Færsluflokkur: Menntun og skóli

Darwin dagurinn 12. febrúar 2009

 

Fimmdudaginn 12. febrúar nk. verður víða um heim haldið uppá 200 ára fæðingarafmæli vísindamannsins Charles Robert Darwins og um leið fagnað 150 ára afmæli útgáfu tímamótaverks hans, Uppruna tegundanna, þar sem færð vorufram í fyrsta sinn sannfærandi gögn og rök fyrir þeirri tilgátu að lífverur jarðar hefðu tekið þróunarlegum breytingum yfirDarwin54 milljónir ára. Nokkru síðar birti Darwin útskýringar á þróun mannsins og kynbundnu vali í náttúrunni í bókinni Ætterni mannsins og kynbundið náttúruval (1871), en sú bók olli miklum usla meðal margra samtímamanna hans, sem fannst niðurlægjandi að vera bendlaðir við sameiginlegan uppruna með öpum.

Charles Darwin var háskólagenginn frá Edinborg og Cambridge, en þar lærði hann m.a. þær guðfræðilega sprottnu skýringar á tilurð lífheimsins, að guð hefði hannað lífheiminn. Darwin lét það ekki hefta sína frjálsu hugsun og hóf sína eigin leit að svörum með því að skoða gögnin, þ.e. lífheiminn þar sem hann er hve fjölbreyttastur og ríkastur af magni við strendur Suður-Ameríku. Hann byrjaði með autt blað, þ.e. hans athugun og tilgáta yrði sett fram sem óháð vísindi sem líkur væru á að stæðust ítarlega skoðun um langan aldur. Hann hafði ekki áhuga á hugmyndafræðilegu stríði við klerka eða konunga, enda voru það aðrir menn sem héldu vörnum uppi fyrir tilgátur hans eftir að kristnir klerkar hófu árásir sína á þær. Þeirra frægastur var líffræðingurinn Thomas Henry Huxley (1825-1895) og fékk hann viðurnefnið „bolabítur Darwins" fyrir vaska framgöngu sína. Tilgáta Darwins var staðfest sem vísindakenning eftir að síðari tíma rannsóknir studdu hana, sérstaklega á sviði erfðafræðinnar. Hún varð til þess að heimsmyndin gjörbreyttist og vald trúarbragðanna yfir hugmyndaheimi fólks fjaraði út að miklu leyti.

Afkomandi Thomas Huxleys, Julian hélt uppi merki ættföðursins á 20. öldinni, með því að verða fyrsti framkvæmdastjóri UNESCO og þingforseti fyrsta þings alþjóðasamtaka húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) árið 1952. Húmanistar um allan heim halda mikið uppá Charles Darwin og hans arfleifð.

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi er samstarfsaðili að málþingi því sem haldið verður í HÍ á afmælisdegi Darwins, en
Steindór J. Erlingsson hafði milligöngu að því fyrir félagið. Málþingið ber yfirskriftina: Hefur maðurinn eðli?  Fulltrúi Siðmenntar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, lektor í heimspeki við HÍ, flytur þar erindið „Að hálfu leyti api enn". Aðrir fyrirlesarar verða Ari K. Jónsson tölvunarfræðingur, Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur, Jón Thoroddsen heimspekingur, og Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum. Á málþinginu verða einnig afhent verðlaun í ritgerðarsamkeppni sem haldin var á meðal framhaldsskólanema um Darwin og áhrif þróunarkenningarinnar á vísindi og samfélög. Málþingið er öllum opið og verður haldið í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, stofu 132 og hefst kl. 16:30. Dagskrána má sjá á www.darwin.hi.is.

Alþjóðlega dagskrá má sjá á http://www.darwinday.org


Fundur um kennslu í kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði

Í júni í fyrra kvað Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg (MDES) upp dóm í máli nokkurra foreldra gegn norska ríkinu - svokallað Fölgerö mál.  Málið kom til vegna þess að foreldrarnir töldu að það hallaði verulega á aðrar lífsskoðanir en kristni í námsefni fagsins kristendomskunnskap med religions- og livssynsorientering (KRL, Kristni, trúarbrögð og lífsskoðanir) og þær hluta-undanþágur sem börn þeirra gátu fengið frá faginu útsettu þau fyrir mismunun.  Málið byrjaði í Noregi árið 1995 og tapaðist fyrir öllum dómstigum í Noregi.  Málið fór svo fyrir nefndarálit Mannréttindanefndar SÞ, sem ályktaði með foreldrunum.  Loks fór málið fyrir MDES og lauk í fyrra með því að dæmt var foreldrunum í vil.  Talið var að þessar hluta-undanþágur gengju ekki upp, námið væri of einsleitt af kristni og brotið væri á rétti barnanna til náms með því að setja þau í aðstæður sem brytu á rétti foreldranna til að ala þau upp samkvæmt eigin sannfæringu.

Í dag kl 16, í fundarsal Þjóðminjasafnsins mun Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi kynna þetta mál og hafa fengið hingað til lands í boði norsku húmanistasamtakanna, Human Etisk Forbund, lögfræðinginn Lorentz Stavrum, en hann flutti umrætt mál norsku foreldranna fyrir Mannréttindadómstólnum í Strasbourg.   Upplýsingarnar koma því hér frá fyrstu hendi og frá manni sem gerþekkir málið.

Mál þetta komst í hámæli fyrir ári síðan þegar menntamálaráðherra bar upp þá tillögu að orðalagið "kristið siðgæði" skyldi víkja fyrir nokkrum vel völdum orðum sem lýstu almennt viðurkenndum siðferðisgildum eins og umburðarlyndi og virðingu.   Ástæða þessa var m.a. niðurstaða þessa dóms í máli norsku foreldranna gegn norska ríkinu, en einnig vegna "fjölda ábendinga" aðila í þjóðfélaginu.  Þetta var rétt hugsað hjá ráðherra og ráðgjöfum hennar og þjónaði þeim tilgangi að eyrnamerkja ekki starfsemi skóla einhverri einni trú þó svo að hún væri stærst í landinu.  Þá þjónaði þetta einnig tilgangi þess að taka tillit til vaxandi fjölbreytileika í lífsskoðunum í landinu.

Það fór þó svo að varðmenn ítaka Þjóðkirkjunnar og kristni í landinu hættu ekki að nagast í ráðherra og menntamálanefnd fyrr en samþykkt var að setja "kristileg arfleifð" inn í lagatillöguna þannig að enn hefði kristnin sérstakan sess í lögunum.   Einn prestssonur, alþingismaður í Framsóknarflokknum sem átti sæti í nefndinni komst að þeirri "snilldar" niðurstöðu að Fölgerö málið hefði alls ekki fjallað um þess konar orðalag í lögum og að það væri viðurkennt að kristni ætti að skipa stóran sess í námsefni þjóða þar sem hún hefði haft mikil áhrif.  Strangt til tekið var þetta rétt hjá Framsóknarmanninum svona rétt eins og þegar þjófur finnur gat í skattalögum og telur sig hafa allan rétt til að notfæra sér það.  Málið er að tilgangur dómsins var að hnekkja á mismunun og gera börnum frá ólíkum heimilum þar sem mismunandi lífsskoðanir ríkja, kleift að sækja skólana.  Ef þingmaðurinn hefði skilning á því sæi hann e.t.v. að það þjónar akkúrat tilgangi jafnréttis að taka út orðalag í lögum um grunnskóla sem gerir eina trú rétthærri en aðrar.  Það er kannski ekki vona að þingmaðurinn hafi haft skilning á því þar sem formaður hans, Guðni Ágústsson sagði þegar hann í desember 2007 var spurður af stjórnanda Kastljóss að því hvað kristið siðgæði væri , að það "væri að verja hagsmuni Þjóðkirkjunnar".  blink blink

Í inngangi að Aðalnámskrá grunnskóla um nám í kristin fræði, siðfræði og heimsspeki segir m.a.:

Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið.  Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum.  Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. 

Þetta hljómar ekki illa en þó ber að varast að taka uppeldishlutverkið frá foreldrum.  Ég er algerlega sammála því að þjóðfélagið byggist á ákveðnum grundvallargildum, en næsta setning í námskránni er lygi:

Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur.  Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum ... [breiðletrun er mín]

Hér er algerlega sleppt að nefna framlag frjálsrar hugsunar, upplýsingarinnar og húmanismans sem í raun þurfti að berjast gegn kreddum kristninnar síðustu aldir til að fá fram mannréttindi og einstaklingsfrelsi.  Þessar stefnur sem áttu uppruna sinn í heimspeki Forn-Grikkja og Rómverja (t.d. stóisminn) höfðu mjög mótandi áhrif á kristnina sjálfa sem er nú nær óþekkjanleg miðað við kristni miðalda.  Þessi setning sem er svona sett fram í Aðalnámsskrá er því lygi þó svo kristnin hafi haft manneskjulegan boðskap inní annars mjög tvíræðu trúarriti sem fékk ekki að njóta sín fyrr en að upplýsingin hafði sigrað.

Það er fleira í Aðalnámsskrá sem er í þessum dúr.  Áróður Þjóðkirkjunnar fyrir eigin ágæti og nauðsynleika er allsráðandi í skránni.  Aðrir hlutir eru nefndir á hraðbergi.  Þessi námsskrá gefur verulega skakka mynd af því hvaða hugmyndafræði er í raun mest mótandi á vesturlöndum og það þarf að laga verulega til í markmiðum þessarar greinar.   Kristnin verður áfram stór hluti, en veraldlegri siðrænni hugmyndafræði þarf að gera skil með sanni.

Fjölmennum á fundinn í dag!

 

 


Með bíblíuna í pontu - orð Árna Johnsen á Alþingi stuðandi

Um breytinguna frá orðalaginu „kristið siðgæði“ yfir í „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“ sagði Árni Johnsen á Alþingi Íslendinga nú á dögunum: 

Þá er látið undan dekurrófum, trúleysingjum og stjórnleysingjum víða um heim, fólki sem hugsar mest um sjálft sig en síður um að sinna náunganum af kærleik og góðvild.  Fólki sem hugsar ekki mikið um það að rækta lítillæti, þakklæti og auðmýkt, sem er nú grundvallaratriði í því að maður sé manns gaman án þess að nokkur skemmist.   Þetta er millileið og ég vil taka undir orð háttvirts þingmanns Guðna Ágústssonar, að það er miður að menn skuli slaka á klónni.

...

Kristindómur er okkar ankeri.  Við erum ankeri annarra þjóða sem hafa önnur trúarbrögð.

...

Við eigum ekki að hafa neina afsökun á grunni okkar siðfræði og siðgæði [kristnin].

...

Þetta eru atriði sem ég tel að við eigum ekkert að semja um.

...

Ræða Árna fór út um víðan völl og barst tal hans að kristniboði.  Um kristniboð sagði Árni:

Hið eina sem voru trúarbrögð í Konsó áður en íslenskir kristniboðar komu þar til starfa, það var að trúa á hið illa.  Það var bara misjafnlega mikið illt sem gat hent fólk og þetta eru einfaldar staðreyndir. 

Og þetta [kristniboðið] olli því að nú er þar fólk sem líður betur.  Stærstur hlutinn kannski af þessari kristindómsfræðslu var heilbrigðisfræði – að kenna hreinlæti, að kenna ræktun, að kenna einfalda hluti sem bættu kjör og bættu líf.   ... Og við eigum að læra af þessu og standa vörð um það sem hefur reynst okkur vel og gæta þess að þynna það ekki út.

Við þurfum að styrkja kristnifræðina í skólum landsins, þó að við getum kennt líka um önnur trúarbrögð, en OKKAR STEFNA, OKKAR TRÚ ER KRISTIN TRÚ! og það er skylda okkar að verja það.

 

[feitletrun er mín, en höfuðstafir lýsa hækkaðri rödd Árna]

Það má hlusta á alla ræðu Árna á vef Alþingis hér.

 

Það hryggir mig óumræðanlega að Árni Johnsen skuli slá svona sleggjudóma um fólk sem er Höfundur með Árna á Lundaballi 2006trúlaust því ég tek það til mín og þess góða fólks sem er trúlaust í kringum mig.  Árni þekkir mig persónulega og ég veit ekki betur en að hann viti að ég er trúlaus.  Viðskipti mín við Árna hafa einkennst af góðvild minni í hans garð og vináttu.  Ég er ákaflega sár yfir þessum orðum hans á Alþingi.  Ég er einnig sár fyrir hönd allra þeirra trúlausra á Íslandi sem ég hef ekki nema verulega góða reynslu af og tel alls ekki eiga þessi orð Árna skilið. 

Þá hryggir mig verulega þau orð sem hann hafði um fólk í Konsó.  Í öllum þjóðfélögum er fólk sem hefur velvilja og kærleik.  Öll trúarbrögð, líka þau sem sumir kalla frumstæð, hafa einhvern góðan boðskap.  Útkoman er misjöfn en þessi sleggjudómur Árna yfir þessu fólki og sú upphafning sem hann setur kristniboðið í, er það sem kalla má hroki.  Ef eitthvað er hroki þá er það þetta.  

Með þeirri tillögu að taka út orðin „kristið siðgæði“ úr lögunum var ekki verið að leggja til að taka út kristinfræðikennslu.   Sú tillaga kemur kennsluefninu í raun ekkert við.  Orðin voru í samhengi við gildi sem ætti að hafa að leiðarljósi í öllu skólastarfi.   Það er munur á skólastarfi og aftur námsefni.  Megin línur námsefnis eru ákveðnar í aðalnámsskrá, ekki með lögum nema að því leyti að setja umgjörðina.

Kristinfræði í skólum er nú þegar ríkjandi og kennd út frá sjónarmiði trúmannsins sem setur fram efnið eins og það er einnig sett fram í sunnudagaskólum Þjóðkirkjunnar.  Það er ekki tekið á því fræðilega með því að tala um að það skorti heimildir fyrir ýmsu og að Biblían hafi verið samin löngu eftir dauða Krists.  Það er ekki sagt frá mismunandi fylkingum gyðinga á tímum Jesú og ekki minnst á Dauðahafshandritin.  Það er ekki tekið fram að kristni tók og aðlagaði margt úr trúarbrögðum annarra, m.a. heiðingja.  Hvers vegna heitir sunnudagur sunnudagur?  Engin tilraun er gerð til að bera saman trúarbrögðin á þessum tímum.  Heimsspeki Forn-Grikkja fær sorglega litla umfjöllun en samt er hún helsti grundvöllur endurreisnarinnar, upplýsingarinnar og þróun nútíma siðferðis. 

Sú kristinfræði og boðun Þjóðkirkjunnar sem Árni Johnsen lærði hefur tekist fullkomlega í þeim tilgangi að boða hina „einu sönnu trú“.  Lyktin af yfirganginum, sjálfsánægjunni, valdníðslunni, tröðkun á rétti annarra til að hafa eigin sannfæringu og lifa í friði með hana á opinberum stöðum, rýkur af þingmanninum.  Hvernig er hægt að láta svona heyrast á Alþingi?  Orð Árna „en OKKAR STEFNA, OKKAR TRÚ ER KRISTIN TRÚ! og það er skylda okkar að verja það“ og „Þetta eru atriði sem ég tel að við eigum ekkert að semja um“, endurspegla manneskju sem hefur engan skilning á orðinu sannfæringar- eða trúfrelsi.  Svona talar fólk sem heimtar að beygja allt og alla undir sig.  Hann talaði um „... það er miður að menn skuli slaka á klónni“.   Hefur þjóðkirkjan kló?  Hefur Alþingi kló?  Af þessum orðum er það helst að dæma að hann vilji koma öðrum undir vilja sinn með aðferðum rándýrsins.  Talar hér maður af heilindum og samkvæmi sem sakar trúlausa um vöntun á auðmýkt?

Þannig virðist hann ekkert hafa lært í skólakerfinu eða lífinu um hvað sannfæringarfrelsi þegna landsins snýst.  Hann skilur ekki mikilvægi aðskilnaðar ríkis og trúar.  Hann skilur ekki hvers vegna 30 ára stríðin voru háð í kjölfar siðaskiptanna og endurreisnartímans sem lauk um miðja 16. öld.  Hann skilur ekki frekar en svo margir aðrir, af hverju ein mikilvægasta þjóðfélagbreyting upplýsingarinnar var aðskilnaður stjórnmála og trúarbragða.  

Ég get haldið lengi áfram en mér blöskraði verulega að hlusta á þessa ræðu Árna.   Sjálfsagt meinar Árni vel og reynir á sinn hátt en það fjarlægir ekki ábyrgð hans á orðum hans.  Hvílík vonbrigði eru það að þessi annars vinalegi maður sem gæddur er ýmsum hæfileikum skuli standa sem einn af fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi talandi þessi orð fordóma og skoðanakúgunar. 


Frumvarp laga um grunnskóla samþykkt á Alþingi í gær.

Svona hljóðaði breytingartillaga menntamálaráðherra sem var víst samþykkt í gær ásamt öllu frumvarpinu með 52 atkvæðum, engu á móti og 11 fjarverandi:

1.      Við 2. gr.
                a.      2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Ég man að það kom upp sú hugmynd eftir deilurnar í vetur að setja inn fleiri atriði til þess að allir yrðu ánægðir.  Mér sýnist þannig að "kristin arfleifð íslenskrar menningar" eigi þannig að friðþægja kristna og "virðingu fyrir manngildi" að friðþægja húmanista.  Þetta hefur þeim greinilega þótt verulega snjallt og Höskuldur Þórhallsson (xB) gaf þeim síðan í menntamálanefnd hina fullkomnu afsökun fyrir því að halda inni kristninni með því að segja að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MRDE) s.l. sumar hafi alls ekki fjallað um að ekki mætti hafa kristna áherslu.  

Gallinn við þetta er sá að hér er framkvæmd jafnréttis og veraldlegra laga algerlega sniðgengin og misskilin.  Maður gerir ekki lög hlutlaus í anda jafnréttis með því að hlaða inn merkimiðum þeirra sem gala hæst.  Hvernig yrðu mannréttindasáttmálar ef þeir ættu að innihalda alls kyns friðþægingar og eyrnamerkingar lífsskoðunarhópa, hvort sem þeir væru trúarlegir eða ekki?  Slíkir sáttmálar yrðu fljót bitbein mismunandi  þjóðarhópa, trúarhópa og pólitíkusa. 

Húmanistar báðu ekki um að bætt yrði inní þetta "virðingu fyrir manngildi" þó að það reyndar ætti að vera gildi sem allir ættu að geta virt og óháð trú.  Biskup Þjóðkirkjunnar hefur þó talað með fyrirlitningu um áherslu á manngildið í ræðum sínum t.d. um síðustu áramót.  Slíkt virtist ógna "guðgildinu hans".  Aftur orðin "...kristinni arfleifð íslenskrar menningar" eru greinilegur merkimiði einnar trúar og einnar trúarmenningar.   Með þessu er verið að mismuna annarri arfleifð í lögum t.d. arfleifð húmanismans, skynsemishyggjunnar, ásatrúarinnar eða búddismans.  Arfleifð húmanismans er stór á öllum vesturlöndum og Ísland er þar engin undantekning.  Ásatrúin hefur einnig haft sín áhrif þó hún verið kæfð niður að mestu árið 1000. Arfleifð búddismans er nýleg og trúlega ekki mikil en það skiptir ekki máli hver stærðin er. 

Jafnrétti í skólastarfi felur ekki í sér að meirihluti fái sínu framgengt.  Jafnrétti felur í sér að allir fái að senda börn sín í skóla landsins án þess að verða fyrir boðun eða áhrifum arfleifðar eins ákveðins trúfélags, sama hversu stórt eða lítið það er.  Fólk sem vill áhrif ákveðins trúfélags á börnin sín getur sent þau í trúarlega einkaskóla en vonandi verður það nú ekki raunin hér því sameiginlegur hlutlaus skóli er ákaflega dýrmætur fyrir kennslu umburðarlyndis og samlögunar fólks í landinu, sama frá hvaða uppruna eða lífsskoðun það er.   Reynslan af sérstökum skólum trúfélaga er herfileg erlendis því slíkt grefur undan umburðarlyndi og skapar gjá milli fólks vegna trúarbragða.  Ekkert barn á að stimpla "kaþólskt barn" eða "krstið barn" frekar en eftir stjórnmálaflokkum, "íhaldsbarn". 

Nú má vera að ýmsar nauðsynlegar og góðar breytingar hafi verið í frumvarpinu en þessi hluti þess breyttist úr hugrakkri tilraun til jafnréttis með því að taka út "..kristilegt siðgæði" og setja inn nokkur almenn siðferðisgildi, í að vera skrípaleikur til að friðþægja Þjóðkirkjuna, sem með hræðslu sinni um "siðferðilegt tómarými" og "úthýsingu kristinnar menningararfleifðar úr skólunum" gat sveigt menntamálaráðherra á endanum.  Það fólk sem getur neitað sjálfum sér og sínum um sérréttindi er jafnan það sterkasta siðferðilega.  Þorgerður Katrín virtist stefna á þá braut í vetur og svaraði væli Guðna Ágústssonar í Kastljósþættinum eftirminnilega með rökfestu og áræðni.  Þar kom fram að aðspurður taldi Guðni að "kristið siðgæði" væri að "vernda Þjóðkirkjuna".  Eftir hrakfarir Guðna kom annar framsóknarmaður, Höskuldur Þórhallsson lögfræðingur og alþingismaður, í staðinn fram á sjónarsviðið sem verndarengill kristninnar og hafði nú Þorgerði Katrínu undir með því að aftengja málið frá dóm MRDE.  Mál norsku foreldrana gegn norska ríkinu var flókið en megin niðurstaða þess var sú að ríkinu væri ekki stætt á því að skylda foreldrana til að fá bara undanþágur að hluta fyrir börnin sín frá kennslu um kristni, trúarbrögð og heimspeki, því námsefnið væri augljóslega of vilhallt kristni og framkvæmd hlutaundanþágu væri óraunsæ.  En skipti það í raun nokkru máli hvort að dómur MRDE hafi ekki nákvæmlega fjallað um markmiðalýsingu í lögum um starf í grunnskólum?  Getur ekki hver maður sem skilur hvert dómur MRDE stefndi, séð að hann var norska ríkinu í óhag vegna mismununar og ójafnréttis?  Augljóslega ekki Höskuldur og þingheimur virðist hafa trúað honum eða ekki haft nennu til að skoða málið nánar.

Það þarf ekki úrskurð MRDE til að sjá hversu rangt það er að blanda trúarbrögðum inn í lög um menntun barna.  Börn eru áhrifagjörn og þau á að vernda frá áhrifum utanaðkomandi aðila í skólastarfi.  Hlutverk skólanna er nær einungis að auka þekkingu barna og færni í margs kyns hugarfarslegri tækni auk líkamlegri í leikfimi.   Uppeldið fer fram á heimilinum þó auðvitað seti kennarar gott siðferðilegt fordæmi með framkomu sinni og faglegum kennsluháttum.  Það er ekki hlutverk kennara að siða nemendur sína þó því miður lendi þeir að hluta í þeirri aðstöðu þegar óstýrilát börn eiga í hlut.

Það er virkileg skömm að þessu orðalagi um arfleifð ákveðins trúfélags í grunnskólalögum.  Hver er réttlæting þingmanna á þessu?  Þreyta? Drífa þetta í gegn?  Skiptir ekki máli? Ahh, látum þetta flakka svo deilurnar hætti?  Mistök.  Nú munu deilurnar halda áfram.  Ég mun a.m.k. ekki þagna.  Þetta er verulega dapurt í ljósi þess að nú þykjumst við Íslendingar hafa þroska til þess að sitja í Öryggisráði SÞ.  Hvernig ætlum við að útfæra jafnrétti þar?


Tvennt verulega athyglisvert

Það er tvennt verulega athyglisvert við þessa yfirlýsingu Ungra vinstri grænna.

Í fyrsta lagi er það hugrekki þeirra og ást á jafnrétti sem skín í gegnum mál þeirra því það eru fáir sem hafa hugrekki til að fjalla um mál lífsskoðana í stjórnmálum í dag.  Í síðustu kosningum voru þessi mál algerlega skilin útundan.

Í öðru lagi er það hugrekki þeirra og heiðarleiki að koma opinberlega fram með gagnrýni á afstöðu eða afstöðuleysi eigin þingmanna í þessu máli. 

Það er alltaf að koma betur í ljós sú vanþekking sem ríkir í þjóðfélaginu og á meðal margra þingmanna úr öllum flokkum á því hvert sé gildi veraldlegrar skipunar á menntakerfinu og hinu opinbera.  Þetta fólk virðist ekki geta skilið á milli þess sem er ríkjandi lífsskoðun eða ríkjandi hópur í stærð eða sögu trúfélaga og þess að leiðbeinandi gildi í skólastarfi (eða t.d. þingmennsku) geta ekki verið eyrnamerkt í lögum slíkum hóp eða hópum.  Lög geta ekki verið tileinkuð einni arfleifð umfram annarrar því annars er verið að mismuna og skapa sundrungu, alveg sama hversu stór við höldum að sú arfleifð sé.  Ekki dettur okkur t.d. í hug að tileinka og merkja lög um störf dómara ákveðinni nefndri hugmyndafræði eða lög um Alþingi ákveðnum stjórnmálaflokkum, þó stærstir séu. 

Skólar eru ekki trúarstofnanir, heldur trúarlega og stjórnmálalega hlutlausar menntastofnanir.  Það þýðir ekki þar með að skólastarf sé tómt hugmyndafræðilega eða villu ráfandi siðferðilega.  Við höfum almenn gildi til að fara eftir líkt og kveðið er á um í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og stungið var uppá að færi í lög um skólastarf í stað hins trúarlega mismunandi og óljósa orðalags "kristilegs siðgæðis".  Siðferðisgildin sjálf er allt sem þarf að nefna og lög án merkinga skapa frið um skólastarfið sem á að vera fyrir alla þegna landsins, ekki bara kristna.

Einnig má hér minna á að kristin arfleifð á sér bæði góðar og slæmar hliðar, þannig að hún er umdeild bæði í dag og alla hennar sögu.  Hún er heldur ekki eina arfleiðin og að mínu áliti og margra annarra ekki sú mikilvægasta.  Arfleifð lífsspeki Forn-Grikkja, endurreisnarmanna (1300-1550) og svo hugsuða upplýsingarinnar (u.þ.b. 1650-1850) er sú arfleiðs sem færði okkur einstaklingsfrelsi, kosningarétt, lýðræði, frjálsar ástir, jafnrétti kynjanna, tjáningarfrelsi, sannfæringarfrelsi og vísindalega gagnrýna hugsun.  Oft tíðum náðust þessi verðmæti þrátt fyrir harða andstöðu kirkjunnar (sbr Galilei Galileo og Vatíkanið) þó vissulega væru góðar undantekningar því meðal klerka eða guðfræðinga sem iðkuðu vísindi og færðu okkur nær einstaklingsfrelsi en áður var.  Nefna má þar t.d. guðfræðinginn Desiderius Erasmus frá Rotterdam sem síðar fékk þann heiður fá verk sín listuð á Skrá hinna bannfærðu bóka hjá Páfanum í Róm.

Þó að ég telji hina húmanísku arfleifð mikilvægari en hina kristnu, þá dettur mér ekki í hug að biðja um að nefna húmanisma eða arfleifð hennar í lögum.  Skólastarf mótast fyrst of fremst af faglegri nálgun og þekkingu kennara rétt eins og starf lækna mótast af faglegri nálgun þeirra og sérstökum siðareglum í starfi.  Siðareglur lækna bera ekki trúarlega merkimiða.  Það er algert aukaatriði hvaðan gildin koma, hvort að það var kristinn maður, búddisti, múslimi eða húmanisti sem kom með góðar siðferðishugmyndir.  Það skiptir mestu að gildin sjálf, sem eru sammannleg og algild séu höfð að leiðarljósi.  Þjóðfélag er samstarf og það geta ekki allir skrifað undir eða eignað sér heiður.  Hið sameiginlega, hið opinbera í lífi okkar þarf einfaldlega að virka og vera miðað að ákveðnum markmiðum og tilgangi óháð uppruna eða sögu. 

 


mbl.is Ung VG lýsa yfir óánægju með þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvundagshetja: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Kennari í Grunnskólanum á Egilstöðum, Esther Ösp Gunnarsdóttir komst í fréttir 24-stunda þann 1. maí s.l. (bls 38) af því að hún neitaði að dreifa kynningarbæklingi fyrir kristilegar sumarbúðir til nemenda sinna í 7. bekk.  Haft var eftir henni: "Ætlast var til þess að ég myndi dreifa þessum bæklingi til krakkanna í bekknum mínum.  Það harðneita ég að gera."

Esther Ösp Gunnarsdóttir kennari

Hér er greinilega kona með bein í nefinu sem þorir að standa við sína skoðun á því hvað er rétt og hvað er rangt.   Hún hefur einnig snarpan skilning á því hvernig vernda á börn í opinberum skólum frá mismunun.  Esther Ösp:

"Mér finnst þetta bara svolítið hæpið í ljósi þess að hér á að ríkja trúfrelsi og sífellt að verða lögð meiri áhersla á umburðarlyndi gagnvart öllum trúarbrögðum og fólki af hvaða uppruna sem er, sem er bara af hinu góða.  En þá stangast þetta á við það þegar skólinn er farinn að taka að sér að dreifa kynningarbæklingum um trúarlegt starf." [áherslubreytingar eru mínar]

Að hennar sögn sýndu stjórnendur skólans ákvörðun hennar fullan skilning.  Það er léttir að heyra það en í raun ættu þeir að ganga lengra og biðja hana og aðra kennara afsökunar á þessu og hætta allri dreifingu bæklinga um trúarstarfsemi strax.  Allir skólar landsins ættu að fara að hennar dæmi.

Esther Ösp sagði einnig:  "Ég veit ekki alveg hvort að þetta er fréttnæmt.  Ég hugsa að það hafi fleiri kennarar en ég gert þetta í gegnum tíðina".   

Góður punktur hjá Esther Ösp.  Þetta ætti ekki að vera fréttnæmt því það sem hún gerði á að vera hið viðtekna.  Það sem er í raun fréttnæmt við þetta er að stjórn skólans er að brjóta á jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og grunnskólalaga þar sem segir að ekki megi mismuna fólki eða nemendum í skóla eftir trúarbrögðum.  Að auki er verið á brjóta á siðareglum kennarara þar sem segir að þeir eigi ekki að stunda trúboð í skólum.  Í grunnskólalögum segir að skólinn sé ekki trúboðsstofnun. 

Þá bætti hún við að "sér finndist algjör óþarfi að kennarar sinni einnig starfi bréfbera.  Kennarar hafi nóg að gera þó þeir fari eki að taka að sér hlutverk póstburðarfólks líka, bara til þess að spara kirkjunni örfáar krónur". [áherslur eru mínar]

Þetta er enn einn vinkillinn og rétt athugaður hjá Esther Ösp.  Grunnskólinn er menntastofnun, ekki útibú trúarstofnana.  Til þess að skólinn geti gegnt hlutverki sínu óáreittur þarf hann að vera laus við ágang eða greiðasemi fyrir stjórnmálaflokka eða lífsskoðunarfélög, þ.m.t. trúfélög.  Það er lína sem þarf að draga bæði út frá praktískum sjónarmiðum og verndun barna skólans frá áhrifum félaga utan hans.  Öðru vísi verður heldur ekki tryggt að um mismunun hljótist ekki af vegna trúarskoðana foreldra barnanna og að friður skapist um skólastarfið.  Það er skýlaus réttur foreldra að sjá um skoðanalegt uppeldi barna sinna utan skólans.  Hlutverk skólans er að bera fram upplýsingar í kennsluefni og mennta börnin á hlutlausan máta.  Hann gefur börnunum þau tæki, tól og tækni sem þau þurfa til að gera upp hug sinn um hin ýmsu málefni síðar meir.  Hlutverk skólans er að bera fram staðreyndir á eins hlutlausan máta og hægt er.  Þannig þjónar hann best sannri þekkingu og framtíð barnanna án þess að mismuna uppruna þeirra.

Kennarinn Esther Ösp er hvundagshetjan mín.  Ég tek hatt minn ofan.

---

Sjá umfjöllun 24-stunda (bls 38), fréttablaðsins Austurglugginn og bloggsíðu Estherar Aspar.


Orð í tíma töluð - fyrir löngu síðan

 Á vef Vantúar rakst ég á eftirfarandi tilvitnun í Níels Dungal læknis sem árið 1948 gaf út bókina "Blekking og þekking".  Mér finnst þessi orð hans eiga sérstaklega við í dag, ekki síður en í hans samtíma. 

 "Hver einasti læknir, sem hefir augun opin, gerir sér ljóst hve fyrirhafnarsamt það er að öðlast þekkingu um starfsemi mannslíkamans. Og hver einasti menntaður læknir veit, að engin framför hefir nokkurntíma orðið á því sviði nema fyrir einbeitingu á athugun, gagnrýni, vinnu og þolinmæði. En að öll afskipti trúarbragða af heilbrigðismálum, sem í gegn um aldirnar hafa verið mjög mikil, hafa, eins og allt annað sem er byggt á fáfræði og blekkingum, reynst lítilsvirði og ekki komið að gagni við lækningu á nokkrum sjúkdómi.

Og þegar menn sjá í gegn um blekkingarhulu töfrakenndra helgiathafna og vita hve einskisverðar þær hafa reynst til lækninga, er þá nokkur furða þótt menn verði tortryggnir á önnur heilög „sannindi", sem ekki eru skilningarvitunum aðgengileg?"

Níels Dungal, læknir

Smá djús til að sötra á yfir páskana.  Eigið þá annars gleðilega!  Páskaegg nr 3? eða stærra?


Veraldlega grunnskóla takk!

Menntamálaráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla fyrir Alþingi á haustþingi 2007. Í frumvarpinu er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um kristilegt siðgæði barna er ákvæði um að efla almenna siðferðisvitund þeirra. Í frumvarpi til laga um grunnskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um að starfshættir skólans skuli mótast af kristilegu siðgæði verði ákvæði um umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.


Ég er mjög ánægður með lagatillögu Þorgerðar Katrínar því hún tekur nú mjög mikilvægt skref til enn betri veraldlegs grunns í íslensku laga- og menntakerfi. Sem betur fer er sjaldgæft að lagagreinar hafi skírskotun í einhver ákveðin trúarbrögð og fyrir því eru góðar ástæður. Á síðustu 5 öldum eða svo hafa hin vestrænu þjóðfélög smám saman skilið mikilvægi þess að skilja að trú og stjórnmál því trúarleg íhlutun í veraldlegt vald endaði alltaf með hörmungum. Í dag hefur fólk trúfrelsi en hinn sameiginlegi lagalegi og stjórnarfarslegi grunnur þjóðanna verður að vera óháður trú og laus við slíka merkimiða. Öðru vísi var og er ekki hægt að útfæra jafnrétti og koma í veg fyrir sérréttindi fjölmennra trúarhópa á kostnað annarra.


Þróun í siðferði síðustu alda átti sér stað vegna aukinnar áherslu á sjálfstæði manneskjunnar og rétt hennar til að hafa áhrif á stjórnarfar og val til menntunar og atvinnu. Manngildishyggja og veraldlegt siðferði, sem hefur það eitt að marki að hámarka hamingju og lágmarka þjáningar með rökfræðilegri nálgun olli straumhvörfum. Bandaríkjamenn stofnuðu ríki með aðskilnaði ríkis og kirkju, sigruðust á þrælahaldi og verkamenn fengu verkfallsrétt og vinnutímavernd. Baráttukonur beggja vegna Atlantshafs áunnu konum rétt til fjárhagslegra eigna og svo kosningarétt þrátt fyrir mikla andstöðu íhaldssamra stjórnmálaafla og kirkjuleiðtoga. Byltingin gegn alræðisvaldinu var löng og ströng en náði loks stórum áfangasigri með lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og stofnun Sameinuðu Þjóðanna. Þær byggja sína mannréttindasáttmála á algildum siðferðisverðmætum óháð trúarbrögðum eða menningarheimum og því eru þeir leiðbeinandi fyrir allar þjóðir, allt fólk á jörðinni.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg í sumar var skýr og fordæmisgefandi. Trúarlegt starf í opinberum skólum á ekki að eiga sér stað og lög um opinbera menntun geta ekki dregið taum ákveðinnar trúar eða ríkjandi kirkjudeildar. Tíma barna og kennslu í opinberum skólum verður að vernda frá trúboði eða pólitískri innrætingu. Kennarar eða leiðbeinendur barna geta ekki yfirfært sín persónulegu trúarbrögð á skólastarfið og eiga að halda bænum, ritningarlestri, kirkjuferðum eða heimsóknum presta frá reglubundnu skólastarfi. Það á að láta hverri fjölskyldu það eftir í sínum einkatíma hvert uppeldi barna þeirra verður hvað varðar lífsskoðanir og trúarbrögð. Hlutverk skóla er að mennta en ekki innræta. Þannig skal fræða um trú, heimsspeki, húmanisma, trúleysi, efahyggju og samanburð lífsskoðana á hlutlausan máta með námsefni sem er tekið saman af fagfólki en ekki ákveðnum trúar- eða lífsskoðunarhópum.


Þann 10. desember s.l. átti Mannréttindayfirlýsing SÞ 60 ára afmæli og því væri samþykkt þessa frumvarps á Alþingi nú eitt það besta sem ráðamenn þjóðarinnar geta gert til að heiðra yfirlýsinguna og tryggja betur mannréttindi barna í landinu. Ég vona að um þetta náist þverpólitísk samstaða. Styðjum frumvarpið!


Staksteinum sunnudagsins 2. des 07 svarað

 

Í Morgunblaðinu í dag, sunnud. 2. des, voru skrif Staksteina að venju.  Í þetta skipti ákvað höfundur pistilsins að gagnrýna Siðmennt þó að hann/hún passi að nefna félagið ekki á nafn.  Höfundurinn getur þó vart vikið sér undan því að hann á við Siðmennt því ekki hefur verið talað um annað en Siðmennt í samhengi þeirrar gagnrýni og lyga sem hann kemur fram með. 

Staksteinar dagsins byrja svona:

Fáránlegar deilur hafa verið að skjóta upp kollinum varðandi það hvað megi og hvað megi ekki í trúarbragðafræðslu í skólum. Til eru þeir, sem vilja banna kennslu kristinna fræða í skólum landsins og ganga svo langt að það eigi að banna að halda litlu jólin í skólunum! [feitletrun mín]

Hér að neðan fer svar mitt sem ég setti í athugasemdafærslu Staksteinabloggsins.   

---

Sæll höfundur Staksteina

Eðlilegt væri að vita nafn þitt.   Er það rétt skilið hjá mér að Styrmir Gunnarsson sé höfundur þessa skrifa í Staksteinum?  Skrifaðir þú þetta Styrmir?

Samrýmist það siðareglum Blaðamannafélagsins að skrifa hvassa gagnrýni á vegum fjölmiðils undir dulnefni?

Ég er Svanur Sigurbjörnsson, húmanisti og stjórnarmaður í Siðmennt. 

Á fimmtudaginn fóru af stað hroðalegar árásir á ákaflega gott frumvarp Katrínar Þorgerðar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra í kjölfar kynningar á frumvarpinu og einkafundar Karls Sigurbjörnssonar biskups með henni.  Frumvarpið tók út merkimiða eins trúfélags úr lögunum og setti í staðinn almennt orðalag um siðferðisgildi sem allir geta verið sammála um óháð úr hvaða trúfélagi þeir/þær eru. 

Þetta er í fullu samræmi við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg frá í sumar og ályktanir Mannréttindanefndar SÞ undanfarin ár.   Mikilvægi þessa er að gæta þess að lög séu ekki trúarleg (eins og þau nánast öll eru) en samt leiðbeinandi um almenn siðferðisverðmæti. 

Frá því að ljóst var að trúarleiðtogar gætu ekki haft dómsvald eða lagalega íhlutun og vestræn þjóðfélög komu á veraldlegri (secular) stjórnskipan smám saman síðustu 4-5 aldir hafa orðið gífurlegar framfarir og réttindi og hamingja einstaklinga þessara landa hafa stóraukist.  Hlutlæg hugsun skilaði þannig miklum pólitískum framförum og jafnfram geysilegum tækniframförum og þekkingu á mannlífi og lífrænum ferlum.  Úr varð bylting í læknisfræði og sóttvörnum og mikil fólgsfjölgun fylgdi í kjölfarið.  Aðskilnaður beinna trúarafskipta frá stjórnarfari og menntun var og er lykilatriði þeirrar velgengi sem vestræn þjóðfélög búa við.  Einn stærsti viðburður sögunnar í þá veru var samþykkt Bandarísku stjórnarskrárinnar við stofnun þess lýðveldis.

Við megum ekki gleyma eðli þess veraldlega stjórnskipulega grunns sem forfeður okkar fórnuðu oft á tíðum lífi sínu fyrir eða var kastað í fangelsi um lengri tíma.  Ekki sér maður setningar eins og "í Jesú nafni" á eftir lagagreinum, um t.d. refsimál eða bílbeltanotkun.  Lögin okkar eru veraldleg til að halda hlutleysi og einbeita okkur að markmiðunum einum.  Þannig eru Mannréttindasáttmálar Evrópu og SÞ skrifaðir.  Lög geta ekki dregið taum eins trúfélags eða einnar trúarhugmyndar þó að hún sé í meirihluta meðal þjóðar. 

Hér er ekki um það að ræða að "minnihluti sé að kúga meirihluta" eins og heyrist víða, m.a. hjá Karli Sigurbjörnssyni biskup.  Hér er farið fram á jafnrétti fyrir lögum líkt og fatlaðir einstaklingar njóta.  Ekki er spurt að því hvort þeir séu í minnihluta þegar setja á upp lyftur eða bæta aðgang fatlaðara í byggingar.   Er það "frekur minnihluti" þegar beðið er um textun fyrir heyrnarlausra hjá RÚV?

Varðandi lygar um Siðmennt. 

Á síðasta kirkjuþingi heyrðist frá einhverjum ræðumönnum að félagið væri á móti kristinfræðslu og kennslu í trúarbragðafræði.  Siðmennt er búið í gegnum árin að margítreka að svo er ekki en samt heldur þessi lygi áfram.  Svo tekur þú, höfundur Staksteina þetta beint upp án þess að hafa fyrir því að kynna þér stefnumál Siðmenntar á www.sidmennt.is eða það bréf sem við sendum ritstjórn Morgunblaðsins á föstudaginn til að leiðrétta þetta.  Leiðréttingin var birt á Mbl.is sama dag. 

Þá var það einnig leiðrétt að Siðmennt er EKKI á móti Litlu-jólunum eins og blaðamaður 24-stunda leyfði sér að túlka í föstudagsblaðinu.  Samt apar þú þetta upp eins og þú hefðir fengið gullið tækifæri til að níða félagið.  Vinnubrögð þín og ábyrgðarleysi við skrif þessa Staksteina í dag eru með ólíkindum og bera ekki þess vitni að þú hafir starfað við einn stærsta og áhrifamesta fjölmiðil landsins í tugi ára.  (Ég geri ráð fyrir að ég sé að skrifa til Styrmis Gunnarssonar).  Þetta er til skammar.

Ég vona að Morgunblaðið sjái að sér og bæti fyrir burð þessara lyga á félagið með því að birta alla fréttatilkynningu Siðmenntar í blaðinu á morgun eða þriðjudag á áberandi stað.  Svonalagað má ekki eiga sér stað í siðuðu þjóðfélagi.

Kveðja

Svanur Sigurbjörnsson, Stjórnarmaður í Siðmennt

---

Ég vil einnig benda á svar Sigurðar Hólm Gunnarssonar og skrif hans á www.skodun.is

Fréttatilkynnig Siðmenntar og umfjöllun um frumvarp menntamálaráðherra má sjá hér.

Þá vil ég einnig hvetja þig lesandi góður að horfa á Silfur Egils frá í dag en þar færir Matthías Ásgeirsson formaður Vantrúar og félagsmaður í Siðmennt ákaflega sterk rök fyrir afstöðu Siðmenntar og Vantrúar (hann talar þó ekki sem fulltrúi Siðmenntar, heldur Vantrúar).

Nú er mál að lygum um Siðmennt linni og fólk taki nokkra djúpa andardrætti og líti á heimildir áður en það skrifar um félagið og tímamótatillögu ráðuneytsins um breytingu á grunnskólalögum.

 


Búum börnum okkar merkimiðalaust skólaumhverfi og frið frá trúboði

Vegna kynningar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra á nýju frumvarpi til breytingar á grunnskólalögum hafa sumir fulltrúar Þjóðkirkjunnar farið hamförum í fjölmiðlum undanfarið og hrópað hátt yfir því að "kristilegt siðferði" sé nú verið að hrekja úr skólunum af "frekjugangi minnihlutahóps".

Ef rétt er haft eftir á bls 2 í 24-Stundum í dag þá sagði Karl Sigurbjörnsson biskup að "Siðmennt væru hatrömm samtök".   Maður verður nánast kjaftstopp að sjá svona siðlausar og algerlega staðhæfulausar ásakanir.   Er hann alveg að missa sig yfir því að "sóknarfærin" hans og Þjóðkirkjunnar á trúboði í grunnskólum landsins eru í hættu vegna frumvarps sem er í samræmi við ályktanir Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna og Mannréttindadómstóls Evrópu frá því sumar? 

Getur Karl biskup ekki unað því að menntastofnanir landsins hafi almennt siðferði að leiðarljósi en í kynningu á frumvarpinu segir orðrétt:

Í frumvarpi um leikskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um kristilegt siðgæði barna er ákvæði um að efla almenna siðferðisvitund þeirra. Í frumvarpi til laga um grunnskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um að starfshættir skólans skuli mótast af kristilegu siðgæði verði ákvæði um umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Þarna er verið að lýsa siðferðisgildum sem ég vona að allt gott fólk geti verið sammála um, sama úr hvaða trúfélagi það er, enda eru þau í samræmi við "gott siðferði og allsherjarreglu" eins og segir í lögum um skilyrði fyrir skráningu trúfélaga á Íslandi.   Hver er þá ógnunin við kristnina eða Þjóðkirkjuna?  Er hún einungis að hnýta í Siðmennt vegna þess að hún missir mögulega sérréttindi sín til trúarlegs starfs og kristniboðunar innan skólanna?  Á Siðmennt skilið að vera kölluð "hatrömm samtök" vegna baráttu sinnar fyrir mannréttindum, jafnrétti, veraldlegu menntaumhverfi barna og frið frá trúboði og innrætingu.  Börn eiga rétt á upplýsingu og fræðslu svo þau geti síðar tekið sínar sjálfstæðar ákvarðanir um mál eins og lífsskoðanir (þ.m.t. trú) og stjórnmál.   Engum dettur í hug að leyfa stjórnmálaflokkum að vera með starfsemi sína í skólum.   Ætti eitthvað annað að gilda um trúfélög?Til þess að leiðrétta aftur þær rangtúlkanir og ósannindi sem fóru á kreik vil ég segja:
  • Siðmennt er EKKI á móti Litlu-jólunum.   "common!"  krakkar að dansa kringum jólatré.  Jólin hafa víða skírskotun og húmanistar halda flestir jól.
  • Siðmennt er EKKI á móti kristinfræðikennslu í skólum.
Nánari útskýringu á stefnumálum Siðmenntar varðandi menntamál barn hvet ég ykkur til að lesa í fréttatilkynningu Siðmenntar sem má lesa alla hérNjótum nú jólaundirbúningsins og jólaljósanna í sátt og förum þann veg sem tekur tillit til allra og mismunar ekki né skilur útundan börn í skólum landsins vegna lífsskoðana foreldra þeirra.   Styðjum frumvarp Þorgerðar Katrínar því það er mikilvægt skref í þá átt. 

-----

PS: Ég vil benda á góðar greinar Matthíasar Ásgeirssonar á bls 38 í Fbl og Valgarðs Vésteinssonar á bls 28 í Mbl í dag.
mbl.is Siðmennt ekki á móti litlu jólunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband