Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Leiddir sem sauðir inní lestur haturfulls trúarljóðs

Einhverjir þingmenn (Steingrímur J Sigfússon hóf lesturinn) hafa tekið að sér að lesa passíusálma Hallgríms Péturssonar á hverju kvöldi næstu daga.  Gera þeir sér grein fyrir því gyðingahatri sem fjöldamörg vers í þessum sálmum innihalda?  Ef svo er, finnst þeim það bara í góðu lagi að slíkt sé haldið í heiðri?  Sjálfsagt er venjulegur kristilegur boðskapur í sálumunum einnig og það hlýtur þá að vera nóg að lesa þau erindi, en þetta gyðingahatur skyggir ansi mikið á það orð sem fer af sálmunum.  Hallgrímur lærði greinilega af Lúther því hann fyrirskipaði að brenna skyldi gyðinga.  Það var einnig eftir siðaskiptin að galdrafárið hófst í Evrópu og á Íslandi.  Siðabót?

Sjá nánari umfjöllun og dæmi úr passíusálmunum hér.


Kauphöllin eða Laugardalshöllin?

Á myndinni sjáum við Teit Örlygsson fagna hressilega sigri Stjörnunnar í bikarmótinu nýlega.  Það er nokkuð á þessari mynd sem sker mig í augað.  Hvað með þig?  Er myndin tekin í Kauphöllinni eða Laugardalshöllinni?

Ég á við fötin sem þjálfarinn sigursæli skartar.  Um nokkurt skeið hafa íslenskir körfuboltaþjálfarar Teitur fagnar (mynd: Vilhelm)tekið um klæðavenju starfsbræðra sinna í NBA deildinni í USA, en það er sterkasta og vinsælasta deild heimsins í körfubolta.  Sjálfsagt er að læra af þeim merku þjálfurum sem þar eru en þurfa íslenskir þjálfarar að apa allt eftir þeim eins og páfagaukar?  E.t.v. voru þeir bara eins og aðrir í góðærinu að læra af Wall Street, kauphöll þeirra í USA.  Við vitum hvernig það fór.  Íþróttafélögin hafa undanfarin ár selt allt sem þau gátu til styrktaraðila sinna.  Íþróttahúsin og deildirnar sjálfar bera nöfn fyrirtækja og verðlaunin sömuleiðis.  En þurfa þjálfararnir að vera í klæðnaði fjármálageirans?  Sem betur fer hefur þetta ekki gerst í handboltanum.  Hugsið ykkur Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara æpandi á hliðarlínunni á næsta EM í stífum jakkafötum! 

Ég vil hvetja þjálfara körfuknattleiksmanna að halda í íþróttahefðir og klæða sig úr jakkafötunum.  Maður tekur ekki svona villt fagnaðaróp í Höllinni klæddur eins og markaðsstjóri.  Höfum smekk og ofurseljum ekki íþróttir.


Hugsun út úr flækju fornalda

Það þarf jafnan sjálfstæða og þó nokkra hugsun til að kasta af sér hindurvitnum fornalda sem lúra enn á meðal okkar.  Myndbandið hér að neðan sýnir frá nokkrum slíkum sem jafnframt eru frægt fólk fyrir ýmis afrek sín.  Sum andlitin komu þægilega á óvart.  :-)


Loksins vitur heilbrigðisráðherra

Mér sýnist á öllu að Ögmundur Jónassson sé að taka mjög góðar ákvarðanir eftir að hann tók við embætti heilbrigðisráðherra.  Í þetta embætti þarf reynslubolta og fólk sem veit hvar hjartað slær í heilbrigðismálum landsmanna.  Ljóst er að þær skurðstofur sem á St. Jósefs eru, er erfitt að fella niður þar sem ekkert í kerfinu getur komið í staðinn eins og er.  Þá er St. Jósefs spítali nauðsynlegur sem legudeild fyrir sjúklinga sem Lsh á Hringbraut eða Fossvogi getur ekki hýst vegna þess plássleysis sem þar er alltaf öðru hvoru til staðar.  Það er ekki fyrr en eitt sameiginlegt stórt háskólasjúkrahús er byggt að hægt er að breyta St. Jósefs spítala.

Ákvörðun Ögmunds sem tilkynnt var í kvöld um að nota ódýrari lyf eins og simvastatin í stað atorvastatin til lækkunar á kólesteróli er einnig mjög skynsamleg.  Meirihluti þess fólks sem er á þessum "statin" lyfjum á að geta verið á simvastatini.  Það er ekki alveg eins öflugt og atorvastatin, sérstaklega hvað varðar lækkun á þríglýseríðum, en það gerir alveg heilmikið gagn.  Með bættu mataræði og hreyfingu má bæta sér upp restina.  Það fólk sem er allra hæst í kólesteróli og í mestu áhættunni (með illa stíflaðar kransæðar og með hjartaöng) getur farið á atorvastatin.

Þar sem ég vann í Bandaríkjunum (New York) var löngu búið að gera þetta.  Norðmenn hafa einnig sparað á þennan máta. Ég sat í lyfjalaganefnd árið 2005-2006 og stakk uppá þessum breytingum, en talaði fyrir daufum eyrum. 

Ég vona að Ögmundur haldi áfram að finna gáfulegar leiðir til sparnaðar.  Við þurfum Ögmund áfram í þessu embætti eftir næstu kosningar.  Áfram Ögmundur! 


mbl.is Óbreytt starfsemi á St. Jósefsspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Darwin dagurinn 12. febrúar 2009

 

Fimmdudaginn 12. febrúar nk. verður víða um heim haldið uppá 200 ára fæðingarafmæli vísindamannsins Charles Robert Darwins og um leið fagnað 150 ára afmæli útgáfu tímamótaverks hans, Uppruna tegundanna, þar sem færð vorufram í fyrsta sinn sannfærandi gögn og rök fyrir þeirri tilgátu að lífverur jarðar hefðu tekið þróunarlegum breytingum yfirDarwin54 milljónir ára. Nokkru síðar birti Darwin útskýringar á þróun mannsins og kynbundnu vali í náttúrunni í bókinni Ætterni mannsins og kynbundið náttúruval (1871), en sú bók olli miklum usla meðal margra samtímamanna hans, sem fannst niðurlægjandi að vera bendlaðir við sameiginlegan uppruna með öpum.

Charles Darwin var háskólagenginn frá Edinborg og Cambridge, en þar lærði hann m.a. þær guðfræðilega sprottnu skýringar á tilurð lífheimsins, að guð hefði hannað lífheiminn. Darwin lét það ekki hefta sína frjálsu hugsun og hóf sína eigin leit að svörum með því að skoða gögnin, þ.e. lífheiminn þar sem hann er hve fjölbreyttastur og ríkastur af magni við strendur Suður-Ameríku. Hann byrjaði með autt blað, þ.e. hans athugun og tilgáta yrði sett fram sem óháð vísindi sem líkur væru á að stæðust ítarlega skoðun um langan aldur. Hann hafði ekki áhuga á hugmyndafræðilegu stríði við klerka eða konunga, enda voru það aðrir menn sem héldu vörnum uppi fyrir tilgátur hans eftir að kristnir klerkar hófu árásir sína á þær. Þeirra frægastur var líffræðingurinn Thomas Henry Huxley (1825-1895) og fékk hann viðurnefnið „bolabítur Darwins" fyrir vaska framgöngu sína. Tilgáta Darwins var staðfest sem vísindakenning eftir að síðari tíma rannsóknir studdu hana, sérstaklega á sviði erfðafræðinnar. Hún varð til þess að heimsmyndin gjörbreyttist og vald trúarbragðanna yfir hugmyndaheimi fólks fjaraði út að miklu leyti.

Afkomandi Thomas Huxleys, Julian hélt uppi merki ættföðursins á 20. öldinni, með því að verða fyrsti framkvæmdastjóri UNESCO og þingforseti fyrsta þings alþjóðasamtaka húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) árið 1952. Húmanistar um allan heim halda mikið uppá Charles Darwin og hans arfleifð.

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi er samstarfsaðili að málþingi því sem haldið verður í HÍ á afmælisdegi Darwins, en
Steindór J. Erlingsson hafði milligöngu að því fyrir félagið. Málþingið ber yfirskriftina: Hefur maðurinn eðli?  Fulltrúi Siðmenntar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, lektor í heimspeki við HÍ, flytur þar erindið „Að hálfu leyti api enn". Aðrir fyrirlesarar verða Ari K. Jónsson tölvunarfræðingur, Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur, Jón Thoroddsen heimspekingur, og Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum. Á málþinginu verða einnig afhent verðlaun í ritgerðarsamkeppni sem haldin var á meðal framhaldsskólanema um Darwin og áhrif þróunarkenningarinnar á vísindi og samfélög. Málþingið er öllum opið og verður haldið í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, stofu 132 og hefst kl. 16:30. Dagskrána má sjá á www.darwin.hi.is.

Alþjóðlega dagskrá má sjá á http://www.darwinday.org


Grasserar í þjóðfélögum múslima

Ég hjó eftir þessum skrifum í þessari frétt:

"Slíkar árásir eiga ekki rætur að rekja til íslam eða annarra trúarbragða en eru algengar m.a. í Kambódíu, Afganistan, Indlandi, Bangladess, Pakistan og öðrum Asíulöndum."

Hvernig getur höfundur fullyrt þetta þegar þessar sýruárásir eru nánast eingöngu í löndum múslima þar sem bókstafstrú þeirra er algeng?  Sama er að segja um umskurð (afskurð) stúlkubarna.  Þó að iðkunin kunni að hafa einhvern annan bakgrunn, t.d. einhverja forna galdratrú, þá er ekki hægt að segja að íslam hafi ekkert með þetta að gera.  Íslömsk lönd þar sem sharia löggjöfin ríkir halda konum niðri og viðhalda kvenfyrirlitningu.  Eflaust stendur ekki beinum orðum í Kóraninum að hella eigi brennisteinssýru á konur, en það er nóg af klásúlum um að refsa eigi harðlega þeim sem óhlýðnast boðum Allah.  Í þjóðfélagi þar sem höggva á hendur af þjófum er stutt í annað ofbeldi í nafni heilagrar refsingar. 


mbl.is „Eruð þið á leiðinni í skólann, stúlkur?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ranglæti leiðrétt á fyrsta degi!

Nú er kominn maður í heilbrigðisráðuneytið sem veit hvar hjartað slær.  Sú lágkúra að leggja gjald á þá sem leggjast inn veikir á sjúkrahús landsmanna hefur nú verið afnumin.  Ögmundur Jónasson setur hér rétta tóninn á fyrsta degi í embætti.  Forveri hans hafði greinilega ákaflega takmarkaðar hugsjónir að leiðarljósi í sparnaðaraðgerðum sínum og kunni ekki að forgangsraða. 

MAÐUR LÆTUR EKKI GAMALT OG VEIKT FÓLK BORGA FYRIR AFGLÖP YNGRI KYNSLÓÐA! 

Þess utan er það algert grundvallaratriði í manneskjulegu samfélagi að samtrygging okkar allra, heilbrigðis- og tryggingakerfið, greiði kostnað af öllum alvarlegum veikindum okkar.  Það skilur okkur frá barbarisma.

Sjálfstæðismenn vilja gjarnan halda tekjusköttum niðri, en svo þegar það vantar pening í félagsmál og heilbrigðismál, taka þeir til þess ráðs að setja á notendagjöld, svona rétt eins og það væri val sjúklinga að leggjast inn.  Þannig var það einnig með húsnæðismálin.  Í góðærinu þorðu þeir ekki að afnema stimpilgjöldin og afsökuðu sig með því að slíkt myndi skapa meiri þenslu.  Þannig átti unga fólkið sem á yfirleitt í miklum erfiðleikum með að safna fyrir útborgun í sitt fyrsta húsnæði, að sæta álaga vegna þenslunnar á meðan hinum raunverulegu orsakavöldum hennar var klappað á bakið og gert allt kleift til að halda glæfrafjárfestingum sínum áfram.  Það var ekki fyrr en það þeir sænguðu með xS að stimpilgjöld voru afnumin í tilviki kaupa á fyrstu íbúð.  Áfram er 1.5% stimpilgjald (af kaupverði) fyrir það að flytja sig um set og kaupa íbúð á nýjum stað.

Af fleiri skattamálum vil ég segja að ég er andvígur hátekjuskatti vegna þess að hann skekkir launasamanburð og kemur aftan að þeim sem fá hátt kaup vegna ábyrgðar eða mikillar vinnu.  Miklu skynsamlegra er að hækka alla skattprósentuna (sé hærri skatta þörf) og bæta kjör þeirra lægst launuðu með hærri persónuafslætti. 

Forvitnilegt verður að vita hver næstu skref Ögmunds Jónassonar verða, en ég er vongóður um að áratuga reynsla hans í stjórmálum og þekking á þjóðfélaginu eigi eftir að verða íslensku heilbrigðiskerfi til góða.  Ég vona að hann haldi t.d. lífinu í St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.   Horfa þarf til 20 ára í skipulaginu og varast hrókanir sem skapa bara ný vandamál og kostnað þegar til lengri tíma lætur.


mbl.is Innlagnargjöld afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta stóra skrefið!

Búsáhaldabyltingin naut stuðnings um 2/3 hluta þjóðarinnar (skv. Gallup) og í ljósi þess hruns sem nýfrjálshyggjan og peningahyggja undanfarinna 12 ára leiddi okkur í, er loksins, loksins, kominn tími fólks sem setur hinn almenna Íslending framar gróðasjónarmiðum fjármálageirans.  Ekki er þar með sagt að hið efnahagslega frelsi og einkavæðing hafi verið alslæm, heldur að það er kominn tími til að rækta betur raunverulegar undirstöður þjóðfélagsins, sem eru m.a. siðferðileg heilindi, jöfnuð, réttlæti og menntun.  Sú aukna stéttskipting og misskipting auðs sem hægri öflin hafa alið á undanfarin 17 ár, hafa skapað annars vegar moldríka auðmannastétt sem lék sér að fjárhagslegri heilsu landsmanna og hins vegar lítt menntaða og reiða lágstétt sem verður nú að borga brúsann af glæframennsku þeirra ríku.  Þær stéttir sem sjá um daggæslu og menntun barna okkar frá leikskólaaldri eru illa launaðar á meðan lögfræðingar og bankastarfsmenn sitja að feitum summum.  Sálfræðingar og félagsfræðingar fá mjög fáar stöður og slælega launaðar hjá ríkinu á meðan ríkisverndaðir guðsmenn fá mun hærri laun (meira að segja betri en sérfræðilæknar fá) og fá að ota trúboði sínu og trúarlegri starfsemi inní almenningsskóla undir nefi fyrrverandi menntamálaráðherra sem átti að gæta þess að börnum og foreldrum þessa lands væri ekki mismunað.  Aðeins tilskipun frá Mannréttindadómstóli Evrópu þokaði þessu síðastnefnda máli eitthvað í framfaraátt þó í raun hafi ákaflega lítið áunnist.  Samkvæmt Önnu T. Gunnarsdóttur, sérfræðingi hjá umboðsmanni Svía gegn mismunun, er íslensk löggjöf í jafnréttismálum um 15 árum á eftir löggjöf Svía og þeir eru ekki fremstir í Evrópu.  

Það gleður mig óneitanlega að sjá þann lista mála sem ný ríkisstjórn hefur sett fram.  Þar er margt nýtt sem ekki var á dagskrá í samstarfi xS með xD, en stóryrði Þorgerðar Katrínar í dag um að ekkert sé þar nýtt og að enginn málefnaágreiningur hafi verið á milli þeirra og Samfylkingarinnar eru augljóslega ósönn.  T.d. hvenær hefur Sjálfstæðisflokkurinn komið fram með þá tillögu að stuðla að einstaklingsframboðum? bæta siðferði stjórnsýslunnar með nýjum reglum? Hafa jafnt hlutfall kven- og karl ráðherra? hleypa að konu til æðstu valda í eigin flokki eða sem forsætisráðherra?  Sorry Geir en útspilið með Þorgerði Katrínu var bara of seint.   Konur hafa borið skarðan hlut í Sjálfstæðisflokknum en ekki hefur verið mikill skortur á framboði þeirra þar og hið sama má segja um Framsóknarflokkinn.  Þetta eru íhaldssamir karlaflokkar sem selja hugsjónir fyrir völd.  Þær hugsjónir sem eru á (br)oddinum þar eru frjáls samkeppni og góð afkoma fyrirtækja og fjárfesta.  Auðvitað þarf stöndug fyrirtæki til að skapa atvinnu fyrir alla og fullkomið jafnræði í tekjum eða arði verður aldrei til, en það er mikill munur á því að hafa bara einhverjar taugar til alþýðu manna og þess að huga vel að henni.  Sama má segja um málefni mismununar og mannréttinda hérlendis.  Það er ekki nóg að bara rétt hunskast til að fara að lágmarkskröfum þar, heldur á Ísland að vera til fyrirmyndar og vera leiðandi í heiminum.  Við eigum að taka upp rannsóknir og þróunarsetur á mannréttindum og velferðarmálum og hafa frumkvæði af framförum, ekki láta taka okkur í bólinu af dómstólum ESB með þeim systkinum Græðgi og Sérréttindum. 

Ljóst er að hin nýja miðju- og vinstri ríkisstjórn sterkustu jafnaðarafla þjóðfélagsins þarf að standa sig verulega vel ef ekki á allt að glutrast í hendurnar á nýfrjálshyggjumönnum á ný í næstu kosningum.  Minni kjósenda er stutt og það má ætla af þeim miklu sveiflum sem kannanir Gallup undanfarnar vikur sýna á fylgi flokkanna að góður hluti óánægðra sjálfstæðismanna hafi þótt nóg að Geir hafi stigið til hliðar og flokkurinn tæki sér dálítið frí frá ríkisstjórn.  Það virðist sem a.m.k. 1/4 hluti þeirra (um 10% kjósenda) horfi ekki á þann vanda sem þjóðfélagið er í í dag sem afleiðingu málefnastefnu Sjálfstæðisflokksins, heldur sem tímabundinn mannavanda.  Þetta fólk og aðrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins virðist algerlega blint á það stjórnleysi, siðleysi og þá græðgi sem flokkurinn hefur ýtt undir og að það hefur í raun ekki breyst.  Óskammfeilnar skipanir í dómstóla hafa fengið að viðgangast og ógeðfellt valdabrölt í Reykjavík hefur átt sér stað á vakt flokksins.  Margt fleira má tína til, en hvernig í ósköpunum heldur fólk að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bætt ráð sitt og siðferði?  Einangrunarstefna flokksins gagnvart ESB er einnig dæmi um skammsýni hans og úrelt viðhorf til alþjóðamála.  Þar þarf Vg einnig að snúa við blaðinu og leyfa samningaviðræður við ESB.  Það er algert lágmark að viðræðurnar fari fram og svo getur þjóðin ákveðið sig með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og ég er bjartsýnni en áður á framtíð okkar.  Ég skora á hana að vinna hart þessa 83 daga fram til kosninga og hlusta á þjóðina.  Ég skora jafnframt á þjóðina að kynna sér stjórnmál betur og kjósa mun upplýstari en síðast.  Látum ekki fréttamenn eina stýra umræðunni.  Heimtum að minnihlutahópar fái að láta í sér heyra og að málefni kosninga snúist ekki bara um efnahagsmál.  Við þurfum jú öll brauð á diskana og þak yfir höfuðið, en hjá þjóð sem er þrátt fyrir allt ein sú ríkasta í heimi, veltur hamingja okkar ekki síður á því hvernig við komum fram við hvort annað og hugsum um þá sem bágast eiga.  


mbl.is Slá skjaldborg um heimilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband