Átti krók á móti bragði þjófs í Barcelona

Ákaflega sjaldan hef ég lent í því að vera rændur og aldrei svo ég viti til af vasaþjófi, en sú lukka rann út að morgni dags í Barcelona fyrir um viku síðan. 

Ég fór með spússu (esposa) minni og vinum til Barcelona til þess m.a. að fara á U2 tónleika.  Morgun einn fyrir um viku síðan fórum við í lestarferð með neðanjarðarkerfinu og var margt um manninn.  Þegar ég kom inn í lestina náði ég að grípa um stöng sem stóð fyrir miðju gólfi, beint fyrir framan útgöngudyrnar.  Ég var klæddur í rúmlega hnésíðar stuttbuxur með víðum hliðarvösum og geymdi veskið mitt hægra megin í vasa sem lokað var aftur með smellu.  Síðastur farþega inní lestina var ungur sólbrúnn maður, vel til hafður, sem vildi ná taki á miðjustönginni sem ég og fleiri héldu í.  Eftir að lestin fór af stað skipti hann um hendi og tók með þeirri vinstri í súluna og var þá klesstur upp við mig á afkárlegan máta.  Ég sá að hann hefði auðveldlega getað tekið í handfang við hurðina og leiddist þetta.  Ég sagði því við hann á ensku: "Pardon, but I suggest that you use your right hand to hold onto the pole"  því staða hans inní þvögunni var mun betur til þess fallin að hann notaði þá hægri.  Hann gerði það og svo leið nokkur stund þar til að lestin staðnæmdist við næstu stöð. 

Hurðin opnaðist og fóru margir úr lestinni og þar á meðal þessi ungi maður (líklega liðlega tvítugur) með vandræðaganginn.  Skyndilega verður mér ljóst að eitthvað gæti verið að og ég þreifa niður í buxnavasann og finn strax að veskið mitt er farið.  Ég beið ekki boðanna og rauk út á eftir unga manninum.  Hann var rétt kominn út og viti menn, hann hélt á veskinu mínu fyrir framan sig þannig að ég þekkti það strax.  Ég hrifsaði það hratt úr höndunum á honum og fór rakleiðis aftur inní lestina.  Ég rétt sá svipinn á þjófnum og var hann frekar svipbrigðalaus og reyndi hann ekki að beita neinu ofbeldi og var hálf lamaður þarna á stöðvarpallinum í smá stund.  Líklega hefur hann óttast að ég reyndi að kalla í lögreglu, en þetta gerðist hratt þannig að ég geri mér ekki grein fyrir því hvað hann gæti hafað hugsað.  Feginleikinn yfir því að hafa endurheimt veskið (með peningum og kortum í) var mikill og ég prísaði mig sælan yfir því að þetta endaði ekki illa.

Eftirá að hyggja held ég að þetta hugboð mitt um að maðurinn væri að stela af mér hafi byggst á því að ég lærði á 7 ára dvöl minni í New York (1998-2004) að maður yrði alltaf að hafa varann á sér varðandi eitthvað sem gæti gerst misjafnt eða ógnað manni í umhverfinu.  Þá var þjófnaður á hjóli dóttur minnar úr lokaðri hjólageymslu á Rekagranda ári áður, einnig til þess að ýta undir varkárni hjá manni hvað þetta varðar.  Þjófurinn í Barcelona leit ekki út fyrir að vera fátækur maður eða einhver krimmi.  Hann var ósköp venjulegur að sjá og því var ekkert sem varaði mann við annað en frekar sérkennilegur vandræðagangur hans með að koma sér fyrir í lestinni. 

Ég segi því:  Varið ykkur í mannþröng í útlöndum, sérstaklega í lestarkerfunum þar sem þjófar geta notfært sér það að maður uppgötvi þjófnaðinn ekki fyrr en lestin er farin af stað á ný.  

Tónleikar U2 voru svo af sjálfsögðu alveg frábærir og gleðin var óspillt fyrst að þessu eina atviki var forðað frá því að gera ferðina að hrakför.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Það gerist í skólum eins og annar staðar, að nemendur hnupla ef færi gefst.

Ég kenndi lengi heimilisfræði í grunnskóla og þar á meðal unglingum.

Frystikista ein mikil stóð innst í eldhúsinu. Í henni leyndust stundum ísbox.

Svo fóru ísboxin að týna tölunni og svo fór þetta venjulega af stað, Kennarinn talar við gaurana í þessu tilfelli og ekkert breyttist.

Ég sá að við svo búið varð ekki unað, tók þrjú tóm ísbox og fyllti þau með bómull, hellti súrmjólk með örlítilli vanillu yfir og setti  í frystikistuna og fjarlægði allan alvöruís.

Og viti menn, eftir að ég var búin að sinna þeim sérlega vel hverjum og einum við kjötsúpugerð, og leit í kistuna þegar þeir voru farnir þá voru líka öll ísboxin horfin. Það var sem mig grunaði þetta voru sökudólgarnir.

Það voru framlágir drengir sem komu í næsta tíma og ekki var stolið meira þetta árið.

Datt þetta í hug þegar þú minntist á krók á móti bragði.

Hólmfríður Pétursdóttir, 9.7.2009 kl. 16:54

2 identicon

Bravo! That was quick-thinking and heroic of you to run after the thief and get your wallet back. Good thing you are in such excellent physical form. Cross fit training has certainly paid off!

Hope Knútsson (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 12:36

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Hólmfríður

Frábær gerviís hjá þér og góður "krókur" gegn hnuplurunum.

Thanks Hope.  This did not require any physical fitness although being in better shape must help with concentration and quick thinking.

Hæ kreppukarl.  Ef þú átt við það sem þjóðin var rænd af þá er það rétt.  Hún var ekki svo heppin og þar tapaði ég nokkrum hundruðum þúsunda auk hækkunar húsnæðisláns upp úr öllu valdi.  Þjófnaðurinn heima fyrir var mun stórtækari þó að hann væri ekki augliti til auglitis eins og í Barcelona.

Svanur Sigurbjörnsson, 10.7.2009 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband