Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Veraldlegar lífsskoðanir í sókn

Þann 6. júní 2011 gerði Gallup opinberar helstu niðurstöður úr síðasta þjóðarpúls sem í þetta skiptið innihélt einnig spurningar um lífsskoðanir.  Gallup kallar það reyndar trúmál því að líkt og með svo marga hefur fyrirtækið ekki gert sér grein fyrir því að þeir sem trúa ekki hafa nafn yfir sínar skoðanir.  Samheiti trúarlegra og veraldlegra skoðana um siðferði er lífsskoðanir (life stance).  Það snýst ekki allt um trú.

Hér er helsta niðurstaða könnunarinnar:

----

ÞJÓÐARPÚLSINN

TRÚMÁL

06.06.2011

Trú á æðri máttarvöld, framhaldslíf og himnaríki/helvíti

Meirihluti Íslendinga segist trúa á guð eða önnur æðri máttarvöld. Hátt í 13% aðspurðra tóku ekki afstöðu til þess hvort þeir tryðu á æðri máttarvöld eða ekki, en af þeim sem tóku afstöðu sögðust rúmlega sjö af hverjum tíu trúa á æðri máttarvöld á móti tæplega þremur sem sögðust ekki trúa. (71% og 29% samkvæmt grafi).

Niðurstöður sem hér birtast um trúmál eru úr netkönnun Capacent Gallup gerði dagana 5. til 19. maí 20 11. Heildarúrtaksstærð var 1.380 einstaklingar 16 ára eða eldri af öllu landinu ogsvarhlutfall var 57,7%.  Í úrtakinu voru einstaklingar valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.

----

Mig langar nú að bera saman þessa niðurstöðu við dálítið stærri könnun sem var gerð í febrúar-mars 2004 hjá Capacent Gallup fyrir Biskupsstofu.  Í þeirri könnun voru 1428 í endanlegu úrtaki og fjöldi svarenda 60.4% (862). Könnunin frá 2004 er því mjög svipuð að stærð og könnunin í ár.

Áður en ég fer í niðurstöðurnar frá 2004 þarf ég að setja tölurnar frá 2011 í sömu tölfræðilegu framsetninguna, sem tekur tillit til þeirra sem tóku ekki afstöðu:

Ertu trúaður?

2011:  13% taka ekki afstöðu, 61.8% segjast trúaðir en 25.2% segjast ekki trúa á æðri mátt.

2004: 12.9% tóku ekki afstöðu, 68.3% sögðust trúaðir en 18.8% sögðust ekki trúa á æðri mátt.

Reyndar kemur fram í nákvæmri skýrslu með könnuninni 2004 að hópnum sem gaf ekki afgerandi svar var skipt í óákveðna (11.5%) og tóku ekki afstöðu (1.4%).  (Þessi "tóku ekki afstöðu" hópur var tekinn útfyrir í prósentureikni niðurstaðna en ég hef reiknað þann hóp inn aftur hér).  Það eru samtals 12.9% þannig að hlutfallið er nánast hið sama og núna 2011, sem ég geri ráð fyrir að sé þessi sameinaði hópur.

Hlutfall trúaðra hefur því lækkað úr 68.3% í 61.8% eða um - 6.5%

Hlutfall fólks með veraldlega lífsskoðun (trúa ekki) hefur því hækkað úr 18.8% í 25.2% eða + 6.4%

Ef að við skiptum aftur yfir í hlutfall af þeim sem gáfu ákveðið svar kemur út að:

2011:  71% trúa á æðri mátt en 29% ekki.

2004: 78.5% trúðu á æðri mátt en 21.5% ekki.

Meðal ákveðinna hefur trúuðum fækkað um 7.5% prósentustig en trúlausum fjölgað um 7.5%.

Hvað segir þetta okkur?

Mér sýnist að sú þróun sem mér fannst að væri til staðar í kjölfar aukinnar umræðu um lífsskoðanir, að trú á æðri mátt væri á undanhaldi, sé raunin.  Það er ámælisvert að birta niðurstöður í sjónvarpi með einungis 71/29 prósentuviðmiðin því að þau er endurútreikningur þegar búið er að henda út þeim óákveðnu (13%).

Það eru ekki 71% þjóðarinnar trúaðir, heldur 61.8% og 25.2% eru trúlausir, ekki 29%.

Það er réttlætanlegt að tala um ákveðna kjósendur í könnunum um fylgi flokka því að það eru aðeins þeir ákveðnu sem munu ráða um úrslitin, en í könnun sem þessari um ákveðnar skoðanir, er það ekki réttlætanlegt (nema sem algert aukaatriði).

Aldursmunur

Áberandi er einnig að hópurinn undir 30 ára er í vaxandi mæli fylgjandi veraldlegri lífsskoðun, eða 47.9% (55% ákveðinna) nú en var um 29% (18-24 ára) árið 2004.  Þetta er að gerast þrátt fyrir aukna sókn Þjóðkirkjunnar inn í skólana síðustu 20 ár.

Kynjamunur

Þá er merkilegt að bilið milli kynjanna hvað trú eða trúleysi varðar hefur stækkað.

2004:  konur trúðu í 77% tilvika, voru trúlausar í 13% tilvika en 11% voru óákveðnar. (86.5 % ákveðinna trúa)

2004:  karlar trúðu í 61% tilvika, voru trúlausir í 26% tilvika en 13% voru óákveðnir.  (70.1% ákveðinna trúa)

Nú hef ég ekki tölur um hlutfall óákveðinna hjá konum og körlum fyrir 2011 og verð að notast við það hlutfall ákveðinna kvenna og karla sem var gefið upp.

2011: 84% ákveðinna kvenna eru trúaðar. (74.8% ef 11% kvenna eru óákveðnar líkt og 2004, niður 2.2%)

2011: 58% ákveðinna karla eru trúaðir. (50.5% ef 13% karla eru óákveðnir líkt og 2004, niður 10.5%)

Af þessu sést að á meðal þeirra sem gefa ákveðið svar hefur trúuðum konum fækkað um 2.5 prósentustig, en trúuðum körlum um 12.1 prósentustig.  Munurinn milli kynjanna hefur aukist úr 16.4 í 26 prósentustig. Aukning trúleysis er því mun hraðari hjá körlum en konum á Íslandi.

---

Af þessum könnunum og tölum Hagstofunnar yfir sömu ár er ljóst hvert stefnir.  Trúuðum fækkar og fólki í Þjóðkirkjunni hlutfallslega mest.  Fríkirkjusöfnuðirnir sækja þó á samkvæmt skýrslu Hagstofu í byrjun apríl (fyrir árið 2010).

Trúlausum fjölgar stöðugt og eru nú um 1/4 þjóðarinnar.   Aðeins 4.14% eru þó skráð utan trúfélaga.  Tæp 50% ungra fullorðinna (undir þrítugu) aðhyllist veraldlegar lífsskoðanir.  Elsta fólkið trúir mest.  Merkir þetta að ungt fólk verði einfaldlega trúað þegar það eldist eða er um raunverulega breytingu að ræða.  Hlutfall trúlausra undir 30 ára fór hækkandi milli 2004 og 2011 þannig að hér virðist vera um raunverulega breytingu að ræða.

Af þeim 61.8% sem segjast vera trúaðir vitum við ekki hversu margir telja sig kristna, en árið 2004 voru það um 3/4 hlutar trúaðra.  Um 1/5 hluti trúaðra sögðust eiga sína persónulegu trú.  Ef við gefum okkur að hlutfall kristinna hafi ekki lækkað að marki eru það (3/4 * 61.8%) aðeins um 46% þjóðarinnar sem telja sig kristna.  Samt eru 77.6% hennar skráð í Þjóðkirkjuna.

Viðhorfin eru að breytast frekar hratt en mikið af fólki sem trúir ekki á hinn kristna guð (eða engan guð) er samt skráð í Þjóðkirkjuna eða aðra kristna söfnuði.  Þetta fólk virðist sætta sig við að hlusta á kristna presta tala um guð sinn og frelsarann Jesú án þess að trúa á þá.  Liggja praktískar ástæður að baki? skeytingarleysi? tímaleysi? sjálfvirk skráning kornabarna í trúfélag móður?  Svörin eru eflaust mörg og eru efni í aðra í grein.

Ég læt hér staðar numið og vona að þessi greining sé lesendum hjálpleg.

---

PS: Vinsamlegast látið mig vita ef að þið teljið að einhverjar villur séu í þessu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband