Fyrsta stóra skrefið!

Búsáhaldabyltingin naut stuðnings um 2/3 hluta þjóðarinnar (skv. Gallup) og í ljósi þess hruns sem nýfrjálshyggjan og peningahyggja undanfarinna 12 ára leiddi okkur í, er loksins, loksins, kominn tími fólks sem setur hinn almenna Íslending framar gróðasjónarmiðum fjármálageirans.  Ekki er þar með sagt að hið efnahagslega frelsi og einkavæðing hafi verið alslæm, heldur að það er kominn tími til að rækta betur raunverulegar undirstöður þjóðfélagsins, sem eru m.a. siðferðileg heilindi, jöfnuð, réttlæti og menntun.  Sú aukna stéttskipting og misskipting auðs sem hægri öflin hafa alið á undanfarin 17 ár, hafa skapað annars vegar moldríka auðmannastétt sem lék sér að fjárhagslegri heilsu landsmanna og hins vegar lítt menntaða og reiða lágstétt sem verður nú að borga brúsann af glæframennsku þeirra ríku.  Þær stéttir sem sjá um daggæslu og menntun barna okkar frá leikskólaaldri eru illa launaðar á meðan lögfræðingar og bankastarfsmenn sitja að feitum summum.  Sálfræðingar og félagsfræðingar fá mjög fáar stöður og slælega launaðar hjá ríkinu á meðan ríkisverndaðir guðsmenn fá mun hærri laun (meira að segja betri en sérfræðilæknar fá) og fá að ota trúboði sínu og trúarlegri starfsemi inní almenningsskóla undir nefi fyrrverandi menntamálaráðherra sem átti að gæta þess að börnum og foreldrum þessa lands væri ekki mismunað.  Aðeins tilskipun frá Mannréttindadómstóli Evrópu þokaði þessu síðastnefnda máli eitthvað í framfaraátt þó í raun hafi ákaflega lítið áunnist.  Samkvæmt Önnu T. Gunnarsdóttur, sérfræðingi hjá umboðsmanni Svía gegn mismunun, er íslensk löggjöf í jafnréttismálum um 15 árum á eftir löggjöf Svía og þeir eru ekki fremstir í Evrópu.  

Það gleður mig óneitanlega að sjá þann lista mála sem ný ríkisstjórn hefur sett fram.  Þar er margt nýtt sem ekki var á dagskrá í samstarfi xS með xD, en stóryrði Þorgerðar Katrínar í dag um að ekkert sé þar nýtt og að enginn málefnaágreiningur hafi verið á milli þeirra og Samfylkingarinnar eru augljóslega ósönn.  T.d. hvenær hefur Sjálfstæðisflokkurinn komið fram með þá tillögu að stuðla að einstaklingsframboðum? bæta siðferði stjórnsýslunnar með nýjum reglum? Hafa jafnt hlutfall kven- og karl ráðherra? hleypa að konu til æðstu valda í eigin flokki eða sem forsætisráðherra?  Sorry Geir en útspilið með Þorgerði Katrínu var bara of seint.   Konur hafa borið skarðan hlut í Sjálfstæðisflokknum en ekki hefur verið mikill skortur á framboði þeirra þar og hið sama má segja um Framsóknarflokkinn.  Þetta eru íhaldssamir karlaflokkar sem selja hugsjónir fyrir völd.  Þær hugsjónir sem eru á (br)oddinum þar eru frjáls samkeppni og góð afkoma fyrirtækja og fjárfesta.  Auðvitað þarf stöndug fyrirtæki til að skapa atvinnu fyrir alla og fullkomið jafnræði í tekjum eða arði verður aldrei til, en það er mikill munur á því að hafa bara einhverjar taugar til alþýðu manna og þess að huga vel að henni.  Sama má segja um málefni mismununar og mannréttinda hérlendis.  Það er ekki nóg að bara rétt hunskast til að fara að lágmarkskröfum þar, heldur á Ísland að vera til fyrirmyndar og vera leiðandi í heiminum.  Við eigum að taka upp rannsóknir og þróunarsetur á mannréttindum og velferðarmálum og hafa frumkvæði af framförum, ekki láta taka okkur í bólinu af dómstólum ESB með þeim systkinum Græðgi og Sérréttindum. 

Ljóst er að hin nýja miðju- og vinstri ríkisstjórn sterkustu jafnaðarafla þjóðfélagsins þarf að standa sig verulega vel ef ekki á allt að glutrast í hendurnar á nýfrjálshyggjumönnum á ný í næstu kosningum.  Minni kjósenda er stutt og það má ætla af þeim miklu sveiflum sem kannanir Gallup undanfarnar vikur sýna á fylgi flokkanna að góður hluti óánægðra sjálfstæðismanna hafi þótt nóg að Geir hafi stigið til hliðar og flokkurinn tæki sér dálítið frí frá ríkisstjórn.  Það virðist sem a.m.k. 1/4 hluti þeirra (um 10% kjósenda) horfi ekki á þann vanda sem þjóðfélagið er í í dag sem afleiðingu málefnastefnu Sjálfstæðisflokksins, heldur sem tímabundinn mannavanda.  Þetta fólk og aðrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins virðist algerlega blint á það stjórnleysi, siðleysi og þá græðgi sem flokkurinn hefur ýtt undir og að það hefur í raun ekki breyst.  Óskammfeilnar skipanir í dómstóla hafa fengið að viðgangast og ógeðfellt valdabrölt í Reykjavík hefur átt sér stað á vakt flokksins.  Margt fleira má tína til, en hvernig í ósköpunum heldur fólk að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bætt ráð sitt og siðferði?  Einangrunarstefna flokksins gagnvart ESB er einnig dæmi um skammsýni hans og úrelt viðhorf til alþjóðamála.  Þar þarf Vg einnig að snúa við blaðinu og leyfa samningaviðræður við ESB.  Það er algert lágmark að viðræðurnar fari fram og svo getur þjóðin ákveðið sig með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og ég er bjartsýnni en áður á framtíð okkar.  Ég skora á hana að vinna hart þessa 83 daga fram til kosninga og hlusta á þjóðina.  Ég skora jafnframt á þjóðina að kynna sér stjórnmál betur og kjósa mun upplýstari en síðast.  Látum ekki fréttamenn eina stýra umræðunni.  Heimtum að minnihlutahópar fái að láta í sér heyra og að málefni kosninga snúist ekki bara um efnahagsmál.  Við þurfum jú öll brauð á diskana og þak yfir höfuðið, en hjá þjóð sem er þrátt fyrir allt ein sú ríkasta í heimi, veltur hamingja okkar ekki síður á því hvernig við komum fram við hvort annað og hugsum um þá sem bágast eiga.  


mbl.is Slá skjaldborg um heimilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tekurðu eitthvað við þessu?????

Hummer (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 23:38

2 identicon

Meinarðu ekki Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þar sem stendur... "en stóryrði Guðrúnar Katrínar í dag um að ekkert sé þar nýtt" ?

SG (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 23:45

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Svanur:  Veistu það að þetta er frábær færsla og ég tek undir allt sem þú skrifar heilshugar.   Það er stundað rétthugsunar trúboð í Sjálfstæðisflokknum og hefur verið lengi. Fólkið það fer algjörlega eftir því sem foringinn setur fram eins og fólk í sértrúarsöfnuðum.  Þetta fólk verður að opna augun og einnig þeir sem kjósa flokkinn!  Ég skil alls ekki fólk sem ætlar að kjósa XD aftur.

Kveðjur og takk fyrir falleg orð á minni síðu

Margrét St Hafsteinsdóttir, 1.2.2009 kl. 23:47

4 Smámynd:

Góður pistill og margt satt í honum.

, 2.2.2009 kl. 00:41

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk SG - leiðrétti það.

Takk Margrét og Dagný.

Hummer húmor????

Svanur Sigurbjörnsson, 2.2.2009 kl. 00:52

6 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir góðan pistil Svanur. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 2.2.2009 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband