Ahyglisvert hvaðan fylgið kemur

Þegar heildarskýrsla þessarar könnunar og þeirrar sem var gerð nokkrum dögum fyrr af Capacent Gallup, eru skoðaðar kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Hámenntað fólk styður mest allra menntahópa ríkisstjórnina

Úrtakshóp könnunarinnar er skipt í fjóra hópa eftir menntun; grunnskólapróf, iðnnám/verknám, menntaskólapróf og háskólagráða.   Hvað varðar spurninguna: "styður þú ríkisstjórnina" svara 51-53% fyrstu þriggja hópanna því játandi, en 63% fólks með háskólapróf.  Þegar sömu hópar eru skoðaðir m.t.t. stuðnings við flokkana, sést að aðeins 14,6% fólks með háskólagráðu styður Sjálfstæðisflokkinn.  Sá flokkur fær stærstan hlut fylgis síns frá fólki með iðnnám/verknám 30,6% en nokkru minna frá fólki með grunnskóla- eða stúdentspróf (24-25%). 

Þetta er merkilegt í ljósi þess að maður hefði haldið að sögulega séð ætti xD miklu fylgi að fagna úr hópum viðskiptafræðinga og lögmanna (og jafnvel lækna), en því er vart að dreifa nú þar sem stétt viðskiptafræðinga er það stór hluti af háskólafólki að hún ætti að segja til sín meðal þess í svona könnun.  Mig grunar að þetta fólk hafi misst traust á flokknum vegna óreiðu hans í fjármálum og vangetu til að forðast brotlendingu í efnahagshruninu.

Aukin lengd menntunar eykur að jafnaði ákvörðunarhæfni og þroskar greinandi hugsun.  Þegar marktækar stærðir af hópum á mismunandi menntunarstigi eru teknar fyrir eins og í þessari könnun, þá er það athyglisvert hvað menntaðasti hópurinn hefur að segja og tel ég að einkum tvær ástæður geti legið að baki þess sem þessi hópur velur oftast (xS 38.9% og xVg 28,6%):

  1. Háskólagengið fólk telur að jafnaði að hag þjóðarinnar allrar sé best borgið með því að kjósa xS eða xVg.
  2. Háskólagengið fólk telur að jafnaði að sínum hag sé best borðið með því að kjósa xS eða xVg.

Það geta verið bæði eigingjarnar og óeigingjarnar ástæður fyrir þessum stuðningi.  Fólk með háskólapróf verður seint ásakað um að vera að jafnaði heimskt þannig að það er ekki ástæðan. 

Aukin þátttaka háskólafólks í stjórnmálaumræðunni

Ég held að það sé óhætt að segja að aldrei fyrr hefur jafn mikið af háskólamenntuðu fólki haft sig frami í stjórnmálaumræðunni og skrifum um stjórnmál.  Loksins eru hagfræðingarnir, stjórnmálafræðingarnir og heimspekingarnir farnir að taka stjórnmálin alvarlega í stórum stíl og skilja að þeir geta hreinlega ekki setið á rassi sínum heima (nema til að skrifa mikilvægar greinar um þjóðmálin í tölvuna) fyrir kosningar.  Það er ánægjulegt að sjá að Morgunblaðið birti í helgarblaði fyrir rúmri viku, yfirlit yfir málefni allra flokka í skipulagðri töflu sem náði yfir heila opnu.  Auðvitað má deila um það hvernig framsetningin tókst en þetta var verulega góð tilraun til að gefa lesendum hlutlausar upplýsingar og hjálpa því að taka upplýsta ákvörðun.  Samtök um hagsmuni heimilanna birtu einnig töflu um tillögur flokkanna um aðstoð við heimilin, í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu.  Það er dapurt að sjá að það blað sem mesta dreifingu fær (Fbl) birtir sáralítið af upplýsingaríkum greinum blaðamanna um þjóðmálin og lesendur hafa orðið að kaupa auglýsingar í blaðinu til að fá efni sitt birt innan þolanlegra tímamarka. 

Lýðræði virkar ekki vel nema með upplýstum ákvörðunum kjósanda.  Þess vegna þarf þjóðin að taka sig verulega á í menntun þjóðarinnar á aðferðafræði gagnrýnnar hugsunar, söfnun upplýsinga, rannsóknarblaðamennsku, rökfræði, siðfræði, heimspeki, hugmyndasögu, mannfræði, sálfræði og síðast en ekki síst félags- og stjórnmálafræði. 

Aldursdreifing kjósenda hvers flokks

Athyglisvert er að sjá að bilið milli prósentu yngstu (< 30 ára) og elstu (>59 ára, 31.4%) er mest hjá Sjálfstæðisflokknum.  Aðeins 16,8% yngstu kjósendanna kjósa xD og er því ljóst að þeir sem munu erfa landið hafa að miklum hluta misst traust á flokknum miðað við það sem áður var.  Það mátti sjá merki þessa í könnunum fyrir síðustu kosningar þar sem fylgi yngtu kjósendanna jókst mest hjá xVg.  Aldursdreyfingin er jöfnust hjá xS (29.7-33.2%) í öllum fjórum aldurshópunum. 

Kynjadreifingin innan flokkanna

Kynjadrefingin nær marktækum mun hjá xO sem hefur 6.5% fylgi meðal karla en aðeins 3.3% fylgi meðal kvenna.  Karlar virðast vera róttækari í því að kjósa ný framboð.  Mig minnir að svipað hafi verið uppi á teningnum hjá Íslandshreyfingunni fyrir kosningarnar 2007.  

Hinn flokkurinn sem hefur marktækan fylgismun milli kynjanna er Vinstri grænir.  Karlar styðja flokkinn í 24.2% tilvika en í 30.9% tilvika kvenna.  Eflaust geta Vinstri grænir svarað því best sjálfir hvers vegna þetta er svona en mínar tilgátur eru eftirfarandi:

  • Vg hefur breiða fylkingu forystukvenna (samt ekkert meira en hjá xS)
  • Forystukonur xVg hafa verið e.t.v. aðeins meira áberandi en forystukonur xS að frádregnum formanni xS.
  • Barátta fyrir jafnrétti kynjanna sé e.t.v. sterkust hjá xVg. 
  • Sterk áhersla xVg á mannréttindamál og umhverfi höfði almennt mikið til kvenna.

Samantekið, þá má draga ýmsan lærdóm af sundurgreiningu kannana og þær vekja upp forvitninlegar spurningar sem vert væri að kanna nánar með sértækari könnunum t.d. athuga nánar hvaða ástæður liggja að baki vals háskólafólks og hvort að munur sé á milli háskólagreina eða milli iðngreina/verknámsgreina.  Í fyrri könnuninni kom fram að xD átti flesta kjósendur á meðal hátekjufólks, en aftur xS og xVg á meðal fólks með meðal miklar tekjur.  Það væri athyglisvert að vita hvernig menntunarstig/gerð á milli hátekjufólks skiptist. 

Ég er bjartsýnni nú á að það takist að breyta stjórnarháttum og stefnumálum hjá þjóðinni til batnaðar þar sem útlit er fyrir að xS og xVg verði sigurvegarar kosninganna.  Ég hefði ekki á móti því að xO kæmist á þing því þeir hafa mikilvægar tillögur fram að færa í lýðræðismálum og vilja aðildarviðræður við ESB.  Ég vona að hér rísi ekki fleiri álver, sérstaklega ekki í þeirri náttúruperlu sem Norðurland er.  Viðbótarálver í Helguvík er algert hámark.  Fái þessir flokkar traust fylgi og sem mest, er von til þess að raunveruleg siðbót og framfarir verði í landinu.  Framfarir sem mælast ekki endilega í peningum heldur farsæld fólks og endurnýjun virðingar alþjóðasamfélagsins fyrir okkur sem siðuð og traustverð þjóð.  

 


mbl.is S- og V-listar bæta heldur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hm, hm, skyldi ástæða þess hvaðan fylgið kemur veravegna þess að ungir kjósendur eru mun fleiri háskólamenntaðir en eldri kjósendur? Og ungt menntafólk hefur í gegn um tíðina alltaf hugsað meira til vinstri og síðan vitkast með árunum. Mér sýnist þessi greining lýsa betur fordómum greinandans í garð "ómenntaðra". Við skulum ekki gleyma því hverjir skapa hin raunverulegu verðmæti í þessu landi. Verðmæting sem vonandi á endanum koma okkur úr þeirri úlfakreppu sem við erum í í dag. Það verða örugglega ekki hámenntaðir þröngsýnir forsjárhyggjumenn - heldur fólkið sem skorast ekki undan ábyrgð og lærir af lífinu ... en ekki bókinni. Háskólinn er þekktur fyrir það að berja frumkvæði og hugrekki úr fólki. Þess vegna hafa háskólamenntaðir starfsmenn á ríkisjötunni í gegnum tíðina fyllt vinstri flokkana á meðan dugnaðarforkarnir hafa valið hægra megin við miðju. Þetta mun ekkert breytast. Við þurfum að hafa áhyggjur af því að of margir munu í framtíðinni ætlast til þess að "ríkið" sjái háskólamenntuðum fyrir lífsviðurværi án þess að þeir taki ábyrgð eða þori að taka ákvarðanir fyrir eigin hag ... sem samsafnað hefur áhrif á hag okkar allra. Hvað hefur þú lagt á vogarskálirnar til að þessari þjóð mætti betur farnast? Hvaða upplýstu ákvarðanir hefur þú tekið sem gagnast hafa öllum íslendingum? Fordómar og heimska fara saman og heimskir menn eru í öllum hópum, líka háskólamenntuðum hópum.

gp (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 12:28

2 identicon

Að halda því fram að háskólagengið lið geti ekki verið heimskt er heimska í sjálfu sér! Þótt það hafi lært einhverja grein í skóla uppá 10 þá getur það verið nautheimskt á samfélagið sitt. Og að reyna að halda því fram að háskólaliðið hugsi öðrum fremur um samfélagið í heild er grátbroslegt þar sem þetta er það lið sem kom okkur í þá stöðu sem við erum með ofneyslu og sýndarskap :)

Addi (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 16:41

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Athugasemd gp inniheldur ákveðna mótsögn - hann/hún kvartar yfir fordómum gagnvart "ómenntuðum" en sjálf(ur) gerist viðkomandi a.m.k. jafn sekur um fordóma gagnvart háskólamenntuðu fólki.  Það er rétt hjá gp að fordómar og heimska fara saman og að heimska menn má finna í öllum hópum - en þarf gp þá ekki að vara sig á eigin fordómum til þess að teljast ekki heimskur sjálf(ur)? 

Eins leiðinlegt og "menntasnobb" getur verið - er álíka leiðinlegt að hlusta á hina svokölluðu "anti-intellectuals" sem sökum eigin minnimáttarkenndar eða sérhagsmuna sem stangast á við almenna skynsemi óttast ráð hinna lærðu.  Gott dæmi um þetta er viðhorf margra sjómanna og útgerðarmanna til Hafró.  Þessir bévuðu háskólamenntuðu plebbar kosta þá nefnilega peninga - þó svo þessir sömu plebbar séu með "þröngsýnni forsjárhyggju" sinni að vernda lífsviðurværi þeirra til lengri tíma litið.

Ameríkanar kusu George W. Bush á sínum tíma ekki vegna yfirburðar-gáfnafars heldur einmitt vegna þess að hann var "anti-intellectual".   Kjósendur Bush töldu honum það til tekna að hann væri "alþýðlegur" og að hann væri náungi sem væri hægt að setjast niður með yfir bjór-sumbli og ræða um NASCAR kappaksturinn!  Markhópur Bush var ómenntað fólk sem var tortryggið í garð "mennta-elítunnar".

Bush (eða öllu heldur Karl Rove) var hins vegar ekki eins heimskur eins og hann leit út fyrir að vera.  Hann vissi vel hvaða hóp fólks væri auðveldast að blekkja.  Fólk sem ekki var þjálfað í sjálfstæðri og gagnrýnni hugsun.  Fólk sem þykir þægilegast að leggja traust sitt á Guð og Foringjann.   Fólk sem þykir þægilegt að láta hugsa fyrir sig og segja sér fyrir verkum svo það geti "grætt á daginn og grillað á kvöldin".  Oftast fer þetta saman við trúarbrögð líka - stuðningsmenn Bush voru jú flestir "endurfæddir í Kristi" og svo sáu prestarnir um að breiða út stjórnmála-áróðurinn ásamt því að sá tortryggni í garð menntafólks sem áttu að vera upp til hópa kommúnistar, guðleysingjar og hómósexjúalistar - eða með öðrum orðum "anti-Americans".

Bush notaði nákvæmlega sömu taktík til þess að ná völdum og Adolf Hitler - sem höfðaði til nákvæmlega sömu kennda og populisma meðal lægstu stétta þjóðfélagsins og þeirra sem minnst höfðu á milli eyrnanna. 

Hugsandi fólk sem lætur ekki teyma sig á asnaeyrunum kýs ekki Sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum.  Fólk sem er komið með upp í kok af siðleysi, spillingu og sérhagsmunagæslu á kostnað almennings kýs ekki Sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum.

Persónulega hafði ég ekki lyst á að kjósa neinn Fjórflokkanna að þessu sinni og mitt utankjörstaðaratkvæði fór til Borgarahreyfingarinnar sem að ég vona innilega að komist á þing og í stjórn með Samfylkingu og VG og veiti þeim nauðsynlegt aðhald og stuðli að framgöngu lýðræðisumbóta.

Róbert Björnsson, 22.4.2009 kl. 18:07

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll gp.  Hver ertu gp?  Þú ferð mikinn og talar um þor, en kemur svo ekki fram undir nafni. 

Þú spyrð mig hvað ég hafi lagt fram á vogarskálarnar en upplýsir ekkert um sjálfan þig. 

Mál þitt hljómar eins og að þú hafir ekki farið í háskóla (sem ég hef engar athugasemdir við) og sért agalega sár yfir því sem ég sagði að "Aukin lengd menntunar eykur að jafnaði ákvörðunarhæfni og þroskar greinandi hugsun."  Ef þú telur það fordóma að segja að þeir sem hafi mesta menntun séu að jafnaði hæfari, þá ertu að segja t.d. að menntun skipti ekki máli þegar ráða eigi fólk í störf sem þarfnist víðtækrar þekkingar.  Ég breiðletraði "að jafnaði" til þess að undirstrika að hér sé ég ekki að tala um einstaklinga heldur hóp.  Á því er mikill munur.

Þú segir að

"Fordómar og heimska fara saman og heimskir menn eru í öllum hópum, líka háskólamenntuðum hópum."  

Heimska er venjulega skilgreind sem skortur á greind saman með lélegri siðferðilegri dómgreind.  Hægt er að komast í gegnum háskóla með lélegt siðferði en ekki lága greind því lærdómshæfileikar og skipulagning náms krefst ákveðinnar greindar.  Háskólanám er undantekningalítið mjög erfitt vegna mikil efnis og stundum erfiðs námsefnis.  Viljir þú horfa fram hjá því að ég var að tala um hópa en ekki einstaklinga, þá getur þú auðvitað haldið fram allls kyns ásökunum um það sem ég var að segja.  Það breytir ekki þessari staðreynd.  

Svo segir þú

"Háskólinn er þekktur fyrir það að berja frumkvæði og hugrekki úr fólki". 

  Það kann að vera einhver sannleikur í þessu og sannarlega fann ég ekki mikið fyrir því að ég hefði eitthvað frumkvæði í mínu læknanámi þó það hafi farið batnandi undanfarin ár og nemar fengu að segja heilmikið um námið til þess að bæta það.  Það segir heldur ekkert um það hvort að atvinnulífið sé eitthvað skárra. 

Hins vegar lýsir þú miklum fordómum sem þegar þú segir

"Það verða örugglega ekki hámenntaðir þröngsýnir forsjárhyggjumenn - heldur fólkið sem skorast ekki undan ábyrgð og lærir af lífinu ... en ekki bókinni".

Í fyrsta lagi væri ágætt að þú sýndir þá ábyrgð sjálfur að skrifa undir nafni en ekki stöfunum "gp" sem gæti alveg eins verið "xy".  

Í öðru lagi ertu hér gjörsamlega að drulla yfir háskólafólk með alhæfingu um að það sé þröngsýnt forsjárhyggjufólk sem beri ekki ábyrgð.  Jafnframt heldurðu því fram að það læri meira af bókinni en lífinu.  Ekki sagði ég neitt þessu líkt um stéttir sem eru ekki langskólagengnar.  Það er alls ekki ólíklegt að t.d. iðnaðarmenntað/verkmenntað fólk hafi að jafnaði einhverja kosti eða yfirburði sem háskólamenntað fólk hafi ekki.  Það var bara ekki umfjöllunarefni greinar minnar.  Það þarf talsverðu lesningu og skilning á hugtökum félagsfræði, hagfræði, rökfræði, greinandi hugsun, viðskiptafræði, sögu, lögfræði, siðfræði, stjórsýslu og stjórnmálafræði til að skilja vel stjórnmálin í landinu.  Mín ályktun er sú að háskólagengið fólk sé að jafnaði eitthvað betur í stakk búið til að ná yfirsýn og góðum skilningi á stjórnmálum.  Þetta segir ekkert um einstaklinga og t.d. getur verkamaður með mikla reynslu úr atvinnulífinu lært sjálfur þessi fræði og orðið mjög þroskaður og góður stjórnmálamaður.  Dæmi um þetta er t.d. Pjetur G. Guðmundsson (1879-1947) verkalýðsleiðtogi, sem var m.a. ritstjóri Alþýðublaðsins og kosinn í bæjarstjórn Reykjavíkur 1910.  Hann gekk aldrei í skóla en lærði á endanum ein 4-5 tungumál og gaf út kennslubók í sænsku. 

Aðdróttanir þínar um kjarkleysi háskólamenntaðra um "að taka ákvarðanir fyrir eigin hag" eru líka algerlega út í hött.  Geturðu rökstutt þetta á einhvern máta?  Mundu að þú ert að tala um þá almennt en ekki einstaka dæmi. 

Ég hef lagt ýmislegt á vogarskálarnar en til hvers ætti ég að telja það allt upp fyrir þér? Það kemur þessari umræðu ekkert við.  Þú getur kynnt þér það með því að "googla" nafnið mitt.

Kveðja  - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 22.4.2009 kl. 18:16

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Róbert

Takk fyirr gott og þarft innlegg.  Algerlega sammála.

Sæll Addi

Vissulega var það menntað fólk sem kom þjóðinni klandur en hverjir studdu þessa tilteknu menntamenn?  Eins og fram kemur í endurteknum Gallup könnunum eru það hlutfallslega fæstir háskólagengnir sem styðja xD.  Þetta er endurspeglun á því hvernig menn eins og Bush komast til valda eins og Róbert lýsir hér að ofan.  Sjálfstæðismenn fá hlutfallslega mestan stuðning fólks í hæsta fjórðung launa, minnst í miðfjórðungunum tveimur, en svo aftur aðeins meira hjá þeim lægst launuðu (um 20%). 

Svanur Sigurbjörnsson, 22.4.2009 kl. 18:52

6 identicon

Sæll Svanur,

Leiðinlegt þykir mér að þú hafir alls ekki náð inntaki spjalls míns. En fyrst þú lagðir það á þig að spæni skrif mín í þig með þessu móti er best að ég skýri eitt og annað ...

Ég er ekki sammála þér um það að:"Aukin lengd menntunar eykur að jafnaði ákvörðunarhæfni og þroskar greinandi hugsun." ef þú átt við með "menntun" að það sé skólamenntun. Ég vil meina að það geti önnur menntun, menntun lífsins, verið jafngóð og háskólamenntun í þessu sambandi. Ákvörðunarhæfni og greinandi hugsun tryggir síðan á engan hátt að siðferðilega réttar eða góðar ákvarðanir séu teknar þrátt fyrir að þær séu byggðar á menntun og menntuðum greiningum.

Ég er heldur ekki sammála því að: "Háskólanám er undantekningalítið mjög erfitt vegna mikil efnis og stundum erfiðs námsefnis.  Viljir þú horfa fram hjá því að ég var að tala um hópa en ekki einstaklinga, þá getur þú auðvitað haldið fram allls kyns ásökunum um það sem ég var að segja."

... Mér fannst háskólanám mitt eitt af því auðveldara og skemmtilegra sem ég hef tekist á við í lífinu. (ég er með tvær háskólagráður) Þekking úreldist hratt og gráður eru því ekki góð varanleg undirstaða þekkingar. Heldur frekar lærð aðferð við að afla þekkingar. Án endurmenntunar "lífsins" er hún einskis virði. En frumkvöðlafræðin sem ég lærði kenndu rannsóknir sem sýndu það að háskólamenntun drægi úr frumkvæði og hugrekki til athafna. Og það hefur reynslan af vinnu með frumkvöðlum líka kennt mér. Þetta er þó að breytast til betri vegar.

Svanur segir: "Í öðru lagi ertu hér gjörsamlega að drulla yfir háskólafólk með alhæfingu um að það sé þröngsýnt forsjárhyggjufólk sem beri ekki ábyrgð"

... þar sem ég segi "hámenntaðir þröngsýnir forsjárhyggjumenn" þá meina ég það og bara það. Ekki að orðin séu tekin úr samhengi og einhverju bætt inn í. Það er til fullt af hámenntuðum mönnum sem ekki eru þröngsýnir forsjárhyggjumenn. Ég er t.d. háskólamenntuð = hámenntuð og víðsýni markaðshyggjumanneskja. Þ.a. ég var alls ekki að drulla yfir háskólafólk með orðum mínum. Ég hef áhyggjur af því að landið lendi í klóm þessara hámenntuðu þröngsýnu forsjárhyggjumanna. Og tel því betur borgið í höndum annarra en þeirra.

Svanur segir: "Það þarf talsverðu lesningu og skilning á hugtökum félagsfræði, hagfræði, rökfræði, greinandi hugsun, viðskiptafræði, sögu, lögfræði, siðfræði, stjórsýslu og stjórnmálafræði til að skilja vel stjórnmálin í landinu."

Hér er ég alls ekki sammála þér. Ég get ekki séð að nokkur maður geti skilið vel stjórnmálin í landinu. Það er vegna þess að upplýsingar eru ekki aðgengilegar til að hægt sé að skilja það sem er í gangi. Verst er að þeir sem eru að stjórna landinu, hafa ekki einu sinni aðgang að þessum upplýsingum. Og samt vonumst við til að þeir taki upplýstar ákvarðanir.

Róbert - átta mig ekki alveg á hvar fordómar mínir gagnvart mér og öðru háskólamenntuðu fólki birtast í skrifum mínum.

Menntahroki fer alveg gríðarlega í taugarnar á mér og ég hef gert það að lífsverkefni að kynnast skemmtilegu, duglegu og vel upplýstu fólki sem kosið hefur einhverra hluta vegna að ganga ekki menntaveginn. Fyrir mér er það lífsnauðsynlegt að umgangast alla jafnt og af virðingu hverjir sem þeir eru. Skoðanir allra skipta máli og allir eiga sitt atkvæði í kjörklefanum, hvaða menntun sem þeir hafa. Og sjálfstæðið mun ég verja áfram.

Ég ætlaðist aldrei til að þú svaraðir því hvað þú hefðir lagt á vogarskálarnar - þetta voru spurningar ætlaðar lesendum til umhugsunar. Og ég bjóst ekki við að þurfa að útskýra þessar íronísku hugmyndir og nostalgísku hugrenningar mínar í spað fyrir hámenntuðum manninum.

Kær kveðja

Guðbjörg Pétursdóttir

gp (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 19:55

7 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég tek undir með gp að greining þín lýsir betur fordómum þínum í garð minna menntaðra en "greinandi hugsun". Aukin menntunar eykur ekki endilega ákvörðunarhæfni, eins og henni er fyrirkomið leiðir hún frekar til einsleitrar hjarðhegðunar.

Að kunna skil á fagi sínu eykur ekki hæfileika manna til að komast af við óþekktar aðstæður. Það má færa fyrir því rök að það leiði frekar til "nærsýni". Við lifum nú á óráðnum tímum og menntamenn sem og fjölmargir aðrir leggja nú traust sitt á ríkið. Samfylkingar-ríkið sem vill leiða okkur undir risaríkið ESB og VG-ríkið sem stefnir þráðbeint til fortíðar.

Frá hvaða sjónarhóli dregur þú ályktunina um að hámenntað fólk eins og viðskiptafræðingar, lögfræðingar og -úps- jafnvel læknar halli sér frekar til vinstri? Eru menntamenn sundurgreindir í könnuninni? Ef ekki, þá má færa fyrir því rök að þú, sem læknir, þekkir að einhverju marki hug annarra lækna. En þú hefur enga innistæðu fyrir því að viðskiptafræðingar og lögfræðingar kjósi til vinstri. Viðskiptafræðingar og lögfræðingar dreifast á alla flokka og best gæti ég trúað að það geri læknar líka. Margir innan þessara stétta eiga nú um sárt að binda fjárhagslega og láta reiði og biturð stýra ákvörðunum sínum.

Villa þín birtist í því að þú lítur framhjá þeirri staðreynd að stærsti hópur "menntamanna" eru kennarar, heilbrigðisstéttir og félagsmálafólk. Þetta fólk hlýtur að vega þyngst í könnuninni. Langflestir starfa hjá ríkinu og hafa komið sér þar upp sterkri samningsstöðu. Ályktunarhæfileiki þessa fólks er þó engu meiri en Péturs og Páls sem allt sitt líf hafa tekist á við áskoranir atvinnulífsins og margir hverjir haft betur.

Greind er af margvíslegum toga og hæfileikinn til að læra utanað er bara einn þáttur af mörgum. Ég þekki fólk sem hefur fótógrafískt minni, en gæti ekki krafsað sig út út skókassa jafnvel þótt hann væri loklaus. Ég þekki líka fólk sem rétt náði að komast í gegnum grunnskóla en hefur engu að síður náð á "toppinn" vegna hæfileikans til að nýta þær gáfur sem Guð gaf þeim. Þetta er fólkið sem gert hefur okkur kleift að halda uppi öflugu menntakerfi og þar með aukið á auðlegð þessarar þjóðar.

Við erum þjóð í sárum, en vinstristjórn "menntamanna" getur aldrei orðið annað en koss á báttið. Til að koma okkur aftur á skrið þarf fólk sem býr yfir áræði og þori til að takast á við hið óþekkta. Það fólk kemur ekki nema að hluta til úr háskólunum.

Ragnhildur Kolka, 23.4.2009 kl. 09:40

8 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég er ekki háskólamenntuð og ég hef aldrei kosið sjálfstæðisflokkinn og mun aldrei gera   Það er hægt að mennta sig án þess að fara í háskóla til þess

Ég er hlynnt þínum skrifum Svanur og finnst þú ekki vera með neinn menntahroka eins og einhver er að halda hérna fram.   

Annars er ég hlynnt menntun frá a-ö hvernig sem hún fer fram.  Menntun getur líka verið fólgin í því að fólk læri að hugsa sjálfstætt og láti ekki leiða sig og teyma og að það taki afstöðu um hin ýmsu mál byggða á þeirra eigin niðurstöðu en ekki annarra sem það lætur stjórnast af.

Það er margt fólk á Íslandi sem syndir með og nennir ekki að láta reyna á vitsmunina og horfast í augu við mál eins og þau eru í raun, heldur lætur aðra sjá um það fyrir sig.   Þetta fólk þarf að vekja!

En mig langar að segja þér það Svanur, að ég er haldin smá menntahroka ef út í það er farið af því að yngri sonur minn sem er að verða stúdent frá MR af Eðlisfræðibraut, sigraði eðlisfræðikeppnina á landinu sem var haldin fyrir stuttu þar sem 186 tóku þátt.  Hann er núna í Ólympíuliðinu í Eðlisfræði og fer til Mexíkó ásamt fjórum öðrum sem komust í liðið að keppa fyrir Íslands hönd Ég er ekkert smá montin af honum

Áfram XS!

Margrét St Hafsteinsdóttir, 23.4.2009 kl. 18:45

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Guðbjörg

Það er með ólíkindum að þú skyldir koma með þetta skítkast úr launsátri í fyrri athugasemd þinni í ljósi þess að við þekkjumst ágætlega.  Öðrum til upplýsingar þá höfum við Guðbjörg unnið saman að verkefni sem m.a. hvatti fólk til að hugsa betur um heilsuna.  Fyrir það verkefni var ég með útvarpsþátt um heilbrigðismál.  (Ekkert lagt til?) Þú hegðar þér eins og þú þekkir mig ekkert og spyrð hvað ég hafi "lagt á vogarskálarnar til að þessari þjóð mætti betur farnast".  Svo reynirðu að breiða yfir það með því að segja að spurningunni hafi verið varpað til lesenda til umhugsunar.  Hvað áttu lesendur að hugsa?  Að ég hefði ekki lagt neitt til þjóðfélagsins?  Aðra eins sendingu hef ég ekki fengið frá manneskju sem ég taldi vin minn.

Svo bættir þú um betur með því að spyrja:  "Hvaða upplýstu ákvarðanir hefur þú tekið sem gagnast hafa öllum íslendingum? Fordómar og heimska fara saman og heimskir menn eru í öllum hópum, líka háskólamenntuðum hópum. "  Það er alveg ljóst að þú ýjar hér að því að ég sé heimskur háskólamaður því samhengi setninganna er þannig.  Ósmekklegt.

Varðandi upplýstu ákvarðanirnar, þá hef ég ekki verið í aðstöðu þeirra sem hafa vald og geta með ákvörðunum sínum haft áhrif á fjölda manns, jafnvel alla íslendinga.  Hins vegar tek ég daglega í starfi mínu upplýstar upplýsingar sem bæta heilsu fjölda fólks og með áhugastarfi mínu í stjórnmálum, fræðslustörfum, félagsstörfum hjá Siðmennt, greinaskrifum gegn reykingum, bloggi, formennsku í stóru húsfélagi í mörg ár og annarri virkri þátttöku í þjóðfélaginu hef ég gagnast bæði einstaklingum og hópum á Íslandi.  Þú vissir af mörgu þessu en samt settir þú fram þessa spurningu.  Spurningin var algerlega úr takti við þá stöðu sem ég er í því ég er ekki í stjórnsýslu eða á Alþingi.

Þú segir: "Ákvörðunarhæfni og greinandi hugsun tryggir síðan á engan hátt að siðferðilega réttar eða góðar ákvarðanir séu teknar þrátt fyrir að þær séu byggðar á menntun og menntuðum greiningum. "  Ég er sammála þér í þessu en ég var að tala um heildir, ekki einstaklinga.  T.d. almennt er læknum betur treystandi fyrir greiningu og meðferð sjúkdóma en öðrum stéttum, en menntun þeirra tryggir ekki að greining þeirra sé alltaf rétt. 

Til hvers varstu að tala um "hámenntað[a] þröngsýn[a] forsjárhyggjumenn"?  Er það lýsing þín á fólki í ákveðnum stjórnmálaflokki? Þú segir svo í andsvari þínu að þú hafir þarna ekki verið að alhæfa um hámenntað fólk, heldur bara verið að tala um hina þröngsýnu forsjárhyggjumenn þar á meðal.  Er það ekki rétt skilið?  Er það stórt vandamál á meðal hámenntaðra að vera þröngsýnir og með forsjárhyggju?  Óttastu bara fá þeirra?  Til hvers þá að nefna þá?

Þú nefnir "dugnaðarforkana" sem hafa valið hægra megin við miðju.  Þú vilt teljast meðal þeirra enda hefur þú verið kosningarstjóri hjá xD oftar en einu sinni.  Það hlýtur að vera hræðilegt að tilheyra þröngsýnum hámenntuðum meðaljónum (jafnvel letingjum) sem vilja öllu ráða.  Já dugnaður er dygð og það má ekki hefta frelsi hinna duglegu, t.d. ekki í fjármálageiranum.  Hugsum okkur þann hrylling ef þessir dugnaðarforkar yrðu að fara eftir hertum reglum frá "hámenntuðum þröngsýnum forsjárhyggjumönnum"?  Hvað yrði þá um þann stóra hluta kjósenda xD sem af dugnaði sínum eru hátekjufólk?  Hvað yrði um fólk eins og þig sem færð stundum vinnu hjá þeim flokki?  Yllu örlítið hærri skattar í kreppu þessu fólki óhamingju og tapi á svefni?  Varla, því þetta er úrræðagott fólk.

Þú nefnir að þú berir virðingu fyrir öllu fólki, sama hvaða menntun það hafi.  Heldur þú að það hafi nokkuð með mismikla mannvirðingu að gera þó að maður segi að langskólagengið fólk hafi að jafnaði betri forsendur fyrir því að skilja stjórnmál en fólk með minni menntun?  (eða að fólk með stúdentspróf hafi betri forsendur fyrir þessu en fólk með grunnskólapróf?).

Þú talar um jafna virðingu en gefur svo aftur í skyn að ég sé heimskur þegar þú segir "Og ég bjóst ekki við að þurfa að útskýra þessar íronísku hugmyndir og nostalgísku hugrenningar mínar í spað fyrir hámenntuðum manninum."  Kemur menntun mín sem sagt þessu eitthvað við?  Þú bjóst sem sagt við því að ég hefði skilning á hugrenningum þínum þar sem ég væri hámenntaður.  Það er erfitt að skilja þetta öðru vísi en þannig að þú hefðir frekar búist við því að útskýra hugrenningar þínar í spað ef ég væri lítið menntaður.  Með þessari sneið þinni ertu komin í andstöðu við bæði það sem þú sagðir um virðinguna og það sem þú sagðir um það hvernig þú byggist við að skilningur fólks væri eftir mismunandi menntastigum.

Ég get haldið lengur áfram með gagnrýni á skrif þín en læt hér staðar numið.  Framkoma þín veldur mér vonbrigðum en ég er ánægður með að sá flokkur sem misnotaði á margan alvarlegan máta traust 35-40% þjóðarinnar og ríkti í ríkisstjórn undanfarin 18 ár, er senn að fá dóm þjóðarinnar yfir sig í kosningunum á laugardaginn.  Auðvitað gerði xD ýmislegt gott, en hann spilltist, missti kjark, hlustaði ekki á aðvaranir í hroka sínum og missti sjónar á siðferðislegri uppbyggingu.  Frelsi án ábyrgðar er ávísun á misnotkun. 

Svanur Sigurbjörnsson, 23.4.2009 kl. 21:57

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Ragnhildur

"Frá hvaða sjónarhóli dregur þú ályktunina um að hámenntað fólk eins og viðskiptafræðingar, lögfræðingar og -úps- jafnvel læknar halli sér frekar til vinstri?"

Ég var búinn að útskýra þetta en skal gera það aftur og betur.   Á meðan aðeins 14.6% fylgismanna xD í könnuninni eru háskólamenntaðir eru 28.6% fylgismanna xVg og 38.9% fylgismanna xS með þá menntun.  Góður hluti háskólafólks eru útskrifaðir nemar úr Viðskipta- og hagfræðideild og lagadeild, samtals 21.5% (sjá t.d. tölur um brautskráningar 2007) og þessar deildir eru enn stærra hlutfall af brautskráðum nemum frá HR.  Af þessu og því að þekkt er í sögunni að margir lögmenn og viðskiptafræðingar hafa stutt xD áður, dró ég þá ályktun að xD væri með minni stuðning en áður frá fólki í þessum greinum. 

Félagsvísindadeildin er stærst, með 27.5% brautskráðra árið 2007 og þar eru félagsfræði, félagsráðgjöf og stjórnmálafræði stór fög (12.3%), en þessi fög gefa talsverða innsýn í þjóðfélagið á víðum grundvelli.   Það er því athyglisvert að xD sé ekki með stærra hlutfall fylgismanna á meðal háskólafólks.  Samtals (viðskipta- og hagvísindadeild, lagadeild, félagsfr og stjórnmálafræði) eru þessi fög með 33.8% brautskráðra háskólanema úr HÍ og með enn stærra hlutfall ef maður tæki HR inní.  Ef ég væri þú, þá hefði ég af því áhyggjur að xD njóti lítils stuðnings háskólafólks, ekki síst vegna þess að a.m.k. 1/3 þeirra nemur greinar sem snúa að stjórnmálum.

Auðvitað finnst fólk úr öllum menntastigum og stéttum með áræðni og þor eins og þú nefnir það.  Ég dró engar ályktanir um skiptingu þeirra kosta.  Til þess að stýra landinu þarf blöndu af svo mörgu, en hver sem sú blanda er, þá er víst að upprennandi stjórnmálamenn þurfa að leggja á sig vinnu, alls kyns skólun (innan og utan menntakerfisins) og rækt við gott siðferði til þess að öðlast nægilegan þroska og hæfni til að takast á við verkefnin.  Nú er komið að því að leyfa félagshyggjuflokkunum að reyna sig. 

Kveðja - Svanur

Kæra Margrét

Takk fyrir góð orð og gott innlegg.  Til hamingju með strákinn þinn!  Velgengni í námi er eitt af því sem hjálpar við að skapa hamingju þó það sé ekki það mikilvægasta.  Kær kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 24.4.2009 kl. 00:25

11 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Takk Svanur

Mér finnst flott hjá þér hvernig þú svarar Guðbjörgu í aths. nr. 9.   Þú ert maður með ríka réttlætiskennd og ert vel hugsandi og það ætti hún Guðbjörg að sjá og gera sér grein fyrir þegar hún er búin að afmá XD úr hugskoti sínu

Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem veiðir fólk með því að höfða sem mest til egósins alveg eins og sértrúarsöfnuðir gera.  Það fólk sem fellur fyrir þannig fagurgala er margt með lélega sjálfsmynd sem því finnst vera pússuð og fægð ef það gengur til liðs við flokk flottræfilsháttarins

En bestu kveðjur til þín Svanur og gangi þér vel í baráttunni.

Lifi Samfylkingin!

Margrét St Hafsteinsdóttir, 24.4.2009 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband