Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Hitnun jarðar - dæmin eru allt í kring

Ég horfði í kvöld á heimildarmyndina "an inconvenient truth" sem útleggst á íslensku "óþægilegur sannleikur".   Myndin er um hitnun jarðar og skilaboðin eru gefin af fyrverandi varaforseta Bandarríkjanna, Al Gore á mjög skýran, vísindalegan og sjónrænan máta.  Ég er mjög gagnrýninn á allt sem rétt er að mér þegar kemur að rannsóknum og vísindum, og oft finn ég galla á Albert Arnold Gorestaðhæfingum manna, t.d. of mikið lagt upp úr vissum rannsóknum eða þær hreinlega ekki túlkaðar rétt.  Al Gore fer ekki nákvæmlega í aðferðafræði eða einstaka vísindavinnu en þau sönnunargögn sem hann kynnir eru úr svo mörgum áttum og frá svo mörgum aðferðum að þau eru mjög líkleg til að standast og þá meina ég MJÖG. 

Nýlega var frétt af dönskum vísindamanni sem hélt því fram að hitnun jarðar væri líklega af öðrum orsökum (breyting á sólinni) en aukinni losun koltvísýrlings.  Jafnvel þó að sá danski hefði rétt fyrir sér eða rétt að hluta, hefur mynd Al Gore sannfært mig um að við höfum hreinlega ekki tíma né efni á (þá á ekki bara við fjárhagslegt "efni á") því að bíða eftir því að sjá hvort hann hafi rétt fyrir sér.  Eftir 30-50 ár í viðbót af sömu lifnaðarháttum og orkustefnu heimsbyggðarinnar verða þegar orðnar verulega skaðlegar breytingar.

Verðum við ekki að skipta um orð, þ.e. velja eitthvað annað en "gróðurhúsaáhrif" yfir þessa skelfilegu þróun, t.d. "ofhitunaráhrif" eða "svækjuáhrif".  A.m.k. þarf orðið að vekja fólk til umhugsunar.  Í mínum huga eru gróðurhús þar sem ég fæ ljúfengar gúrkur og banana.

Ég hef ekki kynnt mér hitnun jarðar neitt að ráði en hef samt vitað af tilgátum þess eðlis frá því að ég var í menntaskóla (22 ár síðan).   Mér brá talsvert árið 2003 (minnir mig) þegar fréttir bárust þess efnis að skip (ísbrjótur) hafi í fyrsta sinn komist inn á miðjan Norðurpólinn.  Fréttir af hopandi jöklum á Íslandi og hvert hitametið af fætur öðru.  Svo bara fyrir 3 dögum sá ég að grasið var allt í einu orðið grænt!!  Ég er ekki náttúrufræðingur en þau 30 ár eða svo sem ég hef tekið eftir náttúrunni í kringum mig man ég ekki eftir grænum túnum í apríl á höfuðborgarsvæðinu.  Svo þetta í gær, óhugsandi 22,6 gráðu hiti á Norðurlandi (Ásbyrgi) og um 20° á Skagaströnd hjá tengdapabba (verðandi Wink)  Það er hætt að snjóa af einhverju viti á veturna o.s.frv.  Frá 1970 hafa orðið meiriháttar breytingar á veðurfari.  Allt þetta staðfesti Al Gore í heimildarmynd sinni. 

Nú, ég hef nú ekki tekið þessa jarðarhitnun of alvarlega.  Hugsanir manns hafa verið dálítið í áttina til hmm... "það væri nú gott að fá heitari sumur á klakanum svo maður þurfi ekki að fara til sólarlanda alltaf hreint" eða "æ, ekki saknar maður þungra snjóvetra - maður fer bara á skíði í ölpunu... brekkurnar eru hvort eð er alltof litlar hérna".  Eitthvað í þessa veru.  Vissulega var maður farinn að hafa áhyggjur af hugsanlegri hækkun sjávar um 1 m eða svo, og svo aukinni tíðni hvirfilbylja í útlöndum, en Ísland er svo hátt yfir sjávarmáli og langt frá "hvirfilbyljalandi".   Eftir að hafa séð þau gögn sem Al Gore kynnti fyrir mér í kvöld, líður mér eins og fávísum hálfvita og með vissri réttu.  Hvers vegna hafði maður ekki kynnt sér þetta áður?  Hvers vegna hafði maður ekki skoðað betur mikilvægi Kyoto samningsins? 

Hætturnar sem steðja að hitnun jarðar eru mun meiri en ég hafði nokkru sinni gert mér í hugarlund og á mun fleiri sviðum en ég gat ímyndað mér.   Hér erum við að tala um 6 metra hækkun á yfirborði sjávar (bráðnun helmings Grænlandsjökuls og álíka svæðis úr Suðurskautsjöklinum) sem þýðir að heimili um 100 milljón manna færi á kaf og líklega yrði Vesturbær Reykjavíkur að eyju.  Það mætti því t.d. hætta að hugsa um framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni því hún yrði "Sjómýrin".  Við fengjum Mosquito flugur til Íslands með tilheyrandi sjúkdómum.  Lúsin sem nú hefur skemmt mikið af grenitrjám borgarinnar færi hamförum (hún drepst í góðu frosti).   Meiri háttar breytingar yrði á lífríkinu og meiriháttar faraldrar nýrra sjúkdóma gætu breiðst út.   Við höfum nú þegar dæmi; SARS og West Nile Virus heilahimnubólgan en hún byrjaði í NY borg þegar ég var þar 1998 og hefur nú breiðst um öll Bandaríkin.  Þessi veirusýking berst með mosquitoflugunum og er banvæn í frekar háu hlutfalli þeirra sem veikjast.  Engin lækning er til.  Sem betur fer er þessi faraldur lítill enn sem komið er. 

Á Íslandi getum við gert margt til að minnka losun á koltvísýrlingi og við þurfum að taka verulega New Oreans drekkt í fárviðriábyrga afstöðu þó að við séum ekki meðal þeirra sem menga mest.  Bandaríkjamenn og Ástralir hafa ekki skrifað undir Kyoto samþykktina.  Við þurfum að þrýsta á þessar þjóðir því Bandaríkjamenn menga þjóða mest.  Ég skora á alla sem þetta lesa að fara út í næstu myndbandaleigu og horfa á mynd Al Gore, "óþægilegan sannleik" frá byrjun til enda.  Þetta er mynd sem varðar trúlega það sem mestu skiptir fyrir alla okkar framtíð og framtíð komandi kynslóða.  Mér er talsvert niðri fyrir.  Vanti okkur raunverulegt baráttumál, góðu bloggarar, þá er það hér á þessum vettvangi.  Hitnun jarðar verður að snúa við!

Upplýsingar um þessa mikilvægu heimildarmynd (sem fékk Óskarsverðlaunin í ár) og hætturnar af hitnun jarðar má finna hér

Hér að neðan er hlekkur að pdf skjali með upptalningu á 10 atriðum sem einstaklingar geta framkvæmt til að minnka losun "gróðurhúsalofttegunda" (sem mætti frekar kalla "ofhitunargös").  Sumt af þessum atriðum á frekar við um aðstæður í Bandaríkjunum en ábendingarnar eru góðar og gildar engu að síður.


mbl.is Hitinn í 23°C í Ásbyrgi samkvæmt sjálfvirkum mæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Varnir Íslands" til sölu!

Ég vissi ekki betur en að háttvirtur utanríkisráðherra, frú Valgerður Sverrisdóttir væri í óformlegri ferð til viðræðna við Norsk stjórnvöld um hugsanlegt samstarf í varnarmálum.  Daginn eftir var svo tilkynnt að "óformlegur" samningur hefði verið undirritaður á milli þjóðanna og samkvæmt honum fengju Norðmenn (og Danir) aðstöðu með flugher sinn til æfinga í íslenskri fluglögsögu gegn einhverri þjónustu í björgunarmálum. 

Þetta kom verulega flatt upp á mig.  Vissulega hafði maður heyrt um að einhverjar þreifingar væru í gangi um samstarf þjóðanna en SAMNINGUR!? og það strax núna, 5 mínútum fyrir kosningar.   Ég hefði viljað sjá miklu meiri umræðu um þetta mál.  Varnar- og öryggismál þjóðarinnar eru ekkert grín og eiga skilið mikla umræðu.  Það eru friðartímar og það hastaði ekki að drífa í þessu.  Hver stjórnmálaflokkur hefði átt að fá að lýsa skoðun sinni í opinberri umræðu á RÚV / Stöð 2 og þetta mál hefði átt að fara fyrir þverpólitíska nefnd (utan varnamálanefndnar) sem hefði svo skilað áliti sem kynnt væri þjóðinni.  Í viðtali við fréttamann Mbl útilokar Geir Haarde ekki að einnig verði rætt við Þjóðverja.  Hvað er í gangi?  Er þetta gert í anda einkavæðingar?  Á ekki bara að gera samninga við óháð málaliðaherlið líka?

Þetta mál sýnir mér enn og aftur að það stórvantar í lýðræðislega hugsun í þessari ríkisstjórn.  Hún æðir áfram með stórar ákvarðanir í krafti valda sinna og vissu um áframhaldandi völd.  Ég bið þjóðina að velja þroskaðra fólk í ríkisstjórn.  Það skiptir verulegu máli að gefa stjórnarandstöðunni tækifæri þann 12. maí.


mbl.is Forsætisráðherra segir varnir Íslands tryggðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr limbó

Þetta er átakanlegt.  Vesalings kaþólsku prestarnir hafa legið yfir þessu "vandamáli" síðustu ár og hafa nú tekið út þessa bábilju.  Það er gott að það fækkar ruglinu hjá þeim en því miður eru önnur váleg tíðindi úr Vatikaninu.  Erkibiskup Austurríkis er mikill sköpunarsinni og vinnur í því að gera fólk afhuga þróunarkenningu Darwins.  Páfinn daðrar við þetta líka og setur sköpun Guðs einhvers staðar með þróunarkenningunni.  Þetta er í sókn hjá þeim því fylgjendum þeirra sem trúa bókstaflega á sköpunarsöguna fer fjölgandi en með nýjum umbúðum "vitsmunalegrar hönnunar (guðs)" halda þeir að hún sé fræðileg og á borð berandi sem sannleikur.  

Það er hreint hlægilegt en samt hrollvekjandi að lesa í þessari frétt að Vatikanið hafi "rannsakað" þetta í áratugi.  Þetta eru ekki neinar rannsóknir ekki frekar en karp presta á prestaþingi nýlega.   Þetta er gróf misnotkun á hugtakinu rannsókn.  Undanfarin ár hafa forsvarsmenn trúfélaga víða á Vesturlöndum (sérstaklega USA) misnotað vísindaleg hugtök í þeim tilgangi að slæva vitund fólks á því hvar mörk vísinda og hindurvitna / trúar liggja.  Þetta hefur tekist að nokkru leyti og það er kominn tími til að spyrna við fótum.


mbl.is Óskírð börn ekki lengur í forgarði vítis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákvörðun gegn stjórnarskrá landsins

Í gær ákvað mikill meirihluti presta og guðfræðinga (66) á Prestaþingi Íslands á Húsavík, að styðja ekki tillögu 22 presta sem fóru þess á leit við prestaþingið að það styddi lagafrumvarp það sem fékk ekki afgreiðslu í vetur og var á þá leið að heimila ætti trúfélugum að gefa saman samkynhneigð pör

Þarna braut trúfélag sem nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskránni á ákvæðum hennar um jafnrétti. 

Þetta varðar hreinlega þau mannréttindi að allir söfnuðir megi taka sína sjálfstæðu ákvörðun um það hvort þeir vilji gefa saman samkynhneigða eða ekki.  Ef frumvarpið fengi brautargengi og samþykkt á Alþingi næsta haust mætti Þjóðkirkjan eftir sem áður ákvarða sjálf hvort hún vilji gefa saman samkynhneigða.  Hins vegar verður "Þjóðkirkja" að standa undir nafni og því yrði það erfiðara fyrir forystu hennar að neita samkynhneigðum um vígslu sé lagaheimild til þess til staðar.  Forysta kirkjunnar ákveður því að letja stjórnvöld í þessum efnum svo að hún þurfi ekki að taka ákvörðun sjálf.  Þetta er með því lágkúrulegra sem hægt er að hugsa sér, hvað varðar sjálfsábyrgð og hugrekki til að standa á eigin spýtur við eigin skoðanir og ákvarðanir.  Nei, meirihluti presta á prestaþingi getur ekki unað trúfélögum á Íslandi að hafa sjálfákvörðunarrétt í málinu, til þess að geta varpað ábyrgðinni á löggjafann.  Vissulega liggur ábyrgðin nú í höndum löggjafans en í vetur guggnaði ríkisstjórnin á því að láta þetta mál fram ganga, eftir að Karl Sigurbjörnsson biskup, bað um frest í áramótaræðu sinni.  Það er augljóst að 66:22 meirihluti er ekki neitt á leiðinni að breyta skoðun sinni og því er ekki um frest að ræða.  Landsþing Sjálfstæðisflokksins ályktaði að það myndi styðja tillöguna á komandi þingi.  Ekki man ég eftir því að landsþing Framsóknarflokksins hafi gefið frá sér neitt slíkt, enda er hæsta hlutfall trúaðra þar innanborðs á meðal stjórnmálaflokka. 

Enn og aftur kemur það í ljós hversu óeðlilegt það er að trúfélag, þó að það sé það elsta og stærsta, sé verndað af stjórnarskráratkvæði og hafi þannig óeðlileg völd innan stjórnkerfi landsins.  Sú sama stjórnarskrá kveður á um að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kynhneigðar eða trúar, en Þjóðkirkjan er það afl á Íslandi í dag sem stendur fyrir hve mestu misrétti og misnotkun á stöðu sinni í þjóðfélaginu í dag.  Ákvörðun prestaþingsins er ekki einungis móðgun gagnvart samkynhneigðum heldur einnig brot á trúfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt trúfélaga.  Þau lög sem eru í gildi í dag eru mannréttindabrot.  Það eru mannréttindabrot að meina trúfélögum að gefa saman fólk óháð kynhneigð.  Það er hin skýlausa húmaníska krafa nútímans að þessi mannréttindi séu virt.

Ríkisstjórnin og Þjóðkirkjan hafa einnig brotið á siðrænum húmanistum, þ.e. fólki sem aðhyllist nútíma siðferði án trúar á persónulegan guð eða yfirnáttúru.  Það er brotið á jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar með því að gefa lífsskoðunarfélögum ekki sömu réttindi og trúfélögum.   Lífsskoðunarfélög fjalla um siðferði, heimsmyndina og félagslegar athafnir rétt eins og trúfélög, en innihalda ekki átrúnað á yfirnátturlega hluti.   Í dag er aðeins eitt slíkt félag starfandi á Íslandi en það er Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Samkvæmt stórri könnun Capacent Gallup í lok árs 2004 töldu um 19% landsmanna sig trúlausa.  (Um 75% töldu sig trúaða en aðeins 49% töldu sig kristna.  Þrátt fyrir þetta voru um 84% landsmanna í Þjóðkirkjunni)  Trúlausir hafa ekki skipulagt sig í hópa eða fyrr en nýlega.  Siðmennt var stofnað árið 1990 og hefur haldið borgaralegar fermingar árlega. 

Það er einkum tvennt sem Siðmennt vantar uppá til að fá sömu réttindi og trúfélög.  Í fyrsta lagi þarf félagið að fá skráningu hjá ríkinu og í öðru lagi þau réttindi sem skráningunni fylgja.   Trúfélög skrá sig hjá ríkinu skv. lögum um skráningu trúfélaga sem voru endurskoðuð árið 1999.  Til þess að fá skráningu þarf að uppfylla eftirfarandi og vitna ég hér í lögin:

"Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.
Enn fremur er það skilyrði skráningar að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðka trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld."

Siðmennt uppfyllir öll ofangreind skilyrði utan þess að það er ekki trúfélag, heldur lífsskoðunarfélag.  Af ofangreindu má sjá að það geta ekki hvaða félög sem er sótt um skráningu.  Siðmennt fékk Oddnýju Mjöll Árnadóttur, lögfræðing og sérfræðing í mannréttindamálum til að gera greinagerð um málið og var það niðurstaða hennar að Siðmennt uppfyllti þann kjarna málsins að byggja starfsemi sína á siðferðislegri sannfæringu sem hefði alþjóðlega tilvísan í viðurkennda heimsspeki / lífsskoðun og væri því sambærilegt trúfélagi.  Lífsskoðunarfélög ættu að njóta sömu stöðu og trúfélög hjá ríkinu.  Í Noregi hefur eitt stærsta húmanistafélgag heims, Human Etisk Forbund, notið þessarar stöðu allar götur frá 1979. 

Eftir að hafa verið neitað tvö ár í röð um skráningu, leitaði Siðmennt eftir lagabreytingu í allan s.l. vetur og fór fyrir Allsherjarnefnd Alþingis með kynningarerindi s.l. haust.  Lagabreytingin fólst í því að bæta inn ákvæðum um lífsskoðunarfélög þannig að þau fengju bæði skráningu og sóknargjöld.  Með skráningunni fengi Siðmennt væntanlega einnig rétt til að halda löggiltar nafngiftir og giftingar.  Siðmennt hefur lýst því yfir að það gæfi saman samkynhneigða fáist til þess nauðsynlegar lagabreytingar.  Erindi Siðmenntar fékk ekki afgreiðslu hjá Allsherjarnefnd og síðar hafnaði Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra beiðni Siðmenntar um að bera fram lagatillöguna á Alþingi.  Hann sagði í svarbréfi sínu að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði öðru þarfara að sinna.  

Þetta er sú virðing sem Siðmennt fékk frá dóms- og kirkjumálaráðherra, félag sem hefur fermt yfir 900 börn í þessu landi, gefið álit sitt á fjölda siðferðislegra álitamála (nú síðast frumvarpinu um rannsóknir á stofnfrumum) fyrir nefndir borgar og alþingis, barist fyrir réttindum samkynhneigðra og fjölda annarra minnihlutahópa í landinu (m.a. innflytjenda) og er beint eða óbeint málssvari mjög stórs hóps góðra og gildra Íslendinga sem trúa ekki á guð eða yfirnátturu.  Nú stendur málið þannig að nýr lögmaður Siðmenntar undirbýr lögsókn gegn íslenska ríkinu.  Það er dapurlegt en ítrekaðar tilraunir til að fara siðmenntaðar leiðir samræðunnar hafa mætt skilningsleysi hjá stjórnarflokkunum, rétt eins og réttarstaða samkynhneigðra til að giftast, hjá forystu Þjóðkirkjunnar.

Skyldi engan undra að ég styð ekki þessa ríkisstjórn og ekki eru þessir hlutir ekki eina ástæðan.  Kjör aldraðra og öryrkja, miðstýring og fjársvelti heilbrigðiskerfisins, með tilheyrandi biðlistum, stimpilgjöld, óábyrg stóriðjustefna (setja ábyrgðina á sveitarfélögin ein), óbjóðandi aðstaða fyrir fanga og fangaverði, kæruleysi í innflytjendamálum, ómannúðleg innflytjendalöggjöf ("24 ára" reglan) og áframhaldandi kvótakerfi í fiskveiðistjórnun eru meðal annarra ástæðna. 

Allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst yfir stuðningi við Siðmennt og ég þykist viss um að þeir vilji leyfa trúfélugum að ráða sínum málum hvað giftingar varðar.  Í þágu bættra mannréttinda í landinu þarf að koma þessari ríkisstjórn frá.  Hún getur ekki einu sinni haldið á vel efnahagsmálunum en það hefur verið helsta hnoss hægrimanna fram til þessa.  Ég hvet fólk til að kjósa annan hvorn stóru stjórnarandstöðuflokkanna.  Það er besta tryggingin fyrir nýrri ríkisstjórn.   Frjálslyndir eru best úti því þeir væru vísir til að fara í stjórnarsamstarf með xD og xB.   Íslandshreyfingin, þrátt fyrir góða stefnuskrá er hreinlega ekki tilbúin og því er hætt við að atkvæði til hennar fallli dauð niður og gagnist helst ríkisstjórnarflokkunum. 

Það þarf að setja aðskilnað ríkis og kirkju á dagskrá í stjórnmálum.  Ég auglýsi eftir þeim stjórnmálaflokki sem hefur þann kjark að setja málið hátt á dagskrá og af miklum dug.  Sjaldan hefur það verið jafn augljóst og nú að "Þjóðkirkjan" er bara forneskjulegur trúarklúbbur sem vill einungis fara sínar eigin leiðir, óháð meirihluta fólks í trúfélaginu.  Sjaldan hefur það verið jafn augljóst að prestar hennar eiga að vinna fyrir eigin brauði, hjá söfnuði sem vill mæta í kirkju hjá þeim og skrá sig inn við 18 ára aldur en ekki sjálfkrafa við fæðingu.  Sjaldan hefur það verið jafn ljóst að ríkið á ekki að halda uppi skóla trúfélags í Háskóla Íslands og hafa svo presta á himinháum launum um allar trissur.  Þjóðkirkjan kostar okkur 3.5 milljarð á ári plús kostnað við Guðfræðideildina.  Hér er ekki um lífsnauðsynlega starfsemi að ræða og hún ætti að vera einkamál hvers og eins utan þess að eðlilegt getur talist að ríkið komi að kostnaði og skipulagi við jarðsetningu / líkbrennslu látinna. Það er kominn tími til að einkavæða víðar en í bankakerfinu.   Ætli margir fjárfestar myndu flykkjast að til að kaupa hlut í prestakalli?


mbl.is Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cheerios-bandalag?

Nú virðist sem Kaffi-bandalagið sé nær úti.  Frjálslyndir ofgerðu innflytjendamálinu og fengu xS og xV á móti sér.  Samfylkingin missti axlarböndin og expressovélina þegar Jón Baldvin jarðaði flokkinn sinn í Silfri Egils í vetur og hefur verið hálf vængbrotin síðan.  Mulningsvélar xD og xB fóru í gang og þeir fylgismenn þeirra sem alltaf eru að nöldra um hversu þeir standa sig illa en þora ekki að kjósa neitt annað þegar nær dregur, fóru til síns heima.  Ingibjörg Sólrún átti skikkanlegan Landsfund en hún bar sig of mikið saman við stóra xD.  Það styrkti hana og flokkinn að fá Monu Sahlin og þá norsku en enn vantar einhverja sannfæringu.  Það er reyndar einvalalið í Samfylkinginunni.  Í gær skrifaði Ingibjörg Sólrún í Mbl og sagðist geta leiðrétt launamisrétti kynjanna.  Vissulega er umræðuefnið þarft en hún þarf að velja aðra slagi líka.  Hún þarf að sýna að hún sé fulltrúi beggja kynja.  Hún er kona og því gæti körlum fundist að hún sniðgangi þá.  Feministinn Steingrímur J. Sigfússon á ekki við þann vanda að stríða einfaldlega vegna þess að hann er karl.  Honum hefur tekist að sanna sig sem fulltrúa jafnréttis.

Nú hamast Jón Baldvin við að laga þá skemmd sem gagnrýni hans á Samfylkinguna olli.  Hann kryfur Steingrím J til mergjar í lesbókargrein Mbl fyrir viku síðan og nú í Blaðinu nýlega tekur hann efnhagsstjórn og utanríkismál xD og xV til bæna.  Landbúnaðarstefnu xB tekur hann í nösina á þeim forsendum að hún ali á okursamfélagi í skjóli tvöfalt hærri verndartolla en tíðkast í ESB.  Það er ekki hægt annað en að dást að málflutningi hans fyrir mesta parta.  Hann leiðir að því líkur að xS sé rétti valkosturinn af því að hinir eru hreinlega ómögulegir.  Hvergi fer hann beinum fögrum orðum um forystu, frambjóðendur eða skipulag Samfylkingarinnar.   Einhver maðkur virðist vera í mysunni sem þó ætti að vera vel æt.  Ekki eyðir hann miklu púðri í Frjálslynda enda hafa þeir sýnt mikinn dugnað við að veikja traust kjósenda á sér, sérstaklega kvenna.  Hann sýnir Íslandshreyfingunni samúð en framboðið kom of seint fram og hefur ekki náð megin tilgangi sínum, þ.e. að ná fylgi á meðal umhverfiselskandi fólks í xD og xB. 

Nú í síðustu Capacent Gallup könnun og könnun Fbl liggur fyrir að með atkvæðum til handa xF, xÍ og Baráttusamtakanna, falla 8.2-8.4% atkvæða dauð niður haldi þau áfram framboði.  Eitt höfuð markmið þessa framboða er að fella ríkisstjórnina því hún hefur verið hinn stóri þrándur í götu þeirra í málefnum aldraðra, umhverfisins og fiskveiðikerfisins.   Réttast væri að þessi framboð drægju sig til baka og bæðu kjósendur sína að kjósa xS eða xV, nái þeir ekki 5% hálfum mánuði fyrir kosningar. Auðvitað er ekki búast við því að xF hætti því þeir hafa 3 (+2 gefins) þingmenn fyrir sem munu berjast til þrautar til að halda vinnu sinni og áhrifamætti en hin framboðin tvö hafa ekki eins miklu að tapa.  Sjálfsagt vill xÍ ekki verða þess valdandi að xF haldi velli þar sem Frjálslyndir styðja stóriðju og því má segja að það aukamarkmið xÍ haldi þeim að hluta til gangandi.   Baráttusamtökin eru gjörsamlega andvana fædd, því eins máls flokkar eiga hreinlega ekki erindi á Alþingi, sama hversu göfugt málefnið er.  Þau ættu hiklaust að draga framboð sitt til baka og hjálpa þannig við að fella ríkisstjórnina.  Þora þau að meta stöðuna kalt?

Ein rökin fyrir því að kjósa annað en núverandi ríkisstjórnarflokka er "spillingin" í kerfinu.  Jón Baldvin leiðir að því líkur að langur tími við völd leiði óumflýjanlega af sér misnotkun á kerfinu og óeðlilega valdbeitingu.  Á hinn bóginn má segja að langur tími við stjórnvölin skili af sér dýrmætri reynslu og það er ekki sjálfgefið að fólk spillist með tímanum.  Hins vegar eru ýmsar vísbendingar um spillingu og misnotkun valds. 

Stjórnarflokkarnir búa við óeðlilegt ráðherraræði og hin óbreytti þingmaður má síns lítils.  Stór mál fyrir þinginu fá oft skelfilega lítinn umræðutíma og eru keyrð í gegn án þess að gefa stjórnarandstöðu tækifæri til að koma með ábendingar sem gætu reynst þarfar.   Engar tillögur stjórnarandstöðunnar eru samþykktar bara af því að þær koma frá þeim.   Það er eins og það sé ekki sama hvaðan gott kemur.  Þá voru samþykktir Halldórs og Davíðs um að taka þátt í lista hinna viljugu þjóða sérlega óforskammaðar og ólýðræðislega teknar.  Margt hefur verið gagnrýnisvert í einkavæðingu bankanna og mannréttindamálum er illa sinnt.  Íslandi hefur eina af ströngustu innflytjendalöggjöfum álfunnar og er hin ómannúðlega "24 ára" reglan eitt dæmið um slíkt. 

Framsóknarflokkurinn hefur raðað sínu fólki í stöður í stjórnkerfi heilbrigðiskerfisins og gæðingar þeirra gera endalausar skoðanakannanir á heilsugæslustöðvunum sem kosta mikið en skila engum nýjum ákvörðunum.  Miðstýring hefur aukist og stöðvarnar fá nær ekkert sjálfstæði auk þess sem búið er að skera á rannsóknarstarfsemi heilsugæslulækna.  Forvarnarstarfi er hvergi nógu vel sinnt.  Framsókn hefur haldið Heilbrigðisráðuneytinu í 12 ár og er að gera lækna brjálaða.  Geir lýsti yfir sterkum vilja til að taka yfir heilbrigðisráðuneytið í næstu ríkisstjórn en það er snjöll taktík.  Með þessu sefar hann óánægða sjálfsstæðismenn sem fá nú trú á því að heilbrigðiskerfinu verði kippt í liðinn. 

Er spilling?  Ég hef ekki óyggjandi svar en stjórnarmistök og bíræfni stjórnarflokkana s.l. 12 ár nægja mér til að kjósa annað.  Óskastjórnin mín er Samfylkingin, Vinstri grænir og Íslandshreyfingin.  Í þessum flokkum er mikið af hæfileikafólki og nægri reynslu til að halda þétt um stjórnvölin. 

Með nýjum flokkum í ríkisstjórn munu koma aðrar áherslur og þjóðin þarf slíka breytingu.  Það þarf að hleypa fersku blóði inn og hrista upp í ráðuneytunum og stjórnsýslunni.  Mannréttindamálin og velferðarmálin þurfa meiri athygli og framþróun.  Umhverfið og náttúran þurfa hvíld.  Efnahagskerfið þarf kælingu og þ.a.l. mun hægja á streymi útlendinga hingað og þeir sem fyrir eru fá meiri athygli til aðlögunar.  Þessir hlutir fást ekki með núverandi stjórnvöldum.  Núverandi stjórnvöld eru of nátengd stóriðju og hagsmunaðilum til þess að geta breytt stefnu sinni.  Fái þau umboð enn á ný mun ekkert halda aftur af þeim til frekari stóriðju.  Þau hafa dælt í kerfið peningum undanfarna mánuði til að gera fólk ánægt.  Ég dáðist að þjóðinni lengi vel því fólk virstist ekki bíta á agnið og hver könnunin af fætur annarri sýndi að stjórnin var fallin, en nú hefur mörgu hugsandi fólki brostið kjarkur og það hlaupið í "öryggið" hjá xD.  Ég skora á þetta fólk að hugsa lengra en þeirra eigin hagsmunir ná til.  Ég skora á það að hugsa um heildarhagsmuni þjóðarinnar, um gildi þess að hrista duglega upp í kerfi sem er að rotna og gefa þjóðinni frí frá stóriðju næstu árin. 

Samkvæmt könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins kom í ljós að aðeins örlítið brot barna okkar vill vinna í verkavinnu þegar það vex úr grasi.  Flest vilja verða "sérfræðingar" á einhverju sviði.  Vissulega verður það alltaf svo að ákveðinn hluti þjóðarinnar mun vinna verkavinnu en það er ekki rétt að hunsa þennan vilja.  Það væri heimskt að setja öll eggin í stóriðjukörfuna og reyna ekki til þrautar að skapa hér sterkara (verk)menntasamfélag með fjölbreytni að leiðarljósi, jafnframt því að geta sagt með stolti að við hefðum staðist það að leggja náttúruna undir mengandi og plássfrekan iðnað.  Það er áhyggjuefni að aðeins 2% barnanna sáu fyrir sér vinnu við tölvur og því þarf a leggja meira fé til menntunar og fjölbreytni í þeim geira.  Það er mikil framtíð í hugbúnaðargerð og þarna þarf að verpa nýjum eggjum.

Fyrst að Kaffi-bandalagið kólnaði er ekki bara tilvalið að stofna til Cheerios-bandalags?  Cheerios hringirnir rúlla og það þarf nýtt bandalag einmitt að gera.  Ég vil biðja stjórnarandstöðuflokkana að ganga nánast bundnir til kosninga, þ.e. að þeir lofi að leita f.o.f. samstarfs innbyrðis eftir kosningar.  Framkoma þeirra í garð hvors annars þarf að endurspegla samstarfsvilja.  Hér er tækifæri til að sýna eitthvað fram yfir stjórnarflokkana sem hamast nú við að níða hvorn annan niður. Hér gildir hið sígilda; sameinuð stöndum við og sundruð föllum við.  Cheerios í skálina takk!


In vivo?

Það er auðvelt að drepa veirur í tilraunaglasi (in vitro) en langur vegur í að hægt sé að nota mörg veirudrepandi efna í lyf sem nær að komast gegnum meltingu maga og garna og koma að notum í blóði og vefjum líkamans (in vivo). 

Í þessa frétt vantar veigamiklar upplýsingar, þ.e. hvort einhverjar vísbendingar eru til þess að Pensím sé hægt að nota innvortis.  Ef svo er ekki, þá er alveg eins hægt að koma með frétt um það að joðspritt drepi veirur.

 


mbl.is Penzím vinnur bug á flensuveirum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refsileiður prestur

Prestar nútímans eru sumir hverjir nokkuð hugaðir.  Þeir gefa stundum bara skít í Biblíuna og trúfræðin.  John nokkur Jeffrey virðist hafa fengið of mikið af þeim gamla og ákvað að bæta smá aðfinnslu í anda nútíma siðfræði í predikun sína. Sr John Jeffrey

John sagði að Guð hefði verið ógeðslegur í refsigleði sinni og taldi það viðbjóð að láta krossfesta son sinn Jesú svo aðrir yrðu ekki í vegi fyrir reiði hans vegna synda mannkyns.  John tiltekur í ræðu sinni hversu óþolandi hann telur þennan reiða og kvikindislega Guð:

"What sort of God was this, getting so angry with the world and the people he created, and then, to calm himself down, demanding the blood of his own Son?"

Undir lok ræðunnar túlkar hann Guð sem þann sem kemur niður til mannanna og tekur þátt í þjáningum þeirra. 

Mér sýnist að séra John Jeffrey sé hér að koma með enn eina flóttaleiðina fyrir voðaverk Guðs.  John virðist ekki lengur trúa á eina af höfuð kenningum kristninnar, þ.e. upprisuna og fyrirgefningu syndana gegnum pyntingu og dauða Jesú á krossinum.   Nýafstaðnir eru önnur stærsta helgidagahátið kristinna manna einmitt vegna þessarar refsigleði Guðs.  John sá að þetta hreinlega var ekki verjandi og hefur því komið með betri útgáfu.  John var ekki kosinn biskup í UK því að hann reyndist vera hommi.  Nú eru félagar hans í hempunum verulega fegnir að hann var ekki kosinn og segja að hann hafi greinilega gengið villu vegar.  (sjá umfjöllun hér) Ég er feginn að John sagði þetta þó að hans útgáfa væri frekar grátleg í huga guðleysingja.  Öll skynsemi og rökhugsun hlýtur nú að æpa á þá sem hlýddu og aðra presta að taka þetta sterklega til greina.  Smám saman hopa kreddurnar fyrir skynseminni.  Fyrir árþúsundum voru margir guðir, síðustu aldirnar einn guð og á morgun... - já vonandi enginn.

Það er grátbroslegt að fylgjast með angist presta yfir túlkunum á bókinni sinni.  Það er viss samsvörun að gerast nú í íslenskum prestaskotgröfum.  Hjörtur Magni Jóhannsson, fríkirkjuprestur gagnrýndi af mikilli list stefnu Þjóðkirkjunnar í Komásþætti Stöðvar 2 um Vinaleið Þjóðkirkjunnar en Hjörtur Magni Jóhannssonþannig treður hún inn trúarlegri starfsemi í vissa grunnskóla. Hjörtur Magni sagði m.a. eitthvað á þá leið að yfirgangur Þjóðkirkjunnar væri ekki samkvæmt kristilegu siðgæði og að þessi hegðun væri frekar djöfulleg.  Í stað þess að taka á hegðun sinni eru prestar Þjóðkirkjunnar nú að kvarta yfir Hirti Magna fyrir þessi orð fyrir siðanefnd presta.  Fyrir þetta borgum við skattgreiðendur, prestum, u.þ.b. þreföld verkamannalaun á mánuði.  Undrar mann síðan að meirihluti landsmanna vilji aðskilnað ríkis og kirkju? Nei, fólk á að borga fyrir sitt trúarlíf sjálft.  Það getur talið eðlilegt að ríkið aðstoði fjárhagslega við að koma fólki til grafar en lengra ætti það ekki að ná. 

Þess má geta að Sjálfstæðismenn fengu einnig eitthvað skynsemiskast yfir sig á nýyfirstöðnu landsþingi.  Þeir lofuðu að þeir myndu styðja lagabreytingu til að trúfélög fái frelsi til að gefa saman samkynhneigða óski þau þess.  Hvað ætli hafi valdið sinnaskiptunum?  Var kannski ekki um sinnaskipti að ræða heldur tjáning á nýfundnum kjarki til að koma á sjálfsögðum mannréttindum þrátt fyrir beiðni Karls Sigurbjörnssonar Þjóðkirkjubiskups um hið gagnstæða um síðustu áramót?  Skyldi þetta vera kosningaloforð sem þeir svo efna eftir 3 ár og 10 mánuði?  Hver sem ástæðan er, er a.m.k. ástæða til að fagna. 


Jafnaðarmennskan

Nú af nýafstöðnu landsþingi Samfylkingar gat ég ekki annað en velt fyrir mér á ný hvað Ingibjörg Sólrún og flokkssystkin hennar meina með orðinu "jafnaðarmaður".

Mér finnst þessi notkun á hugtakinu "jafnaðarmaður" eða "jafnaðarmenn" sérstök.  Hvers vegna kallar fólk í Samfylkingunni sig jafnaðarmenn?  Er þetta vel skilgreint hugtak?  Er þetta eftirsóknarvert?  Skilur Jón eða Jóna á götunni hvað átt er við?  Hvernig á hinn almenni kjósandi að skipta um skoðun (hver sem hún nú er fyrir), kjósa Samfylkinguna og verða allt í einu jafnaðarmaður?  Kærir fólk sig um slíka stimpla nema vita nákvæmlega hvað þeir þýða?  Forysta Samfylkingarinnar staglast sífellt á þessu en ég get ekki séð að þetta sé á hreinu, hvað þetta þýðir.  Kannski er ég bara svona heimskur. 

Stefnumál Samfylkingarinnar virðast vera blanda af ýmsu úr vinstri og hægri en megin áherslan er trúlega á velferðarmálin.  Er það að vera velferðarmálasinni það sama og vera jafnaðarmaður?  Ef svarið er já, þá spyr ég, er ekki Samfylkingin mun meira en það? 

Í hnotskurn er ég bara að reyna að segja að mér finnst það vafasamt af flokki sem vill ná inn breiðri fylkingu fólks að nota jafn þröngar eða óljósar skilgreiningar um sjálfan sig og "jafnaðarmaður".  Þá er "krati" ekki sérlega aðlaðandi og hefur varla mjög skýra mynd í huga fólks hvað merkingu varðar. 

Ég vil hvetja stjórnmálamenn að nota ekki þröngar skilgreiningar á sjálfum sér eða flokkum sínum.  Það er eitt að aðhyllast jöfnuð í þjóðfélaginu og annað að vera jafnaðarmaður.  Fólk er betur menntað í dag og það skilur margt að hvorki hreinn kapitalismi (auðvaldshyggja) né hreinn kommúnismi (óskhyggja öreiganna) gengur upp.  Í dag höfum við mildari öfgar, þ.e. nýfrjálshyggju (vini Björns Bjarnasonar) annars vegar og sósíalisma hins vegar (vinstri stefna) en samt eru þau stjórnmál sem hafa vinninginn blanda af þessu öllu, þ.e. forsvarsmenn blandaðs hagkerfis.  "Blandmaður" gæfi mér betri lýsingu en "jafnaðarmaður" a.m.k. hvað hagkerfið varðar.

Svo skilgreinast stjórnmál og stjórnmálamenn út frá fleiru en stefnu í efnahags- og velferðarmálum.  Mannréttindi, refsilöggjöf og umhverfisstefna eru einnig feykilega mikilvæg.  Hvernig flokkarnir móta stefnu sína í hinum ýmsu siðferðislegu álitamálum skipta verulegu máli.  Þá skipta viðhorf til vísinda og heilbriðiskerfis geysilega miklu máli.  Hjálpar þar eitthvað að heita "jafnaðarmaður".  Kannski eitthvað en það heillar mig ekki.  

Hvað finnst þér?


Afstaðnir páskar

Nú er orðið langt síðan maður bloggaði.  Þörfin til að tjá sig á opinberum vettvangi er ekki nærri alltaf til staðar.  Þetta er reyndar nánast tilbúin þörf, lærð eða af ákveðinni nauðsyn sem maður hefur talið sér trú um að sé til staðar.  Eftir að ég fluttist til baka til Íslands fyrir rúmum 2 árum eftir 7 ár erlendis, vildi ég bjóða fram krafta mína í félagsmálum og stjórnmálum til þess að taka þátt í því að bera sameiginlega ábyrgð okkar á þjóðfélaginu og reyna að gera það betra.  Það var mér fljótlega ljóst að greinaskrif í stóru dagblöðin og þátttaka í bloggi voru nauðsynleg til að skoðun mín kæmist á framfæri.  Það er erfitt að meta hversu mikil áhrif rödd manns hefur en þetta er svolítið eins og dropinn sem holar steininn, það er í eðli baráttunnar að halda sig við efnið og láta ekki bilbug á sér finna.  Góðir hlutir gerast jafnan hægt og því er nauðsynlegt að hafa vænan skammt af þolinmæði í farteskinu ætli maður að ná árangri á endanum.  Það er samt auðveldi þátturinn.  Erfiðara er að velja sér leiðir að markmiðinu og á stundum með hvaða fólki maður tekur slaginn.

Mín helstu baráttuefni eru þau sem ég kalla gjarnan "sinnuleysismálin".  Þetta eru mál sem ýmsir minnihlutar eða minni máttar í þjóðfélaginu eiga mest undir.  Stóru verkefnin eru að skapa réttlátara þjóðfélag og um leið skilvirkt þannig að það hverfi ekki í skrifræði og eltingaleik við vafasöm bönn (lögregluríki).  Frelsi einstaklinganna þarf að tryggja en samt hafa á því tilhlýðileg mörk á vissum sviðum.  Gallinn er að skoðanir manna á þessu eru geysilega breytilegar og stundum er maður ekki með fullmótaða skoðun sjálfur á erfiðum siðferðislegum álitamálum.  Ef svo ber undir kýs ég frekar að segja mig vera óvissan en að trana fram skoðun sem ég get ekki rökstutt fyllilega.  Í stjórnmálum þykir það mikill lestur að vera "óviss", nánast taboo, forkastanlegt og merki um veikleika.   Þá þykir einnig ákaflega ófínt að skipta um skoðanir.  Ég bíð eftir þeim stjórnmálamanni sem þorir að segja að hann/hún sé ekki með sterka vissu fyrir einhverju eða viðurkenna að ákveðið mál þurfi nánari skoðun hjá viðkomandi.  Þetta þarf ekki að þíða að viðkomandi geti ekki rætt málið, heldur einungis að hún/hann sýni þá ábyrgðartilfinningu að koma ekki með vanhugsaðar skoðanir á borð fyrir kjósendur.  Hins vegar þykir ekki góð latína að treysta á dómgreind kjósenda og því er farið í feluleik. 

"Snilli" sumra pólitíkusa felst í því að forðast erfiðu málin og beina talinu að öðru.  Þessir "snillingar" tala líka bara um "vinsælu" málin, málin sem þeir sem hafa hæst tala um og fjölmiðlarnir hafa veitt mesta athygli.  Sinnuleysismálin komast ekki á blað fyrr en búið er að hrista upp í heila klabbinu.  Dæmi:  óstjórn, trúarofstæki og kynferðisleg misnotkun á áfangaheimili fyrir fíkla, fangelsi sem uppfylla ekki alþjóðlega staðla um aðbúnað eða öryggi hvorki fyrir fanga né fangaverði, misrétti milli lífsskoðunar- og trúfélaga og ofríki og ofvernd eins trúfélags, fjársvelti Mannréttindaskrifstofu Íslands, táknmáli og textun íslensks sjónvarpsefnis ekki sinnt, ásatrúarmenn fá ekki úr jöfnunarsjóði, brotið á trúarlegu hlutleysi skólanna með Vinaleið Þjóðkirkjunnar, smábátaeigendum neitað um sjálfsagðan veiðirétt, pólitískar ráðningar í stjórnkerfinu, trúfélugum neitað um þann rétt að gefa saman samkynhneigða, ofsköttun aldraðara og öryrkja, óréttlátt stimpilgjald, persónuafslátt haldið niðri og fleira mætti telja.

Þó að ríkisstjórnin hafi gert margt gott er ofangreindur listi ástæða þess að ég vil fella hana auk þess sem það þarf að taka gott hlé á álverum, sérstaklega sunnanlands.  Það er reyndar merkilegt að Samband Ungra Sjálfstæðismanna hefur betri mannréttindarvitund en þeir eldri og hafa stutt við bakið á mörgum þeim málum er varða jafnrétti trúar- og lífsskoðana og rétt barna til að vera í trúarlega hlutlausu skólaumhverfi.  Komi þeir til með að erfa völdin í stærsta flokk landsins og halda í þessar hugmyndir er von á betra þjóðfélagi a.m.k. hvað mannréttindamál varðar.

Það var einstaklega sorglegt á síðustu dögum þingsins að hvorki frumvarp Sigurlínar Margrétar um táknmálið né frumvarp stjórnarinnar um rannsóknir á stofnfrumum, komust í gegnum þingið.  Þetta eru hvort tveggja tímamótafrumvörp og það er mönnum eins og Kristni H. Gunnarssyni sem bað um frestun á stofnfrumufrumvarpinu mikil skömm að koma með þau rök að frumvarpið opni á möguleikann á einræktun (klónun) manna.  Frumvarpið var algerlega skýrt hvað það varðar og ekkert slíkt kemur til greina.  Það var von að MND sjúklingum sárnaði þó svo langur vegur sé í að þessar rannsóknir lækni sjúkdóm þeirra.  Allar óþarfa tafir á mikilvægum rannsóknum eru óafsakanlegar nema góð og gild rök séu að baki.

Ég vona að fólk hafi haft það gott yfir páskana.  Sannarlega er gott að njóta tímans með fjölskyldunni og endurskoða tilveruna.  Framundan er vorið.

 


Stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar - lifandi land

Íslandshreyfingin - lifandi land opnaði heimasíðu sína í gær og þar er birt hnitmiðuð stefnuskrá og svo ítarlegri aðgerðaáætlun.  Veffangið er www.islandshreyfingin.is  Nú er kjörið tækifæri til að kynna sér stefnu okkar nýja flokks sem tekur ábyrga afstöðu til allra þjóðmála.

Efnt verður til stofnfundar ungliðahreyfingar flokksins á morgun mánudag 2. apríl kl 20:00 á kosningaskrifstofunni á 2. hæð Kirkjuhvols, Kirkjustræti 4, Reykjavík.  Allt ungt fólk á aldrinum 18-25 ára sem vill starfa með flokknum er hvatt til að koma.

Þá er búið að stofna blogg fyrir á www.islandshreyfingin.blog.is þar sem flokksfélagar munu kynna stefnumál flokksins í greinum og gefa kost á athugasemdum lesenda. 

Í gær var tímamótakosning í Hafnarfirði.  Naumur meirihluti Hafnfirðinga sagði nei við stækkun álversins í Straumsvík þrátt fyrir að Alcan varaði við því að þeir myndu líklega pakka saman og fara eftir 6 ár.  Um 450 manns vinna við álverið og þar af tæplega helmingur Hafnfirðingar.  Þetta er því mjög mikilvægt mál og ljóst er að ákvörðinn var mörgum erfið.  Ég tel að úrslitin séu góð því þegar til lengri tíma er litið verður að finna aðrar lausnir á atvinnuuppbyggingu en risavaxin álver.  Ísland getur ekki tekið á sig ábyrgð heimsbyggðarinnar fyrir "vistvænni" álframleiðslu.   Ísland á frekar að hvetja til breyttra neysluvenja og endurnýtingu málma.   Það er kominn tími til að staldra við og hægja á iðnvæðingunni.  Við getum ekki vaðið áfram í einhæfni og látið öll okkar egg í eina körfu.   Álver eru ekki bara peningar heldur einnig lífsmáti og mótandi fyrir landslagið og umhverfi bæja.  Sé ekki neyð í landinu höfum við efni á því að velja.  Við höfum tíma til að byggja upp aðra atvinnustarfsemi sem gefur landinu aðra ímynd og fólkinu annars konar ævistörf.  Auðvitað þurfum við ekki að taka út öll álver en líkt og í svo mörgu er betra að taka skrefin með varfærni og gæta hófs.  Til hamingju Hafnarfjörður og Ísland!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband