Færsluflokkur: Matur og drykkur

Hvers vegna EKKI detox!

Þótt ótrúlegt megi virðast láta margir glepjast af auglýsingamennsku Jónínu Ben og kuklprógrammi hennar.  Detox er lykilorð í kuklbransanum og eftir því sem það er víðar notað í auglýsingum og umræðu fólks sem heldur fram alls kyns staðhæfingum í tengslum við vöru eða þjónustu sem það er að selja, þá fara fleiri að trúa.  Það er nefnilega þannig að mörgu fólki virðist duga að heyra hlutina nógu oft að þá fer það að taka það sem sannleik. 

Hér ætla ég að telja upp nokkur atriði til rökstuðnings þess að fara ekki í detox prógramm eða kaupa sér vörur sem eiga að "afeitra" líkamann.

  1. Líkaminn hefur mjög fullkomið afeitrunar- og útskilnaðarkerfi sem þarfnast ekki sérstakar hjálpar við utan þess að misbjóða því ekki með óhollum lífsháttum.  Lifrin tekur við öllu því sem við látum ofan í okkur (gegnum portal æðakerfið) og því er margt sem er afeitrað þar í svokallaðri fyrstu umferð (first pass), þ.e. ýmis efni sem lifrarfrumurnar líta á sem framandi eru brotin niður í lifrinni áður en þau komast í almennu blóðrásina.  Dæmi: Flest lyf komast aðeins að hluta inní almennu blóðrásina því að lifrin byrjar strax að brjóta þau niður.  Þess vegna eru sýklalyf stundum gefin í æð til þess að komast hjá þessu "first pass" niðurbroti í lifrinni.  Þannig nýtist betur skammturinn. 
  2. Í blóðinu eru prótein sem binda ýmis efni og varna því að þau nái fullri verkun út í líkamann.  Lifrin tekur svo við efnunum og brýtur þau niður.  Það fer eftir ýmsum eiginleikum efnanna hversu mikil þessi próteinbinding er.  Í blóðinu, millifrumuefni og frumum líkamans eru svo einnig ýmis andoxunarefni sem varna þránun fitu og bindast rokgjörnum efnasamböndum sem mögulega geta skaðað efnaskipti og starfsemi frumnanna.  Þetta eru mikilvæg efni (ýmis vítamín eru í þessu hlutverki) en þær væntingar sem bundnar voru við uppgötvun þeirra hafa ekki náð þeim hæðum sem upphaflega var vonast til.  T.d. hafa stórir skammtar af ýmsum vítamínum umfram grunnþörf ekki gefið góða raun í forvarnarskyni við krabbameinum. 
  3. Heilinn hefur sérstaka vörn í sínum æðum þannig að hann hleypir inn mun færri efnum en önnur líffæri.  Það fer eftir svokölluðum fituleysanleika hversu mikið efni komast inn í heilann.  Þetta vita lyfjaframleiðendur mæta vel og reyna því að hanna lyf sín þannig að þau komist síður inní heilann ef að þau eiga að virka í öðrum líffærum.
  4. Úthreinsunarstöðvar líkamans.  Í fyrsta lagi eru það nýrun.  Þau losa út langmest af úrgangsefnum efnaskipta líkamans, sérstaklega svokölluðum nitursamböndum sem koma frá vöðvum.  Mikilvægt er að drekka vel samkvæmt þorstatilfinningu því þurrkur er varasamur fyrir nýrun.  Gamalt fólk getur tapað að hluta þorstatilfinningu eða kemst ekki í vatn vegna lasleika og því þarf að passa sérstaklega vatnsinntöku hjá því.  Óhófleg vatnsdrykkja getur verið varasöm því hún getur þynnt út blóðið, sérstaklega þarf að fara varlega í það að demba í sig mikið af tæru vatni (meira en 1.5 L) eftir mjög mikla og langvarandi áreynslu og svitnun (eða mikinn niðurgang/uppköst) án þess að borða með (nauðsynleg sölt eru í matnum) því það getur valdið svokallaðri vatnseitrun í heilanum.  Vegna þessa eru íþróttadrykkir jafnan blandaðir með söltum (Na, K, Cl).
  5. Í öðru lagi fer úthreinsum fram í gegnum gallvegakerfið í lifrinni og gallútganginn í skeifugörninni og eru það einkum ákveðin fituleysanleg efni og málmar sem lifrin hefur bundið við önnur efni, sem losast út þannig (gegnum hægðirnar).  T.d. það örlitla kvikasilfur sem notað var áður í viss bóluefni mælist í hægðum en ekki í blóði nokkrum klukkustundum eftir gjöf þeirra bóluefna.  Þetta örmagn kvikasilfurs var því afeitrað í lifrinni (bundið) og skilið út með gallinu og hægðunum.  Þessi útskilnaður lifrarinnar gegnum gallið skerðist ekki við gallblöðrutöku. 
  6. Í þriðja lagi fer úthreinsun fram í gegnum útgufun frá lungum (útöndun).  T.d. hreinsar líkaminn að hluta alkóhól út um andardrátt. 
  7. Yfirleitt er ekki minnst á lifur eða nýru í umfjöllun detox-kuklara á vörum sínum, aðferðum eða þjónustu.  Ástæðan er sú að þeir hafa ekki græna glóru um það hvernig afeitrunarkerfi líkamans starfa.  Samt þykjast þeir geta ráðlagt um afeitrun og telja fólki trú um að líkami þeirra sé fullur af einhverjum eiturefnum.  Snilldin felst í því að búa til sjúkdóminn fyrst og selja svo "lækninguna".  Salan aflar $ $  og meiri $ $ eykur möguleika til að ljúga stærra, t.d. með flottum auglýsingum á forsíðu Morgunblaðsins eins og gert var í vetur. 
  8. Umfram það að drekka nóg af vatni, hreyfa sig reglulega, borða alhliða mat, lýsi og halda sér í kjörþyngd, þá er ekkert sem þarf að gera til að hjálpa afeitrunarferli og útskilnaðarlíffærum líkamans.  Þau sjá um sig sjálf.  Það sem gildir er að forðast að láta óholl efni í líkamann til að byrja með.  Það gagnast ekkert að láta hreinsa út úr sér hægðirnar með skolun ef að fólk borðar krabbameinsmyndandi mat flesta daga.  Skaðinn er skeður áður en fæðan nær í neðri hluta ristilsins þar sem til skolunar kemur og það er alls ekki ráðlagt að fara í ristilskolun daglega.  Með því að forðast brenndan, sviðinn, pæklaðan, djúpsteiktan og mikið verkaðan mat má forðast krabbameinsmyndandi efni.  Matvaran skyldi því vera sem ferskust og elduð á mildan máta þannig að hvort tveggja, góð vítamín og fitusýrur skemmist ekki, og ekki myndist hættuleg rokgjörn efni sem geta ýtt undir myndun krabbameina. 
  9. Föstur í nokkra daga eða 1-4 vikur gera meira ógagn en gagn.  Með föstu á ég hér við fæðismagn sem skilar minna en 1000 kkal á dag (fæði detox Jónínu er með um 500 kkal/dag).  Fasta veldur miklu álagi á efnaskiptin eftir 2-3 daga því þá þarf líkaminn að skipta algerlega um gír í orkuefnanotkun, þ.e. skipta úr notkun á forðasykri (í lifur og vöðvum) yfir í notkun á fitu og vöðvum.  Líkaminn verður að hafa sykur fyrir heilann og því byrjar hann að brjóta niður vöðvana til að búa til sykur úr niðurbrotsefnum þeirra (amínósýrum) í lifrinni.  Fasta umfram 2-3 daga veldur því niðurbroti á dýrmætum vöðvum og á endanum veldur minni orkunotkun líkamans og fljótari fitusöfnun á ný eftir að föstunni líkur.  Fastan eykur ferð nitursambanda um blóðið og óæskilegra smáfituefna (ketóna) sem auka álag á lifrina og því er það ástand ekki gott fyrir afeitrunarferli hennar.  Slík fasta er því á endanum líklegri til að veikja ónæmiskerfið og afeitrunarkerfið en hitt (sem er oft lofað) og getur ekki haldið áfram án þess að valda stórskaða á líkamanum.  Hún er því engin langtímalausn og er ekki réttlætanleg nema í mesta lagi 3 daga.  Föstu má nota í 1-3 daga til að byrja megrunarátak (ákveðin ögun), en eftir þá byrjun skal halda inntökunni u.þ.b. 500 kkal undir áætlaðri orkuþörf þannig að um hálft kg (3500 kkal) af fitu náist af á viku hverri. 
  10. Tíu er flott tala og því er freistandi að koma með 10. atriðið en ég læt það vera. 

Af ofangreindu er ljóst að detox kerfi eða vörur eru ekki langtímalausn og í reynd algerlega ónothæfar sem slíkar.  Í besta falli eru þær skaðlaus peningaeyðsla en í sumum tilvikum hreint út hættulegar heilsu fólks.  Besta "hreinsunin" felst í að láta ekki of mikið og of verkaðan/brenndan mat ofan í sig.  Jafnframt er ákaflega mikilvægt að halda blóðrásarkerfinu í þjálfun með reglubundnum þolæfingum.  Ofgnótt og skortur á taumhaldi er okkar versti óvinur heilsufarslega.  Það væri nær að setja upp prógramm sem þjálfaði fólk í heilbrigðum sjálfsaga heldur en þetta heimskulega prógramm hennar Jónínu Ben. 

Ég mæli með því að fólk byrji þjálfun undir leiðsögn og hvatningu þjálfara tvisvar til þrisvar í viku, borði fiskmeti a.m.k 2-3var í viku og taki inn eina fjölvítamín töflu með lýsi eða lýsistöflu (D-vítamín) daglega.  Bein Íslendinga eru upp til hópa hrikalega léleg og nær allir eru með D-vítamín skort yfir veturinn ef að D-vítamín er ekki tekið inn.  Auk slæmra áhrifa á bein getur skortur á því valdið vöðvasleni og slappleika.  Drekkum góða vatnið okkar (enda ókeypis) og drögum úr drykkju gosdrykkja og bjórs/víns.  Gamli góði aginn og reglusemin er það sem aldrei fellur úr gildi sama hvaða tækni er við hendi. 

Látið svo afeitrunarseglana alveg vera líka. Töframennirnir Penn & Teller tóku það bull fyrir í einum af þáttum sínum "Bullshit" sem verið er að sýna á Skjá einum á mánudagskvöldum.  Ég mæli eindregið með þeim.

Svo er ágætis No-tox (mitt orðalag) aðferð að sleppa eða fara mjög varlega í áfengið um Verslunarmannahelgina.  Það er ekki sérlega falleg sjón að sjá allar fitublöðrurnar sem safnast í lifrina eftir fyllerí.  Þær verða ekki sogaðar úr rassinum sama hvað Jónína Ben myndi reyna, en hverfa á nokkrum dögum án áfengis án detox-hjálpar. 

Að endingu er mikilvægast að forðast mesta eiturefni allra tíma, þ.e. reykingarnar eins og heitan eldinn.  Ekkert eiturefni, eða réttara sagt eiturverksmiðja eins og reykt tóbak hefur örkumlað, lamað, skemmt hjörtu og drepið eins mikið af fólki um aldur fram eins og það.  Fátt væri því hlægilegra en að sjá reykingarmanneskju fara í detox prógramm án þess að ætla sér að hætta að reykja. 

Lausn okkar felst í því að forðast TOX því að með DETOX er of seint í rassinn gripið.

Góðar stundir  :-)

 

 


... og afeitrun Jónínu Ben flytur heim

Kæru vinir! 

Nú er runninn upp tími til að losa sig við allt eitrið í kroppnum.  Í alvöru!  Ég veit ekki hvaðan eitrið eða eitrin koma en náttúrlegt græðafólk hefur það fyrir satt að líkaminn sé nánast ein eiturtunna.  Mesta eiturstían er víst í ristlinum og skal mig ekki undra því salernisferðir mínar til að sinna Nr. 2 hafa aldrei lyktað vel.  Þá er næsta víst að þau líffæri sem vanhelg eru í heimi náttúrubarnanna, búlduleitu líffærin lifur og nýru, virðast ekki hafa neitt að segja gagnvart þessum eitrum sem krauma í ristlinum.  Þá dugir greinilega ekki lengur að klappa á koll ristilvina okkar í Hr. Lactobacillus fjölskyldunni, sem hefur greinilega misst mátt sinn og tiltrú heilunarbærra heilsufrömuða og er nú bara venjuleg hilluvara í Hagkaup. 

Í afeitrunarmeðferð, afsakið... detox-læknismeðferð Jónínu Ben skal borða nær eingöngu grænmeti og ávexti, um 500 hitaeiningar á dag (helmingi minna en strangur 1000 hitaeiningakúr) í tvær vikur og forðast alla vöru sem gæti innihaldið eiturefni eins og t.d. matur í áldollum, "diet" matur og geymsluþolinn matur.  Þá á að sleppa helst öllum sykri, kjöti, kartöflum og brauði.  Ég skil að það gangi ekki því nokkrir ávextir og handfylli af grænmeti duga til að fá 500 hitaeiningar á dag.  Svo er hvatt til þess að hætta reykingum og kaffi, gosdrykkir og áfengi mega missa sín.  Taka á Omega 369. Síðast en ekki síst er svo mælt með ristilskolun.

Mynd:  Dæmigert dæmi um eiturslöngu, nei smá grín - eitraðan ristilmassa úr offeitri manneskju, sem kom niður í ristilskolun.  Sjá á þessari flottu fræðisíðu um ristilhreinsun.

Afrakstur detox

Þetta er lausn allra lausna í mínum huga.  Hinn ógeðslegi íslenski matur sem er reyktur, brenndur, kæstur, pæklaður og geymdur stundum í áldósum er fullur af eitri.  Þá er nær alger fasta í 2 vikur með léttu grænmeti og smá ávöxtum og Omega 369 ákaflega hvílandi fyrir latar garnafrumur okkar og frí frá öllu eitrinu.  Þó heilinn verði svolítið pirraður og baðaður í niðurbrotsefnum fitu (ketónum) og manni líði eins og einhvers staðar milli svefns og vöku eftir 3 daga á hinum fræknu 500, þá er ekkert betra en að sýna heilanum að sykureitrun er ekkert grín og það þurfi að venja hann af sykursukkinu.  Þá er líka gott að venja hjartað við að nota vara-vara-eldsneyti sitt, ketónana sem finna má í blóðinu í ríku mæli á 3 degi lífsstílsbreytingarinnar.  Á þeim tíma fer líka líkaminn að brjóta niður vöðvana og senda amínósýrur (æ fyrirgefið þetta ó-óhefðbundna lífræna efnaheiti efnanna sem eru byggingarblokkir próteina og vöðva) til lifrarinnar til að búa þar til svindlsykur fyrir heilann.  Já helvítis heilinn (sorry ég bara get ekki annað en kennt honum um) er vitlaus í sykur og finnur leiðir til að ná sér í hann, jafnvel þó að vöðvadruslurnar þurfi að láta af hendi stuffið sitt í sykurgerð.  Ef það drepur mann ekki (kúrinn auðvitað) þá herðir það mann bara!  Minnumst þess! Þetta mottó má nota við nánast hvað sem er og passar eins og stólpípa við rass í tilviki detox programs Jónínu Ben.

Svo er það náttúrulega ristilskolunin sem er toppur tilverunnar í detoxinu.  Eftir nær fulla föstu í 1-2 vikur er vissara að skola út það sem eftir er og hver veit nema að Chad (skolarinn sæti) finni gömul leikföng eða peninga sem maður gleypti í ógáti eða reiðiskasti sem krakki, alls óafvitandi af öllu eitrinu í heiminum.  Chad sagði að þetta kæmi stundum fyrir og brosti í viðtali sem sýnt var á stöð 2 í vikunni.  Hvílíkt maður!  Hugsið ykkur að ganga með plastfisk eða lególögreglumann í afturendanum í kannski 40 ár (í mínu tilviki)!!!  Með afeitruninni sem skolunin tryggir væri góður bónus að losna við leikfang og endurheimta þannig gamlan leikfélaga.  Ráð Jónínu Ben "Hugsa jákvætt um sjálfan sig og brosa! :-D" á svo sannarlega við hér (breiðletrað vegna mikilvægis).

Ég hef samt nokkrar áhyggjur af því hvað ég geri alla hina daga ársins þegar ristilskolunarinnar nýtur ekki við (játning: pínu feginn þó líka því skolunin er ekki eins skemmtileg og heimsókn í Húsdýragarðinn) og nái ég ekki að fara alltaf eftir detox-mataræðinu, gæti eiturefnin hlaðist upp.  Ég sé fyrir mér hrukkurnar undir augunum hrannast upp, hárið þynnast, ótal kvefpestir næsta vetur og vöðvabólguna verða langvinna.  Lýsið köttar þetta hreint ekki eitt.  Hvað þyrfti ég margar ristilskolanir á ári hjá Chad?  4, 5, 6, 7 eða 12 á ári, þ.e. einu sinni í mánuði? Já, ég sé það fyrir mér þó ég eigi eftir að fá leiðbeiningar hjá pólsku læknunum.  Skyldi TR taka þátt?

Það er alveg ljóst að þetta virkar ótrúlega vel.  Venjulegir læknar og lyfjafyrirtæki sem eru bundin fáránlegum reglum kunna ekki að kynna læknisfræðina, en Jónína Ben og hinir þrautreyndu pólsku læknar kunna að koma vísindunum á framfæri.  Með bessaleyfi leyfi ég mér að vitna hér í vitnisburð hæstánægðs fólks úr meðferðinni. 

Einhver Sunna á orðið (hlýtur að vera dulnefni því vísindamenn koma ekki með svona persónuupplýsingar):

"Eftir meðferðina get ég gert allt sem ég vil vil" - Sunna 20 ára

Þetta eru frábær meðmæli því svo víðtæk áhrif er nokkuð sem venjulega lækna dreymir um að geta veitt sjúklingum sínum.  Pólsku læknarnir hafa unnið kraftaverk. 

Hvað sagði "Kata"?

"Jónína ég hef ekki fundið fyrir MS sjúkdómnum og held mig við ráð læknisins. MS inn er farinn" -  Kata 25 ára

Þetta er stórkostlegt.  Þó að þekkt sé að MS sjúkdómurinn geti komið og farið og legið niðri í fjölda ára er MS-sjúkdómur Kötu farinn því hún fann það algjörlega.  Er þetta ekki hennar líkami? Ég gaf smá pening í MS-söfnunina í kvöld.  Vonandi verður peningurinn notaður í svona lækningu. 

Lítum svo á þetta:

"Ristilinn minn vinnur loksins með mér en ekki á móti mér" - Sigrún 66 ára

Hugsið ykkur léttinn fyrir Sigrúnu sem er orðin 66 ára og finnur loksins að ristillinn vinnur ekki á móti henni.  Hún hefur nú sjálfsagt aðeins misskilið þetta því það var nátt'lega bara eitrið sem fékk ristilinn til að vinna svona á móti henni.  Samt - alveg frábært og gaman væri að vita hvort að ristillinn verði ekki ævarandi vinur hennar það sem eftir er.  Kannski fáum við framhaldsummæli frá henni á detox-síðunni eftir 3 mánuði og svo aftur á hverju ári.  Það væri magnað!

En hér er uppáhaldið mitt (sorry, ekki mjög vísindalegt af mér að segja svona, en wott ðe hekk):

"Sykursýkin hvarf eftir þrjá daga í meðferðinni, ég þarf ekki á lyfin, jibbí" - Anna 48 ára

Hvílíkur léttir fyrir Önnu.  Ég hef aldrei vitað af svo skjótri lækningu við sykursýki og samt hef ég talað talsvert við lækna og kynnt mér pínu sjúkdóminn.  Aftur verð ég að lýsa aðdáun minni yfir prógrammi pólsku læknanna.  Sé raunin að þeir lækni fullt af sykursjúkum á aðeins 3 dögum þegar öllum öðrum læknum tekst nær aldrei að lækna sykursýki, þá sé ég þá fyrir mér taka við Nóbelsverðlaununum fyrir afrek á sviði læknisfræðinnar innan skamms.  Sjálfsagt þurfa þeir bara að sýna þennan árangur í 2-3 ár í viðbót.  Góður orðstír aldrei deyr, (eða eitthvað þannig) sagði einhver flottur gaur í fyrndinni og þessi góðu ummæli og allra hinna í detox-meðferðinni munu svo sannarlega sjá til þess. 

Nú er bara að bíða þess að íslenskir læknar læri þetta og séu með í hitunni.  Hver vill ekki einn Nobba eða svo?  Til hamingju Jónína Ben!  Til hamingju Stöð 2! (flott frétt) og til hamingju Ísland!

Með bjartsýnina og brosið að vopni er Jónína Ben að setja fordæmi fyrir öll sprotafyrirtæki í landinu og er það enginn smá sproti! 

PS:  Ef til vill væri það eina sem kæmi í veg fyrir Nobba ef sprotinn færi óvart í gegn, úps! sorry! (afsakið en ég gat ekki annað en minnst á þetta fyrst að mér datt það í hug.  Gerist pottþétt ekki).

 


mbl.is Læknar flýja kreppuland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilsubrunnur?

Með Morgunblaðinu í morgun var óvæntur glaðningur: Vikan

Já, Vikan var gefins og boðið uppá sérstakt áskriftartilboð.  Vikan er eitt elsta tímarit landsins og trúlega langsamlega langlífasta vikuritið.  Lífdagana á það trúlega að þakka víðrar skírskotunar til landsmannna og þá sérstaklega kvenna.  Þetta blað er engin undantekning og í því er fullt af ýmsu jákvæðu og skemmtilegu efni.  Vikan hefur ekki farið slúðurblaðsleiðina sem betur fer.  En...já trúlega býst þú lesandi góður við að ég komi með gagnrýni og ég ætla ekki að bregðast þér.

Það hefur verið ljóður á ráði Vikunnar síðasta áratugar að vera málpípa alls kyns kukls og ég hef ekki litið í Viku án þess að í því sé ítarleg umfjöllun um eitthvert kraftaverkagras, brjálaða myglusveppi eða annað nýaldarmoð.  Allt í hinum vinalegasta búningi, það hefur ekki vantað.  Þessi ókeypis Vika brást mér ekki hvað þetta varðar og fletti ég henni spenntur til að vita af hvaða kukli ég gæti átt von á nú... og viti menn, á bls 48-49 blasti við mér dýrðin.

Solla heilsubrunnur

Vá! Mikilvæg lesning... "Heilsubrunnur Sollu!  Basískt fæði - Eitt það heitasta [wow, hot] í heilsuheiminum í dag.  Rétt sýrustig getur skipt sköpum hvað varðar heilsu sem og holdafar." - Sólveig Eiríksdóttir (aka Solla)

Af hverju hef ég misst af þessu? Woundering Hvers vegna hef ég ekki lært um þetta í 10 ára námi í læknisfræði og á öllum lestri mínum um sérstök áhugamál mín, innkirtlafræðina og nýrun, þau fög sem fjalla dýpst um sýru-basa jafnvægi líkamans og sjúkdóma því tengdu?  Skyldi hún Solla luma á einhverju leyndarmáli sem er haldið frá læknum?  Lítum nú á innihaldið:

"Til að losna við fituna verður kroppurinn að verða basískariAuðveldasta aðferðin er að breyta mataræðinu þannig að það verði 70-80% basamyndandi." - rétt er:  Losun á fitu kemur stýringu á sýrustigi líkamans ekkert við.  Að sjálfsögðu þarf líkaminn að viðhalda réttu sýrustigi til þess að viðahalda því umhverfi efnaskipta sem frumur líkamans þurfa til að starfa rétt en stýring á því er ekki vandamálið hjá offeitu fólki og aðferðir til að möndla við það jafnvægi eru mjög varasamar.

"...,því líkaminn notar fituna sem lagergeymslu fyrr alla umframsýru."  - rétt er:  Þetta er algert bull.  Fita er ekki hlaðin sameind og gagnast því ekki við að binda sýru sem er plús hlaðin.  Það eru aftur próteinsameindir og elektrólýtar (málmsölt) sem binda umfram sýru.  Síðan er það hlutverk nýrnanna að losa umfram sýru (í formi prótóna) og því er þvagið yfirleitt súrt og með pH stig í kringum 5.5 (pH stig undir 7 er súrt, yfir 7 er basískt, ekki öfugt eins og hún Solla fræðir lesendur Vikunnar um).   Líkaminn notar einnig öndunina (loftskipti CO2) til að leiðrétta sýru-basa ójafnvægi.

"Einnig hjálpar hreyfing okkur til að verða basískari sem og jákvætt hugarfar, slökun og heilbrigðir lífshættir almennt" - kanntu annan?   Rétt er: Við góða hreyfingu myndast mjólkursýra og niðurbrotsefni sem auka sýrustigið tímabundið og er ekki hættulegt.  Líkaminn losar sig fljótt við sýruna.  "jákvætt hugarfar"  hætti nú alveg, ekki má gleyma alheimslækningunni jákvæðu hugarfari - hvað getur jákvætt hugarfar ekki gert???   Það er nú hið fyrsta af "Geðorðunum 10".   En mikið hrikalega er ég neikvæður að gagnrýna jákvætt hugarfar.  Mér verður ekki bjargað.

Almennt:  Það er minna skaðlegt fyrir líkamann að vera örlítið súr frekar en basískur miðað við það jafnvægi sem hann heldur yfirleitt við 7.4  og hann þolir mun betur langtíma ójafnvægi í átt að súru en of basísku ástandi.  T.d. sjúklingum á öndunarvél er frekar haldið smávegis súrum en basískum.  Hvað segir það þér lesandi góður um basaæði Sollu og "sérfræðinga" hennar?

Áfram hélt Solla með fræðin sín:  "Eðlilegt sýrustig þvags og munnvatns er á milli 7.0 og 7.5"  Kolrangt!  Rétt er:  Sýrustig þvags er eðlilegt í kringum 5.5 en ef það fer yfir 6.5 getur það verið merki um ákveðna nýrnasjúkdóma eða efnaskiptasjúkdóma.

Og meira bull:  "Þegar talað er um basamyndandi mat er ekki verið að tala um sýrustig sjálfrar matvörunnar..., heldur hvaða áhrif maturinn hafi á líkamann þegar hann hefur verið meltur. T.d. eru sítrónur mjög basamyndandi í líkamanum, þrátt fyrir að vera sérlega súr ávöxtur."  Rétt er:  Sítrónur innihalda mikið af sýru, m.a. vegna þess að í þeim er mikið af C-vítamíni sem er súrt.  Þessi sýra skilar sér í blóðið og er því áfram súr, ekki basísk.  Líkaminn bufferar (bindur við basískar sameindir) sýruna í blóðinu, notar sumt af henni en losar svo í þvaginu.  Þess vegna eru súrir ávextir þvaglosandi.  Það er eins og að þessir lygalaupar sem hún Solla hefur fræðin eftir, reyni að ljúga ósennilega, því oft er ósennileg lygi meira sannfærandi, rétt eins og þarna væri einhver frábær nýr sannleikur á ferðinni.

Svo heldur Solla áfram við að telja upp fæði sem er basamyndandi, hlutlaust og loks sýrumyndandi, og gettu nú... Hvað heldurðu að sé hin "sýrumyndandi" fæða?  Hverjir eru vondu karlarnir?, "the usual suspects?" svo ég sletti nú aðeins.  Jú, auðvitað "Hvítur sykur, gervisæta, einföld kolvetni, t.d. hvítt hveiti, hvítt pasta o.s.frv., ..."  Þetta passar við almenn heilsuráð og kemur sýru-basa jafnvægi ekkert við.   Að auki er hveiti ekki einföld kolvetni, hvorki hvítt hveiti né brúnt.  Þetta veit fólk sem er með pínulitla menntun í næringarfræði.  Þetta vissi ég 13 ára eftir lestur bókarinnar "Hollusta og næring" eftir Jón Óttar Ragnarsson, sem ég las utan námsefnis í den.

"Græni liturinn er minn uppáhalds" er síðasta millifyrirsögn Sollu.  Gee! Jí!

Skýringin: "...borða mikið af grænu salati með hverri máltíð..."  og áfram "Munið að við erum að tala um 20-30% súrt og 70-80% basískt.  Þetta er ekkert nýtt, þetta talaði Hippókrates um á sínum tíma svo hér er eingöngu verið að dusta rykið af vel þekktum fræðum."   Þarf hún að draga Hippókrates inní þetta rugl?  Hann var mikilvægur heimsspekingur og siðfræðingur í sögunni en er ekki þekktur fyrir lækningaaðferðir sem við höfum mikil not af í dag utan jú skemmtilegrar aðferðar til að setja í axlarlið.  Hvers vegna halda kuklarar að því eldri sem fræðin sem þeir dusta rykið af eru, því betri séu þau?  Því er yfirleitt öfugt farið.  Við köstum út gömlu og úreltu en byggjum á því sem hægt hefur verið að staðfesta og þróa enn betur.  Sýru-basa fræðin eru mjög ný og skilningur manna á mikilvægi þess í mannslíkamanum var á algeru frumstigi þar til fyrir um 150 árum að hann tók að þróast jafnhliða byltingu í þekkingu á lífefnafræði og blóðrásarkerfinu.  Enginn vísindamaður með meira en baun í hausnum vitnar í Hippokrates sem heimild fyrir sýru-basa fræðum.  Leyfum minningu hans að njóta þess sem var hans.

Neðanmáls gefur Solla upp heimildir sínar um sýru-basa-fæði:

"The pH Miracle" eftir Robert O. Young.  Hvaða vísindamaður skýrir bók sýna "...kraftaverk"?  Á vefsíðum skottulæknavaktarinnar www.quackwatch.org má finna eftirfarandi lýsingu á þessum kappa:

Robert O. Young, author of The pH Miracle, The pH Miracle for Diabetes, and The pH Miracle for Weight Loss, claims that health and weight control depend primarily on proper balance between an alkaline and acid environment that can be optimized by eating certain foods. These claims are false [8].Young offers educational retreats that include a private blood cell analysis and "nutritional consultation" at his 45-acre estate in Valley Center, California. In 1996, under a plea bargain, Young pleaded guilty to a misdemeanor charge of attempted practice of medicine without a license and was promised that the charge would be dismissed if he stayed out of trouble for 18 months. Young claimed that he had looked at blood samples from two women and simply gave them nutritional advice [9]. The blood test he advocates (live-cell analysis) has no scientific validity [10]. Young's "credentials" include doctoral degrees in nutrition, science, and naturopathy from the American Holistic College of Nutrition. His Web site claims that he "has been widely recognized as one of the top research scientists in the world," and his book states that he "has gained national recognition for his research into diabetes, cancer, leukemia, and AIDS." Yet he, too, has had nothing published in a recognized scientific journal.

"Alkalize or Die" eftir Dr. Theodore A. Baroody - Það munar ekki um það.  Skelfandi titill, ekki laust við að maður byrji að skjálfa í hnjánum.  Grípið mig!!  Sjáið þið fyrir ykkur Laufeyju Steingríms öskra á næringarfræðifyrirlestri "étið meira grænmeti ellegar deyið!!!"  Hér má sjá heimasíðu þessa kíropraktors og Naturopaths (Dr. hér merkir ekki læknir).  Það er dásamlegt hversu ófagmannlegir bókatitlar kuklara eru, þannig að maður þarf ekki einu sinni að líta inn fyrir kápuna. 

"The Acid-Alkaline Diet" eftir Christopher Vasey.  Annar Naturopath en það er víst fínn titill í kuklinu.

Rúsínan í pulsuendanum:  Í appelsínugula "Vissir þú..." dálknum auglýsir Solla "Alkalive green" duftið með mynd af dollunni og segir hvar það fæst.  Inntaka græna duftsins í vatni á að vera "...ótrúlega auðveld og fljótleg leið" til að verða basískari.   Af hverju finnst kuklurum sjálfsagt að auglýsa vörur um leið og þeir fræða fólk um heilsufræði sín?  Hvað yrði sagt um lækni sem auglýsti sýklalyf um leið og hann fræddi fólk um sýkingar?  Læknirinn yrði ásakaður harðlega fyrir að skorta hlutleysi og gera sig sekan um að hygla lyfjaframleiðendum.  Mál hans biði hnekki þar sem ekki væri ljóst hvort að tilgangur hans væri að fræða eða selja.  Siðareglur lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks leyfa þetta ekki.  Hvers vegna ætti annað fólk sem fjallar um heilsu að leyfa sér þetta?  Er fólk í náttúrulækningum einhvers annars eðlis siðferðislega?  Byggir trúverðugleiki þeirra á einhverju allt öðru en fagmannlegum vinnubrögðum? 

Ég leyfi Sollu að eiga síðustu orðin:

"..., ég skal segja þér allt um himalayakristallinn í næsta blaði ... "  

 


Frægir í form - síðasti þátturinn fór í loftið í gær

previewFifNú er þáttunum "Frægir í form" lokið og var fimmti og síðasti þátturinn sýndur á Skjá einum í gærkveldi.   Ég var ánægður með þáttinn og fannst hann skila jákvæðni og hvatningu.  Í heild vantaði e.t.v. eitthvað uppá að serían skilaði skýrari heilsufarsstefnu en ég vona t.d. að þau skilaboð að þyngdin er ekki eini mælikvarðinn á heilsufar hafi skilað sér.  Hinn útreiknaði ástandsaldur sýndi t.d. að Ragnheiður Sara var betur sett eftir þessar 6 vikur þrátt fyrir að vigtin sýndi sömu þyngd.   Hún hafði skipt út fitu fyrir vöðvamassa og aukinn forðasykur í lifur og vöðvum.   Það var ákaflega gott að vinna með öllum þátttakendunum og þau sýndu mikinn dugnað og áræði.  Það er ekki auðvelt að setja heilsufarsvandamál sín á borð fyrir alla landsmenn. 

Ykkur til upplýsingar þá er ástandsaldurinn reiknaður út frá samanteknum upplýsingum um lífaldur, hæð, þyngd, blóðþrýsting, blóðfitur, reykingasögu, næringarsögu og venjur, svefnvenjur og stress, aðlögunarhæfni og svo getu í þolprófi, þremur styrktaræfingum og liðleikamælingu.  Lokamarkmið hvers og eins er að ná mínus 10 árum í ástandsaldri miðað við sinn raunverulega lífaldur. 

Hvað finnst lesendum um þættina Frægir í form? 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband