Færsluflokkur: Umhverfi og náttúra

Framboðsgreinar: hluti IV - Umhverfismál og atvinnustefna þeim tengd

Það er deginum ljósara að við þurfum raforku til að lýsa upp heimilin og elda matinn.  Við þurfum hana til að knýja ýmis raftæki, þ.á.m.t. tölvur og netþjóna.  Við ætlum ekki til baka 100 ár og afneita okkur þessum gæðum.  Við þurfum því virkjanir og einhverja viðbót við þær eftir því sem mannfjöldinn eykst.  Sólarupprás við Grundartanga

Virkjanir kosta okkur – ekki aðeins fjármuni, heldur einnig ásjónu landsins og valda breytingum á gróðri og dýralífi.  Fleiri vegir, fleiri rafmagnsstaurar, fleiri varasamar lagnir, fleiri skipulögð svæði í óspilltri náttúru. Við þurfum atvinnuvegi til að fæða og okkur og klæða, en hvar erum við stödd og hvaða valkosti höfum við til uppbyggingar á þeim?  Erum við svo illa stödd að stóriðja verður að vera í myndinni til að skapa lífsviðurværi handa hluta þjóðarinnar? Erum við svo aðþrengd með valkosti til uppbyggingar atvinnu að orkufrekur stóriðnaður og risavaxin netþjónasetur eru óumflýjanleg svo forða megi of miklu atvinnuleysi og langvarandi fjármálakreppu?

Dugir ekki lágorkuiðnaður, ferðaþjónusta, ræktun, búvöruframleiðsla, sjávarútvegur, hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki, verslun, útflutningur fullunninnar vöru og annað margt smálegt í sniðum en stórt í heild?  Ég tel að þetta dugi. 

Eða er ástæðan fyrir brennisteinspúandi borholum, risastíflum, uppistöðulónum og álverum einfaldlega sú að erindrekar snjallra drengja  í forstjóraleik vilja nýta alla möguleika landsins til að snúa orkuframleiðslu í fjármuni?  Sjáið fyrir ykkur eftirfarandi með mér!
Maðurinn vill verða forstjóri og aðal hluthafi 500 megavatta virkjunar í einhvers konar „ríkis-einkaeign“,   Hann sér fyrir sér stálið og strókinn á himninum um leið og gormet elskandi megabeibið við hlið hans gefur frá sér sælubros yfir 800 fermetra sumarbústaðssetrinu sem er í byggingu.  Það stendur hátt uppi á fegurstu hæð náttúruperlu í innsveitum, sem gleymst hafði að friða.  Hann væri jafnframt virtur af hundruðum manna fyrir að skapa þeim atvinnu.  Þetta fólk teldi að án hans hefði það lifað í fátækt.   Millinafn hans væri „kaupmáttarauki“ og það myndi kosta hálfan milljarð að reka hann.  Fólki þætti það sanngjarnt vegna gríðarlegrar ábyrgðar sem felst í forstjórastarfinu. 

Höfum við ekki sagt nei við þessari sýn nú?  Bless 1997-2007!  Megi draugar græðgi þinnar koðna.

Við verðum alltaf að spyrja okkur; Erum við of gráðug og óþolinmóð eða erum við að gera það illskásta í stöðunni af brýnni nauðsyn?  Erum við að hugsa um að gera það nauðsynlegasta og valda sem minnstu náttúruraski eða viljum við framleiða orku og málm af því að það blasir við sem efnahagslegt páskaegg af stærð 8?  Við fullorðna fólkið eigum að vita að stærstu eggin eru ekki endilega þau hollustu fyrir okkur eða skila okkur mestri vellíðan á endanum.   Ég vil ekki fleiri virkjanir og stóriðjur, en renni upp sá dagur að hagfræðingar færi mér mjög góð og gild rök fyrir því að þjóðin þurfi nauðsynlega akkúrat slík úrræði til að forða sér frá fátækt og langvarandi atvinnuleysi, skal ég endurskoða afstöðu mína.   Líkt og þegar læknir hugar að meðferðarúrræðum fyrir skjólstæðing sinn, ætti fyrsta reglan í úrræðum til uppbyggingar atvinnu að vera; sköðum ekki!

Darwin dagurinn 12. febrúar 2009

 

Fimmdudaginn 12. febrúar nk. verður víða um heim haldið uppá 200 ára fæðingarafmæli vísindamannsins Charles Robert Darwins og um leið fagnað 150 ára afmæli útgáfu tímamótaverks hans, Uppruna tegundanna, þar sem færð vorufram í fyrsta sinn sannfærandi gögn og rök fyrir þeirri tilgátu að lífverur jarðar hefðu tekið þróunarlegum breytingum yfirDarwin54 milljónir ára. Nokkru síðar birti Darwin útskýringar á þróun mannsins og kynbundnu vali í náttúrunni í bókinni Ætterni mannsins og kynbundið náttúruval (1871), en sú bók olli miklum usla meðal margra samtímamanna hans, sem fannst niðurlægjandi að vera bendlaðir við sameiginlegan uppruna með öpum.

Charles Darwin var háskólagenginn frá Edinborg og Cambridge, en þar lærði hann m.a. þær guðfræðilega sprottnu skýringar á tilurð lífheimsins, að guð hefði hannað lífheiminn. Darwin lét það ekki hefta sína frjálsu hugsun og hóf sína eigin leit að svörum með því að skoða gögnin, þ.e. lífheiminn þar sem hann er hve fjölbreyttastur og ríkastur af magni við strendur Suður-Ameríku. Hann byrjaði með autt blað, þ.e. hans athugun og tilgáta yrði sett fram sem óháð vísindi sem líkur væru á að stæðust ítarlega skoðun um langan aldur. Hann hafði ekki áhuga á hugmyndafræðilegu stríði við klerka eða konunga, enda voru það aðrir menn sem héldu vörnum uppi fyrir tilgátur hans eftir að kristnir klerkar hófu árásir sína á þær. Þeirra frægastur var líffræðingurinn Thomas Henry Huxley (1825-1895) og fékk hann viðurnefnið „bolabítur Darwins" fyrir vaska framgöngu sína. Tilgáta Darwins var staðfest sem vísindakenning eftir að síðari tíma rannsóknir studdu hana, sérstaklega á sviði erfðafræðinnar. Hún varð til þess að heimsmyndin gjörbreyttist og vald trúarbragðanna yfir hugmyndaheimi fólks fjaraði út að miklu leyti.

Afkomandi Thomas Huxleys, Julian hélt uppi merki ættföðursins á 20. öldinni, með því að verða fyrsti framkvæmdastjóri UNESCO og þingforseti fyrsta þings alþjóðasamtaka húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) árið 1952. Húmanistar um allan heim halda mikið uppá Charles Darwin og hans arfleifð.

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi er samstarfsaðili að málþingi því sem haldið verður í HÍ á afmælisdegi Darwins, en
Steindór J. Erlingsson hafði milligöngu að því fyrir félagið. Málþingið ber yfirskriftina: Hefur maðurinn eðli?  Fulltrúi Siðmenntar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, lektor í heimspeki við HÍ, flytur þar erindið „Að hálfu leyti api enn". Aðrir fyrirlesarar verða Ari K. Jónsson tölvunarfræðingur, Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur, Jón Thoroddsen heimspekingur, og Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum. Á málþinginu verða einnig afhent verðlaun í ritgerðarsamkeppni sem haldin var á meðal framhaldsskólanema um Darwin og áhrif þróunarkenningarinnar á vísindi og samfélög. Málþingið er öllum opið og verður haldið í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, stofu 132 og hefst kl. 16:30. Dagskrána má sjá á www.darwin.hi.is.

Alþjóðlega dagskrá má sjá á http://www.darwinday.org


Esjusótt

Ég er veikur.  Ég er heltekinn af Esjusótt.  Fjórum sinnum hefur mig slegið niður með sóttinni og engin lækning er í sjónmáli.  Ég hef myndað einkennin í gríð og erg - alveg sjúkt.  Móðir mín hefur áhyggjur af öryggi mínu og hún Soffía mín hefur lýst yfir því að ég sé "ekki eðlilegur" eftir að hafa séð hve mikið ég mynda sjúkdómsvaldinn. 

Í dag var einstakt veður og sérlega tært loftið.  Skýin voru há og lág.  Þau tóku þátt í litrófinu og afkvæmi þeirra snjórinn, freðinn á fjallstoppnum endurvarpaði enn öðrum bylgjulengdum. 

Af Þverfellshorni 11-03-08

Mun ég ná mér? Wink


Snjógervingar í Esjuhlíðum

Kannski er það bara þjóðarrembingur í mér en hvergi hef ég fundið ferskara loft en á Íslandi, sem gjarnan leikur um á mildum vetrardegi eins og 3. mars s.l. þegar ég gekk mér til ánægju á Esjuna.  Það er einhver sérstök fersk blanda í loftinu, e.t.v. örlítið sölt, sem hressir mann verulega og nærir hugann.  Þau 14 önnur lönd sem ég hef heimsótt um ævina hafa ekki gefið mér þessa tilfinningu.

Myndin hér að neðan er frá Esjugöngunni en þennan mánudag hafði aðeins einn maður farið á toppinn á undan mér ef marka má ný spor í snjónum.  Hins vegar voru einkennileg merki gamalla spora, nokkurs konar snjógervingar þeirra þar sem laus snjór í kringum þau hafði fokið burt. 

Snjógervingar


Gagnsemi?

Ég ber mikla virðingu fyrir hugsjónum og baráttu John Lennons og Yoko Ono hefur verið fánaberi hennar síðan hann var myrtur.   Hins vegar er ég efins um gagnsemi hluta eins og upplýstra friðarsúlna.  Vissulega er viðburðurinn og upplýstur himininn áminning um að gleyma ekki friðarbaráttu og þjáningum þeirra sem verða fyrir barðinu á stríði, en hverju fær þetta áorkað á endanum?  Tryggir þetta einhverjar framkvæmdir?  Hætta talibanar og Al-quada við sitt jihad?  Róast herskáir Baskar?  Fæðast nýjar hugmyndir og nálganir að friðarferlum?  Mætti verja fénu sem fer í fyrirbærið í eitthvað annað gagnlegra?

E.t.v. kann ég ekki að meta nóg framtak frægs fólks til að vekja athygli á ákveðnum málaflokkum og er ekki nógu menningarlega sinnaður.  Maður fær svolítið á tilfinninguna að í enn eitt skiptið sé fræg manneskja að vekja mest athygli á sjálfri sér og sínum nánustu með flottum minnisvörðum og yfirborðslegri umfjöllun um frið.  Auðvitað þykir okkur Íslendingum þægilegt að geta baðað okkur í sviðsljósi þessa dáða fólks og hirt upp nokkra brauðmola í leiðinni, en er þetta ekki pínulítið gervilegt? Verður uppskeran einhver önnur en sú að okkur líði örlítið betur með okkur sjálf? Er eitthvað af viti í gangi hér?  Er búið að bjóða einhverjum stríðandi aðilum í umræður í tengslum við þetta?  Það hefði ég viljað sjá. 

Ég vona að ég hafi hryllilega rangt fyrir mér og að þessi viðburður sé mikilvægur og marki einhver skref í átt til friðar í heiminum.  Ljóssúlan verður án efa stórkostleg sem slík og þetta verður voða kósí viðburður og stemming, en þangað til ég sannfærist um eitthvert raunverulegt gildi hennar er hún nánast bara "symbolic" í mínum huga.   Woundering


mbl.is Ein friðarsúla nægir Yoko Ono
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dularfull óvissuferð

Eldsnemma í fyrramálið fæ ég og mín kjereste símtal.  Ég veit að við fáum símtalið en ekki frá

Í dimmu Drekagili - eintóm hamingjahverjum.  Okkur verður sagt hvert við eigum að fara.  Fyrir mánuði síðan fengum við ómerkt og óundirritað boðskort um að okkur væri boðið í óvissuferð.  Dagurinn er runninn upp og við höfum ekki guðmund um það hver bauð okkur.  Spennandi... eða e.t.v. dálítið krípí.  Hvað ef þetta er bara hrekkur eða einhver brjálæðingur ætlar að ræna okkur?  Hljóma ég paranoid? Crying

Á maður að fara í svona ferð vitandi ekki neitt hver lagði á ráðin og hvað er í vændum?  Jú, annað væri púkó.  Við tökum stökkið.  Ég lofa ferðasögu komist ég aftur heim.  dadodado...darumdarumm..twilight zone...

 

 

 

Farskjótinn

 

 


Frá mér numinn af hrifningu!

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi, já gæfu, að fá miða á opnunarmynd alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík (RIFF), sem heitir SigurRós - Heima og fjallar um hringferð SigurRósar um landið í fyrrasumar.  

Myndin er óður til landsins og íslensku þjóðarinnar sem höndluð er að þeim blíðleika, næmu auga fyrir náttúrufegurð og mannlegu innsæi ólíkt nokkru því sem ég hef séð fyrr á hvíta tjaldinu.  Tónlistin var yndisleg.  Í mínum augum og í mín eyru er þessi fallega kvikmynd hreinlega tær snilld - fullkomið listaverk.

Þess þarf vart að geta að auðvitað hvet ég alla til að sjá SigurRós - Heima


mbl.is Alþjóðleg kvikmyndahátíð hefst í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn stækkar á kostnað Sjálfstæðisflokks

Fyrirsögn Mbl.is er sérstök ("Samfylking og Vg bæta við sig").  Af henni mætti ráða að xS og xV væru í sókn en í raun eru þau saman með 2 þingmönnum minna en fyrir 2 dögum síðan.  Það er auðvitað hægt að miða við gærdaginn en það var í fyrradag sem einhver marktæk breyting varð á fylgi Fylgi flokka 7-9 mai 07flokkanna.  Fyrirsögnin ætti því að vera "Framsókn heldur enn í fylgisaukningu sína".    Það er ljóst að Framsókn hefur fengið mest af þessu nýja fylgi frá Sjálfstæðismönnum en etv. voru fylgismenn þeirra í "felum" þar og eru nú að sækja í viðjur vanans (eða hlýða fjölskyldunni) heim til xB. 

Frjálslyndir hafa fengið 4. manninn og því hefur Kaffibandalagið aðeins misst 1 mann frá því fyrir 2 dögum og hefur samtals 31 þingmann.   Stjórnin hangir á bláþræði með 32 þingmenn. 

Íslandshreyfingin er föst í 2-3% og atkvæði þeirra eru því miður dauð, þ.e. gagnast engum.  Að vísu virtist slatti af atkvæðum þangað koma frá Sjálfstæðismönnum (um 4% af fyrri kjósendum þeirra, þ.e. 4% af 36%) samkvæmt könnunni fyrir 2 dögum síðan og birt var í prenti á síðum Morgunblaðsins.   Talsvert færri komu frá Vinstri grænum (3.6% af 9%) og fylgi frá xB og xS var vart mælanlegt.  Þessar tölur gáfu ekki til kynna hversu mikið af nýjum kjósendum væru að kjósa Íslandshreyfinguna en mér sýnist að óhætt sé að álykta að framboð flokksins sé ekki að valda töpuðum jöfnunarsætum frá stjórnarandstöðunni og er það mér léttir.

Kjósa þarf stjórnarandstöðuflokkana og koma ríkistjórninni frá af eftirfarandi ástæðum:

  • Stöðva þarf ofþenslu í efnahagslífinu og koma stýrivöxtum niður en þeir stýra m.a. því hversu miklir vextir eru á yfirdráttarheimildum.
  • Stöðva þarf frekari stóriðju, sérstaklega á suðvestur horninu.  Eina álverið sem ég sæi mögulegt til viðbótar er álver við Húsavík en náttúra landsins er betur sett án þess.  Getur ein ríkasta þjóð heims virkilega ekki fundið annað að gera en að reisa mengandi stóriðju?
  • Með því að hætta við frekari stóriðju kólnar hagkerfið og því skapast skilyrði til að afnema þá ósanngjörnu skattheimtu á íbúðarkaupendur sem kallast stimpilgjald (1.5% af lánsupphæð til íbúðarkaupa).  Ríkisstjórnin braut loforð sitt um að afnema þennan óréttláta skatt á kjörtímabilinu.  Því ættum við að treysta þeim nú til að gera það?
  • Gera þarf innflytjendalöggjöf manneskjulegri.  Burt með 24-ára makaregluna sem ríkisstjórnin kom á.  Dómstólar hafa dæmt hana á skjön við stjórnarskránna.  Leyfa þarf innflytjendum að kjósa fyrr, t.d. eftir 2 ára fasta búsetu hér. 
  • Leiðréttum kjör aldraða og öryrkja með því að taka af þessar fáránlegu skerðingar og setjum fé í að auka heimaþjónustu og byggja fleiri hjúkrunarrými (fyrir þá mest heilsuskertu).   Það eru enn tugir eldra fólks á bráðdeildum Landspítalans og ríkisstjórnin hefur ekki náð að ráða við þennan vanda s.l. 16 ár.   Við erum verr sett í þessu en fátækasta borgarhverfi New York borgar, Suður-Bronx en þar vann ég á spítala í 7 ár.  Fólk er aldrei lagt þar inn á ganga eins og tíðkast hér enn.
  • Hækka þarf persónuafsláttinn og frítekjumarkið.  Sú breyting gagnast þeim lægst launuðu best.  Ég er ekki fylgjandi hátekjuskatti því að hann skekkir launasamanburð og kemur niður á fólki sem leggur á sig mikla vinnu. 
  • Aðskilja þarf ríki og kirkju, bæði í stjórnarskrá og almennum lögum.  Kirkjan kostar ríkið tæpa 4 milljarða í rekstri á ári hverju.  Prestar fá of há laun (prestur í sæmilega stóru prestakalli fær betri grunnlaun en sérfræðingur á sjúkrahúsi) og vinna þeirra og kaup ætti að vera háð markaðslögmálun en ekki föstum launum frá ríkinu.  Allar nútímalegar stjórnarskrár í ríkjum Evrópu kveða á um aðskilnað ríkis og trúar.  Við lifum við veraldlegt stjórnarfar að grunni til og við eigum að hafa það algerlega á hreinu að svo sé á öllum sviðum.  Núverandi fyrirkomulag hangir í trúarhefð sem á ekki rétt á sér og sást það m.a. á áhrifum kirkjunnar á lagasetningu varðandi leyfi trúfélaga til að gefa saman samkynhneigða.  Ferð alþingismanna í kirkju fyrir setningu alþingis er brot á jafnrétti og þeirri kröfu að þjóðin sé að kjósa sér veraldlega fulltrúa á þing, ekki trúarlega.  Alþingi er ekki trúarstofnun og á ekki að eiga nein viðskipti við þjóðkirkjuna eða aðrar slíkar.   Þó að aðeins Frjálslyndi flokkurinn sé sá eini sem hafi það skýrt í stefnu sinni að aðskilja ríki og kirkju, þá eru það stjórnarflokkarnir sem halda fastast í núverandi fyrirkomulag. 
  • Aðskilja þarf kirkju og skóla.  Þjóðkirkjan er með trúarlega starfsemi í nokkrum skólum undir heitinu "Vinaleið".   Menntamálaráðherra hefur bent á skólana og skólarnir bent á ráðherrann.  Margir hafa ályktað gegn þessari starfsemi, m.a. samtökin Heimili og skóli, Siðmennt, SUS í Garðabæ, Ungir Vg og fleiri.  Afnema þarf klausuna "kristilegt siðferði" í grunnskólalögunum því það er "almennt siðferði" sem gildir í skólum landsins. 
  • Gefa þarf lífsskoðunarfélögum (félög sem fjalla um siðferði, lífssýn, heimssýn og félagslegar athafnir fjölskyldunnar) sömu réttarstöðu og trúfélögum, þ.e. að þau fái skráningu og "sóknargjöld" rétt eins og þau.  Til þess að svo verði þarf lagabreytingu en Allsherjarnefnd Alþingis og Björn Bjarnason dóm- og kirkjumálaráðherra hafa ekki haft áhuga á því að verða við þessari sjálfsögðu breytingu.   Því á Siðmennt að líða fyrir það að trúa ekki á æðri mátt?  Um 19.1% (+/- 2.6%) eru trúlausir á Íslandi.  Þetta er stór hópur og ætti að hafa rétt á því að það lífsskoðunarfélag sem er fánaberi skoðunnar þeirra njóti jafnréttis í landinu.
  • Jafnrétti í launaþróun kynjanna.  Við erum með versta launamun kynjanna í nær allri Evrópu!!  Hvar er beiting núverandi stjórnvalda fyrir leiðréttingu á þessu?
  • Vinnuþjörkun.  Við vinnum þjóða mest í vestur-Evrópu.  Er ekki tími til kominn að hlúa betur að fjölskyldum þjóðfélagsins og gera okkur kleift að lifa lífinu utan vinnutímans?  Við búum í okursamfélagi þar sem höft á samkeppni (t.d. stimpilgjöldin) og jaðarskattar eru að klyfa heimilin.  Ég hef ekki séð þetta mál á dagskrá hjá stjórnarflokkunum.
  • Menntun.  Stjórnarflokkarnir eru líklegri en hinir að halda áfram með gjaldtöku í skólakerfinu og auka skráningargjöld.  Menntun er grundvallarforsenda áframhaldandi framþróunar og vaxtarsprota og fjölbreytni í atvinnulífinu.  Menntun á að vera öllum aðgengileg, líka fólki úr fjölskyldum sem hafa tekjur undir svokölluðum fátæktarmörkum.
  • Sjávarútvegsmál.  Sanngjarnari atvinnustefna og betri fiskveiðistefna verður ekki tekin upp hjá núverandi stjórnvöldum.  Þarna er verulega brýnt að snúa þróuninni við og kjósa stjórnarandstöðuna.  Allir í bátana, krefjumst atvinnuréttar okkar!

Íslenskt stjórnarfar þarf breytingu og aukna áherslu á mannréttindi og bætt kjör þeirra verst settu.  Náttúra Íslands þarf aðhlynningu og stóriðjustefnan þarf að víkja.  Efnahagskerfið þarf kælingu og stýrivextir og verðbólga að lækka - þannig minnkar sjálfkrafa streymi erlends verkafólks inn í landið.  Það er kominn tími á áherslubreytingar og framfarir á sviðum sem stjórnarflokkarnir eru blindir á.  Því miður eru atkvæði greidd Íslandshreyfingunni "dauð" nema að þau komi frá fyrrum kjósendum stjórnarflokkanna. 

Kjósum til breyttra og betri tíma, kjósum nýja stjórn!

 


mbl.is Samfylking og VG bæta við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíðaparadísir - eingöngu erlendis?

Nú hef ég ekkert bloggað í rúma viku enda best á stundum að segja minna en meira.  Ég fór í vikulangt skíðaferðalag í Selva (Wolkenstein) í ítölsku ölpunum.  Svæðið var áður undir stjórn Austurríkis og hét þá Suður-Týról.  Þar er enn mikið töluð þýska en flestir tala svokallað ladino sem er sérstakt latneskt tungumál með ítölskun og þýskum áhrifum.   Ferðin er farin á vegum Úrval-Útsýn og var fararstjórnin til mikils sóma. 

Bærinn er í 1560 metra hæð og flestar brekkur byrja í 2200-2500 metra hæð þannig að það snjóar í þeim þó að vor sé komið í neðri byggðir.  Reyndar voru hlýindin það mikil í lok febrúar að snjóinn tók nær alls staðar upp nema á brautunum sem eru fylltar af framleiddum snjó á næturna.  Það er því tryggt að maður skíði ekki á grasbala í ferðinni.  Skíðapassinn veitir manni óheftan aðgang að svæði sem spannar tugi ef ekki nokkur hundruð kílómetra og í lokinn getur maður skoðað á netinu Marmoladahvar og hversu hátt maður fór og hversu mikið maður hafði skíðað.  Ég lauk um 160 km á 6 dögum í um 91 lyftuferðum.  Toppurinn á ferðinni var að ferðast með þyrlu uppá jökultopp sem kallast því skemmtilega nafni Marmolada og er í um 3400 m hæð.  Þaðan var skíðað og tók ferðin heim á hótel allan daginn.   Það er sem sagt hægt að skíða á svæðinu allan daginn án þess að fara nokkru sinni tvisvar í sömu brekku.   Eftir ferð í þetta draumaland var ekki laust við að manni væri hugsað til okkar litlu Bláfjalla.   Hvað er hægt að gera til að kreista út nokkur ár til viðbótar áður en hitnun jarðar gerir út af við skíðaiðkun hér?

Í nýlegri grein í mbl stakk starfsmaður svæðisins uppá því að reistar yrðu snjófoksgirðingar víðar á svæðinu til að binda snjóinn en hann fýkur annars bara burt.  Það væri ekki mikið vit í því að hefja snjóframleiðslu sem svo fyki burt.  Ég verð að segja að þetta hljómar mun viturlegra en að halda áfram að hrúga niður lyftum á svæðið.   Það þarf að gera eitthvað traust og árangursríkt fyrir skíðasvæðið, annars er þetta búið spil.  Hér þurfa okkar bestu verkfræðingar að leggja hausinn í bleyti og koma með góðar lausnir.  Þó að það sé dásamlegt að fara til fjarlægra landa til að skíða, verður að reyna eitthvað raunsætt til að halda í skíðaiðkun hérlendis.  Þessi íþrótt er einfaldlega of góð og skemmtileg til að missa af henni alfarið hér.

 


Landið okkar

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem vilja nú vernda náttúru landsins í auknu mæli.  Ég ólst upp við mikla náttúruunun móður minnar og afa.  Þær fjölmörgu ferðir sem ég fór á barnsaldri á áttunda áratugnum, í háfjallarútum í Þórsmörk, norður Sprengisand, suður Kjöl, Álftavatn og fleiri staði, voru mér ógleymanlegar.  Ég hafði einnig unun af því að keyra fjölfarnar leiðir eins og yfir Hellisheiðina eða skoða svæðin kringum Vatnsendahæð og Elliðavatn. 

Nú hefur gleði mín minnkað yfir því að eiga heima á okkar ótrúlegu eyju.  Þegar ég fer austur fyrir fjall blasa við mér hræðilega ljót og áberandi risastór rör við rætur Hengilsvæðisins og á fjallshryggjum má sjá fjöldan allan af mannvirkjum.  Allt í kringum Vatnsendahæð og nánast ofan í Elliðavatn og Rauðhóla er nú byggð, þannig að svæðið hefur misst talsvert af sjarma sínum.  Hin fallega hlíð ofan Rauðavatns er nú sjónmenguð af stórhýsi Morgunblaðsins.  Búið er að planta iðnaðarhúsum langt inní hið dásamlega Hafnarfjarðarhraun.  Nú á að reisa byggð í fagurgrænum hlíðum Helgafells ofan við Kvosina í Reykjadal, Mosfellsbæ og ég sé fram á það að missa þetta fagra útsýni þaðan sem ég bý hinum megin í dalnum. 

Ef til vill er þetta alger tilfinningasemi í mér og ég ætti að skilja að með auknum fólksfjölda verður að breiða út byggðina.   Einnig ætti ég að skilja að kall á aukna velmegun ekki seinna en í gær, hefur í för með sér úrræði eins og aukna stóriðju og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir.  Samt líður mér ekkert betur með þetta.  Ég fylgist bara með landinu hverfa undir steinsteypu, malbik, rör, gufumekki og háspennumöstur.  Ég fer að spyrja mig (og aðra), er þetta óumflýjanlegt?  Er græðgi okkar og velmegunarþrá svo takmarkalaus að við viljum engu fórna fyrir ósnert land?  Þurfum við að byggja í hverja einust hlíð sem okkur er næst?  Þurfum við að virkja hvert einasta fljót eða háhitasvæði bara af því að við getum það?

Ég vil leyfa mér að segja að svarið hljóti að geta verið nei.  Nú er nauðsyn að staldra við og hugsa.  Byggðarþróun þéttbýliskjarna verður að snúa frá núverandi kapphlaupi um fallegustu staðina.   Hús koma ekki í staðinn fyrir óspillt land.  Þó að byggðin verði eitthvað sundurlaus, þá verður að hlífa náttúruperlum nágrenisins.   Stöðva þarf þessa gegndarlausu stóriðjustefnu þrátt fyrir að vatnsaflsvirkjanir séu ekki efnamengandi.  Álverin menga loft og land auk þess að vera lýti.  Það yrði t.d. mikill missir af því að höfn yrði reist í Straumsvíkinni sjálfri.  Svæðið þar er geysilega fallegt.

Ómar Ragnarson, Andri Snær, Vinstri grænir og fleiri hafa vakið þessu máls.  Þessi uppvakning verður að halda áfram og þróast.  Við höfum nægar heilafrumur við Íslendingar til þess að finna aðrar lausnir á "velmegunarvanda" okkar.    Áframhaldandi uppbygging í vistvænum ferðamannaiðnaði á eftir að skila okkur miklu.  Landið okkar er auglýsingin okkar.  Ekkert kemur þar í staðinn.  Sýnum þolinmæði og þrautsegju svo afkomendur okkar geti borið okkur vel söguna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband