Brotið á hvaða lögum?

Nú hef ég ekki kynnt mér mikið skrif Skúla á bloggi hans sem er nú horfið, en ljóst er að hann gagnrýndi þar talsvert Íslam og hryðjuverk sem framin eru í nafni þeirrar trúar.  Hann gerði stundum athugasemdir við mín skrif, sérstaklega þegar ég var að skrifa um Íslam.  Þar var hann jafnan sammála mínum skrifum og bætti við að hann teldi kristni fremri íslamstrú.  Hans "gullni staðall" var því kristnin á meðan minn er húmanismi.  

Skúli Skúlason

Nú veit ég ekki hvort að skrif Skúla voru óvægin eða hlaðin gífuryrðum eða hreinlega bara sterk málefnaleg gagnrýni þar sem berar staðreyndir voru settar fram eftir heimildum sem hann taldi góðar og gildar.  Merkilegt er að ritstjórn mbl.is nefndi víst ekki nein dæmi þegar hún kvartaði við Skúla.  Hvernig átti hann því að verja sig?  Einnig er merkilegt að í frétt mbl.is af málinu er ekki nefnt hvaða lög Skúli átti að hafa brotið að mati lögmannsins.  Þetta hlýtur að vera lykilatriði málsins.

Ef við gefum okkur að Skúli hafi gerst "brotlegur" við lögin um bann við guðlasti sem eru einn af steingervingum íslenskra laga, þá verður það að teljast með ólíkindum að mbl.is hafi látið undan þrýstingi kvartana um að um guðlast (hæðni eða óvirðing sýnd trúarbrögðum) væri þarna á ferðinni.  Guðlast er ákaflega huglægt hugtak.  Hvað er guðlast?  Er það guðlast að segja "Guð er ekki til!" eða er það guðlast að segja "kenningar Íslam eru fullar af ofbeldi!"?  Er það guðlast að gagnrýna ákveðna trúarhópa og kenningar þeirra, þó að umræðan sé málefnaleg og studd góðum rökum? 

Enginn er bættur af því að beita illkvitni og niðrandi orðum um þann sem viðkomandi er að gagnrýna en hvenær eru orð niðrandi?  Var það niðrandi af breska barnakennaranum að nefna tuskubangsa barnanna "Múhameð"?  Átti hún skilið fangelsi fyrir það?  Hvers vegna lögðu Brétar nýverið niður guðlastslöggjöf sína? Það er vegna þess að það er of huglægt hvað kallast guðlast og hvað ekki.  Einnig hefur það runnið upp fyrir mönnum að fólk trúar og trúarkenningar eru ekki heilagar og eiga ekki að vera undanþegnar gagnrýni eða sérstaklega verndaðar umfram aðrar skoðanir. 

Aðgerð mbl.is sýnist mér vera aðför að málfrelsinu.  Þetta er naivisminn í hnotskurn.  Það er látið eftir æstu fólki sem kvartar bak við tjöldin með vísun í úrelt guðlastslög sem stangast á við málfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.  Þetta er akkúrat það sem Karen Jespersen og Ralf Pittelkow vara við í bók þeirra "Íslamistar og naívistar".   Hver verður næst látinn taka poka sinn?  Ég hef nú verið að undirbúa grein um uppgangsár Múhameðs spámanns í Arabíu en þær heimildir sem ég hef hafa nokkuð aðra mynd af manninum en birt var á dögunum í tímaritinu "Sagan öll".   Á ég ekki að þora nú að birta greinina? Gæti ég átt von á símhringingu frá lögmanni mbl.is? 

Athugið:

"Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is, og Morgunblaðsins."

Bara til að hafa það á hreinu Police


mbl.is Óánægja með lokun umdeilds bloggs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Nú, ef Skúli hefur átt að hafa guðlastað gegn Íslam.  Lögin gefa öllum trúarbrögðum þessa sérstöku sérréttindi, ekki bara "evangerísku lúthersku þjóðkirkjunni".   Hvað áttu annars við Þrymur?

Svanur Sigurbjörnsson, 22.4.2008 kl. 23:10

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sorry, "evangelísku ..." Það er vissara að lasta ekki um of

Svanur Sigurbjörnsson, 22.4.2008 kl. 23:11

3 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Dæmi síðan í desember sl:

"Hvernig ætlar þetta fólk að aðlagast Vestrænum samfélögum, væri þeim ekki nær að snauta til baka í rottuholurnar sínar í Pakistan og lifa sínu ömurlega lífi í sínu hugarfarslega fangelsi þar, í stað þess að berrassa sig fyrir framan normal fólk á Vesturlöndum og verða sjálfum sér til eilífrar skammar."

Sterk málefnaleg gagnrýni, jámm...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 22.4.2008 kl. 23:38

4 identicon

Þetta með múslima og íslam er eins og með skrif um gyðinga og gyðingdóm, margir virðast ekki hafa mörkin á milli gagnrýni á trúarbrögðin sem slík og hreins rasisma á hreinu. Eins og sjá má á dæminu hjá Hildigunni fór Skúli ofti yfir þessi mörk, og virtist standa nokkuð á sama. Persónulega er ég á móti því að síðunni hafi verið lokað, og þessi lagaklausa er fáránleg.

Og varðandi naívista, þá mæli ég sterklega með þessu: http://kistan.is/default.asp?sid_id=25401&fre_Id=70882&tid=2&meira=1&Tre_Rod=005|&qsr

Guðmundur (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 23:58

5 identicon

Heyr, heyr Hildigunnur ... og heyr þér dr. Svanur

Það undarlega gerðist, þegar ég var hálfnuð með færsluna mína áðan,  að þá "datt" ég bara út!!!

Sem sagt..... þarf ég að passa mig á hverju ég læt út úr mér á íslenskri bloggsíðu ????  Skelfilegt 

Edda (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 00:55

6 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Þeim sem verður á að hafa uppi niðrandi orð um aðra ættu að vera þess umkomnir að biðjast afsökunar á slíku, því án efa getur slikt gerst í hita leiks.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 23.4.2008 kl. 01:08

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hildigunnur, þú ert væntanlega að vitna í skrif Skúla.  Þessi texti er nú ekki það sem maður kallar málefnalegt.  Ef margt hefur verið í skrifum hans á þessari línu þá skil ég að fólki hafi orðið órótt.  Það eru fleiri hér sem eru ekki skárri og ausa út úr sér fúkyrðaflaumi þegar þeir geta.  Það er spurning hvort að Mbl.is eigi að skipta sér af því?  Mbl er bara hýsill þessa bloggs, ekki í ábyrgð fyrir innihaldi.  Sem hýslar í einkageiranum geta þeir auðvitað ráðið hverjum þeir leyfa að nota þjónustu sína.  Sem slíkir þurfa þeir ekki afsökun fyrir því að neita einhverjum en þeir þurfa heldur ekki afsökun fyrir því að leyfa öllum að tala frjálst þó innihaldið sé ekki af fallegri sortinni. 

Sæll Guðmundur.  Já menn geta jafnvel verið með réttu á móti einhverju en slá svo um þverbak í þeim "lausnum" sem þeir/þær stinga uppá og gerast sekir um óbilgirni og fautaskap í atgangi sínum.   Maður sér því miður talsvert af slíku.  Takk fyrir hlekkinn.

Svanur Sigurbjörnsson, 23.4.2008 kl. 01:13

8 Smámynd: halkatla

ef hann (Skúli) er í þessu kvóti sem Hildigunnur tiltekur að tala um islamista sem berjast fyrir mestu öfgum sem hugsanlegt er í Islam, einsog er algengt um marga í Pakistan, og þ.a.a að þýða þetta eftir einhverjum fyrrverandi múslima, setur það þá þessi tilteknu skrif ekki í aðeins annað samhengi? Erum við orðin svo slæm að við hneykslumst á því að fólk útí heimi skrifi uppnefni um morðingja og einhverjir íslenskir sérvitringar birta það hjá sér?

halkatla, 23.4.2008 kl. 07:42

9 Smámynd: halkatla

ég tel t.d engin orð nógu góð fyrir talíbana en ég veit samt að það er málstaðnum ekki til framdráttar að uppnefna þá bara endalaust.. það gagnast mér ekkert en ég ræð samt ekki við löngunina til að  blóta alveg viðbjóðslega þegar ég er að tala um illmenni eða það sem mér finnst óréttlæti

halkatla, 23.4.2008 kl. 07:44

10 Smámynd: halkatla

það er sorglegt að hér sé ein trú opinberlega æðri öðrum. Kristnin ætti auðveldlega að standa undir því að vera æðri án allrar aðstoðar - ég myndi veðja á það. En á meðan þetta er svona einsog Þrymur segir þá erum við fræðilega séð ekkert skárri en Pakistan!

halkatla, 23.4.2008 kl. 08:28

11 identicon

Trúardæmið er svo sweet; allir ofurkrissarnir sem mótmæla lokun á Skúla eru óðir í að loka á mig.
Fyrst taka sig saman guðlegir drónar og senda kvartanir til mbl og svo kemur Svavar ofurprestur á Akureyri og segir mig segja hann haldin barnagirnd í fréttum stöðvar2, Svavar kallar eftir því að koma böndum á netið, að koma böndum á eitt stærsta skref mannkyns fyrir frelsi.
Hann heldur áfram í dag http://svavaralfred.blog.is/blog/svavaralfred/entry/515994/  og mér sýnist einna helst að þarna sé verið að tala um mig sem nafnleysingja, augljóslega er ég að ná að hræra í einhverjum hausum og það er gott.
Hann spáir ekkert í því að guðinn hans er anonymous, að vitni biblíu eru anonymous, að guð skrifaði meinta bók incognito.
Hann boðar að mér sýnist enn eina trúaránauðina í formi ritskoðunar, guð þolir jú ekki dagsljósið frekar en Drakúla.

DoctorE (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 10:09

12 Smámynd: Halla Rut

Góður pistill hjá þér. Vel lagt fram og ég er þér hjartanlega sammála.

Halla Rut , 23.4.2008 kl. 14:49

13 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ég þekki ekki síðu Skúla, en ef gæta ætti jafnræðis þyrfti að loka mun fleiri síðum en hans.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.4.2008 kl. 16:04

14 identicon

Góðir bloggvinir og aðrir skrifarar.

Nýja bloggsíðan mín er þessi: http://hermdarverk.blogcentral.is

Verið velkomin að kíkja á hana og sjá hrydjuverk.blog.is  upprisna.

Skúli Skúlason (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 20:15

15 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hæ Svanur

Þú veist að ég kalla ekki allt ömmu mína í trúarumræðunum og skrifum , en ég verð að segja það að skrif Skúla og hvað hann er með múslima gersamlega á heilanum og hatar þá er ekki til að breyta neinu til batnaðar eða upplýsa fólk.

Annars er ég ekki hlynnt ritskoðun en ég er ekki hlynnt hatri. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 23.4.2008 kl. 20:29

16 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Gleðilegt sumar Svanur minn og takk fyrir frábæran bloggvetur!

Margrét St Hafsteinsdóttir, 24.4.2008 kl. 13:18

17 Smámynd: Sigurður Rósant

Hverjum manni er skylt að kynna sér lög landsins og ekki síst okkur bloggurum í svona ritdeilum.

Almenn hegningarlög 1940 nr. 19 12. febrúar

[233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna]1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar]1) sæti sektum …2) eða fangelsi allt að 2 árum.]3)

Þetta eru svo kölluð "guðlöstunarlög" og hafa þau verið til umræðu í lýðræðisríkjum Vesturlanda undanfarin ár í kjölfar meintra móðgana í garð Múslíma, t.d. vegna Múhameðsteikninganna.

Einn þingmaður Dana sagði sem svo að guð þyrfti ekki á neinni vernd að halda, hann gæti örugglega varið sig sjálfur.

Eftirfarandi ákvæði vernda einnig t.d. trúleysingja gegn óviðeigandi árásum trúaðra.

234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.

Mér finnst ósköp eðlilegt að stjórn bloggsíðu Mbl. grípi inn í þegar einstaklingar gerast brotlegir gegn þessum skýru ákvæðum Hegningarlaganna, bæði til að koma til móts við þolendur og ekki síst til að hlífa gerendum við kæru þolenda. Þolendur geta hótað kæru ef Mbl. bregst ekki við og setur límband á munn þeirra sem eru með munnræpu.

Sigurður Rósant, 24.4.2008 kl. 21:49

18 Smámynd: Sigurður Rósant

Haukur - Þetta er ekki rétt hjá þér. Ef við Íslendingar gerum alþjóðlega samninga þá verður löggjafinn að breyta lögunum til samræmis við þá. Þessi hegningarlög eru enn í fullu gildi og mannréttindasáttmálar breyta ekki þessum ákvæðum þótt þeir breyti kannski einhverjum öðrum ákvæðum í þessum lögum.

En hvaða samninga og samstarf ertu að meina, nákvæmlega?

Sigurður Rósant, 24.4.2008 kl. 23:10

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það er ljóst að margir telja að skrif Skúla hafi ekki verið falleg og gengið talsvert yfir strikið hvað málefnalega umræðu varðar.  Mbl.is ber ekki ábyrgð á skrifum Skúla en getur í krafti eignar sinnar á þessum bloggmiðli ákveðið að úthýsa Skúla án útskýringa. 

Hins vegar kemur það ekki vel út siðferðislega og því betra er að gefa góða skýringu.  Við fengum frekar takmarkaða útskýringu en á milli línanna mátti lesa að annað hvort var átt við brot á lögum um ærumeiðingar eða guðlast.  Óvægin skrif Skúla skyldu því eiga eitthvað annað heimili.  Mbl.is vill því ekki hjálpa Skúla við að iðka tjáningarfrelsi sitt því innihaldið er hugsanlega á skjön við lög.  Það sem mér sýndist í fyrstu þ.e. að aðgerð Mbl.is væri aðför að málfrelsinu er því ekki rétt þar sem mbl.is er ekki að banna Skúla neitt nema á þeim vettvangi sem er þeirra eigin.  Ef skrif Skúla hefðu verið eingöngu málefnaleg eða bara guðlast í hugum einhverra ofurviðkvæmra hefði ég gagnrýnt úthýsinguna áfram sem naivisma en mér sýnist á öllu nú að Mbl.is hafði haft  góða ástæðu sem einkaaðili til að neita Skúla um bloggpláss í þjónustu sinni.

Ég gerði í raun hið sama og mbl.is gagnvart tveimur bloggurum sem ég taldi ekki málefnalega á síðasta ári og báru annað hvort lygar uppá aðra eða beittu sífelldum fúkyrðum og dónaskap þannig að yfirnóg var komið.  Ég setti skrifbann á þá á bloggið mitt.  Ég rökstuddi það með færslum.  Ég vildi því ekki taka þátt í slíku bloggi rétt eins og maður getur valið að tala ekki við eitthvað dónalegt fólk á götu úti.

Takk fyrir tilvitnanir í lögin Sigurður Rósant .  Þetta eru að vísu ekki guðlastslögin í heild sinni en í þeim segir að aðeins ríkissaksóknari geti höfðað slík mál en hvatinn að þeim geti komið frá kvörtunum einhvers sem telur að trúarbrögð hans/hennar hafi verið smánuð eða hædd.  Gagnrýni fólks á lögin er sú að það ætti ekki að refsa fólki af hálfu hins opinbera fyrir háð eða móðganir þó að siðferðislega sé það auðvitað ekki það fallegasta sem hægt er að gera.  Það sé einnig mjög huglægt mat hvenær orð teljast móðganir eða háð og hvenær ekki. 

Ég held að löggjafinn og hið opinbera verði að draga mörkin við orð sem hvetja til ofbeldis eða eru sannanlega rógburður og skaðlegar lygar um einstaklinga eða félög.  Það gengur ekki að dæma fólk fyrir hluti eins og að segja við einhvern: "þú ert helvítis asni" eða eitthvað eins og  "þú ert bévítans gunga" eða "kristni er slæm".  Þetta eru skoðanir eða úthrópanir á persónum eða kennisetningum, ekki brigsl um einhvern verknað.  Þó skoðanirnar kunni að vera illa grundaðar, þá er ekki hægt að eltast við að dæma fólk fyrir slíkt fyrir dómstólum.  Hins vegar ef einhver ber aðra manneskju eða samtök alvarlegum sértækum sökum (t.d. "þú drapst manninn") opinberlega án þess að hafa fyrir því sannanlegar heimildir, ætti slíkt að varða við lög. 

Svanur Sigurbjörnsson, 25.4.2008 kl. 01:25

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Annars óska ég öllum gleðilegs sumars!

Svanur Sigurbjörnsson, 25.4.2008 kl. 01:27

21 Smámynd: Sigurður Rósant

"Guðlöstunarlögin" eru ekki til sem ein heild, Svanur. Þau eru einungis ákvæði í fyrrnefndum Hegningarlögum. Enginn höfðar mál vegna brota á þessum lögum nema ríkissaksóknari höfði mál gegn geranda.

Tvö eftirminnileg dæmi koma upp í huga mér. Þegar Ólafur Jóhannesson var ráðherra um 1976 hafði hann á orði að ritstjórn Vísis væri "mafía". Hann var saksóttur, ummælin dæmd dauð og ómerk og þurfti að greiða 1 krónu í sekt.

Annað dæmi var Spaugstofan er hún gerði grín að Jesú í einum eða nokkrum þáttum sínum. Þáverandi biskup hitti ríkissaksóknara í heita pottinum í Sundlaugunum og bar undir hann þetta háð eða grín í garð sinnar kirkju. Ríkissaksóknari benti honum á að senda sér skriflega kvörtun, sem og biskup gerði. Ríkissaksóknari höfðaði mál, Spaugstofumenn voru boðaðir til yfirheyrslu hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins en málið fór aldrei lengra. Þetta þótti nóg að lækka aðeins í Spaugstofumönnum "grínlostann".

Hér á blogginu eru margir sem leyfa ekki færslum að birtast nema samþykkja þær fyrst, hóta að henda mönnum út, eyða dónalegum færslum og útiloka suma. Stjórn þessara bloggsíðna getur gert hvað sem henni sýnist í þessum efnum skv. eigin reglum eða skilmálum:  "Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Morgunblaðið áskilur sér rétt til að grípa inn í, bregðist notandi ekki við óskum eða tilmælum um leiðréttingar/lagfæringar á skrifum sem teljast meiðandi eða brjóta gegn skilmálum þessum. Jafnframt áskilur Morgunblaðið sér rétt til að loka síðu notanda, að hluta til eða í heild, án þess að notandi eða þriðji aðili öðlist skaðabótarétt."

Við brjótum öll þessar reglur af og til, biðjumst velvirðingar, tökum orð okkar aftur o.s.frv. en sumir vaða áfram og halda uppteknum hætti, láta ekki segjast og virða ekki friðhelgi annarra gegn særandi skrifum.

Ég hef séð mjög svívirðileg skrif á bloggsíðu skákmanna fyrir nokkrum árum. Ég sá engan tilgang í að halda uppi slíkri bloggsíðu þar sem menn helltu skætingi og svívirðingum yfir hvern annan í sambandi við stjórn skáksambandsins o.fl. Menn leyfa sér allt of mikið í svona skrifum eða skoðanaskiptum. Að kalla Múslima "kóranhausa" finnst mér persónulega nægt tilefni til að áminna Skúla.

Gleðilegt sumar!

Sigurður Rósant, 25.4.2008 kl. 09:23

22 identicon

Það er dálítið kjánalegt að miða guðlast við hvaða trúarbrögð sem er. Í íslenskum lögum er auðvitað átt við þjóðkirkjuna og miðað við þá trú. Ef löggjafinn ætti að refsa mönnum fyrir það sem telst guðlast í öllum trúarbrögðum þá segi ég nú bara guð hjálpi okkur.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 12:59

23 identicon

Að "virða ekki friðhelgi annarra gegn særandi skrifum" - Sigurður Rósant

Það hefur enginn friðhelgi gegn særandi skrifum. Vissulega reynum við að gæta hófs í skrifum okkar og berum líka fulla ábyrgð á tjáningum okkur. Það þýðir samt ekki að nokkur maður hafi rétt á því að vera ekki móðgaður, særður eða sár. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 13:05

24 Smámynd: Sigurður Rósant

Jú, Vilhjálmur við erum öll vernduð gegn særandi skrifum annarra. Það er það sem ég meinti og meina. Þannig verðum við að virða friðhelgi hvers annars.

En þér finnst það kannski kjánalegt að lögin gildi um önnur trúarbrögð, en það er augljóst að orðalagið bendir til þess að þarna sé enginn greinarmunur gerður á þjóðerni, litarhætti, kynþætti, trúarbrögðum eða kynhneigð "

"[233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna]1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar]1) sæti sektum …2) eða fangelsi allt að 2 árum.]3)"

En hvað lestu út úr þessu ákvæði Hegningarlaganna, Vilhjálmur? Að þú megir t.d. kalla einhvern trúaðan Múslim "Múslímasvín"?

Sigurður Rósant, 25.4.2008 kl. 16:01

25 identicon

Við erum ekki vernduð gegn særandi skrifum í rýmri merkingu þess orðs þ.e. ég get skrifað eitthvað neikvætt um trúarbrögð þín eða lífskoðanir sem mun ekki skapa mér bótaábyrgð eða refisábyrgð á nokkurn hátt. Við getum tjáð skoðnir okkar á hópum t.d. að íslamistar líki til fasista þ.e. stjórnunarárátta þeirra í garð einstaklinga líki til mið-jafnaðarstefnu nasismans. Þetta getur verið skoðun sem ég hef á hóp og hún er fyllilega lögmæt. Taki ég hins vegar einn einstakling út og kalla hann nasista, kommúnista eða annað álíka slæmt þá er ég að nota gildishlaðin orð um þann einstakling og líkja honum við helstefnusinna á 20. öld.

Það er líklega ekki beta dæmið að bendla menn við stefnur enda margir fylgjandi þessum stefnum, því miður, en  ef ég kalla menn drullahala eða önnur verri orð eða saka þá um eiturlyfjasölu, nauðgun eða annað sem rýrir persónu viðkomandi þá vissulega get ég þurft að sæta ábyrgð á orðum mínum.

Þú verður alltaf að sýna fram á skaða af tjáningu einhvers, það er ekki nóg að segja að einhver tjáning móðgi þig. Slíkt leiðri aldrei til bótaábyrgðar. En svo er þetta oft fín lína sem dansað er í kringum. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 17:57

26 Smámynd: Sigurður Rósant

Vilhjálmur - Nú ertu aðeins að smeygja þér undan eigin vandræðum sem þú rataðir í.

Ef þú kvartar undan ærumeiðandi ummælum í þinn garð eða þinnar sannfæringar til saksóknara ríkisins. Saksóknari höfðar mál á hendur þér fyrir meint brot á 233.gr Hegningarlaganna, þá er ekki sjálfgefið að þér verði greiddar skaðabætur. Það veistu vel sjálfur sem laganemi. Skaðabótamál myndir þú höfða eftir á ef þú kærðir þig um á grundvelli almennrar skaðabótarreglu.

En þú lærir sjálfsagt að snúa út úr eins og guðfræðingar, svona sem áhugamál með náminu.

"Ef löggjafinn ætti að refsa mönnum fyrir það sem telst guðlast í öllum trúarbrögðum þá segi ég nú bara guð hjálpi okkur."

Þú veist líka að löggjafinn refsar ekki. Það er dómsvaldið. Framkvæmdavaldið stingur þér svo í Hegningarhúsið.

Sigurður Rósant, 25.4.2008 kl. 21:50

27 identicon

Löggjafinn veitir heimild fyrir refsingu sem síðan er í höndum dómstóla að túlka og vissulega framkvæmdavaldsins síðan að framfylgja þ.e. ef þú vilt hafa þetta svona nákvæmt.

En þú forðast að ræða það sem skiptir máli þ.e. höfum við friðhelgi gegn því að vera særð? Mitt svar er einflat nei. 233. gr. a almennra hegningalaga vernda þig ekki gegn því að vera særður eða særandi srifum. 

Það er heldur ekki nóg að kvarta undan ummælum til að saksóknari fari í mál við mig það verður að vera grundvöllur fyrir því. Dómur í refsimáli er heldur ekki grundvöllur allra skaðabóta mála. 

Það er ekki nóg fyrir þig að benda bara á þessa einu grein og túlka hana mjög rúmt til að ná yfir sem flest. Auk þess tíðkast að túlka hegningalög þröngt þ.e til að viðhalda ákveðnu réttaröryggi. Fullkomin löggjöfnun er þó undantekning frá megin reglunni og er sérstök regla ekki sjálfstæð lögskýringarregla í ísl. refsirétti.

Það hefur í raun ekkert komið fram hjá þér sem bendir til þess að þú eða nokkur hafi friðhelgi gegn því að vera særður, móðgaður. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 26.4.2008 kl. 00:15

28 Smámynd: Sigurður Rósant

Mér sýnist svona á viðbrögðum þínum, Vilhjálmur, að við leggjum ekki sömu merkingu í orðið "friðhelgi". En ég tel að ákvæði í Hegningarlögum hafi viss áhrif á þor manna til að brjóta á öðrum. Þau draga úr brotavilja eða þori manna og hafa þannig fælandi áhrif sem kalla má "friðhelgi" eða "verndandi áhrif". Ég veit vel eins og hver annar að lögin koma ekki í veg fyrir afbrot.

En veistu til þess að menn hafi verið sýknaðir af ákæru ríkissaksóknara undanfarin ca. 40 ár fyrir ærumeiðingar vegna meintra brota á  233. gr. Hegningarlaga? Mig minnir að málið gegn Spaugstofumönnum hafi aldrei verið lagt fyrir dómara. Það sé enn í skúffum RLR, svo þú þarft ekki að nefna það mál.

Sigurður Rósant, 26.4.2008 kl. 19:10

29 identicon

Rasisminn í Kóraninum, sem er hluti af stjórnarskrá Írans og Saudi Arabíu í dag og grundvöllur Sharia laga. Sem gæti varðað við Almenn Íslensk Hegningarlög  233. Gr. A. 

 

Vel þekkt er fyrirbæri  úr Kóraninum er uppnefning  Múslima á  Gyðingum og Kristnu fólki að kalla þá hópa  ,, apa og svín".  Þetta kenna  þeir í skólum Saudi Arabíu, jafnvel  einnig á Vesturlöndum börnum frá 5 ára aldri. Aðrir hópar Ekki-Múslíma fá svipup ummæli frá Allah/Múhameð.

   

Þetta er byggt á eftirfarandi málsgreinum:

  

Kóran: 5. kafli. ,,Matborðið",  málsgreinar nr. 59 og 60.

  

005.059:  Hlustið á, fólk  Bókarinnar, (Kristnir menn og Gyðingar), er ykkur illa við okkur vegna þess eins að við erum fylgjendur Allah og kenningum hans eða af því að þið eruð allir lögbrjótar (trúa ekki á Allah)?.

  

005.060: Vér boðum: ,, Er nokkuð verra heldur en hegning Allah? "  Þeir sem Allah hefur blótað  af reiði sinni og umskapað  í APA OG SVÍN, þeir sem tilbiðja hið  illa.   Það er illa komið fyrir þeim, því þeir fara villur vegar.  

   

Það gæti vafist fyrir ýmsum hverjir væru aparnir eða svínin,  en þetta skýrðist í breskum blaðaskrifum  í febrúar 2007, þegar  einum enskukennara var sagt upp hjá Íslamska Skólanum í London og rekinn er af Saudi Aröbum.  Kennarinn  hafði tekið með sér talsvert af námsefninu, sem allt var á arabísku og það var þýtt fyrir opinberar  eftirlitsstofnanir breskar, sem hafa eftirlit með kennslu í skólum landsins.

   

Þar kom fram að APARNIR  ERU GYÐINGARNIR  OG SVÍNIN ERU KRISTIÐ FÓLK Í HEIMINUM.

   

Þessi speki er kennd arabískum börnum frá 5 ára aldri. Varla ætti að vefjast neitt fyrir fólki, hvers konar mannfyrirlitning og mannhatur felst í svona fræðslu í barnaskólum Arabalandanna.

   

Það er von að hin Íslamska Klerkastétt vilji koma á ritskoðunum og takmörkunum á tjáningarfrelsi á Vesturlöndum, til þess að svona kynþáttahatur og rasismi sé ekki hafður í hámælum hjá  ,,hinum."      Það er engin furða að margir Múslímar séu ákaflega viðkvæmir fyrir umtali um sendiboða sinn,  eitthvað þarf heldur betur að fela fyrir dagsljósinu.  Eða eins og einn fyrrverandi flokksmaður Íslamsflokksins sagði, þegar maður uppgötvar eina lygina eftir aðra þá hrynur öll spilaborgin.

    Já, góðir lesarar  nú mega Íslamistarnir heldur betur fara að vara sig á Félagsmálaráðherranum,sem  þegar hefur reitt  sverð réttlætisins á loft og segir mönnum til með hvað þeir mega segja og skrifa. Hún er nú með frumvarp í smíðum í nafni hinnar heilögu kýr ,,Fjölmenningarstefnunnar.“ Vei! þeim efast um ágæti hennar.  Sjá frétt í ,,24 Stundum“ þann 23. Apríl 2008 á bls. 6..  

Skúli Skúlason (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 09:28

30 Smámynd: Sigurður Rósant

Mér finnst vel þess virði að það yrði athugað hvort grundvöllur sé fyrir því að lögsækja útgefendur Kóransins og Biblíunnar hér á landi, vegna þeirra aðdróttana sem bornar eru á ýmsa hópa manna í þessum ritum eins og heiðingja, trúleysingja, Gyðinga, Kristna, homma og lesbía, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Fara fram á að ummæli sem Skúli vitnar í hér að ofan "005.060: Vér boðum: ,, Er nokkuð verra heldur en hegning Allah? "  Þeir sem Allah hefur blótað  af reiði sinni og umskapað  í APA OG SVÍN, þeir sem tilbiðja hið  illa.   Það er illa komið fyrir þeim, því þeir fara villur vegar."  

og svo er ráðist á okkur trúleysingjana og við kallaðir spottarar í 2. Pétursbréfi, einungis vegna þess að við berum brigður á spádóma um endurkomu Jesú Krists.  "Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: "Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar."

Sigurður Rósant, 27.4.2008 kl. 21:22

31 Smámynd: Sigurður Rósant

Ég á við að farið verði fram á þessi ummæli í Kóraninum og Biblíunni verði dæmd dauð og ómerk. Öll helgiritin innkölluð og þessar aðdróttanir fjarlægðar úr þessum ritum sem ætluð eru saklausum börnum sem innræting um vilja Guðs.

Svona árásir á hópa fólks eiga alls ekki við í nútíma samfélögum.

Sigurður Rósant, 27.4.2008 kl. 21:26

32 identicon

Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: "Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar."

Þetta er náttúrulega barnalegasta sálfræði sem til er,  kristlingar ættu að gleðjast mjög ef við spottum þá því þá er Sússi á næsta leiti. úgga búgga

DoctorE (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 15:22

33 identicon

Mér finnst ég knúinn til þess að leiðrétta ákveðinn misskilning hjá Sigurði Rósant, svona þar sem mér finnst hann vera svolítið að slá um sig með lögfræði"þekkingu" sinni.

Fyrir það fyrsta þá er 233. gr. a.  almennra hegningalaga nr.19/1940 alls ekki sú grein sem talað er um sem "guðlastlög" heldur er þar um að ræða þá grein sem gerir birtingarmyndir kynþáttafordóma refsiverða.

Hinsvegar er um að ræða 125. gr. hegningalaga sem fjalla um hið eiginlega guðlast, en hún er svohljóðandi;
125. gr. Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.

 Hér er að finna góða úttekt á því hvernig guðlast telst refsivert á Íslandi: http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=5462 , þar sem minnst er á dómsmál þar sem ákært var m.a. fyrir umrædda grein.

Í öðru lagi er það ekki rétt að ríkissaksóknari sé sá eini sem gefi út ákærur vegna brota á hegningarlögum eins og þú sagðir: "Enginn höfðar mál vegna brota á þessum lögum nema ríkissaksóknari höfði mál gegn geranda". Ákæruvald í opinberum málum getur verið í höndum ríkissaksóknara og lögreglu og er það algengara að lögregla gefi út ákærur vegna brotum á þeim þar sem flest brot eru minniháttar. Ríkissaksóknari sér svo um hin viðameiri mál eins og manndráp ofl.  Svo eru mál skv. þessum lögum í mjög mörgum tilfellum höfðuð eftir kærur frá einstaklingum sem brotið er á.  

Svo er það nú ekki alveg rétt að menn hafi verið sýknaðir vegna meiðyrðabrota síðastliðin 40 ár....
Þú reyndar talaðir um meiðyrðabrot í tengslum við 233.gr.a. en áttir væntanlega við 234.gr.

Það er t.d. mjög nýleg sakfelling í Hæstarétti  fyrir meiðyrði í máli nr. 211/2007
og ef þú áttir í raun við 233.gr. a. í tengslum við kynþáttafordóma þá er einnig nýleg sakfelling í máli nr. 461/2001

Að auki veita meiðyrðaákvæði hegningarlaga og b. liður 1. mgr.  26. gr. skaðabótalaga nr 50/1993 fólki í raun vissa friðhelgi frá ummælum annarra. En það er rétt sem Vilhjálmur segir að það þurfi að vera um að ræða einhvern skaða. Samanber hugtakið "ærumeiðingar" þ.e. að vegið er að æru viðkomandi með einhverjum ummælum og skaðinn felst þá í .

Mig langaði bara til þess að benda góðlátlega á þessar villur...

Bestu kveðjur,
Magnús Fannar

Magnús Fannar Sigurhansson (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 19:42

34 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir þetta Magnús Fannar.  Þetta var akkúrat greinin sem ég var að segja Sigurði frá en hafði ekki númerið eða tilvísunina. 

Ég kíkti á vef Skúla og sá þar ýmsar greinar sem m.a. gengu út á það að Allah væri heiðinn guð og ekki sá sami og gyðingar og kristnir trúa á.  Þetta var ágætlega rökstutt út frá sögulegri skírskotun, en þessir hlutir skipta ekki máli þegar öllu er á botninn hvolft.  Það eru fyrirmyndirnar, boðskapurinn og gildin sem skipta mestu.  Talsvert er af gagnrýni á þá hluti einnig hjá Skúla en margar greinarnar eru þýddar frá erlendum höfundum.  Ég sé ekki neitt beint ærumeiðandi í þessum greinum en ef rangt er farið með staðreyndir í þeim gætu þær auðvitað verið það.  Það virðast hins vegar vera ummæli Skúla sem hann hefur skilið eftir á bloggum annarra sem hafa gengið út fyrir velsæmi ef marka má þær tilvitnanir í hann sem hafa komið fram hér. 

Svanur Sigurbjörnsson, 29.4.2008 kl. 10:44

35 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þegar þaggað er niður í einum, fyrir að viðra skoðanir sínar, þá er búið að setja múl á alla til allrar framtíðar. Fordæmin eru þau viðmið, sem notuð eru við dómsúrskurði. Þetta er gríðaleg menningarleg afturför og ískyggileg framtíðarfyrirheit sem í slíku banni felst.  Þeir sem eru kvartendur eru á sjálfhverfan hátt að árétta friðhelgi sína umfram aðra, af því að þeir játast einhverri hjátrú, sem er opinberlega gúteruð. Trúarbrögð hafa verið helsti klafi tjáningar og persónufrelsis í gegnum aldirnar og hélt ég að með aukinni upplýsingu, værum við komin á þurrt þar. Það er þó öðru nær.  Sannleikanum er hver sárreiðastur og það sannast best af trúarbragðahírakíinu, sem getur ekki varið bábyljur sínar nema með heilagri hneykslan, og móðgunargirni fyrir hönd hins meinta almættis.  Kallir þú horaðan mann feitann, þá hlær hann að þér. Kallir þú feitan mann feitan, þá móðgast hann. Móðgun er því vísasta merkiðum að um að sannleikskorn felist í móðgandi fullyrðingu.  Annað hvort geta trúaðir sleppt því að lesa það sem aðrir hafa um hindurvitni þeirra að segja eða þá rökstutt mál sitt gegn fullyrðingunni.  Móðgun ein og sér er stórlega ofmetin.  Persónulegt níð er illa þolanlegt, ef það er ógrundað og til þess gert að skaða sómakennd og mannorð. Að kalla prest t.d. barnaníðing er algerlega óafsakanlegt, nema að sönnun fyrir því eða dómur liggi fyrir.

 (Sá séra sem ég vísa í hér og fullyrðir um slíkt, er hreinlega að ljúga, snúa út úr og túlka hluti, til að mála sjálfan sig og kristindóminn sem fórnarlömb. Hann er himinhrópandi móðgun við sómakennd, þeirra, sem hér blogga og ætti eins að verða brottrækur eins og Skúli.  Legg ég til að þær fullrðingar verði skoðaðar ofan í kjölinn).

Það sem mér hugnaðist illa við Skúla (svona persónulega) er að þar fer kristinn ofsatrúarmaður, sem fordæmir trúarbrögð, sem eru af nákvæmlega sama meiði og hans eigin og ofstæki það sem hann nefnir í tengslum við Islam má allt heimfæra upp á Judeo Christian dogma og var praktíserað og er praktíserað enn í hans kreðsum. Við höfum þó losað eilítið tökin á ofstækinu og hefur Guðfræðin séð til þess að breiða yfir raunverulegt innihald textans, jafnvel að því marki að almenningur, hefur annarskonar biblíu á milli handa en akademían, með alla sína frumtexta.  Ef eitthvað ofbýður almennri sómakennd, þá er það Biblían og á Biblíunni byggir Múhameð kennisetningar sínar.

Þeir sem komast upp með að ljúga að ungum sem öldnum hér á blogginu, án þess að við því sé amast, eru prestarnir.  Þeir ljúga meira að segja með betri vitund, því þeir hafa gengið í gegnum theologiuna og hún er ekki vilhöll trú per se.  Þessir menn eru ásáttir um að halda lyginni og bábyljunni á lofti, til að tryggja stofnunina og atvinnuöryggi sitt.  Þeir eru atvinnuloddarar og ekkert annað.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.4.2008 kl. 15:15

36 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bloggið er opinn fjölmiðill, þar sem hver og einn ber ábyrgð á umfjöllun sinni og skoðunum og dæmist eða hyllist eftir efninu. Ég man aldrei eftir að hafa séð persónulegar árásir né einelti, sem orð er á gerandi, ef slíkt hendir, eru það bloggarar sjálfir, sem kveða slíkt í kútinn.  Það sem ekki stenst nánari skoðun, fellur um sjálft sig, dæmist ómerkt og þar með sá er ritar.  Þar þarf enga miðstýringu eða stórabróðurskomplexa hjá mbl.  Í opnum miðli, þar sem jafn fjölbreyttar skoðanir og fullyrðingar blómstra, er viðbúið að einhverjum sárni, eða einhver reiðist á sama hátt og aðrir fagna sömu skoðunum og fullyrðingum. Það þarf ekki annað en að skoða athugasemdir á bloggum eins og þessu til að sjá það.  Ef bloggara finnst gúmmískór lummó eða trúarbrögð vera firra, er víst að það mun særa einhvern og jafnvel móðga.  Móðgunarfrítt blogg er ekki til. 

Hér hafa risið sjálhverfir einstaklingar, sem þykir að sér hafa verið vegið og vekja athygli á ummælum og greinum, sem nokkuð víst er að fáir hefðu lesið ella. Hvert skyldi vera hið leynda eða ljósa markmið þeirra einstaklinga umfram það að vekja athygli á sjálfum sér og gefa í skyn einhverja ímynd, sem þeir kjósa hentuga fyrir sig.  Í því samhengi má varla á milli sjá hver er sekari. Móðgandinn eða hinn móðgaði. 

Fyrir þó nokkru, rauk upp hysterísk umræða um blogg einhverra strákkjána, sem lofuðu Hitler og vildu alla útlendinga brott.  Ef kyrrt hefði verið látið, hefði enginn tekið eftir því. Hinir skinhelgu pólitísku réttrúnaðarhænsn, hér á blogginu gögguðu hinsvegar svo hátt að þetta komst í alla fjölmiðla og loks var bannað að´hafa slíka skoðun opinberlega og blogginu lokað. Þetta var dæmigerður farsi fyrir hinn hysteríska bloggheim og enn hysterískari miðstjórn MBL.  Markmið umkvartenda var augljóslega að slá sig helgiljóma rétthugsunarinnar og markmið strákpjakkannna augljóslega að spila á þessa hysteríu og ekkert annað.  Af þeim stafaði engin hætta. Þeir voru varla skrifandi.

Það má líkja þessu við skopmyndamálin frægu þar sem myndir í afskekktum bæjarblöðum ollu uppþotum og eyðileggingu, ofsóknum og hatursbylgju, fyrir það eitt að það var vilji fjölmiðla og pólitískra þrýstihópa að svo yrði.  Tilgangurinn helgar meðalið.  Skrípamyndir voru algert aukaatriði þar, enda sárasaklausar og þeir sem mótmæltu hvað hæst og létu sem verst, höfðu aldrei séð þær.  Niðurstaðan varð hinsvegar sú að myndirnar komust í nánast alla vestræna fjölmiðla og um allt alnetið og það er orðin íþrótt að teikna skopmyndir af spámanninum.  Skyldu menn ekki hafa séð slíkt fyrir?  Auðvitað.  Það hentaði vestrænum fjölmiðlum að sýna fram á Íslamskt ofstæki og það hentaði Múhamestrúarmönnum að ala frekar á úlfúð gagnvart vesturlöndum. Allir fengu sitt.  Allir ánægðir.

Það má því óska þeim til hamingju með árangurinn, sem fengu bloggi Skúla lokað.  Hann var algert nobody og jafnvel hér á blogginu var hann langt undir meðallagi lesinn af öðrum. Hann var jafnvel pirrandi og forpokaður gamall kall, sem gerði langar athugasemdir með tilvitnanalanglokum í hin og þessi rit og greinar.  Það nenntu fæstir að lesa hann. Ekki ég allavega og fylgist ég þó ansi vel með. En fyrir vikið, veit alþjóð nú hver Skúli er og munu fylgjast vel með í hvert sinn, sem hann stingur niður penna.  Þetta er dilemma þeirra, sem ætla sér að beita ritskoðun og hlaupa eftir hverju æmti sjálfréttlætandi sála hér.  Höggvi þeir af hausinn, vaxa tveir sínu stærri úr sárinu.  Hugleiðið það Mbl. menn.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.4.2008 kl. 15:53

37 Smámynd: Sigurður Rósant

Þakka þessar ábendingar og leiðréttingar, Fannar.

Mér kom í hug eftirfarandi úr Matt 12:31-32 sem sú skilgreining á guðlasti sem gæti verið refsiverð, en hver getur dæmt um sekt í svona tilfelli? "Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda."

Íslenskt samfélag er byggt á kristnum viðhorfum, en hvað telst guðlast hefur aldrei verið skilgreint og verður sennilega aldrei skilgreint.

Fyrir mér er "guðlast" ekki til, en háð, rógur, smánun eða ógnun gegn trúarhópum er miklu áþreifanlegra og gæti varðað við XXV. kafla Hegningarlaga.

Jón Steinar - "Þegar þaggað er niður í einum, fyrir að viðra skoðanir sínar, þá er búið að setja múl á alla til allrar framtíðar."

Nú þekki ég ekki öll þau dæmi sem ritstjórn bloggsins hefur þurrkað burt, en ef sú útþurrkun er einungis vegna þess að menn hafi viðrað sínar skoðanir, þá er ég sammála þér í að um menningarlega afturför sé að ræða.

Hins vegar í dæmi Skúla og örfárra fleiri sem ég man ekki nöfnin á, þá er nokkuð ljóst að sumir sleppa nokkuð mikið fram af sér beislinu þegar þeir sitja fyrir framan tölvu og tjá sínar skoðanir. Þessir sömu menn myndu aldrei láta sömu orð falla í beinni útsendingu útvarps eða sjónvarps og jafnvel ekki heldur augliti til auglitis við andstæðinginn.

Það sem menn láta frá sér á bloggi er oft með ólíkindum smánandi, særandi og móðgandi. Fyrir nokkrum árum rakst ég inn á bloggsíðu skákmanna. Þar voru menn að rægja hvern annan með þvílíkum munnsöfnuði að með ólíkindum var. Ef eitthvað hræðir menn til að tjá sig þá er það einmitt á slíkum bloggsíðum.

Ég er að mörgu leyti ánægður með bloggvenjur manna hér á Mbl. þó að fyrirbænatíst trúaðra komi í veg fyrir málefnalegar umræður. Þeir hafa hvort eð er engin málefnaleg rök gegn okkur trúleysingjum.

Sigurður Rósant, 29.4.2008 kl. 20:01

38 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir fínar færslur Jón Steinar og Sigurður.   Mbl.is gaf Skúla ákveðinn "status" með þessari illa rökstuddu brottvísun.  Ég er sammála hugleiðingum þínum Jón Steinar og þú skrifar þær skemmtilega:

Þetta er dilemma þeirra, sem ætla sér að beita ritskoðun og hlaupa eftir hverju æmti sjálfréttlætandi sála hér.  Höggvi þeir af hausinn, vaxa tveir sínu stærri úr sárinu.  Hugleiðið það Mbl. menn.

Svanur Sigurbjörnsson, 30.4.2008 kl. 03:00

39 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sigurður: Lykilatriði er að menn bera ábyrgð á orðum sínum og geta í raun ekki skaðað nokkrun með þeim, hversu hvöss sem þau eru, nema að vilji sé fyrir því.  Þetta á jafnt við um nafnlausa (að nafninu til) og þá sem skrifa undir nafni.  Haldi menn uppi hatusáróðri, er það einvörðungu mælikvarði á þeirra persónulegu innréttingu og afar ólíklegt að þeir vinni fólk á sitt band, sem ekki er sömu skoðunnar fyrir.  Ósanngjarnt og uppskrúfað níð er eins og boomerang og bitnar mest á mannorði þess sem málið flyrtur.  Verði mönnum á að missa sig í umræðunni, þá er sjálfsagt að minna þá á að gæta velsæmis að viðlögðum brottrekstri, ef ástæðan er óumdeilanleg.  Að slökkva á mönnum fyrir að tala óvarlega er hreinn fasismi. 

Hafi menn gaman af einhverri Þórðargleði og þrífast í henni, eins og þú nefnir um skákmennina, þá ætti það að vera þeim frjálst. Slík blogg myndu lognast útaf ef ekki væru menn viljugir til að viðhalda dellunni.  Skítkast skaðar engann nema þann sem kastar. Það dettur engum í hug að taka mark á óöguðu og órökstuddu máli, rætni og illvilja.  Þeim er allavega vorkun, sem þrífast í slíku andrúmslofti. Það eru jú til blogg fyrir fólk með slík blæti og verði þeim að góðu að hreiðra um sig það. Við getum ekki tekið á okkur að vera einhver hugsanalögregla. Líkur sækir líkan heim.  Á blogginu getur fólk sagt skoðanir sínar, en það eru ekki skoðanaskipti að saka menn um glæpi eða eðli, sem er ógrundað og skemmandi fyrir viðkomandi.  Þar dreg ég mörkin og hundsa öll þau blogg, sem slíkt viðhafa.   Hér er fólk, sem tæpast getur sagst vera í góðu jafnvægi og það er fylgifyskur opins fjölmiðils. Hér er t.d. kona, sem skrifar stöðugt um að einhver nafngreindur heildsali, hafi myrt Geirfinn og grafið hann á lóðinni sinni. Það dettur engum í hug að banna hana né taka mark á órum hennar.  Hún á sér tjáningarvetvang hér eins og aðrir og fæstir hætta sér oftar en einu sinni í að lesa dementíuna hennar.

Hér eru einnig aðilar, sem klifa á og rökstyðja að heimsendir sé á næstu grösum eða þá að hinir og þessir stjórnmálaleiðtogar séu handbendi djöfulsins, nú eða guðs, ef því er að skipta.  Hvernig ætla menn að hafa stjórn á þessu?  Það er tæpast hægt að líkja blogginu við sjónvarp eða aðra opinbera fjölmiðla, sem háðir eru strangri ritstjórn.  Það er grundvallarmunur á þessu tvennu.  Menn geta kannski borið það saman við þjóðarsálina eða álíka útvarpsþætti, en þar hafa menn þann kost að slíta sambandi ef blaðrið verður of persónulegt eða fer úr böndunum.  Það sem ræður´á blogginu er máske einhverskonar lögmál um framboð og eftirspurn. Ef menn hafa eitthvað fram að færa, þá er það lesið. Ef fólk vill dvelja við óráðshjal jafnvægislausra einstaklinga, þá er það þeim frjálst að gera það, en það er algert óráð að mínu mati að auglýsa þá upp með upphrópunum og heilagri hneykslan, sér til upphefðar og hvítþvættis. Það er því miður að gerast hér aftur og aftur.  Það er nóg af sóknarfærum hér fyrir skinhelgar réttrúnaðarhænur að upphefja sjálfa sig á og með því að nýta sér þau, þá segja þeir aðilar mér allt um eigið innræti og takmarkalausa sjálfhverfu.  Þeir eru af nákvæmlega kaliberi og Íslamskir Immamar, sem vilja finna hverja smugu til að ræna men þeim grundvallarmannréttindum að fá að tjá skoðanir sínar og gagnrýna yfirvöld, í hvaða tón og með hvaða orðum fólk kýs að gera það.

Hin pólitíska rétthugsun meinar fólki að segja hvað því finnst, hverju sinni og krefst þess að fólk segi það sem öðrum þyki rétt að þeim finnist.  Það er hugsanakúgun.  Það er ekkert svo slæmt í hugsunum manna og orðræðu, sem ekki má hrekja eða reka ofan í þá ef það stenst ekki.  Ef fólk nennti að hafa sig frammi við slíkt, þá væri það að viðhalda mannréttindum og lýðræðisháttum. Annars er það að grafa lýðréttindum sínum gröf. 

Jón Steinar Ragnarsson, 30.4.2008 kl. 11:23

40 identicon

Mitt blogg fær ekki betri auglýsingu en grátstafi kristlinga og annarra lingalinga, svo ég tali nú ekki um þegar prestur mætir í fréttir og kveinkar sér undan mér, ókeypis auglýsing.
Annars er mér slétt sama hversu margar heimsóknir ég fé per se... þetta er bara svona dagbók um rugl og bull hjá manni

DoctorE (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 13:37

41 Smámynd: Sigurður Rósant

Jón Steinar - "...það eru ekki skoðanaskipti að saka menn um glæpi eða eðli, sem er ógrundað og skemmandi fyrir viðkomandi.  Þar dreg ég mörkin og hundsa öll þau blogg, sem slíkt viðhafa." 

Að saka menn, trúfélög, dagblöð um glæpi, eins og Ólafur heitinn Jóhannesson gerði á sínum tíma. Ég held að menn geri einmitt nokkuð mikið af þessu hér á blogginu, en orða það svo hárfínt að fáir taka eftir því.

Trúaðir birta gjarnan tilvitnanir úr sínum "heilögu ritum", sem eru óvægilegar árásir á ýmsa hópa samfélagsins eins og trúleysingja, heiðingja, kynvillinga og þá sem eru annarrar trúar en þeir sjálfir. Þeir skýla sér á bak við sínar "heilögu tilvitnanir".

Þegar við trúleysingjar notum svo þeirra eigin aðferðir og baunum á trúaða með tilvitnunum úr þeirra eigin trúarritum, ásaka þeir okkur um að taka setningar úr samhengi, snúa út úr og sýna hroka. Við höfum enga "heilaga ritningu" til að vitna í, en getum þó ef hart er sótt að okkur, vitnað í 234. gr. Hegningarlaga "Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári."

Ég álít að trúaðir brjóti ofangreint ákvæði mjög oft gagnvart okkur trúleysingjum. Ég held að þessir einstaklingar hér sem skiptast á skoðunum um trúmál, geti áminnt hvern annan svo ekki þurfi að koma til útilokana eða brottvísunar. Hér eru engin börn að blogga svo ég viti. Nema þessi 14 ára frá Hornafirði.

En ég er sammála þér að þar sem þú setur mörkin, að þar eru þau nokkurn vegin hjá mér líka.

DoctorE - "grátstafi kristlinga og annarra lingalinga" Þetta orðalag er auðvitað dálítið móðgandi, en sagt með þessum hárfínu orðum að ekki er hægt að negla þig fyrir ærumeiðandi ummæli í garð trúarhóps. Sennilega hefðirðu sætt ákæru fyrir 50 - 60 árum ef þú hefðir birt þetta í fluguriti eða auglýsingu.

Sigurður Rósant, 30.4.2008 kl. 20:22

42 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sigurður: Ég gæti sýnt þér ansi mergjaða pósta frá kristlingum, sem kalla mig ónefnum og hafa í hótunum og ógnum í skjóli biblíutilvitnanna og jafnvel án þeirra. Ég veit ekki hvort ég er að gera þeim greiða með að birta slíkt og er hikandi við það af sömu forsendum og ég nefni. Þ.e. að draga athygli að sjálfum mér og mála mig sem eitthvað píslarvætti. Ekkert í mínum orðum gagnvart þeim, kemst í hálfkvisti við mergjaðann textann sem þeim er svo tamt að vitna í á sínum andvana autopilot.  Þeir gagnrýna oft nafnleysi og kalla menn heigla, sem slíkt nota og draga raunar oftast athyglina frá umræðunni með að staglast á því eins og Jesúítaagentinn JV.  Þegar ég hef bent þeim á þeirra eigin hótanir í skjóli ritninga þeirra, þá segja þeir: "Ég sagði það ekki. Guð sagði það." Málið er nokk að þeir taka aldrei persónulega ábyrgð á dómum sínum og orðum en benda á skrudduna vondu.  Ef það slær ekki öllum heigulshætti við, þá veit ég ekki hvað gerir það.

Maður ætti kannski bara að segja þeim að hoppa upp í rassgatið á sér og fyrra sig ábyrgð á því undir því skjóli að ég sé að vitna í gamlan pönktexta.  Þótt þeir finni það hjá sér að segja að ég verði steiktur á eilífðareldi og muni líða angist og kvöl framyfir gröf og dauða, þá er það ekki endilega ósk þeirra né vilji að eigin sögn. Þeir eru bara að vitna í sinn sannleika. Maður nennir ekki orðið að eyða orðum á svo skini skroppið lið.  Trúarbrögð eru dauð og það sem við erum vitni að á síðustu misserum eru aðeins örvæntingarfullar dauðateygjur þeirra.

Ég hafði að sjálfsögðu kristlinga í huga líka, og máske sérstaklega, í þeim orðum, sem þú vitnar í, svo ég sé að við erum sannarlega að prédika yfir kórnum hérna. Gott liðsinni af þér og ég fagna því að fá svona kröftugan málsvara skynseminnar hér á bloggið.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.4.2008 kl. 23:16

43 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svanur: Svona í framhjáhlaupi...Er ekki rétt að læknafélagið krefjist sannana og leyfa frá honum Baldri Frey góðkunningja vorum, sem hélt því fram fullum fetum á Omega að hann gæti læknað hvaða sjúkdóm sem væri?  Markhópurinn er örvænt fólk, fatlað, gamalt og einfalt, sem er að ausa lífeyri sínum í þetta kjaftæði. Það þarf að skjóta loku fyrir svona og stefna þessu liði, sem og þeim, sem fá að reka hér heilbrigðisstofnanir án sérkunnáttu og fullyrða að þeir lækni alkohólisma og geðveilu. Hér eru verið að greiða úr sjóðum heilbrigðisgeirans í fyrirtæki, sem eru að reka út illa anda (for crying out loud). Hvernig stendur á að slíkt er þolað á 21 öldinni?  Hefur enginn kjark í að bjóða þessum sukkópötum byrgin? 

Jón Steinar Ragnarsson, 30.4.2008 kl. 23:26

44 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Það sem Jón Steinar skrifar um hér síðast hef ég miklar áhyggjur af.  Mér finnst þessi starfsemi ógeðsleg og ekkert annað og bölvað bull.  Hrikalegt að enginn skuli mótmæla opinberlega og það væri gaman ef læknar tækju sig saman og mótmæltu svona starfsemi. Alla vega einhver úr heilbrigðisgeiranum.

Stjórnvöld hljóta að ælta að styrkja þessa starfsemi eins og Byrgið

Margrét St Hafsteinsdóttir, 3.5.2008 kl. 01:32

45 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hæ aftur

Það er nú helst Landlæknisembættið eða heilbrigðisráðuneytið sem ætti að huga að þessum kuklurum.  Hins vegar er ekkert opinbert varnarapparat gagnvart aðilum utan hins opinbera sem þykjast geta læknað og ætti ekki að vera í sjálfu sér nema í formi menntunar og e.t.v. opinbers fræðslufulltrúa.  Hlutverk landlæknis virðist jú vera að fræða að einhverju leyti en hann virðist ekki hafa tekið opinbera afstöðu gegn kukli svo ég viti til. 

Það er öllum frjálst hér að landi að selja "nýju fötin keisarans" og öllum frjálst að hætta heilsu sinni á slíku.  Hins vegar fer nú að vera ansi þunn lína á milli kukls og hreinlega fjárplógsstarfsemi, svikum og leik að heilsu fólks.  Það þarf því að hafa vakandi auga fyrir því að hér gætu átt við lögreglumál.  Það er þó líklegra að lögreglan sé upptekin við leit að dópsölum en heilsuloddurum.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.5.2008 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband