Reykingar gerðar fallegar - opið bréf til Morgunblaðsins

Rétt áðan sendi ég neðangreint bréf á netpóstföng tilgreindra aðila hjá Morgunblaðinu.  Hvati þess er heilsíðuumfjöllun blaðsins á bls 19. í blaðinu í dag miðvikudaginn 3. september, um vatnspípureykingar.  Ég lít ekki á tóbaksreykingar mildum augum - hef aldrei gert það.  Ég hef fengið marga til að hætta að reykja, þ.m.t. foreldra mína auk þeirra sem ég hef hjálpað í gegnum starf mitt sem læknir.  Það er búið að leggja mikið á sig af mjög mörgum í gegnum árin að reyna að fá fólk til að taka ekki fyrsta "smókinn".  Það svíður því að sjá svona ábyrgðarlaus skrif í Morgunblaðinu, sem fegra reykingar.   Ég hvet fólk til að mótmæla þessu með mér.

Hér er bréfið:Vatnspípan

--------------------------------

Kæra ritstjórn Morgunblaðsins,
Kristín Heiða Kristinsdóttir greinarhöfundur og
Menningardeild Mbl
 
Opið bréf vegna tveggja greina í Morgunblaðinu í dag 3. sept 08.  bls 19.
 
Ég er áskrifandi að Morgunblaðinu og les það með augum þeirrar þekkingar og reynslu sem ég hef sem læknir og áhugamaður um heilsufarslegar forvarnir.
 
Í dag miðvikud. 3. sept 2008 varð ég fyrir miklum vonbrigðum með 19. síðu Morgunblaðsins, sem er fyrsta síða þess hluta blaðsins sem ber yfirskriftina Daglegt líf.   Á þessari heilsíðu eru tvær greinar sem fara fögrum orðum um vatnspípureykingar, önnur frá sjónarhóli neytandans og hin frá sjónarhóli seljandans.  Fyrri greinin "Stemmingin er aðalmálið" er sérstaklega varhugaverð því hún gefur þessum reykingum sérstaklega fallega mynd.  Stór og vel gerð ljósmynd sýnir tvær afar fallegar og sakleysislegar konur (önnur nýútskrifuð úr menntaskóla) með glansandi rauða vatnspípu í forgrunninum.  Talað er um reykingarvenjur menntaskólastelpunnar og að hún hefði m.a. komið jafnaldra sínum (strák) á bragðið í útskriftarferð til Ródos en hún hefði tekið pípuna með sér þangað.   Svo er talað um að blandan sem reykt sé, sé með jarðaberjabragði!!!!   
 
Halló!!! Hvað eruð þið að hugsa með þessari grein?  Tóbak gæti ekki fengið betri auglýsingu en þetta.  Þetta er mjög áhrifamikið til að fá ungt fólk til að reykja.  Þetta kemur á framfæri nýjung og dreifir athyglinni frá skaðseminni. 
 
Svo er neðri greinin kynning á því hvar er hægt að fá svona pípur og tóbakið í það með því að taka viðtal við afgreiðslumann í tóbaksbúðinni Björk.  Aftur er sýnd mynd af fallegri vatnspípu og í myndtexta er skrifað "Augnayndi".  Þetta er miklu áhrifaríkara en tóbaksauglýsingar en þær eru bannaðar eins og þið vitið.  Það er ástæða fyrir því.
 
Ef það vakir fyrir þér Kristín Heiða að gera vatnspípureykingar að "trendi" eða tískubylgju á Íslandi og hjálpa þeim sem selja tóbaksvörur þá er þetta góð byrjun hjá þér.  Öll tíska sem ýtir undir reykingar eða notkun eiturlyfja er verulega áhrifavaldandi.  Öll þessi síða æpir á mann: "Það er flott að reykja vatnspípur og það skapar góða stemmingu, mögulega í félagsskap fallegra kvenna".
 
Eru þetta skilaboð sem þú vildir koma til skila Kristín Heiða?  Vildir þú höfða til reykingafólks en gerðir þér ekki grein fyrir því hversu hvetjandi og lokkandi grein þín er fyrir ungt fólk að byrja að reykja á þennan máta?  Hvað ertu að hugsa og hvað er ritstjórn þessa hluta blaðsins að hugsa???  Það hlýtur að vera einhver ritstjórnarstefna um þessa hluti.  Morgunblaðið fer mjög víða og hefur mikla möguleika til að hafa áhrif úti í þjóðfélaginu.  Því fylgir ábyrgð.  Vissulega er Mbl frjáls og einkarekinn fjölmiðill en það tekur ekki af þessa ábyrgð, því hún er allra í þjóðfélaginu.  Mikil barátta hefur verið háð gegn reykingum s.l. 40 ár eða svo og talsverður árangur náðst þó enn séu sorglega margir sem reykja og missa heilsuna eða lífið langt um aldur fram vegna þeirra.   Ég sé það nær daglega í mínu starfi.
 
Ég fæ vart orðum lýst hversu hryggur og svekktur ég er yfir þessari heilsíðu í Morgunblaðinu og finnst að eitthvað sé verulega athugavert við það hvernig blaðið hugsar ábyrgð sína gagnvart lesendum sínum, sem eru ófáir.  Ég vona að ég sjái aldrei svona fegrun og upphafningu tóbaksreykinga í blaðinu aftur.  Gerist það mun ég segja upp áskrift minni og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.  Þetta er blaðinu til mikillar skammar. 
 
Með von um ábyrga afstöðu
Kveðja,
 
Svanur Sigurbjörnsson læknir og áhugamaður um reykleysi og tóbaksvarnir.
 
 
CC á Læknafélag Íslands, Lýðheilsustöð og Krabbameinsfélag Íslands.

------------------------------------------------------------------------------------------------------


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott hjá þér Svanur,

Við erum oftast ekki sammála en ég styð þig heilshugar í þessu máli.

Þetta er Morgunblaðinu til skammar.

.

LS.

ls (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 13:39

2 identicon

Kjaftæðisbull.

Staðreyndin er sú að mörgum þykir gott að reykja. Dagblöðin endurspeglu raunveruleikann. Það er fáránlegt að ætlast til þess að dagblöðin taki þátt í svona "social engineering" kjaftæði.

nafnlausa gungan (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 14:48

3 identicon

Varla þarf að efa að þessi læknir hefur numið í landi forsjárhyggjunnar.

Bóbó (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 15:11

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já þú skrifar sem nafnlausa gungan og berð þar nafn með rentu "nafnlausa gunga".

Þessi grein endurspeglar hluta af veruleikanum og dregur ekki úr því með fallegum myndum hversu flott sumum þykir að reykja gegnum vatnspípu.  Þannig er greinin orðin "social engineering" fyrir neytendur og seljendur tóbaks og vatnspípa.  Greinin angar af tóbakslykt og sölumennsku.  Þannig er dagblaðið Mogginn farið að "taka þátt í ... "social engineering" kjaftæði" eins og þú orðar svo fallega "nafnlausa gunga".   Ég vísa því áliti þínu til föðurhúsanna.

Það er vel hægt að fjalla um raunveruleika í þjóðfélaginu á ábyrgan máta.  Afstaða blaðamannsins endurspeglast beint eða óbeint gegnum skrifin og því er eins gott að vera ábyrgur.  Auðvitað máttu í einkamiðli skrifa eins og þér sýnist en þá þarf líka að taka afleiðingunum.  Í þessu tilviki er um lögbrot að ræða eins og mér var bent á frá Krabbameinsfélaginu og Lýðheilsustöð. 

Hér eru lögin:

7. gr. Hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum eru bannaðar hér á landi. Þetta nær þó ekki til auglýsinga í ritum sem út eru gefin utan lands af erlendum aðilum á erlendum tungumálum, enda sé megintilgangur þeirra ekki að auglýsa slíkar vörur. Þrátt fyrir það er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt að gefa út verðskrá fyrir tóbak og birta skrá yfir skaðleg efni í tóbaksvörum.
Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi.
Með auglýsingum er í lögum þessum m.a. átt við:
   
1. hvers konar tilkynningar til almennings eða sérstakra markhópa, þar á meðal vörukynningar, útstillingar í gluggum verslana, hvers konar skilti og svipaðan búnað,
   
2. alla notkun hefðbundinna tóbaksvörumerkja (heita og auðkenna) eða hluta þeirra; undanskildar eru þó vörur sem framleiddar eru undir slíkum merkjum, enda gilda auglýsingatakmarkanir laganna um þær að öðru leyti,
   
3. hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra,
   
4. dreifingu vörusýna til neytenda.
Óheimilt er að setja á markað hér á landi tóbak undir vörumerkjum sem eru þekkt sem eða notuð sem merki fyrir aðra vöru eða þjónustu.
Hvers kyns framlög til viðburða eða starfsemi sem miða að því eða hafa þau beinu eða óbeinu áhrif að kynna tóbak eru bönnuð.
Tóbaki og vörumerkjum tóbaks skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum. [Sérverslunum með tóbak, þ.e. verslunum sem einkum hafa tóbak og reykfæri á boðstólum, er þó heimilt að koma tóbaki og vörumerkjum tóbaks þannig fyrir innan verslunar að það sé sýnilegt viðskiptavinum þegar inn í verslunina er komið.]1)

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2008 kl. 15:19

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Bóbó

Í landinu ríkir ákveðin forsjárhyggja sem kemur m.a. fram í því að meirihluti þjóðarinnar leyfir ekki ákveðna hegðun í landinu.  Alger frjálshyggja eða stjórnleysishyggja er hinn póllinn, þ.e. að enginn megi skipta sér af gerðum annarra.    Við viljum það ekki og við viljum heldur ekki algera forsjárhyggju.  Tóbaksvarnarlögin bera þess vitni að við teljum reykingar það skaðlegar og það ávanabindandi að við (þjóðin) viljum ekki leyfa auglýsingar á þeim af neinu tagi þó að við viljum ekki ganga svo langt að banna reykingar fullorðnu fólki eða gera sölu á tóbaki refsiverðar.   Það er því siglt mitt á milli forsjárhyggju og frjálshyggju.  Þau vega að ritfrelsi manna varðandi reykingar vegna óyggjandi sannanna um skaðsemi þeirra.  Þú virðist ekki vera sáttur við það.   Geturðu rökstutt það frekar af hverju í stað þess að gefa mér sneiðar? Bóbó?

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2008 kl. 15:30

6 Smámynd: Rebekka

Mér finnst þetta alveg rétt hjá þér Svanur, og er sammála að falin reykingaauglýsing ætti ekki að birtast í fjölmiðlum.  Nógu erfitt er nú að halda viðbjóðnum frá reyklausu fólki samt.

Rebekka, 3.9.2008 kl. 15:34

7 identicon

Ekk gleyma því að baksíðan á blaðinu í dag fór undir þetta líka! Stærðar mynd af stúlkunum og pípunni og fyrirsögnin: "Vatnspípur vinsælar". Fáránlegt að öllu leyti.

Erla (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 15:58

8 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ég var gáttaður þegar ég sá þetta.  Hvað er morgunblaðsfólk eiginlega að spá?

Matthías Ásgeirsson, 3.9.2008 kl. 16:10

9 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Ég er eiginlega kominn á þá skoðun, að banna eigi tóbak. Eða hvaða rök eru fyrir því, að Ríkið sjálft selji þegnum sínum eitur?

Til að trappa reykingamenn niður af eitrinu ætti að selja sígarettupakkann á 2-2500 kr. í stað 600 kr. og eingöngu gegn lyfseðli.

Þá á að banna reykingar alfarið á almannafæri einsog áfengisdrykkju, fólk getur jú reykt heima hjá sér.

Ef Lýðheilsustöð og Tóbaksvarnarráð og hvað þetta nú allt heitir, er alvara, þá ættu þessar (ríkis) stofnanir að koma þessu á koppinn.

Mikið væri gaman að sjá þetta 300 þús. manna samfélag okkar gera þessa tilraun svo eftir væri tekið um heim allan...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 3.9.2008 kl. 16:27

10 identicon

Þakka  þér  þetta  góða  framtak,Svanur. Þú átt heiður skilinn. Hér  hefur  Morgunblaðið misstigið sig illilega og  orðið sér til skammar.

Eiður Svanberg Guðnason (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 16:33

11 identicon

Mikið erum við hjá Krabbameinsfélaginu þakklát þér Svanur fyrir að hafa tekið stax af skarið gagnvart Morgunblaðinu. Meðfylgjandi hér að neðan er okkar athugasemd sem við sendum á ritstjórn blaðsins.

Bestu þakkir,

Guðlaug B. Guðjónsdóttir

Ágæta ritstjórn Morgunblaðsins

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Reykjavíkur þakka ég í gegnum tíðina gott samstarf og velvilja í garð Krabbameinsfélagsins. Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur um árabil haft m.a. tóbaksvarnir á sinni könnu fyrir hönd krabbameinssamtakanna. Morgunblaðið hefur oft tekið mjög einarðlega afstöðu á móti tóbaksnotkun og verið tilbúið að segja frá afleiðingum hennar og tóbsaksforvarnastarfi.

Núna spyrjum við hvort það sé orðin viðhorfsbreyting hjá blaðinu? Í dag er því slegið upp á baksíðu og inni í blaðinu hversu vinsælar vatnspípureykingar eru og búin til einhver dulúðug stemmning í kringum þær. Þessi efnistök minna okkur á kynningarefni tóbaksiðnaðarins sem svífst einskis til að ná í nýja neytendur og festa þá í sessi. Okkur hjá Krabbameinsfélaginu sem unnið hafa að tóbaksforvörnum í marga áratugi og teljum okkur eiga stóran þátt í þeim árangri sem hefur náðst hefur sjaldan verið eins ofboðið. Einnig er þessi umfjöllun skýr brot á tóbaksvarnalögum.

 

Virðingarfyllst,

 

Nanna Friðriksdóttir, formaður Krabbameinsfélags Reykjavíkur

Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Reykjavíkur

Guðlaug B. Guðjónsdóttir (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 16:38

12 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ég man varla eftir öðru eins dómgreindarleysi hjá nokkrum íslenskum fjölmiðli og birtist í vatnspípufréttinni á baksíðu Moggans í dag og fylgt eftir með grein á innsíðu.

Ég vil fullyrða að hvorki Styrmir né Matthías hefðu látið sér til hugar koma að birta slíkt.

Hafðu þökk fyrir bréf þitt til Mogga.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.9.2008 kl. 16:41

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já ég var ekki búinn að taka eftir þessari stóru fyrirsögn á baksíðunni.  Takk Erla.   Í baksíðugreininni er þó aðeins vitnað í Viðar Jensson hjá Lýðheilsustöðinni og hann segist ekki hafa neinar tölur um ástundun vatnspípureykinga hér á landi þó að það þekkist í Evrópu að hún sé vaxandi.  Í því ljósi er fyrirsögnin hæpin.  Hann minnist á hópþrýstinginn sem tengist þessu.  Greinin inni í blaðinu er þó alveg sneidd allri gagnrýni eða faglegri umfjöllun um þessar reykingar hvað áhrif á heilsufar varðar og pípurnar og stelpurnar sem reykja þær fá ákaflega jákvæða mynd af sér.  Þá er nákvæm lýsing gefin á því hvernig eigi að nota græjuna þannig að það liggur beint við fyrir forvitna að kaupa sér vatnspípu.  Allt samhengið bendir til að þetta sé sjálfsagður hlutur.  

Eru vatnspípur vinsælar?  Hvað þarf mikla iðkun á einhverju til að það kallist vinsælt?  Sjálfsagt vilja iðkendurnir að það sem þeir geri sé vinsælt eða líti út fyrir að vera það en aftur við hin sem reykjum ekki viljum ekki viðurkenna að smá byrjun á nýrri reykingavenju sé kölluð vinsæl.  Hafði blaðamaður Mbl hugsað út í það hvað þessi fyrirsögn á baksíðu "Vatnspípur vinsælar" (án spurningarmerkis) getur haft í för með sér?  Þetta er storkandi fyrirsögn fyrir þá sem hafa áhyggjur af heilsu þjóðarinnar og það ættu blaðamenn að vita.  Gildir hjá blaðamönnum Mbl að storka og koma með ofhlaðnar fyrirsagnir í þeim tilgangi að selja?  Er varkárni ekki lengur dyggð?  Sum dagblöð hafa aldrei tileinkað sér slíka dyggð en ætlar Morgunblaðið að sigla í sama farið og henda gæðakröfum út um gluggann? 

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2008 kl. 16:42

14 identicon

Ég er ekki búinn að lesa þessar greinar, en miðað við færsluna þá geng ég útfrá því að þarna hafi verið um mjög augljóst lof á tóbaki sem, eins og fram kemur hér að ofan, er andstætt tóbaksvarnarlögum.

Það er mjög einnig mjög vert að benda á að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir varða brot á 7. gr. sömu laga sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Það eru Heilbrigðisnefndir undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar sem eiga að hafa eftirlit í sínu umdæmi að  ákvæði II. kafla laganna sé fylgt sbr. 17. gr.  og þ.m.t. 7. gr. - Heilbrigðisnefndir geta svo eftir atvikum beitt dagsektum sé ekki farið eftir fyrirmælum þeirra.

Hægt er að kæra þessa hugsanlega refsiverðu háttsemi til lögreglu sem síðan sér um rannsókn og að lokum sér ákæruvaldið um að höfða opinbert mál, leiði rannsókn til þess.

Það væri mjög áhugavert að sjá hversu langt þetta mál færi yrði það kært.

- Magnús Fannar Sigurhansson

Magnús Fannar (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 16:48

15 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Dæmigert að gungan og Bóbó þori ekki að koma fram undir nafni.

Með forsjárhyggju - tja, ég sé hvergi í færslunni að Svanur vilji banna notkun vatnspípa.  Kæmi það fram, mætti það væntanlega flokka undir forsjárhyggju.  Hins vegar að hann vilji ekki sættast á auglýsingar á vöru sem öllum er ljóst (líka þeim sem ekki viðurkenna það) að er bráðóholl og hættuleg, getur varla talist alvarleg forsjárhyggja.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 3.9.2008 kl. 16:57

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Kærar þakkir Nanna og Guðlaug hjá Krabbameinsfélaginu.

Kærar þakkir aðrir sem sýna hér stuðning.

Það þarf vart að nefna það en reykingar eru stærsti orsakavaldur krabbameina í heiminum í dag og mesti skaðvaldur kransæða ásamt of háu kólesteróli.  Reykingar eru því mesta sjálfseyðingartól nútímans og valda mestri örkuml og kostnaði í heilbrigðiskerfinu en öll önnur áhættuhegðun okkar mannanna.  Aðeins 10-15 sígarettur á dag stytta meðalævi íslenskra kvenna um 7-9 ár og íslenskra karla um 11-13 ár eftir um 20-40 ára reykingar frá ungum fullorðinsaldri samkvæmt rannsókn Hjartaverndar.  Þeir sem byrja eiga ekki gott með að hætta.  Viljum við gefa tískubólum reykinga fagurt andlit?

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2008 kl. 16:58

17 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk kæri Magnús Fannar

Þessar greinar laganna eru sérstaklega verðar skoðunar:

 Með auglýsingum er í lögum þessum m.a. átt við:
   
1. hvers konar tilkynningar til almennings eða sérstakra markhópa, þar á meðal vörukynningar, útstillingar í gluggum verslana, hvers konar skilti og svipaðan búnað,
   
2. alla notkun hefðbundinna tóbaksvörumerkja (heita og auðkenna) eða hluta þeirra; undanskildar eru þó vörur sem framleiddar eru undir slíkum merkjum, enda gilda auglýsingatakmarkanir laganna um þær að öðru leyti,
   
3. hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra,
   
4. dreifingu vörusýna til neytenda.
 

Umfjöllun Mbl er um einstaka vörutegund, þ.e. vatnspípur og sérstakt tóbak í þær og hún er til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra.  Það er því erfitt að sjá annað en að þetta sé lögbrot þó tilvitnunin í Viðar á baksíðunni bjargi einhverju. 

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2008 kl. 17:13

18 Smámynd: Jón Stefánsson

Heyr heyr. Ég segi eins og aðrir hérna - ég var alveg gapandi þegar ég las þetta yfir morgunmatnum. Þvílík fásinna.

Jón Stefánsson, 3.9.2008 kl. 17:22

19 identicon

Áfram Svanur

Ég hélt að ég væri að lesa morgunblað í morgun síðan 1960.  Þvílíkt og annað eins.  Verið að gera reykingar töff.

Takk fyrir greinina þína svanur.

Páll Hreinsson (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 17:23

20 identicon

Íþróttamenn kosta heilbrigðiskerfið meira á ári en reykingamenn

Eiríkur (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 18:08

21 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Viltu vinsamlegast sýna mér staðfestar tölur þess efnis Eiríkur.  Auðvitað fylgja slys íþróttum en íþróttir lengja líf, það er búið að sýna fram á það.   Harðar keppnisíþróttir geta orðið hættulegar og þess eru mörg dæmi að fólk deyji í sumum þeirra, en það er ekki víst að það sé marktækt meira en hjá jafnöldrum sem eru ekki í keppnisíþróttum.  Ég hef ekki séð neinar rannsóknir um það.  Það er enginn vafi á því að líkamsrækt og íþróttir sem heilsurækt eru til bóta og því er allur kostnaður sem fellur til vegna þess að einhverjir slasist öðru hvoru vegna íþrótta þess virði. 

Þær eru margar aumar réttlætingarnar fyrir reykingum.

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2008 kl. 19:51

22 identicon

hvorug stúlknanna reykja sígarettur. það er mín skoðun að þessi umfjöllun sé frekar menningarlega sinnis heldur en áróður sem hvetur til reykinga. það er ekkert gaman að vera pjúrítani og allt er gott í hófi. áfengi og tóbak er dauðans alvara það vita allir en er ekki verið að gera úlvalda úr mýflugu í sambandi við þessa blaðagrein. mér finnst allavega gaman að fá tengingu við atburði líðandi stundar og er ekki mogginn einmitt að veita innsýn í fjölbreytileika samfélagsins. p.s. það er miklu betra að stunda íþróttir heldur en reykingar og glöð borga ég skatta fyrir íþróttafólk.

bekkjasystir (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 19:54

23 Smámynd: Óli Jón

Ég tek fyllilega undir orð greinarhöfunds og kann honum þökk fyrir góðan pistil. Það er gjörsamlega á skjön við allar góðar venjur að varpa einhverjum ljóma á reykingar. Mogginn, sem það vandaða og góða blað sem hann á að vera, á að standa undir eðlilegum og sanngjörnum kröfum samtímans hverju sinni. Ég hygg að allir líti reykingar sömu augum; sem skaðlegt athæfi sem beri að uppræta með öllum færum leiðum. Mogginn getur því ekki tekið þann pól í hæðina að mæra reykingar.

Mogginn veldur vonbrigðum í dag. Vonandi stendur hann undir væntingum í framtíðinni.

Óli Jón, 3.9.2008 kl. 19:57

24 Smámynd: fellatio

ég er á móti forræðishyggju nema að því leiti að það á að banna fólk sem vill banna allt.

fellatio, 3.9.2008 kl. 20:37

25 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ég skrifa gjarnan undir þessa grein Svanur.

fellatio - af hverju er bannað að aka á móti rauðu ljósi - er það forræðishyggja eða er það vegna þess að það er hættulegt ? ...

Það er hættulegt að reykja eitur og efnin í sígarettum/tóbaksreyk er eitur.. í tóbaksreyk er m.a.: tjara, nikótín og kolsýrlingur

Önnur eiturefni í tóbaksreyk:

  • Akrýlónitril - Getur valdið krabbameini. Eitrað við innöndun, í snertingu við húð og við inntöku.
  • Ammoníak - Eitrað við innöndun. Ætandi.
  • Arsenik - Eitrað við innöndun og inntöku.
  • Benzen - Getur valdið krabbameini.
  • Benzó(a)pýren - Getur valdið krabbameini. Getur valdið arfgengum skaða og getur dregið úr frjósemi og skaðað barn í móðurkviði.
  • Blásýra - Mjög eitruð við innöndun, í snertingu við húð og við inntöku.
  • Brennisteinsvetni - Mjög eitrað við innöndun.
  • Dímetýlnítrósamín - Getur valdið krabbameini. Eitrað við inntöku. Mjög eitrað við innöndun.
  • Formaldehýð - Getur valdið krabbameini. Eitrað í snertingu við húð, við innöndun og inntöku. Getur valdið ofnæmi í snertingu við húð.
  • Hýdrazín - Getur valdið krabbameini. Eitrað í snertingu við húð, við innöndun og inntöku. Getur valdið ofnæmi í snertingu við húð. Ætandi.
  • Metanól (tréspíritus) - Eitrað við innöndun og inntöku.
  • Pólóníum 210 - Getur valdið krabbameini (geislavirkt efni).
  • Úretan - Getur valdið krabbameini.

(tekið af vísindavefnum)

Einstaka maður sleppur lifandi eða óskaddaður yfir á rauðu ljósi ... ef hann er heppinn, það sama gildir um reykingar.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 3.9.2008 kl. 21:29

26 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir þessa fræðslu Jóhanna. 

Vilji fólk spila rússneska rúllettu með eigið líf er það þeirra val en að gera hægdrepandi afbrigði hennar aðlaðandi í fjölmiðlum er annar handleggur.

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2008 kl. 21:55

27 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Mér finnst alveg tími til kominn að hookah eða shisha menningin nái til Íslands.

Miklu sniðugari aðferð til að reykja heldur en tíðkast hefur td. á Íslandi.

Siðurinn er mjög vinsæll í arabalöndunum og hefur útbreiðst á vesturlöndum hin síðari ár. Td. vaxandi í Svíþjóð og Noregi.

Mörg tóbaksafbrigði,  sem fæstir íslendingar hafa heyrt um  eru reykt úr pípunum.  Þarf ekkert endilega að vera tóbak.  Jurtir ýmiskonar.   Ég hef kannski helst áhyggjur af að það vanti fjölbreitni í tóbaksflóruna á Isl..  Hef ekki kannað  það í Björk. 

http://en.wikipedia.org/wiki/Hookah

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.9.2008 kl. 22:13

28 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sem óvirkur tóbaksfíkill vil ég taka undir með greinarhöfundi og Ásgeiri Lárussyni sem vill banna tóbaksnotkun eins og önnur vond eiturlyf. Af reynslu veit ég að þetta er ekki einu sinni "skemmtilegt" fíkniefni, en djöfullega erfitt fyrir sum okkar að losna við það.

Það er með ólíkindum að ríkið sjái um að einoka þessa eiturbyrlun á þegnum sínum. Það háttalag verður í framtíðinni skoðað sem sorglegur brandari. Að fólk hafi borgað ríkinu til að láta drepa sig hægt!

Haukur Nikulásson, 3.9.2008 kl. 22:39

29 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk kærlega Svanur að benda á þetta. Fáránleg grein í Mbl. og blaðinu til skammar.

Naflausa gungan ber nafn með rentu og ég hvet þig til að fjarlæga athugasemdina. Þegar maður smellir á nafn hans birtist alræmd ógeðssíða með raunverulegum myndum af limlestum líkum. Hreinn viðbjóður sem óæskilegt er að börn og unglingar skoði.....  eins og upphafning tóbaksreykinga.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.9.2008 kl. 23:12

30 Smámynd: Pálmi Guðmundsson

Mér brá þegar ég sá þessa frétt í Morgunblaðinu, þetta er ekki blaðinu til framdráttar. Tíska unga fólksins er þannig að allir apa eftir öðrum. Þetta er hættuleg þróun. Svo er spurning hvað þetta fólk setur í þessar vatnspípur,  verða efnin ekki bara sterkari og sterkari. Það ætti að banna þetta.

Pálmi Guðmundsson, 4.9.2008 kl. 00:05

31 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Allt þetta tal um að banna hluti kemur þessu máli ekkert við.

En hvað með atriði í Íslenskum kvikmyndum sem sýna reykingar og jafnvel reykingar kannabis, eða einhvers sterkara, í jákvæðu eða hlutlausu ljósi? Er það mjög frábrugðið svona umfjöllun í Mogganum?

mbk, 

Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 02:05

32 identicon

Mér finnst við nú stundum gleyma grundvallaratriðum og þar á ég við "málfrelsishöftin" sem laumuðust í gegn þegar tóbaksvarnarlögin voru sett. Við erum óttarlegir aumingjar í að standa vörð um okkar grundvallarréttindi og eru lög þessi dæmi um það. Málfrelsisskerðing var einna helst rökstudd með vísan til almannahagsmuna og þar skapaðist skelfilegt fordæmi. Gæti það ekki gerst að okkur væri bannað að tala um sitjandi ríkistjórn eða ráðherra nema á ákveðin hátt í nafni almannaheilla. Mér finnst það þarfari umræða en hvernig menn telja sig gera "áhugaverð" dagblöð.

The Bigot (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 03:13

33 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það er ljóst að þessi lög eru ströng.  Ef það má ekki fjalla um einstakar vörutegundir tóbaks til annars en að vara við þeim er spurning hvort að það megi t.d. ekki fjalla um sögu þeirra.  Umfjöllun Morgunblaðsins fór reyndar langt yfir strikið, bæði neytandinn og seljandinn fengu að dásama vöruna og birtar voru aðlaðandi myndir af öllu saman.   Miðað við tilgang laganna og ekki endilega hverja málsgrein þeirra er ljóst að umfjöllunin var á skjön við þau. 

Málfrelsisheftandi lög eru hugsanlega ekki réttlætanleg nema í örfáum undantekningartilvikum.  Þó að það svíði undan einhverju kolröngu er ekki endilega réttast að gera skoðunina eða auglýsinguna refsiverða.   Það þarf að vera mjög mikið í húfi svo það megi réttlæta skerðingu málfrelsis.  Þegar alþingi setti þessi tóbaksvarnarlög taldi það greinilega að um slíkt mál væri að ræða.  Það taldi skaða reykinga það mikinn að hver sá sem færi fögrum orðum um þær í rituðu máli opinberlega eða auglýsti þær, ætti að fá kæru á hendur sér og vera sektaður.  Ég er ekki fylgjandi skerðingu á málfrelsi en hér held ég að nauðsynin brjóti þá almennu reglu málfrelsis.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 08:58

34 identicon

Mikið er ég sammál þér Svanur - gott að þú tekur þetta svona föstum tökum.

Kristbjörg Linda Cooper (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 09:08

35 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Kristinn

Já mér finnst þetta frábrugðið atriðum í kvikmyndum því þar er um skáldskap að ræða, ekki litaða frásögn af einhverjum veruleika eins og umfjöllun Mbl.   Hlutverk kvikmyndar (nema að um fréttamynd eða heimildamynd sé að ræða) er að segja skáldsögu, sem auðvitað getur endurspeglað veruleika og jafnvel bjagað hann, en þar er vitað að um skáldskap er að ræða.  Hlutverk frétta í Mbl er ekki að vera með skáldskap.  "Meikar þetta sens?"

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 09:20

36 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Stundum er augljóslega verið að "auglýsa" reykingar í kvikmyndum og í Bandaríkjunum þekkjum við dæmi þess að tóbasfyrirtæki hafa greitt kvikmyndaframleiðendum fyrir að sýna reykingar í fallegu ljósi.

Mikið finnst mér svar Morgunblaðsins við bréfi þínu vera slappt.  

Matthías Ásgeirsson, 4.9.2008 kl. 09:48

37 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Ég er algjörlega sammála Svani í þessari umræðu. Og er reyndar á þeirri skoðun að almennt hafi mogganum stórlega farið aftur eftir að Styrmir hætti sem ritstjóri. Það er einmitt einsog mogginn sé að reyna að stimpla sig inn hjá ungu kynslóðinni sem "kúl og töff" allavega er ég í fyrsta sinn í meira en 20 ár moggalaus (búin að segja honum upp)

Guðrún Sæmundsdóttir, 4.9.2008 kl. 09:48

38 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Jæja krakkar mínir, sem reykingamaður sem borgar ca 500 kr af hverjum pakka (sem kostar 650) í ríkissjóð verð ég að segja; étið það sem úti frýs.

Það eru nefnilega hverfandi áhrif sem óbeinar reykingar hafa á fólk, þær auka líkur á  krabba úr 20:1.000.000 í 80:1.000.000 og valda lykt. Bú fökking hú: þetta eru lögleg efni, það eru betri líkur á því að einhver ykkar keyri yfir mig á Hringbrautinni en að þið fáið krabba vegna reykinga minna.

Þurfið þið að vera í kringum reykingar? Eruð þið neydd til þess? NEI!


Ykkur að segja þá á ég svona al Shisha og maður á ekki að draga reykinn úr því niður í lungu, ólíkt því sem þú gerir með venjulegar pípur, sígarettur eða vindla, það að bera saman reykingar á sígarettum við Shisha reykingar er eins og að bera saman vínsmökkun þar sem þú spýtir út víninu við kappdrykkju á Jack Daniels.

Það að ekki megi fjalla um vöru eða athöfn í jákvæðu ljósi er haft á málfrelsi. Frekar skal ég lifa í járnlunga en að vera bannað að tjá mína skoðun og sú skoðun er að það sé nautn að reykja. Þó að það sé óhollt. Það er nefnilega svo með andskoti margar nautnir...

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 10:07

39 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

PS: Aftur, þegar þú reykir al Shisha tekur þú reykinn ekki ofan í lungu, aðeins í munnhol, fyrir jarðaberja, epla, lakkrís, karamellu, kanil, kirsuberja, mintu eða súkkulaðibragðið hvaða bragð sem þú ert með, ekki til þess að fá nikótínsjokkið sem fengið er með því að taka niður í lungu sígarettureyk.

PPS: Þú getur sleppt því að kaupa mbl.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 10:11

40 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Hvar er hægt að sjá svar Morgunblaðsins við bréfi Svans?

Kristján Hrannar Pálsson, 4.9.2008 kl. 10:12

41 Smámynd: Sævar Einarsson

Hún er einstaklega falleg hún Áróra Árnadóttir og uppátækjasöm.

Sævar Einarsson, 4.9.2008 kl. 10:13

42 Smámynd: Sævar Einarsson

Og enn og aftur er ég sammála því sem J. Einar Valur Bjarnason Maack skrifar

Sævar Einarsson, 4.9.2008 kl. 10:19

43 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Algjörlega sammála þessum pistli, ótrúlega ósvífin grein í Mogganum og blaðinu til háborinnar skammar.

Þóra Guðmundsdóttir, 4.9.2008 kl. 10:21

44 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Sævar; takk.

Ómar; ég á 5 bragðtegundir ef þú vilt kíkja í reyk!

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 10:24

45 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

J. Einar Valur Bjarnason Maack , það er ekki verið að tala um óbeinar reykingar í "auglýsingu" moggans. Hér er fólk að mótmæla upphafningu reykinga.

 Reykingar eru þjóðfélaginu dýrar, jafnvel þó að 500 kr. af andvirði hvers pakka renni í ríkissjóð. Það eru lög um notkun öryggisbelta í bílum. Er það frelsisskerðing? Við höfum ábyrgð gagnvart samfélaginu á sama hátt og samfélagið hefur ábyrgð gagnvart okkur. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.9.2008 kl. 10:26

46 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

J. Einar Valur

Hér var og er ekki verið að tala um óbeinar reykingar.  Það er verið að tala um þau áhrif sem svon jákvæð umfjöllun umræddrar greinar í Mbl hefur á fólk til að byrja að reykja.

Þú segir að það eigi ekki að anda að sér reyk úr þessum vatnspípum.  Er það einhver réttlæting?  Hver segir að það muni nú ekki samt flestir anda að sér reyknum?  Það hlýtur að skapa meiri nautn.  Þú ert svaka kúl - býður hér í reyk.  Þú átt 5 bragðtegundir - freistandi.  Af hverju færðu þér ekki bara sleikibrjóstsykur?  Það eru mun fleiri bragðtegundir til þar.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 10:46

47 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Já. Allt í lagi. Ég ber ábyrgð gagnvart samfélaginu, ég greiði 500 kr á dag aukalega í ríkissjóð, fyrir utan skatta og annað sem á að tryggja mér réttindi til sjúkraþjónustu.

Sykurneysla er líka þjóðfélaginu dýr. Afhverju er ekki vælt yfir nammiauglýsingum?

Bílaumferð veldur líka slysum, mengun og ótvíræðum kostnaði í formi samgöngumála sem skattgreiðendur þurfa að greiða. Hví er ekki tekið tillit til þeirra okkar sem ekki keyra og þurfa samt að borga skatta í samgöngur. Afhverju samnýtið þið ekki bíla til þess að spara á ábyrgðarfullan máta gagnvart samfélaginu? Eigum við ekki að banna jákvæða umfjöllun um hraðakstur og banna sýningar frá formúlunni, spyrnukeppnum eða rallýi?

Fullorðið fólk á að hafa vit á því að taka sjálfstæðar ákvarðanir.

Það eru lög um notkun öryggisbelta. Vissulega. En þetta dæmi sýnir fádæma fávisku af þinni hálfu, þú ert að bera saman mjög ólíka hluti. Þú gætir allt eins borið saman lög gegn vopnaburði á almannafæri við bann á notkun MSG í matvæli.

Ef bannað væri að tala um hraðakstur væri það sambærilegt. Það væri frelsisskerðing.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 10:47

48 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Vegna þess að:

a) Ég kann að nota þetta efni í þessum tækjum. Fræðsla er jú eftir allt betri en hræðsla, ekki satt? Eigum við frekar að segja börnum að stunda ekki kynlíf fyrir giftinu heldur en að segja þeim að nota smokkinn? Við höfum enga stjórn á gjörðum annara þegar kemur að löglegri iðju, eigum við ekki frekar að ráðleggja öruggari leiðir en að beita hræðsluáróðri?

b) Sleikibrjóstsykur inniheldur sykur og litarefni sem valda líka heilsutjóni og óþarfa kostnaði fyrir ríkið, auka tannlæknakostnaði fyrir mig og svo að lokum innlagningu á hjartadeild þegar ég verð orðinn sílspikaður og aumingjalegur af sætindaneyslu.

c) Ég veit að ég er rosalega cool.

d) Reykingar eru nautn, ef ég má ekki segja það, þá ertu að skerða frelsi mitt til tjáningar sem er staðfest í mannréttindasáttmála SÞ.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 10:52

49 Smámynd: Pétur Kristinsson

J. Einar.

Hér er verið að tala um tóbaksreykingar en ekki skaðsemi annara hluta. Höldum okkur við efnið.

Frelsisskerðing er misnotað orð að mínu mati og er frelsi til hinna ýmissa hluta frelsisskerðing fyrir marga aðra. Til dæmis er það frelsisskerðing fyrir þá sem reykja ekki að leyfa reykingar inni á skemmtistöðum. Það er s.s. verið að neyða okkur sem ekki reykja að anda að okkur eitruðu lofti og að koma illa lyktandi heim. Sumir kalla þetta frelsi en málið er það að frelsi er vandmeðfarið hugtak sem margir öfga frjálslyndir misnota í sinni vitleysu.

Pétur Kristinsson, 4.9.2008 kl. 10:59

50 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

  • Til dæmis er það frelsisskerðing fyrir þá sem reykja ekki að leyfa reykingar inni á skemmtistöðum.

Er einhver að neyða þig til þess að velja einhvern ákveðinn bar þar sem reykingar eru leyfðar í stað þess að fara með peningana þína á reyklausa skemmtistaði sem eru þarna til þess að þjóna þínum óskum og þínum kúnnahóp?

Hér er ekki aðeins verið að ræða um tóbaksreykingar heldur líka um málfrelsið og frelsi til þess að tjá skoðanir sem eru ekki vinsælar.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 11:02

51 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Svanur

Já, meikar sens. Þó að það mætti taka þessa pælingu lengra, en sé að þessi umræða er komin út í aðra sálma.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 11:20

52 Smámynd: Kristinn Theódórsson

JEVBM
Er einhver að neyða þig til þess að velja einhvern ákveðinn bar þar sem reykingar eru leyfðar í stað þess að fara með peningana þína á reyklausa skemmtistaði sem eru þarna til þess að þjóna þínum óskum og þínum kúnnahóp?

Fór þessi umræða öll fram hjá þér þegar reykingarbannið var sett á?

Reykingar eru allastaðar illa lyktandi ósnyrtilegur subbuskapur sem truflar reyklaust fólk. Það er ekkert val fólgið í því að geta ekki elt vinahóp hvert sem er, því víðast hvar er reykingarfólk að spúa reyk framan í mann.

Eigum við ekki að halda okkur við moggaumfjöllunina og merkingu hennar?

mbk,

Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 11:25

53 Smámynd: Pétur Kristinsson

Orðum þetta svona. Sá sem reykir verður að anda reyknum frá sér og sá reykur er öðrum til ama. Sá sem reykir ekki andar frá sér lofti sem að í langflestum tilfellum er öðru fólki ekki til ama og þar liggur munurinn. Ástæðan fyrir þessu banni er sú að það virðist vera svo að að reykingafólk tekur ekkert tillit til þeirra sem reykja ekki og því varð löggjafinn að svipta þetta fólk sýnu "frelsi".

Talandi um þessa moggaumfjöllun að þá virðist sú polisía vera kominn í blöðinn að geta fjallað um það sem bannað er að fjalla um eins og t.d. áfengi á grundvelli þess að þarna séu ekki um auglýsingar að ræða. Mogginn er orðinn frekar ómerkilegur pappír enda sagði ég honum upp fyrir mánuði síðan enda orðið lítið um lessefni, ef frá eru taldar minningagreinar og auglýsingar. Það er af sem áður var.

Pétur Kristinsson, 4.9.2008 kl. 11:35

54 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Bíddu? Er ekkert val í því að geta ekki elt vinahóp hvert sem er? Ræður þú ekki hvern þú umgengst og ræður þú ekki hvert þú ferð? Á allur barinn að gjalda fyrir þína ákvörðun? Ef ég sit á bar þar sem er reykt, á ég bara að hætta allt í einu útaf því að þú labbar inn og vilt ekki að reykt sé í kringum þín, þó að starfsfólk staðarins og meirhluti kúnna reyki allt, á það að hætta fyrir ÞIG!?!

WTF?

Já. Höldum okkur við moggaumræðuna.

Hvenær er nóg, nóg?

Það gera sér allir grein fyrir skaðsemi reykinga, það er nóg fjallað um það í fjölmiðlum og á öllum vettvangi. Má ekki tjá aðrar hliðar málsins? Er það ekki skerðing á málfrelsinu og skoðanafrelsi að banna skoðanir og tjáningu þeirra því þær eru ekki vinsælar?

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 11:36

55 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Reykingafólk er svipt sínu frelsi, og það er réttlætt með því að það hafi verið öðrum til ama.

Ekkert mál. Af hverju eru þá ekki undantekningar á þessum reykingalögum til þess að reykingafólk hafi val um að geta farið á reykkaffihús eða bari, ekki ósvipað þeim reyklausu stöðum sem voru sviptir markaðssérstöðu sinni fyrir reykbann? Af hverju eru ekki reykstaðir sem þið reyklausir getið þá sniðgengið eins og við reykingafólkið sniðgengum reyklausa staði hér áður fyrr?

Því þetta er frekja og yfirgangur hjá reyklausum sem vilja helst geta verið hvar sem er, meiraðsegja á yfirlýstum reykingastöðum og sagt öðru fólki fyrir verkum.

That's why.

En. 

Aftur að mogganum. Þú hittir nefnilega naglann á höfuðið þarna Pétur: ef þú fílar ekki innhald blaðsins; ekki kaupa það!

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 11:41

56 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef þú skilur ekki samlíkinguna hjá mér J. Einar, þá er það leitt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.9.2008 kl. 12:04

57 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Ég skil hana mjög vel. Hún er bara afspyrnu léleg og órökrétt.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 12:11

58 identicon

Kæri Svanur, Ég vil þakka af heilum hug framtak þitt varðandi þessa fáránlegu grein sem Morgunblaðið birti og upphefur vatnspípureykingar. Ekki er nóg með að blaðið birti hana heldur gefur það henni verulegt vægi og pláss í blaðinu. Þetta er upphafið og gert spennandi og getur þar af leiðandi hvatt marga til að prófa. Auk þess er talað um að þetta sé “trend” eða inn það sem það er að öllum líkindum ekki fyrr en þá eftir þessa grein því unglingar vilja vera eins og hinir. Daglega byrja a.m.k. 2 grunnskólanemar að reykja. Flestir sem byrja að reykja eru undir tvítugt. Þeir sem vinna við tóbaksvarnir og heilbrigðiskerfinu við að hjálpa fólki að hætta að reykja vita hversu mikilvægt það er að byrja aldrei því það er þrautinni þyngra að losna út úr þessari fíkn. Flestir fullorðnir sem reykja vilja hætta en sumir losna ekki fyrr en komið er yfir móðuna miklu og þetta vita tóbaksframleiðendur. Eiríkur! ert þú í allt öðrum veruleika !!! 

  • Vikulega deyja u.þ.b. 6 Íslendingar fyrir aldur fram af völdum reykinga.
 
  • Árlega deyr fleira fólk á Íslandi af völdum reykinga en af völdum ólöglegra fíkniefna, áfengis, umferðaslysa, morða, sjálfsmorða, eldsvoða og alnæmis samanlagt.
 Undir þetta skrifar,  Ingibjörg K. Stefánsdóttir, starfandi sem fræðslufulltrúi Krabbameinsfélags Reykjavíkur og á reykleysismiðstöð lyflæknasviði I LSH.

Ingibjörg K. Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 12:11

59 Smámynd: Rebekka

b) Sleikibrjóstsykur inniheldur sykur og litarefni sem valda líka heilsutjóni og óþarfa kostnaði fyrir ríkið, auka tannlæknakostnaði fyrir mig og svo að lokum innlagningu á hjartadeild þegar ég verð orðinn sílspikaður og aumingjalegur af sætindaneyslu.

(ég vona að HTML dótið virki...)

JEVBM, þú fussar yfir á þinni eigin síðu að bornir voru saman kynferðisglæpir og reykingar, en hér berð þú saman reykingar og... SLEIKIBRJÓSTYKUR WTF?

Bentu mér á einhvern sem étur 20 Chupa Chups á dag. Sýndu mér svo fram á hætturnar við "óbeint sykurát". Æ nei, það er víst ekki til.

Njóttu þinna reykinga í friði, en ég bið þig um að henda ekki stubbunum á jörðina - btw, teldu stubbana á götunum næst þegar þú labbar um miðbæinn - , og blása ekki reyknum framan í neinn annan (nema hann/hún vilji það).

Reykingar eru ekki flottar og það á aldrei að sýna þær í því ljósi.

Rebekka, 4.9.2008 kl. 12:14

60 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Kristján Hrannar

Ég fékk stutt svar frá blaðakonunni Kristínu Heiðu í gær þar sem hún sagði að greinin væri til að fjalla um "trend" en ekki skapa það.  Hún sagði svo að ritstjórnin myndi taka málið fyrir.

Svo í morgun mér að óvörum (Ritstjórinn hafði ekki fyrir þvi senda mér netpóst til baka) kom bréfið mitt í prentútgáfu Mbl á bls 24 og neðan við það er "Aths. ritstj." sem hljóðar svo:

Morgunblaðið segir frá alls konar straumum og stefnum, góðum og slæmum.

Eitt slíkt fyrirbæri er vaxandi vatnspípureykingar ungmenna, sem sagt var frá í blaðinu á miðvikudag.  Í umræddri frétt á baksíðu blaðsins var upphafið svona: "Allar reykingar eru skaðlegar, líka vatnspípureykingar." Í undirfyrirsögn sömu fréttar kokm fram að ávaxtatóbak væri jafnskaðleg to annað tóbak.  Það er því fráleitt að saka Morgunblaðið um að reyna að gera reykingar fallegar.  Morgunblaðið tekur afstöðu til málefna í ritstjórnargreinum, ekki í fréttum.  Blaðið hefur áratugum saman fjallað um skaðsemi reykinga á þeim vettvangi og m.a. beitt sér fyrir reykingabanni á opinberum stöðum.  það hefur hins vegar lagzt gegn tillögum, sem fram hafa komið á Alþingi, um að banna alla umfjöllun fjölmiðla um tóbak nema hún sé sérstaklega ætluð til að vara við skaðsemi þess.  Slíkt hefur blaðið talið ganga of nærri tjáningarfrelsinu.  Sú afstaða er óbreytt. [tilvitnun lýkur].

Ég ætla ekki að svara þessu strax hér.  Þetta svar skýrir ýmislegt, eða reynir það a.m.k. eftirá.  Meira síðar.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 12:20

61 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Rödd, ég var ekki að bera saman reykingar og sleikibrjóstsykur, Svanur var að ráðleggja mér að fá mér frekar sleikjó en sígó. Ekkert mál, ég var bara að benda á að sleikibrjóstsykur er ekki skaðlaus heldur. (Athugasemd #47)

Var ég að afsaka sóðaskap eða þann dónaskap að beita Kortsnoj vörn utan skákvallarins? Lestu aftur.

Má vera að þú sért rödd skynseminnar en mér sýnist þú ekki rödd lesskilningsins í þessu tilfelli.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 12:21

62 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hér er bréf frá Rósu Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi á A6 lungnadeild Landspítala.  Hún flytur okkur fróðleik.  Mynd fylgdi með sem ég er ekki viss um að komist inn í athugasemdakerfið.

- - - - - - - -

 Komdu sæll SvanurÉg þakka þér kærlega fyrir málefnalega umræðu um skaðsemi reykinga. Ég hef undanfarin ár heilsað upp á unglinga í nokkrum efstu bekkjum grunnskóla í Hafnarfirði og rætt skaðsemi tóbaks.Síðastliðinn vetur fór að bera á vatnspípuumræðu í þjóðfélaginu og ákvað ég að ræða notkun þeirra við ungmennin.Helsta heimild mín er cohrane gagnagrunnurinn.  Vatnspípureykingar•         Forn aðferð í miðausturlöndum til tóbaksnotkunar•         Oft notuð af mörgum einstaklingum s.s.í samkvæmum/börum, þ.a.l. hætta á smitsjúkdómum•         Tóbakið oft blandað ýmsum jurtum•         Trú sumra að sé hættuminna þar sem reykurinn fari í gegnum vatnsfyllt hólf•         Rannsóknir benda til að vatnspípureykingar séu jafnávanabindandi og aðrar reykingar

•         Rannsóknir benda til sömu /meiri skaðsemi og af annarskonar reykingum

                    

Er þessi maður að reykja vatnspípu vegna dulúðar, glamúrs og félagsskapar eða rekur fíknin hann til reykinga?

 

- - - - - - -

Kærar þakkir Rósa fyrir þitt upplýsandi innlegg.  Þú verður náttúrulega áþreifanlega vör við vandann af reykingunum.   Hann J. Einar Valur ætti að koma í heimsókn til ykkar.

Bestu kveðjur og þakkir fyrir samhug og stuðning.

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 12:41

63 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Svanur: Ég geri mér fulla grein fyrir vandanum sem fylgir reykingum en það breytir ekki þeirri bjargföstu skoðun minni að frelsi einstaklingsins til þess að reykja skuli ekki eiga að skerða á meðan varan er lögleg og það að tjá skoðun á reykingum hlýtur alltaf að vera réttur hvers og eins og það að banna umfjöllun um nokkuð fyrirbæri nema á neikvæðum forsendum er hreinn og klár fasismi. Ég er líka viss um það að ef reykingar yrðu bannaðar myndi það bara leiða til svaramarkaðsvesens eins og í sambandi við önnur fíkniefni og þess vesens sem var um hinn gervalla vestræna heim á bannárunum.

Og það er ekkert dapurlegra en fullorðið fólk sem reynir að ala upp og siða til annað fullorðið fólk.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 12:58

64 Smámynd: Leifur Ellert Guðmundsson

Besta auglýsingin fyrir reykingar er fólk sem ekki reykir.

Án djóks, ég myndi hætta að reykja ef væri ekki svona viss um að ég yrði einn af ykkur. vælandi og skælandi, bannandi fólki að reykja hér og þar. pffff 

Leifur Ellert Guðmundsson, 4.9.2008 kl. 14:21

65 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já fólk verður að hafa frelsi til að gera allt mögulegt svo lengi sem það skaðar ekki aðra í leiðinni.  Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt að túlka það hvenær skaðinn nær til annarra og hversu lítill eða mikill hann er.  Þá er það annar vandi að ákveða hvenær sá skaði er orðinn það mikill að grípa þurfi inní með lögum og refsiákvæðum eða frelsissviptingu (fangelsun).  Við erum flest sammála um hluti eins og þjófnað og líkamsmeiðingar en þegar kemur að sögðu orði, þ.e. ærumeiðingum, áróðri fyrir hættulegum hlutum og ýmissi gagnrýni, þá vandast málið og fólk hefur mjög skiptar skoðanir á því hvenær sé of langt gengið í því sem maður lætur út úr sér eða hvort að nokkru sinni sé nokkurn tímann hægt að refsa fyrir orð nokkurs manns, sama hversu slæm þau kunna að vera.  Það væri nú bara ljómandi að taka þessa hluti alla saman til gagngerrar endurskoðunar og fá siðfræðinga/heimsspekinga til að leggja orð í belg. 

Ég er ekki á móti almennri umfjöllun um tóbak eða fíkniefni í fjölmiðlum og þarf sú umfjöllun ekki endilega að vera með einhverjum sérstökum varnaðarorðum eins og krafist er í lögunum.  Það er hægt að hafa fréttaskýringar eða faglega umfjöllun um efnið án þess að gera neyslunni hátt undir höfði.  Hins vegar er ég algerlega á móti því að tóbak og fíkniefni sé sett í fagran búning og fullyrðingar um vinsældir þeirra séu settar fram á forsíðum stórra fjölmiðla án sérstakrar rannsóknar á því.   Gagnrýnin beinist því að því að í heilsusíðuumfjöllun Mbl var algerlega einhliða umfjöllun frá sjónarhóli neytandans og sölumannsins auk þess sem myndefnið gerði þetta aðlaðandi.  Þessi umfjöllun stríddi því á móti þeim tilgangi laganna að tóbak fengi ekki upphafningu og einhliða jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum.  

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 14:40

66 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Leifur Ellert, viðurkenndu bara að þú getur ekki hætt að reykja, enda ekki á allra færi........

Heimir Lárusson Fjeldsted, 4.9.2008 kl. 14:49

67 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Leifur Ellert

"Besta auglýsingin fyrir reykingar er fólk sem ekki reykir"

Þetta er nú með því vitlausasta sem ég hef heyrt.  Þú vilt sem sagt ekki hætta að reykja af því að reyklausir væla í þér að hætta og heldurðu að það auglýsi reykingar þannig að fólk fari að reykja til þess eins að "vera ekki eins" og reyklausir?  Ert þú enn á mótþróaskeiði í lífinu?  Þau eru nokkur í gegnum þroska barns og unglings.  Sumir festast í því sem fullorðnir með slæmum afleiðingum.  Náttúrulega ef þú telur það góða lífsstefnu að byrja á einhverju hættulegu til þess eins að "vera ekki eins" og aðrir þá verðurðu ekki lengi að brenna út. 

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 14:52

68 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Leifur Ellert var að vitna í  uppistand Bill Hicks ef mér skjátlast ekki;

  • The only reason I don't quit smoking is because I fear that if I did, I'd become one of you.
Hann átti líka fleiri gullkorn eins og:

  • Non-smokers die every day. Sleep tight!
  • Tell you, the worst kind of non-smokers' the kind where you're smoking and they just walk up to you … [starts coughing in the naggy-I-want-you-to-stop kinda' cough] I always say, "Shit, you're lucky you don't smoke. That's some cough you got there, dude. I'm smoking, you're coughing. Wow." That's kind of cruel, man, going up to a smoker and coughing. Shit! Do you go up to crippled people dancing too, you fucks? "Hey, Mr. Wheelchair. What's your problem? Come on ironside, race ya!"

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 15:48

69 Smámynd: Leifur Ellert Guðmundsson

Þetta var nú svartur húmor hjá mér Svanur, ekki þetta með reykingarnar heldur orðin um feitt fólk, annars  er ég búin að vera með chron's núna í nokkur ár og hann er dreyfður útum alla þarma svo það er nú mjög erfitt fyrir mig að þyngjast.

ég öfunda fólk sem getur þyngt sig og þetta blog var nú bara góðlátlegt grín á milli vina. 

Leifur Ellert Guðmundsson, 4.9.2008 kl. 15:49

70 identicon

Mikið er ég sammála greinarhöfundi. Þessi umfjöllun í Morgunblaðinu stakk mig mjög óþægilega og mér finnst þetta alveg ótrúleg tímaskekkja. Hvað gengur blaðamanni eiginlega til? Notar sætar stelpur til að auglýsa nýtt trend í reykingum!  Algjört rugl!

Soffía (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 16:12

71 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

J. Einar Valur

Þú ert hér að gefa okkur innsýn í undarlegan menningarheim þeirra sem finnst þeir þurfa að réttlæta reykingar sínar með alls kyns fíflaskap og storkandi fyndni sem hljómar aðeins fyndin í eyrum þeirra sem hafa þörf fyrir að láta sér líða vel með að reykja.  Flestir sem ég þekki sem reykja eru ekki að gera sig að fífli með svona bulli. Það er aftur húmor af því að gera grín af því hversu reykingar eru vitlausar og hversu auðvelt er að plata sjálfan sig og forðast það að taka á vandamálinu.  Það er aðdáunarvert þegar fólk getur viðurkennt lesti sína og fíkn og gert grín af öllu saman án þess að níða aðra eða koma með fáránlegar afsakanir. 

Leifur Ellert

Takk fyrir að segja mér af þessu og vera hreinskilinn.  Fyrir þá sem sjá bloggið þitt og þekkja þig ekki lítur þetta ekki út sem svartur húmor, heldur ónærgætni og hroki.   Þú ættir að þekkja það að vera með erfitt heilsufarsvandamál fyrst að þú ert með Chron's sjúkdóm og vanda það sem þú setur á opið blogg gagnvart öðrum í vanda.  Svarti húmorinn eða absúrd húmorinn eins og ég kýs stundum að kalla hann á heima á milli vina í einrúmi þegar svipbrigði og annað sést sem gefur til kynna hvers eðlis er.  Um samtal og blogg gilda dálítið aðrar reglur og það borgar sig að gæta að mannorði sínu.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 16:32

72 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Rósa hjúkrunarfræðingur sem ég birti texta frá hér að ofan í færslu 62 bað mig að koma eftirfarandi hlekk til skila:

http://www.pbase.com/trevvelbug/image/51084639

Þarna er myndin sem átti að vera með textanum en hún sýnir mann í einsemd reykja vatnspípu.   Texti Rósu undir myndinni var:

Er þessi maður að reykja vatnspípu vegna dulúðar, glamúrs og félagsskapar eða rekur fíknin hann til reykinga?

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 16:47

73 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Afsakið - texti Rósu var í færslu nr 63.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 16:47

74 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

http://www.youtube.com/watch?v=UXFgl0TDT2Q&feature=related ´Þarna er eitthvað fyrir J. Einar Val  til þess að hlæja að

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.9.2008 kl. 16:52

75 Smámynd: Magnús Unnar

Nú ættu allir ættu að vita að reykingar eru skaðlegar og ætla ég ekki að deila um það við neinn en finnst engum öðrum óþolandi þessi svívirðilega forræðishyggja sem er farin að hafa áhrif á mál og prentfrelsi í landinu.

Við erum komin á hálan ís þegar fólk er farið að skammast yfir umfjöllum áskriftarblaðs um ákveðna hluti. Hvað er næst? Kynlíf og rokktónlist?

Magnús Unnar, 4.9.2008 kl. 17:18

76 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

*GARG*

Þetta var drepfyndið.

Undarlegur menningarheimur? Kannski.

Framúrskarandi góður húmor? Tvímælalaust.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 17:24

77 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

PS: http://www.youtube.com/watch?v=FKueV7_eXA0

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 17:26

78 Smámynd: Halla Rut

Þetta stakk mig líka og mér fannst þetta ekki "smart".

Halla Rut , 4.9.2008 kl. 17:31

79 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Hvað er þessi maður að reykja á þessari mynd hjá rósu?

Tóbak? Canabis? Ópíum? Það er ómögulegt að segja. Þetta er ekki klassísk arabísk vatnspípa, þ.e. al Shisha sem hann er að reykja úr.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 17:40

80 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Jafnvel Mogginn hefur sett takmörk á málfrelsi manna og það var hér á blogginu síðastliðið vor.  Þá var trúmaður mikill, Skúli að nafni, látinn taka poka sinn héðan vegna endurtekinna greina þar sem hann gagnrýndi Íslamista sterkt og var stundum ekki sérlega fágaður í orðavali í garð múslima.  Hvergi hvatti hann þó til ofbeldis eða óláta svo ég viti til.  Skrif hans gengu fram af ritstjórn þannig að hún taldi ekki vert að moggabloggið væri vettvangur ritsfrelsis hans.  Þannig sýndu ritstjórnin að hún telur að það þurfi að grípa stundum inní þegar skrif virðast vera skaðleg.  Vissulega er mogginn ekki ríkisvald og beitti ekki sektum en hugsunin er sú sama, þ.e. að takmarka aðgang eða ritfrelsi þeirra sem fara með skaðandi eða mögulega skaðandi mál. 

Nú þegar kemur að mögulega skaðandi umfjöllun um vatnspípureykingar er annað hljóð í skrokknum hjá Mbl.  Allt heilbrigðisstarfsfólk sem ég hef talað við í gær og í dag telur að umfjöllun Mbl hafi verið óvönduð og hvetjandi til reykinga.  Allir voru sammála um að hún gæti lækkað þröskuld ungmenna fyrir því að byrja að reykja.  Færslur hér að ofan frá Krabbameinsfélaginu bera þess vitni.  Hins vegar taldi ritstjóri Mbl að svo væri ekki vegna tilvitnana í Viðar Jensson hjá Lýðheilsustöð á baksíðugreininni.  Viðar fékk þó ekkert pláss á heilsíðunni inní blaðinu (bls 19), en ég hef það frá honum að hann vildi koma meiru að ,en var sagt að það væri ekki pláss.  Það var hins vegar pláss fyrir flennistóra mynd af hamingusömum neytendum tóbaksins.  Um tóbaksvarnarögin sagði ritstjóri Mbl í svari sínu í dag:

það [Morgunblaðið] hefur hins vegar lagzt gegn tillögum, sem fram hafa komið á Alþingi, um að banna alla umfjöllun fjölmiðla um tóbak nema hún sé sérstaklega ætluð til að vara við skaðsemi þess.  Slíkt hefur blaðið talið ganga of nærri tjáningarfrelsinu.  Sú afstaða er óbreytt.

Kjarninn í þessu er tjáningarfrelsið.  Í tilviki umfjöllunar um tóbak finnst ritstjóranum í lagi að fjalla um tóbak í öðrum tilgangi en að vara sérstaklega við skaðsemi þess.  Gott og vel, en finnst honum í lagi að fjalla um tóbak á þann máta að notkun þess sé fegruð og kynnt sé hvar megi kaupa sérstakar græjur til að neyta þess á nýjan máta?  Finnst honum í lagi að fjalla um reykingar eins og um nýtt leikfang sé að ræða sem sjálfsagt sé að reykja í hóp "fyrir stemminguna".  Hugsar ritstjórinn um afleiðingar slíkrar fréttamennsku, þ.e. óbeinu skilaboðin sem gefin eru til ungmenna á Íslandi?  Sjálfsagt var þeim fréttastjóra Mbl. sem rak Skúla trúarbloggara út af Moggablogginu umhugað um áhrif skrifa hans á fólk sem hefði ekki dómgreind eða upplýsingar til að hafna skoðunum hans.  Vissulega þarf að skoða hvert mál fyrir sig en er ekki ósamræmi í afstöðu Mbl nú miðað við þá.  Það er jú erfiðara að gagnrýna eigið skinn en e.t.v. telur ritstjórinn þetta gerólík mál.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 17:59

81 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Lárus Baldursson - Vinsamlegast auglýstu skemmtan þína við vatnspípureykingar á þínu eigin bloggi.   Ég mun þurrka út frekari færslur í þessum dúr hjá þér eða öðrum sem setja slíkar færslur hér.  

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2008 kl. 18:08

82 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég er sjálfur nýhættur að reykja og nýkomin yfir erfiðustu fráhvörfin sem fylgja sígarettureykingum. Ég er búin að kollvarpa öllum tröllasögum varðandi reykingar... því ég hef róast og grennst  svo það er tekið eftir því í mínu daglega lífi eftir að ég hætti að reykja sígarettur.    Hitt þarf ekki að koma á óvart. Ég er heilsuhraustar og ósjálfrátt komin í miklu betra form. Ég finn öðru hvoru fyrir fráhvörfum en varla svo talandi er um.

Ein af megin ástæðum þess að mér tókst að hætta er að ég forða mér frá öllu ofstæki.  T.d predika ég ekki yfir öðru fólki að reykja ekki sígarettur og kippi mig ekkert upp við það að aðrir fái sér sígarettur í kringum mig. Þetta tengist líka því að ég tók fór í bann á hvítum sykri því ég vissi að ég yrði forfalin kolvetnisfíkill ef ég passaði mig ekki í þeim efnum. 


Ég tala af eigin raun  er ég segi að það voru ekki svona auglýsingar eins og þú vísar í Svanur höfðu engin áhrif á að flestir byrjuðu að reykja sígarettur.  Besta auglýsingin var að sjá aðra reykja.  Í mínu tilfelli varð ég forvitin og byrjaði að prufa því aðrir reyktu í kringum mig. Það hafði ekkert með svona auglýsingar að gera. Í öllum tilvikum þegar ég fékk mér reyk þá var mér varað við og spurður hvort ég væri viss... en viðvaranir jafningja minna stöðvuðu mig ekki í að fá mer reyk.

Ég held að þú megir ekki vanmeta sjálfsvald unglinga..

Allaveganna vil ég líta svona á hlutina

að ég hætti að reykja er mér að þakka.... að ég byrjaði er engum öðrum nema mér að kenna.  


Brynjar Jóhannsson, 4.9.2008 kl. 19:21

83 identicon

Hvers vegna ber einhverjum skylda til að fjalla um eitthvað ákveðið viðfangsefni á neikvæðann hátt?

Ef þið væruð alráð væri sennilega fjallað um heimsóknir í "dauðafabrikkur" á kúbu í ferðamáladálkunum. 

aggi (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 00:12

84 identicon

Ég reyki ekki, en þegar ég var unglingur þá fiktaði ég. Það sem fékk mig til að fikta var að þetta var BANNAÐ. Auglýsingarnar höfðu sitt að segja, ég og fleiri unglingar fórum í þvílíkan mótþróa og reyktum framan í kennara og aðra til að vera cool. Svo þegar öllum var farið að vera sama um að ég reykti þá hætti ég, mér fannst þetta nefnilega alltaf svo ógeðslega ógeðslegt og þetta hætti að vera cool þegar fólki stóð á sama.

Bönn hafa öfug áhrif á unga fólkið, t.d. hefur bann og stríð bandaríkjamanna verið besta markaðsetningartæki sem dópframleiðendur hafa nokkurtíman fengið í hendurnar. Marga milljaraða dollara herferðir ríkisstjórna sem auglýsa vöru dópframleiðenda ókeypis. Neyls E-taflna varð t.d. alheimsvædd á nokkrum dögum rétt eftir að DIA setti þær á listan hjá sér.

Bjöggi (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 12:16

85 identicon

"...gefur þessum reykingum sérstaklega fallega mynd. Stór og vel gerð ljósmynd sýnir tvær afar *fallegar og sakleysislegar konur (önnur **nýútskrifuð úr menntaskóla)..."

*Kristín Heiða hafði aldrei séð mig, né vinkonu mína þegar hún hringdi í mig og bað um símaviðtal. Hún valdi mig ekki út frá útliti.

**Ég er á síðasta ári, ekki að það skipti neinu máli.

Viðhorf mitt á vatnspípureykingum er ekki viðhorf Morgunblaðsins, og á baksíðunni stóð meira að segja að vatnspíputóbak væri alveg jafn skaðlegt og annað tóbak. Ég er sammála því að það sé svolítið sérstakt að þessi grein hafi fengið næstum tvær heilar síður, en ég held hins vegar að tilgangurinn hafi alls ekki verið að auglýsa tóbak. Reynið að skilja það að Morgunblaðið vill aðeins gefa lesendum sínum innsýn í menningarnýjunga á Íslandi, í stað þess að fegra og fela. Þeir sem eru lögráða og geta keypt tóbak eru alveg nógu skynsamir til að ákveða hvort þeir vilja reykja eða ekki, þeir þekkja áhættuna. Mér finnst ekki vera þörf á því að banna alla umfjöllun um tóbak.



Áróra Árnadóttir (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 17:39

86 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, ég hef eiginlega ekki orðið jafn undrandi síðan í mars 1946 er ég rakst á þessa auglýsingu í Amerískum tímaritum og kallaði ég þó ekki allt ömmu mína á þeim tímum.

Sigurður Rósant, 5.9.2008 kl. 20:16

87 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Veit einhver hver hefur hagsmuni af þessu tóbaki? þ.e. hver er innflutningsaðili?

Skyldi það vera einhver innanbúðarmaður(kona) hjá Árvakri? allavega er ég tilbúin til þess að sneiða hjá öllum öðrum vörum sem þessi heildsali selur!

Eða er þetta ávaxtatóbak smygl?

Guðrún Sæmundsdóttir, 5.9.2008 kl. 22:35

88 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Áróra

Ég bjóst nú ekki við því að Kristín Heiða hefði valið ykkur vinkonurnar út frá útliti en það breytir því ekki að fallegt fólk gefur myndum fallega ásýnd þannig að það eykur áhrifakraft vatnspípumyndarinnar.  Önnur ykkar brosir þannig að það lýsir ánægju með vatnspípuna hvort sem það hafi verið ástæða brossins eða ekki.  Sjálfsagt viljið þið ekki fela neitt en það er dálítið annað að koma fram í stórum fjölmiðli og lýsa ánægju sinni með tóbaksnotkun, sama hvert formið er, vindill, sígarétta, vatnspípa eða munntóbak.  Þetta er ykkar val og þið þekkið hætturnar af reykingum, þannig að þið ættuð einnig að gera ykkur grein fyrir því að val ykkar getur verið fordæmisgefandi. 

Það er hægt að skilja það að blaðakonan og sá sem ritstýrði vildi gefa lesendum sínum innsýn í "menningarnýjung á Íslandi", en sá máti og það vægi sem þessi kynning fékk var gagnrýniverð.  Þetta var fegrun að mínu viti og mjög margra annarra sem hafa tjáð sig um málið.  Þetta stakk fólk þannig samstundis.  Bréf mitt og fleiri orð mín hér að ofan rökstyðja það frekar.

Vissulega á fólk að hafa skynsemi til að velja það sem því er hollast, en dæmin sanna að með tísku og alls kyns kreðsum er hægt að hafa áhrifa á val fjölda fólks og þá er meira hugsað um stundargamanið eða félagslegan ávinning frekar en undirliggjandi hættu.  Aftur og aftur vanmetur fólk hversu feikilega ávanabindandi nikótín er, og hversu vaninn er öflugur.   Þú vanmetur mátt þinn til að setja fordæmi.  Fyrstu bekkingar (eða 3. bekkingar) horfa alltaf upp til eldri bekkinga og því breytir þú ekki.  Það er einfaldlega óumflýjanleg staða í lífinu sem eldri bekkingur.  það er horft á það sem þú gerir og tekið upp af sumum til að líkjast þér eða fá það sama og þú hefur, hvort sem að það er skynsamlegt eða vitlaust.

Varðandi umræðuna um tóbak hef ég talað um hér ofar.   Eins og um svo margt annað skiptir máli hver nálgunin er.  Tóbak er fíkniefni og það skyldi alltaf hafa í huga.  Takk fyrir innlitið og hreinskilnina.

Svanur Sigurbjörnsson, 6.9.2008 kl. 00:39

89 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hæ Sigurður Rósant

Já þessi auglýsing frá 1946 með mynd af lækni reykandi og fyrirsögninni "Fleiri læknar reykja Camel en nokkra aðra tegund af sígarettum".  Ótrúlega ósvífið því að hún storkar því að reykingar geti verið óhollar og gefur í skyn að læknar telji reykingar ekki vandamál, heldur hugsi meira um hvaða tegund sé best.  Það má brosa að þessu í dag en þeir sem hafa misst sína nánustu úr lungnakrabba gegnum áratugina langt um aldur fram, er vart skemmtan í huga.

Svanur Sigurbjörnsson, 6.9.2008 kl. 00:46

90 identicon

Svanur, áttu þá við að það eigi að banna fólki að segja álit sitt á tóbaksneyslu í fjölmiðlum? Eða banna fólki að brosa á myndum þar sem tóbak er sýnt? Eða máski á bara einfaldlega að banna fólki að brosa á meðan það er í námunda við tóbak? Tóbaksneysla hefur aldrei verið jafn sýnileg og núna, í kjölfar reykingabannsins, þegar fólk stendur á hverju götuhorni og púar. Hvers vegna má þá ekki fjalla um þennan hlut sem er hluti af daglegu lífi, hvort sem okkur líkar betur eða verr? 

Þó þetta hafi komið við kauninn á einhverjum kveifum, þá er þessi grein ekki sambærileg við auglýsingar kameldýrsins þar sem læknar gefa sígarettusortum þrjá þumla upp af tveimur mögulegum.

Sjálfur er ég fullorðinn, fallegur og brosmildur, auk þess sem ég reyki eins og skorsteinn... Og þykir það fjári gott. Ef svo ólíklega vildi til að  blaðamaður færi eitthvað að spyrja mig eitthvað út í það, þá færi ég ekki að ljúga að honum eða gretta mig til þess eins að þóknast fólki eins og þér. 

aggi (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 02:01

91 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Yfirgnæfandi meirihluti fólks er skynsamt og lítur á reykingar sem alvarlegt og rándýrt heilbrigðisvandamál og er sammála um að banna auglýsingar á tóbaki og/eða að upphefja reykingar í fjölmiðlum. Hinn litli minnihluti sem er ósáttur við þessar reglur, verður að sætta sig við það. Samfélaginu ber skylda til að sporna við reykingum, þó ekki væri nema vegna barna og unglinga sem ekki er enn farin að reykja. Við útrýmum kannski ekki reykingum með þessum reglum, ekki strax, en við erum að uppfylla siðferðilegar skyldur sem ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Foreldrar eiga aldrei að samþykkja unglingadrykkju, þó þeir viti að unglingurinn drekki samt sem áður. 

Að berjast á móti reglum um áfengi og tóbak er einhver þrjóska og það er beinlínis heimska að halda því fram að verið sé að hefta frelsi í einhverri mynd með reglunum. Það er verið að sporna gegn því að fólk eyðileggi heilsu sína. "Heilbrigða" fólkið sem er sem betur fer í meirihluta, kærir sig ekki um að hinir geri sjálfa sig að bagga á þjóðfélaginum. Aggi hér að ofan er hann farinn að teygja umræðuna inn í ímyndaðan veruleika með útúrsnúningum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.9.2008 kl. 04:16

92 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég tek undir orð Gunnars Th

Aggi.  Þú spyrð spurninga eins og maður sem skilur ekki samhengi hlutanna.  Hér er verið að tala um það fordæmisgildi sem þessar myndir í Mbl gefa.   Brostu með sígaréttuna þína út í bæ eins og þig lystir.  Það hefur ekki sömu áhrif og að fá brosandi mynd af sér með rettuna í stórum fjölmiðli þar sem fyrirsögnin væri "Sígarettureykingar eru vinsælar"! 

"Tóbaksneysla aldrei jafn sýnileg og núna"  É set ??? við það.  Það hefur aldrei verið jafn sýnilegt og núna hversu fáránlegt það er að reykja og húka úti með rettuna - vera háður því að sjúga reykinn og fara út úr húsi til þess, burt frá öðrum. 

Svanur Sigurbjörnsson, 6.9.2008 kl. 11:11

93 identicon

Sæll Svanur. Við brosum ekki vegna ánægju af vatnspípureykingum, það er ekki einu sinni kveikt í henni því ég á ekki tóbak, við brosum einungis vegna þess að það er verið að taka mynd af okkur.*Say cheese!* Mér finnst óþarfi að kvarta í Morgunblaðið og segja að myndin hafði fallega ásýnd þegar ég er búin að útskýra fyrir þér að Morgunblaðið gat ekkert gert í útliti okkar, nema kannski með photoshop. Ég efast um það að 3. bekkingar flykkist út í Björk og kaupi sér vatnspípu bara út af því að ég kom í blaðinu með eina slíka og sagðist reykja örfáum sinnum í samkvæmum, þeir mega líka ekki kaupa sér slíka. Og þótt svo væri efast ég einnig um það að þessir krakkar fái krabbamein af því að anda þrisvar að sér vatnsgufutóbaki með ávaxtabragði. Meiri skaði er af óbeinum reykingum. Það er allt annað að vera háður nikotíni og reykja á hverjum degi, en að reykja vatnspípu fjórum sinnum á ári. Mér finnst ósanngjarnt að þú segir að ég vanmeti mátt minn til að setja fordæmi. Þegar Kristín hringdi hafði ég ekki hugmynd um hversu stór þessi grein yrði, ég vissi ekki að það yrði tekin mynd og ég var ekki einu sinni alveg viss um að þetta væri viðtal. Ég vissi ekki að það væri lögbrot að birta grein um tóbak sem er ekki neikvæð gangvart efninu. Morgunblaðið gat ekki breytt útkomunni, myndinni né svörum mínum, ég tek þetta allt á mig. Ég gerði mistök og ég hugsaði ekki um afleiðingar gjörða minna. Ég er samt enn á sömu skoðun, mér finnst þetta í lagi. Ef eitthvað þá hefur þetta jákvæð áhrif á samfélagið þar sem þetta hefur fengið mikla neikvæða umfjöllun. Ég er að verða sein í vinnuna, takk fyrir.

Áróra Árnadóttir (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 11:50

94 identicon

Það er ánægjulegt að tóbakneysla hafi farið minnkandi á undanförnum árum og
ástæðan er m.a. sú þekking sem við höfum á skaðsemi tóbaks. Það er mín
skoðun að aldrei sé of mikið fjallað um skaðsemi tóbaks en að sú umfjöllun
verði að vera byggð á faglegum grunni. Þá meina ég að fólk verði að fara
varlega í að koma skoðunum sínum á framfæri nema að vel rökstuddu máli.
Forsjárhyggja er ekki leið til árangurs. Tóbak er skaðlegt, það er
staðreynd. Mér finnst illa gert gagnvart stúlkunum í Mbl.greininni, að
birta af þeim mynd á þessu bloggi vegna þess að þeirra persóna er
aukaatriði í þessarri umfjöllun. Ég hef öruggar heimildir fyrir því að
hvorug þessara stúlkna reyki sígarettur. Samkvæmt tölum um tóbaksneyslu þá
fer hún minnkandi sem leiðir að þeirri niðurstöðu vel sé unnið að forvörnum
í landinu. Það er mikill munur á forvörnum og forsjárhyggju. Verum góð við
hvort annað og vöndum okkur í lífi og starfi.

Gunnar H (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 12:01

95 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Ég er alveg sammála Svani í þessu en væri líka alveg til í að sjá svona viðbrögð við öllum áfengisauglýsingunum sem eru í gangi........Ég hef unnið í lögreglunni og að hlusta á fjarskipti lögreglunnar yir eina venjulega helgi er í raun svakalegt.

'Afengis og fíkniefna vandamál þessarar þjóðar er gífurlegt vandamál...ekki síður en reykingar,

Einar Bragi Bragason., 6.9.2008 kl. 14:12

96 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Já Einar Bragi... það hefur eimmitt gengið svo vel að stjórna fíknefnavandanum með þeari yndislegu löggjöf - eins og bjórbannið í denn kom í veg fyrir alkohólisma.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 6.9.2008 kl. 15:28

97 identicon

Svanur, hvert er samhengið sem ég skil ekki? Ég sé hérna fólk að rífast yfir því að raunveruleikinn er ekki ritskoðaður og "fegraður" eftir þeirra höfði. Hvað er það sem ég er að misskilja? Hvað er "elementið" í þessari mynd sem að þér finnst að eigi að banna? 

Ég sé ekki mikinn mun á þessu og að vilja ritskoða myndir af feitu fólki sem brosir í námunda við mat...Því þar er jú líka fordæmisgildi og offita er stórhættuleg heilsu almúgsins. Eigum við bara að sýna myndir af akfeitum hjartveikikandídötum með mæjónessamloku í hönd og brosandi út að eyrum eins og það sé allt í lagi að vera akfeitur?  Þið megið kalla það ímyndaðann veruleika, en það væri ágætt ef þið væruð svo góðir að útskýra muninn fyrir mér.

Annars máttu alveg setja spurningamerki við það að tóbaksneysla hafi aldrei verið sýnilegri, en þú hefur rangt fyrir þér. Það getur vel verið að það þyki kjánalegt að húka úti á götuhornum í öllum veðrum að sjúga reyk...En þrátt fyrir það er þetta fólk sýnilegt. Fáðu þér bíltúr niður laugaveginn á laugardegi og teldu sígaretturnar. 

Andskotinn hafi það, maður er að reyna að vera vinstrisinnaður en þú og þitt fólk hrekið mann alltaf lengra til hægri með forræðishyggjunni og tilraunum ykkar til að gera heiminn hálfvitaheldann.  

aggi (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 16:40

98 Smámynd: Zaraþústra

Er núna allt í lagi að banna hluti ef meirihlutinn vill það? Ég hélt það þyrfti betri rök en þetta, allavega var þetta töluverður hausverkur fyrir stjórnmálaspekingum hér áður. Annars held ég að svona væl skipti engu, að kæfa umræðuna eða banna reykingar gerir sígarettur bara svalari í augum unglinga. Vona að það verði ekki til svartur markaður fyrir tóbak hér á landi í framtíðinni, nóg af óþverralýð samt í kringum þessi fíkniefni.

Annars er hálfur pistillinn aftan á blaðinu viðvörun um skaðsemi ávaxtatóbaks, undirtitillinn skýrt merki um hvað liggur fyrir. Svo er ekki hægt að álasa stelpunum fyrir að vera huggulegar, það er bara vitleysa.

Zaraþústra, 6.9.2008 kl. 18:29

99 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Ég sá nú ekki þessa grein í mogganum, en mér finnst allt í lagi að fjalla um vatnspípureykingar eins og víndrykkju sem er blessuð bak og fyrir víða.  Í matreiðsluþáttum er mikið talað um vin og það dásamað. Ég hins vegar drekk ekki áfengi nema afar sjaldan og þá helst þegar ég fer til útlanda og mér leiðist alveg hrikalega fullt fólk sem maður þarf svo oft að þola ef maður bregður sér út á lífið eða bara út að borða svo maður tali nú ekki um hinar og þessar veislur sem manni er boðið í.  

Ég hef lent í því að full manneskja hafi verið að óskapast yfir því að ég reyki   Ég held að hóflegar reykingar skaði ekki fólk ef það hreyfir sig og nýtur útilofts. Hóflega drykkja þykir ekki heldur slæm fyrir fólk, nema ófriskar konur sem öll drykkja er storhættuleg fyrir skv nýjustu rannsóknum.

Fólk þolir reykingar misvel.  Sumt fólk reykir í tugi ára, eins og gamall maður á Seyðisfirði, sem var kominn yfir áttrætt og hafði reykt síðan hann var unglingur og var hraustur karl.  Hann hætti að reykja þegar hann var 85 ára, því hann hafði ekki lengur neina löngun í tóbak. Hann lifði lengi eftir það.

Kannski hætti ég að reykja einhvern daginn  en núna ætla ég að fá mér kaffi og sígarettu og kíkja á sjónvarpið

Margrét St Hafsteinsdóttir, 6.9.2008 kl. 19:04

100 identicon

Ég hef aldrei skilið þegar fólk stendur og kvartar yfir mengun af bílum - vondri lykt af síldarbræðslunni - óþef frá verksmiðjunni o.sv.frv. - svo stendur þetta sama fólk með sígarettuna milli puttana og sogar reykinn djúpt ofaní lungun - er til meira ósamræmi???

Og ég er þér innilega sammála Svanur að það er alltof mikil fegrun á reykingum í þessari vatnspípugrein í MBL - hún stakk mig líka.

Ása (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 21:38

101 Smámynd: Zaraþústra

Áfengi er hættulegt í sama skilningi og tóbak.  Það eru aðeins háaldraðir menn (eða um og yfir fertugt) sem hafa eitthvað gagn af því að fá sér vínsopa, en þó ekki meira en einn skammt á dag (25cl?) og með minnst þremur frídögum í viku.  Ef menn halda að áfengi sé holt í hófi af þessum ástæðum þá gætum við allt eins sagt að tóbak sé holt, gott gegn ákveðinni gerð bólgu í skeifugörninni til dæmis.  Áfengi eykur umtalsvert líkur á brjóstakrabbameini hjá konum svo eitthvað sé nefnt.  En maður leyfir sér þetta fyrst maður er hvort eð er að borga háan syndaskatt, menn geta hugsað sér þetta sem lífeyrissjóð.

Zaraþústra, 6.9.2008 kl. 21:42

102 Smámynd: Zaraþústra

holt/hollt

Zaraþústra, 6.9.2008 kl. 21:43

103 Smámynd: Sigurður Rósant

Svo ég hoppi úr fortíð yfir í nútíð, þá nær enginn einstaklingur með tærnar þar sem Kim Larsen er með hælana, þessa dagana.  Hann, ásamt Himmelblå Fonden, hafa notað mörg hundruð þúsund danskar krónur í að mótmæla lögum um tóbaksvarnir með auglýsingaplakötum á helstu járnbrautarstöðvum í Danmörku og á 600 - 700 kaffihúsum. Slagorðin hafa vakið undrun,  "Tillykke med rygeloven. Gesundheit macht frei" og þykja helst minna á ofsóknir Nazista á hendur Gyðingum hér áður fyrr. Hér er því um heilagt stríð að ræða, í okkar nútíma samfélögum.

Sigurður Rósant, 6.9.2008 kl. 23:02

104 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Margrét

Í fyrsta lagi vil ég biðja þig að skoða þessar greinar í Mogganum sl. miðvikudag.   Í öðru lagi vil ég biðja þig að lesa aðeins meira um áhrif reykinga á heilsufar.  Þú virðist lifa á bleiku skýi í þeim efnum.  Að meðaltali stytta konur ævi sína um 7-9 ár með því að reykja hálfan pakka á dag.  Það er ekkert holt við reykingar eins og þú virðist halda.  Auðvitað lifa sumir af reykingar sínar og deyja úr öðru en á ungt fólk að byggja ákvarðanir sínar á því.  Þú tuttugufaldar líkur þínar á lungnakrabbameini með því að reykja og er mestur skaðinn gerður eftir fyrstu 10 retturnar á dag. 

Zaraþústra og aðrir bannhræddir

Burt séð frá lögum sem banna eða banna ekki, þá var þessi umfjöllun Mbl um vatnspípureykingarnar ákaflega átakalaus og hafði útlit fagurkerans og þess sem skeytir ekki um fordæmisgildi hlutanna.  Ég hef efast um gildi lögbanna við fíkniefnaneyslu en ekki séð það nógu sannfærandi að aflétting lögbanns myndi skila sér.  Kannski er það bara af því að maður hefur ekki séð það í framkvæmd, en þjóðfélag sem er ekki tilbúið að taka við frálsræði er ekki endilega betur sett með það.  Mér finnst að mörgum spurningum sé ósvarað í þessum málum.

Svanur Sigurbjörnsson, 7.9.2008 kl. 00:42

105 identicon

Mig langar til að varpa fram spurningu. Spurningin er : Hvernig mælir maður hvenær Þjóðfélag er tilbúið frjálsræði?

Gunnar H (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 01:01

106 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Ég verð að kíkja á moggann. En annars er ég ekki á bleiku skýi i þessum efnum frekar en öðrum og veit allt um skaðsemi reykinga en reyki þó

Það er ekki langt síðan ég fór í rannsókn og það er allt í lagi með mig, lungun og allt .........ennþá en ég óska engum þess að byrja að reykja, það er mjög erfitt að hætta. Ég hef þó hætt nokkrum sinnum og lengst í 3 ár en byrja alltaf aftur hvernig sem á því stendur.

En bestu kveðjur til þín og vonandi ertu ekki ferlega pirraður á mér.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 7.9.2008 kl. 02:51

107 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Flott grein hjá þér Svanur og virkilega þörf á henni. Ég á 2 táningadætur sem eru aldar upp í reyklausu umhverfi og hata fýluna af reykingum. Þegar ég hef rætt reykingar við þær, hef ég minnst talað um heilsuna, því ég veit af eigin reynslu að þegar maður er táningur og ekki haft mikið af sjúkdómum í návígi, heldur maður að maður að sjúkdómar og dauði sé eitthvað sem aðrir verða fyrir og maður verði ekki veikur fyrr en maður er orðið fjörgamall og lífið hvort eð er ekki skemmtilegt lengur (kominn yfir 25 ár). Þess vegna hef ég lagt aðaláherslu á allt hitt neikvæða með reykingar svo sem ljóta húð, illa lyktandi fólk, frelsissviptingu, dýrt og fitandi þegar maður hættir og hætta á annarri fíkn ef maður lostnar undan nikótín fíkninni eins og til dæmis sykurfíkn sem kom í staðinn fyrir nikótínfíknina hjá mér þegar ég hætti.

 Ég fékk því vægt sjokk þegar dóttir mín kom heim úr partý með þær fréttir að það væri komin ný aðferð til að reykja, sem hvorki væri ávanabindandi, né hættuleg og maður lyktaði ekki eins og öskubakki þó maður reykti . Þetta væru rosalega cool pípur, til í mismunandi litum og hægt að reykja næstum hvað sem er í þeim. Ég hef ekki lesið moggagreinina, þar sem ég er ekki á landinu, en mér skilst að hún hafi verið jafn ábyrgðarfull og sú fræðsla sem dóttir mín fékk í þessu partý. Þegar þetta var, voru vatnspípur bannaðar í Svíþjóð svo ég bað hana vinsamlegast um að afla sér betri upplýsinga áður en hún ákvað að taka þetta upp. Ég hefði haldið að hún hefði meiri virðingu fyrir líkama sínum en að setja allan fjandann í hann. Þetta hefur dottið niður aftur, en ef fræðslan um þessi mál í Mogganum eru á svipuðu plani og dóttir mín fékk í partýinu, finnst mér ekki skrítið þó það veki viðbrögð.

Til ykkar reykingarmanna sem ennþá rembist við að mæla reykingum bót; Reykingar eru að detta upp fyrir. Krakkar í dag alla vega á Norðurlöndunum byrja ekki að reykja í eins miklu mæli og var fyrir 30-40 árum síðan. Þeir eru bæði skynsamari og betur fræddir en krakkar voru þá, svo öskubakkinn er að verða safngripur eins og hrákadallarnir.  Ef við lítum á reykingar eins og græna bólu á nefi, þá vekur sú bóla ekki eftirtekt ef allir eru með hana, en fólk náttúrulega glápir ef aðeins einn og einn er með hana. Þess vegna skil ég að sum ykkar líta með söknuði til baka til þess tíma þegar allir gengu um með svona bólu og það var samfélagslega viðurkennt sem eðlilegur hlutur að reykja. Þeir sem reykja í dag eru annað hvort eftirlegukindur frá þeim tíma sem ekki hefur tekist að hætta, eða fólk sem vinnst ávinningurinn af reykingum vera meiri enn gallarnir, en það eru sífellt færri í þeim hópi. Þess vegna er reynt að vinna nýjan markað. Vatnspípurnar eru ein leið og þess vegna verðum við að vera á varðbergi.  Þó svo að við samþiggjum ekki tóbaksreyk yfir okkur, þá vitum við að reykingarfólk er líka fólk, bara ekki eins lengi.

Ásta Kristín Norrman, 7.9.2008 kl. 10:36

108 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hæ aftur Svanur.

Það er kominn tími til að klukka þig, svo klukk!!! 

Kíktu á siðuna mína

Margrét St Hafsteinsdóttir, 8.9.2008 kl. 00:38

109 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl kæra Ásta

Takk fyrir flott innlegg. 

Ég get ekki annað en verið pínu kaldhæðinn og hlegið að síðustu setningunni þinni:

"Þó svo að við samþykkjum ekki tóbaksreyk yfir okkur, þá vitum við að reykingafólk er líka fólk, bara ekki eins lengi."

Hljómar eins og eitthvað sem Monty Python gengið myndi láta frá sér.   

Hæ Margrét

Þú hefur klukkað mig.  Hvílíkt áfall.  Hvílíkur listi af upplýsingum sem ég verð nú að gefa upp um mig.     Eftir hæfilegan meðgöngutíma skal ég klukklistast og bera áfram klukkið.

Svanur Sigurbjörnsson, 8.9.2008 kl. 00:57

110 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

www.scrapslive.com , orkut ascii designed scraps , glitter graphics

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.9.2008 kl. 10:58

111 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

He he já þessi er ekki slæm Gunnar

Svanur Sigurbjörnsson, 14.9.2008 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband