Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Aukin völd og áhrif fólksins

Til hamingju Íslendingar með kosningasigur miðju og vinstri aflanna í kosningunum.  Samfylkingin er nú stærsti flokkur flokksins og mun leiða vagninn.  Borgarahreyfingunni tókst hið ómögulega og ég vona að hreyfingin komi til greina inní nýja ríkisstjórn.  Bjarni Benediktsson bar ósigurinn vel.

Ég er sammála hugleiðingum Jóhönnu varðandi prófkjörin.  

Í dag verð ég að hjálpa til við borgaralega fermingu en þetta er 21. skipti sem hún er haldin og verða það tvær athafnir í Háskólabíói kl 11 og 13. 

Eftir þessar kosningar er loks von til þess að jafnræði náist milli lífsskoðunarfélaga.

 


mbl.is Tími prófkjara liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ahyglisvert hvaðan fylgið kemur

Þegar heildarskýrsla þessarar könnunar og þeirrar sem var gerð nokkrum dögum fyrr af Capacent Gallup, eru skoðaðar kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Hámenntað fólk styður mest allra menntahópa ríkisstjórnina

Úrtakshóp könnunarinnar er skipt í fjóra hópa eftir menntun; grunnskólapróf, iðnnám/verknám, menntaskólapróf og háskólagráða.   Hvað varðar spurninguna: "styður þú ríkisstjórnina" svara 51-53% fyrstu þriggja hópanna því játandi, en 63% fólks með háskólapróf.  Þegar sömu hópar eru skoðaðir m.t.t. stuðnings við flokkana, sést að aðeins 14,6% fólks með háskólagráðu styður Sjálfstæðisflokkinn.  Sá flokkur fær stærstan hlut fylgis síns frá fólki með iðnnám/verknám 30,6% en nokkru minna frá fólki með grunnskóla- eða stúdentspróf (24-25%). 

Þetta er merkilegt í ljósi þess að maður hefði haldið að sögulega séð ætti xD miklu fylgi að fagna úr hópum viðskiptafræðinga og lögmanna (og jafnvel lækna), en því er vart að dreifa nú þar sem stétt viðskiptafræðinga er það stór hluti af háskólafólki að hún ætti að segja til sín meðal þess í svona könnun.  Mig grunar að þetta fólk hafi misst traust á flokknum vegna óreiðu hans í fjármálum og vangetu til að forðast brotlendingu í efnahagshruninu.

Aukin lengd menntunar eykur að jafnaði ákvörðunarhæfni og þroskar greinandi hugsun.  Þegar marktækar stærðir af hópum á mismunandi menntunarstigi eru teknar fyrir eins og í þessari könnun, þá er það athyglisvert hvað menntaðasti hópurinn hefur að segja og tel ég að einkum tvær ástæður geti legið að baki þess sem þessi hópur velur oftast (xS 38.9% og xVg 28,6%):

  1. Háskólagengið fólk telur að jafnaði að hag þjóðarinnar allrar sé best borgið með því að kjósa xS eða xVg.
  2. Háskólagengið fólk telur að jafnaði að sínum hag sé best borðið með því að kjósa xS eða xVg.

Það geta verið bæði eigingjarnar og óeigingjarnar ástæður fyrir þessum stuðningi.  Fólk með háskólapróf verður seint ásakað um að vera að jafnaði heimskt þannig að það er ekki ástæðan. 

Aukin þátttaka háskólafólks í stjórnmálaumræðunni

Ég held að það sé óhætt að segja að aldrei fyrr hefur jafn mikið af háskólamenntuðu fólki haft sig frami í stjórnmálaumræðunni og skrifum um stjórnmál.  Loksins eru hagfræðingarnir, stjórnmálafræðingarnir og heimspekingarnir farnir að taka stjórnmálin alvarlega í stórum stíl og skilja að þeir geta hreinlega ekki setið á rassi sínum heima (nema til að skrifa mikilvægar greinar um þjóðmálin í tölvuna) fyrir kosningar.  Það er ánægjulegt að sjá að Morgunblaðið birti í helgarblaði fyrir rúmri viku, yfirlit yfir málefni allra flokka í skipulagðri töflu sem náði yfir heila opnu.  Auðvitað má deila um það hvernig framsetningin tókst en þetta var verulega góð tilraun til að gefa lesendum hlutlausar upplýsingar og hjálpa því að taka upplýsta ákvörðun.  Samtök um hagsmuni heimilanna birtu einnig töflu um tillögur flokkanna um aðstoð við heimilin, í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu.  Það er dapurt að sjá að það blað sem mesta dreifingu fær (Fbl) birtir sáralítið af upplýsingaríkum greinum blaðamanna um þjóðmálin og lesendur hafa orðið að kaupa auglýsingar í blaðinu til að fá efni sitt birt innan þolanlegra tímamarka. 

Lýðræði virkar ekki vel nema með upplýstum ákvörðunum kjósanda.  Þess vegna þarf þjóðin að taka sig verulega á í menntun þjóðarinnar á aðferðafræði gagnrýnnar hugsunar, söfnun upplýsinga, rannsóknarblaðamennsku, rökfræði, siðfræði, heimspeki, hugmyndasögu, mannfræði, sálfræði og síðast en ekki síst félags- og stjórnmálafræði. 

Aldursdreifing kjósenda hvers flokks

Athyglisvert er að sjá að bilið milli prósentu yngstu (< 30 ára) og elstu (>59 ára, 31.4%) er mest hjá Sjálfstæðisflokknum.  Aðeins 16,8% yngstu kjósendanna kjósa xD og er því ljóst að þeir sem munu erfa landið hafa að miklum hluta misst traust á flokknum miðað við það sem áður var.  Það mátti sjá merki þessa í könnunum fyrir síðustu kosningar þar sem fylgi yngtu kjósendanna jókst mest hjá xVg.  Aldursdreyfingin er jöfnust hjá xS (29.7-33.2%) í öllum fjórum aldurshópunum. 

Kynjadreifingin innan flokkanna

Kynjadrefingin nær marktækum mun hjá xO sem hefur 6.5% fylgi meðal karla en aðeins 3.3% fylgi meðal kvenna.  Karlar virðast vera róttækari í því að kjósa ný framboð.  Mig minnir að svipað hafi verið uppi á teningnum hjá Íslandshreyfingunni fyrir kosningarnar 2007.  

Hinn flokkurinn sem hefur marktækan fylgismun milli kynjanna er Vinstri grænir.  Karlar styðja flokkinn í 24.2% tilvika en í 30.9% tilvika kvenna.  Eflaust geta Vinstri grænir svarað því best sjálfir hvers vegna þetta er svona en mínar tilgátur eru eftirfarandi:

  • Vg hefur breiða fylkingu forystukvenna (samt ekkert meira en hjá xS)
  • Forystukonur xVg hafa verið e.t.v. aðeins meira áberandi en forystukonur xS að frádregnum formanni xS.
  • Barátta fyrir jafnrétti kynjanna sé e.t.v. sterkust hjá xVg. 
  • Sterk áhersla xVg á mannréttindamál og umhverfi höfði almennt mikið til kvenna.

Samantekið, þá má draga ýmsan lærdóm af sundurgreiningu kannana og þær vekja upp forvitninlegar spurningar sem vert væri að kanna nánar með sértækari könnunum t.d. athuga nánar hvaða ástæður liggja að baki vals háskólafólks og hvort að munur sé á milli háskólagreina eða milli iðngreina/verknámsgreina.  Í fyrri könnuninni kom fram að xD átti flesta kjósendur á meðal hátekjufólks, en aftur xS og xVg á meðal fólks með meðal miklar tekjur.  Það væri athyglisvert að vita hvernig menntunarstig/gerð á milli hátekjufólks skiptist. 

Ég er bjartsýnni nú á að það takist að breyta stjórnarháttum og stefnumálum hjá þjóðinni til batnaðar þar sem útlit er fyrir að xS og xVg verði sigurvegarar kosninganna.  Ég hefði ekki á móti því að xO kæmist á þing því þeir hafa mikilvægar tillögur fram að færa í lýðræðismálum og vilja aðildarviðræður við ESB.  Ég vona að hér rísi ekki fleiri álver, sérstaklega ekki í þeirri náttúruperlu sem Norðurland er.  Viðbótarálver í Helguvík er algert hámark.  Fái þessir flokkar traust fylgi og sem mest, er von til þess að raunveruleg siðbót og framfarir verði í landinu.  Framfarir sem mælast ekki endilega í peningum heldur farsæld fólks og endurnýjun virðingar alþjóðasamfélagsins fyrir okkur sem siðuð og traustverð þjóð.  

 


mbl.is S- og V-listar bæta heldur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég treysti Jóhönnu - látum ekki óttapólitík byrgja okkur sýn!

Eftir fyllerí frjálshyggjunnar upplifir þjóðin sára timburmenn og reynir hvað hún getur til að brosa í gegnum höfuðverkinn og sjá fram á bjartari dag eftir þennan.  Efnahagstefna Sjálfstæðismanna, með Framsókn í farteskinu, beið afhroð þó margt hafi byggst upp í formi steinsteypu og verslunarmiðstöðva.  Mikill hluti þjóðarinnar fríkaði út líkt og eftir vist á Kvíabryggju og sletti úr klaufunum í nýfengnu frelsi sem EES samningurinn tryggði og einkavinavæðing framkvæmdavaldsins. Góðæri um allan hinn vestræna heim, með auðfengnu lánsfé og opnun landamæra austur fyrir gamla járntjaldið, ýtti undir myndun loftbólunnar.  Heimurinn var nýbúinn að jafna sig á "litlu-bólu", þ.e. dot-com hruninu rétt eftir aldamótin, en hafði því miður ekkert lært af því.  Gamall og bældur kapítalismi fékk endurnýjun lífdaga og það þótti ekki skammarlegt að vera með ofurlaun og bilaða starfslokasamninga.  Sjálfstæðisflokkurinn fitnaði líka og fékk duglega styrki frá vinum sínum í fjármálageiranum.  Þannig var hægt að fjármagna skuggalega dýrar kosningaherferðir og vinna inn atkvæði á lokasprettinum.  Kosningasérfræðingar xD vita nefnilega að það er svo mikið af fólki sem fylgist almennt ekki með stjórnmálum og heldur að þau snúist eingöngu um fjármál.  Með því að beita óttaáróðri með flottum auglýsingum tekst þeim alltaf að fá kjarklítið fólk og fáfrótt til liðs við sig.  Þannig tekst þeim að beina huga fólks frá því hvaða ótta þeir sjálfir ollu og hver raunveruleg forgangsröðun eigi að vera. 

Dæmi:

  • Sjálfstæðismenn smyrja á báða stjórnarflokkana nú að þeir ætli að hækka skatta eftir kosningar og að heimilin hafi ekki efni á auknum sköttum.   Sannleikurinn:  Aðeins xVg hafa sagt að líklegt verði að það þurfi að hækka skatta eitthvað og setja á hátekjuskatt.  Samfylkingin hefur ekki útilokað þetta, en vill forðast það.   Málið er að það er ekki góðæri nú eins og þegar xD og xB áttu sín sukkár.  Við viljum halda uppi skammlausu velferðarkerfi og það kostar hreinlega peninga.  Við gætum þurft að taka á okkur tímabundna skattahækkun.
  • Sjálfstæðismenn saka báða flokkana um að ætla að taka upp eignaskatt að nýju og benda á að það komi verst niður á öldruðum.   Sannleikurinn:  Aðeins xVg hefur lýst yfir þessum hugmyndum og það er sterk andstaða gegn eignaskatti innan xS. 

Helst hræðsluvopn sjálfstæðismanna nú er skattagrýlan.  Himinn og jörð farast hjá þeim ef skattar myndu hækka örlítið á fyrirtæki eða einstaklinga.  Þeir reyna nú stíft að koma þeim ótta í fólk að skattar verði of þungbærir næsta kjörtímabil og fljótt er gleymt hjá þeim að efnahagsleg óreiða og sjálftökuháttur er það sem virkilega þarf að varast. Svo þykjast þeir vera með ábyrga peningastefnu en vilja ekki einu sinni setja aðildarviðræður um ESB aðild á dagskrá.  Áfram halda þeir með óttastjórnmálin, sem er í anda G. W. Bush jr. 

Á hinn bóginn lýsa sjálfstæðismenn yfir því að það ætti að taka upp Evruna einhliða, sem allir málsmetandi hagfræðingar hafa sagt algerlega óraunhæfan kost.  Þetta er ekki flokkur sem veit í hvorn fótinn hann eigi að stíga í, í því máli sem hann hefur hreykt sér mest af, fjármálunum.  Í áratugi hefur annar óttaáróður xD verið sá að vinstrimenn geti ekki komið sér saman um hluti vegna sundrungar.  Að hluta var þetta rétt, en sundrungin er hjá þeim sjálfum eftir hrun þeirra.  Í ljós hefur komið að límið sem hélt saman flokknum var einveldið og skoðanakúgunin.  Þegar valdið af ofan molnar, tekur við ringulreið.  Neyðarlegur hláturinn yfir ræðu gamla einræðisherrans opinberaði þetta virkilega.  Sjálfstæðisflokkurinn er brotinn valdgræðgisflokkur sem hefur molnað siðferðilega og hangir nú í gamalli kosningabrellu - að boða skattaóttann.  Flokkur sem hafði ekki einu sinni kjark til að taka af stimpilgjöld (1.5% lántökuskattur af húsnæðislánum)  í valdatíð sinni með xB í 12 ár.  Flokkur sem tekjutengdi lífeyri gamalmenna og hóf að taka gjöld af þeim sem leggjast ættu inn á spítala.  Flokkur sem höndlaði löggjöf um mannréttindi sem afgangsstærðir og hélt íslensk lög vera best í heimi.  Flokkur sem lét persónuafsláttinn rýrna að verðmæti á meðan flokksgæðingarnir skömmtuðu sér ofurlaun í bönkum og þjónustufyrirtækjum á samningi við hið opinbera.  Kjörorðin "stétt með stétt" urðu í raun "auðmannastétt yfir brauðmolastétt". 

Óttumst við virkilega mest skattahugmyndir xVg nú fyrir þessar kosningar?  Gleymum ekki síðustu 18 árum!


mbl.is Reiðubúin að leiða næstu stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir konur með lága áhættu

Það þarf að koma skýrt fram að hér er um að ræða konur sem teljast hraustar að öllu leyti og eru í lágri áhættu fyrir alvarlegum fylgikvillum fæðingar.  Fyrirsögn Mbl.is er því ófullnægjandi því fullyrðingin á ekki við konur sem eru í áhættuhópum.  Fyrsta setning fréttarinnar bætir þar úr að mestu.  Það er ágætt að þessi rannsókn staðfestir það sem flestir töldu staðreynd fyrir.
mbl.is Heimafæðingar jafn öruggar og fæðingar á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki meiri skatta segja Sjálfstæðismenn - en þá greiða notendur

Áfram halda sjálfstæðismenn söng sínum um að hækka ekki neina skatta.  Þetta hafa þeir gert árum saman, en viðhaldið stimpilgjöldum og aukið kostnað notenda skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins.  Þannig hefur kostnaður þeirrar þjónustu sem ríkið veitir færst frá breiðu bökum fyrirtækjanna yfir á þá efnalitlu einstaklinga sem nota hana mest.  Sjálfstæðismenn hafa ekki haft kjark til að hreinlega skera þá hreinlega niður þjónustuna fyrst að ekki eru til hennar peningar í ríkiskassanum, heldur hafa þeir tekið upp jaðarskatta í formi notendagjalda.  Samkvæmt hugmyndafræði þeirra má ekki hækka skatta, ekki undir neinum kringumstæðum, ekki í slæmri kreppu eða mikilli skuld ríkisins.  Ekki má einu sinni hækka þá tímabundið úr 10% í 14% eins og í tilviki fjármagnstekjuskatts eða úr 18% í 20% í tilviki skatts á fyrirtæki.  Með því að halda þessari ímynd verndara atvinnurekanda og verndara þeirra sem óttast skatta mest alls í þessum heimi, telja þeir að allt muni blómstra á ný.  Götin í velferðarþjónustunni megi stoppa upp í með tekjutenginu ellilífeyris, innlagnargjöldum á spítala, sérspítala fyrir efnameiri, skólagjöldum og aukinni gjaldþátttöku almennings í lyfjakostnaði.  Mitt í þessu á að viðhalda flottri utanríkisþjónustu og rándýrri þjóðkirkju sem t.d. hefur 6 stöðugildi á Landpítalanum og kostar í heild rúma 6 milljarða á ári.  Við vitnuðum um páskana þá hjálp sem kirkjan veitir - "lífið hefur sigrað dauðann með upprisunni!".  Líður okkur ekki betur? 

Skattastefna xD er óraunsæisstefna því um leið eru þeir ekki tilbúnir að rýja heilbrigðis- og menntakerfið inn af skinni.  Það myndi enginn sætta sig við.  Óraunsæið veldur því því að sett eru á notendagjöld sem koma verst niður á þeim sem síst skyldi.  Jafnvægi þarf að finna milli skattheimtu fyrirtækja og þörfinni fyrir opinbera þjónustu.  Það þarf að taka mið af því hvort að fyrir hendi er uppsveifla eða kreppa og þegar kreppa er, þurfa allir að axla á sig byrðarnar, fyrirtækin einnig.  Auðvitað má ekki kæfa þau því þá skapast ekki atvinna, en enginn er að tala um kæfandi skatta.


Varast xD - læknisfræðileg niðurstaða?

 

Í 23. athugasemd við grein mína "Kæri sjálfstæðismaður - ertu sem límdur við brotna fjöl" vitnar Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir í næstsíðustu málsgrein mína þar sem ég segi:

"Sýndu mér fram á að xD sé sá kostur og ég skal skipta um skoðun, en þangað til verð ég að efast um heilbrigða dómgreind þess sem ætlar sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 25. apríl næstkomandi."

og spyr svo:

"Svanur er þetta læknisfræðileg niðurstaða þín?

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 13.4.2009 kl. 09:04"

Svar mitt:

Sæl Adda Þorbjörg - þetta er skemmtilega rugluð spurning hjá þér þar sem ég blanda ekki starfi mínu við stjórnmál, en ég ætla að svara þér af gamni (og smá alvöru).

Hugtakið "heilbrigð dómgreind" er stundum nokkuð sem læknar verða að velta vöngum yfir þegar spurning er um hvort að sjúklingur hafi misst tökin á raunveruleikanum og geti e.t.v. ekki tekið ákvarðanir um líf sitt og heilsu.  Í slíku tilviki er verið að tala um ansi alvarlegt stig missis á heilbrigðri dómgreind og í reynd algeran missi á dómgreind (sturlun). 

Í tilviki þess sem ætlar að kjósa xD eftir 18 ár af nýfrjálshyggju, græðgisvæðingu, sjálftöku, efnahagshruni og siðferðislegri spillingu á ýmsum sviðum stjórnmálanna og stjórnkerfisins, þá er um vægari skerðingu að ræða því viðkomandi er orðinn hlekkjaður hugarfarslega við þennan tiltekna flokk og hættur að beita heilbrigðri gagnrýnni hugsun varðandi val á stjórnmálaflokki.  Í slíku tilviki er engu líkara en að flokkurinn sé heilagur og það sé óhugsandi að hugsa sér aðra og betri kosti. 

Þetta er kannski ekki ólíkt fyrirbærinu meðvirkni.  Sá meðvirki lætur tilfinningar og ástfóstri ráða frekar en skynsemi og framsýni.  Sá meðvirki sér ekki að með því að styðja áfram þann sem er í ruglinu, heldur vandamálið áfram að grassera og versna.  Það er því ekki góð dómgreind að mínu mati og óheilbrigð pólitískt séð þó ekki gangi ég svo langt að kalla hana óheilbrigða í læknisfræðilegum skilningi. 

Fyrir fólk sem hefur sett mikið starf, tengsl og fjármuni í xD skil ég vel að það vilji halda áfram að byggja upp flokkinn sinn og hefja endurbætur, en fyrir hina sem eru óháðir kjósendur, ætti það ekki að vera spurning í ljósi atburða undanfarin ár að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hæfur til að sitja í ríkisstjórn næstu árin.  Þar höfum við "greininguna" en "meðferðin" felst í að kjósa það illskásta sem er í boði núna, þ.e. xS, xVg eða jafnvel xO.  Á vanda stjórnmálanna finnst engin fullkomin lausn líkt og svo oft með vandamál heilsunnar. 

Ertu sátt við "greiningu og meðferð" Adda Þorbjörg?


Ótti Sjálfstæðismanna við stjórnarskrárbreytingar

Á vef Samfylkingarinnar segir:

"Hörð andstaða Sjálfstæðisflokksins við einfaldar en mikilvægar breytingar á stjórnarskrá á sér rætur í hefðbundnum viðhorfum til valda og lýðræðis.

Þær stjórnarskrárbreytingar sem nú eru lagðar til ganga út á þrjú lykilatriði:

  • Að afnema varanlega vald til að gefa eða selja einkaaðilum sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.
  • Færa almenningi vald til að geta haft bein áhrif á mál milli kosninga með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur.
  • Færa almenningi beinna vald til breytinga á stjórnarskrá með ákvæði um hvernig stjórnarskrá er breytt milli kosninga og með stjórnlagaþingi.

Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins hamast gegn þessum sjálfsögðu breytingum með þeim rökum að verið sé að svipta Alþingi einhverju af verkefnum sínum eða völdum horfa þeir framhjá því að Alþingi er ekki uppspretta valds. Valdið á uppruna sinn hjá almenningi og svo þiggja þingmenn vald sitt frá fólkinu sem fulltrúar kjósenda.

Í þessum átökum kristallast því gamalkunnugt stef um mismunandi sjónarmið jafnaðarstefnunnar annars vegar og varðstöðu um völd og sérhagsmuni hins vegar.

Ein afleiðing þess að hafna því að stjórnarskrá megi breyta í samræmi við þjóðarvilja á miðju kjörtímabili í stað þess að aðeins Alþingi geti gert slíkt á tvennum þingum, er sú að tefja lyktir mögulegra samninga við Evrópusambandið um aðild óháð vilja kjósenda eða stöðu á þeim tíma."

Viljir þú bætt lýðræði og út með spillingu - kjóstu þá xS!   ;-)


Kæri sjálfstæðismaður - ertu sem límdur við brotna fjöl?

Kæri sjálfstæðismaður - Það vekur hjá mér furðu að nokkuð heiðvirt fólk ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem gæti alveg eins heitið Sjálftökuflokkurinn.  Sjálfsagt er ýmislegt gott við flokkinn og enn eru í honum fólk sem hefur almennan velvilja, metnað og stolt, en stefna og framistaða hans síðasta áratuginn er á við forsjá ofdrykkjusjúklings í afneitun.  Hvers virði er flott ásjóna ef innviðurinn er fúinn?  Metnaður er ekki nóg ef markmiðin eru þröngsýn og sjálflæg.  Lítum aðeins yfir feril flokks þíns (sem rétt eftir stofnun sína tafði lögsetningu vökulaganna um 4 ár - já, stétt með stétt).

Hér er sitthvað úr "afrekalista" Sjálfstæðisflokksins:

  • Einkavinavæðing í stjórnkerfinu og sölu bankanna á spottprís - með málverkasöfnum.
  • Óhóf í utanríkisstefnu.  Fyrirfram glötuð umsókn um sæti í öryggisráði SÞ. 
  • Geggjuð hugmyndafræði nýfrjálshyggju þar sem markaðurinn átti að tempra sig sjálfur,
  • Hunsun viðvarana um hrun,
  • Rauntekjulækkun þeirra lægst launuðustu með rýrnun persónuafsláttarins í áraraðir. 
  • Utanlandsferðir æðstu ráðamanna til að verja áhættusækinn fjármálageira,
  • Skipun vina og ættingja í dómstóla í mótsögn við hæfnismat,
  • Tregða til framfara í mannréttindum og jafnræði þó einhverjar hafi orðið.  Mannréttindalöggjöf er um 15 árum á eftir þeirri sænsku til dæmis.
  • Karlaflokkur
  • Óhófleg kosningabarátta, ósiðleg móttaka ofurstyrkja eða styrkja frá opinberum fyrirtækjum,
  • Viðhald kvótakerfis sem brýtur á atvinnuréttindum og leyfði framsal kvóta frá mikilvægum byggðarlögum.  Þetta setti tóninn fyrir sjálftöku auðmanna í fjármálageiranum.
  • Sjálftaka með svívirðilegum eftirlaunalögum,
  • Valdhroki, ráðherraræði - nær engin góð mál þingmanna eigin flokks eða stjórnarandstöðu fengu brautargengi á þingi.
  • Fjáraustur í eitt trúfélag - þjóðkirkjuna, langt umfram önnur.
  • Ómannúðleg útlendingalöggjöf og fjársvelti Mannréttindaskrifstofu Íslands.  
  • Stuðningur við stríðsrekstur USA í trássi við SÞ.
  • Fjármálaklúður, farsi og valdagræðgi í borginni - ófyrirleitinn valdaleikur með ginningu Ólafs F. 
  • Ráðning Davíðs Oddsonar í Seðlabankann,
  • Sérhlífni eftir hrunið (engar afsagnir) og ekki brugðist við reiði þjóðarinnar. 

Ég veit að ég er að gleyma fullt af "afrekum".   Kannski geturðu hjálpað mér við upptalninguna.

Nú koma í ljós fjármálahneyksli flokksins, sem á sama tíma var að setja lög um fjárframlög til flokka, m.a. vegna langvarandi þrýstings frá stjórnarandstöðunni og öllu þjóðfélaginu.  Geir Haarde er svo augljóslega að fela sannleikann þegar hann segir "ég einn bar ábyrgð" því hann þurfti ekki að taka það sérstaklega fram.  Lítill strákur í stórum líkama.  Nú er tekinn við flokknum stór strákur með bál í bláum augum sem segist ekkert vita um hvað þessar milljónir áttu að fara í, annað en "fjáröflun fyrir kosningar".  Ýmsar spurningar vakna eins og hvort að stjórnendur Landsbankans (Sigurjón Árnason o.fl.) hafi með þessum 25 milljón króna styrk til xD ætlað sér að kaupa sér áframhaldandi vinnufrið með Icesave reikningana sína (stofnaðir í maí 2006) og velvild í stað gagnrýni valdamesta flokks landsins?  Hver sem ástæðan var, er ljóst að þarna mynduðust óeðlileg hagsmunatengsl sem boðið gátu uppá misbeitingu valds eða vanbeitingu réttarvalds gagnvart þessari gríðarstóru fjármálabólu sem Landsbankinn var orðinn.  Með sjálfstæðismann í forystu hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum var þessi mögulega vanbeiting eftirlits og aðhalds enn líklegri og með því að þiggja svona styrk er traustið rofið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann er flokkur tækifæranna, sama hver þau eru og sama hversu siðleg eða ósiðleg þau eru.  Á meðan það er löglegt er það í lagi hjá forræðismönnum flokksins.  Siðferðishugsunin nær ekki lengra.  Ekki vantar að flokkurinn hefur viðhaldið ásjónu ytri myndugleika en hvar er heiðurinn?  Hvar er hin raunverulega reisn heiðviðra manna?  Flokkurinn þykist bera hag allra stétta fyrir brjósti - "stétt með stétt!", eru ein af kjörorðum flokksins, en í tíð hans varð bilið milli efnalítilla og auðmanna aldrei stærra í Íslandssögunni og kakan stóra sem átti að hjálpa öllum var bara blekking sem molnaði eftir áratug sukks og ofurlauna. 

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn komu á einum þeim lægstu sköttum á fjármagn og arð fyrirtækja sem þekkist, en samt launaði þetta nýríka fólk þjóðinni með því að fela fjármagn sitt í skattaparadísum með hjálp banka sem eitt sinn voru ríkisbankar og báru eitt sinn ábyrgð gagnvart þjóðinni.  Eigendur sumra stórfyrirtækja skilaðu kinnroðalaust inn skattframtali með hlægilega lágum launatekjum og fengu sínar tekjur gegnum arð sem bar aðeins 10% skatt.  Kerfið sem átti að minnka stórlega undanskot frá skatti ól aðeins á meiri græðgi og undanskotum.  Fylgjendur frjálshyggjunnar virðast margir hverjir ekki skilja að skattskil byggja fyrst og fremst á siðferðilegri afstöðu og ábyrgðartilfinningu heldur en nákvæmlega hver prósentan er.  Nú þarf að hækka þennan skatt t.d. upp í 14% (sem áfram væri lágt) því þjóðarskútan er á kúpunni, en formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að slíkt komi ekki til greina.  Hann heldur greinilega enn að fyrirtækin steli minna undan skatti ef þau þurfi nær ekkert að greiða í skatt.  Hann telur að fyrirtækin geti ekki tekið á sig byrðarnar eins og aðrir, og þau megi ekki snerta.  Hann telur sig hinn stóra vin einkaframtaksins og með því nái þjóðin flugi á ný.

Hvernig getur þú hugsað þér að kjósa þennan flokk sem enn segist hafa aðhyllst rétta hugmyndafræði?  Hvernig geturðu kosið flokk sem klappar úr sér lófana yfir aðsóknarsjúkri og hrokafullri háðsræðu Davíð Oddssonar á landsþingi flokksins? 

Kannski á Sjálfstæðisflokkurinn sér viðreisnar von en þess sjást ekki mikil merki nú.  Þjóðin hefur nú einstakt tækifæri til lýðræðisbóta með breytingum á stjórnarskrá sem þarf þingið nú og þingið eftir kosningar til að samþykkja, en Sjálfstæðisflokkurinn ber við alls kyns ómálefnalegum málflutningi (kvartar yfir vinnubrögðum) og beitir málþófi til að reyna að koma í veg fyrir breytingarnar.  Nú beitir flokkurinn fyrir sér félagasamtökum með dýrum auglýsingum í blöðum og sjónvarpi.  Hræðslan við að dreifa valdinu og breyta því kerfi sem flokkurinn hefur nærst á og sótt völd sín til undanfarna áratugi er mikil.  Flokkurinn sem viðhélt alls kyns skattníðslu í formi jaðarskatta (stimpilgjöld, tekjutengingar bóta, notendagjöld) segir nú að alls ekki megi setja á neina nýja skatta eða skattahækkanir, en jafnframt vill skera verulega niður í opinberri þjónustu og setja gjöld á veikt fólk sem þarfnast innlagnar á spítala (aðgerðir Guðlaugs Þórs).  Lausnir í atvinnumálum eru áfram stóriðja og blóðmjólkun landsins gæða með nýjum haug af orkuverum.  Þetta er allt blessunarlega laust við hófsemi og aðgæslu gagnvart náttúru landsins, auk þess sem eggin eiga greinilega að liggja öll í sömu álverskörfunni, háð því að álverð haldist gott. 

Auðvitað má finna að ýmsu hjá stjórnarflokkunum xS og xVg, en nú eins og alltaf þarf að velja illskásta kostinn sem er í boði.  Sýndu mér fram á að xD sé sá kostur og ég skal skipta um skoðun, en þangað til verð ég að efast um heilbrigða dómgreind þess sem ætlar sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 25. apríl næstkomandi.  Aldrei hefur þetta verið eins skýrt í huga mér og ég skora á þig sjálfstæðismaður að líma þig ekki við brotna fjöl.  Kjóstu betra siðferði og ekki aðeins efnahagslega hagsæld heldur einnig félagslega farsæld og mannvirðingu næstu 4 árin með því að kjósa annan hvorn ríkisstjórnarflokkinn!  Það er ekkert að því að vera fyrrverandi sjálfstæðismaður!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband