Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

... og afeitrun Jónínu Ben flytur heim

Kæru vinir! 

Nú er runninn upp tími til að losa sig við allt eitrið í kroppnum.  Í alvöru!  Ég veit ekki hvaðan eitrið eða eitrin koma en náttúrlegt græðafólk hefur það fyrir satt að líkaminn sé nánast ein eiturtunna.  Mesta eiturstían er víst í ristlinum og skal mig ekki undra því salernisferðir mínar til að sinna Nr. 2 hafa aldrei lyktað vel.  Þá er næsta víst að þau líffæri sem vanhelg eru í heimi náttúrubarnanna, búlduleitu líffærin lifur og nýru, virðast ekki hafa neitt að segja gagnvart þessum eitrum sem krauma í ristlinum.  Þá dugir greinilega ekki lengur að klappa á koll ristilvina okkar í Hr. Lactobacillus fjölskyldunni, sem hefur greinilega misst mátt sinn og tiltrú heilunarbærra heilsufrömuða og er nú bara venjuleg hilluvara í Hagkaup. 

Í afeitrunarmeðferð, afsakið... detox-læknismeðferð Jónínu Ben skal borða nær eingöngu grænmeti og ávexti, um 500 hitaeiningar á dag (helmingi minna en strangur 1000 hitaeiningakúr) í tvær vikur og forðast alla vöru sem gæti innihaldið eiturefni eins og t.d. matur í áldollum, "diet" matur og geymsluþolinn matur.  Þá á að sleppa helst öllum sykri, kjöti, kartöflum og brauði.  Ég skil að það gangi ekki því nokkrir ávextir og handfylli af grænmeti duga til að fá 500 hitaeiningar á dag.  Svo er hvatt til þess að hætta reykingum og kaffi, gosdrykkir og áfengi mega missa sín.  Taka á Omega 369. Síðast en ekki síst er svo mælt með ristilskolun.

Mynd:  Dæmigert dæmi um eiturslöngu, nei smá grín - eitraðan ristilmassa úr offeitri manneskju, sem kom niður í ristilskolun.  Sjá á þessari flottu fræðisíðu um ristilhreinsun.

Afrakstur detox

Þetta er lausn allra lausna í mínum huga.  Hinn ógeðslegi íslenski matur sem er reyktur, brenndur, kæstur, pæklaður og geymdur stundum í áldósum er fullur af eitri.  Þá er nær alger fasta í 2 vikur með léttu grænmeti og smá ávöxtum og Omega 369 ákaflega hvílandi fyrir latar garnafrumur okkar og frí frá öllu eitrinu.  Þó heilinn verði svolítið pirraður og baðaður í niðurbrotsefnum fitu (ketónum) og manni líði eins og einhvers staðar milli svefns og vöku eftir 3 daga á hinum fræknu 500, þá er ekkert betra en að sýna heilanum að sykureitrun er ekkert grín og það þurfi að venja hann af sykursukkinu.  Þá er líka gott að venja hjartað við að nota vara-vara-eldsneyti sitt, ketónana sem finna má í blóðinu í ríku mæli á 3 degi lífsstílsbreytingarinnar.  Á þeim tíma fer líka líkaminn að brjóta niður vöðvana og senda amínósýrur (æ fyrirgefið þetta ó-óhefðbundna lífræna efnaheiti efnanna sem eru byggingarblokkir próteina og vöðva) til lifrarinnar til að búa þar til svindlsykur fyrir heilann.  Já helvítis heilinn (sorry ég bara get ekki annað en kennt honum um) er vitlaus í sykur og finnur leiðir til að ná sér í hann, jafnvel þó að vöðvadruslurnar þurfi að láta af hendi stuffið sitt í sykurgerð.  Ef það drepur mann ekki (kúrinn auðvitað) þá herðir það mann bara!  Minnumst þess! Þetta mottó má nota við nánast hvað sem er og passar eins og stólpípa við rass í tilviki detox programs Jónínu Ben.

Svo er það náttúrulega ristilskolunin sem er toppur tilverunnar í detoxinu.  Eftir nær fulla föstu í 1-2 vikur er vissara að skola út það sem eftir er og hver veit nema að Chad (skolarinn sæti) finni gömul leikföng eða peninga sem maður gleypti í ógáti eða reiðiskasti sem krakki, alls óafvitandi af öllu eitrinu í heiminum.  Chad sagði að þetta kæmi stundum fyrir og brosti í viðtali sem sýnt var á stöð 2 í vikunni.  Hvílíkt maður!  Hugsið ykkur að ganga með plastfisk eða lególögreglumann í afturendanum í kannski 40 ár (í mínu tilviki)!!!  Með afeitruninni sem skolunin tryggir væri góður bónus að losna við leikfang og endurheimta þannig gamlan leikfélaga.  Ráð Jónínu Ben "Hugsa jákvætt um sjálfan sig og brosa! :-D" á svo sannarlega við hér (breiðletrað vegna mikilvægis).

Ég hef samt nokkrar áhyggjur af því hvað ég geri alla hina daga ársins þegar ristilskolunarinnar nýtur ekki við (játning: pínu feginn þó líka því skolunin er ekki eins skemmtileg og heimsókn í Húsdýragarðinn) og nái ég ekki að fara alltaf eftir detox-mataræðinu, gæti eiturefnin hlaðist upp.  Ég sé fyrir mér hrukkurnar undir augunum hrannast upp, hárið þynnast, ótal kvefpestir næsta vetur og vöðvabólguna verða langvinna.  Lýsið köttar þetta hreint ekki eitt.  Hvað þyrfti ég margar ristilskolanir á ári hjá Chad?  4, 5, 6, 7 eða 12 á ári, þ.e. einu sinni í mánuði? Já, ég sé það fyrir mér þó ég eigi eftir að fá leiðbeiningar hjá pólsku læknunum.  Skyldi TR taka þátt?

Það er alveg ljóst að þetta virkar ótrúlega vel.  Venjulegir læknar og lyfjafyrirtæki sem eru bundin fáránlegum reglum kunna ekki að kynna læknisfræðina, en Jónína Ben og hinir þrautreyndu pólsku læknar kunna að koma vísindunum á framfæri.  Með bessaleyfi leyfi ég mér að vitna hér í vitnisburð hæstánægðs fólks úr meðferðinni. 

Einhver Sunna á orðið (hlýtur að vera dulnefni því vísindamenn koma ekki með svona persónuupplýsingar):

"Eftir meðferðina get ég gert allt sem ég vil vil" - Sunna 20 ára

Þetta eru frábær meðmæli því svo víðtæk áhrif er nokkuð sem venjulega lækna dreymir um að geta veitt sjúklingum sínum.  Pólsku læknarnir hafa unnið kraftaverk. 

Hvað sagði "Kata"?

"Jónína ég hef ekki fundið fyrir MS sjúkdómnum og held mig við ráð læknisins. MS inn er farinn" -  Kata 25 ára

Þetta er stórkostlegt.  Þó að þekkt sé að MS sjúkdómurinn geti komið og farið og legið niðri í fjölda ára er MS-sjúkdómur Kötu farinn því hún fann það algjörlega.  Er þetta ekki hennar líkami? Ég gaf smá pening í MS-söfnunina í kvöld.  Vonandi verður peningurinn notaður í svona lækningu. 

Lítum svo á þetta:

"Ristilinn minn vinnur loksins með mér en ekki á móti mér" - Sigrún 66 ára

Hugsið ykkur léttinn fyrir Sigrúnu sem er orðin 66 ára og finnur loksins að ristillinn vinnur ekki á móti henni.  Hún hefur nú sjálfsagt aðeins misskilið þetta því það var nátt'lega bara eitrið sem fékk ristilinn til að vinna svona á móti henni.  Samt - alveg frábært og gaman væri að vita hvort að ristillinn verði ekki ævarandi vinur hennar það sem eftir er.  Kannski fáum við framhaldsummæli frá henni á detox-síðunni eftir 3 mánuði og svo aftur á hverju ári.  Það væri magnað!

En hér er uppáhaldið mitt (sorry, ekki mjög vísindalegt af mér að segja svona, en wott ðe hekk):

"Sykursýkin hvarf eftir þrjá daga í meðferðinni, ég þarf ekki á lyfin, jibbí" - Anna 48 ára

Hvílíkur léttir fyrir Önnu.  Ég hef aldrei vitað af svo skjótri lækningu við sykursýki og samt hef ég talað talsvert við lækna og kynnt mér pínu sjúkdóminn.  Aftur verð ég að lýsa aðdáun minni yfir prógrammi pólsku læknanna.  Sé raunin að þeir lækni fullt af sykursjúkum á aðeins 3 dögum þegar öllum öðrum læknum tekst nær aldrei að lækna sykursýki, þá sé ég þá fyrir mér taka við Nóbelsverðlaununum fyrir afrek á sviði læknisfræðinnar innan skamms.  Sjálfsagt þurfa þeir bara að sýna þennan árangur í 2-3 ár í viðbót.  Góður orðstír aldrei deyr, (eða eitthvað þannig) sagði einhver flottur gaur í fyrndinni og þessi góðu ummæli og allra hinna í detox-meðferðinni munu svo sannarlega sjá til þess. 

Nú er bara að bíða þess að íslenskir læknar læri þetta og séu með í hitunni.  Hver vill ekki einn Nobba eða svo?  Til hamingju Jónína Ben!  Til hamingju Stöð 2! (flott frétt) og til hamingju Ísland!

Með bjartsýnina og brosið að vopni er Jónína Ben að setja fordæmi fyrir öll sprotafyrirtæki í landinu og er það enginn smá sproti! 

PS:  Ef til vill væri það eina sem kæmi í veg fyrir Nobba ef sprotinn færi óvart í gegn, úps! sorry! (afsakið en ég gat ekki annað en minnst á þetta fyrst að mér datt það í hug.  Gerist pottþétt ekki).

 


mbl.is Læknar flýja kreppuland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrekmótamenningin - öflugur samruni grunníþrótta

Merkileg þróun á sér stað í íslensku íþróttalífi sem segja má að hafi átt ákveðið upphaf í byrjun 9. áratugarins (1980 og áfram).  Ég er að tala um þrekmótin sem eru sprottin úr grasrót ófélagsbundinna íþróttamanna sem komu á fót þrekmótum annað hvort byggðum á eigin hugmyndum eða samkvæmt erlendum fyrirmyndum.  Áður en ég lýsi þrekmótunum ætla ég að fara aðeins í þann sögulega aðdraganda að myndun þessara þrekgreina, sem ég þekki, en er alls ekki tæmandi lýsing.

Upp úr 1980 hófst nýtt tímabil í líkamsræktarmenningu Íslendinga þegar fólk gat komið úr felum kjallara og bílskúra þar sem það lyfti lóðum eða spennti út gorma og byrjað að æfa styrktaríþróttir í nýtilkomnum líkamsræktarstöðvum.  Þessar stöðvar voru í fyrstu litlar (sbr. Orkubótina í Brautarholti) en stækkuðu og fjölgaði nokkuð ört næstu árin á eftir (Ræktin Laugavegi og stöðvar í Engihjalla og Borgartúni og íþróttahúsinu Akureyri).  Fyrir þennan tíma var skipuleg kraftþjálfun aðeins stunduð af kraftíþróttamönnum og var frægastur æfingastaða þess tíma Jakabólið í Laugardalnum.  Það var því ekki tilviljun að fyrrum ólympískir lyftingamenn (jafnhöttun og snörun) og kraftlyftingamenn (bekkpressa, hnébeygja og réttstöðulyfta) voru á meðal frumkvöðla í rekstri þessara stöðva og að auki kom inn nýtt blóð áhugamanna um vaxtarrækt sem byggði á hugmyndinni um hið fullkomna stærðarjafnvægi vöðvahópanna í fagurfræðilegu flæði. 

Kostur vaxtarræktarinnar fram yfir kraftsportið átti að vera aukin áhersla á fleiri endurtekningar og meira alhliða þjálfun með þætti þreks, en í reynd fór lítið fyrir því og sportið varð fórnarlamb massagræðginnar.  Mikil steranotkun í bæði kraftgreinunum og vaxtarræktinni skyggði alltaf á orðstírinn og þessar greinar náðu aldrei sérstökum vinsældum þó að lengi framan af hefði vaxtarræktin dregið að sér mikið af forvitnum áhorfendum sem oftar en ekki voru í aðra röndina að hneykslast á ofurskornu og íturvöxnu útliti keppendanna.  Ég æfði mikið á þessum tíma og tók mikinn þátt í skipulagningu móta um 3 ára skeið (1986-1989).  Það var þó ljóst að þetta var að bresta og sú breiða tilhöfðun sem vonast var til með að vaxtarræktin hefði, varð aldrei að veruleika.  Ég man að ég sá fyrir mér í kringum 1990 að það þyrfti að koma inn með einhverja "function" í vaxtarræktarhugtakið.  Sýningin ein á vöðvabyggingunni náði ekki flugi m.a. vegna þess að "free posing" hluti keppninnar krafðist listræns þroska til þess að einhver skemmtan væri af því að horfa á.  Afar fáir keppendur náðu almennilegu valdi á því.  Það var einhvern veginn vonlaus staða að búast við því að testósterónlyktandi hörkutól legðu stund á fagurfræðilegan vöðvadans í ætt við listdans á skautum.  Einn helsti meistari slíkrar listar var Frank Zane sem vann Mr. Olympia keppnina 3 ár í röð (1977-79) og í sögu vaxtarræktarinnar einn af aðeins þremur sem nokkru sinni náðu að vinna Arnold Schwartzengger.  Upp úr 1984 þegar hinn ofurmassaði Lee Haney hóf sigurgöngu sína, var massinn ráðandi yfir hinum fagurfræðilegu þáttum vaxtarræktarinnar og æ fleiri "mind blowing" massatröll komu fram á sjónarsviðið.  Fræðimenn í heilbrigðisgeiranum komu fram með hugtakið "öfugt lystarstol" (reverse anorexia, Adonis complex) yfir þá áráttufullu massasöfnun sem þessir íþróttamenn virtust vera haldnir.  Áráttan náði út fyrir alla skynsamlega varkárni í æfingum og notkun vaxtaraukandi hormóna.  Þá fór að bera á alls kyns efnanotkun eins og notkun þvagræsilyfja til að losa vatn fyrir keppni og örvandi efna til að öðlast meiri æfingahörku.  Það kom fyrir að keppendur drápu sig með þessari iðkan og gerðist það bæði erlendis og hérlendis, a.m.k. með óbeinum hætti, þ.e. óheilbrigðar aðferðir við undirbúning móta áttu þátt í dauðsföllum.  Þrátt fyrir þetta var enginn raunverulegur áhugi innan kraftíþrótta og vaxtarræktar til að reyna að "hreinsa upp" þessar greinar.  Sem dæmi, þá var frekar tekið það til bragðs að segja Kraftlyfingasambandið úr ÍSÍ, en að gegna boði um löglega boðað skyndilyfjapróf á Jóni Páli Sigmarssyni (af hálfu lyfjanefndar ÍSÍ).  Árið 1991 sá ég að vaxtarræktin var ofurseld massagræðginni og ég missti áhugann á íþróttinni.  Sú hugsjón sem ég hafði heillast af, þ.e. alhliða þjálfun vöðvahópa líkamans í átt að þeirri fagurfræðilegu möguleikum (samræmi og fallegt flæði) sem hver einstaklingur bjó yfir, hafði lotið í lægra haldi fyrir takmarkalausri massasöfnun.  Mér fannst að þessi íþrótt ætti e.t.v. séns (í átt til heilbrigðis) ef inní hana kæmi "function", þ.e. að við hana væri bætt keppni í þreki eða einhvers konar leikni.  Að sama skapi yrði að setja þak á massann því annars kynni fólk ekki að hætta.  Með hömlulausri lyfjanotkun var ekki ljóst hvort að nokkur takmörk væru fyrir massasöfnuninni.  Ég hætti afskiptum og fylgdist ekki einu sinni með, nema hvað auðvitað fór það ekki fram hjá manni að stóru mennirnir Jóhann Möller yngri og Jón Páll Sigmarsson létust um 1-2 árum síðar, langt um aldur fram.  Engar einhlítar skýringar eru á dauða þeirra, en í tilviki Jóns Páls þar sem talsverð opinber umræða hefur farið fram, hefur möguleikinn á skaðsemi mikillar steranotkunar nánast verið kæfður.  Jón Páll var elskaður af þjóðinni fyrir nánast barnslega jákvæðni sína, baráttuvilja, húmor og útgeislun gleði og áhyggjuleysis.  Hann varð ímynd þess að við Íslendingar gætum allt, bara ef við gæfum okkur öll í verkefnin.  Ekki ósvipað því viðhorfi sem stuðlaði að "efnahagsundrinu Ísland" sem á endanum hrundi í blindri afneitun í október 2008.  Ekkert mátti skyggja á þessa fallegu ímynd Jóns Páls og ofurhetjumynd kraftíþróttanna og enn þann dag í dag hef ég ekki séð heiðarlegt mat á þessum skuggaheimi kraftíþróttanna í riti eða mynd. 

Breytingar áttu sér þó stað og sú hugmynd sem ég fékk var greinilega í hugum margra annarra og varð að veruleika nokkrum árum síðar, þ.e. "function" kom inn í dæmið og alls kyns fitness keppnir spruttu upp.  Vinsældir strongman keppnanna hafa eflaust haft sín áhrif einnig því í þeim var mikið líf og keppendur þurftu nokkurt þrek auk gífurlegra krafta til að eiga séns á sigri.  Síðar komu einnig inn keppnir sem erlendis eru kallaðar Classical bodybuilding, þ.e. klassísk vaxtarrækt þar sem takmörk eru sett á þyngd keppenda miðað við hæð þeirra og þannig í raun sett þak á massasöfnunina.  Nafnið er athyglisvert því í því virðist felast viðurkenning á því að hin upphaflega klassíska vaxtarrækt hafi í raun ekki haft endalausan vöðvamassa að takmarki sínu.  Í rúman áratug stóð þátttaka í vaxtarrækt nánast í stað og afar fáar konur vildu taka þátt, en eftir að fitness keppnirnar byrjuðu virðist hafa losnað um stíflu í þeim efnum.  Þessar keppnir leggja meiri áherslu vissar staðalímyndir kvenleika og nýta sér ákveðin atriði úr fegurðarsamkeppnum eins og að nota háhælaða skó.  Massinn á að vera minni en mér sýnist á myndum frá keppnum fitness.is að hann sé síst minni en var áður hjá íslenskum vaxtarræktarkonum, en er auðvitað langt frá því að vera eins og þær erlendu (aðallega USA og Evrópa) voru orðnar í massastríði 9-10. áratugarins.  Ég get ekki að því gert að mér finnst þessi hugsun að vera á háhæluðum skóm í bikiníi sem myndar V-laga uppskorning beggja vegna þannig að í eitlaríkt nárasvæðið skín og rasskinnarnar berast nær alveg, en aftur kviðvöðvarnir sjást minna, vera hálfgerð keppni í því að þora að sýna það sem áður mátti ekki sýna frekar en að hafa eitthvað íþróttalegt eða fagurfræðilegt gildi.  Nárasvæðið er eitt hið óásjálegasta svæði líkamans þegar öll fita er farin í kringum eitlana og við blasa óreglulegar kúlur.  Litur sérkennilegra samfastra bikinía í módelfitness keppninni er oftar en ekki verulega sterkur og væminn með gljándi doppum eða glansandi leðri.  Aftur hugmynd sem ég tengi frekar við spilavíti, súlustaði, chorus line stelpur, cheer leaders og aðrar kynlífshlaðnar kvenímyndir, en íþróttir.  Að auki er ljóst að brjóstastækkunaræði nýfrjálshyggjumenningarinnar lifir þarna það góðu lífi að brjóst sumra keppenda hafa nánast sigrast á þyngdaraflinu.  Með því að gifta saman vöðva- og þrekíþrótt, fegurðarsamkeppni, ímyndir úr módel- og kynlífsbransanum, brúnkukremsbransann og fæðubótarbransann hafa fitnesskeppnirnar náð að líta út eftirsóknarverðar í augum fleiri ungra kvenna en áður.  Þó að það gleðji mig að massagræðgin hafi fengið þak, þá finnst mér þessi þróun í raun ekki hafa gert mikið til að gera vaxtarræktar-tengdar íþróttir heilbrigðari og þá á ég ekki bara við hið líkamlega.  Það er svo ótrúlegt að það virðist ekki vera hægt að sýna líkamsvöxt sinn án þess að gera úr því gervihlaðna glamúrsýningu.  Meðalhófið fær ekki að njóta sín. 

Annað fitness þróaðist einnig hraðbyri uppúr 9. áratugnum þó upphaf þess megi rekja 10-15 ár fyrr, en það var skokkið og svo maraþonæðið.  Æðsti draumur skokkarana var ekki lengur Neshringurinn plús 400 metra skriðsund í Vesturbæjarlauginni, heldur hálft maraþon og svo heilt árið eftir.  Svo dugði það ekki til og allir vildu teljast flottir hlupu Laugaveginn (Landmannalaugar-Þórsmörk) eða fóru í einhvers konar ofur-þolíþróttir eins og hrikaleg hjólreiðamaraþon, Vasa-skíðagangan, iron-man þrígreinar (sund, hjól og hlaup) og svo 100 eða 200 km hlaup og loks 48 klst vegalengdakapphlaup (langt í frá tæmandi listi). 

Þessar þol- og kraftíþróttir má kalla grunngreinaíþróttir því þær beinast að þessum grundvallarþáttum í líkamlegri getu, krafti og þoli.  Greinar eins og fimleikar sem komu inn með grunnþættina snerpu og liðleika auk krafta og náðu einnig meiri vinsældum á meðal almennra iðkenda. Fimleikafólk hafði oft einn besta grunninn fyrir fitness greinarnar nýju (t.d. Kristján Ársælsson margfaldur icefitness meistari).  Áður en þessar grunngreinar fóru að splæsast saman í nýjar greinar þróuðust þær í hömlulausar útgáfur sínar, þar til ákveðinn hópur fékk nóg og þörf fyrir skynsamlegar takmarkanir sköpuðust.  Enn halda menn áfram í að kanna hversu langt þeir/þær geta gengið án þess að hreinlega drepa sig (sumir drepa sig reyndar eða missa heilsuna), en blikur eru á lofti að nýjar greinar sem hafa þær lengdartakmarkanir sem þær gömlu höfðu (t.d. 800 m hlaup), en byggja á alhliða getu úr öllum tegundum grunngreinanna, séu að ná talsverðum vinsældum.  Þetta eru því nokkurs konar tugþrautir hinna almennu sportista sem krefjast ekki þeirrar miklu tækni og stærðar valla sem greinar tugþrautarinnar gera. 

Þetta eru þrekmótin Þrekmeistarinn, Lífsstílsmeistarinn, Crossfit leikarnir, BootCamp keppnin og loks Skólahreysti fyrir eldri grunnskólabörnin.  Hér er um hreinar "function" keppnir í orðsins fyllstu merkingu að ræða því gríðarlegt alhliða þol, líkamsstyrk, snerpu og að nokkru liðleika þarf til að ná árangri í þessum mótum. 

Þrekmeistarinn og Lífsstílsmeistaramótið byggja á 10 greina braut sem ljúka á á sem bestum tíma en Crossfit leikarnir er mót með breytilegum æfingum sem sameina krafta og snerpu lyftingagreinanna tveggja (ólympískar og kraft) auk greina úr vaxtarrækt (t.d. upphýfingar), gamallar útileikfimi (burpees hopp), ýmissa áhalda (ketilbjöllur og þyngdarboltar) og gamla góða skokksins (en upp brekku að hluta).  Áberandi er að þátttakendur í þessum þrekmótum koma úr öllum áttum íþrótta og öllum aldri.  Mjög góð samkennd og velvilji ríkir á milli keppenda þrátt fyrir harða keppni um toppsætin.  Mikil íþróttamennska ríkir og ekkert prjál er í gangi.  Það er því að skapast ákveðin þrekmótamenning sem lofar góðu.  Helsti vandinn hefur verið að fá keppendur til að framkvæma allar æfingar rétt og ganga sumir þeirra á lagið ef dómarar eru linir og kjarklitlir við að refsa fyrir ógildar lyftur.  Keppendum til hróss má þó segja að þeir hafa verið mjög umburðarlyndir gagnvart mismunun sem þetta hefur stundum skapað og er það til marks um þann almenna anda gleði yfir þátttöku og jákvæðni sem hefur ríkt. 

Nú í fyrsta sinn í ár er efnt til svokallaðrar þrekmótaraðar 4 keppna þar sem allir helstu aðilar þrekmóta munu krýna allsherjar meistara þrekmótanna eftir að keppni í mótunum öllum líkur.  Samstarfsaðilarnir eru Lífsstíll í Keflavík (Lífsstílsmeistarinn 14. mars), CrossFitSport (Kópavogi og Seltjarnarnesi, CrossFitleikarnir 23. maí) BootCamp (BootCamp-leikar) og Þrekmeistarinn Akureyri (Íslandsmót þrekmeistarans í nóvember).  Allt eru þetta ný mót nema Þrekmeistarinn og því er að skapast mikil breidd og fjölbreytni í þrekmótum. 

Crossfitleikarnir eru nýafstaðnir og reyndi þar meira á kraftaþátt þreksins en í Þrekmeistaramótunum og Lífsstílsmeistaranum.  Leikarnir voru haldnir úti á malbikiðu plani í Elliðaárdalnum móts við Ártúnsbrekkuna.  Þessi útivera skilaði algerlega nýjum og ferskum vinkli á sportið og aðrar áherslur mótsins miðað við hin skiluðu breyttri sætaröðun keppenda því hreint þol (aerobic endurance) hafði minna að segja. Almennt var mikil ánægja með mótið og dómgæslan tókst að mestu með ágætum.  Crossfitleikarnir eru sérstakir að því leyti að þeir skiptast tvær deildir keppenda, meistaraflokk og almennan flokk, þannig að hinn almenni "dútlari" eins og ég gátu tekið þátt án þess að lenda í beinum samanburði við "ofurmennin" í meistaradeildinni.  Keppendur í almenna flokknum hjá konum og körlum voru þó almennt í góðu formi.  Má segja að þáttaka mín hafi verið ákveðin núllstilling, þ.e. þá sást hvað hinir voru í góðu formi miðað við hinn almenna kyrrsetumann (hef bara æft þetta í 2 mánuði).  Áberandi var að allir fengu hvatningu og mottóið var að ljúka sínu, sama hver tíminn væri.  Íþróttaandi jafnræðis og virðingu fyrir jákvæðri viðleitni sveif því yfir Elliðaárdalnum þennan tiltölulega veðurmilda laugardag.  Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá hversu ríka hvatningu til annarra keppinauta og þeirra sem áttu í mestu erfiðleikunum, kom frá Sveinbirni Sveinbjörnssyni, sigurvegara meistaraflokks karla.  Þar fer mikill íþróttamaður sem er gefandi á öllum sviðum íþróttamennskunar.  Konan mín, Soffía Lárusdóttir náði 3. sæti í almenna flokki kvenna og er ég ákaflega hreykinn af henni. 

Ég bind nokkrar vonir við þetta þreksport því í því liggja þeir möguleikar að fara ekki með það út í algert stjórnleysi og samfélagið í kringum það getur nært mjög alhliða þrek-líkamsrækt sem hentar breiðum hópi fólks.  Æfingarnar eru kröfuharðar en um leið aðlagaðar einstaklingum.  Hver og einn gerir sitt besta og oftast gott betur því með hjálp hvatningarinnar og milds jákvæðs hópeflis ná menn mun betri árangri en með því að dútla í sínu eigin horni.  Dálítið mismunandi aðferðir og áherslur eru á milli þessara æfingakerfa og virðist Cross-fit kerfið eiga erindi til breiðari aldurshóps en BootCamp kerfið sem hefur átt það til að vera talsvert óvægið og því meira innan álagsþols yngri hópsins.  Bæði kerfin hafa skilað iðkendum sínum miklum árangri.  Það er stundum stutt á milli árangurs og meiðsla og því þurfa þjálfararnir að hafa vakandi auga fyrir einstaklingum sem eru ekki tilbúnir í hörð átök og byggja þá upp hægar en hina.  Mikill áhugi á skólahreysti mótunum á örugglega eftir að skila sér í meiri þátttöku þrekmótanna þegar fram líður.  Þá held ég að þessar þjálfunaraðferðir eigi eftir að skila sér í aukni mæli í grunnþjálfun boltaíþróttanna eða annarra tæknilegra íþróttagreina.  Það verður spennandi að sjá hver þróunin verður næstu árin.  Vonandi fáum við sport sem leggur áherslu á heilbrigða hugsjón ekki síður en kappið.  Maður leyfir sér að dreyma stundum.  ;-)


Hugljúf stund hjá Siðmennt

Það var hugljúf stund í dag með alþingismönnunum Þór Saari, Birgittu Jónsdóttur, Margréti Tryggvadóttur (öll xO) og Lilju Mósesdóttur (xVg).  Einnig var þarna varaþingmaður Hugvekja JóhannsBorgarahreyfingarinnar Katrín Snæhólm Baldursdóttir.  Þetta kjarkaða fólk sem þorði að brjóta sig út úr áratugagömlu "rituali" fyrir setningu Alþingis, lét ekki stýrast af hefðarrökum ("af því að svoleiðis hefur það verið gert á Íslandi") og meirihlutaþrýstingi til þess eins að virðast samheldin.  

Alþingi og trúarbrögð eiga að vera aðskilin og því ber þingmönum ekki skylda að sækja messu í tengslum við starf sitt.  Í annan stað eru mun fleiri lífsskoðanir en sú kristna og margir þingmenn eru ekki kristnir.  Það á því ekki að beita félagslegum þrýstingi á það fólk sem hefur aðrar skoðanir en þá kristnu til að mæta í Dómkirkjuna. 

Heppilegast er að Alþingi hafi ekki nein tengsl við lífsskoðunarfélög á þennan máta, en á meðan þingið vill fara í messu er til bóta að til sé veraldlegur valkostur óháður trúarbrögðum.  Siðmennt veitti þann valkost í dag og tókst vel til þó auðvitað hefðu fleiri alþingismenn mátt iðka frelsi sitt.

Hugvekja Jóhanns Björnssonar er birt á síðu Siðmenntar.  Myndband af því verður birt síðar.


mbl.is Óþarfi að blanda Guði inn í þinghaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í átt að jafnræði

Þó lítill tími væri til undirbúnings ákvað stjórn Siðmenntar að bjóða nýkosnum alþingismönnum valkost við trúarlega guðsþjónustu fyrir setningu Alþingis í dag föstudaginn 15. maí kl 13:30.  Á sama tíma geta þeir alþingismenn/alþingiskonur sem vilja, trítlað yfir á Hótel Borg og hlustað á hugvekju Jóhann Björnssonar, heimspekings og athafnarstjóra hjá Siðmennt um mikilvægi góðs siðferðis í þágu þjóðar.  Þessi stundi í boði Siðmenntar verður að mestu óformleg og frjálsleg.  Þingmennirnir fá léttar veitingar og geta spjallað saman eftir hugvekjuna þar til tími er kominn til að trítla inn í sal Alþingis á ný til setningar þingsins.  Þetta er því svolítið í anda þess að vera frjáls undan því að klæðast bindi í þingsal, þau auðvitað búist ég við að allir verði prúðklæddir við setninguna.

Samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár ríkir hér trúfrelsi og er það í raun svo, en það segir ekki alla söguna.  Ef við tökum dæmi úr öðru þá sést að það er ekki nóg að hafa atvinnufrelsi ef enginn vill ráða þig.  Það er ekki nóg fyrir konur að hafa sama rétt til sömu launa og karlar ef í rauninni er þeim mismunað.  Þannig er það með lífsskoðunarmálin (trúarlegar eða veraldlegar lífsskoðanir).  Við megum hafa þá sannfæringu að trúa ekki á guð eða annan æðri mátt, en ríkið, með lögum sínum, setur trúlaust fólk í 3. flokk á eftir trúuðu fólki í trúfélögum utan þjóðkirkjunnar sem er í 2. flokki á eftir 1. flokki sem er fólk í þjóðkirkjunni.  Þetta fyrsta flokks fólk fær gríðarlegan fjárstuðning til kirkju sinnar, sem er langt umfram það sem annars flokks fólkið fær og að auki fá prestar fyrsta flokks fólksins sérstök tækifæri til að messa yfir þjóðinni í ríkisfjölmiðlum og ganga við hlið forseta þjóðarinnar og leiða þingmenn inní kirkju sína fyrir hverja setningu Alþingis og boða þeim fagnaðarerindið.  Hin trúfélögin, 2. flokks þegnar í þessu tilliti, fá engin slík félagsleg forréttindi þó vissir söfnuðir hafi jú fengið að messa í útvarpinu öðru hvoru í gegnum árin.

Líkt og dalítarnir (lægst setta stéttin) í Indlandi, verða siðrænir húmanistar á Íslandi að þola óréttlæti og ójöfnuð þó ólíku stigi sé saman að jafna, en Siðmennt er eina lífsskoðunarfélagið sem fær ekki neitt frá ríkinu.  Eini styrkurinn sem Siðmennt hefur fengið frá opinberum aðila var húsaleigustyrkur vegna kennsluhúsnæðis fyrir borgaralega fermingu, frá Reykjavíkurborg í 3 ár, en hann var felldur niður í ár, án sérstakra útskýringa.  Það olli mörgum foreldrum barna í borgaralegri fermingu sárum vonbrigðum því kostnaðurinn dreifðist á þá.  Á meðan þetta gerðist var kirkju einni í bænum afskrifaðar skuldir upp á um 17 milljónir króna.  Ágætis bónus það ofan á jöfnunarsjóð og kirkjusjóð, sem þjóðkirkjan fær aukretis við sóknargjöldin.  Prestar eru á launum hjá ríkinu við sína fermingarfræðslu en foreldrarnir bera kostnað við hófleg laun kennara í fermingarfræðslu Siðmenntar.  Siðmennt gefur börnum val, en ríkið styður einungis við val þeirra sem "leitast til við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns". 

Nú mun Siðmennt veita þingmönnum val.  Smekkleg og hógvær veraldleg hugvekja um siðferðisleg málefni þjóðar verður flutt á Hótel Borg fyrir þá alþingismenn sem ekki eru kristinnar trúar og vilja eiga notalega stund án þess að hlusta á boðun trúar eða vera óbeint beðnir að biðja bæna eða syngja sálma, þ.e. taka þátt í athöfn sem hæfir ekki lífsskoðun þeirra.  Það er ljóst að sumir þingmenn Borgarahreyfingarinnar voru ekki að finna sig í hefðinni.  Birgitta Jónsdóttir, alþingiskona segir á bloggi sínu:

Ég ætlaði ásamt nokkrum þingfélögum að vera úti á Austurvelli í stað þess að sækja messuna - finnst persónulega ekki rétt að blanda saman trúarbrögðum og þinghaldi. Veit að þetta er hefð og allt það en mér ber að fara eftir minni eigin siðferðisvitund varðandi þingstörf.

Ímyndið ykkur að Alþingi er í raun samkvæmt venjuhefð að bjóða uppá trúarlega athöfn sem alls ekki passar öllum þingmönnum og jafnvel þó þeir væru kristnir gæti verið að þeir vilji ekki blanda saman þingstarfinu og trúarbrögðum, með réttu.  Ímyndið ykkur hversu neyðarlegt það er að setja þá þingmenn sem ekki eru kristnir í þá stöðu að þurfa að sitja eftir eða standa á Austurvelli til þess að fylgja sannfæringu sinni!  Hvernig ætli Birgittu muni líða, standandi í fámenni á Austurvelli, gagnvart hinum nýja vinnustað sínum, sem er "á mála" hjá einu trúfélagi, einni trúarskoðun og hefur þar forsetann í liði með sér einnig?  Líðanin er líklega ekki ósvipuð og hjá hjá barni sem sökum lífsskoðunar foreldra sinna þarf að sitja eitt þegar bekkjarfélagar hennar lesa valda kafla úr Biblíunni í kristinfræði eða hlusta á káta djákna spila og syngja Áfram Kristmenn krossmenn! fyrir hin börnin í leikskólanum. 

Ísland hefur aldrei stigið aðskilnaðarskref ríkis og kristinnar kirkju til fullnustu og þjóðin hefur aldrei fengið að kjósa um málið.  Það þarf reyndar ekki að kjósa um slíkt mál því að hér er um að ræða einfalda kröfu um að gera tvennt:

  1. Aðskilja vald í samræmi við þær kenningar um lýðræðisríki sem hugsuðir og framámenn Upplýsingarinnar (1650-1850) kenndu okkur.  Það nægir ekki að aðskilja bara löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, heldur þarf að aðskilja vel hið gamla kóngs-prests-vald með því að halda algeru trúarlegu hlutleysi og jafnræði innan hinna veraldlegu skipuðu ríkisstofnana.  Þessi aðskilnaður þarf að vera bæði fjárhagslegur og félagslegur.  Þetta skyldi Thomas Jefferson þegar hann og stofnendur Bandaríkjanna bjuggu til stjórnarskrá þar í landi sem innihélt ekki orð um guð og mismunaði ekki þegnunum eftir lífsskoðunum þeirra.
  2. Að algert jafnræði ríki í meðhöndlun ríkisins gagnvart trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunarfélögum.  Ríkið á sem minnst að hafa afskipti af lífsskoðunarfélögum og nota fé skattgreiðenda fyrst og fremst í uppbyggingu mennta-, heilbrigðis- og félagskerfis.  Á lingói mannréttindafrömuða kallast þetta "krafan um jafna meðferð".  Hún hefur algeran forgang og ef ríkið/fólkið ákveður að styðja við lífsskoðunarfélög á að gera það þannig að öll fái það sama.

Þetta var lærdómur Upplýsingarinnar og nútímans eftir heimsstyrjaldirnar.  Með þessi sjónarmið í huga var veraldleg yfirlýsing um mannréttindi allra samþykkt af Sameinuðu Þjóðunum arið 1948.  Sum lönd eins og Frakkland tóku þessar hugsjónir alla leið en Norðurlöndin gátu ekki brotist undan áhrifamætti og fjárhagslegum ítökum hinnar evangelísk-lútersku kristnu kirkju og mynduðu með henni eins konar fyrirskipað hjónaband.  Norðmenn hafa bætt talsvert jafnræðismálin og Svíar hafa lagt niður þjóðkirkjufyrirkomulagið.  Með losun tabúa um umræður um trúmál undanfarin 10-15 ár eru þjóðirnar smám saman að sjálfmennta sig um þessi mál því ekki eru jafnræðismál kennd í skólum.  Brétar losuðu sig við guðlastslögin sín fornu í fyrra og þess sér víða merki að það eru að renna upp nýjir tímar.  Nú er svo komið að þjóðkirkjan hefur rétt undir 80% skráningu og samkvæmt könnun hennar via Gallup árið 2004 eru 19.6% þjóðarinnar trúlausir.  Ljóst er að sjálfkrafa skráning ungabarna í trúfélag móður stenst ekki siðferðislegar kröfur um að hér sé um meðvitaða ákvörðun að ræða, gerða af báðum foreldrum og að börn séu ekki stimpluð eftir skoðunum foreldra, ekki frekar en þau eru gerð það í tilviki stjórnmálanna.  Engum dytti í hug að segja:  "þetta er Sjálfstæðisbarn" eða "Samfylkingarbarn".  Báðir stjórnarflokkarnir hafa á stefnuskrá sinni að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og því verður fróðlegt að fylgjast með þessum málum á Alþingi næstu misserin.  Aðkallandi efnahagsvandi útheimtir athygli þingsins, en það mun koma að því að mannréttindin fái sína daga. 

Til hamingju Siðmennt og allir þeir sem vilja eiga val um annað en ríkistrúnna!  Hvort sem nokkur þingmaður mætir eða ekki í hugvekju Siðmenntar þá er blað brotið í sögu landsins með þessu boði félagsins.  Ég veit að vinur minn Jóhann Björnsson, heimspekingur, kennari og athafnarstjóri hjá Siðmennt mun gefa þingmönnum gott hugarfóður blandað með nokkrum broskítlum í hugvekju sinni fyrir þau mikilvægu störf sem framundan eru á Alþingi.


mbl.is Hugvekja í stað guðsþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögulega skaðleg fyrirsögn fréttar

Dr. Amen á bunka af umfjöllunum á skottulækningavaktinni, en það er margverðlaunuð vefsíða sem inniheldur gagnrýni á alls kyns skottulækna og kuklara víða um heim.

Vinsamlegast kynnið ykkur þessa rannsókn og gagnrýni á hana áður en þið hellið niður kaffinu.  Wink

Það er ekki sérlega ábyrgt af mbl.is að koma með þessa frétt án þess að kanna gagnrýni á rannsóknina áður.  Erlendis er til grein blaðamennsku sem sérhæfir sig í heilbrigðismálum og ábyrgum fréttum af þeim, en því miður bólar ekki á neinu slíku hérlendis.  Aftur og aftur sér maður bullið etið upp eftir erlendum ógagnrýndum erlendum heimildum.


mbl.is Kaffi skaðar heilann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dugnaður

Ég byrjaði fyrir rúmum 6 vikum að æfa svokallað Cross fit undir leiðsögn þjálfara í Sporthúsinu Kópavogi.  Þetta hefur verið erfiður tími því maður tekur miklu meira á því og gerir hluti sem maður taldi óhugsandi undir leiðsögn þeirra góðu þjálfara sem sjá um æfingarnar.  Þetta er alhliða þrek og skilar mjög mikilli starfsorku og getu til margs kyns áreynslu, t.d. fjallgöngu.   Árangurinn lætur heldur ekki á sér standa og ég hef tekið talsverðum framförum frá því nánast zero-ástandi sem ég var í mælt út frá þreki. 

Konan mín er einnig í þessum æfingum (er miklu betri en ég) og benti mér nýlega á myndbandsbút af fötluðum manni sem kallar ekki allt ömmu sína.

Hér er myndbandið.  Ef þessi vilji og dugnaður þessa illa leikna manns er ekki hvetjandi, þá er ekkert hvetjandi.

 http://media.crossfit.com/cf-video/CrossFitJournal_WarriorAdvantagePre.wmv

Er maðurinn ekki ótrúlega duglegur?


Bréf baráttukonu

Baráttukonan og húmanistinn Maryam Namazie sendi mér og fleiri stuðningsmönnum bréf í vikunni sem á erindi til allra þeirra er vilja leggja mannréttindabaráttu kvenna lið.  Hún er einn af forvígismönnum samtakanna „Council of Ex-Muslims in Britain” og hefur sýnt mikið hugrekki í baráttunni gegn trúarlega boðuðum mannréttindabrotum.  Maryam heMaryam Namazie í HÍimsótti Ísland í september 2007 í boði Siðmenntar og Alþjóðastofnunar HÍ og hélt tvo fyrirlestra fyrir fullu húsi og kom fram í viðtali í Kasljósi RÚV.  Í þessu bréfi vekur hún athygli á þróun mála í nokkrum ríkjum múslima og biður um stuðning við stofnun nýrra alþjóðlegra samtaka „International Coalition for Women’s Rights”.  Ég birti hér bréfið í heild sinni því að það er opið til allra þeirra sem vilja leggja málefninu lið. 

----- 

Hello
 
Since our last email, we have been busy organising an International
Coalition for Women's Rights, to which a number of well-known personalities
and organisations have signed up.
 
As you know, on April 19, 2009, the Somali parliament unanimously endorsed
the introduction of Sharia law across the country. A few days earlier, the
imposition of Sharia law in Pakistan's northwestern Swat region was
approved. Last month, a sweeping law approved by the Afghan parliament and
signed by President Hamid Karzai required Shi'a women to seek their
husband's permission to leave home, and to submit to their sexual demands.
Because of international and national protests the new law is now being
reviewed but only to check its compatibility with Sharia law.
 
The imposition of Sharia law in the legal codes of Somalia, Pakistan and
Afghanistan brings millions more under the yoke of political Islam.
 
Local and international pressure and opposition are the only ways to stop
the rise of this regressive movement and defend women's universal rights and
secularism.
 
From Iran and Iraq to Britain and Canada, Sharia law is being opposed by a
vast majority who choose 21st century universal values over medievalism.
Join us in supporting this international struggle and calling for:
 
* the abolition of discriminatory and Sharia laws
* an end to sexual apartheid
* secularism and the separation of religion from the state
* equality between women and men
 
You can find a list of initial signatories here:
http://www.equalrightsnow-iran.com/discriminatory_laws.html
 
You can join the International Coalition for Women's Rights by signing here:
http://www.petitiononline.com/ICFWR/petition.html
 
If you haven't already done so, you can also sign a petition opposing Sharia
law in Britain here:
http://www.onelawforall.org.uk/index.html
 
We must mobilise across the globe in order to show our opposition to Sharia
law and our support and solidarity for those living under and resisting its
laws.
 
In the coming months, we will be organising towards mass rallies in various
cities across the globe on November 21. We've chosen this date to mark both
Universal Children's Day (November 20) and the International Day for the
Elimination of Violence against Women (November 25). If you are interested
in helping us organise a rally in your city, please contact us.
 
And please don't forget we need money to do all that has to be done. And we
have to rely on those who support our work to provide it.
 
If you are supportive, there are many ways you can raise funds. You can:
 
* send in a donation - no matter how small
* organise a picnic or cook a dinner for your friends or colleagues and ask
them to contribute to our work
* invite us to speak and raise money for our work at the event
* hold sales or organise a concert or exhibition and donate the proceeds to
us
* ask if your workplace gives donations to employee causes and make an
application.
 
You can send in your donations via Paypal
(
http://www.onelawforall.org.uk/donate.html) or Worldpay
(
http://www.ex-muslim.org.uk/indexDonate.html) or make cheques payable to
CEMB or One Law for All and mail them to: BM Box 2387, London WC1N 3XX, UK.
 
We look forward to hearing from you.
 
Best wishes
 
Maryam
 
Maryam Namazie
 
* You can read the latest issue of Equal Rights Now - Organisation against
Women's Discrimination in Iran, which also highlights some urgent execution
and stoning cases in Iran, here:
http://www.equalrightsnow-iran.com/publications.html
 
* To help organise a November 21 rally, volunteer or for information on our
work, contact us at onelawforall@gmail.com or exmuslimcouncil@gmail.com. For
more information on the Coalition for Women's Rights, please contact
coalition coordinator Patty Debonitas +44 (0) 7778804304, ICFWR, BM Box
2387, London WC1N 3XX, UK, icwomenrights@googlemail.com.

-----


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband