorvarðarsonarGengið gegn gleðinni“ í Mbl, 18.11.07 bls 50). Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur beðið skólayfirvöld undanfarin ár að gæta hins hlutlausa veraldlega grunns í menntastofnunum landsins og gæta þannig mannréttinda barna, sem voru dómfest í Mannréttindadómstóli Evrópu í sumar. Í stað þess að virða þennan dóm er Þjóðkirkjan tilbúin að ganga með öfgatrúuðum í baráttu fyrir auknum trúarlegum afskiptum í skólum. Hvað segir þetta manni um húmanisma Þjóðkirkjunnar og með hverjum hún stendur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Svanur og gleðilega hátíð.

Hjá mér væri manngildishugsjónin lítils virði án trúarinnar og þess boðskapar sem trúin inniheldur mér til handa i lífi mínu.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 31.12.2007 kl. 02:06

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er frábær og hispurslaus grein hjá þér Svanur og hér eru orði í tíma töluð.  Ég undrast stöðugt andóf kristinna öfgamanna gegn þessum sjáldfsögðu lögbundnu leiðréttingum og virðist mér, sem þeir hyggi að þeir séu að missa spón úr aski sínum, ef þeir missa ómótaða hugi á leik og grunnskólastigi út úr rakalausri áróðursmaskínu sinni. Engum þeirra dettur í hug sð reyna slíkt trúboð í framhaldskólum, þar sem fólk hefur öðlast sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Nei, slagurinn stendur um óvitana.  Mig hryllir við þessu fólki og vildi óska þess að það héldi lífskoðunum sínum fyrir sjálft sig, eins og þeim er í raun boðað í Bókinni þeirra.  Þetta eru dauðateygjur steinrunninnar stofnunnar, sem ekki lengur stenst skoðun upplýstrar alþýðu og því á að reyna að hamr á þeim, sem eru trúgjarnastir í von um fylgi. Hér eru peningalegir hagsmunir, völd og starfheiður í húfi en ekki sálarheill þjóðarinnar. Það er hreinlega ekkert í okkar samfélagi, sem kallar á slíkt framferði. (Ekki frekar en vopnuð lögregla og óeirðabílar, sem þetta lið styður og er sennilega til höfuðs friðargöngum og kertafleytingum, því ekki hafa menn safnast til mótmæla síðan við inngöngu í Nató 1949)

Hér mætti spyrja Biskup: Hvað viljið þið? Hvert er markmið ykkar? Hvað heldur ú að myndi ske ef trúboð er fært út úr skólum? Öllu slíku hefur verið svarað með því að draga þessa umræðu niður á eitthvert lágkúrulegt tilfinningaplan um lítil Jól, kertaljós og piparkökur og engin praktísk rök gefin.  Siðgæði vort er ekki frá einhverju óræðu Guði, heldur er það samansöfnuð reynsla manna um aldir á því hvað reynist vel og hvað illa fyrir samfélög og einstaklinga.  Hyggjuvit, sem hefur gengið mann fram af manni og sumt er jafnvel í genunum okkar. Engin hókus pókus, engar handaveivingar málleysubull, hrindingar og fullorðið fólk að taka "orminn" á krikjugólfum.(brakedance)  Þetta er vitfirring á borð við alkohólisma, þar sem meðalið er það sem meininu veldur.  Apakettir hafa þetta innbyggða siðgæði í sínum samfélögum og þurfa ekki að krossdressa til að viðhalda því. Án þessarar náttúru hefði mannkyn einfaldlega ekki komist á legg.

Gleðilegt ár Svanur minn og megi ykkur eflast móður og fylgi á komandi ári.  Ég mun standa með ykkur í þessari þörfu baráttu í að úthýsa vitfirringunni. Takk fyrir sýnda vináttu á liðnu ári.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.12.2007 kl. 07:33

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Gleðilegar hátíðir Guðrún María.

Svanur Sigurbjörnsson, 31.12.2007 kl. 10:35

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Jón Steinar.  Sammála.  (He he "taka orminn"!)

Já baráttan fyrir hinu góða lífi heldur áfram.  Ekki aumt að eiga þig að í baráttunni kæri vinur.  Gleðilegt nýtt ár!

Svanur Sigurbjörnsson, 31.12.2007 kl. 10:38

5 Smámynd: Morten Lange

Frábær grein hjá þér, Svanur. Ég  flétti til gamans up p"Humanism"  í ensku Wikipediunni. Ég verð yfirleitt ekki fyrir vonbrigði með fræðandi efnið  sem ég finn þar, þó að Wikipedia hafi sína galla líkt og flest alfræðirit og rit og miðlar yfir höfuð.  Mæli  með þessa grein um siðferði líka.  Hér er grein úr New Scientist, opin fyrir "Íslenska internetið", kölluð ýmist What good is God, eða "The origins of Faith"  eftir Helen Philips,  1.sept 2007, bls 32-

Svo má lesa um rannsókn gerð á siðgæði vesturlanda með stórt eða lítið hlutfall sem trúa á helviti. Í Wikipedia er grein um siðferði (Morality) sem undirstrikir / heldur því fram, að það sé trúin á djöfla og helviti sem virðist "hættuleg" en ekki kristni eða trú sem slíkur.  Biðst forláts ef ég nota orðið siðferði rangt hér...

Morten Lange, 31.12.2007 kl. 13:36

6 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Ef þið hafnið allri trú, hvernig getið þið þá tekið þátt í gagnrýninni umræðu ef sá sem þið rökræðið við er einhver sem á að þurrka út af yfirborði jarðarinnar, að ykkar mati? Er enginn möguleiki á að lifa með hvor öðrum?

Magnús V. Skúlason, 31.12.2007 kl. 16:05

7 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Flott grein hjá þér Svanur og velkominn heim (þó ég sé nú ekki sjálf heima).  Ég leyfi mér að svar Magnusi aðeins.

Magnús! þó að ég trúi ekki á guð, dettur mér ekki til hugar að troða mínni lífssýn uppá aðra eða taka af trúuðum sinn rétt til að trúa á Guð. Hitt er annað mál að ég sé ekki hvers vegna trúaðir eiga að hafa einhvern forgang á aðra. Eg hef ekki orðið vör við að þeir sem trúa á álfana í Hafnarfirði gangi á rétt neinna. Mér finnst ekki að kristnir eigi að gera það heldur. Eg hef ekki heyrt álfatrúarmenn kvarta undan yfirgangi trúlausra. Yfirleitt eru engir að kvarta undan trúlausum á Íslandi nema kristnir. Allir hinir virðast lifa í sátt og samlyndi.

Ásta Kristín Norrman, 31.12.2007 kl. 17:43

8 identicon

þú skrifar; Hins vegar hafa ekki nema örfáir trúarleiðtogar verið í forsvari fyrir manngildishyggju og miklu oftar barist gegn straumum frelsis og manngildis...

Jesús, Móðir Teresa, Gandhi, Biskup Tutu og svo mætti lengja telja þá trúarleiðtoga sem barist hafa fyrir frelsi og auknum manngildum einstaklingsins.. og í sumum tilvikum goldið lífi sínu fyrir..

Það er þessi einhliði og oft a tíðum öfgafulli málfluntingur þinn Svanur sem mér finnst oft vera hreint og beint rætinn og ósangjarn  ..

Björg F (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 03:20

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Morten.  Góðir hlekkir. 

Sæll Magnús Viðar.  Þó að ég telji trú ekki góða hugmynd til að lifa eftir þá er langt í frá að legga það að jöfnu við að maður vilji "þurrka [trúaða] út af yfirborði jarðar".  Manngildishugsjónin gengur út á sjálfræði og þ.á.m. trúfrelsi þannig að ég virði rétt fólks til að trúa á hvað sem það vill.  Frelsi er þó aldrei algjört því við búum í samfélagi og því getur frelsi okkar aðeins gengið svo langt að það skerði ekki frelsi annarra.  Þá þurfum við einnig að gera ýmsa hluti sameiginlega eins og að halda skólakerfi, heilbrigðiskerfi og dómskerfi og þar verður grunnurinn að vera veraldlegur, þ.e. óháður trúarlegum merkimiðum, til þess að mismuna engum og halda athyglinni að málefnumum sjálfum.

Takk Ásta.  Gleðilegt ár í Sverige!  Sammála þér.

Sæl Björg.  Í fyrsta lagi þarf að hafa á hreinu hverjir eru trúarleiðtogar og svo annars vegar hverjir hafa verið í forsvari fyrir manngildishyggju og hvernig við skilgreinum þessi hugtök.  Gandhi var pólitískur leiðtogi Indverja í sjálfstæðisbaráttu þeirra en ekki trúarleiðtogi enda ekki prestur eða í forsvari fyrir trú.  Jesú var fyrst og fremst trúarleiðtogi en ekki í forsvari fyrir manngildishyggju þó að ýmislegt í kenningum hans samræmist henni.  Miðað við siðferði gríska Stóismans á 1. öld var siðferði Jesú eins og hún er rituð í Biblíunni, minna húmanísk en miðað við margt annað á þessum tíma var hún meira húmanísk.  Móðir Theresa varð fræg fyrir mannúðarstarfsemi (sem er þó umdeild), en það er ekki það sama og manngildisstefna þó að hún rýmist innan hennar að sjálfsögðu.  Hún var eins konar trúarleiðtogi en ekki í forsvari fyrir manngildishyggju (húmanisma).  Martin Luther King Jr.  finnst mér komast næst því að teljast sem trúarleiðtogi (var prestur) sem einnig var í forsvari fyrir mjög mikilvægum húmanískum gildum, þ.e. jafnrétti og frelsi.  Desmond Tutu sem þú nefnir gæti einnig talist þarna til en hann er ég segi það með fyrirvara því ég þekki ekki mikið til hans.

Mér þætti vænt um að þú sparir stóru orðin Björg.  Ef þú ætlar að kalla málflutning minn "öfgafullan, rætinn og ósangjarn .." bið ég þig að færa fyrir því góð rök.  Það eru stór orð og alvarleg að saka mann um rætni því það felur í sér illkvitni eða meinfýsni. Þegar fjallað er um söguleg málefni er oft komið á hálan ís og maður verður að vera viss um skilgreiningar og hafa góða yfirsýn.  Ég er ekki sagnfræðingur og get sannarlega haft rangt fyrir mér í sögulegum efnum.  Hins vegar hef ég verið að lesa heilmikið um þessi efni undanfarnar vikur og er því ekki að koma með fullyrðingar út í loftið.

Svanur Sigurbjörnsson, 1.1.2008 kl. 12:44

10 identicon

Kæri Svanur: Rökin felast í skrifum þínum og minni upplifun af að lesa þau. Það er eitt að standa í rökræðum og annað að standa í kappræðu.. þar sem sá sem talar.. hlustar ekki á mótherjan heldur reynir að finna enn betri rök til að klekkja á rökum hins.. slík rökleysa er til óþurftar.

Heimurinn er ekki bara svartur eða hvítur Svanur, hann er líka grár, blár og allt þar á milli. Það að boða umburðarlyndi er til lítils ef maður stundar hana ekki sjálfur.. 

Kær kveðja

Björg F (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 03:44

11 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Þakka góða grein,

Erna Bjarnadóttir, 2.1.2008 kl. 10:29

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Björg

Ég hef lesið vandlega það sem þú skrifar og þannig "hlustað" eins og mér er frekast unnt.  Við hverju ertu að búast sem svari? Að ég fallist sjálfkrafa á fullyrðingar þínar og ásakanir um rætinn tilgang með skrifum mínum?  Er ekki nema eðlilegt að maður færi frekari rök fyrir máli sínu?  Rök mín eru ekki til að "klekkja á" neinu, heldur til að verja það sem ég tel sannast og þá í leiðinni mitt eigið mannorð því ef fólk trúir skrifum þínum hér Björg, þá hlýt ég að vera ákaflega illgjarn, dómgreindarlaus (svart-hvítur) og öfgafullur (og margt fleira slæmt sem þú hefur gefið í skyn). 

Ég hef talsvert aðra sýn á heiminn en þú Björg.  Ég gagnrýni þær hugmyndir sem mér finnst standa mannkyninu fyrir þrifum og þá einhliða og röngu söguskoðun sem forysta þjóðkirkjunar heldur uppi.  Menntakerfið hefur ekki staðið sig sem skyldi að kenna hugmyndasöguna sem innifelur bæði heimsspeki (í hennar víðasta skilningi) og trúarbrögð (frá fræðilegu sjónarmiði).  Þessa menntun verður maður að verða sér úti um sjálfur að mestu leyti, a.m.k. til að fá einhvern almennilegan skilning á málunum.

Svanur Sigurbjörnsson, 2.1.2008 kl. 11:08

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Bestu þakkir Erna.  Ég þigg bloggvinaboð þitt. 

Svanur Sigurbjörnsson, 2.1.2008 kl. 11:10

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Jón Steinar

Því miður virðast hærri menntastigin ekki laus við trúboð þó að hún sé ekki frá venjulegum trúfélögum. Mér var bent á t.t.l. nýtt félag sem kallast "Ný kynslóð" og hefur eftirfarandi lýsingu á sér á vefsíðu sinni:

"Velkomin/n á heimasíðu Nýrrar kynslóðar, róttækra, kristilegra skólasamtaka sem telur um 200 Íslendinga og yfir 18.000 meðlimi í Skandinavíu."

Á síðunni þeirra er eftirfarandi trúarjátning:

  1. Guð: Það er aðeins einn sannur Guð, þríeinn Guð sem samanstendur af föðurnum, syninum og heilögum anda. (Post. 10:38, Matt. 3:16-17, Matt. 28:18-20)
  2. Frelsið:  Við erum frelsuð ef við játum með munni okkar að Jesús er Drottinn og trúum í hjarta okkar að Guð hafi reyst hann upp frá dauðum. (Róm.10:1-10, Jóh. 1:12, Efes. 2:18)
  3. Skírn:  Við látum eftirfarandi málefni alfarið í hendur hverrar kirkjudeildar fyrir sig.
  4. Heilagur andi: Við trúum því að allir kristnir geti fyllst af heilögum anda og meðtekið gjafir frá Guði til þess að útdeila og þjóna.
  5. Lækning; Við trúum því að Guð lækni á okkar tímum, á sama hátt og á dögum Jesú og postulanna. (Hebr. 13:8)
  6. Trúboðsskipunin: Helsta markmið kristins einstaklings er að uppfylla trúboðsskipunina og prédika fagnaðarerindið öllu mannkyni (Mark. 16:15-20, Matt. 24:14, 28:18-20, Post 1:8)
  7. Kirkjan: Allir kristnir ættu að vera hluti að staðbundinni kirkju. (Matt.16:18, Hebr.10:25)
  8. Endurkoma Jesú Krists: Jesús mun koma brátt, og allir sem trúa á hann munu verða hrifnir upp til fundar við hann í skýjunum. (1.Þess. 4:15-17)
  9. Biblían er orð Guðs. Hún er óskeikul, innblásin af Guði og vilji hans er opinberaður í orðinu.  (2.Tím. 3:16)

Þetta eru greinilega bókstafstrúarsamtök.  Sérstaklega eru atriði nr 5, 8 og 9 sláandi. ("[Biblían] er óskeikul"!!!)  Nú er spurningin hvað þau fá mikið að athafna sig í skólunum.  Þetta er alvarlegt mál.

Svanur Sigurbjörnsson, 2.1.2008 kl. 17:55

15 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Reyndar sýnast mér þessi samtök ekkert tengjast hinu opinbera neitt, og því má spyrja sig hvort þau megi ekki athafna sig í skólunum jafnmikið og t.d. bankarnir og aðrir einkaaðilar.

Vildi annars þakka fyrir frábæra grein. 

Kristján Hrannar Pálsson, 2.1.2008 kl. 20:23

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er að vísu þekkt á efri menntastigum að Vottar, Mormónar og fleiri trúarkölt, senda sitt fólk í skóla einvörðungu í þeim tilgangi að fanga sálir.  Þetta er einhverskonar flugumennska og í stíl við þessa vitfirringu alla saman.  MIkilvægast er þó að aðskilja ríkisverndað trúboð frá menntastofnunum, svo mætti hreinlega setja viðurlög við trúaráreiti.  Á sama hátt ætti að halda pólitískum áróðri út úr skólum að fremsta megni.  Kennarar hafa fengið ákúrur fyrir það að boða pólitíska sannfæringu sína í skólum, sama 'a auðvitað að gilda um hverskonar trúarbragðaáreiti.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.1.2008 kl. 00:51

17 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kristján Hrannar,

Já, það er merkilegt að stofnun sem vill alls ekki láta kalla sig ríkiskirkju (þó hún sé reyndar nefnd svo fullum fetum á Wikipediu) telji sig hafa einhvern rétt á að koma sínum boðskap að innan ríkisrekna skólakerfisins...??? Þarna skýtur skökku við. Þjóðkirkjan er alls ekki samkvæm sjálfri sér í þessu efni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.1.2008 kl. 16:09

18 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Hins vegar þykja mér tilraunir Siðmenntar-fólks til þess að eigna trúleysingjum "einkarétt" á húmanisma fráleitar, og álíka heimskulegar og tilraunir sumra trúaðra til að eigna sér viðlíka einkarétt á Guði. Hvort tveggja þykir mér bera vott um einstrengingslegan og staðnaðan hugsunarhátt, þar sem menn loka augunum fyrir eða hreinlega gera sér ekki grein fyrir þeim miklu víddum sem finnast í sálarlífi mannsins.

Greta Björg Úlfsdóttir, 3.1.2008 kl. 17:08

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Maður komst ekki inn í svarkerfið í dag vegna spam-árása á bloggkerfi mbl.is

Ég tek undir hugleiðingar ykkar Kristján Hrannar og Jón Steinar. 

Sæl Gréta Björg. 

Það er enginn einkaréttur á húmanisma.  Getur þú bent á þessar "tilraunir Siðmenntar-fólks til að eigna trúleysingjum einkarétt á húmanisma", sem þú nefnir?  Áður en þú ferð að fullyrða um að eitthvað sé heimskulegt er rétt að þú útskýrir betur hvað þú átt við. 

Grein mín hér að ofan skýrir það út að húmanískar hugmyndir hafa verið meðal trúmanna, þannig að undarleg túlkun Sigurðar var óþörf.   Mikilvægur hluti af húmanisma er að nota hyggjuvit sitt og prófa hluti áður en þeim er trúað.  Fáfræði, dulhyggja og hindurvitni er nokkuð sem passar ekki inní hugmyndafræði húmanismans. 

Húmanismi rúmast innan trúarbragða sem betur fer, en af hverju eru þau ekki kennd við hann?  Gæti það verið af því að guðtrúin setji guðhugmyndina ofar manninum?  Hlustaðir þú á predikun Karls Sigurbjörnssonar biskups í jólamessu í Háskóla Íslands á dögunum sem var útvarpað beint frá RÚV? (finnst kannski enn á netinu)  Þar talaði hann með fyrirlitningu um þann hóp manna sem setti manngildið ofar öllu. 

Forngrikkin Protagoras sagði: "antropas metron panton" eða "Maðurinn er mælikvarði allra hluta" og var þannig að vísa til hyggjuvits hans og skynsemi og að hann þyrfti ekki hjálp ytri afla.  Hin húmaníska siðferðishugsun byggir á þessu, þ.e. að manneskjan skapi sín eigin örlög og taki ein ábyrgð á hugsun sinni og gerðum.  Góðmennska (altruism) húmanismans byggir á því að frjáls manneskja ákveði að gera öðrum gott vegna þess að það er skynsamlegt og færa má rök fyrir því að það verði öllum til góða, líka manni sjálfum.  Frjáls manneskja (frá ytra boði og bönnum) fylgir eigin siðferðisramma og sýnir frjálsan siðferðisvilja með því að ganga stundum á móti frumhvötum sínum eða aga þær.  Kristnin boðar aftur að manneskjan sé "fallin" og þurfi frelsun til að bjargast.  Einungis með því að fylgja boði Guðs mun sú frelsun nást og góðu hlutina skal gera til að fá verlaun á himnum ellegar hljóta refsingu í formi reiði guðs (útskúfun safnaðar) eða vist í helvíti.  Samkvæmt kristinni kenningu er manneskjan skynlaus og siðlaus nema að hún fylgi guði.  Hér er því ekki um að ræða frjálsa manneskju með frjálsan vilja, sem er í miðju húmanismans og talið lykilatriði fyrir siðferðislegri ábyrgð og þroska.  Hugsuðurnir og heimsspekingarnir David Hume og John Stuart Mill (Frelsið)  rökstuddu þetta mjög ítarlega á 19. öld og verk þeirra höfðu mikil áhrif.   Það þarf þó ekki heimsspeking til að komast að þessari niðurstöðu í sjálfu sér.  Venjuleg manneskja notar hyggjuvit sitt og náttúrulega tilhneigingu til siðferðislegrar hugsunar án djúps rökstuðnings.  Það er á færi nær allra sem betur fer.  Þetta er kristnin ekki tilbúin að viðurkenna (nema þegar það hentar henni) því samkvæmt henni þarf alltaf leiðbeiningu guðs.  Vegna þessa hefur það fólk sem virkilega er trúað á þessa hluti fyllst miklu óöryggi og ótta við að úr leik- og grunnskólalögunum eigi að taka út trúarlega merkimiðann "kristilegt siðgæði".   Í kjölfarið hefur það kallað húmanista "öfgafullan minnihlutahóp með frekjugang" eða "hatramman" eins og biskupinn komst að orði. 

Vinsamlegast kynntu þér húmanisma betur Gréta Björg t.d. með því að panta einhverja góða bók af netinu um efnið.  Ég get bent þér á góða titla ef þú hefur áhuga.  Það er því miður erfiðleikum háð að finna heilsteypta íslenska bók um húmanisma enn sem komið er. 

Svanur Sigurbjörnsson, 3.1.2008 kl. 23:39

20 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Flott Svanur..aldrei hafði ég í æsku minni ímyndað mér Siðmennt FLOTTARI EN BUBBA MORTHEINS.....en nú hefur hann heldur betur í mínum augum upplýst sina vanþekkinkingu...ok...flott. en Bubbi M. veit ekki allt og ekki prestarnir í geldingatoninum heldur...

takk 

siðmennt er flottari en BUBBI MORTHENS...

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.1.2008 kl. 00:52

21 Smámynd: Sigurjón

Það má setja þetta í eina setningu: Við þurfum ekki einhvern guð til að vera góð við og umbera hvert annað.

Skál! 

Sigurjón, 4.1.2008 kl. 01:21

22 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já....sigurjón! einmitt!!!!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.1.2008 kl. 01:30

23 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég endurtek hér þessar setningar sem ég skrifaði hér áður:

"Hins vegar þykja mér tilraunir Siðmenntar-fólks til þess að eigna trúleysingjum "einkarétt" á húmanisma fráleitar,"

Ertu að halda því fram að þú hafir ekki sagt þetta hérna:

"Þau alþjóðasamtök sem s.l. 56 ár hafa borið nafn húmanismans, International Humanist and Ethical Union (IHEU), hafna hindurvitnum og þ.á.m. trú á guði. Almennt þegar talað eru um samtök húmanista og húmanisma er átt við IHEU og þann húmanisma sem þar er haldið á lofti. Siðmennt er aðildarfélag að þeim. Hinn venjubundni húmanismi nútímans er trúlaus og þar liggur mín skírskotun. "

Síðan sagði ég: 

 "og álíka heimskulegar og tilraunir sumra trúaðra til að eigna sér viðlíka einkarétt á Guði. "

Eins og ég sagði hér fyrr Svanur, þá tel ég ekki að kristnir, Gyðingar eða múslimir eigi neinn einkarétt á Guði, eða hafi leyfi til að alhæfa um hver eða hvað hann sé. Þess vegna er ég alls ekkert yfir mig hrifin af því sem þú vitnar í að sr. Karli. hafi sagt í prédikun, eða það sem þú rifjar upp af úreltum kristnum trúarhugmyndum.

Ég vil minna þig á að fleiri eru trúaðir en hinir kristnu:

Til dæmis hindúinn Mohandas Gandhi, sem barðist staðfastlega fyrir mannréttindum landa sinna. Einnig búddistinn Dalai Lama, sem hefur þurft að dvelja langdvölum í útlegð, vegna yfirgangs kínverskra stjórnvalda gegn honum og löndum hans. Má segja að hans líf hafi verið ein samfelld mannréttindabarátta.

En þrátt fyrir fyrri orð mín um einstefnu sumra kristinna manna má einnig finna meðal þeirra menn sem þekktir hafa orðið fyrir ötula baráttu fyrir velferð og réttindum þeirra sem minna mega sín, til dæmis: Kristna biskupinn Desmond Tutu, sem nú síðast var kallaður til Nairobi til að reyna að miðla málum í hinu erfiða stjórnmálaástandi sem komið er upp þar. Hinn kristni Albert Schweitzer, sem fórnaði blómlegum ferli sem fræðimaður og tónlistarmaður til að starfa meðal snauðra í Afríku. Og fleiri mætti tína til, af nógu er að taka.

Vaflaust getur þú að sama skapi tínt til trúlausa húmanista, það er þá bara gott. En ég vildi sýna þér fram á með framangreindri upptalningu að þeir menn eru ekki einu menn í heiminum sem hafa húmanisma í heiðri. Samtökin sem þú nefnir, International Humanist and Ethical Union, sem hafna trú sem hindurvitnum, eru þó þau kalli sig þessu nafni, langt í frá einu samtökin sem geta kallast húmanistisisk. Að halda slíku fram er mikil einfeldni.

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 02:14

24 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Nokkrir fleiri þekktir kristnir húmanistar:

Florence Nightingale sem starfaði samkvæmt því sem hún áleit vera kristna köllun sína (Christian divine calling), og er frægust fyrir að berjast fyrir því að særðir hermenn í Krímstríðinu fengju hjúkrun á vígvellinum. Það verður að kallast verkefni í anda húmanisma, ef eitthvað getur kallast slíkt.

Kalvínistinn Jean Henri Dunant, sem átti upprunalegu hugmyndina að alþjóðlegu líknarsamtökunum (international humanitarian movement )  Rauða Krossinum og Rauða hálfmánanum (sem starfar í íslömskum löndum.

Kaþólikkinn Peter Benenson stofnaði Amnesty International

Þetta stendur í Wikipediu um húmanisma og trúarbrögð (þessi gein hefur ekki verið véfengd þar, að minnsta kosti ekki ennþá):

"Humanism clearly rejects deference to supernatural beliefs in resolving human affairs but not necessarily the beliefs themselves; indeed some strains of Humanism are compatible with some religions. It is generally compatible with atheism and agnosticism but doesn't require either of these." 

Þetta segir á sama stað um sögu húmanismans:

"Contemporary humanism can be traced back through the Renaissance back to the Islamic Golden Age to its ancient Greek roots. Humanism can also be traced back to the time of Gautama Buddha563-483 BCE) and Confucius (551–479 BCE) and the Warring States Period, though the term "humanism" is more widely associated with Western philosophers." 

Nokkrir húmanistar frá endurreisnartímanaum (renaissance):

"Noteworthy humanists scholars from this period include the Dutch theologist Erasmus, the English author (and Roman Catholic saint) Thomas More, the French writer Francois Rabelais, the Italian poet Francesco Petrarch and the Italian scholar Giovanni Pico della Mirandola."

Nútíma hugmyndir um húmanisma: 

"There are many people who consider themselves humanists, and much variety in the exact type of humanism to which they subscribe. There is some disagreement over terminology and definitions, with some people using narrower or broader interpretations. Not all people who call themselves humanists hold beliefs that are genuinely humanistic, and not all people who do hold humanistic beliefs apply the label of humanism to themselves.

All of this aside, Humanism can be divided into secular and religious types, although some Humanists, including the International Humanist and Ethical Union, reject the addition of any adjective at all to "Humanist," and instead intended the word to have universal application."

"In 1941 the American Humanist Association was organized. Noted members of The AHA included Isaac Asimov, who was the president before his death, and writer Kurt Vonnegut, who followed as honorary president until his death in 2007. Robert Buckman was the head of the association in Canada, and is now an honorary president."

"Sekúlar" húmanismi:

"Some Humanists prefer the term Humanist (capital H, and no adjective), as unanimously endorsed by General Assembly of the International Humanist and Ethical Union following universal endorsement of the Amsterdam Declaration 2002.

The secular humanist movement, by that name, hardly existed prior to 1980. In 1979, Paul Kurtz lost his position as editor of The Humanist. Departing the American Humanist Association, he then launched his own publication, Free Inquiry, and founded the Council for Secular Humanism independently of the American Humanist Association yet pursuing essentially similar goals."

 *Allar leturbreytingar eru mínar. 

Wikipedia: Húmanismi

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 04:09

25 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Rithöfundurinn Kurt Vonnegut var heiðursforseti  American Humanist Association (AHA) til dauðadags 11. apríl, 2007. Hann hafði þetta að segja um Guð: 

"If I should ever die, God forbid, let this be my epitaph:
THE ONLY PROOF HE NEEDED
FOR THE EXISTENCE OF GOD
WAS MUSIC

  • As quoted in "Vonnegut's Blues For America" Sunday Herald (7 January 2006)"

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 04:34

26 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Sæl Greta

þú gerir athugasemd við ríkiskirkju og skólafyrirkomulagið sem er örugglega kaldhæðni (er það ekki annars?) að þjóðkirkjan eigi að fá greiðan aðgang í skólunum því bæði séu jú ríkisreknar stofnanir. Það eitt og sér gæti verið réttlætanlegt en leynist þó sá ljóður á að réttmæti ríkisrekinnar kirkju þyrfti þá að draga stórlega í efa.

Fjölmörg sterk rök eru fyrir því að skólakerfið ætti að vera hlut- og merkimiðalaust þegar kemur að uppfræðslu (ásamt hlutlausri trúarbragðafræðslu), hvort sem ríkiskirkja er í því landi eða ekki.

Kristján Hrannar Pálsson, 4.1.2008 kl. 18:59

27 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Gréta

Þú leggur talsverða vinnu í færslur þínar hér að ofan.  Takk fyrir það.

Hins vegar á ég erfitt með að skilja hvert þú ert að fara með máli þínu.  Áttu við að ég sé að segja að IHEU og Siðmennt eigi einkarétt á þeirra skilgreiningu á húmanisma?  Skilgreining þeirra er sú sem ég og fjölmargir aðrir telja innihalda allt það sem mikilvægast er að telja innan húmanískrar hugmyndafræði og gefa engan afslátt þar á. 

Þú segir Gréta:  "Samtökin sem þú nefnir, International Humanist and Ethical Union, sem hafna trú sem hindurvitnum, eru þó þau kalli sig þessu nafni, langt í frá einu samtökin sem geta kallast húmanistisisk."

Rétt hjá þér.  Önnur samtök geta verið húmanistísk þar sem þau aðhyllast að hluta til húmanískar lífsskoðanir en þau eru þar með ekki orðin að samtökum húmanista.  Eins og ritað er á síðunni sem þú vitnar í á Wikipediunni, eru til ýmis afbrigði af húmanískum samtökum, m.a. þau sem kalla sig "trúarlegan húmanisma" (religious humanism).  Bæði samtök og einstaklingar hafa aðhyllst húmanískar hugsjónir (þar sem manngildið er í heiðri haft) en jafnframt haft ýmsar skoðanir sem ekki rúmast innan skilgreiningar svokallaðra secular eða ethical humanist félaga eins og IHEU/Siðmennt.  Fyrir mér eru slík samtök bara hálf bökuð kaka og fullnægja ekki því sem ég tel húmanisma í sinni bestu og fyllstu mynd.   Ég vil þó ekki draga úr mikilvægi því góða sem samtök eins og "jewish humanism" eða "christian humanism" hafa gert, heldur benda á að ég telji secular humanism þann eina sem í dag á skilið að bera heitið "humanist organization or individual".  

Setninging sem þú vitnaðir í hér að ofan, "Not all people who call themselves humanists hold beliefs that are genuinely humanistic, and not all people who do hold humanistic beliefs apply the label of humanism to themselves." lýsir ágætlega ástandinu.

Mér er full kunnugt um að það eru fleiri trúaðir en kristnir.  Ég skil ekki hvers vegna þú telur þörf á því að telja upp slíka aðila. 

Ég var einnig búinn að minnast á kristna húmanista í grein minni eins og Desederius Erasmus.  Hefurðu gaman af því að telja upp fleiri til upplýsingar eða ertu að reyna að sýna fram á eitthvað sem hefur ekki verið sagt nú þegar?  

Þú nefnir fullt af fólki sem hefur unnið að mannúðarstarfi en það er ekki sérstaklega þekkt fyrir að vera húmanistar.  Athugaðu að það er munur á því að vera humanitarian (mannúðarsinni) og húmanist (manngildissinni).  Ef þú vilt kalla alla sem eru þekktir af einhverjum góðverkum húmanista ertu að nota hugtakið í mun lauslegri skilningi en veraldlegir húmanistar nota það.  Mannúð er hluti af manngildishugsjóninni en alls ekki hið eina og það þarf meira til, til að teljast húmanisti eins og þú getur lesið á Wikipediunni.  Ég geri því greinamun á því að fólk getur gert eitthvað í anda húmanisma (húmanistískt) en er ekki endilega húmanistar. 

Orð eru þó aðeins tæki og mér sýnist að þú og ýmsir trúaðir vilji nota miklu víðari skilgreiningu á húmanista í nútímanum.  Þannig kallaði Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir sig húmanista í sjónvarpsviðtali, en hún er það ekki fyllilega í mínum huga þar sem hún er trúuð.  Kallaðu mig "einstrengislegan" fyrir vikið en það breytir ekki þessari skoðun minni. 

Þú segir "Eins og ég sagði hér fyrr Svanur, þá tel ég ekki að kristnir, Gyðingar eða múslimir eigi neinn einkarétt á Guði, eða hafi leyfi til að alhæfa um hver eða hvað hann sé."

Er punktur þinn sá að ég hafi ekki einkarétt á því að skilgreina hvað húmanismi eða húmanisti er?  Málið kemur ekkert einkarétt við.  Ég hef frelsi til að að búa til mínar eigin skilgreiningar eða aðhyllast ákveðnar skilgreiningar annarra.  Telji ég þær skynsamlegar og gagnlegar til að útskýra hluti og aðgreina flokk lífsskoðana frá öðrum, þá tek ég þær upp á mína arma og ver þær þar til annað reynist sannara.   Stundum þarf að berjast fyrir ákveðinni notkun á hugtökum til að koma í veg fyrir loðin mörk og vernda ákveðna hugmyndafræði.  T.d. er algengt að fólk misnoti trúarhugtakið og segi trúlausa trúaða.  Slíkt er náttúrulega fáfræði og rökleysa og verður að leiðrétta.  Það kemur ekkert "einkarétti" við.

Læt þetta duga.  kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 4.1.2008 kl. 21:43

28 identicon

Æi - af hverju mega þessir hlutir ekki bara vera eins og þeir hafa verið?

Mér finnst svo margt annað sem væri meira áríðandi að beina orku sinni í að lagfæra.

Ása (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 22:03

29 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Ása Gréta

Bókstafstrú er það afl í heiminum í dag sem er mesta ógnin við frið í heiminum og viðheldur fátækt, óvarlegri fólksfjölgun og misrétti kynja og stétta.   Viltu viðhalda því?

Í tilviki Íslands er einnig hægt að gera betur þó að hér sé ekki stríðsástand.  Trú viðheldur fornum kreddum og viðhorfum hér eins og annars staðar.  Siðferði og framfarir á svo mörgum sviðum hanga á sömu spítunni.  Barátta gegn hindurvitnum er mikilvæg til að forðast slæm bakslög í þróun betra þjóðfélags.

Þess vegna mega hlutirnir ekki bara vera eins og þeir hafa verið.  Við getum gert svo miklu betur.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.1.2008 kl. 23:15

30 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kristján Hrannar,

Af hverju hlýtur athugasemd mín að vera meint sem kaldhæðni?

Ég bendi aðeins á ósamræmið í málflutningi þjóðkirkjupresta, þegar þeir annars vegar neita því staðfastlega að þjóðkirkjan sé ríkiskirkja, en halda því hins vegar fram að það sé fullkomlega eðlilegt að prestar hennar sinni fræðslustarfi innan veggja ríkisrekinna skóla og að því er virðist trúboði, í mörgum tilvikum?

Þar með er ég ekki endilega að segja að það væri fullkomlega eðlilegt heldur, þó það væri viðurkennt að kirkjan sé ríkiskirkja. Ég á satt að segja ekki von á því að kirkjan hlypi upp til handa og fóta og vilji endilega gerast (aftur) ríkiskirkja, þó augu hennar lykjust upp fyrir þessu misræmi. 

Ég fæ ekki séð neinn kaldhæðnisbrag á þeirri ályktun minni að þarna sé um ósamræmi í málflutningi að ræða. Skil eiginlega ekki hvernig þú færð það út. 

Svanur,

Mig langar til að reyna að svara þér seinna, en til þess þarf ég meiri tíma og umhugsun. Nú er víst kominn háttatími; þó löngu athugasemdirnar tvær + grafskrft Vonnegut (ein af mörgum) hafi að vísu verið skrifuð inn í gærnótt, þá ætla ég að sofa betur í nótt! 

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 23:47

31 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég fann fyrir tilviljun að Gréta Björg hafði skrifað heila bloggfærslu um þessa grein mína á bloggi hennar og þar fæ ég ýmsar sneiðar sem hún sleppti í athugasemdum sínum hér að ofan.  Ég skrifaði "maraþonsvar" á blogg hennar til frekar áréttingar á skrifum mínum og birti hér að neðan:

---

 

Sæl Gréta Jóna

Ekki vissi ég að þú værir búin að gera grein úr svari þínu á blogginum mínu.  Allt er hérna nema nokkrar vel valdar viðbætur eins og sneiðin "Ósköp fylgist hann Svanur nú illa með nútímanum" vantar í athugasemdina á blogginu mínu. 

Svo birtir þú ekki svar mitt hér að ofan en aðeins þína túlkun á því, kallar það "samsuðu" og gerir lítið úr þekkingu minni á nútímanum.   Þetta finnst mér ekki vera ábyrgur málflutningur. 

Þú bloggaðir um að Jón Valur hefði bannað þig á blogginu sínu.  Ég verð að segja að ég finn til samkenndar við Jón Val ef þú hefur beitt hann einhverju svipuðu, en hins vegar er nú almennt best að loka ekki á fólk þó að einhverjar móðganir eigi sér stað (viljandi eða óviljandi).  Þá skýtur einnig skökku við ef einhver bannar annan en vill svo taka þátt sjálfur í umræðum hjá þeim sem hann/hún bannaði.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér bækur um guðfræði aðrar en Biblíuna, Kóraninn og ýmsar bækur sem taka saman upplýsingar um trúarbrögð heimsins.  Í Indlandsferð minni í desember lærði ég marg um Hinduisma og Jainisma ásamt ýmsu um hegðan íslömsku "mughalanna" sem réðu Indlandi í nokkrar aldir.  Öll þau guðfræði sem ég hef lært í skóla, lesið á vef Þjóðkirkjunnar tru.is, heyrt frá í ræðum þjóðkirkjupresta, Gunnars í Krossinum, predikara í USA og á Omega, hefur ekki vakið það mikinn áhuga hjá mér að ég telji tíma mínum vel varið í að lesa sérstaka bók um efnið.  Ég hef lesið að mestu bókina "When Religion Becomes Evil" (2002) eftir guðfræðinginn Charles Kimball, en sú bók er á leslista eins kúrs í Guðfræðideild HÍ, merkilegt nokk. 

Ég hef svarað þessu með einkaréttaráhyggjur þínar á blogginu mínu og ætla ekki að endurtaka það með sömu orðum hér.  Hins vegar ætla ég að bæta aðeins við nokkrum athugasemdum.

Við getum lengi deilt um keisarans skegg hér, en viðfangsefnið snýst um skilgreiningu nútímans á hugtökunum húmanismi, húmanistískt og humanisti.  Ég hef engan einkarétt á orðnotkun en reyni að nota þau skynsamlega.  Þú þarft ekki að vera sammála mínum skilgreiningum en ég bið þig um að spara lýsingarorð um heimsku þar til þú hefur skilið betur afstöðu mína og húmanista sem eru á sama máli.  Tökum tilvitnun þína sem dæmi.

"Humanism clearly rejects deference to supernatural beliefs in resolving human affairs but not necessarily the beliefs themselves; indeed some strains of Humanism are compatible with some religions. It is generally compatible with atheism and agnosticism but doesn't require either of these." (þínar leturáherslur)

Hvað er átt við "the beliefs themselves"?  Augljóslega ekki trú á yfirnáttúru því fyrri hluti setningarinnar hafnar henni.  Þetta er frekar óljóst og býður upp á misskilning. Hér er trúlega átt við moral believes, þ.e. að húmanisminn geti farið saman með ýmsum siðferðisgildum trúarbragða (t.d. "ekki stela, ekki myrða o.s.frv.).

Skoðum tilvitnina með öðrum leturáherslum:

"Humanism clearly rejects deference to supernatural beliefs in resolving human affairs but not necessarily the beliefs themselves; indeed some strains of Humanism are compatible with some religions. It is generally compatible with atheism and agnosticism but doesn't require either of these."

Hér er verið að benda á að "some strains" þ.e. sumir þættir húmanismans sé samrýmanlegur sumum trúarbrögðum.  Þetta er ekki útskýrt frekar í málsgreininni og er því útsett fyrir alls kyns vangaveltur og túlkanir.  Í því sem ég hef lesið og heyrt frá fræðimönnum um húmanisma, þá er hér væntanlega átt við guðlaus trúarbrögð eins og búddisma og jainisma. 

Síðasta setningin: "It is generally compatible with atheism and agnosticism but doesn't require either of these."  Þetta þýðist svona: "[húmanisminn] er almennt samrýmanlegur við guðleysi og agnostikisma, en setur hvorugt sem skilyrði".  Væntanlega er sá höfundur sem skrifar þetta í Wikipediuna að vísa til þess að húmanísk hugmyndafræði hafi víða skírskotun og að margir telji að trúarhugmyndir í bland við húmanískar sé ekki útlokun á því að kalla blönduna húmanisma og þá sem því fylgja, væntanlega húmanista. 

Þetta hljómar rökrétt ef við t.d. tökum sem dæmi hugtakið vísindamaður.  Margir vísindamenn sögunnar hafa iðkað eitthvað sem síðar kom í ljós (eða var jafnvel vitað þá) að voru alls engin vísindi.  Þannig var Newton t.d. á kafi í t.d. gullgerð og daðraði við dulhyggju en verður samt að teljast vísindamaður, jafnvel með stórum staf!  Hins vegar verður skilgreiningin á vísindum aldrei tengd gullgerð eða dulhyggju.  Það má því segja að hann var vísindamaður í sumu en ekki öðru. 

Málssvarar endurreisnarinnar og svo upplýsingarinnar voru kallaðir húmanistar þó að þeir væru margir trúaðir einnig.  Ákaflega fáir opinberuðu trúleysi sitt á þessum tímum því við því lá útskúfun eða hreinlega aftaka á bálkesti.  Þessi húmanistar voru börn síns tíma og í dag hefur hugmyndafræði húmanismans þróast verulega.  Menn eins og John Stuart Mill, David Hume og Bertrand Russell lögðu þar mikið til.  Í dag eru þeir sem kalla sig húmanista lang flestir guðlausir og það er mikilvægur hluti hans rétt eins og að trúa ekki á önnur hindurvitni.  (ég veit að þú skilur ekki samlíkinguna Gréta Björg skv. orðum þínum).  Til áréttingar og frekar aðgreiningar má nota lýsingarorðin "veraldlegir" eða "siðferðislegir" húmanistar, en það ætti ekki að þurfa.

Ég kýs því að nota hugtökin húmanismi og húmanisti í þessari þrengri og sannari merkingu sinni.  Þetta er húmanismi nútímans og það er mikilvægast að haga orðanotkun sinni í samræmi við núlíðandi stundu, ekki 200-400 ár aftur í tímann.  Hins vegar fellst ég á að nota lýsingarorðið húmanískt (humanistic) yfir hverja þá hugmynd sem samræmist húmanisma og getur verið hluti af hugmyndakerfi trúarbragða eða lífsskoðunum trúaðra. 

Þetta telst eflaust frekja og "að eigna sér einkarétt" á hugtaki samkvæmt þínum kokkabókum Gréta Björg, en á meðan ég sé ekki aðra og betri skilgreiningu eða notkun á orðunum húmanismi og húmanisti, þá verður þú að una við frelsi mitt til að haga þannig orðum mínum.  Ég vil bara að það sé ljóst við hvað ég á og ekki sé snúið út úr því.   Bestu kveðjur - Svanur

---

Svanur Sigurbjörnsson, 5.1.2008 kl. 15:24

32 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Anna.  Bubbi og Siðmennt he he, hef aldrei dottið þetta tvennt í hug á sama tíma en skil samhengið hjá þér.

Já, Sigurjón - samantektin hljómar þannig he he

Svanur Sigurbjörnsson, 5.1.2008 kl. 17:34

33 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sæll Svanur,

Þetta er löng og mikil útlistun hjá þér.

Fyrst vil ég biðja þig velvirðingar hafi ég sært stolt þitt með því að gefa í skyn að þú fylgdist ekki með nútímanum, þó þú hafir dregið upp úr pússi þínu dogma miðaldarkirkjunnar til stuðnings máli þínu.

Hvergi hef ég nefnt þig heimskan, þó ég viðurkenni að hafa nefnt þig bæði barnalegan, einfaldan og einstrengingslegan.

Á móti get ég vakið athygli fólks á því að þér hefur á vissan hátt tekist að endurgjalda mér þessi orð, því það  er ekki örgrannt um að það brenni við að þú talir niður til mín og teljir mig fávísa, til dæmis með orðum um að þú sjáir að ég sé "NÚ búin að kynna mér", að ég "virðist skilja" og "rugli saman" hluti/um.

Ég biðst velvirðingar að hafa láðst að setja hér tengil á bloggið mitt eftir að ég vann grein mína upp úr athugasemdum sem ég gerði hér hjá þér. Ég viðurkenni að slíkt hefði verið kurteislegra.

Ég hafði reyndar hugsað mér að benda þér á síðustu færslu mína, "húmanisti", en sá þegar ég kom heim að þú varst búinn að sjá hana og setja inn athugasemd við hana, sem ég hef nú svarað, aðeins stuttlega að vísu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2008 kl. 23:05

34 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

P.s.

Auk þess gætir ónákvæmni hjá þér í fleiri en einu atriði af því sem ég hef lesið eftir þig, eins og ég bendi þér á í athugasemd við athugasemd þína við færslu mína um húmanista.

Til dæmis er það ónákvæmni hjá þér að nefna mig Grétu Jónu, þar sem ég heiti réttu nafni Greta Björg.

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2008 kl. 23:11

35 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Jú, - varðandi það að þú segir mig hafa kallað þig heimskan, þá rifjaðist upp fyrir mér að ég viðhafði víst þessi orð um Siðmenntarfólk hér fyrr í umræðunni:

"Hins vegar þykja mér tilraunir Siðmenntar-fólks til þess að eigna trúleysingjum "einkarétt" á húmanisma fráleitar, og álíka heimskulegar og tilraunir sumra trúaðra til að eigna sér viðlíka einkarétt á Guði."

En þarna talaði ég almennt, þarna átti ég alls ekki við þig sérstaklega.

Ef svo hefði verið  hefði ég líklega sagt: heimskulegar - og sér í lagi hvað Svan varðar.

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.1.2008 kl. 23:26

36 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já afsakaðu Gréta Björg, þetta Grétu Jónu tal í mér.  Ég fékk þetta ranga nafn einhvern veginn í kollinn á mér.  Kannski gáfuskortur.

Þú notaðir umrædd lýsingarorð yfir hugmyndir og skoðanir en ekki mig sem persónu (fyrr en reyndar núna í færslu 34).  Á því er mikilvægur munur þó auðvitað sé það ekki neinum prýði að halda fram einhverju heimskulegu eða barnalegu.  Ég er hluti af "Siðmenntar-fólki".  Mér finnst það ekki þjóna miklum tilgangi í rökræðum að nota slík lýsingarorð en láta frekar rökin tala.  Ég tel skilgreiningu þína lakari og ekki ganga upp, en datt ekki í hug að hneykslast yfir henni með niðrandi lýsingarorðaflaumi.  Ég hef mikilvægari mál til að hneykslast yfir og nota sterk lýsingarorð um. 

Ég var ekki að tala niður til þín með því að segja að ég teldi þig skilja betur mín skrif og að þú hafir kynnt þér betur málin.  Sjálfsagt gefur það til kynna að ég hafi talið þig hafa hlaupið á þig í fyrri skrifum þínum og það er rétt.  Hins vegar var seinni greinin þín miklu betur skrifuð og af meiri skilningi þannig að mér fannst eðlilegt að nefna þetta.  Ég rökstuddi mitt mál.  Fólk getur lesið færslurnar og dæmt fyrir sig sjálft. 

Þú ert greind kona og leggur vinnu í þínar færslur.  Það er virðingarvert, en þýðir ekki endilega að ég verði þér alltaf sammála. 

Ég hef sagt það sem ég þarf að segja í þessu efni og ætla að láta þar við sitja nema ég sjái ný tilefni. 

Svanur Sigurbjörnsson, 6.1.2008 kl. 00:44

37 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sæll aftur, Svanur,

Ég sé glöggt á skrifum þínum að þú telur þig og skoðanabræður og systur þína vera hina einu sönnu húmanista.

Við því er lítið að segja, frekar en trú strangkristinna á því að þeir hafi höndlað að eina og endanlega sannleika.

Þess vegna ætla ég að láta þessi orð vera lokaorð mín í þessari umræðu. 

Kveðja, - Greta Björg

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.1.2008 kl. 03:35

38 identicon

Greta Björg (í aths. 26) vill gera trúmann úr Vonnegut!!  Ekkert er fjær sanni og óþarfi að ljúga slíku upp á þann sómamann.

Annars frábær pistill hjá þér Svanur.  Gleðilegt ár.

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 14:02

39 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Komdu sæll Svanur og gleðilegt ár og takk fyrir gamla

Frábær pistill hjá þér og gaman að lesa kommentin. Ég ætla ekki að segja mikið, af því ég er með flensu, en vil bara benda fólki á að lesa nýjasta tölublaðið af SAGAN ÖLL og þar m.a. frábæra grein sem heitir Sannleikurinn um Jesúa.  Þar kemur m.a. fram hversu ónákvæmir guðspjallamennirnir voru út frá sögulegum staðreyndum og margt annað sem ætti að vekja fólk aðeins til umhugsunar um það að biblían er ekki rit sem hægt er að túlka bókstaflega á neinn hátt, þ.e. ef það er ekki alveg slegið blindu.

Bestu kveðjur. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 8.1.2008 kl. 19:48

40 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Guðmundur

Já ég tek undir það.  Ég var að skoða þetta viðtal við Kurt Vonnegut sem hún Gréta Björg vitnar í, en þar sleppir hún rúsínunni í pylsuendanum á brandara hans um vitsmunalega hönnun.  (Hún virðist ekki hafa skilið grínið eða bara óskað sér svona heitt að hann væri trúaður)  Hann þóttist vera kominn á þá skoðun að slík hönnun væri til, en það var bar í gríni gert.  Grínið kom í endan þar sem hann sagði "... þess vegna höfum við gíraffa, flóðhesta og ... clamp (eða clap)" ... og áhorfendur og þáttastýrandi skellihlóu.  Ég skyldi ekki síðasta orðið en þetta var greinilega grín og þáttastjórnandi sagði að hann hefði ekki vitað hvert hann ætlaði með þetta í byrjun en nú vissi hann það.  Kurt hafði greinilega gaman af mótsagnakenndu (öfugsnúningi) gríni og fleira er í þessum dúr hjá honum í þessu stutta viðtali.  Í móttökuræðu hans þegar hann fékk heiðursverðlaun Am Humanist Assoc. grínaðist hann með það af hverju hann gæti ekki talið hundinn sinn sem húmanista.

Takk - Gleðilegt ár!  Kveðja, Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 8.1.2008 kl. 23:16

41 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Margrét og gleðilegt nýtt ár!  Takk fyrir skemmtileg blogg og skrif á síðasta ári

Já ég las þá grein og þótti ágæt.  Þannig efni þarf að vera í trúarbragðafræði skólanna.  Takk.

Svanur Sigurbjörnsson, 8.1.2008 kl. 23:20

42 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Guðmundur, ég laug engu. Mig langar til að benda þér á að ég segi hvergi í #26 að Vonnegut sé trúmaður. Ég bendi aðeins á hvað hann hafði það að segja um Guð í tilvitnun í hann sem ég copy/pastaði hér inn. Þarna er þess einnig getið hvaðan hún er tekin, sem sé héðan: As quoted in "Vonnegut's Blues For America" Sunday Herald (7 January 2006)"

Ef það stendur þarna að hann hafi verið trúaður, þá hlýtur það að vera af því hann að hafi sagt það sjálfur með þessum orðum sem vitnað er í. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.1.2008 kl. 03:03

43 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svanur,

Ef ég skildi ekki grínið, þá var það vegna þess að mér finnast gíraffar, flóðhestar og "the clap" alveg jafn merkilegir og menn, ef ekki merkilegri.

Sem ég tel vel hugsanlegt að Vonnegut hafi líka fundist, þar sem hann hafði ekkert rosalega mikið álit á mönnum, svona almennt, í það minnsta ekki mönnum nútímans, samanber þessa setningu í ræðunni hans (sem þú kallar "móttökuræðu", hvað sem það nú er) sem þú bentir mér á í blogginu mínu:

"We modern humans roast people alive, tear their arms and legs off, or whatever, using airplanes or missile launchers or ships or artillery batteries--and do not hear their screams."

Ekkert af þessu gera gíraffar, flóðhestar eða allt það heila klabb, það er að segja dýraríkið, að mönnum undanskildum.

Eru þessi dýr þá ekki okkur mönnunum æðri? Og þar með nær að taka þau sem dæmi, frekar en mennina, um meistaraverk verkfræðingsins mikla. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.1.2008 kl. 03:37

44 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Gréta Björg

Ég skildi ekki grínið hjá honum, en það var mikið hlegið og viðbrögðin bentu til þess að hann hefði verið að grínast.  Hins vegar á bloggi þínu vitnar þú í skrifað viðtal við hann þar sem hann virðist kynda undir þann möguleika að einhver vitsmunaleg hönnun hafi átt sér stað.  Svo þegar hann er spurður um hvort að kenna eigi vitsmunalega hönnun í skólum botna ég hreinlega ekkert í svari hans.  Í sama viðtali er hann að tala um "tribalisma" og nefnir þar bæði vísindamenn og babtistann Pat Robertsson í því samhengi. 

Varðandi álit hans á mönnum, þá skil ég ekki það á þessum orðum hans að hann hafi neitt minna álit á þeim en aðrir því þetta eru bara þekktar staðreyndir um hegðun manna sem hann telur upp.  Hann var ekki að bera þetta saman við hegðun dýra í þeirri ræðu sem þú tekur þessa tilvitnun úr.  Hann var að nefna þetta í samhengi við það að menn hegða sér ekkert betur í dag en harðstjórar fortíðarinnar gerðu.  Í því samhengi nefndi hann hvernig manneskjan misnotar vísindin, sbr:

"Napalm, incidentally, is a gift to civilization from the chemistry department of Harvard University.

So science is yet another human made God to which I, unless in a satirical mood, an ironical mood, a lampooning mood, need not genuflect."

Þannig lýkur þessari ræðu sem hann hélt þegar hann veitti viðtöku heiðursverðlaunum Am. Humanist Association árið 1992.  Hann segir sem sagt að "..vísindin eru enn einn manngerður Guð sem ég, nema í skapi háðs, kaldhæðni eða spotts, þarf ekki að knékrjúpa fyrir".   Honum virðist finnast að fólk sé farið að tilbiðja vísindin sem eins konar guð.  Mér finnst vanta kjarnann í þessa ræðu en hann er sá að góð siðferðisleg hugsun þarf að stýra vísindastarfi og markmiðum þess.  Ég er ekki sammála honum í því að vísindin séu "guð" í augum fólks, heldur að þau hafi verið misnotuð eins og hægt er að gera með öll tæki og aðferðir.  Hinn heimsspekilegi tilgangur vísinda, þ.e. hugmyndafræði þeirra sem rannsóknaraðferða, er að leita hlutlægs sannleika, þ.e. sannrar þekkingar.  Slíkt hefur leitt til mjög öflugra tækja sem í höndum fólks sem heldur að lausn vandamála sé fólgin í ofbeldi, hefur leitt til hörmunga.

Svanur Sigurbjörnsson, 9.1.2008 kl. 10:09

45 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl aftur

Varðandi það sem fór á milli ykkar Guðmundar.

Á bloggi þínu undir færslunni "Merkileg tilviljun" þar sem þú fjallar sérstaklega um hinn nýja vin þinn Kurt Vonnegut, segir þú:

Í framhaldi af þessu komst ég svo að því að Vonnegut trúði á æðri mátt. - Þannig að nú get ég huggað mig við að þessi frægi rithöfundur var maður sem einhverjir aðrir húmanist viðurkenndu að væri sannur húmanisti, þó hann væri trúaður, - í víðasta skilningi þess orðs, að sjálfsögðu - ..."

Þetta er nú væntanlega það sem Guðmundur var að tala um þegar hann sagði að þú værir að reyna að gera trúmann úr Vonnegut.  Það er ekki ósanngjörn túlkun á þessum orðum þínum (trúmaður - "trúði á æðri mátt") nema að þú hafir aðrar hugmyndir um hvað í því felst að vera trúmaður.  Þessi klausa sem þú vitnar í (í færslu 26) virðist nú vera eitt af hans mörgu háðsglósum um guð og trú.   

Svanur Sigurbjörnsson, 9.1.2008 kl. 10:44

46 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

"Hann var ekki að bera þetta saman við hegðun dýra í þeirri ræðu sem þú tekur þessa tilvitnun úr."

Hm, var hann ekki í ræðunni að tala um af hverju hundurinn hans félli ekki að hugmyndinni um húmanista? Ræðan heitir "Why My Dog is Not a Humanist", ef mig misminnir ekki...

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.1.2008 kl. 22:21

47 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Nei, Svanur, ætli hann Guðmundur hafi nokkuð verið búinn að lesa bloggið mitt. Hann átti við athugasemd mína nr. 26:

 #39 "Greta Björg (í aths. 26) vill gera trúmann úr Vonnegut!!  Ekkert er fjær sanni og óþarfi að ljúga slíku upp á þann sómamann."

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.1.2008 kl. 22:24

48 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Með trúmaður er yfirleitt í daglegu tali átt við heittrúaðan mann (gjarnan kristinn), ekki einhvern sem trúir á tilvist óskilgreinds æðri máttar, alla vega eins og ég hef kynnst  notkun þess orðs.

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.1.2008 kl. 22:28

49 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Gréta Björg

Jú ræðan heitir "Why My Dog is Not a Humanist" en hún fjallar ekki öll um hundinn hans. Þú ættir nú að lesa ræðuna betur áður en þú svarar í stað þess að koma með einhverjar "hm, ... ?, ef mig misminnir ekki" ýjanir um efni hennar.  Það hefur engan tilgang að ræða hlutina út frá slíkum innleggjum.  Það er best að láta þetta vera héðan í frá held ég.  Lengra verður ekki komist með þetta sýnist mér.

Svanur Sigurbjörnsson, 9.1.2008 kl. 23:18

50 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég er sammála, því, Svanur. Ætli það fari ekki best á því að við leyfum beinum Kúrts að hvíla í friði (það er að segja hafi hann ekki látið brenna sig) (?)

kurt-vonnegut

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.1.2008 kl. 02:00

51 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Bið afsökunar á klaufalegri imagessetningu í síðustu athugasemd...

Greta Björg Úlfsdóttir, 10.1.2008 kl. 02:09

52 identicon

Ása vil sem sagt að við hjökkum í sama gamla fáránlega farinu 4 ever með ímyndaðri súperhetju.
Annars er rosalega merkilegt með trúarbrögð, menn fá minnimáttarkennd í réttu hlutfalli við meðlimafjölda, því fleiri meðlimir því meiri minnimáttarkennd

DoctorE (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband