Hið sammannlega og hamingjan - Dalai Lama, Barack Obama, A.H. Maslow og Aristóteles

Það er búið að vera athyglisvert að fylgjast með heimsókn Dalai Lama og horfa á það sjónvarpsefni sem bæði RÚV og Stöð 2 hafa boðið uppá um þennan merka mann.  Hann er vel að þeim heiðri kominn sem Parísarbúar eru nú að veita honum.

Í viðtali við hann í þætti RÚV sagði Dalai Lama eftirfarandi (endursagt):

Ég [Dalai Lama] er ein manneskja af 6 milljörðum sem byggja jörðina.  Mitt hlutverk í þessari röð eDalai_Lama_RUVr:

  1. Að öðlast innri frið og hjartahlýju.  Sýna samhygð (empathy) gagnvart öðru fólki.  Við erum félagsverur og hamingja okkar veltur mikið á því að gera vel við aðra.
  2. Að vera búddisti.
  3. Að rækta skyldur við þjóð mína, Tíbet og að vera þjóðinni Dalai Lama.  Ef í framtíðinni verður ekki þörf fyrir stofnunina Dalai Lama fyrir Tíbet þá verður hún lögð af, annars ekki.  Ég ákveð það ekki.

Það virðis í fljóti bragði að þetta séu sjálfsagðir hlutir, en svo er ekki og viskan í þessum orðum Dalai Lama felst fyrst og fremst í því hver forgangsröð þessara atriða er.  Hann setur manneskjuna fremsta og þann mikilvæga eiginleika að finna til samhygðar og hjartahlýju.  Leitin að innri gildum, frið og sátt við aðra er mikilvægust.  Þar á eftir koma hans eigin trúarbrögð, búddisminn og loks skyldur hans sem Dalai Lama gagnvart Tíbet.  Hann skynjar að staða hans er ekki endilega eilíf og sýnir þá auðmýkt og raunsæi að hugsanlega verður ekki embætti Dalai Lama í framtíðinni.  Hann setur því velferð annarra fram fyrir þörfina fyrir að viðhalda því embætti sem hann gegnir.  Þá sagði Dalai Lama að mikilvægt væri að láta skynsemina ráða í öllu því sem við gerum.

Í bók sinni: "The Dalai Lama, A Policy of Kindness" Dalai Lama 1990 bls. 52, segir hann:

Ég trúi að í sérhverju lagi samfélagsins - í fjölskyldunni, ættinni, þjóðinni og jörðinni - sé lykillinn að hamingjuríkari og árangursríkari heimi vöxtur væntumþykjunnar. Við þurfum ekki að verða trúuð og við þurfum ekki heldur að trúa á ákveðna hugmyndafræði. Það eina sem þarf er að hvert okkar þrói með sér okkar góðu mannlegu eiginleika.

Annað sem er sláandi (fyrir trúarleiðtoga), er að hann viðurkennir að fjárhagslegar þarfir (ytri gildi)eru eðlilegar, en á sama tíma vill brýna fyrir fólki að það megi ekki vanrækja hin innri gildi, sem nauðsynleg eru til að öðlast lífsfyllingu.  Hugsa þurfi allar ákvarðanir út frá stóru samhengi hlutanna, ekki aðeins þeim fjárhagslegu. 

Þetta er í samræmi við þann boðskap sem Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur flutt, en hann talar um að ekki þurfi einungis að stoppa í fjárlagagatið heldur þurfi ekki síður að leiðrétta "samhygðarhallann" (empathy deficit) í heiminum.  Lykillinn að betri heimi er að setja okkur í spor annarra.  Sjá umfjöllun á baráttuvefnum change.org

Bandaríski sálfræðingurinn Abraham Harold Maslow (1908-1970) var þekktur fyrir kenningar sínar á sviði húmanískrar sálfræði og var valinn húmanisti ársins árið1967 Abraham_maslowaf Húmanistafélagi Ameríku (Am. Hum. Assoc.).  Hans þekktasta tillegg er kenningin um þarfapýramídann 800px-Maslow's_hierarchy_of_needs_svgsem lýsir þörfum hverrar manneskju í 5 stigum þar sem fyrsta skrefið lýtur að þörfum líkamans fyrir fæði og vatn, annað stigið þörfin fyrir öryggi og húsaskjól, þriðja stigið þörfin fyrir ást og að tilheyra, fjórða stigið þörfin fyrir sérstaka virðingu og að afreka eitthvað, og loks fimmta stigið að öðlast lífsfyllingu (self-actualization, sjálf-raungervingu) gegnum siðferðilegan þroska, getu til sköpunar og lausnar á vandamálum, sátt við staðreyndir og hugsun án fordóma.  Mikilvægasta þörfin sé hin fimmta, en bæði fjórða og fimmta stigið lýsa fólki sem hugsa ekki síður um velferð annarra en sína eigin.  Síðari kennimenn hafa bent á að þessi röðun sé ekki endilega til staðar í lífi fólks, en hvað sem því líður, þá er þarfapýramídi Maslows athyglisvert módel til að skilja betur mismunandi ásigkomulag manneskjunnar og e.t.v. hvar hamingjuna er að finna. 

Forn-Grikkir; Sókrates sagði: "Hið órannsakaða líf er ekki þess virði að lifa" og Aristóteles sagði að hin vel ígrundaða manneskja sem ræktaði gáfur sínar ætti mestan möguleikann á hamingju.

Í fjallræðunni á Jesús að hafa sagt að kærleikurinn sé trúnni meiri.  Þetta er í raun það sem Dalai Lama er að segja, en vandi kristninnar er að þessi orð Jesú eru í mótsögn við margt annað sem stendur í Biblíunni.  Í henni er ítrekað því haldið fram að Guð sé kærleikurinn og aðeins í gegnum hann sé elskan möguleg.  Martin Luther (1483-1546), faðir mótmælendatrúarinnar sagði eitt sinn: "Tortíma skal allri skynsemi úr kristnu fólki".  Sem sagt manneskjan er ekki fær til að meta sjálf hvað sé henni fyrir bestu og allt þurfi að skoðast fyrst í gegnum gleraugu trúarinnar á guð.  Frjálslyndir mótmælendaprestar í dag lifa eftir kærleiksboðinu og leyfa sér að nota skynsemina í formi óyfirlýstrar manngildishyggju (t.d. Bjarni Karlson og Hjörtur Magni Jóhannsson), en biskupar á borð við Karl Sigurbjörnson hafa átalið manngildið og í ræðu sem hann nefndi "undan eða á eftir tímanum" og flutti í Hallgrímskirkju 2. desember 2007, sagði hann:

Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.

Þrátt fyrir ýmis orð í Biblíunni þar sem kristnir eru hvattir til að hugsa ekki, heldur treysta á Guð, vilja kristnir menn gjarnan eigna sér einum skynsemina einnig og þær framfarir sem vísindin og þróun félagslegs réttlætis sem áttu sér stað með tilkomu Endurreisnarinnar (1450-1550)og Upplýsingarinnar (upp úr 1650).  Karl Sigurbjörnsson skrifaði grein þess efnis sem hann nefndi "Sigur skynseminnar" 17. október 2006 og má lesa á tru.is ásamt fjölmörgum andsvörum, m.a. frá Steindóri Erlingssyni vísindasagnfræðingi.  Þessari eignun íslensku lútersku kirkjunnar á sögulegum áhrifum og siðferðisgildum, sér m.a. merki í útlistun fagsins "Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði" í aðalnámsskrá grunnskólanna frá 2007, því þar stendur í inngangi fagsins (bls. 5) (og á bls. 7 í inngangi núgildandi aðalnámskrár frá 14. febrúar 2009):

Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið. Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum. Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs, umhverfinu og öllu lífi.

Takið eftir að engar aðrar rætur grundvallargildanna eru nefndar, svo sem ásatrúin og  manngildishyggjan (eða mannhyggjan), en hin síðarnefnda braut smám saman aftur valdakerfi konunga og biskupa og átti mestan þátt í því að réttindi einstaklinga, hinna almennu borgara fengu að líta dagsins ljós.  Á síðu íslensku wikipediunnar um Endurreisnartímann má sjá eftirfarandi umsögn um mannhyggjuna (húmanismann):

Ein mikilvægasta heimspeki tímabilsins var mannhyggjan eða „húmanisminn“ sem fólst í aukinni áherslu á mannlífið í stað þess að álíta heiminn fyrst og fremst áfanga á leið til handanlífs kristninnar.

Dalai Lama sagði að öll trúarbrögð heimsins hafi í sér möguleika á því að gefa af sér innri frið, en væntanlega gerist það ekki nema að hið sammannlega, samhygðin og hjartahlýjan sé sett í fyrsta sætið. 

Jákvæðni Dalai Lama er aðdáunarverð og eflaust má finna sannleikskorn í þessari túlkun hans á trúarbrögðunum, en því miður er það álíka markvisst að nota heybagga til að reka niður nagla í vegg, eins og að styðjast við trúarbrögð í siðrænni ákvörðunartöku, sérstaklega þeirrar flóknu á sviði stjórnmála, heilbrigðismála, viðskipta, alþjóðasamskipta og laga- og réttarkerfis.  Baggi hins óþarfa og óheilbrigða í stóru trúarbrögðum heimsins er það stór að hinn sammannlegi kjarni samhygðar og velvilja mannkynsins verður oft útundan í ákvörðunartöku trúaðra þrátt fyrir góðan ásetning. (T.d. vanþóknun páfa á notkun getnaðarvarna).

Af öllu þessu fólki má draga þann einfalda og áhrifamikla lærdóm að hin hugsandi manneskja (sbr. homo sapiens), sem metur samhygð og velvilja gagnvart samferðarfólki sínu á jörðinni, æðst allra gilda, sé sú sem líklegust er til að verða hamingjusöm og stuðla um leið að hamingju annarra. Hamingjan er lykillinn að friði og velferð (í víðasta skilningi þess orðs) í heiminum og því þurfum við öll að líta ábyrgum augum til þess sem Dalai Lama setur fremst í forgangsröðunina. 


mbl.is Dalai Lama heiðraður í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Nafni og þakka þér um margt ágætan pistil, eða hugleiðingu getum líka sagt. Þú ritar;

Jákvæðni Dalai Lama er aðdáunarverð og eflaust má finna sannleik í þessari túlkun hans á trúarbrögðunum, en því miður er það álíka markvisst að nota heybagga til að reka niður nagla, eins og að styðjast við trúarbrögð í siðrænni ákvörðunartöku, sérstaklega þeirrar flóknu á sviði stjórnmála, heilbrigðismála, viðskipta, alþjóðasamskipta og laga- og réttarkerfis

Það er hinn andlegi heimur sem er uppspretta þeirra eðliskosta mannsins sem leiða af sér einingu og samræmi, innsæi og skilning og gera unnt að takast sameiginlega á við hlutina. Meðal þessara eðliskosta eru ást, hugrekki, framsýni, fórnfýsi og auðmýkt. Þessir eiginleikar, sem teljast í meginatriðum andlegs eðlis, mynda hina ósýnilegu en þó ómissandi undirstöðu mannlegs samfélags.

Ef við hugleiðum sambandið milli andlegra eiginleika og félagslegrar þróunar þá er gagnlegt að rifja upp hvernig hinir miklu andlegu kennarar heimsins hafa veitt mannkyninu leiðsögn. Siðaboðskapur boðorðanna tíu og gullnu reglunnar sem er að finna í nær öllum trúarbrögðum eru dæmi um slíkar trúarlegar kenningar og þjóna bæði sem siðrænar lífsreglur og hvatning til andlegra framfara. Þær hafa gegnsýrt mannlega vitund og alstaðar stuðlað að endursköpun menningar. Jafnvel fyrir þann sem ekki trúir hafa slíkar kenningar augljóst gildi.

Á liðnum öldum hafa slíkar andlegar kenningar fyrst og fremst beinst að einstaklingnum - eða samstillingu fámennra hópa. Siðrænn boðskapur hefur líka fyrst og fremst miðast við hegðun einstaklingsins: þú skalt ekki stela, þú skalt ekki ljúga, elska skalt þú náunga þinn.

Í dag verður skilningur okkar á andlegleika ekki aðeins að ná til einstaklinga og smáhópa, heldur til sameiginlegrar þróunar mannkynsins sem heildar.

Svanur Gísli Þorkelsson, 8.6.2009 kl. 02:48

2 identicon

Mér finnst Dalai Lama ekkert merkilegur, munkur sem er haldið uppi af einhverjum stjörnum... Lamar eru tengdir við þvílík hroðaverk að það hálfa væri nóg.
Hver sem er getur klætt sig í kufl og látið eins og lítið lamb, brosað og jarmað einhverja væmnisþvælu.
Allt sem ég hef heyrt frá karlinum er alveg rosalega einfalt og barnalegt.

Svanur Þ.... Boðorðin 10 voru mannleg boðorð.. sem trúaðir tóku og smelltu guddanum sínum fremst í listann.. .boðorðin 10 sýna mikla kvenrembu, stuðning við þrælahald og alles...
Það sem þú kallar andlegt/yfirnáttúrulegt eru einfaldlega vírar í hausnum á þér að slá saman.. sem sést vel þegar þú talar um boðorðin 10 sem eitthvað uber kúl.

DoctorE (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 09:32

3 identicon

Ég verð að taka undir með Doktore varðandi Lamann, það er óþolandi að sé verið að uppdikta einhverjar persónur og gera þær heilagar. Að sjá hvernig þjóðin fór á annan endan út af komu þessa manns var aumkunarvert, maður fékk svona nettan aulahroll, sérstaklega við myndinni sem kom í fréttum rúv þar sem biskup reyndi að vera fyrir framan Lamann, klæddur svartri skikkju með kross hangandi um hálsinn eins og poppstjarna að reyna koma sér á framfærialveg eða eins og persóna úr Star wars. Histerýan var alveg kostuleg. Ég settigagnrýnið komment á eyjunna og það ætlaði allt um koll að keyra að ég skyldi voga mér að gagnrýna Lamann. Ég sagði aðeins frá því að Dalai Lama vildi losna við Kínverja og ég velti því fyrir mér hvort það væri til þess að komast til valda sjálfur, en þó svo væri ekki, þá létu Lamar á undan honum eins og verstu einræðisherrar og stjórnuðu landinu með harðri hendi með öllum þeim diktúrum sem fylgja vondum einræðisherrum. Ég skil bara ekki hvað er málið, út af hverju hefur fólk svona gríðarlega þörf fyrir einhverja guði til að segja sér hvernig það á að lifa? Enda þurfti Dalai Lama að taka það fram að hann væri bara manneskja. Svo þegar ég nefndi að móðir Theresa hafi verið sadisti af guðs náð, þá sprakk allt saman. en málið var að fólk gerir sér hugmyndir um annað fólk og veit kannski ekki betur. En auðvitað hafði Dalai Lama fallegan boðskap, hann vildi frið eins og við öll hin. Ég spyr mig líka, hvernig er það er þessi maður ekki moldríkur? Í hvað fara peningarnir hans? Hvers vegna þurfti að selja inn í Laugardalshöll? Kostar boðskapur hans? Eru svo gefnir út DVD diskar af fyrirlestrum hans og bækur ög blöðungar og allt saman selt fyri peninga. Hvert fara þessir aurar? Hvar býr maðurinn? Hvað er hann með marga í vinnu hjá sér við það verkefni eitt að vera Dalai Lama? Æi það er svo margt sem mér finnst furðulegt við þetta, en karlinn vekur athygli, það er nokkuð ljóst.

Valsól (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 11:05

4 identicon

Laminn fer nú um allan heim og gefur peninga í guðfræðideildir í háskólum svo það þurfi ekki að loka þeim... síðast gaf mann að mig minnir 100 milljónir í slíkt rugl.
Gaurinn er blóðsuga.. eða peningasuga öllu heldur, ríkir og einfaldir moka peningum í hann.. svo gefur hann smá í hitt og þetta guddarugl.

DoctorE (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 11:13

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Svanur Gísli

Vissulega hafa trúarleiðtogar haft mikil áhrif og hafa enn víða, en það sem ég er að tala um, er það sem ég tel æskilegast, ekki það sem var eða er víða fyrir hendi.  Á því er munur.  Þá er ég einnig að tala um þá forgangsröðun sem trúarleiðtogar og ýmsir aðrir setja sér, þ.e. að besta forgangsröðunin sé að setja hið sammannlega, velviljann og samhygðina í fyrsta sætið.  Takk fyrir innleggið.

Sæll DoctorE

Þó að það sem Dalai Lama segi sé í grunninn einfalt, felst samt í því ákveðið hugrekki og hugsun sem ég held að þú sért ekki að meta honum til verðleika.  Mér sýnist á öllu að hann sé í raun veraldlega þenkjandi því hann setur ekki trúarbrögðin sín fram fyrir hin almennu góðu gildi.  Ég þekki ekki sögu Lamanna utan þess sem kom fram í þessum þáttum, en er rétt að dæma þennan Dalai Lama út frá sögu forfeðra hans?  Gerði þessi Dalai Lama eitthvað miður gott sem ungur maður?

Svanur Sigurbjörnsson, 8.6.2009 kl. 11:25

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Valsól

Fer ekki peningurinn m.a. í búddasöfnuð þann sem hann er leiðtogi fyrir hér á Íslandi? Ég þekki ekki hvað Dalai Lama gerir við peningana sína, en það skiptir auðvitað miklu máli.

Svanur Sigurbjörnsson, 8.6.2009 kl. 11:30

7 identicon

Dalai Lama er sjálfur fórnarlamb.. börn eru tekin og heilaþvegin, einangruð frá umheiminum til að forrita þau í að verða klikkaðir munkar, bara það er næg ástæða fyrir að hlusta ekki á þessa durga, durga sem velja sér einhver börn til að endurfæðast í.. og rústa lífi barnanna.
Af hverju haldið þið að ríkiskirkjan hafi farið í svona Interfaith ritual með Lama... jú kirkjan veit að hún á ekki langt eftir, því reynir hún að sýnast kærleiksrík og skilja önnur trúarbrögð... þegar biblían sjálf vill láta myrða þá sem trúa ekki á guð hennar.
Samkvæmt biblíu þá má taka laman og alla ættingja hans og myrða þau, og nauðga öllum hreinum meyjum.
Lami er enabler þegar hann gefur peninga í ruglið, sem slíkur er hann óvinur framfara.

DoctorE (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 12:12

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég þakka þér Svanur fyrir frábærann pistil um þetta grundvallarmálefni mannkyns, kærleikann. Ég ætla að vista þessi skrif þín á tölvunni minni svo ég geti betur ígrundað það fjölmarga sem þar kemur fram. Rökræða er ekki tímabær af minni hálfu að sinni, en mér finnst að þessi orð þín og tilvitnanir sé til þess ætluð að skapa rökræður. Þá er ég að meina uppbyggilegar hugleiðingar um stöðu mannkyns, en ekki lítt hugsaðar árásir á einstaklinga

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.6.2009 kl. 14:04

9 Smámynd: Sigurður Rósant

Dalai Lama kom að sögn ekki í opinbera heimsókn til Vesturlanda, heldur í einkaheimsókn. Það mátti alls ekki heita að hann væri með eitthvað leynimakk við stjórnmálamenn um samskipti Kínverja og Tíbeta.

Þó var þess getið að hann væri á Íslandi í boði 'Félags Dalai Lama á Íslandi'. Ég er ekki viss um að Dalai Lama geri greinarmun á þjóð sinni og sínum trúsöfnuði. Þetta er sennilega eitt og hið sama í hans augum.

Þessi ferð Dalaí Lama um Evrópu er trúlega löngu ákveðin og skipulögð, en þó hún hafi borið að á sama tíma og eitt elsta Búddistaríki heims, Sri Lanka, nær útrýmdi frumbyggjum eyjarinnar Tamílum, sem eru í minnihluta á Sri Lanka. En í mínum augum er þarna dæmi um hvernig einn þjóðflokkur, Singhalar sem eru í meirihluta íbúa lands, ákveða að gera trú sína (Búddisma) að ríkistrú og kúga þá sem vilja halda sínum siðum.

Búddistar sýna ekkert meiri kærleika en t.d. Gyðingar, Múslimar, Evangelíum Lútherskir eða Kaþólikkar.

Réttara þætti mér að Frakkar veittu Kínverjum viðurkenningu fyrir að halda aftur af þessum trúarbrögðum, svo slysin verði ekki fleiri eins og við höfum orðið vitni að undanfarna áratugi. Sem dæmi má nefna: Stofnun Ísraelsríkis, sjálfstjórn Sri Lanka, Indlands, Pakistans, nokkurra Afríkuríkja o.s.frv.

Frelsi og undanlátssemi Vesturlanda leiða ekki til neins annars en sundrungar á sviði samfélagssiða, sem er í raun vatn á millu öfgatrúarbragða eins og Islam og Búddisma.

Sigurður Rósant, 9.6.2009 kl. 20:00

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir Hólmfríður.  Þú sérð kjarnan í skrifum mínum.  Ég býð alla rökræðu velkomna.

Takk Sigurður - þú færir ekki góðar fréttir af búddistum, en seint færi ég að veita Kínverjum verðlaun fyrir framistöðu á sviði mannréttinda, nema þeir tækju sig verulega saman í andlitinu. 

Svanur Sigurbjörnsson, 10.6.2009 kl. 23:10

11 Smámynd: Morten Lange

Takk fyrir mjög goða færslu, Svanur !

Tek undir með Hólmfríði um að full mikill galsi og lítill tilhneiging rökræðna sé í sumum athugasemdum. En ég neita því ekki að hafa glottað út í annað samt.

Morten Lange, 11.6.2009 kl. 13:37

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Morten :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 14.6.2009 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband