Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Orð í tíma sögð!

"Umburðarlyndi gagnvart umburðarleysi er hugleysi!"-         Ayyan Hirsi Ali

Sjá meira á vefsíðu þessarar merku baráttukonu


Skammsýn samlíking

Í Kastljósi kvöldsins voru rithöfundarnir Auður Jónasdóttir og Haukur Már Helgason til viðtals og spjalls um nýútkomna bók þeirra; "Íslam án afsláttar". 

Í bókinni eru ýmsar greinar um Íslam og ýmis mál sem hafa komið upp í samskiptum múslima og annarra þegna landanna í kringum okkur.  Talsvert er fjallað um "skopmyndamálið" svokallaða, en það átti sér stað eftir að danskt dagblað birti skopmyndir af Múhameð spámanni múslima.  Trúarleiðtogar múslima þar í landi fóru til miðausturlanda og fengu þar hjálp við að skipuleggja mótmæli í miklum fjölda Íslamskra landa.  Þessi mótmæli fóru gjörsamlega úr böndunum og sendiráð Dana voru sums staðar brennd og danskar útflutningsvörur hunsaðar.  Ofbeldi braust út á sumum stöðum.  Þessi ofbeldisfullu og hatrömmu viðbrögð voru réttlætt með því að guðlast hefði verið framið og að það væri eðlilegt að múslimum sárnaði verulega.

Nú er ég ekki að skrifa þetta til að dæma þessa bók enda hef ég ekki lesið nema lítinn hluta af henni.  Ég er að skrifa um það sem kom fram í Kastljósinu en þar lýstu þau Auður og Haukur Már kaldhæðnum skopmyndum sem áttu að vera móðgandi fyrir það sem Íslendingum væri "heilagt".  Merkilegt var að aðeins ein myndanna beindist að algengustu trú landsmanna, kristninni og gat ég ekki greint hvað ætti að vera meiðandi við hana.  Allar hinar myndirnar beindust að mögulegum siðferðislegum veikleikum þjóðarinnar eins og efnishyggjunni og ímyndinni um hreinan kynstofn sem sumir rækta með sér (Skopmynd: Iceland - purest blood in the world). 

Í allri umræðunni sem fram fór í Kastljósinu var ekki vikið að aðal atriðum þessa skopmyndamáls eftir myndbirtingu Jyllandsposten um árið.  Aðal atriðið er að trúarhugmyndir eiga ekki að teljast heilagar og eiga ekki að njóta sérréttinda umfram aðrar.  Skopmyndir eru leyfðar og ekkert réttlætir ofbeldisfullar aðgerðir vegna þeirra, hvorki í nafni trúarlegrar móðgunar né annars.  Háð er vandmeðfarið og þegar gert er grín að minni máttar er oft gengið yfir strik velsæmis.  Nú var ekki um minni máttar að ræða og þó svo þannig væri málum háttað, er aldrei hægt að réttlæta rangt með röngu.   Hugmynd þeirra Auðar og Hauks Más um að leyfa okkur Íslendingum að finna til einhvers konar sams konar særinda eða móðgunar vegna skopmynda missir algerlega marks. 

Í umræðu um málfrelsi og aftur trúfrelsi sagði Haukur Már að enginn hefði velt fyrir sér málfrelsi og rétti þeirra sem létu lífið í róstursömum mótmælum gegn skopmyndunum.  Ríkistjórn þeirra landa þar sem þetta gerðist hefðu sent her á mótmælendur og drepið suma þeirra, sagði Haukur Már.  Á manni nú að líða illa yfir því að hafa gagnrýnt þessa fánabrennandi, hatursfullu mótmælendur sem hótuðu Dönum limlestingum?  Eiga gerðir þeirra að afsakast vegna enn verri gerða stjórnvalda í löndum þeirra?  Nei, það er Haukur Már sem er ekki að sjá hinn siðferðislega kjarna þessa máls.  Það verður ekki liðið að fólk, sama hverrar trúar það er, fari með ofbeldi og efni til haturs og skemmdaverka fyrir sakir teiknimynda.  Það fólk sem ætlar að nærast á frelsi og umburðarlyndi vestrænna þjóðfélaga þarf sjálft að virða það frelsi og sýna umburðarlyndi í verki.  Réttindi, frelsi og skyldur þjóðfélagsins ganga á báða vegu, ekki bara handa sjálfvöldum útvöldum einstaklingum eða hópum. 

Það er ekki vel til fundið að reyna að benda á einhvern flein í auga okkar varðandi þetta skopmyndamál.  Maður geldur ekki stríðni með ofbeldi og skemmdaverkum, skop með skotum, móðgun með drápum, gagnrýni með hatri eða frelsi með kröfu um sérréttindi.   Við höfum okkar vandamál og ófullkomleika en við þurfum ekki lama dómgreind okkar og ákvörðunarrétt með tilbúinni sektarkennd og ótta við að móðga framandi menningu (menningarleg afstæðishyggja). 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband