Færsluflokkur: Áfengis- og fíkniefnameðferð

Kompás leiðir líkur að stórfelldu misferli af hálfu stjórnanda á meðferðarheimilinu Byrginu

Það er stórvafasamt fyrir fjölmiðla að vasast í möguleg sakamál en ég skil samt löngun þeirra að Guðmundur Jónssson forstöðumaður Byrgisinsvilja fletta ofan af einhverju sem lítur ekki vel út.   Hættan við þetta er sú að sýnd séu gögn í röngu samhengi þannig að sök gæti virst mun stærri en í raun er, nú eða einhver bendlaður við mál að ósekju.  Dóm götunnar er erfitt að taka til baka.  Í svona málum þarf mikillar nákvæmni við og gæta þess að allar upplýsingar séu réttar og metnar út frá vitnisburði allra.  Þetta ætti því að vera í höndum rannsóknarlögreglu.

En hvað á að gera ef stjórnendur svona stofnunar, starfandi fagaðilar þar, heilbrigðisyfirvöld, fjármálaeftirlit og lögregluyfirvöld standa sig ekki?  Hvað á að gera ef það er ekki hlustað á þetta fólk sem kvartar?  Ef enginn þorir að kæra þó nægar ástæður séu fyrir hendi?  Verða þá ekki einkaaðilar með hjálp fjölmiðla að grípa inní?  Einhvers staðar þarf að byrja baráttuna og fjölmiðlar hafa geysilegan áhrifamátt og því óbeint vald til þess að hreyfa við hlutum.   Ég er ekki viss um að það sé alltaf hægt að álasa fjölmiðlum fyrir svona umfjöllun.  Fjölmiðlar eru nokkurs konar sjáaldur þjóðarinnar og þessar fréttir hljóta að hafa nokkurn fælimátt gagnvart illvirkjum.

Í kjölfar svona frétta hefur skort vitræna siðferðislega umræðu um hlutverk fjölmiðla og fólk hefur varpað fram ásökunum fram og til baka.  Það er auðvelt að áfellast fjölmiðla, sérstaklega ef sá aðili sem um er rætt fremur sjálfsmorð, en ég held að hvert tilfelli verði að skoða fyrir sig.  Málfrelsi þarf að koma með ábyrgð og hina ýmsu siðferðislegu verðmæti eða hagsmuni þarf að meta hverju sinni.  Ég sé t.d. ekki tilgang í því að birta frétt um útbrunninn glæpamann sem er hættur að vera nokkrum ógnun en meti þáttagerðamaður það svo að efnið sé áríðandi vegna tregðu í löggæslu- og réttarkerfinu, neyðar þolenda og hugsanlegrar áframhaldandi hættu af brjótanda, get ég hugsanlega séð að varfærin frétt um málið þjóni tilgangi og geti verið til gagns þegar á heildina er litið.  Í því sambandi þarf að taka í reikninginn að ættingjar brjótanda geta liðið fyrir fréttina og því þarf ástæðan fyrir birtingunni að vera þeim mun sterkari. 

Í þessu tilviki þar sem maðurinn er umsjónarmaður meðferðarheimilis er um mjög stóra hagsmuni að ræða, þ.e. hagsmuni mikils fjölda fólks.  Heilsa og líðan margra til ófyrirséðrar framtíðar er í húfi.  Þá virðast einnig miklir fjárhagslegir hagsmunir í veði.  Sé um mikla sóun á fé ríkisins til meðferða að ræða er það stóralvarlegt mál.  Margar heilbrigðisstofnanir eru sveltar fjárveitingum og þurfa sífellt að skera við nögl og takmarka starfsemi sína.  Það er verulega alvarlegt mál ef tugum milljóna króna er skotið undan af ófaglæruðum aðilum sem byggja meðferðir á halelújasamkomum og múgsefjun.   Þetta er bæði fjárhagslegt og faglegt ábyrgðarleysi af hálfu yfirvalda.  Svona starfsemi á ríkið ekki að styðja. 

Guðmundur leggur hendur á í ByrginuÞað þarf að koma trúarofstæki út úr áfengis- og fíkniefnameðferðum.   Það samræmist ekki mannréttindum né faglegum starfsaðferðum að fólk sé ítrekað hvatt til að trúa á æðri mátt í svokallaðri tólf spora meðferð sem ekki virðist mega hreyfa við.  Það er margt gott í þessum sporum og víkur það að innri skoðun og breytingu á hegðun en tengingu þeirra við trúarbrögð þarf að linna.  Í byrginu virðist hafa farið fram öfgakennd útgáfa af þessum tólf sporum og kristni.  Það er stutt í öfgarnar þegar opnað er á "fagnaðarerindið".   Sjálfmiðað fólk getur notfært sér veikleika eiturlyfjaneytenda og notað erindi í biblíunni til að véla fólk til ákveðinna skoðana og hegðunar.  Þegar trúariðkun er í höndum slíkra glæpamanna er ekki spurt "af hverju".  Fólkið bara fylgir og hlýðir.

Vonandi kemur eitthvað jákvætt út úr þessari frétt Kompás þó mörg munu tárin falla.  Það er deginum ljósara að meðferðarkerfi fíkla þarf að skoða vandlega og ríkið og heilbrigðiskerfið þarf að taka fulla ÁBYRGÐ!

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband