Fáfræði er alsæla!

Enski átjándu aldar rithöfundurinn Thomas Grey skrifaði:

“Where ignorance is bliss, / ‘Tis folly to be wise.’”  sem útleggst á íslensku eitthvað á þá leið að "Þar sem fáfræði er alsæla er kjánalegt að vera vitur" nunnan

Mér komu þessi orð til hugar þegar ég horfði á verðlaunaða sænska heimildamynd á RUV um daginn sem heitir "Nunnan".  Hún fjallar um unga stúlku sem ákveður að gerast nunna eftir lok menntaskóla.  Hún ákveður ekki einungis að verða nunna heldur ganga í ströngustu nunnuregluna, Karmelsysturnar.  Þar má hún ekki fara út fyrir lóð klaustursins svo lengi sem hún ákveður að vera nunna.  Hún fær að fara út í garðinn en hún má ekki tala við aðrar nunnur nema í tvisvar sinnum eina klukkustund daglega.  Dagurinn byrjar með sameiginlegri bænastund.  Annað sem þær gera, m.a. hirða garðinn, verða þær að gera í þögn og hugsa um guð í leiðinni.  Tal við aðrar nunnusystur myndi trufla það.  Svo má hún aðeins hitta fjölskyldu sína 7 sinnum á ári og oftast á bak við stálgrind í móttökuherbergi klaustursins.  Eitt skipti mátti hún renna grindinni til hliðar og faðma foreldra sína, systkini og systkinabörn enda átti hún afmæli. 

Það var var margt sorglegt við þessa mynd og hún sýndi á átakalausan máta og án sérstakrar gagnrýni hvað var á ferðinni.  En hvers vegna er ég að vitna í þetta með að fáfræði sé alsæla?  Vissi stúlkan ekki hvað hún var að fara út í?  Vissi hún ekki hverju hún var að fórna?  Það var ljóst að hér var um ákaflega vel gefna stúlku og ákaflega vandaða og hugulsama manneskju.  Hún hafði hlotið góða menntun en var sú menntun nógu góð leyfi ég mér að spyrja?  Hún var alin upp í heittrúuðu heimili sem fór sínar eigin leiðir í trúnni og hafði sitt eigið bænahús á eigin lóð.  Móðirin taldi ekkert æðra í lífinu en að gerast nunna og óskaði öllum börnunum sínum 6 slíkt þó að hún teldi það ekki endilega raunhæft markmið.  Þrátt fyrir það kvaldist hún þegar þessi dóttir hennar hvarf á braut inn í Karmelklaustrið.  Hún viðurkenndi að hún hafði ekki gert sér grein fyrir því hvað þetta hefði í för með sér fyrir þau öll.  Hún var lengi í sorg og ungur bróðir hennar tók út fyrir þetta einnig.  Það merkilega var að stúlkan virtist vita algerlega hverju hún væri að fórna og að það væri andstætt náttúrunni að neita sér algerlega um ást karlmanns.  Hún sagði að kynin væri sköpuð fyrir hvort annað. "Ég afsala mér að gefa og þiggja" sagði hún og átti þá við þau samskipti karls og konu sem þannig uppfylltu hvort annað.  Margt annað kom í ljós í þessari heimildarmynd sem tekin var yfir 10 ár í lífi nunnunnar og fjölskyldu hennar, sem virtist gefa allt aðra mynd en þá að hún væri fáfróð eða illa upplýst. 

Ég vil þó leyfa mér að segja að hún hafi verið illa upplýst á ákveðnu mjög mikilvægu sviði í lífinu, þ.e. hverju maður á að leggja trúnað á og fylgja.  Henni var kennt af foreldrum sínum að með bæninni gæti hún breytt miklu í hennar eigin lífi og annarra. Trúarsamfélag hennar kenndi henni hið sama. Það var því ein stærsta ástæðan fyrir inngöngunni í klaustrið að hún skyldi koma góðu til leiðar gegnum bænina og með því að gefa líf sitt guði einöngruð frá umheiminum.  Hún vildi gera foreldra sína og systkini stolt af sér og uppfylla það sem móðirin taldi æðst í þessum heimi.  Hún trúði þessu svo sterkt að hún vildi fórna frelsi sínu, umgengni við fjölskylduna, líkamlegri snertingu, vináttusambandi við nokkra manneskju (nunnurnar áttu ekki að vera vinir neinnar sérstakrar annarrar nunnu - ekkert má koma á milli þeirra og guðs), ástarsambandi og barneignum.  Allt voru þetta hlutir sem hún elskaði en samt var kennisetning trúarinnar um að einsetulíf og tilbeiðsla til veru sem engan sannanlegan veruleika hefur, meira virði í huga hennar.  Þessi ljúfa, fallega og vel gefna stúlka var tilbúin að loka sig frá umheiminum vegna fyrirheita Kaþólsku kirkjunnar.  Hvílík ábyrgð!  Hvílík sóun og hvílík þjáning og hvílík ónáttúra lögð á unga konu þar til hún deyr án afkomenda í klaustrinu, fyrir óstaðfesta sýn og meira en lítið mótsagnakennda bók sem á að túlka vilja meira en lítið óstaðfestrar súperveru.  Það er svo augljóst hversu brothætt þessi tálsýn er því ekki mátti nunnan lesa blöð eða horfa á sjónvarp.  Ef ekkert fær að hræra í hugarfarinu þá hverfur síður sýnin.  Í annan stað þjónar slík einangrun alræðinu.  Tálsýnin og allt hugmyndakerfið tengt þessu þarf algert vald yfir þjóninum, annars losnar tangarhaldið fljótt.  Þó að háir veggir umlyktu garðinn og stálgrind væri í heimsóknarherberginu, þá er fangelsunin fyrst og fremst hugarfarsleg.  Snilldin felst í því að manneskjan telur sig vera að gera þetta af fúsum og frjálsum vilja. 

Tvö ósannindi liggja að baki þessa fjötra hugarfarsins sem fjötra svo líkama sumra einnig:

  1. Ósannindin um mátt bænarinnar.  Hún hefur vissulega "lyfleysuáhrif" á þann sem biður eða á þann sem hlustar en slík áhrif endast ekki og gefa bara falsvonir.   Kirkjan sjálf álpaðist út það að rannsaka mátt bænarinnar á vísindalegan máta fyrir um 3 árum síðan.  Þetta var sæmilega stór tvíblind rannsókn, þ.e. fólkið sem beðið var fyrir vissi ekki af því og rannsakendurnir vissu ekki hver nákvæmlega bað fyrir hverjum á meðan framkvæmdinni stóð.  Þannig var komið í veg fyrir að óskhyggja truflaði niðurstöðuna, en hún var sú að bænir höfðu engin marktæk áhrif á fólkið sem beðið var fyrir en það voru sjúklingar á sjúkrahúsi. 
  2. Ósannindin um verðlaun á himnum eða í næsta lífi.  Hún tengist einnig ósannindunum um dýrðlingastöðu og að fjölskyldan verði betur sett fyrir fórn einhvers í henni fyrir trúna.  Ósannindin um himnavist getur verið freistandi fyrir ráðvilltan ungling eða ungling sem leitar fullkomnunar eins og dæmið í myndinni fjallaði um.  Hún þráði greinilega fullkomnun og sætti sig bara við hið besta.  Ósannindin um hreinleikann og alsælu þess að eiga eitthvað sem kallað er djúpt samband við guð spilar þarna stórt hlutverk.   Á endanum byggir allt þetta völundarhús hugmynda á ímynduðu hugmyndinni og stærstu ósannindunum - hugmyndinni um tilvist guðs, æðri himnaveru, sem hefur þá mótsagnakenndu eiginleika að vera algóð, alsjáandi og almáttug.  Gallin er hins vegar sá að guð er bara einn af þeim dauðu guðshugmyndum sem gengið hafa skiptum í árþúsundir meðal trúgjarnra og þessi svokallaði guð hefur aldrei verið almáttugur og algóður þegar mannkynið hefur virkilega þurft þess.  Við erum jú á lífi en færi algóð vera fram á slíka sóun og dauðatoll í kringum okkur?

Þorum að spyrja spurninga um þessi mál.  Bróðir nunnunnar þorði það og olli uppnámi innan fjölskyldunnar.  Sannleikurinn þoldi ekki dagsljósið.  Máltíðin í garði fjölskyldunnar leystist upp hið snarasta.  Efinn var of sár.  Já, það yrði hvílíkt sárt að uppgötva að sjálfviljug innilokun dótturinnar hafi ekki verið þess virði og hreinlega röng. 

Nú eigum við menntamálaráðherra sem aðhyllist kaþólska trú og forsætisráðherra sem heiðraði páfann með því að færa honum persónulega afskræmda nýþýðingu Biblíunnar á íslensku með sérstakri kærleikskveðju frá biskupnum sem telur trúleysi eitt mesta mein heimsins og sambönd samkynhneigðra ekki þess virði að komast á æðsta stig sambanda gagnkynhneigðra - hið heilaga hjónaband.   Allt þetta styrkir þá hugmyndafræði sem liggur að baki klausturlífi eða annarra óeðlilegra ákvarðanna byggðra á tálsýninni um almáttugan guð.  Hneykslið í Byrginu og fjöldi annarra dæma þar sem fólk verður fórnarlömb trúarhugmyndarinnar standa okkur nær.  Á 60 ára tímabili á sautjándu öld voru um 80 manns teknir af lífi (brenndir eða drekkt) vegna galdra eða hugsanlegra galdra á Íslandi og þetta var eftir siðaskiptin.  Hvar var Lúther eða áhrif hans þá?  Á meðan Lúther lifði var þeim hópi fólks sem vildi að skírn yrði aðeins framkvæmd eftir að barn næði fullum þroska (anababtistar) útrýmt í Evrópu af Kaþólsku kirkjunni og auðsveipum kóngum.   Lúther mótmælti víst í fyrstu en taldi svo anababtista villutrúar og studdi þá ekki.  Fljótur var hann að gleyma því að sjálfur þurfti hann stuðning til að kljúfa sig úr kaþólsku kirkjunni.   Aðeins upplýsingin, raunsæi og manngildishyggja var hið raunverulega hjálpræði Evrópu og það þurfti 350 ár til að losna úr fjötrunum... en sumir eru ekki lausir enn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll máttur bænarinnar verður ekki vísindalega rannsakaður,ef þeir sem báðu gerðu það í tilraunaskini,elskuðu ekki þann sem þeir báðu fyrir,fellst ég ekki á niðurstöðuna.      Tengist ekki öll trú einhverju framhaldslífi,´fórn ,til að öðlast eylífa himnavist er alla vega ekki í kristinni trú sú að framkvæma hryðjuverk.Ég er ekki biblíufróð,eða fróð um trúarbrögð,en klausturlíf hugnast mér ekki sérstaklega ef ungt fólk er (eins og í umræmdri mynd)er heilaþvegið í því skini.   Í kristinni trú er kærleikurinn mestur og mun aldrei     má ég segja klikka.

Helga Kristjánsdóttir, 22.9.2008 kl. 07:39

2 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Vönduð grein hjá þér Dr. Svanur.

Þetta er sorgleg saga, sem margir trúmenn þó munu sjá einhverja trúarlega fegurð í og kinka kolli yfir.

Ofstæki af þessu og viðlíka tagi þrífst undir verndarvæng hins almenna trúfólks, sem styður annað fólk í skilyrðislausri trú á guð sem ekkert er. Fundamentalisminn í kristni og íslam dafnar vegna þess að það þykir göfugt að kasta allri hugsun út um gluggann og leggja ofurtrú á orð trúarrita.

Fólk fagnar þegar aðrir segjast hafa tekið trú, án þess að vita hverju þetta nýja trúfólk trúir, eða hvaða ofstæki, öfgar, fordómar og tryllingur felst í því - það fagnar trúarstökkinu - kannski af því að þá verður þeirra eigin vanhugsaða trúarstökk þeim mun eðlilegra.

Ofsatrúarfólk hatar trúlausa meira en fólk sem trúir á aðra Guði. Af hverju er það? Af hverju eru Bandaríkjamenn hræddari við trúlausa en múslíma, sem þó hafa gert hryðjuverkaárásir á landið?

Ekki veit ég það, en þegar fólk hvetur hvort annað til að yfirgefa rökhugsunina og taka trúarstökkið ætti það um leið að draga strik á snepil á ísskápnum hjá sér, eitt strik fyrir hvern ofsatrúmann sem það ber ábyrgð á. Því hvernig á þetta samfélag manna að ganga upp og halda í skynsemina þegar fólk hvetur hvort annað til að hætta að hugsa og fylgja í blindni einhverjum bronsaldartexta sem allir eru ósammála um hvernig skuli túlka?

mbk,

Kristinn Theódórsson, 22.9.2008 kl. 08:25

3 identicon

Guddi vil ekki sanna sig, hann vil ekki láta mæla sig, hann vil ekki að við sjáum að hann sé pottþétt til.... við eigum að taka trú á hann á fáfræðinni.
Ofan í þetta allt sjáum við trúaða lýsa því yfir að guddi sé að lækna all over the place, hann læknar á massasamkomum, hann læknar yfir öldur ljósvakamiðla, hann er eins og heilagur andi Britney Spears.

Ég sá þessa nunnu mynd.. mér fannst sorglegt að myndarstúlka væri að sóa lífí sínu í fargin bull... mér var skítsama um gömlu gribburnar þarna.... aumingja Jesú að vera giftur þessum hexum mar ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 13:21

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mjög góð grein. Takk.

Guðríður Haraldsdóttir, 22.9.2008 kl. 18:47

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Helga

Þú segir: "máttur bænarinnar verður ekki vísindalega rannsakaður,ef þeir sem báðu gerðu það í tilraunaskini,elskuðu ekki þann sem þeir báðu fyrir,fellst ég ekki á niðurstöðuna."

Þetta er dæmigert fyrir manneskju sem er búin að festa sig í völundarhúsi trúarinnar.  Lítið gerir þú úr því trúfólki sem bað til þeirra sjúku í rannsókninni.  Heldur þú að það hafi ekki beðið af fullum kærleik eða ertu að segja að náungakærleikur dugi ekki svo bænir virki?  Þetta er ein sú mesta hræsni sem ég heyrt.  Þú ert að gefa þér eitthvað neikvætt um þá sem báðu til þess að gera lítið úr rannsókninni.  Þetta er dæmigert fyrir bókstafstrúað fólk sem sníðir veruleikann að trú sinni sama hver raunveruleikinn er í raun.   Þú væri ekki lengi að samþykkja niðurstöðu úr rannsókn sem sýndi að bænir virkuðu, sama hversu léleg aðferðafræðin væri.  Trúað fólk eins þú vilja nefnilega aðeins viðurkenna vísindi þegar niðurstaðan er ykkar hugmyndum í hag.  Sem betur fer er því ekki alltaf þannig farið hjá trúuðum og rannsakendur þessarar rannsóknar sættu sig við niðurstöðuna. 

Það er algengt að trúaðir eða kuklarar segi að hugmyndafræði þeirra verði ekki mæld með vísindunum en bjóða ekki neinn annan valkost til mælingar.  Það á einfaldlega ekki að reyna að prófa sannleiksgildi trúar þeirra.  Trúin er fyrirfram ákveðin sönn af þeim sem hafa þörf fyrir hana og hagnast af því að viðhalda henni.  Trúanleikinn fer helst eftir vinsældum.  T.d. hefur ásatrú ákaflega lítin trúanleika í dag því hún er ekki vinsæl nema sem ákveðinn menningararfur eða skjól fyrir nokkra trúleysingja sem vilja heiðra gamlar alíslenskar hefðir.  

Þú talar um heilaþvott Helga en sérð svo ekki þann heilaþvott sem þú hefur orðið fyrir þegar þú samþykkir án prófunar á sannleiksgildi að trú sé ekki hægt að mæla.  Skyldi það vera Helga að það sé ekki hægt að mæla trúna vegna þess að hún er aðeins til í hugum manna sem hafa ímyndað sér hana? 

Svanur Sigurbjörnsson, 22.9.2008 kl. 21:17

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Kristinn

Þú sagðir:

"Fólk fagnar þegar aðrir segjast hafa tekið trú, án þess að vita hverju þetta nýja trúfólk trúir, eða hvaða ofstæki, öfgar, fordómar og tryllingur felst í því - það fagnar trúarstökkinu - kannski af því að þá verður þeirra eigin vanhugsaða trúarstökk þeim mun eðlilegra."

Ég er sammála þessari útskýringu.  Maður sér að ýmsir kristnir menn Þjóðkirkjunnar virðast samsamast meira bókstafstrúuðum en t.d. húmanistum þó að í raun sé siðferði þeirra líkara því húmaníska en þeirra í bókstafstrúarsöfnuðunum.  Trú á tilveru guðs verður því meira virði en siðferðið og það býður upp á siðferðislega afturför og sundrungu.

Svanur Sigurbjörnsson, 22.9.2008 kl. 21:22

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú gengur fram hjá því, Svanur, að allir, sem vilja gerast munkar eða nunnur, fá sinn reynslutíma og geta hætt við áform sitt, hafi reynsalan ekki verið í samræmi við væntingarnar.

"Ósannindin um mátt bænarinnar," segirðu, en þetta er dæmi um þinn ósannaða dogmatisma. "Ósannindin um verðlaun á himnum eða í næsta lífi": annað dæmi um það sama.

Annars ættirðu að ræða þetta mál við Karmelsystur í Hafnarfirði, senda príorinnunni línu, til dæmis. Það væri fróðlegt fyrir þig að fá svör frá þeim. En þ+ú vilt kannski frekar byggja þér þína eigin loftkastala án þess að láta truflast.

Jón Valur Jensson, 22.9.2008 kl. 23:19

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll DoktorE

Er nú ekki alger óþarfi að kalla eldri nunnurnar "gömlu gribburnar" eða "þessum hexum mar"?  Þær eru ekki síður fórnarlömb þeirrar hugmyndafræði sem sú yngri var alin upp í.  Vinsamlegast sýndu mannvirðingu.  Það má gagnrýna hugmyndafræði þeirra og lífshætti en nafnaköll og óvirðing eru algerlega út úr korti.

Svanur Sigurbjörnsson, 23.9.2008 kl. 00:42

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Jón Valur

Ég gat ekki nefnt allt í þessum stutta pistli.  Það kom fram hjá mér að þetta er val þeirra sjálfra.  Ég talaði um "sjálfviljuga innilokun dótturinnar".  Hverju breytir að tala um reynslutímann í raun? 

Ósannindin um mátt bænarinnar:  Ég studdi mál mitt með tilvitnun í rannsókn af góðum gæðum sem stór kirkjudeild í Norður-Ameríku lét gera.  Þú kastar í mig breiðletraðri upphrópun.  Hver vinnur?  ;-)

Karmel systur í Hafnarfirði hafa talað - í Kastljósinu í gærkveldi.  Ég þarf ekki að skrifa þeim bréf.  Þær staðfestu það sem kom fram í umræddri heimildamynd.  Eini munurinn sem ég tók eftir var að reynslutíminn var sagður minnst 6 ár en hann var 5 ár í sænska Karmelklaustrinu.  Munur sem skiptir vart miklu máli.  Þá tók ég eftir því að þær útskýrðu líf sitt m.a. með því að þær séu að "giftast guði".  Þetta hef ég oft heyrt en þótti merkilegt að það kom ekki fram með beinum orðum í heimildamyndinni.  Bæði Karmelsystur í Hafnarfirði og smábænum í Svíþjóð sögðust trúa því að þær væru að gera heiminum gott með því að biðja fyrir honum inni í klaustrinu.  Þær mega eiga það að þær lifa og deyja samkvæmt sannfæringu sinni og mættu margir taka það til fyrirmyndar, en gallinn er að trú þeirra mun ekki koma neinu eða neinum að gagni nema plöntunum í garðinum þeirra.   Þetta eru dugmiklar og vel gefnar konur sem eru góðar í því sem þær gera en lífsmódel þeirra stenst einfaldlega ekki mátun utan veggja klaustursins og áorkar nánast engu innan þeirra.  - touché

Svanur Sigurbjörnsson, 23.9.2008 kl. 01:11

10 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Það er afskaplega undarlegt hvað mörgu fólki þykir göfugt að gerast nunna eða munkur, og hégómagjarn þætti mér sá guð sem vildi að fólk lokaði sig af inni í klaustri og bæði stanslaust til sín.

Kristján Hrannar Pálsson, 23.9.2008 kl. 07:37

11 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já segðu!

Svanur Sigurbjörnsson, 23.9.2008 kl. 09:30

12 identicon

Smá grín með hexin frá karlpungnum mér :)
Við megum ekki verða of hátíðlegir og þá allra síst þegar við tölum um glæpabatteríið í Vatíkaninu... en my bad
Konurnar eru náttúrulega ekkert nema fórnarlömb kirkjunnar.

Varstu annars búinn að sjá Jonathan Miller's Brief History of Disbelief
Ef ekki komdu þá í bíó
http://doctore.blog.is/blog/doctore/entry/650414/

DoctorE (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 19:49

13 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, það má líka færa til orðin í fullyrðingunni  t.d. svona: "Þar sem fáfræði er kjánaleg er alsæla að vera vitur"

Þó að ég hafi nú ekki séð þessa umræddu mynd, þá er fyrirbrigðið mér ekki ókunnugt. Hvað veldur því að fólk tekur hinar og þessar ákvarðanir sem setur það sjálft í ákveðið helsi?

Rannsóknir á starfsemi heilans hvað þetta varðar eru stutt á veg komnar. Það kæmi mér ekkert á óvart að rannsóknir leiði einn daginn í ljós að við stjórnum þessu ekki svo auðveldlega. Hvað veldur því t.d. þrátt fyrir mikinn fróðleik og mikinn áróður að 20 - 30% almennings reykir, étur of mikið (þyngist of mikið), er haldið óstöðvandi spila- eða spennufíkn, söfnunaráráttu o.s.frv.

Verum ekki of dómhörð í garð hvers annars. Kannski getum við þó stjórnað því?

Sigurður Rósant, 23.9.2008 kl. 20:17

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég kíki á bíó-ið DoctorE

Svanur Sigurbjörnsson, 23.9.2008 kl. 21:37

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já það má snúa þessu og þá e.t.v. verður það ádeila á þá sem telja sig hafa allt með þekkingu.

Það er ljóst að við stjórnumst mikið af hormónum og fyrirfram forrituðum genum en samt reynum við að haga okkur þannig að við gerum hvort öðru gagn og reynum að forðast óþarfa þjáningar.  Einhvern vegin reynum við að uppfylla það sem náttúran hefur fært okkur og komast heil út úr lífsleiðinni.  Ef afsökun þín fyrir klausturlífi Kaþólsku kirkjunnar er að þeim sé það ekki í sjálfsvald sett þá er hægt að afsaka nánast allt með því.  Dæma hart?  Erum við ekki öll undir dómi náungans?  Illmenni fá líklega slæma forgjöf í lífinu en verða samt að svara til ábyrgðar.   Klausturlífi telst vart til verstu hluta í mannlífi en sóun er það, alger sóun.

Svanur Sigurbjörnsson, 23.9.2008 kl. 21:46

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tek ofan minn hatt og bugta í duftið. Hér er engu við að bæta.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.9.2008 kl. 02:02

17 identicon

Hér er átakanlegt dæmi um hvernig kirkja, kuflar og nunnur fóru með börn og dömur.
Guð biblíu og áhangendur hans elska harðræði og viðbjóð
http://doctore.blog.is/blog/doctore/entry/652385/

DoctorE (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 18:24

18 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

sæll,vá hvað ég fékk langt svar,er að sjá þetta fyrst núna .Veistu ég er ekki föst í neinu völundarhúsi.Hef gaman af að ræða trúmál verra að skrifa um þau. Ég nenfndi heilaþvott,það er innræti,nunnan vildi gera foreldra sína og systkini stolt af sér og uppfylla það sem móðirin taldi æðst í þessum heimi. Afhverju segir þú að ég samþykki án prófunar á sannleiksgildi að trú sé ekki hægt að mæla. Svanur nú í "trúnó"(trúirðu hræsnaranum)ég hef gengið fram og afkristnað manneskju sem fannst hún vera antikristur,eftir að hafa stundað samkomur hjá ungu fólki með hlutverk (geðveiki),hún hafði lofað Kristi að gerast trúboði ef hún næði háskólaprófi ,stjórnendur lögðu hendur yfir meðlimi,   "glætan" ég er orðin þreytt,kveð því núna.             
           

Helga Kristjánsdóttir, 28.9.2008 kl. 03:12

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Jón Steinar og DoktorE

Takk fyrir svar Helga.  Ég skil ekki alveg skrif þín um manneskjuna sem þú "afkristnaðir.. sem fannst hún vera antikristur,.."   Er manneskja kristin sem finnst hún vera antikristur?  Áttirðu við að henni hafi fundist þú vera antikristur.  Ég skil þetta ekki.  Annars ef þú heftur afrekað það að koma manneskju út úr bókstafstrú, þá er það frábært.  Fyrrum evangelíski presturinn Dan Barker sem er einn af máttarstólpunum í Freedom From Religion Foundation, veit hversu mikil léttir er af því að losna úr þeim fjötrum.  Hann var að gefa út bók nú nýlega - Godless, en áður skrifaði hann m.a. bókina "Losing faith in faith" þar sem hann rekur sögu sína.

Svanur Sigurbjörnsson, 28.9.2008 kl. 15:53

20 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll,já hún var kristin,var farin að heyra raddir,átakanlegt,lenti á geðdeild,eftir því sem ég komst næst leit hún á sig sem antikrist,, hún hafði brotið gegn guði. manneskjan er (sonur minn)Sem betur fer hafði hann lokið byggingarverkfræði áður en hann lenti á spítala (vonandi fer hann ekki að kíkja á þetta blogg).Oft var hann farinn að róast eftir að ég hafði talað lengi mjög "kúl" um þessa vitleysu.Í dag er hann vinnandi 2 barna faðir.   Talar ekki um trúmál. Langar svo oft að fá skíringu hjá einhverjum "guðsmanni",á öllu mögulegu sem stendur í biblíunni.Er með spurningar í haugum,sem ég ætla að láta dynja á guðfræðinema sem ég hitti er ég sit yfir í H.H.Í .Hann fer oft inn í Kapellu stundum hef ég hitt hann þar og "andmælt"   .   og hann varið eins og doktorsritgerð,  takk fyrir, góða nótt.

Helga Kristjánsdóttir, 29.9.2008 kl. 01:12

21 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já ég skil Helga.  Trú sem í bland er orðin að þráhyggju viljasterkar manneskju getur valdið taugaáfalli.  Hinn "fullkomni" trúarheimur sem viðkomandi vill koma sér upp gengur aldrei upp og þá hrynur allt einn daginn.  Afleiðingarnar geta verið misslæmar.  Gott að heyra að sonur þinn jafnaði sig.  Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 29.9.2008 kl. 10:59

22 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Ég sá þessa heimildarmynd og varð alveg miður mín eftir að horfa á hana.  Mér finnst þetta vera andlegt ofbeldi þessar trúarinnrætingar sem gera það að verkum að kornung stúlka eins og í myndinni hverfur inn í þennan heim og lifir þar í einhverjum doða og einmanaleik, sem er til dýrðar guði að henni er talin trú um.   Það ætti að banna þessar lokuðu trúarreglur.   Svipta einhvern ástvinum sínum er skelfilegt og það er líka skelfilegt að svona ung stúlka skuli fá að fara í klaustur á þessum forsendum. Hún er algjörlega óreynd og óhörðnuð og veit í raun ekki hvað hún vill í lífinu ennþá af því hún hefur litla reynslu.   

Takk fyrir frábæran pistil.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 30.9.2008 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband