Frjálslyndir sættast

Í gær tókust sættir á milli þingmanna og framkvæmdarstjóra (og ritara) Frjálslynda flokksins á góðum miðstjórnarfundi á Kaffi Reykjavík.  Þar sem framundan er landsþing í lok janúar og líklegt að Margrét Sverrisdóttir bjóði sig fram til varaformanns eða jafnvel formanns var talið rétt af sáttanefnd að Margrét tæki sér leyfi sem framkvæmdarstjóri flokksins fram yfir landsþingið í því skyni að jafna aðstöðu forystumanna flokksins í þeirri kosningabaráttu.  Þó að ekki væri endilega ljóst hvernig Margrét hefði af því sérstakan hag að vera í framkvæmdastjórastöðu flokksins eða hvort að líklegt væri að hún myndi nokkurn tíma misnota slíka aðstöðu, þá féllst Margrét á tillögu sáttanefndar miðstjórnar.  Að auki benti sáttanefndin á að það þjónaði einnig hagsmunum Margrétar að vera laus við skyldur sem framkvæmdastjóri flokksins þennan tíma.  Guðjón Arnar taldi fjármálum flokksins samt best falið í hennar höndum áfram og bað hana um að sinna því áfram þó hún færi í leyfi.  Hún samþykkti það enda alltaf öll af vilja gerð að taka á sig ábyrgð og sinna mikilvægum málum fyrir flokkinn.  Það fer svo eftir úrslitum kosninga á landsþingi hvort að Margrét heldur áfram sem framkvæmdastjóri eða annar forystumaður flokksins að því loknu.

Margrét verður áfram í framkvæmdastjórn flokksins sem kosinn ritari hans og mun þannig koma að undirbúningi landsþingsins.  Þá mun það lenda óhjákvæmilega á henni að þjálfa nýjan starfsmann í stöðu framkvæmdarstjóra þingflokks.  Engin ráðning liggur fyrir að svo komnu.  Þessi starfsmaður mun væntanlega einnig fá verkefni við að undirbúa landsþingið en það liggur e.t.v. ekki ljóst fyrir nú.  Miðstjórnin skipaði undirbúningsnefnd fyrir landsþingið sem skipuð er af Guðjóni Arnari Kristjánssyni formanni, Sólborgu Öldu Pétursdóttur og Eyjólfi Ármannssyni miðstjórnarmönnum. 

Þrátt fyrir að betri skilningur og ró hafi komist á í miðstjórninni er framundan kosningarbarátta sem gæti haft talsverð áhrif á flokkinn, sérstaklega ef Margrét byði sig fram í sæti formanns.  Þar sem ákveðið traust hefur byggst upp að nýju og öldurnar hefur lægt tel ég farsælast fyrir flokkinn og málefnabaráttu hans að ekki verði farið í kapp um formannssætið.  Hvað sem verður vona ég að allir aðilar fari fram á eigin verðleikum og sýni ítrustu sanngirni í allri umfjöllun um keppinautinn.  Hér er allt fært fólk á ferðinni sem á að þola samkeppni. 

Vera mín í miðstjórn Frjálslyndra frá því ég var kosinn í hana á landsþinginu 2005 hefur verið mjög ánægjuleg.  Miðstjórnin er mjög samstillt og nú í þessum erfiðu málum í kjölfar aðkomu Jóns Magnússonar að flokknum og breytilegra viðbragða flokksmanna við því hefur hún sýnt að styrkur hennar til að takast á við ágreining af ábyrgð og festu, er mikill. 

Ljóst er að baráttumál Frjálslynda flokksins eru aðal atriðið.  Við höfum ekki efni á því að tvístra baráttunni í margar fylkingar.  Mikilvægast er að viðhalda lýðræðislegum vinnubrögðum og þroska siðferði í stjórnmálum, ekki síst í innra starfi flokkanna.  Forystufólk á að velja eftir getu þeirra til samstarfs, málefnalegs þroska og getu til málflutnings, skrifa og lýðræðislegrar stjórnunar.   Fólk sem býður sig fram verður að muna að það er ekki öllu fórnandi fyrir embætti.  Tilgangur stjórnmála er m.a. að bæta siðferði og skyldi hver og einn byrja á siðferðislegri tiltekt í eigin túni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Takk fyrir þennan góða pistil Svanur.

Stórgóð hugleiðing ásamt fróðleik og hvatningu.

kv.gmaria 

Guðrún María Óskarsdóttir., 14.12.2006 kl. 22:15

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Guðrún María

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 17.12.2006 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband