Fjölmiðlar og heilsa - sölumennska eða alhliða upplýsingar?

Hlutverk fjölmiðla í upplýsingagjöf til almennings í þjóðlöndum er mikilvægt. 

Fréttir, fréttaútskýringar og yfirlitsgreinar um flókin málefni geta gert mikið gagn.  Blaðamenn þurfa að hafa skynbragð á því hvenær mál geti verið umdeild og hvenær ekki.  Í umdeildum málum er mikilvægt að afla upplýsinga frá öllum hliðum málsins og gefa lesendum raunsanna mynd af hlutunum. 

Því miður virðist það vera svo að þetta sjónarmið verði útundan í blaðamennsku nútímans og það vantar meiri fagmennsku í vinnu þeirra.  Það vantar sérhæfða blaðamenn í umfjöllun um heilbrigðismál og vísindi, en oftar en ekki eru fréttir af rannsóknum úti í heimi afbakaðar og ófagmannlega orðaðar.  Settar eru fram áberandi en ónákvæmar fyrirsagnir og virðist tilgangurinn vera að vekja athygli til aukningar á sölu miðilsins, en ekki að vanda framsetninguna.  Fagmannleg sjónarmið eru látin víkja fyrir “sensationalisma”, þ.e. þeirri tilhneigingu að ýkja og magna upp til að fá meiri lesningu en ella. 

Meðhöndlun margra frétta- og blaðamanna á ýmsu “óhefðbundnu” sem iðkendur þess hafa viljað kalla lækningaraðferðir hefur því miður verið á par við forvitna óvita sem hafa gleypt við hinum ótrúlegustu frásögnum án þess að koma með neina fræðilega hlið frá fólki úr raunvísindum eða heilbrigðiskerfinu. Þetta hefur gerst hérlendis og víða í nágrannaríkjum okkar með þeim “árangri” að sala á hvers kyns kukli hefur aukist verulega. 

Með laugardagsblaði Morgunblaðsins (28.08.08) var sérblað með yfirskriftinni "Heilsa" á 24 blaðsíðum.  Þetta sérblað virtist þjóna litlum tilgangi öðrum en að laða að auglýsingar sjálfstæðra aðila í þjóðfélaginu sem bjóða upp á einhvers konar óhefðbundnar meðferðir, líkamsrækt eða fæðubótarefni.  Ekki var talað við fagfólk í t.d. Lýðheilsustöð, Krabbameinsfélaginu eða Hjartavernd, en nóg var af kynningargreinum fyrir fólk sem segist iðka einhvers konar "heildræna" meðferð eins og "austræna læknisfræði", osteópatíu, rope-jóga, indverskar öndunaræfingar og mikið notað orðalagið "líkami og sál".  Þá voru hreinar auglýsingagreinar eins og "Orkuskot sem dugar út daginn" um Jen Fe drykki og "Húðmeðferð heima í stofu" um Galvanic Spa húðnuddtæki og gel sem á að stöðva framleiðslu "öldrunarensímsins".  Ekki var þess getið að greinarnar væru auglýsingar, en það væri ótrúleg góðmennska af Morgunblaðinu ef að þessar hreinræktuðu sölugreinar væru ekki greiddar af viðkomandi söluaðilum.  Nokkrar ágætar greinar voru í blaðinu en þær voru í því miður í minnihluta og aftarlega í blaðinu, t.d. viðtöl við Björn Þór Sigurbjörnsson einkaþjálfara, Einar Einarsson hjá ÍAK og Gunnhildi Hinriksdóttur íþróttafræðing.

Margt í sjónvarpi á Íslandi hefur einnig verkið frekar dapurt og þjónað kuklurum sem ókeypis kynningarmiðlar undanfarin ár.  Stjórnendur Kastljóssins tóku sig verulega á hvað þetta varðar í fyrravetur og hættu að birta einhliða umfjallanir um nýjar meðferðir að mestu leyti.   

Erlendis hafa þáttastjórnendur stundum tekið þessa hluti föstum tökum og gert góðar úttektir eða sýnt fram á hvað er að gerast í raun með viðtölum eða prufunum á þjónustunni.   

Theodór Gunnarsson, bloggvinur minn sendi mér eftirfarandi sögu af sjónvarpsþætti sem hann sá í Danmörku fyrir rúmum tveimur áratugum síðan.  Hann leyfði mér að birta frásögnina.   Ég gef Theodóri orðið:  

 

"Snemma á níunda áratug síðustu aldar bjó ég í Danmörku og þá sá ég alveg stórkostlegan rannsóknarfréttaþátt sem mig langar að segja frá. 

Þátturinn var einskonar úttekt á óhefðbundnum lækningum í Danmörku á þessum tíma og gekk þannig fyrir sig að hópur fólks, sem seldi þjónustu sína á áðurnefndu sviði (hér eftir kallaðir þerapistar), var valinn til að koma í sjónvarpssal til að kynna aðferðir sínar.  Þegar þátturinn hófst var kynntur til sögunnar leynigestur sem gerður var opinber í lok þáttarins. 

Þerapistarnir, sem boðið var í sjónvarpssal, vissu ekki hver leynigesturinn var, en allir höfðu þeir þó hitt hann.  Þetta var ung og hraust kona, sem hafði verið send í ítarlega læknisskoðun, og síðan fengin til að hafa samband við alla gestina og panta hjá þeim tíma.  Hún mætti svo í skoðun hjá þeim öllum, þáði af þeim ýmis ráð, keypti af þeim lyf, og undirgekkst ýmsar meðferðir.  Hún lá undir pýramídum, gekkst undir heilun, hlaut krystal meðferðir, ilmolíumeðferð, pendúlar voru notaðir við greiningu, lithimnan í augunum grandskoðuð og svona mætti lengi telja. 

Fréttamennirnir höfðu farið til sumra og tekið myndir og viðtöl á vinnustaðnum og svo var spjallað við fólkið í sjónvarpssal og það fengið til að kynna aðferðir sínar við að lækna fólk af hinum og þessum kvillum.  Allt átti þetta að vera mjög til bóta og sennilegt til að lækna fólk af flestum krankleika. 

Sérstaklega man ég eftir einu atriði sem seint mun hverfa mér úr minni.  Fréttamaður er að spjalla við konu sem notaði pendúl til að greina vandann, og svo aftur til að velja lyfið sem sjúklinginn vantar.  Sjúklingurinn var látinn leggja lófann á borðið og svo tók þerapistinn pendúlinn í hendina og lét hann hanga yfir handarbakinu um stund.  Svo færði hann pendúlinn yfir safn af litlum glerílátum á borðinu.  Næst færði þerapistinn pendúlinn rólega yfir ílátin og eftir nokkrar sekúndur byrjaði pendúllinn að sveiflast í litla hringi yfir einu glasinu.  Þá var lyfið fundið og ekkert eftir annað en að taka við peningunum og afhenda lítið lyfjaglas. 

Fréttamaðurinn horfði á þetta allt saman og skaut inn spurningum.  Hann sagði svo við þerapistann:  "Maður gæti nú alveg ímyndað sér að þú gætir verið að hafa áhrif á pendúlinn og að það væri skýringin á að hann fer að sveiflast yfir glasinu."  "Nei.." sagði þerapistinn ákveðið, "þetta er sko silfurkeðja" og benti á keðjuna sem pendúllinn hékk í.  Þetta þarfnaðist ekki frekari skýringa og fréttamaðurinn sagði einfaldlega, "einmitt". 

Þarna fór margt skemmtilegt fram og margt skondið var demonstrerað fyrir áhorfendum.  En nú skipuðust veður í lofti.  Nú gerðust fréttamennirnir erfiðir og fóru að fara fram á rök fyrir því að eitthvert vit væri í þessu öllu saman.  Þeir fóru að fara fram á niðurstöður úr rannsóknum og heimtuðu sannanir og raunverulegar vísbendingar.  Svo var farið í það að gera grein fyrir ferli þessa fólks.  Hvað það væri menntað, hvar það hefði unnið og þess háttar.  Flest hafði það sáralitla menntun og hafði farið á nokkurra mánaða námskeið.  Þetta voru leigubílstjórar, dagmæður, rafvirkjar og hárgreiðsludömur.  M.ö.o. ósköp venjulegt fólk með litla menntun.  Sumir reyndu að fegra feril sinn með óljósum vísunum í heilbrigðiskerfið.  Einn auglýsti sig t.d. þannig, að hann væri búinn að starfa áratugum saman innan heilbrigðisgeirans.  Við nánari athugun kom í ljós að hann hafði unnið á lager á sjúkrahúsi við að afgreiða rekstrarvörur, sloppa og tréskó. 

Svo kom að rúsínunni í pylsuendanum.  Hulunni var svipt af leynigestinum.  Hún hafði semsé heimsótt alla þessa þerapista og í stuttu máli var ekki til það líffæri í henni sem þeir höfðu ekki dæmt sjúkt og illstarfhæft, þrátt fyrir að ítarleg læknisskoðun hefði áður leitt í ljós að hún færi stálhraust og við hestaheilsu.  Hún hafði keypt öll lyf sem henni var ráðlagt að taka inn og hulunni var svipt af nokkuð stóru borði sem var þakið allskyns meðalaglösum, jurtum og öðru dóti.  Þegar hér var komið var þetta orðið vægast sagt vandræðalegt fyrir þerapistana og andrúmsloftið rafmagnað. 

Leynigesturinn sagði reyndar frá einu atviki sem hún gat ekki útskýrt.  Hún hringdi í andalækni sem auglýsti sig í smáauglýsingum.  Hún sagði að hann hefði strax sagt við sig að hún ætti ekkert erindi við hann, þar sem hún væri við hestaheilsu.  Það eina sem plagaði hana væri að hún væri nánast blind á öðru auga.  Það sagði hún að væri einmitt tilfellið. 

Þarna var staddur læknir sem var í forsvari fyrir samtök sem áttu að stuðla að auknu samstarfi opinbera heilbrigðiskerfisins og óhefðbundna geirans.  Hann reyndi lengi að smjúga úr greipum fréttamannanna, en þegar honum var stillt upp við vegg varð hann að viðurkenna að allur þessi hópur sem þarna var í salnum væru líkast til loddarar."

---

Af þessari sögu sem Theodór deilir hér með okkur má sjá að það er ekki óalgengt að það fólk sem býður uppá óhefðbundnar meðferðir er ekki með grunnmenntun í náttúruvísindum og hefur enga formlega vísindalega þjálfun fengið.  Það getur ekki útskýrt meðferðir sýnar þannig að það standist vísindalega gagnrýni og greiningar þeirra á alheilbrigðri konu er ekki hægt að staðfesta með neinu móti læknisfræðilega.  Eftir standa fullyrðingar byggðar á furðulegum aðferðum eins og pendúlsveiflum sem enginn rökfræðilegur eða aðferðafræðilegur grunnur liggur fyrir. 

 Aðferðirnar standast ekki raunveruleikaprófun vísindanna og því er uppruni þeirra mjög líklega einungis úr ímyndunarheimi upphafsmanna þeirra.

Hið óútskýrða atvik varðandi andalækninn sem vissi einhvern veginn að leynigesturinn væri blindur á öðru auga, er ekki hægt að túlka nema sem eitthvað sem er athyglisvert og þyrfti nánari skoðun til að skera úr um hvort að um tilviljun, svindl eða raunverulega hæfileika var að ræða. Engum andalækni hefur tekist að sýna vísindalega fram á raunveruleika hæfileika sína þannig að líkurnar eru ekki með þeim.    

En aftur að spurningunni um fjölmiðla og heilsu.  Verða þeir að velja á milli sölumennsku (innkomu af sölu auglýsinga) og þess að gefa alhliða upplýsingar um heilsufarsmál?  Er ekki hægt að sameina þessa þætti betur, sérstaklega í áskriftarblaði eins og Morgunblaðinu?  Þarf virkilega að fórna gæðum og fagmennsku á altari ágóðans?  Eykur það ekki traust fólks til fjölmiðils á endanum ef að það er vandað til útgáfunnar? 

Fjölmiðill eins og Morgunblaðið hefur mikla dreifingu og langa sögu.  Blaðið hefur því mikla möguleika á því að ná til margra og hafa víðtæk áhrif með innihaldi sínu.  Það er í einkaeign, en sökum einstakrar stöðu þess í þjóðfélaginu, spyr maður sig þeirrar spurningar hvort að eigendur þess og ritstjórar geti ekki vandað betur til efnisinnihalds skrifa og frétta um heilsu?  Er til of mikils ætlast að biðja um vandaða blaðamennsku í einu stærsta og elsta dagblaði landsins?

Ég þakka Theodóri kærlega fyrir frásögnina af danska þættinum. 

Þá vil ég benda á ágæta þætti á Skjá Einum sem kallast "Bullshit" og eru umfjöllun töframannanna Penn og Teller um alls kyns hindurvitni og kukl sem grassera í vestrænum þjóðfélögum. 

Góðar stundir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Morten Lange

Takk kærlega fyrir góðan pistill.  Kannski væri gott að senda hana inn sem aðsent efni í eitthvert blaðið. 

Mér finnst samt pínu óábyrgt  að mæla með Penn og Teller, án þess að segja frá því að þar skiptir skemmtanagildið og þess vegna sölugildi ekki síður máli en leit að sannleika. Og þeir hafa haft þætti sem ekki koma mjög vel saman við vísindi. Þeir hafa afneitað óhollustu óbeinna reykinga ( og bakkað síðar með það) og líka afneitað alls konar umhverfisvandmál sem vísindin staðfesti að við stöndum frammi fyrir, sem til dæmi gróðurhúsaáhrifunum.  Ef til vill er það í raun alvarlegra, þegar það kemur frá þessum mönnum en þegar léttmeti í blöðum  ýtir undir kukli.  Ekki viss um þetta en spurningin er áhugaverð. 

 Í sérblaðinu var annars ágætis léttmetis grein um hjólreiðar, en lítið talað um heilsuhliðina. Ég hringdi í Moggann og bauðst til að veita þeim upplýsingar um hvernig vísindarannsóknir styðja hversu heilbrigðar hjólreiðar séu, þegar ég sá auglýst eftir auglýsingum i sérblaðinu, en áhuginn var mjög takmörkuð. Búið var að klára efnið að mestu.  Reyndar var mér boðið að senda upplýsingar ( sem ég hefði á tilfinningu að yrði sennilega ekki notað) , en ég lenti í mikla yfirvinnu, og náði ekki að senda þeim. 

Það væri óskandi að næst yrði auglýst eftir efni, en ekki auglýsingar :-)  

Morten Lange, 31.8.2009 kl. 08:55

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Morten

Það er alveg rétt hjá þér að hjá Penn og Teller er talsvert hugsað um skemmtanagildið og háð á kostnað þeirra sem þeir telja að séu með kjaftæði.  Það er umdeilanleg aðferð, en fremur saklaus miðað við þær blekkingar sem þeir eru að afhjúpa.  Mestu skiptir að þeir sýna greinandi hugsun og sýna fólki fram á hvað er undir yfirborðinu.  Einnig tala þeir oft við sérfræðinga til þess að fá álit þeirra sem þekkja vísindin best.  Þeim mistókst í þættinum um óbeinar reykingar, þar sem þeir tóku frelsissjónarmið fram yfir þá röskun og óheilbrigði sem óbeinar reykingar valda. Þeir héldu að ekki væri búið að sýna fram á óheilbrigði þeirra og fundu ekki nægar sannanir þar sem þeir leituðu.  Eins og fólki sem annt er um að hið rétta komi í ljós, en ekki eigin afstaða, þá viðurkenndu þeir mistök sín.  Það er mikilvægt og sýnir einmitt muninn á vísindalega hugsandi fólki og kuklurum sem halda í vitleysuna þrátt fyrir að hafa fengið fræðslu um að hún gangi ekki upp.  Ég sá þátt þar sem þeir gagnrýndu hvernig ýmsir umhverfisverndarsinnar gleyptu við alls kyns áróðri og skrifuðu undir mótmæli sem þeir höfðu ekki kynnt sér nægilega (mótmæltu vatni), en kannski missti ég af þessum umhverfisþætti sem þú ert að tala um.

Ég sá þessa grein um hjólreiðarnar, sem var ágæt til að hvetja til hreyfingar og sama má segja um greinarnar um skriðsund, erlendan gönguhóp til styrktar krabbameinsrannsóknum og eitthvað TIPI æfingakerfi í gólfi.  Þessar greinar voru almennt létt spjall eins og þú segir.  Líklega er ekki mikill áhugi fyrir neinu of fræðilegu, nema að því fylgi auglýsing.  Það hefði mátt tala við sálfræðingana í Kvíðameðferðarstöðinni (www.kms.is), en þeir bjóða uppá hópmeðferðir í hugrænni atferlismeðferð við kvíðavandamálum, fullkomnunaráráttu, offitu og fleiru.  Þau voru með auglýsingu en engin grein var um þessa faglegu og athyglisverðu starfsemi.

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 31.8.2009 kl. 10:32

3 identicon

Það er nú löngu vitað að mbl telur sig vera MIÐIL... þá er ég ekki að tala um fjölmiðil.
Miðlar standa saman, við sáum það greinilega þegar mbl studdi Láru sjáanda með ráði og dáð :)

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 10:33

4 Smámynd: Arnar

Skemmtileg saga, Penn & Teller gerðu svipað, sendu sama manninn til þriggja miðla.  Maðurinn hafði fataskipti fyrir hvert viðtal og fékk algerlega mismunandi lestur í hvert skipti, og margt sem var í algerri mótsögn við aðrar spár.

Hinsvegar verður að hugsast um hver sé í raun tilgangur Morgunblaðsins; faglega unnar fréttir eða einfaldlega að selja sem flestar auglýsingar og sem flest blöð.

Arnar, 31.8.2009 kl. 10:58

5 identicon

@Morten: Það er reyndar alls ekki satt að þeir afneituðu gróðurhúsaáhrifunum. Þátturinn sjálfur fjallaði að mestu um fólk sem var að reyna græða á hræðslunni. En í lokin minnir mig nú að þeir hafi tekið fram að þeir hafi ekki þá kunnáttu til að segja either way.

Annars var ég í gær að horfa á þáttinn um Vatíkanið. Ekki margt nýtt þar svosem um þá miðstöð spillingar og ómanneskjuskaps. Ekki nema það að ég vissi ekki að Ratzinger páfi hafi verið gefin náðun frá Bush Bandaríkjaforseta gegn því að verða kærður í sambandi við barnamisnotkun presta í bandaríkjunum. Enda þurfti hann á því að halda það sem hann persónulega skrifaði fyrirskipanir um að hver sem segði frá sannleikanum um það yrði bannfærður.

Jón Grétar Borgþórsson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 11:34

6 Smámynd: Arnar

Morten: Þeir hafa afneitað óhollustu óbeinna reykinga ( og bakkað síðar með það)

Ég man eftir þessum þætti og fannst hann fáránlegur, aðallega því ég sjálfur er á móti reykingum.

Hinsvegar, voru rökin hjá þeim alveg rétt; Reykingabannið sem sett var á veitingastaði í NYC var byggt á gögnum sem sýndu ekki fram á skaðsemi reykinga.  Hinn pólinn sem þeir tóku var að ríkið ætti ekki að vera að skipta sér af því sem þegnarnir gera í sínum frí tíma.  Það er einmitt ríkjandi hugsunarháttur í BNA.

Varðandi leiðréttinguna þá bárust þeim gögn eftir þáttinn sem sýndu fram á skaðsemi reykinga, en bannið var ekki byggt á þeim gögnum.  Sjá: Penn & TellerSecond Hand SmokeCorrection

Arnar, 31.8.2009 kl. 13:11

7 identicon

Sæll. Takk fyrir góðan pistil. Ég hef einmitt verið að lesa mér til um þessi málefni nýverið, sérstaklega í bók Ben Goldacres, Bad Science. Það er alveg frábær lesning og ég mæli eindregið með henni.

 Það sem svo margir gera sér ekki grein fyrir er hversu hættuleg þessi vitleysa getur orðið. Þegar fjölmiðlar dreifa upplýsingum um svona kukl eins og um heilagan sannleik sé að ræða, getur það leitt til þess að fólk veldur sér, börnum sínum og jafnvel öðrum töluverðum skaða. Flest fólk hefur ekki tíma eða rænu til að rýna almennilega í allt sem það heyrir. Þess vegna finnst mér að það eigi að þrýsta á fjölmiðla að fara varlega í allri umfjöllun um "lækningaaðferðir" sem ekki er hægt að sanna að virki.

Svona kuklarar hafa til dæmis herjað á þróunarlönd þar sem fólk er mikið veikara fyrir og enn síður fært um að meta sannleiksgildi þessarar vitleysu.

Halldóra Theódórsdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 14:21

8 identicon

WHO var að senda út aðvörun til okkar allra með að homeopaty væri stórhættuleg ef fólk notaðist við slíkt með hættulega sjúkdóma
http://www.telegraph.co.uk/news/uknews/1571800/Homeopathic-remedies-put-lives-at-risk.html

Ekki segja mbl frá þessu, þeir gætu farið fram á að þessari athugasemd verði eytt.. eða Svanur verði bannaður. :)

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 15:44

9 identicon

Ég tel ekki gott að þú notið orðið „kukl“ í andstöðu við fagmennsku.  Ef við tökum fyrir læknastétt þá má finna þar „kukl“ og fordóma sem mér finnst gæta hjá þér.  Vil ég þar nefna að hér á landi vísa læknar ekki á hómópatísk lyf þótt starfsbræður víða erlendis geri það.  Þú mættir fræðast um þetta áður en þú dæmir og get ég þar vísað þér á ráðstefnur þar sem þú getur hitt lækna sem nota óhefðbundnar aðferðir og heildrænar.  Hugtök sem þú spaugar með.

Nær væri að sjá þig skrifa og hvetja til dæmis til notkunar viðtalsmeðferða en þar mætti spara stórlega í lyfjakostnaði og skapa atvinnu.  Löngu hefur verið sýnt frammá fjárhagslega hagkvæmni slíkra ráða en það verður að álykta að læknar og lyfjabransinn hafi hagsmuni af lyfjanotkun og að peninga sjónarmið lyfjafyrirtækja séu „heilbrigðum“ sjónarmiðum yfirsterkari.  Það mætti kalla eftir banni við að læknar fái greitt fyrir að skrifa lyfseðla nú á niðurskurðar tímum.  

Ýmsar aðferðir sem þú talar á móti af vankunnáttu eru greiddar af tryggingafélögum í Bandaríkjunum vegna þess að þær skila árangri.  Matarræði og næring er eitthvað sem fáir læknar hafa vit á eða hafa lagt sig eftir að læra um enda erum við mörg að drepa okkur úr sjúkdómum sem eru jafn augljóslega afleiðing af mataræði og reykingar leiða af sér sjúkdóma. 

Að lokum vil ég nefna það að það er sama hversu sprenglærðir menn eru í fræðum að það tryggir ekki hæfni manna.  Þú getur vitað allt um lögfræði en ekki kunnað skil á réttlæti (sem er algengt), og þú getur verið skólaður í læknisfræðum en ekki verið fær um að „lækna.“  Stétt lækna hefur komið sínum hagsmunum fyrir á Íslandi þannig að „engum“ hefur tekist að koma böndum á, þrátt fyrir góðan vilja og ásetning stjórnmálamana margra.  Eins og lýðum er að verða ljóst núna eftir hrun þá er siðferði landans augljóslega spillt að því marki að sjúkdómurinn siðblinda verður að teljast landlægur og á það sérstaklega við um valda og peninga stéttir.  Og nú bíð ég eftir að þú skrifir þannig að enginn þurfi að efast um víðsýni og vilja til að breyta til batnaðar í þinni stétt.  Af nógu er að taka.

Ásgeir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 18:47

10 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Þessi grein og fleiri sem þú hefur skrifað um heilbrigðismál eru hreint út sagt frábærar. Mikið hefði nú verið gaman að sjá þennan danska þátt sem þú segir frá. Mér er í minni að ég las einu sinni ævisögu Harrys Houdini, sem var frægur "töframaður" fyrir svona 70-80 árum. Hann lagði fyrir sig að fletta ofan af svikamiðlum með því að sýna fólki aðferðir þeirra og útskýra svindlið. Það er akkúrat þannig sem þarf að meðhöndla kuklarana, fletta ofan af vankunnáttu þeirra og lygavef.

Magnús Óskar Ingvarsson, 31.8.2009 kl. 22:35

11 identicon

Talandi um sölumennsku og söluskrum þá vil ég minna á það að Svanur Sigurbjörnsson "læknir" lofaði því við mig og fleiri að skila af sér tilvísunum í vísindi sem sýna fram á meðal annars að "veira" valdi mislingum.

Þetta gerði hann þann 21  Nóvember 2007  +/- nokkrir dagar.

Þann dag eða réttara sagt það kvöld hélt Svanur þessi fyrirlestur eða réttara sagt söluskrums eða lýðskrums og áróðurs kynningu á "kostum" þess að sprauta eiturefnadrullumalli í ungabörn.  Eiturefnadrullumall þetta er almennt kallað "bóluefni".

Fjallaði hann einnig á neikvæðan og einstrengislegan hátt um eitthvað sem hann kallar "Nýöld". Tengdi hann saman ýmsar hugmyndir um vantrú á bóluefnum og eitthvað sem hann kallar "Kukl".

Það sem skiptir mig efasemdarmanninn og andlega sinnaða manninn með meiru, mestu máli er að vísindi séu lögð fram sem vísindi en líti ekki bara út fyrir að vera vísindi, eða hljómi eins og vísindi, eða sé bara sannfærandi, eða virðist sannara en hitt eða þetta,  fyrir þeim sem trúa á ræðumanninn eða loddarann sem þykist "vita" eitthvað

Vitnaði Svanur þessi í sölukynningu sinni helst í söluskrumskenndar yfirlýsingar og línurit frá bóluefnaframleiðendum og aðilum eða "rannsóknaraðilum" sem eru vilhallir þeim (biased).

Nú, þegar han var spurður um frekari gögn en þessi auglýsingaspjöld sem hann varpaði á vegginn, þá lofaði hann því að senda þau um hæl eða svo að segja.

Beðið var um af okkur, alvöru vísindarannsóknir sem sýndu til dæmis fram á tilvist "veiru" sem er sökuð um að valda því sem er almennt kallað mislingar.

Beðið var um ýmsar fleiri hávísindalegar rannsóknir á sviði sjúkdómsvaldandi "veira".  Ekkert gerðist !!

Ekki neitt !!!

Í veirufræðum þá kannski veit Svanur ekki neitt ?!

Ég held að hann sé ekki vísindamaður og hafi þar af leiðandi ekki reynslu né þekkingu til að gera neitt annað en að apa eftir öðrum sem hafa sagt eitthvað sem hljómar vel eða vísindalega.

Aðalatriðið er líklegast að hann tilheyrir þeim sem trúa á hópsamkomulag eða hóp- eða múgsamþykki, eins og þekkt er í trúarofstæki til dæmis. Þetta fyrirbæri er vel þekkt innan svokallaðra "vísinda".

En nú spyr ég aftur fyrir okkar hönd sem viljum vita en ekki trúa, hvar eru vísindarannsóknir sem sýna að "veirur" valdi mislingum ?!

Ég vil fá rannsókn sem er unnin eftir ströngustu kröfum vísindalegra  aðferða og ferla, ekki "PCR" !!

Ég vil sjá rannsóknir sem væntanlega voru eða yrðu notaðar til grundvallar þeim "primers" and "probes" sem notaðir eru í "PCR" !

Ef þú ert þessi heiðvirði og heiðarlegi sannleiksleitandi í vísindum sem þú virðist reyna að sýna að þú sért og laus við allar "trúvillur", þá vinsamlegast   leggðu fram vísindin sem þú sagðist vita um að væru til !!

Það eru liðin tvö ár bráðum síðan þú lofaðir þessu og ýmsir til vitnis um það. Maður af þinni gerð ætti að hrista þetta fram úr erminni á nokkrum dögum í mesta lagi nema að hann hafi tekið of stórt upp í sig og vissi ekki og jafnvel veit ekki enn hvað hann er að blaðra um á þessu sviði.

Þar sem við erum báðir sannleiksleitendur þá vil ég endilega að þú étir þetta ofan í þig sem fyrst og haldir áfram þeirri för okkar sannleiksleitendanna að finna sannleikann, og nota hann raunverulega til gleði og blessunar fyrir Lífið.

Ef þú skilur ekki spurninguna, þá endilega skal ég útlista fyrir þér í smáatriðum hvernig veirur eru einangraðar o.s.frv.

Ég skal kenna þér !!!

Mér leiðist fals og loddaraskapur og þá sérstaklega þegar slíkt ógnar lífi og heilbrigði fólks að ég tali nú ekki um ungabarna og annarra barna !!

Og já Guð eða Alheimsandinn er raunverulegur, þó að þú hafir ekki upplifað það sjálfur en ég hef aftur á móti upplifað það !!! Það dylst eigi né  gleymist engum sem slíkt upplifir.

Aðalatriðið er spurningin okkar til þín sem ég veit að þú getur ekki svarað vegna þess að þessi rannsókn er ekki til !!

Ég vil að þú étir ofan í þig fullyrðingar um það að þessi "veira" sé til og valdi þessum "sjúkdómi".

Í leiðinni kemst þú kannski að því að sama gildir um "mænusótt", "mænuveiki" eða lömunarveiki" (polio) !! Sem þú síðan hefur notað talsvert í hræðslu-söluskrumsáróðri þínum gegn fólki sem þú vilt endilega að láti sprauta bóluefna-eitur drullumallinu í ungabörn !!

Hver veit kannski verður þú ýmiss annars vísari !!!!!

Þú ert býsna snjall að blanda saman lygum og sannleika og þá er það yfirleitt ekki mjög merkilegur sannleikur. 

Kannski hættir þú að ljúga og gera þig breiðann !!! 

Ragnar (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 03:26

12 Smámynd: Rebekka

Vá Ragnar.  Bara vá...  O_O

HVAÐAN koma þá mislingar, ef þeir eru ekki veirusjúkdómur?  Sýndu bara sjálfur fram á að þeir séu ekki veirusjúkdómur og taktu svo við Nóbelnum árið eftir.

Ég hélt í alvöru að fólk sem er á móti bóluefnum væri ekki til á Íslandi.  Mér þykir leitt að hafa haft rangt fyrir mér. 

Rebekka, 1.9.2009 kl. 06:20

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Magnús Óskar

Takk fyrir.  Já Houdini og fleiri sem hafa flett ofan af svindlurum hafa gert vel.  Auðvitað væri auðveldast að láta þetta allt vera, en ef að þeir sem þekkja vísindi og hafa þjálfun í greinandi hugsun, þegja, þá er hætt við að mikill skaði verði.  Heilsugæsla felst ekki bara í því að greina og meðhöndla sjúkdóma, heldur einnig fræðslu og baráttu gegn fáfræði og skaðlegum haldvillum.  

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 1.9.2009 kl. 09:25

14 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Kæri Ragnar,

Það fyrsta sem mér dettur í hug, eftir að hafa lesið athugasemdina frá þér, er að þú sért að grínast.  Þetta eigi að vera einhversskonar spaug.  En ef svo er ekki, og ef þú ert að tala í römmustu alvöru, þá ert þú bókstaflega hættulegur maður.  Þá ert þú að tala fyrir því að leggja niður bólusetningar, og þar með að leggja grunninn að því að drepa fólk í stórum stíl.

Ég "googlaði" mislinga að gamni mínu, svona rétt til að athuga hvort það sé einhverjum vandkvæðum bundið að finna upplýsingar um orsakir mislinga á netinu og greip svo þennan hlekk af handahófi. http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs286/en/ .  Þetta er semsé frá Alþjóða heiðbrigðisstofnuninni WHO.  Sú stofnun er auðvitað á mála hjá lygaranum Svani að þínu mati.  Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það er enginn tilgangur í að munnhöggvast við mann eins og þig, en að mínu mati ætti að taka þig og þína líka úr umferð.  Þið eruð hættulegt og skaðlegt fólk.  Bullið í ykkur kemur sumu auðtrúa fólki til að láta vera að fara með börnin sín til bólusetningar og afleiðingin er sú, að sum þessarra barana deyja, eða örkumlast vegna þvælunnar í fólki eins og þér.

Gerðu samborgurum þínum þann greiða að halda þér saman.

Theódór Gunnarsson, 1.9.2009 kl. 09:36

15 identicon

@Fannar: Það er nokkuð hlægilegt að þú kallir þig efasemdarmann þegar þú virðist fullur af samsæriskenningum og bulli. Myslingar eru vel þekktir og vel rannsakaðir. Okkur hefur meira að segja tekist að koma í veg fyrir sjúkdóminn með þessu "drullumalli". Hér er meira að segja mynd af veirunni sem víst "er ekki til": http://commons.wikimedia.org/wiki/File:Measles_virus.JPG. Flestir anti-vaxers fara nú ekki jafn langt og þú og virðast sáttir við að kenna "drullumallinu" um hluti eins og einhverfu án þess að geta svo mikið sem bent á eina ástæðu til að halda það. En þú virðist ganga svo langt að þú afneitar tilvist vel þekktra sjúkdóma í heild sinni. Hvernig útskýriru þá alla þá sem þjást af þessum sjúkdómi sem er víst ekki til? Og hvernig útskýriru það að þessi sjúkdómur virðist alltaf poppa upp þar sem að fólk eins og þú hafa náð að hræða fólk til að hætta taka bóluefnið?

Þannig að ég bið þig bara um að skoða þessa mynd og útskýra fyrir mér og öðrum af hverju þetta er það sem þú vilt meira af í heiminum. http://en.wikipedia.org/wiki/File:RougeoleDP.jpg

Sorry en ég hef sama álit á anti-vaxerum og þeim sem afsaka fjöldamorð og þjóðernishreinsanir. Orðin eru svipuð og niðurstaðan sú sama. Og veistu ég vona að þú hafir rétt fyrir þér með tilvist guðs. Vegna þess að það er þá nokkuð ljóst hvar þú endar.

Jón Grétar Borgþórsson (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 09:59

16 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Ég legg til að Jón Grétar verði krýndur athugasemdarmeistari vikunnar fyrir þetta:

Og veistu ég vona að þú hafir rétt fyrir þér með tilvist guðs. Vegna þess að það er þá nokkuð ljóst hvar þú endar.

En það er vissulega sorglegt að hið bráðnauðsynlega málfrelsi skuli nýtast mönnum eins og Ragnari til að útdeila djöfullegum ranghugmyndum sínum og misskilinni vonsku. Megi honum gefast fáeinar virkar virkar heilafrumur sem fyrst.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 1.9.2009 kl. 10:58

17 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Úps - virkar - kom þarna tvisvar. Ég er samt sjálfur með virkar heilafrumur, ég lofa!

Kristinn Theódórsson, 1.9.2009 kl. 10:59

18 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Halldóra Theodórsdóttir

Takk fyrir innlitið og innleggið.  Flott bloggið þitt!  Ég er einmitt líka að lesa "Bad science" og líkar vel.  Það er hrollvekjandi að heyra hversu mikið kuklið hefur haslað sér völl í UK og nú eru þeir að súpa seyðið af því, t.d. vegna lítilla en hættulegra faraldra af veirusýkinga barna, sem koma upp vegna óþarfa óttans við bólusetningar.  Góður punktur varðandi vanþróuðu löndin.  Það er verulega slæmt ef að kuklið nær sterkari tökum þar því fyrir er þar mikið galdrakukl og hvers kyns hindurvitni sem kosta fólk lífið í stórum stíl, sérstaklega í Afríku.  Páfinn bætir svo gráu ofan á svart með því að setja sig á móti getnaðarvörnum.   Ef að vestrænar tæknivæddar þjóðir geta boðið sjálfum sér hvílikt rugl, þá er ekki von á góðu þar sem menntunarstigið er lágt.  Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 1.9.2009 kl. 12:15

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ásgeir (?son)

Hvað áttu við með orðunum "Ég tel ekki gott að þú notið orðið „kukl“ í andstöðu við fagmennsku."? Áttu við að það sé ekki fagmennska að nota orðið kukl eða áttu við að kukl sé ekki í andstöðu við fagmennsku? Fyrirgefðu en ég get ekki farið eftir tillögum sem ég skil ekki.

Svo segirðu:

Ef við tökum fyrir læknastétt þá má finna þar „kukl“ og fordóma sem mér finnst gæta hjá þér.  Vil ég þar nefna að hér á landi vísa læknar ekki á hómópatísk lyf þótt starfsbræður víða erlendis geri það. 

Þetta er þversögn og óskiljanlegt.  Þú virðist vilja nefna eitthvað dæmi um kukl og fordóma í læknastétt og hjá mér, en nefnir svo að læknar hér vísi ekki á "hómópatísk lyf þótt starfsbræður víða erlendis geri það".  Ertu þá að meina að það sé kukl að vísa ekki á "hómópatísk lyf"?  Svo viltu benda mér á einhverja lækna sem eru í kuklinu.  Já vinsamlegast bentu mér á lækna hérlendis sem þú segir að sæki slíkar ráðstefnur og "noti óhefðbundnar aðferðir og heildrænar". 

Svo röflarðu um einhverja viðtalsmeðferðir og aðrar meðferðir sem tryggingarfélög í USA borgi fyrir og sakar lækna og lyfjafyrirtæki um að ganga fyrir gróðasjónarmiðum.  Þú nefnir ekkert sértækt þannig að það er ekki hægt að taka þig alvarlega.

Læknar hafa heilmikið vit á næringu og vita auðvitað stétta best um skaðsemi reykinga, enda hefur mikill árangur náðst í fækkun kransæðastíflna undanfarna áratugi einmitt vegna þessa.  Hefur það farið fram hjá þér?

Rugl þitt um hagsmuni lækna og stjórnmálamenn sem eiga að hafa reynt að hreyfa við þeim er algerlega út í hött.  Vinsamlegast komdu með einhver dæmi ef að þú vilt tala um eitthvað sem betur mætti fara.  Ég sé ekki að þetta komi neitt umræðunni um kukl við.  Þú fegrar ekki kukl með því að tala um einhver launa- eða hagsmunamál lækna og reyna að sverta þau.

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 1.9.2009 kl. 14:18

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ragnar (?son)

Ég man eftir þér úr hópi gesta sem sóttu fyrirlestur minn um nýaldarfræði og bólusetningar í Háskóla Íslands á vegum Res Extensa haustið 2007.  Þú misstir þar stjórn á skapi þínu og æptir orð um að ég yrði að sýna þér hitt og þetta aftan úr sal.   Mér sýnist svipað vera á ferðinni hjá þér núna og ekki fer mikið fyrir kurteisinni hjá þér með orðum eins og að ég eigi að "éta ofan í mig" alls kyns hluti. 

Kannski myndir þú læknast af þessum ranghugmyndum þínum um veirusjúkdóma ef að þú fengi sprautu af polio og mislingum í þig og þú fengir að upplifa þessa sjúkdóma.  Hvorki "Guð né Alheimskraftur" yrði þér þá til hjálpar.  Trúlega varstu samt bólusettur sem barn og því muntu ekki fá þessa sjúkdóma þó að þú yrðir sprautaður með veirunum. 

Jón Grétar hefur svarað þér ágætlega.  Ég hef B.Sc. gráðu í vísindum þannig að þú þarft ekki að halda neitt um mína menntun.  Það er ljóst af skrifum þínum að það er þörf fyrir að skrifa um kukl og kenna fólki að varast það.  

Vinsamlegast haltu þig á þínum eigin vettvangi því ég hef engan áhuga á því að ræða þessi mál við þig.  Það sem þú býður uppá er ekki viðræðuhæft.  - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 1.9.2009 kl. 14:51

21 identicon

Svanur!

Áður en ég svara hinum sem hafa afhjúpað átrúnað sinná "vísindi" án raka.

Ég biðst afsökunar ef ég hef sært þig eða móðgað, það er ekki meiningin.

Ég er hvass og stundum orðljótur og ég er ekki vanur að skrifa mikið eða tala mikið um þessi vísindi en ég hef kannað og rannsakað mikið.

Ég missti ekki stjórn á mér á þessum fyrirlestri þínum eða það sem ég kalla áróðurs og sölukynningu fyrir "bóluefnaeitur-drullumall", það vitað það allir að það eru eiturefni í "bóluefnum" !!

Ég hækkaði róminn talsvert og var frekar óöruggur að þurfa að tala hátt yfir heilann sal af fólki. Auk þess reyndir þú að tala ofn í það sem ég var að segja og einn áheyrenda reyndi að grípa fram í fyrir mér og kom með vægast heimskulega athugasemd og var bersýnilega í þeim trúarhópi gerfivísinda sem þú hampar

Þú gerðir engar athugasemdir við þenna áhangeanda þinn !!

Eftir stendur það að þú hefur ekki lagt fram rannsóknargögn sem sýna fram á að "veira" valdi mislingum !!

Er það þín stefna að fullyrða um eitthvað sem þú getur ekki stutt með vísindalegum gögnum sem eru óyggjandi ?!

Spurningar mínar snúast um það að ég fái vísindaleg svör við leit minni að sannleikanum sem þú hampar og segist vera sannfærður um að sé sannreyndur vísindalega.

Ég vil vita en ekki trúa !!

Sannaðu mál þitt ekki fara unda n í flæmingi !!!

Ragnar (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 16:11

22 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Mér þætti gaman að vita hvort það er til eitthvert heiti yfir þessa tegund sálarástands sem lýsir sér í að rembast sífellt við að hafna allri viðtekinni þekkingu og stökkva þess í stað á hindurvitni og dellu sem skýringu á hlutunum.  Mér sýnist þessi Ragnar vera haldinn þessum kvilla.

Þetta lýsir sér t.d. í að telja sér trú um að tuglferðirnar hafi verið blekking, að ævaforn þekking hljóti að vera betri en þekking nútímans, að pýramídarnir hafi verið byggðir af geimverum, að farartæki myndu ganga fyrir vatni ef olíufélögin væru ekki alltaf að bregða fæti fyrir snillinga sem búa til vatnsbíla, og svona mætti halda endalaust áfram.

Þetta er auðvita bara eitthvað sem ekki verður breytt, sumir verða bara að fá að vera í friði með sitt rugl, en það er slæmt þegar það veldur augljósum skaða, eins og afstaða þessa Ragnars er búin að gera.  Ef hann hefði ráðið ferðinni þá sætum við enn uppi með bólusótt sem dæmi.  Henni var útrýmt með bólusetningu, eða bólueitursdrullumalli, eins og Ragnar kallar það.

Theódór Gunnarsson, 1.9.2009 kl. 19:24

23 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ragnar

Afsökunarbeiðni móttekin. 

Þú segist ekki hafa sönnur fyrir því að veira valdi mislingum.  Eins og Kristinn bendir hér á að ofan, þá er ólíklegt miðað við það hvernig þú virðist vinna úr þeim upplýsingum sem þér eru gefnar að þú munir nokkru sinni sannfærast um þetta út frá því sem hér væri borið fram.  Ég veit ekki hvernig þú stendur þekkingarlega séð og hverju þú trúir.  T.d. trúirðu því að til séu veirur yfirhöfuð?  Það eru gríðarlega mikil gögn og vísindalegar aðferðir (t.d. ræktun veira og skoðun þeirra í smjásjá) sem sýna fram á tilveru þeirra.  Þá er einnig gríðarlega mikið af gögnum sem hafa sýnt fram á að mislingar eru orsakaðir af veiru af fjölskyldu parvomyxoveira, t.d. út frá ræktun veirunnar frá sýktri manneskju.  Mislingar drápu hundruðir þúsunda manna fyrir tíma ónæmissetningarinnar gegn henni.  Um þetta getur þú lesið í bókum um veirufræði og smitsjúkdóma.  Ef þú trúir ekki bókunum verður þú að skrá þig í líffræði í HÍ og sérhæfa þig síðan í veirufræði til að gera þessar rannsóknir sjálfur.  Kannski myndu þau í Rannsóknarstofu Háskólans í veirufræði leyfa þér að fylgjast með ræktun veira ef að þú átt erfitt með að trúa þessu.  Öll veirufræðin er byggð á gífurlega sterkum grunni rannsókna og það er mikið vitað um nákvæma efnagerð veiranna og gerðir erfðaefna þeirra. 

Ég held að ég láti þetta gott heita.  Ef þú kýst að rengja grundvallarþekkingu í raunvísindum eins og veirufræðum og smitsjúkdómafræðum, án þess að hafa nein mótrök eða aðrar skýringar byggðar á vísindavinnu, þarftu ekki frekari rök okkar hér, heldur einhvers konar meðferð til að læra að meta samhengi og röklega uppbyggingu þekkingar frá grunnþáttum til flóknari. 

Kveðja - Svanur

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 1.9.2009 kl. 20:07

24 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Tilkynning!

Eftir færslu 23 komu hér ein færsla frá Kristni Theodórssyni og nokkrar færslur frá Ragnari ...?syni, þar sem á milli fuku nafnaköll sem eiga betur heima einhver staðar í sandkassa en í bloggumræðum fullorðins fólks.  Um málefnaleg gildi þessara færslna að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða, en ekkert nýtt kom þar fram miðað við fyrri færslur. 

Ég ákvað að "fela" þessar færslur (eins og það er nefnt í stjórnborðinu) því að nóg er komið af því góða og ég kæri mig ekki um færslur af þessu tagi hér á mínu bloggi.  Vilji einhverjir fá textann af þessum földu færslum er hægt að senda mér beiðni þess efnis um netpóst.

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 2.9.2009 kl. 02:07

25 identicon

Svanur ég biðst bara forláts en ég skil ekki??!

Núna birtast athugasemdir mínar aftur. eða hvað?

Ef það er eitthvað sérstakt sem þú þolir ekki þá endilega sendu mér línu um hvað það er sem þú vilt ritskoða af því sem ég skrifa.

Ef þú vilt þá máttu taka út síðustu færslu enda á hún kannski ekki við, eða hvað?

Hvernig sem öllu þessu líður þá reyni ég að senda aftur eftirfarandi sem ég held að þú hafir tekið út í misgripum en ég hef farið yfir það:

Fyrst birt 2.9.2009 kl. 01:07 

Svanur.

Já loksins kom smá svar sem tengist spurningum mínum.

En ég er að biðja þig um að sýna mér þá eða þær rannsóknir sem þú ert
sannfærður um að sýni fram á að tiltekin "veira" valdi sjúkdómi eða
sjúkdómum !

Rannsókn sem þú segir að hafi "sannanir".

Ég er að biðja þig um að sanna mál þitt en ekki að vitna í fullyrðingar frá
öðrum.

Eða þá að þú segir og viðurkennir heiðarlega og heiðursmannslega að þú
sjálfur hafir ekki séð, rýniskoðað, lesið eða kynnt þér í þaula slíka
rannsókn.

Viðurkennir þar með að þú aðhyllist kenningu en veist ekki sjálfur
algerlega !

Annað hvort hefur þú þá tilvísanir (references) í alvöru grundvallar grunn-
eða frum-rannsóknir eða ekki !!!

Ef þú veist ekki hvernig veirur eru "uppgötvaðar" eða fundnar í gegnum það
ferli sem heitir einangrun (isolation, purification) og svo framvegis, þá
get ég kennt þér það ef þú vilt.

Frá A til Ö.

Sýndu mér grunn- eða frum-vísindin til dæmis um einangrun"mislingaveiru"
eða viðurkenndu að þú hafir ekki séð þau !!

Svo ég vitni í þig sjálfan úr síðustu athugasemd þinni þá kannski þarft þú
einmitt: "....heldur einhvers konar meðferð til að læra að meta samhengi og
röklega uppbyggingu þekkingar frá grunnþáttum til flóknari" !!!!!

Ragnar (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 03:02

26 Smámynd: Kama Sutra

Ragnar,

Með fullri virðingu, en kanntu ekki að nota netið?  Hvers vegna ertu að bögga hann Svan hérna í stað þess að fletta þessum upplýsingum upp sjálfur?  Upplýsingarnar eru öllum aðgengilegar - þú þarft ekki að láta aðra mata þig á þeim.

Þú gætir t.d. byrjað á því að fletta í þessu gagnasafni:

http://www.ncbi.nlm.nih.gov/PubMed

Þarna er heilmikið af upplýsingum um alls konar veirur og veirusjúkdóma.

Gangi þér vel!

Kama Sutra, 2.9.2009 kl. 05:07

27 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Gott hjá þér, Svanur, að henda út bullinu í mér og öðrum, auðvitað átti ég ekki að kalla kauða nöfnum. Hann lá bara svo vel við höggi, eins og maður segir.

Ragnar

Mætti ég nokkuð biðja þig að útlista fyrir okkur hvernig þessum hlutum er háttað í þínum hugarheimi?

Það þykir vísindalega sannað og vitað að veirur eru til og að þær valda sjúkdómum. Menn eru búnir að kortleggja RNA í þeim og þekkja þá marga í þaula. Auk þess sem bólusetningar hafa útrýmt sjúkdómum, svo ætla mætti að þetta sé bara borðleggjandi klárt og fínt.

Ef sú þekking er byggð á röngum upplýsingum og veirur valda ekki sjúkdómum er það vitaskuld mjög áhugavert. En maður fellir ekki kenningu með því einu að segja hana vera bull. Maður sýnir fram á galla í gögnunum sem hún byggir á og svo þarf maður helst að koma með aðra betri skýringu á því sem um ræðir.

Þú þarft því að útlista í skýru máli hvað það er sem segir þér að veirur séu ekki til, eða valdi amk. ekki HIV og mislingum - eins og mér skilst að þú haldir fram. Að lokum væri gaman að vita hvað þú telur að valdi þeim sjúkdómum, annað en veirur.

Takir þú þig til og svarir þessu eins og maður ert þú orðinn þáttakandi í tilraun til að miðla fróðleik og hugmyndum. En það sem þú hefur verið að gera fram að þessu er að gjamma eins og hávær hundur án þess að gefa nokkuð af þér eða segja neitt áhugavert.

Ég og allit vísindalega þenkjandi fólk vill láta benda sér á skekkjur í heimsmynd sinni til að geta skoðað betur. Ef þú ert með ábendingu um slíka skekkju hvað veirur varðar þarft þú að rökstyðja hana vel, því gögnin sem styðja veirukenninguna eru gríðarlega víðfeðm og vel þekkt.

Viltu ekki taka þig til og útskýra fyrir okkur hvernig fólk fær mislinga og HIV sem dæmi, hvernig þetta smitast og hvar vísindaheimurinn fór af sporinu fyrst öll veirufræði eru blekking?

mbk,

Kristinn Theódórsson, 2.9.2009 kl. 07:37

28 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl öll

Ég hef nú tekið út færslu sem var nr 26. og skrifuð af Ragnari í morgun, þar sem hann hélt þar áfram að kalla fólk nöfnum. 

Ragnar!  Ég hélt að það væri alveg ljóst af tilkynningum minni að ég liði ekki hér að fólk væri kallað hér nöfnum.  Ég hef í sumum tilvikum látið slíkt standa þar sem það var einungis þeim sem slíkt skrifuðu til minnkunar og var einungis beint að mér.  Þegar fólk er farið að láta slíkt fjúka á milli sín hér í eins konar fúkyrðaborðtennis er nóg komið og ég mun taka slíkt út.

Ég hef svarað þér Ragnar og það sem þú hefur skrifað í viðbót breytir þar engu um.  Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 2.9.2009 kl. 09:42

29 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Kristinn

Já, ég skil vel freistinguna.  Það sem þú segir hér í færslu 28 er kjarni málsins varðandi það sem Ragnar hefur borði hér fram.  Meira þarf ekki að segja. 

Sæll Björn S.

Takk fyrir ábendinguna með Herbalife.  Ég renndi yfir þessa frásögn af ævi Hughes.  Sorgarsaga og einhvern veginn klingir hún bjöllu við það innantóma peningakapphlaup sem er ekki óalgengt í USA og við vorum orðin ári góð í hér heima fyrir skömmu síðan.   Ég hef ekki kynnt mér Herbalife mikið en fæðubótarefni þeirra núna virðast vera laus við örvandi efni, sem er framför því að efedra sem áður var í því, olli slæmum háþrýstingi hjá sumum notendum.  Umræðan um sölukerfið er svo heill handleggur út af fyrir sig sem fróðlegt væri að skoða nánar við tækifæri.

Bestu kveðjur - Svanur 

Svanur Sigurbjörnsson, 2.9.2009 kl. 11:49

30 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Ragnar

Mér skilst að þú hafir í eyddum færslum verið að velta fyrir þér sjósundi og veirufælni. Það er skemmtilegt að þú hafir komið inn á það, því ég stunda einmitt sjósund og þykir gaman. En ég hef engar áhyggjur af veirunum í sjónum eða annarstaðar. Þær ná mér ef þær ná mér, vonandi ræður líkaminn bara við þær þegar það gerist, eins og gerist stöðugt alla daga og hverju stund lífs míns.

Kerfið er stöðugt að bægja frá sér veirum, bakteríum og sníkjudýrum. Á því augnabliki sem líkaminn hættir að starfa rotnar hann í spað á skömmum tíma vegna þess að hann ver ekki kjöt sitt, prótein birgðirnar og fituvefina.

En sjósund er skemmtilegt sport!

mbk,

Kristinn Theódórsson, 2.9.2009 kl. 12:04

31 identicon

Það er greinilegt á öfgakenndum skoðunum margra hér og fordómum fyrir vísindalegri umræðu og viljaleysis til að ræða vísindi, að það mun ekki koma virðing, skilningur né svör við hávísindalegum spurningum fyrir sannleiksleitendur héðan af þessum spjallþræði.

Ég hef beðið þig Svanur að segja mér út frá hvaða frumrannsóknum þú gengur þegar þú fullyrtir að "veira" valdi t.d. mislingum eða "mæanusótt".

Þú hefur eytt hér færslum sem innihalda beinskeyttar spurningar um grundvallaratriði í vísindalegri greiningu eða/og einangrun á veirum, og þar af leiðandi "uppgötvun" þeirra !! Kannski er það samt nógu skýrt fyrir þér.

Þú eyddir færslu þar sem ég nefndi Kristinn jólasvein og var það alls ekki illa meint vegna þess að hann undirritaði skilaboð til mín: Með Jólasveinakveðjum !

Það er sjálfsagt að fjarlægja eitthvað sem viðkvæmir þola illa ef þú vilt. Hefi ég nú þegar beðið þig um að senda mér útlistun á ritskoðunarferli spjallþráðar þíns.

Eftir stendur að þú forðast að svara mér hvaða tilvísanir (references) ertu með sem sýnir með óyggandi hætti að t.d."veira" hafi verið "uppgötvuð" eftir ströngustu kröfum vísindalegra aðferða, tækni, mælinga og ferla, og já að það sýni að "veira" valdi t.d. mislingum eða "mænusótt" (polio).

Við hvaða rannsókn styðst þú Svanur??!!

Vinsamlegast sem fulltrúi fyrir "bóluefnaáróður" eða "bóluefnakukl" afhentu eins og þú hefur áður lofað tilvísun (reference) beint í þá rannsókn sem þú fyllyrðir út frá !!!!

Eða játaðu að þú hafir aldrei séð neina slíka !!!!!!

Hvaða rannsókn sannfærði þig að "veira" veldur mislingum "mænusótt" o.s.frv.

Gjörðu svo vel, sýndu mér og okkur að þú getir, það sem þú segist hafa menntun til !

Svanur, þú sem bendir á að þú hafir vísindamenntun eða eitthvað slíkt, þú ert vinsamlegast beðinn um að gera skyldu þína sem vísindasinnaðs manns,  að afhenda tilvísun í vísindi sem sýna svo ekki verður um villst að "veirur" valda mislingum og "mænusótt" !!!

Ég hlýt að líta svo á að ef þú getur ekki átt orðastað við mig um þetta, og afhent tilhlýðileg gögn máli þínu til stuðnings, maður sem gefur sig út fyrir vísindahyggju og efasemdarhuggju sem afneitar ósýnilegum öflum lífsins að mér skilst, já ég hlýt að líta svo á að þú getir ekki, já að þú getir ekki viðurkennt eða borið virðingu fyrir heiðarlegri kröfu vísindahugsunar og leitar að sannleika og kröfu í frjálsri "stimulerandi" og uppbyggilegri vísindaumræðu, já einmitt að þú sýnir ekki viðingu kröfunni um RÖK !

Afhenda RÖK: frum-rannsóknar-vísindagögn takk fyrir !!!!!!!

Ragnar (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 15:25

32 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Alltaf í boltanum Ragar?  Hvernig gengur þínu liði?  Nú er farið að hausta og berin komin.  Það væri nú vit í að týna dálítið af berjum og leggja í krækiberjavín.  Það er algert sælgæti.

Með bestu kveðju,

Theódór Gunnarsson, 2.9.2009 kl. 15:59

33 identicon

Já takk fyrir ábendinguna Theódór.

Ég er mikill berjamaður, hvannarmaður og lækningajurtaáhugamaður og reyndar þara og þörungamaður.

Hefi reyndar marga fjöruna sopið í bókstaflegri merkingu bæði þessari og einnig sme fyrrverandi Sjómaður !!

En einu sinni Sjómaður ávallt Sjómaður !!

Hvergi er eins mikið til af veirum eins og einmitt í sjó og þörungum !! 

Þessar veirur eru sannanlega veirur og hafa verið uppgötvaðar - allar sem ég hef séð - eftir ströngustu kröfum vísindalegrar hugsunar, aðferða, tækni, feris og að sjálfsögðu heiðarleika!

Heiðarleiki er mjög mikilvægur í sannleiksleit, vísindarannsóknum og umræðu!!

Annars má búast við að fólk endi á villigötum.

En annars er ég alltaf tilbúinn að bjóða fólki í veiruveislu hefur einhver áhuga ?

Ragnar (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 16:11

34 identicon

Biðst afsökunar á þessu óþarfa kommenti en ég gat ekki á mér setið.

Sumir þurfa eiginlega að læra það að fjöldi upphrópunarmerkja í málsgrein gerir hana ekki réttari en málsgreinar annarra. Hvimleiður andskoti í besta falli.

Upphrópananauðgarar þurfa einnig að læra að sönnunarbyrðin er þeirra megin þegar þeir koma með svona... kenningar (ef svo má að orði komast) sem ganga þvert á það sem telst vera vísindalegur sannleikur hverju sinni, þaulreyndur og margprófaður sannleikur þar að auki. Ekkert magn upphrópunarmerkja getur breytt því.

Þó geta þeir upphrópunarnauðgarar prófað að fylla athugasemdagluggann af upphrópunarmerkjum. Lofa ég því að sá póstur mun þykja gáfulegri en allir þeir sem sá hefur ritað.

Eyþór (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 18:31

35 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Ragnar

Þú virðist vera hættur að yrða á mig eftir að ég notaði v-orðið um þig. En ég ætla engu að síður að beina einu innleggi enn til þín, mér til dægrastyttingar.

Úti í hinum stóra heimi er margt fólk sem heldur að bólusetningar valdi einhverfu í börnum. Það fólk tekur gjarnan þinn pól í hæðina, því það vill mjög gjarnan sjá eitthvað að öllu sem viðkemur rökstuðningi fyrir bólusetningum.

Árið 1998 kom Dr. Andrew Wakefield með fræga grein um meinta tengingu bólusetninga við einhverfu, sem búið er að hrekja óteljandi oft síðan.

Greinin olli þó slíku fári að þúsundir foreldra neituðu að láta bólusetja börn sín. Afleiðing þessa var mikil aukning mislingatilfella í Bandaríkjunum og Englandi; mesta fjölda smita sem sést höfðu árum saman.

Spurningin til þín er þessi: af hverju varð sprenging í mislingasmitum eftir að fólk fór að óttast bólusetningar?

Söguna og frekari umfjöllun má lesa hér:http://www.news-medical.net/news/2008/09/04/41195.aspx

Ef svar þitt er að þetta séu lygar ert þú augljóslega með samsæriskenningaheilkennið og munt ekki taka neinu öðruvísi sem þér hentar ekki.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 2.9.2009 kl. 21:00

36 identicon

Mér þykir fyrir því Kristinn, en ég er að reyna að fá svar við öðrum spurningum. Þú og aðrir ímynda sér að ég hafi hugmyndir sem ég jafnvel hef ekki eins og til dæmis það að styðja við einhvers konar þjóðarmorð eða þaðan af verra. Einnig virðast sumir hér halda að ég trúi því að það sé ekki til neitt sem er kallað mislingar. Það eruvonandi til áreiðanleg  rannsóknargögn sem sýna orsakavaldin með þeim aðferðum sem ég hef áður lýst. Það er náttúrulega hægt og er mikið og nánast eingöngu gert að koma með vafasamar niðurstöður í "PCR" "rannsókn/raæktun" (Polymerase Chain Reaction). Það er fals !!

Samsærisekenningar eru ekkert verri en aðrar kennignar þær fjalla hins vegar um eins og nafnið gefur til kynna samsæri um glæp, hryðjuverk rán, valdarán,föðurlkandssvik, landráð og fleira í þeim dúr en þurfa að innihalda fleiri en einn þáttakanda því: Einn vinnur einn en fleiri vinna saman að áætlun og eða framkvæmd glæps eða einhvers álíka.

Þessi maður sem þú nefnir er ekki mín sérgrein og hvað ert þú að bendla mér við hann, þann mann og/eða fólk í kringum hann sem að einhverju leyti  hefur leitt umræðuna á villigötur. Reyndar sumt athyglisvert í því máli sem var reyndar ljóst fyrir hans tíð og hefur með heila- og taugakerfið að gera. Sem er líklegast alltaf lykilatriði í því sem er kallað einhverfa.

Arsenik, kvikasilfur, "álhydroxíð", "tréspíritus" og margt fleira eru einmitt taugaeitur og hafa mjög oft verið í bóluefnum, skordýra- og plöntueitri, lyfjum og matvælum jafnvel !!

Ég tek fram að ég ætla ekki að fara í þá umræðu hér og eina sem ég svara væntanlega hér eftir er lokasvar Svans um hvaða tilvísanir hann hefur í uppgötvun, einangrun og greiningu á "veirum" sem eiga að valda mislingum og "mænusótt".  Tilvísun í frum eða grunnrannsókn eins og ég hef áður lýst !

Eyþór!! 

Ég verð að viðurkenna að ég missi mig í upphrópanir en það er betra en hlægileg lýsing Eyþórs á notkun minni á þeim. Að kalla mig upphrópunarnauðgara er upphrópun af mjög svo grófri og ruddalegri gerð og ber vott um öfgakennt hugarfar eða sálræna afstöðu sem er öfgakennd og sennilega blinduð einhverjum réttritunarrembingi sem hefur ekkert meði  innihaldi þess sem ritað er.

Til dæmis er kúkur alltaf kúkur þó að hann sé í silkipappír !!

Viska er alltaf viska þó svo að hún sé rituð á notaðan salernispappír jafnvel þó svo að hann sé einnig útataður í upphrópunarmerkjum !!

Ég er ekki að segjast hafa einhverja visku, en ég kem mér að kjarna málsins og kryf mál til mergjar, ég greini kjarnann frá hisminu ef þannig má að orði komast.

Undarleg þessi þögn frá þér Svanur og þó kannski ekki svo undarleg.?!

Ég tek fyrst ofan fyrir þér Svanur og býð þig velkominn í Ása-flokk sannleiksleitenda þegar þú viðurkennir að þú hafir aldrei séð, vitað um eða lesið slíka rannsókn sem ég er að biðja um. Það breytir því ekki að þú TRÚIR eins og margar milljónir af fólki og "sérfræðingum" að slík rannsókn sé til.

Ef ekki þá vinsamlegast leggðu hér fram þau vísindi sem þú hefur áður látið í veðri vaka að þú hafir séð og hafir stuðst við eða vitnað í án tilvísana (references).

Takk fyrir. 

Bestu kveðjur og megi sannleikurinn og þá sérstaklega sannleikurinn um Kærleikann og Viskuna sem eru eitt og hið sama, já megi sannleikurinn gera okkur frjáls !!

Ragnar (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 00:06

37 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ragnar

þú hefur vakið forvitni mína.  Hver er "Ása-flokkur sannleiksleitenda" sem þú ert tilbúinn að bjóða mér í að uppfylltum skilyrðum?  Er þetta það flottur flokkur að það sé þess virði að ljúga til að komast í hann?  Lygurum er þó væntanlega ekki hleypt inn í flokkinn.  Árans rækalls verkun að vera e.t.v. að missa af flottum flokki.  Vinsamlegast fræddu mig um þetta þó að ég eigi líklega ekki séns.

Kveðja

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2009 kl. 00:52

38 identicon

Sæll sjálfur Svanur.

Ég verð í vissum skilningi að þakka fyrir að þú sýnir manndóm og svara þó að það sé ekki merkilegt svar miðað við hvað ég er spyrja um og þær há-vísindalegu kröfur sem ég geri í mínum spurningum.

Ert þú að kalla mig lygara?! Nei ég held það varla ég veit ekki til að ég hafi logið neinu hér á þessum spjallþræði þínum.

En ef þú ert að snúa út úr því sem ég sagði að þú værir velkominn í Ásaf-flokk sannleiksleitenda, á áðurnefndum forsendum, þá er það sérkennilegt að eyða tíma sínum í slíkt.

Ef aftur á móti að þú ert með vísindin sem ég hef beðið um og þú þóttist hafa tilvísanir í á sínum tíma þá gjörðu svo vel að afhenda þau.

Þú ert reyndar búinn að segjast hafa svarað mér en það er reyndar mikill misskilningur því þú hefur ekki svarað því sem ég spurt um.

Efst af síðunni þinni má skilja:

Uppáhalds gullkorn Svans:

"Rökræðan er besta lausnin á hvers kyns rangindum"

Það er það sem ég hef nefnt hér nokkrum sinnum að ég vil fá frá þér tilvísun í hávísindaleg RÖK eftir ströngustu kröfum vísindalegrar hugsunar, aðferða, tækni o.s.frv. RÖK fyrir því að "veirur" valdi meðal annars, t.d. mislingum og "mænusótt"!

Hvaða frum- eða grunn rannsókn hefur þú séð sem sýnir fram á "veiru" sem sjúkdómsvald í þessum tilfellum ?

Létt fyrir þjálfaðann mann eins og þig sem sagðir:

"Ég hef B.Sc. gráðu í vísindum þannig að þú þarft ekki að halda neitt um mína menntun."

Já fyrir vísinda- þjálfaðan mann eða -menntaðan ætti ekki að vera neitt mál að vitna í og vísa á þá rannsókn sem þú styðst við þar sem liggur ljóst fyrir án alls vafa að "veira" valdi mislingum eða "mænusótt"!

Frá A til Ö eftir ströngustu kröfum vísindalegra rannsókna, aðferða, tækni og svo framvegis.

Afhenda vísindi gjör þú svo vel Svanur!! 

Ragnar (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 01:32

39 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ragnar

Nei, ég var að segja að ef að ég færi eftir skilyrðunum, þ.e. að viðurkenna það um veirurannsóknir sem þú sagðirað ég þyrfti að gera til að fá inngöngu, þá væri ég að ljúga. 

Einnig leikur mér forvitni á að vita hvort að það eru fleiri sjúkdómar (sem í læknisfræðinni eru taldir orsakaðir af veirum) en mislingar og mænuveiki (polio) sem þú trúir ekki að séu orsakaðir af veirum?

Kveðja

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2009 kl. 09:02

40 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ragnar

Þegar maður menntar sig í einhverju fagi, eins og t.d. læknisfræði, eða verkfræði, fer maður í gegn um ákveðið ferli og tileinkar sér viðtekna þekkingu undir handleiðslu.  Nemandinn þarf ekki að sanna fyrir sjálfum sér allt sem hann lærir með því að framkvæma sjálfur frumrannsóknir á öllu sem hann þarf að tileinka sér.  Ef hann þyrfti að gera það kæmist hann aldrei yfir allt það námsefni sem hann þarf að komast yfir, auk þess sem það væri fáránlegur tvíverknaður, eða margverknaður ætti ég e.t.v. að segja, því að hver einasti nemandi þyrfti þá að framkvæma þessar sömu frumrannsóknir.  Slíkt væri fáránleg tímaeyðsla.  Allir væru að finna hjólið upp aftur.

Auðvitað veit ég ekki hvað Svanur hefur tekið sér fyrir hendur í sínu námi, en ég geri ráð fyrir að hann hafi ekki sjálfur framkvæmt svona frumrannsókn, enda er það alger óþarfi.  Þessi þekking er til staðar og því alger óþarfi að margendurtaka allar rannsóknir sem lúta að þekktum sjúkdómsvöldum eins og vírusnum sem veldur mislingum.

Nú langar mig að benda þér á það Ragnar, í allri vinsemd, að þú ert sjálfur sekur um að hundsa margítrekaðar beiðnir um rök og gögn máli þínu til stuðnings.  Hvað er það sem þú hefur fyrir þér í að vírus valdi ekki mislingum?  Nú nægir ekki að æsa sig bara í hástert og nauðga nokkrum upphrópunarmerkjum.  Komdu með einhver skynsamleg rök og og vitnaðu sjálfur í einhver alvöru vísindi, og þá eru e.t.v. einhverjar líkur til að maður eins og Svanur nenni að svara þér.  Þú hefur hingað til gert lítið annað en að gelta út í loftið og hefur algerlega látið undir höfuð leggjast að styðja mál þitt af nokkurri skynsemi.

Ég geri reyndar ráð fyrir að það sé gersamlega tilgangslaust að reyna að eiga við þig skynsamlegar samræður, en komdu mér nú á óvart og svaraðu rólega og yfirvegað án upphrópunarmerkja.  Þú gætir t.d. tekið eina róandi svona eins og hálftíma áður en þú sest að skriftum.

Theódór Gunnarsson, 3.9.2009 kl. 09:06

41 Smámynd: Kama Sutra

Ragnar,

Ég er líka orðin forvitin.   Hvers vegna að einskorða sig við veirur?  Hvað um t.d. bakteríu- og sveppasýkingar?  Eru þær ekki til heldur?

Kama Sutra, 3.9.2009 kl. 09:50

42 identicon

Þessi Ragnar minnir óneitanlega á einhvern sem kallaði sig Kristján þegar ég tók stutta rimmu við hann í þessari umræðu:

http://eyjan.is/blog/2009/07/23/sjaandi-spair-oflugum-jardskjalfta-a-krysuvikursvaedinu-seint-a-manudagskvold/

... nema hvað að Kristján þessi virðist ekki nota eins mörg upphrópunarmerki og Ragnar. Kannski var hann í betra skapi þá.

Sigurjón (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 10:31

43 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Sigurjón

Þú segir nokkuð.  Ég kíkti á þetta og ég er sammála þér um að þetta hlýtur næstum að vera sami maðurinn.  Stíllinn og ruglið er nákvæmlega eins.  Mér finnst það líka dálítið skondið að ég virðist hafa hitt naglann á höfuðið í færslu nr. 22.  Þessi Kristján er einmitt því marki brenndur að afneita tuglferðunum.

Theódór Gunnarsson, 3.9.2009 kl. 11:28

44 identicon

Ef þetta er sá sami Kristján og ég reifst við hér: http://www.vantru.is/2009/07/27/08.00/#comments þá notar sá hinn sami einmitt mikið gerfinöfn. 8 nöfn á einum degi frá sömu ip tölu. http://www.vantru.is/spjall/viewtopic.php?p=116203

En... Það er ekkert víst að Ragnar sé sá sami. Það eru til mun fleiri en 2 samsærissinnar á íslandi.

Jón Grétar Borgþórsson (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 11:43

45 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hér er grein sem greinir frá vísindavinnu sem sýnir ekki aðeins að mislingaveiran (MV) valdi mislingum heldur einnig hvernig hún berst inní líkamann og smitar. 

Research Highlight

Nature Reviews Microbiology 6, 571 (August 2008) | doi:10.1038/nrmicro1961

Viral pathogenesis: Measles virus in one-way crossing

Gillian Young

Viral pathogenesisMeasles virus in one-way crossing
A ribbon representation of the crystal structure of the measles virus haemagglutinin protein homodimer; the residues that are important for signalling lymphocytic activation molecule (SLAM) recognition, EpR recognition and CD46 recognition are in purple, orange or red, and yellow, respectively. Image kindly provided by Vincent Leonard, Mayo Clinic, Rochester, USA.

It has long been assumed that the highly contagious measles virus (MV) enters its host through the luminal surface of respiratory epithelial cells before spreading systemically through the lymphatic system. A new paper published in The Journal of Clinical Investigation now reveals that initial infection of the airways is not necessary for entry into the host, but that airway infection is required for MV shedding and transmission.

The MV attachment protein haemagglutinin binds to signalling lymphocytic activation molecule (SLAM) on lymphatic cells. However, previous studies had suggested that SLAM-dependent luminal entry does not occur immediately after infection, but rather that MV entry into the respiratory epithelium occurs basolaterally as the virus exits the host, and therefore that the virus uses an epithelial receptor (EpR) that is located on the basolateral surface of respiratory epithelial cells. To investigate the interactions between MV and this as-yet-unidentified EpR, Leonard, Cattaneo and colleagues used a structural model of MV haemagglutinin and mutational analyses to identify amino acid residues in haemagglutinin that are crucial for MV infection of epithelial cells, but are not required for infection of SLAM-expressing cells. Three residues were identified and the authors went on to generate mutant strains that remained dependent on SLAM for cell fusion, but were 'blind' to the EpR and were therefore unable to enter the airway epithelia. Rhesus monkeys that were inoculated with these strains intranasally developed measles symptoms, but were unable to shed the virus into the airways, which supports the model that respiratory epithelial cells are not necessarily the initial targets of MV, but that infection of these cells is required for shedding and transmission.

The authors then sought to characterize this shedding-restrictive mechanism. Wild-type virus infected columnar epithelial cells that form tight junctions only when applied basolaterally and budded only from the apical side, a finding that is consistent with one-way epithelial crossing, in which epithelial cells enable shedding but are not the focus of initial infection. By contrast, the EpR-blind mutant virus did not enter epithelial cells basolaterally and did not infect epithelial cells. This confirms the hypothesis that EpR is a basolateral protein and that wild-type MV releases progeny through apical release from the epithelial barrier. This mechanism of shedding could explain why MV is transmitted through respiratory aerosols, and could also apply to other viruses that spread in a similar manner.

This enlightening study could force us to rethink our view of the MV infectious cycle. The authors also point out that this new understanding could have implications for the use of MV-based vectors in oncolytic therapies. More work is needed, however, to identify the basolateral EpR.

References and links

ORIGINAL RESEARCH PAPER
  1. Leonard, V. H. J. et al. Measles virus blind to its epithelial cell receptor remains virulent in rhesus monkeys but cannot cross the airway epithelium and is not shed. J. Clin. Invest. 20 June 2008 (doi: 10.1172/JCI35454)

FURTHER READING
  1. Takeda, M. Measles virus breaks through epithelial cell barriers to achieve transmission. J. Clin. Invest. 20 June 2008 (doi: 10.1172/JCI36251)

Meira mun ég ekki hjálpa þér Ragnar varðandi skoðun á gögnum sem sýna fram á að MV sýki mannfólk og veldi mislingum.

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2009 kl. 12:17

46 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hér er texti sem þessi "Kristján" skrifaði.  Hann er með sömu taktík og Ragnar.

"Kristján
25.07 2009 kl.05:33

Slóð

Svar til þess sem kallar sig Palli!
Vísindin hafa ekki getað lagt fram haldbæra sönnun fyrir tilvist “HIV” “veirunnar” en þú TRÚIR ábyggilega á hana en nennir ekki að VINNA smá rannsóknar vinnu með þínum ímyndaða skilningi á “vísindahugsun” eða aðferðum “vísinda”.
Nýlega voru birtar myndir á vef NASA lygaranna, kjánalegar “staðfestingar” á því að menn eigi að hafa gengið á tunglinu og já ég býst við að þú TRÚIR þeim líka.
Ég efast um það “Palli” að þú skiljir hvað sönn vísindi eru, ég geri fastlega ráð fyrir því að þú hafir tekið þá ákvörðun að trúa á tilviljanir, efnishyggju, eigingirni, tilgangsleysi, guðleysi, kærleiksleysi, hroka, fordóma, dauðarefsingar o.s.frv.
Heimurinn er fullur af loddurum á sviði “vísinda” og dulhyggju og á öllum öðrum sviðum býst ég við.

Þessi spákona hefur fullkomlega rétt fyrir sér en ég veit ekki með dagsetninguna.
En ég veit þó það að á næstu þúsund árum mun Reykjanesskaginn umbyltast og gerbreytast, sérstaklega á yfirborðinu.
Þúsund ár er ekki langur tími í sögu Íslands hvað þá heldur Jarðar.
Reykjanesskaginn mun breytast talsvert á næstu árum og á næsta áratug.

Palli TRÚIR á “vísindin” en hann veit ekkert sjálfur og leitar ekki nema með gerfiljósi “vísindanna”.

Palli, farðu að vinna með RÖK, LÖG eða “LOGIK” og þá sérðu dýrðina í þróun lífsins frá kristal til manns!!"

----

Sæll Ragnar!  Er Kristján þessi og þú sami maðurinn eða er hann með þér í "Ása-flokk sannleiksleitenda!"?  Eru margir í þessum flokki?

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2009 kl. 12:21

47 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Ég held reyndar að þið séuð að misskilja þennan Ragnar, það er nokkuð augljóst að þetta er grín / gjörningur til að spila með ykkur.

Ef það væri einhver alvara á bak við þetta myndi hann:

  • skrifa undir fullu nafni
  • lesa svörin (og jafnvel skilja)
  • segja hvaðan hann hefur sínar upplýsingar, menntun / reynslu og hver hans skilgreining á ströngustu vísindalegum kröfum er (eða amk. sýna að hann viti hverjar þær eru)
  • lesa eigin texta áður en hann "sendir", myndi væntanlega hafa örlítið betra samhengi og til dæmis fækka upphrópunarmerkjum og gífuryrðum

Auðvitað gæti þetta verið svokallaður KÁLFUR (Kaupir Ákaflega Lygilegar Furðukenningar Um Ríkið)

Ef svo er, þá er tilgangslaust að rökræða við hann.

Rökræðurnar ganga í stuttu máli svona, frá hans sjónarhóli:

  • Ég trúi samsæriskenningu X (X getur verið tungllendingin, 11. september, bólusetningar, erfðabreytt matvæli, Bush skaut JFK, í rauninni hvað sem er).
  • Öll vafaatriði varðandi X, hvort sem þau tengjast kenningunni eða ekki eru endanleg sönnun fyrir því að kenningin er rétt.
  • Allar staðreyndir sem mögulega má tengja kenningunni, hversu langsótt sem tengingin er, eru líka endanlega sönnun.
  • Allar staðreyndir sem ekki passa við X eru (augljóslega) hluti af samsærinu.
Svo enginn fari nú að rífast við mig um dæmin um samsæriskenningarnar sem ég tók, þá hef ég enga skoðun á því hvort þær eru réttmætar eða ekki, ég er bara að gera lítið úr röksemdafærslunum fyrir sumum þeirra. Eða réttara sagt, skoðun mín á þeim skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Valgarður Guðjónsson, 3.9.2009 kl. 20:47

48 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Valgarður

Ég held að Ragnar/Kristján sé ekki að fíflast. Hann heldur þessu til streitu með nákvæmlega sama hætti undir nafninu Kristján í þræðinum á Eyjunni, sem hlekkjað er á hér að ofan, í lengri tíma og alltaf í nákvæmlega sama anda og hann gerir hér.

En lýsing þín á þankagangi hans er ágæt. Þarna er ekkert svigrúm fyrir umræðu eða vangaveltur, aðeins yfirlýsingar. Og þrátt fyrir að kauði biðji stöðugt um gögn og sannanir er hann ekkert að fara að kynna sér neitt sem honum er bent á, það mun alltaf sjálfkrafa vera upplogið eða rangt og því ekki þess virði að skoða.

Þetta minnir mig á tilvitnun í B. Russell sem er svona:

The whole problem with the world is that fools and fanatics are always so certain of themselves, but wiser people so full of doubts.

Kristinn Theódórsson, 3.9.2009 kl. 21:03

49 Smámynd: Kama Sutra

Ég veit ekkert um þennan Ragnar en ég hef hitt nokkra einstaklinga í kjötheimum sem virðast hafa svipaðar "skoðanir" og hann - og reyna að viðra þær í tíma og ótíma.

Kannski þessi Ragnar sé einn af þeim?  Eða bara hvert annað troll...

Kama Sutra, 3.9.2009 kl. 21:23

50 identicon

Sæll Svanur.

Takk fyrir smá meiri hugrekki til að svara og "reyna" að komast til botns í einhverju sem ég hélt að þú værir löngu búinn að komast til botns í og margir vinir þínir hér einnig, miðað við hvað margir hér "hljóma" eða virðast hrokafullir.

Ég neyðist til að byrja á því að fara vítt og breytt í byrjun og vona að það þú sýnir því skilning því að hér er engin sem tekur upp hanskann fyrir mig (nema að þú hafir falið það?) og ég er krafinn svara um margt sem kemur málefninu ekkert við og stuðningsmenn þínir eða áhangendur kaffæra umræðuna og yfirgnæfa.

Ég þurfti líka að færa mig aðeins um set í dag. Og hafði ekki aðgang að mínum eigin rafpósti en tók mér það bessaleyfi að nota tölvupóstfang vinar míns án þess að eyðileggja neitt af hans pósti við niðurhal á svar staðfestingunum sem maður verður að geta gert. Þetta tölvupóstfang hefur verið skráð í póstforrit í tölvunni minni síðan fyrir mörgum árum og hafði ég leyfi hans til að nota það í neyð á sínum tíma.
Þannig að vinsamlegast ekki senda mér póst nema á núverandi tölvupóstfang sem ég skrifa undir núna. Það er alfarið mitt og stofnað í neyð.

Eins og ég sagði þér í skilaboðum sem þú eyddir að þá hef ég ekki haft eins góðan tíma og ég vonaði til að skrifa með eins vönduðum og skipulögðum hætti og ég hefði viljað sökum þess að frændi minn og gamall vinur lést með vofeiflegum hætti seinni hluta þriðjudagsins 1. Sept. í því sem líklegast var "bara" vinnuslys. Hef ég þurft að leggja tíma og vinnu og einbeitingu í það sem tengist fjölskyldu og  geðshræringu og áfalli sem hún er í. Sem sagt ég er að reyna að hjálpa til varðandi það og veita þann stuðning sem ég get. Já og blessuð sé minning hans.

Vonandi getur þú Svanur og kannski fleiri hér sem telja sig "húmanista" tekið það til greina í umræðunni hér. Því ég hef ekki sagt mitt síðast orð í þessu "veiru" máli.

Ég skil ekki það að það skipti neinu máli fyrir umræðuna eða hvort að ég er einn eða við séum fá eða fáir. Það er ekki eins og hér sé vinsælt að krefja menn um vísindaleg RÖK fyrir sínum fullyrðingum í frjálsri "stimulerandi,  uppbyggilegri, og grundvallandi vísindaumræðu. Hvað ég heiti eða hvað "veiran" heitir sem ég er að spyrja um skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli í málefninu sem hér um ræðir.

 Því þegar upp er staðið, er uppgötvun á "nýrri" tegund lífsforms eða lífseiningar sem er sinstök og sker sig úr frá öðru og verður að skiljast sem "tegund" en ekki margbreytilega útlítandi gerð af sömu tegund. Birnir, selir og fleiri dýr eru samt ekki hundar þó að þeir eigi sama forföður og nánast sama erfðamengi.

Vil ég nefna hér lesendum til glöggvunar t.d. þá grein af þróun úlfa sem kallast hundar og síðan ótal mörg afsprengi hunda sem er ekki skilgreint sem tegund hedur sem gerð af þessari tegund sem við köllum hunda.

Nánar um þetta síðar ef það leyfist af þeim sem ritskoðað hefur þennan spjallþráð og eytt mikivægum athugasemdum eða skilaboðum frá mér, sem ég hef verið reiðubúinn til að umorða.

Mér finnst dónaskapur frá fólki hér sem flest kennir sig við "vantrú" og jafnvel "húmanisma", rökhyggju og vísindahugsun, minna einna helst á trúarofstæki eða umburðarleysi gagnvart mjög svo eðlilegum grundvallarspurningum varðandi frumrannsóknir á svokölluðum og nánar tilteknum "sjúkdómsvaldandi" "veirum".

Ég hef verið ásakaður um eitthvað sem ég hef aldrei sagt og mér hafa verið lögð orð í munn í þessari umræðu, af, að mér sýnist "áhangendum" Svans.

Á ósanngjarnann hátt og í raun kuldalega, ómálefnalega, fordómafullan og frekar  kvikyndislegan hátt hefur verið snúið út úr og afbakað sumt af því sem ég hef sagt !

Það er rétt að fólk þarf að erfiða við að muna margt og mikið í að afla sér þekkingar í skólum t.d.

Það breytir ekki því að þegar ekki eru til, né lögð fram grundvallar frum- rannsóknir eða vísindi þá er eðlilegt fyrir þann sem leitar sannleikans og er heiðarlegur og vill upplifa sjálfur og endurtaka rannsókn og verða sjálfur vitni að niðurstöðunni að hann spyrji spurninga eins og ég hef spurt.

Þjálfaður eða menntaður einstakllingur á að sjálfsögðu að benda á og hafa á reiðum höndum, hinar afgerandi og þýðingamiklu rannsókn eða rannsóknir sem styður kenninguna eða uppgötvunina sem hann trúir á eða þekkir  sjálfur eða hefur séð og jafnvel rannsakað, að minnsta kosti að hefur farið sómasamlega yfir þau rannsóknargögn.

Margt trúarofstækisfólk trúir því og fullyrðir að, "vegir Guðs eru órannsakanlegir" sem ég reyndar er ekki sammála, því vegir Guðs eru einmitt rannsakanlegir, en fólki var fyrr á öldum yfirleitt ekki leyft að rannsaka lygar prestanna og trúaryfirvalda fyrr á öldum og það er ekki vinsælt hjá því fólki að neinar rannsóknir fari fram á trúar-lyga blekkingum  trúar-yfirvalda.

Í dag höfum við svipaða stöðu í vísindaheiminum þar sem ekki er vinsælt að efast um að tilteknar "veirur" valdi tilteknum sjúkdómum, og þetta hefur afhjúpast hér á þessum spjallþræði Svans.

Ef spurt er um grundvllaratriði um "tungllendingar", heimsstyrjaldirnar,  "helförina" sökudólgana 11.Sept og sannanir fyrir þeim, sökum forvitni og í algeru sakleysi, þá er strax ósjálfrátt farið að ráðast á mann með einum eða öðrum hætti af fólki sem bara trúir þessum sögum eða illa grundvölluðu samsæriskenningum en veit ekkert um þær og skilur ekki hvað spurningarnar eru eðlilegar í sjálfu sér. Þetta fólk vill kannski ekki skilja heldur fá að njóta þess að fá útrás fyrir frumstæðar hvatir, frumstæðar hrokafullar og eigingjarnar tilfinningar, fordóma og almennt telur sig oft hafa réttlætingu eða heilagan rétt á að vanvirða og svívirða þann sem spyr. Þann sem spyr, og sýnir að hann trúir ekki, tilheyrir ekki og er ekki með í þessu ósýnilega "culti" sem viðkomandi öfga og trúar eða gervivísinda-fasistar ómeðvitað eða meðvitað upplifa sig tilheyra.

Þetta frumstæða apa eða frummanna-eðli eða heimsku sem ég var hér að lýsa er mjög oft fordæmt og  kvartað sáran yfir af einmitt svokölluðum "trúleysingjum" eða vísindahyggju eða sjálfnefndu rökhyggju fólki einhverju.

"Trúleysingjar" er bara oftast ekkert betra fólk og er mjög öfgakennt að verja allskyns "vísindi" sem það hefur engan skilning á, sem bersýnilega hefur komið hér í ljós á þessum spjallþræði.

Ég vill sjá grundvallar sannanir, vísindi og gögn sem ég get athugað í grundvallar rannsókn eða athugun minni á leyndardómum lífsin, alveg sama hvað þeir eru kallaðir og hvað margir trúa á svokallaðan  "viðurkenndan sannleik" hvað sem hann kallast, andleg sem efnisleg vísindi,  SAGA, trú o.s.frv.

Ég aðhylllist ekki öfgatrúar-ofstækis og áróðursstefnu trúar né "vísinda", þar sem eitthvað múg-hóp samþykki (consensus) ræður ríkjum og bannað er nánast að forvitnast um eða fá að lesa "vísindin" á bak við trú eða andlega og efnis vísindatrú eða sögu.

það breytir engu þó að milljónir eða jafnvel allt mannky nema ég samþykki eða trúi á einhverja "veiru" annaðhvort er það byggt á RÖK-réttum vísindum eða ekki !!

Nú spyr ég þig Svanur:

Er þetta virkilega þitt lokasvar ?!

Er þetta spjall (athugasemd46) um kenningar eða út frá kenningum, sem taka sem gefið einhver ónefnd dularfull vísindi, sem eru kannski ekki til eða "non-existent"?

Ég sé enga tilvísun í frum-rannsókn sem ætti að vera hér t.d.:

"It has long been assumed that the highly contagious measles virus (MV)"

Ég spyr á á ensku með leyfi fundarstjóra ? :

What is the reference for that?

What is the reference pointing to that research that prooves that the measles "virus" is "highly contagious", and therefore is the culprit for that desease?

This highly contagious measles virus which presumably causes measles is based on what research?

I would like to get reference for that (science?) please because I am indeed interrested in "infectious diseases".

I also would like to express the importance of the basics of detection and discovery, based on the most scientific rigour regarding procedure, method etc. isolation, purification etc. No "PCR"-false isolatipn is accepted not even by the designer of that particular techniqe.

Hér ætti strax að koma tilvísun í rannsókn ef fólk er nákvæmt og fylgir vísindaaðferðum og vilja auðvelda öðrum að skilja og finna út úr, fyrir sig sjálft út frá grundvallar frum-vísindarannsóknum. 

Ég get komið með lengra og ýtarlegra svar ef þess þarf. Ég sé til.

Bið ég hér með um leyfi til að birta það á þínum spjallþræði Svanur þar sem eitt af þínum gullkornum er:

"Gullkorn Svans":

"Rökræðan er besta lausnin á hvers kyns rangindum"

Ég bið um frelsi til að RÖK-ræða þetta frekar ef með þarf.

Ég hef þetta frelsi í lífinu en kannski ekki hér eða hvað? 

Kristján Ragnar Úlfur o.s.frv.

Ragnar (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 22:00

51 identicon

Kristinn!

Reyndar sneið til þín líka Valgarður og fleiri! 

Margur heldur mig sig.

Þessi tilvitnun í Bertrandt Russell? á kannski meira við um þig Kristinn og ykkur hin sem ég minntist á þau taki það til sín sem eiga það.

KristRagnar 

Ragnar (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 22:11

52 identicon

Er þetta upphaflega rannsoknin sem þú studdist við eða varst þú búinn að sjá þessa skýrslu áður en hún birtist í "nature" ? Þú hélst nefnilega fyrirlesturinn í nóv. 2007 og þess vegna geri ég ráð fyrir að þessi skýrsla sem þú ert að benda hér á (aths.46) hafi ekki verið aðgengileg þér á þeim tíma. Við hvaða rannsókn varst þú þá að miða, er þú sagðist hafa tilvísun í árið 2007 ??

Varst þú með eitthvað annað á sínum tíma en líst betur á þetta sem þú birtir hér í dag (aths.46).

Ég ætlast ekki til að þú vitir þetta allt saman heldur vil ég að þú sýnir mér þau vísindi sem þú sagðir að þú byggðir á og byggir kannski enn á.

Ef þú sást aldrei og hefur ekki enn séð slíkar sértækar vísindarannsóknir sem ég hef beðið sérstaklega um, þá bara segir þú það t.d.:

Að þú Svanur hafir eldrei séð eða full-sannfærst út frá vísindalegum frum - grunn rannsóknum um að "veira" valdi því sem er kallað mislingar eða "mænusótt" o.s.frv. og getir þar af leiðandi ekki vísað í eitthvað sem þú hefur ekki séð en trúir því að það "hljóti að vera til" eins og landsþekktur "veirufræðingur" hefur sagt opinberlega. Já og án þess að hafa þessi gögn til taks þegar á þarf að halda.

Þar sem þú tilkynntir sérstaklega að þú hafir "B.sc. í vísindum" þá hef ég þrýst á þig að sýna áður umrædd gögn.

Að þú sýnir mér vísindin.

Vísindin sem ég vill fá eru frum - grunnrannsókn(ir) á uppgötvun einstakrar, sértækrar veiru sem er klárlega orsakavaldur að áðurnefndum heilkennum eða sjúkdómum, sem reyndar, fyrri glöggum vísindamanni og heiðarlegum sannleiksleitanda, klárlega bera vott um, sýna eða bera merki um meðal annars, að eiga sér upphaf í einhvers konar eitrun eða "óheilbrigðum lífsstíl", líferni eða lífsskilyrðum. Nú ef þú telur að til að sanna "kenninguna" um "veiruna", verði að koma til einhverjir samverkandi þættir (co-factors) eins og til dæmis einhverskonar eitrun, þá vinsamlegast nefndu þá.

KristÚlfurRagnar 

Ragnar (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 22:31

53 identicon

Svanur.

Ég hef ekki haft tíma til að lesa nákvæmlega þessa grein um meinta hegðun meintrar "veiru" í líkamanum á vissum stigum veikinda eða undanfara þeirra.

Aftur á móti sé ekki tilvísun (reference) í vísndarannsókn sem ég hefi beðið þig um.

Frum-vísindarannsókn þar sem lýst er uppgötvun "veiru" sem sýnt er síðan fram á að hún valdi þessum sjúkdómi og/eða heilkennum sem um hefur verið rætt.

Reyndar er eftirfarandi nefnt í greininni:

"Despite the availability of effective? vaccines?, measles is still responsible for about 4% of deaths among children under 5 years of age worldwide". (Ég bætti við spurningarmerkjum.)

Eins og ég sagði þá á ég eftir að fara yfir greinina.

Hefur þú Svanur lesið þessa grein vel og vandlega yfir og sýnir hún að þínu mati fram á eða sýnir þessi rannsókn fram á, að "veira" valdi t.d. mislingum?

Ragnar (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 22:34

54 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ragnar Kristján, Úlfur ... hvað sem þú heitir!

Þú ræðir í svari þínu um að  það sé slæmt að fólki sem heldur einhverju fram andstætt megin straumum, sé ekki trúað og það sé ráðist á "þann sem spyr".   Vissulega getur fólk sem hefur mikið til síns máls lent óverðskuldað í þess konar aðstöðu, en ég sé ekki að þú sért slíkur aðili.  Því miður.  ´

Þú hefur hér beðið um sönnun fyrir því að mislingaveiran valdi mislingum, en á sama tíma hefurðu ekki komið fram með neitt sem bendir til þess að þú hafir lesið eða hafir þekkingu á veirufræði eða smitsjúkdómafræði.  Þú blaðrar eitthvað um "PCR" en algerlega án samhengis og það gerir þig einungis minna skiljanlegan.  Þú hefur ekki komið með nein rök fyrir því hvers vegna þú vilt draga í efa þessa vel þekktu orsök fyrir mislingum.

Það var svosem auðsjáanlegt og ég hugsaði það eftir að ég setti inn þessa skýrslu frá rannsókninni um sýkingarleið mislingaveirunnar að þú myndir misskilja samhengið í setningunni þar sem sagt er:

It has long been assumed that the highly contagious measles virus (MV) enters its host through the luminal surface of respiratory epithelial cells before spreading systemically through the lymphatic system.

Þú vitnaðir bara í fyrri hluta setningarinnar og taldir af þeim hluta að þessi rannsókn sýndi ekki fram á að veiran valdi mislingum.  Rannsóknin fjallar um sérstaka staðsetningu veirusmitsins inn í líkamann þannig að ekki aðeins sýnir hún fram á að hún smitar, heldur einnig hvar.  Búið er að rækta úr milljónum manna mislingaveiruna úr nefstroki eða þvagi á meðan veikindum stóð og er hægt að gera það t.d. á rannsóknarstofu HÍ í veirufræðum.  Hér er hlekkur á vefsíðu sem segir frá því ferli:

http://virology-online.com/viruses/MEASLES5.htm

Þetta er margreynt ferli og það er staðfest mörg þúsund sinnum á viku hverri um allan heim með þess konar ræktun á mislingaveirunni að byrjaðir séu faraldrar.  Því miður kosta mislingar yfir 1.5 milljón manna í vanþróuðum löndum lífið á ári hverju.  Brotalöm er á bólusetningum þar og það er ákveðið vandamál að ekki er hægt að nota núverandi bóluefni þar til börnin eru orðin um 18 mánaða gömul.  Stærsta verkefnið í dag er því að þróa nýtt bóluefni sem má gefa fyrr. 

Ef að þú ætlar að segja hér að það sé ekki búið að sýna fram á að þessi parvomyxoveira valdi mislingum, þá verður þú að koma með skothelda gagnrýni.  Ef að þú trúir því ekki enn að þessi veira valdi mislingum þá get ég einungis vorkennt þér.  Ef þú trúir ekki á það vegna þess að þú heldur að þú hafir ekki frumrannsóknir í höndunum þá get ég ekki hjálpað þér heldur því að gögnin eru allt í kringum okkur.  Ég trúi þeim en ef að þú kýst að treysta þeim ekki þá stendur þú uppi með þá stöðu að eiga eftir að finna orsökina fyrir mislingum.  Eitthvað sem nær enginn hefur áhyggjur af, því að bólusetningar gegn þeim hafa virkað frábærlega þar sem þær ná nægilega góðri þátttöku til að hindra alla faraldra. 

Ég efast um að ég leggi meira til málanna í þessari umræðu sem er kominn talsvert út fyrir efni bloggsins þar sem talað er um kuklara og ábyrgð fjölmiðla í upplýsingamiðlun.  Þú ert nú orðinn hálf vænissjúkur um að ég hafi strokað út einhverja ímyndaða fylgismenn þína.  Ég hef ekki tekið út neinar færslur aðrar en þær sem ég nefndi og þar á meðal var færsla þín um látinn ættingja þinn sem kemur þessum umræðum ekkert við.  Ég get haft samúð með þér en vil gjarnan að hér sé ekki verið að blanda inní persónulegum málefnum. 

Ég vil gjarnan að þessari umræðu um mislinga sé lokið hér og ef fleiri færslum er bætt við mega þær gjarnan vera um efni bloggsins. 

Kveðja

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2009 kl. 23:11

55 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Góð pæling hjá þér Valgarður.

Að auki virðist hér vera

  • Alger vöntun á skotheldri gagnrýni á viðtekna skýringu, en samt farið fram á að sýnd séu gögn við viðmælendur hverju sinni. 

Gögnin eru fyrir hendi út um allt og nægir að setja inn leitarorðin "isolation of measles virus" (í þessu tilviki) til að fá gnægð heimilda og útskýringa. 

Það er heillandi pæling um sálfræði og hugsanaferli persóna hvernig svona staða getur komið upp hjá þeim.  Það er verst hvað lítið er hægt að gera til að hjálpa til.

Já, Kristinn þessi orð Bertrand Russell eru mikilvæg því þau opna augu manns fyrir því að það er mikilvægt að láta ekki fólk með ranghugmyndir og yfirgang komast upp með að stjórna.  T.d. kostnaðurinn við að kveða niður Hitler og hans líka var hræðilegur á allan máta.  Það er ekki nóg að vera hljóðlátur fræðimaður einhvers staðar og láta fífl stýra þjóðumun.  Heimurinn er því miður of grimmur til þess að gott fólk geti sofið á verðinum.

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 3.9.2009 kl. 23:40

56 identicon

Valgarður.

Til að fá út þá niðurstöðu að einhver sé með kenningar um samsæri þá er lágmark að spyrja fyrst, hugsa svo og svara síðan.

Til að samsæri geti átt sér stað sem þarf þó eki að vera illr ásetningur, þá þarf einhver að skipuleggja, leggja á ráðin eða vera í samstarfi við einhvern,  um það að fremja glæp, rán, föðurlandssvik, landráð eða,  leiða fólk á hættulegar  villigötur með glæpsamlegum hætti með lygum-blekkingum og svikum, stórt svindl með t.d. bankastarfsemi eða hryðjuverk eða jafnvel að fremja glæpi gegn mannkyni eða hryðjuverk og stríðsglæpi, með kjarnorkusprengjum eða eitthvað álíka óhuggulegt og viðbjóðslegt.

Samt er fólk eins og þú virðist vera, fólk sem skilgreinir samsæriskenningu sem eitthvað heimskulegt eða kjánalegt.
Þrátt fyrir það sem flestir vita um nálgun lögreglurannsókna og meðferð dómsmála, að glæpir sem eru framdir af mörgum aðilum eða margir aðilar leggja á ráðin um að fremja og eru þar af leiðandi ábyrgir eða samsekir í glæpnum, eru skilgreindir að sjálfsögðu sem samsæri.

Já þrátt fyrir það að menn séu einmitt ákærðir fyrir beina eða óbeina aðild að samsæri um að fremja þennan eða hinn glæpinn þá eru til fólk eins og þú Valgarður sem vilt nota orðið til að lítillækka þá sem trúa ekki því sam flest allir trúa eða eru sammála um.
Einmitt fólk eins og þú gerir að "tabúi" eða eins og sumir hér vilja banna manni, frjálsa umræðu og gagnrýna athugun á glæpum, spillingu, "hryðjuverkum", stríðsglæpum "helförum", þjóðarmorðum "veiru-vitleysunni" bóluefnum, vítisvélum o.s.frv

Þetta eru nokkur dæmi um hvað skilgreint er almennt sem samsæri en það er fyrst og fremst það að fleiri en ein manneskja leggur á ráðin um illvirki.

Nú ein af þessum samværiskenningum sem þú nefnir er morði á JFK en lengi var reynt að heilaþvo fólk með þeirri fáránlegu hugmynd að það væri ekkert samsæri heldur væri bara einn maður sem átti að hafa framið glæpinn og enginn annar átti að hafa komið þar nærri.

Seinna var ákveðið af einhverri rannsóknarnefnd bandóðuríska þingsins að það hefði án alls vafa verið samsæri á bak við morðið á JFK. Sem sagt það voru fleiri en ein manneskja á bak við illvirkið og skipulag þess að þeirra mati.

Fyrir glöggann rannsakand þá leynir sér til dæmis ekki að það hefur verið átt mikið við eða fiktað í mörgum römmum í svokallaðri "Zapruder" myndskeiði.

Abraham Zapruder var reyndar dularfullur Úkaraínskur gyðingur. Kannski var han einmitt þarna til að "document the event".?!

Jack Ruby sem sá um að afgreiða Oswald greyið með því að myrða hann fyrir framan  á annað hundrað lögreglumenn eftir að hafa "laumað" sér niður í kjallara lögreglustöðvarinnar sem var á hámarks öryggisgæslu stigi þegar það gerðist.

Ég man ekki hvernig nafnið er skrifað en Jacovv (Jakob) Rubinstein var gyðingur líka, ættaður frá póllandi eins og svo margir frá þessu svokallaða "Pale of the Settlement" svæði Austur-Evrópu og mynda mafíuna í sjíkagó, new jork, florida og víðar um heiminn.

Ekki sagði það mikilvæga vitni eða "blórabögull" neitt meira í málinu og virðist hafa verið mikilvægt að myrða hann fyrir JFK morðingjana.

Ég gæti talið upp mörg svona atriði sem tengjast eingöngu gyðingum og isreal.

Ekki kenni ég gyðingum alfarið né isreal um morðið á Kennedy en fyrir mér er þetta "crime-network involved".

Ég ætla að nefna einn mann sem fékk góða stöðuhækkun í isrealska hernum og fleiri frama-verðlaun nokkrum vikum síðar en það var jú Yitsak Rabin og já hann var staddur í Dallas þegar morðið var framið !

Þú ert nú ekkert sérstaklega skýr sjálfur í þínum skrifum. Þú virðist vera að reyna að sálgreina mig einhvern veginn eftir dularfullum leiðum eða að koma með fáránlega og röklausa kenningu um hvaða "stereótýpa" samkvæmt þínum hugmyndum, ég gæti talist vera.

Ég trúi ekki á neina kenningar ég reyni að skilja þær og leita sannleikans hver sem hann er.

Það eru til ótal samsæriskenningar og "lone-gunman" kenningar um morðið á JFK.

Margir trúa á hinar og þessar opinberar og vægast sagt grunnhyggnar og vitlausar samsæriskenningar um t.d "ali-baba og ræningjana 19" sem sökudólga fyrir fjöldamorðunum, skemmdarverkunum eða hryðjuverkunum 11.sept 2001.

Hver er samsæriskenningin fyrir þér í því tilfelli?

Að það hafi ekki verið samsæri kannski og bara ein manneskja ber á byrgð á öllum glæpnum?

Að það sé samsæri sem bandóðurísk stjórnvöld hafa upplýst
og þú ert þá væntanlega vel UPPLÝSTUR um þennan risavaxna og fjölþætta glæp?

Á hvaða samsæriskenningu trúir þú Valgarður?

Samvinna binladens og 19 arraba hlýtur að teljast samsæri?

Er það samsæriskenningin sem þú trúir á?

Ert þú ekki að gera lítið úr sjálfum þér með þínum eigin rökleysufærslum?

Fyrir utan þetta allt þá kemur þetta umræðunni um "veiru"-málið dularfulla ekki beint við !

Ragnar er að borða veirur núna.

Ragnar (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 23:56

57 identicon

Svanur.

Já Svanur ég á eftir að svar þessu ýtarlega og vandlega lið fyrir lið.

Ef þú leyfir það að klára málið því nú erum við kannski að nálgast það sem ég leita að.

Þú þarft ekkert að flagga þínum ranghugmyndum um mig út frá því sem þú vilt greinilega misskilja og gera þér mat úr til að kasta rýrð á mig og minn málflutning.

Þú hefur hér loksins viðurkennt að þú TRÚIR á það að eitthvað fólk úti í heimi hafi einangrað msilinga-"veiru" og sýnt fram á hún ein og sér valdi mislingum.

Og þú segir að það sé fullt af rannsóknum sem sýni fram á "veiruna" sem sjúkdómsvald, en þú getur ekki bent mér á eina rannsókn sem tekur þetta fyrir frá A til Ö út frá ströngustu kröfum vísindalegra aðferða, ferla, tækni o.s.frv.

Þú vilt að ég leiti að tilvísunum "references" og þar af leiðandi finni slíkar rannsóknir sjálfur.

Ég var að biðja þig um þína svo það sé á hreinu !

Ég hef áður leitað og leitað og hef ekki fundið neina slíka rannsókn og var farinn að halda að hún væri falin eða eitthvað furðulegt væri í gangi í heimi "gervivísinda".

Það er reyndar raunin það er eitthvað skítugt og óhuggulegt í heimi "gervivísinda" og þeim trúarheimi sem þar ræður ríkjum.

Ég hef ekki fundið þessa rannsókn en er enn  að leita og ég sé að þú hefur ekki fundið slíka rannsókn heldur sem fullnægir há-vitsmuna-vísindakröfum sem ég nefndi. Meira að segja eru þær kröfur ekki einu sinni fullkomnar en ná langt með það sem þarf til að sanna tilvist sjúkdómsvaldandi "veira".

Ragnar (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 00:14

58 identicon

Svanur.

Ég þakka samt fyrir að þú sýnir málinu áhuga.

Þessi hlekkur á að sýna hvað?

Er þessi hlekkur tilvísun í rannsókn sem sýnir með óyggjandi hætti að "veira" valdi mislingum?

Myndin þarna á hún að sýna "veiru"?

Var hún einangruð hvernig?

Hvernig var þessi rannsókn framkvæmd hvaða efni voru notuð í rannsóknina eða sýnið?

Hver er stærðin á "veirunni?" á þessari mynd ?

Hvar var myndin tekin og hver tók hana? Linda Stannard?

Hvað var í þessu sýni?

Það er minnst þarna á "cell culture".

Í hvernig frumum eða frumulínum var "veiran" "ræktuð" í?

Er þetta kannski eitthvað músasýni? Kannski úr apa?

Hvar eru leiðbeiningar til að endurtaka þessa rannsókn sem byggjast á ströngustu kröfum vísindalegrar hugsunar, aðferða, ferla og tækni o.s.frv.

Viltu fá útlistun á því hvernig að því sem næst fullkomlega er hægt að sýna fram á að einstök lífseining ("veira") er til staðar í sýni "hreinsi-síuð" frá öllu öðru og sýnt er fram á að hún finnist við einstök eða afgerandi, lýsandi skilyrði, lýsandi fyrir sjúkdóminn og er þar í heilu lagi og í talsverðu magni og sé ekki leifar af frumum eða eða hugsanlega einhverjum efnum sem var sullað út í sýnið o.s.frv.?

Ef þú veist eitthvað um veirufræði þá veistu hvert ég er að fara, en endilega spurðu ef þú ert í vafa.

Ég mæli með að þú afjúpir ekki neitt sem er sjálfum þér til minnkunar eins og til dæmis undarlegar vangaveltur um mig eða vænisýki af minni hálfu, vangaveltur um "bóluefna og/eða "heilsu" fasista" eins og voru í Þriðja Ríkinu sem glæpa"fasistar" og reyndar sjíónistar stjórnuðu úr innsta hring. Reyndar var og er "heilsu"-fasismi út um öll Vesturlönd.

Lestu bara betur allt sem ég hef skrifað og taktu síðan mið af því TAKK FYRIR!

http://virology-online.com/viruses/MEASLES5.htm

Ragnar (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 00:45

59 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Fyrst þessi umræða er komin á þetta stig og Ragnar enn að endurtaka sig ætla ég að henda inn svari við því að tilvitnunin í Bertrant Russell geti átt við um mig sjálfan.

Auðvitað er það mögulegt og vert að hafa í huga. En í þessu tilfelli er það svo, að ég er með vitræna skýringu á virkni mislinga frá A-Ö sem gengur upp miðað við núverandi þekkingu. En þú, Ragnar, ert ekki búinn að gefa til kynna að þú hafir neina skýringu, aðeins að þú efist um þá viðteknu.

Það er því ekki svo að þú hafi jafn mikla ástæðu til að efast um mína afstöðu eins og ég hef til að efast um þína. Við erum að tala um skýra orsakaröð; veira, smit, mislingar, sem þú hafnar alfarið, sem er í góðu lagi. En eins og oft er búið að benda þér á hefur þú ekki gefið okkur neina ástæðu til að ætla að þú hafir betri skýringu á þessu sjálfur.

Það er því a.m.k. eðlilegra að halla sér að vísindunum en orðum þínum hvað þetta snertir, því vísindin eru í það minnsta að reyna að svara þessum spurningum, en þú að því er virðist bara að efast.

Orð Bertrants eiga illa við mig hér í þessum umræðum, því ég er ekki trúaður á gildi minnar afstöðu, trúi henni ekki í blindni. Þú bara hefur ekki gefið mér eða öðrum vott af ástæðu til að efast um vísindalegu skýringuna á mislingum, aðra en þá að þú sjálfur efist þessi ósköp - því ekki hefur þú komið með tilgátu af neinu tagi fyrir okkur að japla á, eins og áður segir.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 4.9.2009 kl. 00:46

60 identicon

Kristinn og fleiri.

Ég er mjög lengi að skrifa og er sjálfsagt lesblindur en ég reyni mitt besta að vera eins nákvæmur og skýrmæltur og ég mögulega get.

Ég reyni ekki að snúa út úr fyrir neinum hér og tek ekki viljandi orð úr samhengi eins og Svanur var að VÆNA mig um.

Svanur.

Ég vil forðast málalengingar og útúr snúninga en verð að koma með eftirfarandi "málalengingu" sem er réttlát leiðrétting á misskilningi þínum.

Það var verið að minnast á það þarna og ganga út frá því að "veira" sé bráð-smitandi:

"It has long been assumed that the highly contagious measles virus (MV)......"

Og það er enginn: "reference for that" í greininni.

Sem sagt það er ekki tilvísun í rannsókn þar sem er "sannað", fullyrt eða sýnt fram á "bráðsmitandi-"veiru" sem greinarhöfundur/ar ganga út frá.

Þetta er alveg skýrt og óvéfengjanlegt !!

Það er ekki "reference" þarna en kannski þú hafir séð hann annarsstaðar í greininni.

Ég misskildi ekki neitt heldur misskildir þú mínar áherslur sem ég hef marg ýtrekað nefnt, og þarna er ekki "reference" í það sem ég vil fá frá þér og þú sagðist á sínum tíma hafa undir höndum !

Ef þú vilt "hjálpa" mér eins og þér finnst þú kannski hafa verið að gera þá hjálpaðir þú mér og vísindunum best með því að svara beint út frá því efni sem þú ert spurður um

Það hefði verið gaman að þarna væri grein sem hefur"reference" sem ég er að leita að og gott væri ef þessi "vísinda"-greinarhöfundur hefði haft hann.

Þetta er ekki aðalatriðið en, samt.

Kveðjur frá Kristjáni Ragnari Úlfi og félögum.

Ragnar (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 01:12

61 identicon

Kristinn og Svanur

Það er þannig að ég hef verið rukka Svan um tilvísanir (references) í vísindi sem sýna fram á það sem hann hefur fullyrt, meðal annars fullyrt það að "veirur" valdi mislingum, "mænusótt" o.s.frv.

Svanur lofaði því á sínum tíma og ekki var verið að hrista þetta fram ú erminni auðveldlega, auðmjúklega og af skilningi og samúð með sannleiksleitandanum.

Ég var bara að biðja um það, er eitthvað erfitt að skilja slíka beðni eða öllu heldur, eðlilega og réttmæta kröfu?!

Núna er þetta að skýrast og þú og Svanur látið í veðri vaka eða segið beinum orðum að þið trúið á þessa sjúkdómsvaldandi "veiru"-kenningu.

Ég er ekki að segja að það sé byggt á heimsku og ég sannanlega vona að svo sé ekki.

Ég hef bara spurt: Veldur "veira" mislingum, "mænusótt" ("mænuveiki", "lömunarveiki" "polio") o.s.frv.

Ef svo er þá hef ég farið fram á að fá að sjá afgerandi vísindi fyrir því, takk fyrir. Ég hef ekki neinar áhyggjur af litlum sætum veirum en fer varlega samt.

Svanur þarf ekki að hafa þetta Kristinn þarf ekki að hafa þetta það þarf engin að hafa þetta!

Ef engin hefur þetta þá er þetta bara einhver þvæla eða öfgastefna sem hefur verið byggð í kringum einhvers konar "trúar"- múgsefjunar- (consensus). Ég er ekki þannig að ég hugsi á þessa vegu:

"Hafa skal það sem sannara reynist".

Ég hef ekki heldur það sem hljómar best eða öllu heldur það sem hljómar hæst.

"Það bylur ávallt hæst í tómri tunnu" og það á svo sannarlega við um "vísinda-lygaa-áróður" og annan áróður, trúarofstæki, stjórnmálafólk, lýðsskrumara og auglýsingaskrumara.

Ég vil hafa skal það sem satt er og sannað eða leita svara, leiða og lausna þangað til hið sanna kemur í ljós. Trúi ekki bara á "vísindi" frumstæðra mann-apa sem eru frekar stutt á veg komnir myrðandi og drepandi börn hvers annars með aðstoð "vísinda".

Mér sýnist lífið vera þannig að það er alltaf hægt að finna eitthvað sem áhrif hefur á niðurstöðu vísinda eða "jöfnuna", ekki breytir það vísndum neitt, heldur sýnir fram á að "Alheimsleg-Efnafræði eða "Kosmisk-Kemi" verður seint fyllilega skilin, og þau öfl sem við búum yfir og getum kannski þjálfað upp til gleði og blessunar fyrir okkur sjálf og lífið.

Lífið virðist snúa um samlíf (symbiosis), jafnvægi o.s.frv.

Með allt þetta "efni" og allar þessar ósýnilegu bylgjur og orkumyndir sem eru í efninu eða Náttúrunni og Alheiminum sem hægt er að setja saman og taka sundur og beina frá eða að viðfangsefninu eða manneskjunni.

Ég játa það að mér finnst ótrúlegt að Míkró-Nanó stærð af veiru geti gert mikinn usla í líkamanum.

Við réttar krringumstæður geta gerlar þrifist í líkamanum og vefjum og líffærum hans.

Fólk er alla daga að búa til kringumstæður í líkama sínum fyrir þessi lífsform sem kölluð eru "bakteríur", gerlar, sveppir (fungus), mygla o.s.frv. Við kjöraðstæður blossar upp það sem við köllum sýkingar og er ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér en jú samt er það óeðllegt ástand og getur augljóslega verið lífshættulegt.

En já nóg um það afsakið Svanur að ég missi mig í þetta. Ég hef áður sagt að greinarskrif þín séu alveg með ágætum og vonandi á ég eftir að taka þátt í umræðum sem þú hrindir af stað, og vonandi get ég komið með uppbyggilegt og lífgefandi innlegg í það.

Takk fyrir mig.

Ragnar (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 02:18

62 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sælir

ATHUGIÐ kæru gestir hér!

Ég leyfi Ragnari að eiga síðasta orðið um þessi mislinga-veiru umræðu sem hefur ekki leitt til neinna breytinga í afstöðu þeirra sem tóku þátt og var ekki beint tengt efni greinarinnar.  Ég hef fengið mig fullsaddan af henni og mun ekki leyfa fleiri færslur um það efni hér.

Vilji menn hins vegar taka á efni greinarinnar og koma með athugasemdir um það er það velkomið eins lengi og þráðurinn er opinn (21 dagur eftir birtingu). 

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2009 kl. 03:26

63 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Svanur

Að efni greinarinnar, eða næstum. Hvað finnst þér um það þegar vísindaheimurinn og miðlarnir taka sér félagslega mótandi hlutverk?

Mér skilst t.d. að ýmsar hugmyndir er varða áfengi og fleiri vímuefni fái ekki hljómgrunn ef þær þykja líklegar til að auka neyslu efnanna. T.d. að hæglega sé hægt að útbúa efni sem veldur svipuðum áhrifum og áfengi, en litlum aukaverkunum. En það sé ekki gert því timburmenn hafi letjandi áhrif á drykkju.

Eða það hvernig læknaheiminum virðist vera uppálagt að tala um steranotkun, sem augljóslega* er ekki eins hroðalega vond fyrir líkamann og gefið er í skyn - séu þeir notaðir í hófi. En vegna ýmissa siðferðilegra spurninga þyki rétt að gera sem mest úr þeim áhrifum.

Ég átta mig á því að þetta er óttalega dylgjulegt hjá mér, órökstutt og ekki bent á heimildir. En látum það liggja milli hluta, ég er ekki að spyrja að því hvort þetta sé rétt, það held ég að það sé að vissu marki, hvað sem aðgengilegum gögnum um það líður.

Að því gefnu að þetta sé tilfellið er það ekki dálítill hnökri á trúverðugleika vísindaheimsins?

Ég hugsa þó að alltaf sé einhver að grufla í rannsóknum á hlutum sem ekki þykir í lagi að skoða, en þar enda þær rannsóknir ef miðlar taka sig saman um að viðhalda einhverri einni afstöðu til málanna.

Ég veit þó að blöð eins og New Scientist hafa fjallað fjálglega um skakka mynd almennings og margra fjölmiðla um skaðsemi ýmissa vímuefna sem dæmi. Svo kannski liggja þessi áhrif einmitt helst hjá almennum fjölmiðlum og því í raun annar angi af þeim vanda að þeir veiti ekki alhliða upplýsingar, heldur auglýsi afstöðu sem þeim hentar.

* m.a. sbr. myndina Bigger stronger faster.

Kristinn Theódórsson, 4.9.2009 kl. 07:07

64 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Kristinn og takk fyrir áhugaverðar vangaveltur og spurningar

Ég hef ekki heyrt um neitt það efni sem veldur svipuðum áhrifum og áfengi, en minni aukaverkunum.  Ef að það væri hægt, þá er líklegt að einhver hefði sett það á markað - löglegan eða svartan - fyrir löngu.  Það væri komið út hvort sem einhverjum líkaði það betur eða verr, út frá fælandi áhrifum timburmanna eða ekki.  Hvort að það sé æskilegt að koma með "betri" vímugjafa veit ég ekki og ég held að ekkert muni koma algerlega í staðinn fyrir áfengi vegna sögu þess og blöndunar í vínum sem hafa mikið bragð.  Auðvitað er ekki hægt að setja algert "aldrei" á þetta því það er svo ótrúlega margt hægt að gera í efnafræðinni.   

Ég þekki mun betur til steraumræðunnar og þar liggur margur hundur grafinn.  Hinn móralski tíðarandi (moral zeitgeist) spilar mikið inní þau mál.  Almenningur vill hetjur en í aðra röndina vill hann ekki vita af neinu svindli sem getur tengst afrekum þeirra því að það særir þjóðarstoltið.  T.d. var steranotkun Jóns Páls Sigmarssonar ekki tekin til umræðu að ráði þó að augljóst hafi verið að Kraflyftingasambandið klauf sig úr ÍSÍ til þess að forða Jóni Páli undan lyfjaprófi sem átti að taka á slembivöldum tíma eins og reglur sambandsins kváðu á um.  Jón Páll var það mikið elskaður af þjóðinni að það hafði enginn áhuga eða kjark til að gagnrýna hann fyrir þetta, a.m.k. ekkert sem heitið gat.  Ég hef séð marga fara illa á lyfjanotkun í kringum íþróttir og eru þar sterarnir ekki einu efnin sem þar hafa valdið skaða, heldur einnig þvagræsilyf, vaxtarhormón (HGH) og fleiri.  Vegna leyndarinnar kemst aldrei almennilega á yfirborðið hversu háa skammta menn eru að taka og það er ekki rannsakað hvaða áhrif það hefur á líkamann.  Öðru hvoru leggjast notendur stera inn á spítala vegna lifrareitrunar (steroid induced intrahepatic cholestasis and jaundice) sem veldur teppu á gallvegakerfinu og gulu.  Flestir ná sé sem betur fer en það getur líka farið illa.  Það sem er lítið rannsakað eru áhrif steranna á vöðva innri líffæra eins og hjartans, þindar og meltingarvegarins.  Anabolic sterar stækka hjartað og það hefur mögulega mjög slæmar afleiðingar eins og minnkað útflæði og viðkvæmni fyrir súrefnisskorti í innsta laginu og þannig auknar líkur á rafleiðnitruflunum (og hjartsláttartruflunum) eða drepi.  Þessi stækkun er mun meiri ef HGH er notað í leiðinni.  Svo eru ýmis áhrif á geðsmuni sem bæði geta verið góð og slæm af sterum.  Það hefur komið í ljós síðustu 10 árin eða svo að testósterón í eðlilegu magni fyrir líkamann er mjög mikilvægt og gott fyrir æðaheilsu og geðsmuni (drift, kynlöngun o.fl.).  Það hefur því lækkað þröskuldur fyrir því að mæla magn þess í blóði hjá karlmönnum sem hafa einkenni skorts og gefa það síðan í sprautum.  Hversu mikið af þessum nýja fróðleik um hormónið hefur komist til skila til almennings veit ég ekki en hef grun um að það sé af skornum skammti.

Það er oft óþarfa haf á milli fræðimanna í raunvísindum og almennings.  Það þarf sérhæfða blaðamennsku til að brúa þetta bil og því miður höfum við ákaflega lítið (nánast ekkert) af henni hérlendis og markaðsöflin og "það sem fólkið vill heyra" fær meira að ráða.  Ábyrgð vísindamannanna má heldur ekki gleyma því það mætti vera mun meira um það að opinberar stofnanir raunvísinda og heilbrigðiskerfis hafi hreinlega fræðslufulltrúa á sínum snærum sem vinni við það eitt að uppfræða.  Ég vona að ég sjái það gerast hér í náinni framtíð.

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2009 kl. 10:33

65 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Einn lokapunktur frá mér til fjöl-mannsins - sem snýr út úr því sem ég sagði (eins og mörgu öðru) - enda hugsanlega hluti af brandaranum.

Ég gagnrýndi aldrei að verið væri að spyrja spurninga um þau dæmi sem ég nefndi, það er sjálfsagt og nauðsynlegt. 

Ég gagnrýndi röksemdafærslur sem koma gjarnan frá þeim sem eru hættir að spyrja, þykjast vita svarið og afgreiða öll mótrök sem hluta af samsæri.

Valgarður Guðjónsson, 4.9.2009 kl. 11:35

66 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ok, lokapunktur enda hinn fjölnafna maður búinn að koma löngum punktum frá sér hér.  Ekki orð meira takk.  ;-)

Svanur Sigurbjörnsson, 4.9.2009 kl. 13:05

67 identicon

Sælir herramenn.

 Takk fyrir góða grein Svanur, eins og svo oft áður hittirðu naglann á höfuðið. Þú og nokkrir aðrir læknar, t.d. Magnús Jóhannsson standið ykkur vel í að veita mótvægi við útbreiðslu hindurvitna og vitleysu.

 Mislingaumræðan er orðin löng og ströng, en þó henni eigi formlega að vera lokið langar mig að benda á eina frumheimild: "Propagation in tissue cultures of cytopathogenic agents from patients with measles." eftir Enders J. F. og Peebles T. C. sem birt var í Proceedings of the Society for Experimental Biology and Medicine í júní 1954. Ég tel að þarna sé að finna upprunalega einangrun mislingaveirunnar og ræktun á henni. Til eru mun fleiri greinar sem hægt er að finna í gagnaveitum á borð við pubmed.com og gegnum hvar.is um ræktun mislingaveirunnar, einangrun og frekari rannsóknir. Ég veit ekki hvort hægt er að nálgast greinina á netinu en Ragnar og aðrir áhugasamir ættu að geta útvegað hana eða afrit gegnum bókasöfn, t.d. með millisafnaláni.

 Stór vandi í dag er eflaust sá að vísindagreinar eru komnar á slíkt hrogna-fræðimál að erfitt er fyrir einstaklinga sem ekki eru menntaðir á því sviði vísinda sem greinin fjallar um (sjálfmenntað eða stofnanamenntað) að skilja innihald greinarnar. Í slíkum tilfellum þarf að treysta á fræðimenn á því sviði sem við á eða einfaldlega að öðlast nægilega grunnþekkingu til þess að geta kynnt sér efnið. Umfang þekkingar í dag er svo gríðarlega mikið að ógerlegt er fyrir alla að kynna sér allt og allar rannsóknir á öllum fyrirbærum sem rannsakaðar eru. Mér þykir því ekkert óeðlilegt við að Svanur hafi ekki lesið grunnrannsóknir sem gerðar voru fyrir hálfum áratug á orsökum og meingerð mislingaveirunnar. Hann treystir sérfræðingum á þessu sviði, hann treystir á vísindalega aðferð og hið víðfræga "peer review". Frumrannsóknirnar eru engu að síður til og er hægt að rekja sig aftur á bak frá greinum samtímans gegnum heimildalista og einnig bjóða margir gagnagrunnar í dag upp á öfuga leit þar sem hægt er að sjá greinar sem vitna í viðkomandi rannsókn.

Ragnar, þú getur því lagst í rannsóknarvinnu og kynnt þér frumrannsóknir og afleiðingar þeirra sjálfur. Netið gerir verkið mun auðveldara en við höfum einnig aðgang að bókasöfnum hér á landi þar sem hægt er að fá upplýsingar og svo auðvitað millisafnslán. Svanur á ekki að þurfa að mata þig með upplýsingum sem eru þér aðgengilegar.



Mbk, Þór.

Þór Friðriksson (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 02:39

68 Smámynd: Morten Lange

Þú stendur þig með prýði, Svanur. Gott hjá þér að vera svona þolinmóður í rökræðunni, og líka gott hjá þér að ekki leyfa fleiri athugasmedir sem voru út fyri efninu, eftir að "umræðan" hefði farið nokkra hringi.

En ég vil samt ítreka að Penn and Teller, sem þú vitnar í  séu sjálfir að fara með bull, í þó nokkuð hátt hlutfall þátta.

Mjög lausleg úttekt á lista þætta sem eru  að finna á Wkipediu, (http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Bullshit!_episodes ), leiðir mér til þess tímabundan niðurstöðu að í þemum 10 - 20% af þáttunum eru þeir að hluta stýrðir af sina pólítiska sýn ( sem er á svipuðu sviði   og the Cato institute ) fremur en heiðarleika og leit að sannleikanum.

Hér eru upplýsingar um Penn and Teller  og Cato frá sourcvewatch :

http://www.sourcewatch.org/index.php?title=Penn_and_Teller:_Bullshit!

   ( Veit ekki alveg hversu vel treystandi vefsetrið sé, en held að þessar upplýsingar  standast ) 

Varðandni þættina í Bullshit, þá óttast mér til dæmis að eftirfarandi þættir innihalda talsvert af lýðskrumi :

  • Environmental Hysteria   ( hef séð )
  • Eat This !   
  • Being Green  ( hef séð )
  • World Peace 
  • Organic Food 

Ég segi ekki að allt sé rangt sem þeir segja um þessi efni. Sumt er meir að segja vel til fundið. 

En þættirnir munu plata marga. Eða styrkja þá í trú sína t.d. um að allt sem snýr að umhverfinu sé væl   - og það með aðferðum sem eru ósvifin.  Og það þegar kemur að eitt mikilvægustu málunum framundan - lífsskilyrði "siðmenningar" okkar.

Morten Lange, 8.9.2009 kl. 16:29

69 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Morten

Ég sá flesta þættina í seríu 1 og nokkra úr seríu 2 af P&T.  Mér þótti allir þeir þættir góðir nema sá um óbeinu reykingarnar.  Þátturinn um umhverfisverndarsinnana var fyrst og fremst til þess að gagnrýna alls kyns mótmæli sem voru ekki byggð á gagnrýnni hugsun.  Ég skyldi þáttinn ekki þannig að þeir væru að gera lítið úr umhverfisvernd almennt.  Ég get ekki dæmt um síðari þætti, en ég sá þáttinn um detox í fyrradag og var ég sammála niðurstöðu þeirra þar, en ekki aðferðinni sem þeir notuðu til að sýna fram á mál sitt.   Þeir rembast talsvert við að vera fyndnir með slæmu orðbragði og þetta hættir að vera fyndið eftir nokkra þætti.  Þættirnir eru sýndir 3-4 árum of seint hérlendis því að nú er það ekki lengur eitthvað óvænt að gagnrýna kukl tæpitungulaust.  Hluti að aðdáum minni á þessum þáttum fyrir 6 árum síðan þegar ég sá þá í New York, var að þarna voru loksins komnir einhverjir í sjónvarpið með þætti sem tóku á vitleysunni og gátu sýnt fram á ýmsa hluti á einfaldan máta.  Þeir riðu á vaðið.  Í kjölfarið þarf vandaðri þætti, stýrt af fagfólki. 

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 9.9.2009 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband