Er ég með inflúensu? Nokkrar ráðleggingar

Er ég með inflúensu? (svínaflensa)

A.  Eftirfarandi einkenni verða að vera til staðar en eru ekki sértæk, þ.e. benda ekki endilega til influenzu umfram aðrar veirupestir.  Inflúensa orsakast af veiru (ekki bakteríu eða snýkjudýri).

  • Hiti (oftar hár í inflúensu, yfir 39°C, stundum hrollur)
  • Einhver af eftirfarandi einkennum veirusýkingar: 
    • Kvef (oftast milt í inflúensu) - nefrennsli, vot/glansandi augu eða nefstífla.
    • þurr hósti
    • Hálssærindi (oftast væg)

Séu þessi einkenni (hiti og kvefeinkenni) ekki til staðar er afar ólíklegt að um sýkingu af völdum veiru sé að ræða.  Hitinn er algengasta einkennið og afar fáir fá ekki hita í byrjun veikinnar.

B.  Eftirfarandi einkenni geta einnig verið til staðar en benda oftar til annarra veirupesta þegar sértækari einkenni (sjá í C) inflúensu eru ekki til staðar:

  • Ógleði og uppköst
  • Niðurgangur

C. Eftirfarandi einkenni eru meira sértæk fyrir inflúensu, þ.e. sé eitthvert þeirra til staðar aukast líkur á því að um sé að ræða inflúensu frekar en aðra veirupest.

  • Höfuðverkur
  • Eymsli eða verkir við að hreyfa augun til hliðanna
  • Eymsli eða verkir í vöðvum víða um líkamann (oft ranglega kallaðir "beinverkir")

Samantekið er eðlilegt að gruna sýkingu af völdum inflúensuveirunnar ef maður veikist á innan við sólarhring frá því að vera slappur yfir í að hafa:

  • hita (oft hærri en 38.5 °C),
  • einhver kvefeinkenni (hósti, hálssærindi, nefrennsli) og með
  • höfuðverk og eymsli við augnhreyfingar (þyngslatilfinning bak við augun) ásamt 
  • ónotum í vöðvum

Hvað á maður að gera ef maður hefur þessi einkenni?

A.  Draga andann djúpt og fríka ekki út ;-)

B.  Hafa samband við heimilislækninn við fyrsta tækifæri á dagtíma (kvöld- eða næturtíma ef einhver "rauð flögg" (sjá neðar) eru til staðar).

Hvað er líklegt að læknirinn segi? (meðferðarúrræði)

A.  Ef einkenni eru væg og þú ert hraustur einstaklingur á besta aldri getur læknirinn mögulega ráðlagt þér að hvíla þig heima.  Mikilvægt er að breiða ekki út smit með því að þvælast um veikur á meðal fólks. 

B. Ef hitinn er snarpur og einkennin mikil þá getur læknirinn gefið þér lyfseðil uppá Tamiflu, sem er sýklalyf sem dregur úr getu inflúensuveirunnar til að fjölga sér. Þetta lyf þarf að gefa innan 48 klst (hámark 72 klst) frá því að hitinn byrjar, eigi það að gera nokkurt gagn.  Það er því mikilvægt að tefja það ekki að hafa samband við lækninn, séu ofangreind einkenni til staðar.  Lyfið er tekið í 5 daga og er frekar dýrt.

Að auki skiptir alltaf miklu máli að hvílast vel og drekka vel af vökva.  Taka má hitalækkandi lyf (Paratabs eða Ibufen) ef hitinn veldur miklum óþægindum eða rænir mann matarlyst.  Sé mikil ógleði með uppköstum til staðar getur læknirinn hjálpað til við með því að skrifa uppá ógleðiminnkandi stíla.

Hver eru "rauðu flöggin", þ.e. merki um alvarlegar afleiðingar inflúensunnar?

  • Ákafur hósti og tilfinning um andnauð/mæði.  Stundum einnig uppgangur slíms með hóstanum eða takverkur við öndun.  Hiti getur valdið mæði (hærri öndunartíðni) en ekki tilfinningu um andnauð.  Inflúensa getur valdið lungnabólgu sem þarfnast meðferðar á sjúkrahúsi.  Lítil börn kunna ekki að kvarta um andnauð og því þarf að horfa eftir því hvort að þau erfiði við að anda.
  • Slæmur höfuðverkur, sljóleiki og ljósfælni (það verkjar í augun við venjubundið ljós).  Stundum er með þessu ógleði og uppköst. Þetta geta verið einkenni heilahimnubólgu (eða heilabólgu) sem stundum þarf að rannsaka nánar.  Lang oftast gengur þetta yfir án skaða, en sjúklingur með heilahimnubólgu af völdum inflúensu gæti þurft stuðning með vökvagjöf í æð.
  • Blóðhósti - leita þá alltaf til læknis eða á bráðamóttöku.  Einnig ef önnur merki óeðlilegra blæðinga sjást (um endaþarm eða í húð).
  • Ofþurrkur.  Vangeta til að drekka vökva í meira en sólarhring,   sérstaklega ef mikil uppköst eða niðurgangur fylgir.  Ofþurrkur getur verið hættulegur í inflúensu og því mikilvægt að fá vökva í æð eða lyf við ógleði til að leiðrétta vökvatap.  Ungabörn og smábörn (að 4 ára aldri) eru sérlega viðkvæm fyrir þessu og geta tapað vökvanum hraðar.  Hafa skal samband við lækni ef talsvert vökvatap (svitnun, uppköst, niðurgangur) á sér stað á meðan engin inntaka á sér stað meira en 12-18 klst hjá þessum aldurshópi.  Sama getur átt sér stað hjá gömlu fólki sem hefur ekki styrk til að ná sér í vökva að drekka.
  • Bati á flensueinkennum (kvef, höfuðverkur og vöðvaverkjum) en svo versnun á hósta með uppgangi og nýjum hita.  Þetta getur verið merki um bakteríusýkingu í lungum í kjölfar inflúensunnar.

Vonandi hjálpa þessi skrif eitthvað við að svara spurningum sem brenna á vörum fólks um inflúensuna þessa dagana. 

Mikilvægt er að greina hvað er á ferðinni innan 48 klst svo mögulegt sé að meðhöndla með Tamiflu (sé þess þörf).  Venjulega er börnum undir 12 ára aldri ekki gefin þessi meðferð en lyfið er til í mixtúru sé í vissum tilvikum þörf á meðferðinni. 

Ofast dugir hvíld og stuðningsmeðferð með hitlækkandi, ógleðiminnkandi og vökvagjöf eftir þörfum. 

Smitgát:  Mikilvægt er að veikir fullorðnir og börn fari ekki í vinnu eða skóla (eða útihátíðum) eftir að einkenni gera vart við sig.   Sá veiki getur haft á sér maska til að minnka aðeins líkur á smiti, en þeir sem í kring eru geta lítið varnað því að smitast.  Fólk sem ekki er í beinni umönnun við hinn veika ætti ekki að vera í nálægð við hann/hana.

Í ferðalögum er venjulega ekki þörf á að taka með sér Tamiflu, nema að ferðinni sé heitið eitthvað þar sem meira en dagleið er til næsta læknis eða apóteks.

Ónæmissetning: bóluefnið er ekki komið.  Fjalla því ekki um það nú.

Heilsukveðjur - Svanur Sigurbjörnsson læknir


mbl.is Heimsbyggðin öll í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Má til með að þakka þér fyrir þessar frábæru upplýsingar Svanur, held að svona upplýsingar skipti miklu máli, ekki hvað síst þegar svona greinargóðar upplýsingar eins og þú setur hér fram, er að finna.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 28.7.2009 kl. 23:35

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Takk fyrir þetta.  Frábært af þér að koma með þessa úttekt hér

Bestu kveðjur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 29.7.2009 kl. 00:36

3 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Takk fyrir þetta, ég er búin að fylgjast með umræðunni á erlendu fréttastofunum og fór líka inn á landlæknir og inflúensa.is. Og lengi vel var ekkert að koma frá fréttastöðvum hér á landi og það var ekki mikið að græða á þessum upplýsingum. Ef læknar halda að það hræði fólk að fá of miklar upplýsingar þá er það mesti misskilningur, því fróðari sem maður verður því rólegri verður maður, við erum hrædd við það sem við þekkjum ekki, fræðsla það er málið en og aftur takk fyrir þetta.

Sigurveig Eysteins, 29.7.2009 kl. 01:23

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir, já fræðsla er ákaflega mikilvæg og ég reyni alltaf að fræða mína skjólstæðinga eins mikið og tími og tilefnin leyfa.

Svanur Sigurbjörnsson, 29.7.2009 kl. 01:45

5 Smámynd: Móðir, kona, sporðdreki:)

Nákvæmlega þetta sem þarf, þetta vill fólk líka vita:) Með heilsukveðjum

Móðir, kona, sporðdreki:), 29.7.2009 kl. 08:30

6 identicon

Frábært Svanur en þú gleymdir að nefna biblíska aðferð gegn þessum óskunda.
Tekur 2 fugla, drepur einn og lætur blóðið í fötu, stingur priki í blóðið og skvettir 7 sinnum um íbúðina, síðan tekur þú hinn fuglinn og sleppir honum lausum PRESTO læknaður ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 29.7.2009 kl. 11:00

7 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Takk fyrir upplýsingarnar.....það er gott að sjá þetta sett upp svona :)

226F9889-A145-9C8C-56FD-E02D4489D2E7
1.02.28

Katrín Ósk Adamsdóttir, 29.7.2009 kl. 12:38

8 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hrikalegt...........held ég sé komin með svínaflensuna Fékk hita og vöðvaverki og höfuðverk eiginlega bara allt í einu í gærkveldi og hringdi í dag upp á læknavakt en þarf ekki að fara þangað nema ég endilega vilji Andsk......... vesen, ég sem þarf að gera svo mikið um helgina og verð bara að hanga heima   

Er hægt að fá úr því skorið seinna hvort maður er komin með mótefni gegn svínaflensunni? Þegar maður hressist og fer á kreik aftur, svo maður sé ekki alltaf að velta því fyrir sér hvort þetta hafi verið svínaflensan eða ekki?

En bestu kveðjur til þín Svanur og eigðu góða helgi.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 31.7.2009 kl. 23:31

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl

Það er venjulega ekki farið út það að mæla mótefni gegn influensunni.  Einkennin þín benda til flensunnar.  Þú verður að hvíla þig vel og drekka nóg af vökva. 

Góðan bata og vonandi geturðu sólað þig aðeins í blíðunni Margrét.  Bestu batakveðjur.

Svanur Sigurbjörnsson, 1.8.2009 kl. 15:14

10 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Takk fyrir þetta Svanur

Margrét St Hafsteinsdóttir, 1.8.2009 kl. 23:24

11 identicon

Rakst á þetta blogg þegar ég googlaði svínaflensuna, búin að vera með væg influensueinkenni og auðvitað googlar maður eins og við öllu.

Mig langar að þakka þér fyrir að skrifa um þetta Svanur það var alveg þörf á því. Það sem hefur hins vegar farið verst í mig í veikindunum er ekki flensan sjálf heldur panikið að þetta gæti verið þessi hættulega svínaflensa sem fjölmiðlar birta ekki fréttir um nema með myndum af köllum í eiturefnagöllum og viðvörunum um smithættur og ég veit ekki hvað.

Mér finnst gamla góða reglan um ótta eiga vel við hér þ.e. óttinn við sársauka er oft meiri en sársaukinn sjálfur.

Landið (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 04:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband