Að loknum landsfundum - hjónabandslöggjöf og lífsskoðunarfélög

Hjónabandslöggjöfin og samkynhneigðir

Fyrst skulum við skoða baráttuna fyrir því að í landinu ríki aðeins ein hjúskaparlög, þ.e. að samkynhneigðir verði ekki lengur meðhöndlaðir sem annars flokks þegnar með því að kalla hjónaband þeirra "staðfesta samvist" .  

Það er gleðilegt frá því að segja að Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn hafa allir ályktað að

  • Sameina eigi hjónabandslöggjöfina í ein lög.  

Í stefnuskrá Frjálslynda flokksins er ekki ritað sérstaklega um þetta en sagt í almennri yfirlýsingu að samkynhneigðir eigi að njóta sömu mannréttinda og jafnréttis og aðrir (fann ekkert nýrra á vefsíðu þeirra).

Samfylkingin ályktaði til viðbótar:

  • Að flokkurinn skuli taka til við að endurskoða hjónabandslögin varðandi eðli þess sem borgaraleg stofnun þannig að hugsanlega eigi lagalegi hluti þess að vera alfarið í höndum sýslumanna.

Þessi tillaga var sett á dagskrá hjá Sjálfstæðismönnum en okkur er ekki kunnugt um afdrif hennar.  Ýmsir guðfræðingar í flokknum andmæltu henni hart á spjallvef flokksins.  Nokkrir guðfræðingar í Samfylkingunni andmæltu þessu einnig.

Jafnræði lífsskoðunarfélaga.

Leggja niður þjóðkirkjuskipanina

Aðeins Frjálslyndi flokkurinn hefur það í stefnuskrá sinni frá stofnun flokksins að stefna skuli að aðskilnaði ríkis og kirkju.  Flokkurinn hefur lítið unnið að þessu mikilvæga máli, en formaður þess hafði þó smíðað tillögu þess efnis sem fékk ekki brautargengi á Alþingi í tíð stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Stórtíðindi!

Vinstri grænir ályktuðu á sínu landsþingi í ár að:

  • Stefna skuli að aðskilnaði þjóðkirkju og ríkisvalds. Mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samstarf ríkis og trúfélaga.

Þeir eru nú stærsti stjórnmálaflokkurinn sem hefur sent frá sér ályktun um aðskilnað þjóðkirkju og ríkisvalds.

Önnur mikilvæg mál lífsskoðanafrelsis og jafnræðis

Vinstri grænir og Samfylkingin hafa samþykkt á landsfundum sínum í ár, eftirfarandi:

  • Hætta skal sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður
  • Veraldleg lífsskoðunarfélög öðlist sömu lagaleg réttindi og þau trúarlegu.  Þetta mun þýða að Siðmennt fái skráningu sem lífsskoðunarfélag og fái að njóta sóknargjaldakerfis ríkisins.
  • Virða beri réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna.  Trúboð eða trúarlega starfsemi eigi því ekki að leyfa í leik- eða grunnskólum.

Vinstri grænir ályktuðu að auki:

  • Afnema skuli 125. grein almennra hegningarlaga um guðlast.   Samfylkingin beindi þessari tillögu til framkvæmdarstjórnar.

Samfylkingin ákvað að skoða nánar lög um helgidagafrið og guðlastslögin hjá framkvæmdastjórn.  Sömuleiðis var tillögu um að leggja niður 62. grein stjórnarskrárinnar um að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja, vísað til framkvæmdarstjórnar.  Málið var talið of skammt komið í umræðunni til að greiða um það atkvæði, en finna mátti á mörgum landsfundarfulltrúum að málið átti hljómgrunn.

Hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn ályktuðu um þessi mál og þeir hafa ekki látið frá sér aðrar yfirlýsingar en að styðja eigi við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög.  Ekkert minnst á að laga þurfi þá mismunun sem ríkir eða viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög.

Nýju flokkarnir; Borgarahreyfingin (xO), Fullveldissinnar (xL) og Lýðræðishreyfingin (xP), taka ekki afstöðu til þessara mála enda yfirlýst stofnaðir til að taka á afmarkaðri stórmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Afdrif tillögunnar" á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sérðu HÉR.

Jón Valur Jensson, 31.3.2009 kl. 16:32

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Jón Valur

Þú skrifar í færslu sem vísað er til í þeirri sem þú settir hér hlekk á og þar segir:

"Annað tveggja alvarlegustu atriðanna þar, þ.e.a.s. að svipta presta hjónavígslurétti, var fjarlægt úr tillögunni í meðförum fjölskyldunefndar (á morgunfundi á föstudag), en úrslitin urðu þó ekki endanlega ljós, fyrr en sú meðferð málsins var staðfest af sjálfum landsfundinum."

Sem sagt, tillagan var tekin út af stjórnendum nefndarinnar og fékk því ekki brautargengi.  Átti ekki að vísa henni til frekari umræðu t.d. hjá framkvæmdastjórn xD?  Veistu eitthvað um það?

Þessi tillaga gengur út á það að aðskilja lagalega hluta giftingarinnar frá hinum siðræna eða trúarlega.  Mér finnst einkennilegt að þú og upplýsingafulltrúi þjóðkirkjunnar Adda Steina skulið tala um að þetta taki af "vígslurétt" prestanna.  Eruð þið ekki frekar að vígja hjónabandið frami fyrir guði með athöfn ykkar, en að vígja það lagalega?  Það er spurning hvernig eigi að nota þetta orð en ég sé ekki að með því að taka lagalega hlutann sé ekki lengur verið að vígja í kirkjunni.  Við í Siðmennt viljum t.d. ekki nota orðið vígsla yfir okkar athafnir því það hefur trúarlegan blæ yfir sér. 

Á léttari nótunum út frá því að sögnin "að vígja" getur þýtt að nota eða gera eitthvað í fyrsta sinn, þá er e.t.v. ekki við hæfi að kalla giftingar vígslur því það er liðin tíð að karlinn og konan séu óvígð kynferðislega fyrir giftinguna. 

Svanur Sigurbjörnsson, 31.3.2009 kl. 17:14

3 Smámynd: TARA

Sammála þér Svanur....góð grein og frábært að setja þetta hér inn. Ég er alfarið á móti því að hægt sé að kalla eitthvað guðlast...þetta snýst um málfrelsi og að segja sína skoðun...ef ég kallaði eiginmann minn heitinn fífl, þá væri það ekki meiðyrði eða last, þar sem hann er ekki lengur í tölu lifenda. (En auðvitað myndi ég aldrei kalla hann slíkt)

Ríki og kirkju á að aðskilja...enn fremur þykir mér það sjálfsagður réttur hvers og eins að ákveða í hvaða trúfélagi hann kýs að vera..og þar til barn kemst til vits og ára, ætti það að vera utan trúfélags. Það hefur sýnt sig og sannað að það gerir engum neitt til að vera utan trúfélags.

Og því ber að fagna þegar allir fá sömu mannréttindi og það ætti ekki einu sinni að þurfa að setja sérstök lög vegna þess...ber ekki öllum að elska náungann eins og sjálfan sig.

Þó blessun í kirkju sé vitaskuld bara gömul og gróin hefð, en ekki alvöru guðsblessun, þá á hver og einn að eiga rétt á þeirri hefð sem hann kýs. Það á enginn mannleg manneskja, hvaða trú sem hún aðhyllist, að geta meinað annarri um kirkjulega blessun. Það eru jú við skattborgarar sem greiða kirkjubyggingar og laun presta og ættu því að hafa eitthvað um framkvæmdir þar að segja.-

TARA, 31.3.2009 kl. 19:23

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæl verið þið. Ekki nenni ég að taka þátt í allri þessari umræðu, heldur einungis að svara fyrstu spurningunni: "Átti ekki að vísa henni til frekari umræðu t.d. hjá framkvæmdastjórn xD?"

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki með framkvæmdastjórn, heldur framkvæmdastjóra og miðstjórn, sem er ráðamikil og gjarnan nokkur slagur um að verða kosin(n) í hana (á landsfundi).

Tillögunni "átti" ekki að vísa til miðstjórnar, því að nefndin komst að einhuga samkomulagi á seinni fundi sínum á landsfundardögunum um að fella nefndan lið (11. málslið ályktunardraga um fjölskyldumál) niður, en í staðinn kom málsgrein (skeytt við 10. málslið), sem lesa má á tilvísaðri vefslóð (sjá ofar, fyrra innlegg mitt).

Landsfundur er þar að auki æðsta vald í málefnum flokksins, e.k. aðalfundur hans (á tveggja ára fresti). Nefndarsamþykktina í fjölskyldunefnd þurfti að leggja fyrir allsherjarsamkomu landsfundar, rétt eins og önnur nefndarálit, og það var gert. Ég er með vefslóðir (á tilvísaðri vefslóð minni og annarri þar undir) á bæði upphafleg drög og endanlega gerð þessarar ályktunar um fjölskyldumál.

Jón Valur Jensson, 31.3.2009 kl. 20:10

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk TARA.  Okkur ber saman í nær öllu, en ég skil ekki af hverju þú ert að tala um að: "Það á engin mannleg manneskja, ..., að geta meinað annarri um kirkjulega blessun."   Ég hef ekki heyrt neinn ljá máls á því, né séð það skrifað.  Ertu ekki að misskilja eitthvað tillöguna um að sýslumenn eigi að sjá um lagalega hluta giftinga?  Mér finnst reyndar leiðinlegt að það þurfi  að hafa tvær athafnir og hef tillögu um þriðju útgáfu á þessu, þ.e. að hin lagalega athöfn hjá sýslumanni þurfi alls ekki að vera athöfn fyrir þau hjónaefni sem vilja fá athöfn hjá lífsskoðunarfélagi, túarlegu eða veraldlegu, heldur bara undirskrift skjals um þær skyldur og réttindi sem þau öðlast við hina lagalegu giftingu. 

Takk fyrir þessar útskýringar Jón Valur.   

Svanur Sigurbjörnsson, 31.3.2009 kl. 20:30

6 Smámynd: TARA

Sennilega er ég að því Svanur...og ég meina með þessu orðalagi að það á ekki að vera nema ein athöfn.  Ekki þarf ég þess...það nægir öllum að ég segi já við altarið !!

Ég þarf ekki að standa í stappi með sýslumann...né aðra...ég fæ lagalegu hliðina á silfurfati ásamt þeirri kirkjulegu, án nokkurrar fyrirhafnar...ef þannig má orða þetta.

Er ég eitthvað betri og rétthærri en samkynhneigt fólk ? Ég skil bara ekki hvers vegna mannfólkið(ekki allir reyndar)þarf að flækja sáraeinfalda hluti og gera öðrum erfitt fyrir.

Mér finnst þetta álíka heimskulegt og fornaldarlegt og þegar börn eru kölluð óskilgetin vegna þess að foreldrarnir eru ekki gift. Ég er kannski svona vitlaus, en ég hef alltaf haldið að barn væri óskilgetið þegar enginn faðir er tilnefndur. Þetta er svipað og með giftingu samkynhneygðra. Bara af því að það er ekki ''normið'' þá er ekki hægt að segja heilagt hjónaband.

TARA, 31.3.2009 kl. 21:30

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég skil TARA. Gott dæmi hjá þér varðandi "óskilgetin" börn.  Góður punktur.  Innilega sammála.

Svanur Sigurbjörnsson, 31.3.2009 kl. 21:43

8 Smámynd: Óli Jón

Allt eru þetta góð og þörf mál sem Svanur reifar í færslu sinni. Gangi þetta eftir er von til þess að meiri jöfnuður ríki á milli ólíkra lífsskoðana, siðlegra, en það hlýtur að vera óskastaða sérhvers þenkjandi manns með réttlætiskennd í lagi.

Vonandi heldur dómsmálaráðherra striki sínu og endurskoðar skylduskráningu hvítvoðunga í trúfélag móður. Það væri góð og upplífgandi gjöf til þjóðarinnar í öllu því hallæri sem hún nú upplifir.

Óli Jón, 1.4.2009 kl. 01:00

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tara, hjónabandið er mikilvægasta stofnun samfélagsins fyrir utan ríkið sjálft. Hugsaðu málið svona: Væri hjónabandið ekki reglan, heldur algert "frjálsræði" með stuttum, losaralegum samböndum fjöldans, hvernig væri ástandið þá: 1) fyrir einstaklingana sjálfa sem þar með ættu bæagt með að treysta á nokkra tryggð og stöðugleika í lífinu og andlega rósemi í sinni tilveru, 2) fyrir börnin, sem ælust almennt upp í mjög ótryggum aðstæðum, með ýmsum feðrum (og mæðrum) eða engum, 3) fyrir kynheilbrigði þjóðarinnar? Og þetta hjónaband er ætlað karli og konu samkvæmt flestra þjóða vitund og forsjá (fyrirhyggju) – og einnig samkvæmt Guðs forsjá (allt frá sköpun okkar – og það staðfest af Kristi, sem er Speki Guðs.

Jón Valur Jensson, 3.4.2009 kl. 08:47

10 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Þú segir:

... hjónabandið er mikilvægasta stofnun samfélagsins fyrir utan ríkið sjálft. Hugsaðu málið svona: Væri hjónabandið ekki reglan, heldur algert "frjálsræði" með stuttum, losaralegum samböndum fjöldans, hvernig væri ástandið þá: 1) fyrir einstaklingana sjálfa sem þar með ættu bæagt með að treysta á nokkra tryggð og stöðugleika í lífinu og andlega rósemi í sinni tilveru, 2) fyrir börnin, sem ælust almennt upp í mjög ótryggum aðstæðum, með ýmsum feðrum (og mæðrum) eða engum, 3) fyrir kynheilbrigði þjóðarinnar?

Nú hefur hjónabandið notið verndar kirkjunnar og meðgjafar frá ríkinu um langt skeið. Þrátt fyrir það er skilnaðartíðni á milli 40-50%. Helmings líkur er ekki sérlega góður árangur. Mér sýnist hjónabandið vera tákngervingur losaralegra sambanda ef staðtölur eru skoðaðar.

Dugar staðfesting Krists kannski ekki betur en svo? Dugar hún bara í 50% tilfella og þá þegar valið hefur verið inn í hjónabandið út frá fordómum og afturhaldshyggju? Ég fæ ekki séð að hjónabandinu sé nokkur óleikur gerður með því að opna það fyrir þeim sem þangað vilja. Því getur altént ekki farnast verr!

Óli Jón, 3.4.2009 kl. 10:29

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er sitthvað til í því, sem þú segir, Óli, en sjálfur virðistu reyndar ekki alveg nákvæmlega viss á því, hve há skilnaðatíðnin er, og er ekki bezt að fá það á hreint í umræðunni? Til skamms tíma var þetta heldur nær 30% en þú nefnir, en ég dreg það ekki í efa, að þetta sé komið í 40% eða yfir.

En svo er að reyna að meta þetta rétt. Mjög mörg hjónabönd hafa slitnað eftir alllanga sambúð fólks, þegar börnin voru þó búin að njóta umhyggju beggja foreldra samfleytt í meira en 10 ár og í mörgum tilvikum meira en 15-20 ár. Það er þá ekki svo einfalt, að þú getir talið þau sundurslitnu hjónabönd sem fullkomin dæmi þess, að þau börn missi að miklu leyti af umsjá og umhyggju annars hvors foreldra sinna.

Og svo eru það á hinn bóginn hjónaböndin sem endast afar stutt, jafnvel bara eitt-tvö ár eða minna, en þeim mun hafa fjölgað allverulega. Í þeim tilvikum er þá varla mörgum börnum til að dreifa og oft jafnvel engu. (Sumt af því fólki giftist svo líka aftur og skilur aftur (og aftur! sumt hvert, þannig að tíðnistalan um skilnaði er farin að skekkjast, ef menn halda að hún eigi einfaldlega við um heildartölu fólks, sem einhvern tímann gengur í hjónaband; ég vona að þíð skiljið hvað ég á við.)

Allt þetta gerir það að verkum, að ef ályktað væri út frá því sem (tilbúnu eða áætluðu) viðmiði, að 45% hjónabanda endi í skilnaði, þá er samt fráleitt að segja, að 45% allra hjónabandabarna alist upp í samfelldu skilnaðarástandi.

Þar að auki má bæta því við, að mörg börn eignast annan uppeldisföður og fara þannig ekki á mis við góð áhrif af því að þekkja bæði til föður- og móðurímyndar, auk þess sem mörg njóta einnig góðrar umhyggju og nærveru föður síns þrátt fyrir aðskilnað hans frá móðurinni.

En það er á hreinu, að skilnaðir hafa samt leikið mörg börn grátt, minnkað staðfestu þeirra og haft óheppileg áhrif á þroskaferil þeirra. Áhrifin, þegar verst gegnir, koma m.a. fram í taumleysi og agaleysi, sem síðan getur haft nýjar og alvarlegar afleiðingar. En þetta getur tekið alllangan tíma að koma í ljós, menn gerðu sér því ekki næga grein fyrir alvarleika skilnaða framan af, en þetta verður augljósara nánast með hverju ári sem líður, eða svo hefur mér skilizt á þeim, sem tengjast félagsmálageiranum eða þekkja til hans.

Hitt er líka vitað, að skilnuðum hefur fjölgað mjög, þannig að holskefla alvarlegra afleiðinga verður trúlega enn meiri eftir um 10-15-20 ár.

Ályktanir þínar, Óli Jón, lít ég á sem fljótfærnislegar og ekki mjög marktækar til stefnumótunar um þessi mál. Og ekkei er það sanngjarnt af þér að tala niður kristilegt hjónaband með þessum hætti; trúin er mikil og góð akkerisfesti farsæls lífs, og þó að auðvelt sé að benda á undantekningar frá því, að sú regla hafi dugað, þá gefur það engum rétt til fordæmandi alhæfinga þar um.

Jón Valur Jensson, 3.4.2009 kl. 11:38

12 Smámynd: TARA

Sæll Jón Valur...við verðum að hætta að hittast svona  (smá grín)

Merkilegt nokk, en þá lít ég alvarlegum augum á hjónabandið og það sem það stendur fyrir. En mikilvægast er þó í mínum augum að fólki lyndi saman og sé ákveðið í að eyða ævinni saman, leysa öll vandamál sem upp kunna að koma. Að verða gömul og grá saman, er eitt það eftirsóknaverðasta í mínum augum, sem þýðir hjónaband með öllum sínum kostum og göllum, en þó með undantekningum.

1) Hjónaband er engin trygging fyrir tryggð og stöðugleika, né innri ró. En ætti að vera það. Ég legg þann skilning í hjónabandið að þú heitir því frammi fyrir Guði og mönnum að vera maka þínum trúr og góður lífsförunautur. En raunin verður stundum önnur og hefur það ekkert með kynhneigð að gera. Ég var beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi í fyrra hjónabandi mínu og þess vegna skildi ég við þann mann. En Jesús segir í Markúsar guðspjalli 10:9-Það sem Guð hefir tengt saman má eigi maður sundur skilja. Átti ég að segja takk fyrir og amen og láta mig hafa það að búa við slíkt ofbeldi ? Samt missti ég ekki trúna á hjónabandið og gekk í annað hjónaband, sem var mjög farsælt og átti að endast þar til dauðinn aðskildi okkur, sem hann sannarlega gerði, því ég missti eiginmann minn úr krabbameini fyrir tæpum tveimur árum. Ég hef samt ekki tapað trúnni á hjónabandið.

2) Börn alast upp við alls konar aðstæður og er hjónaband foreldra(karls og konu) ekki alltaf farsælasta lausnin fyrir þau. Sumt fólk ætti hreinlega ekki að fá að eiga börn. En ég þekki fjöldann allan af samkynhneigðu fólki sem eru fyrirtaks foreldrar. Er nokkuð betra að barn eignist nýjan pabba nokkrum sinnum á ári af því að mamman skiptir um karlmenn eins og aðrir skipta um sokka ? Eða nýja mömmu af því að pabbinn skiptir oftar um kvenmann heldur en aðrir um nærbuxur ? Þetta gerist bæði hjá samkynhneigðum og okkur hinum.

3)Samkynhneigðir hafa verið til frá örófi alda og ef þú ert að tala um kynlíf til þess að fjölga mannkyninu, þá er það gott og blessað, svo langt sem það nær. Það er nú samt svo að offjölgun veldur hungursneyð og dauða í stórum hluta hins vanþróaða heims, þar sem einmitt ætti að kenna fólki að nota smokk,taka sig úr sambandi eða hætta að stunda kynlíf, í stað þess að horfa á börnin sín deyja vegna hungurs og fátæktar. Í Kína er fólki bannað að eignast nema eitt barn vegna offjölgunar. (Það er það eina sem ég er sammála kínverskum stjórnvöldum með)

Stutt, losaraleg sambönd þekkjast mun betur hjá gagnkynhneigðu fólki, heldur en hinum, því þótt þú trúir því ekki, þá eru samkynhneigðir tryggari en við hin. Þetta er fólk eins og við, með sömu langanir, þrár og vonir. En þar er líka misjafn sauður í mörgu fé, eins og í öllum hópum samfélagsins.

Segir ekki í Hebreabréfi 13: 1:Bróðurkærleikurinn haldist. 2:Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir óafvitandi hýst engla. 3: Minnist bandingjanna sem væruð þér sambandingjar þeirra, minnist þeirra er illt líða þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama. 16: Gleymið ekki velgjörðinni og hjálpseminni því slíkar gjörðir eru Guði þóknanlegar.

Skilnuðum hefur fjölgað gífurlega á undanförnum árum og flest eru það karl og kona sem skilja...samkynhneigðir eru tryggari og því er skilnaðartíðnin hjá þeim ekki eins mikil. Það er staðreynd. Ég var einu sinni full af fordómum og fáfræði gagnvart samkynhneigðum, vegna þess að ég vissi ekki betur og hugsunarháttur fólks í kringum mig mótaði skoðanir mínar. Það var búið að ákveða hvað ég átti að hugsa áður en ég fæddist. Ég átti að hafa sömu skoðanir og höfðu tíðkast frá upphafi.

En ég vil hafa mínar eigin skoðanir og þó ég sé ekki alltaf sammála fólki, þá er það samt svo að ég vil að öllum líði vel og allir eigi að hafa sama rétt, þar sem hægt er að koma því við. 

Með vinsemd og virðingu.  

TARA, 3.4.2009 kl. 12:41

13 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur: Það sannast iðulega best á þínu máli að enginn er blindari en sá sem ekki vill sjá :)

Óli Jón, 3.4.2009 kl. 12:54

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég sætti mig mjög vel við svona innlegg frá Óla Jóni, þau sýna lesendum, að hér er honum raka vant.

Jón Valur Jensson, 3.4.2009 kl. 16:01

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

TARA segir: "Hjónaband er engin trygging fyrir tryggð og stöðugleika, né innri ró," og það er alveg rétt, í merkingunni fullkomin trygging. Þó hafna ég því ekki, að sakramentalt hjónaband hafi í sér kraft frá Guði til að standa margt af sér. En vitaskuld þurfa menn að samverka með náðinni, og það gera margir ekki, enda hafna æðimargir trúnni eða vanrækja hans. En það er rétt hjá Töru, að það er ekki hægt að búa til neina reglu úr þessu.

Hún segir líka góða hluti í þessum málslið og þeim á undan og víðar, en ég er að reyna að komast hratt yfir og biðst því leyfis til að fá að vera "neikvæður" og taka aðeins á því, sem ég var ósammála í innleggi hennar, svo að ekki virðist sem ég samþykki þau atriði!

Hún segir "hjónaband foreldra (karls og konu) ekki alltaf farsæl[ustu] lausnin[a] fyrir þau. Sumt fólk ætti hreinlega ekki að fá að eiga börn" (sic), sem hljómar nú dálítið forræðislega, og viltu ekki viðurkenna það, Tara, að þetta eru algerar undantekningar (svona álíka fáir og örvhentir eða samkynhneigðir), og til hvers þá að gera þetta að einhverjum póli í umræðunni?

Þá segir hún: "En ég þekki fjöldann allan af samkynhneigðu fólki sem eru fyrirtaks foreldrar. Er nokkuð betra að barn eignist nýjan pabba nokkrum sinnum á ári af því að mamman skiptir um karlmenn eins og aðrir skipta um sokka ? Eða nýja mömmu af því að pabbinn skiptir oftar um kvenmann heldur en aðrir um nærbuxur ?" – En þarna kýs hún að bera saman ósambærilega hluti: annars vegar al-fjöllyndasta hópinn meðal gagnkynhneigðra (sem eru svo fjöllyndir, að þeir hafa ekki einu sinni tíma til að gifta sig!) og hins vegar þá, sem hún hefur uppgötvað sem fyrirtaksforeldra meðal samkynhneigðra. Með viðlíka röksemdafærslu má bera saman Vinstri græna og Samfylkingarfólk og segja að síðarnefndi hópurinn hafi þar alla yfirburði, af því að þeir gáfuðustu þar eða beztu þjóðfélagsborgararnir þar beri af í samanburði við þá vitlausustu og ónýtustu meðal Vinstri grænna!

Ég nenni ekki að ræða hér fólksfjöldamál, en þess má þó geta, að jafnvel kínversk yfirvöld taka ekki þá áhættu lengur að fylgja 100% strangt fram eins barns stefnunni, enda mundi sú stefna valda gríðarlegum hremmingum um 25–50 árum seinna.

Þá segir hún: "Stutt, losaraleg sambönd þekkjast mun betur hjá gagnkynhneigðu fólki, heldur en hinum, því þótt þú trúir því ekki, þá eru samkynhneigðir tryggari en við hin," og hún bætir við neðar: "flest eru það karl og kona sem skilja... samkynhneigðir eru tryggari og því er skilnaðartíðnin hjá þeim ekki eins mikil. Það er staðreynd." – Engin sönnun fylgir þó þessu máli hennar, og sjálfur hef ég heimildir um, að samvistartími samkynhneigðra, einkum homma, er mun skemmri en hjá gagnkynhneigðum. Tara hefði átt að vera búin að sjá heimildir útlistaðar um það og fleira mikilvægt hjá mér á Kirkju.net.

Annars þakka ég henni umræðuna. Gangi þér allt í haginn, Tara.

Jón Valur Jensson, 3.4.2009 kl. 18:22

16 Smámynd: TARA

 ROTFLJón Valur...nú eru Vinstri Grænir áreiðanlega ekki ánægðir með þig og þessa samlíkingu...mér finnst hún reyndar góð. kannski ýkti ég svolítið, en það var bara til að leggja áherslu á málið. 

Nei, ég hef engar tölur um skilnaðartíðni samkynhneigðra, en mér þykir athyglisvert að þú hafir þær heimildir. Og ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki farið inn á Kirkja.net.  En geri það áreiðanlega núna.

En ég trúi á það góða í manneskjunni...a.m.k hjá flestum. Þökk fyrir góðar óskir og ég sendi þér þær til baka.





TARA, 3.4.2009 kl. 23:50

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Guð veri með þér, Tara mín.

En það er kirkju.net !

Jón Valur Jensson, 4.4.2009 kl. 00:20

18 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Tara fyrir einlæga frásögn frá þínu lífi og reynsluna af þessum ólíku hjónaböndum.   Þú ert greinilega víðsýn baráttukona og kannt að skilja hismið frá kjarnanum.

Til allra:  Siðferðilegar ákvarðanir eru sjaldnast teknar út frá tölfræðilegum upplýsingum.  Það breytir einu hvort að samkynhneigðir eru 1% eða 11% af mannfjöldanum, þegar það kemur að spurningunni, hvernig við komum fram við þá/þær og hvaða virðingu við viljum bera fyrir ástarsamböndum þeirra.  Þá skiptir skilnaðartíðnin (meiri eða minni) ekki heldur máli, né heldur hvort að slík sambönd hafi kosti eða galla miðað við sambönd samkynhneigðra.  Ef við skiljum að samkynhneigt fólk hefur sína kynhneigð af náttúrunnar hendi og það er ekkert siðferðilega rangt við hana, þá hverfur óttinn og neikvæðnin.  Ef við neitum að horfast í augu við þessa einföldu staðreynd og festum okkur í þeim hugsunarhætti að ákveðin trúarrit innihaldi eilífa visku, sama hversu gömul og ósamrýmanleg þekkingu nútímans þau eru, þá gerumst við sek um að viðhalda fáfræði og fordómum.  Þetta gerist í stórum stíl víða um heim, sérstaklega þar sem trúarleiðtogar eins og páfinn geta dreift banvænum fordæmingum sínum á getnaðarvarnir í Afríku og Suður-Ameríku, gegn lítilli hugarfarslegri mótsstöðu fólks úr mikilli fátækt og menntunarleysi.   

Svanur Sigurbjörnsson, 4.4.2009 kl. 01:16

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Innilega ósammála þér, Svanur, en svara hér engu nú.

En réttara hefði verið fyrir þig að orða eitt svona: "Það breytir engu hvort samkynhneigðir eru 1% eða 2,2% af mannfjöldanum."

Jón Valur Jensson, 4.4.2009 kl. 01:25

20 Smámynd: TARA

Þökk fyrir góð orð í minn garð, Svanur.  

Og það er rétt að fólk fæðist eins og það er, samkynhneigt, fatlað, geðveikt, svart, gult og svo mætti lengi telja. Það getur enginn gert neitt við því hvernig hann er skapaður frá náttúrunnar hendi.

Og við sem eigum að teljast heilbrigð(sem ég efast stundum um)höfum ekkert leyfi til að brennimerkja fólk og draga í dilka, bara af því að okkur líkar ekki hvernig það er. En þetta snýst víst um samkynhneigða og baráttu þeirra fyrir ''blessun'' í kirkju.

Ég get ekki skilið hvaðan það neitunarvald kemur sem meinar fólki um þessa athöfn. Ég hef aldrei séð skriflegt leyfi frá nokkrum Guði, sem sýnir mér það svart á hvítu. Þar af leiðandi hlýtur það að segja sig sjálft að þetta vald kemur frá dauðlegum mönnum, sem eru að nýta sér frásagnir úr æfagömlum bókum, sem ekki falla lengur inn í tuttugustu og fyrstu öldina.

Mér finnst að það eigi jafnt yfir alla að ganga og ætti að fagna því í hvert sinn sem stofnað er til hjónabands af fólki sem ann hvert öðru og vill vera saman á löglegan og blessunarlegan hátt ef ég má orða það svo.

TARA, 4.4.2009 kl. 21:16

21 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sannaðu nú þessa fullyrðingu þína, Tara: "Og það er rétt að fólk fæðist eins og það er, samkynhneigt, fatlað, geðveikt, svart, gult og svo mætti lengi telja."

Ég veit ekki betur en sumir fatlaðir séu ekki fæddir þannig, og það sama á við um harla marga samkynhneigða og raunar engin sönnun fyrir því, að nokkur þeirra sé fæddur þannig.

Jón Valur Jensson, 5.4.2009 kl. 00:18

22 Smámynd: TARA

Heyrðu Jón Valur...þetta er farið að minna á þrátefli...eigum við ekki bara að taka eina skák og segja að það okkar sem vinnur, hafi rétt fyrir sér

Þú veist væntanlega hvað ég átti við með að fólk fæddist svona, sumir eru gulir á hörund, aðrir svartir eða hvítir og ekkert við því að gera. Sama hvað þú rembist eins og rjúpan við staurinn, litarhaft fólks breytist ekki. Eins er með þá sem fæðast fatlaðir, því verður ekki breytt, en hitt er rétt hjá þér að fólk getur orðið fyrir slysi sem veldur fötlun, en það er ekki af náttúrulegum völdum.

Þú veist líka örugglega að það eru aðeins örfáar undantekningar þar sem samkynhneigð er áunnin, en ekki meðfædd. Þú sem hefur kannski rannsakað þetta óralengi, veist það alveg innst í hjarta þínu að þetta er bara eitt að tilbrigðum náttúrunnar, svona einhvers konar duttlungar ef þannig má að orði komast.  

Fyrir tæpum þrjátíu og fimm árum kynntist ég fyrst samkynhneigðu fólki, en ég reyndi ekki að leita skýringa á því, hvers vegna fólk var svona. Það var ekki fyrr en fyrir fimmtán árum síðan að ég fór að lesa allt sem ég fann um samkynhneið, talaði við fólk, lækna, hjúkrunarfólk, presta, sálfræðinga, geðlækna, fólk sem lagði stund á heimspeki og vísindi, allt í þeim tilgangi að komast að því hvort samkynhneigð væri áunnin eða meðfædd.

Það bar öllum saman um að þetta væri meðfætt í flest öllum tilvikum, aðeins væru örfáar undantekningar eins og ég nefndi áðan. Þetta er eitthvað sem er til staðar í fólki, þegar í móðurkviði. Ég get ekki haft eftir allar þær læknisfræðilegu lýsingar sem ég fékk, en ég þykist líka vita að þú hafir kannað allar þessar staðreyndir.

Og ég þekki ungan mann sem fór í Krossinn og Gunnar ''þóttist'' hafa afhommað (afsakaðu ógeðslegt orð) hann. En hann sagði mér sjálfur að hvernig sem hann reyndi þá gæti hann ekki borið sömu tilfinningar til konu og hann bæri til karls, hefði enga löngun til konu. En hann reyndi að þóknast öllum, nema sjálfum sér.

En þar sem við erum nú að karpa inni á síðunni hans Svans, sem er læknir, þá gæti hann kannski verið fáanlegur til að útskýra líffræðilegu þættina fyrir þér og mér og öllum hinum.

TARA, 5.4.2009 kl. 01:31

23 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svara þér á öðrum degi, Tara.

Jón Valur Jensson, 5.4.2009 kl. 02:35

24 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Samuel Taylor Coleridge (enskt skáld) sagði:

He, who begins by loving Christianity better than Truth, will proceed by loving his own Sect or Church better than Christianity, and end in loving himself better than all.

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 8.4.2009 kl. 02:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband