Framsókn stækkar á kostnað Sjálfstæðisflokks

Fyrirsögn Mbl.is er sérstök ("Samfylking og Vg bæta við sig").  Af henni mætti ráða að xS og xV væru í sókn en í raun eru þau saman með 2 þingmönnum minna en fyrir 2 dögum síðan.  Það er auðvitað hægt að miða við gærdaginn en það var í fyrradag sem einhver marktæk breyting varð á fylgi Fylgi flokka 7-9 mai 07flokkanna.  Fyrirsögnin ætti því að vera "Framsókn heldur enn í fylgisaukningu sína".    Það er ljóst að Framsókn hefur fengið mest af þessu nýja fylgi frá Sjálfstæðismönnum en etv. voru fylgismenn þeirra í "felum" þar og eru nú að sækja í viðjur vanans (eða hlýða fjölskyldunni) heim til xB. 

Frjálslyndir hafa fengið 4. manninn og því hefur Kaffibandalagið aðeins misst 1 mann frá því fyrir 2 dögum og hefur samtals 31 þingmann.   Stjórnin hangir á bláþræði með 32 þingmenn. 

Íslandshreyfingin er föst í 2-3% og atkvæði þeirra eru því miður dauð, þ.e. gagnast engum.  Að vísu virtist slatti af atkvæðum þangað koma frá Sjálfstæðismönnum (um 4% af fyrri kjósendum þeirra, þ.e. 4% af 36%) samkvæmt könnunni fyrir 2 dögum síðan og birt var í prenti á síðum Morgunblaðsins.   Talsvert færri komu frá Vinstri grænum (3.6% af 9%) og fylgi frá xB og xS var vart mælanlegt.  Þessar tölur gáfu ekki til kynna hversu mikið af nýjum kjósendum væru að kjósa Íslandshreyfinguna en mér sýnist að óhætt sé að álykta að framboð flokksins sé ekki að valda töpuðum jöfnunarsætum frá stjórnarandstöðunni og er það mér léttir.

Kjósa þarf stjórnarandstöðuflokkana og koma ríkistjórninni frá af eftirfarandi ástæðum:

  • Stöðva þarf ofþenslu í efnahagslífinu og koma stýrivöxtum niður en þeir stýra m.a. því hversu miklir vextir eru á yfirdráttarheimildum.
  • Stöðva þarf frekari stóriðju, sérstaklega á suðvestur horninu.  Eina álverið sem ég sæi mögulegt til viðbótar er álver við Húsavík en náttúra landsins er betur sett án þess.  Getur ein ríkasta þjóð heims virkilega ekki fundið annað að gera en að reisa mengandi stóriðju?
  • Með því að hætta við frekari stóriðju kólnar hagkerfið og því skapast skilyrði til að afnema þá ósanngjörnu skattheimtu á íbúðarkaupendur sem kallast stimpilgjald (1.5% af lánsupphæð til íbúðarkaupa).  Ríkisstjórnin braut loforð sitt um að afnema þennan óréttláta skatt á kjörtímabilinu.  Því ættum við að treysta þeim nú til að gera það?
  • Gera þarf innflytjendalöggjöf manneskjulegri.  Burt með 24-ára makaregluna sem ríkisstjórnin kom á.  Dómstólar hafa dæmt hana á skjön við stjórnarskránna.  Leyfa þarf innflytjendum að kjósa fyrr, t.d. eftir 2 ára fasta búsetu hér. 
  • Leiðréttum kjör aldraða og öryrkja með því að taka af þessar fáránlegu skerðingar og setjum fé í að auka heimaþjónustu og byggja fleiri hjúkrunarrými (fyrir þá mest heilsuskertu).   Það eru enn tugir eldra fólks á bráðdeildum Landspítalans og ríkisstjórnin hefur ekki náð að ráða við þennan vanda s.l. 16 ár.   Við erum verr sett í þessu en fátækasta borgarhverfi New York borgar, Suður-Bronx en þar vann ég á spítala í 7 ár.  Fólk er aldrei lagt þar inn á ganga eins og tíðkast hér enn.
  • Hækka þarf persónuafsláttinn og frítekjumarkið.  Sú breyting gagnast þeim lægst launuðu best.  Ég er ekki fylgjandi hátekjuskatti því að hann skekkir launasamanburð og kemur niður á fólki sem leggur á sig mikla vinnu. 
  • Aðskilja þarf ríki og kirkju, bæði í stjórnarskrá og almennum lögum.  Kirkjan kostar ríkið tæpa 4 milljarða í rekstri á ári hverju.  Prestar fá of há laun (prestur í sæmilega stóru prestakalli fær betri grunnlaun en sérfræðingur á sjúkrahúsi) og vinna þeirra og kaup ætti að vera háð markaðslögmálun en ekki föstum launum frá ríkinu.  Allar nútímalegar stjórnarskrár í ríkjum Evrópu kveða á um aðskilnað ríkis og trúar.  Við lifum við veraldlegt stjórnarfar að grunni til og við eigum að hafa það algerlega á hreinu að svo sé á öllum sviðum.  Núverandi fyrirkomulag hangir í trúarhefð sem á ekki rétt á sér og sást það m.a. á áhrifum kirkjunnar á lagasetningu varðandi leyfi trúfélaga til að gefa saman samkynhneigða.  Ferð alþingismanna í kirkju fyrir setningu alþingis er brot á jafnrétti og þeirri kröfu að þjóðin sé að kjósa sér veraldlega fulltrúa á þing, ekki trúarlega.  Alþingi er ekki trúarstofnun og á ekki að eiga nein viðskipti við þjóðkirkjuna eða aðrar slíkar.   Þó að aðeins Frjálslyndi flokkurinn sé sá eini sem hafi það skýrt í stefnu sinni að aðskilja ríki og kirkju, þá eru það stjórnarflokkarnir sem halda fastast í núverandi fyrirkomulag. 
  • Aðskilja þarf kirkju og skóla.  Þjóðkirkjan er með trúarlega starfsemi í nokkrum skólum undir heitinu "Vinaleið".   Menntamálaráðherra hefur bent á skólana og skólarnir bent á ráðherrann.  Margir hafa ályktað gegn þessari starfsemi, m.a. samtökin Heimili og skóli, Siðmennt, SUS í Garðabæ, Ungir Vg og fleiri.  Afnema þarf klausuna "kristilegt siðferði" í grunnskólalögunum því það er "almennt siðferði" sem gildir í skólum landsins. 
  • Gefa þarf lífsskoðunarfélögum (félög sem fjalla um siðferði, lífssýn, heimssýn og félagslegar athafnir fjölskyldunnar) sömu réttarstöðu og trúfélögum, þ.e. að þau fái skráningu og "sóknargjöld" rétt eins og þau.  Til þess að svo verði þarf lagabreytingu en Allsherjarnefnd Alþingis og Björn Bjarnason dóm- og kirkjumálaráðherra hafa ekki haft áhuga á því að verða við þessari sjálfsögðu breytingu.   Því á Siðmennt að líða fyrir það að trúa ekki á æðri mátt?  Um 19.1% (+/- 2.6%) eru trúlausir á Íslandi.  Þetta er stór hópur og ætti að hafa rétt á því að það lífsskoðunarfélag sem er fánaberi skoðunnar þeirra njóti jafnréttis í landinu.
  • Jafnrétti í launaþróun kynjanna.  Við erum með versta launamun kynjanna í nær allri Evrópu!!  Hvar er beiting núverandi stjórnvalda fyrir leiðréttingu á þessu?
  • Vinnuþjörkun.  Við vinnum þjóða mest í vestur-Evrópu.  Er ekki tími til kominn að hlúa betur að fjölskyldum þjóðfélagsins og gera okkur kleift að lifa lífinu utan vinnutímans?  Við búum í okursamfélagi þar sem höft á samkeppni (t.d. stimpilgjöldin) og jaðarskattar eru að klyfa heimilin.  Ég hef ekki séð þetta mál á dagskrá hjá stjórnarflokkunum.
  • Menntun.  Stjórnarflokkarnir eru líklegri en hinir að halda áfram með gjaldtöku í skólakerfinu og auka skráningargjöld.  Menntun er grundvallarforsenda áframhaldandi framþróunar og vaxtarsprota og fjölbreytni í atvinnulífinu.  Menntun á að vera öllum aðgengileg, líka fólki úr fjölskyldum sem hafa tekjur undir svokölluðum fátæktarmörkum.
  • Sjávarútvegsmál.  Sanngjarnari atvinnustefna og betri fiskveiðistefna verður ekki tekin upp hjá núverandi stjórnvöldum.  Þarna er verulega brýnt að snúa þróuninni við og kjósa stjórnarandstöðuna.  Allir í bátana, krefjumst atvinnuréttar okkar!

Íslenskt stjórnarfar þarf breytingu og aukna áherslu á mannréttindi og bætt kjör þeirra verst settu.  Náttúra Íslands þarf aðhlynningu og stóriðjustefnan þarf að víkja.  Efnahagskerfið þarf kælingu og stýrivextir og verðbólga að lækka - þannig minnkar sjálfkrafa streymi erlends verkafólks inn í landið.  Það er kominn tími á áherslubreytingar og framfarir á sviðum sem stjórnarflokkarnir eru blindir á.  Því miður eru atkvæði greidd Íslandshreyfingunni "dauð" nema að þau komi frá fyrrum kjósendum stjórnarflokkanna. 

Kjósum til breyttra og betri tíma, kjósum nýja stjórn!

 


mbl.is Samfylking og VG bæta við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Axel Hannesson

Framsókn er jú aðeins útibú Sjálfstæðisflokksins, svo það er ekki nema von þó hluti xD kjósi xB til að halda núverandi stjórn. Aðeins hugmynd sem ég fékk í framhaldi af fyrirsögninni. Annars hef ég ekki hundsvit á stjórnmálum, og líkar vel. ;)

Sigurður Axel Hannesson, 10.5.2007 kl. 14:51

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þakka þér góðan og málefnalega pistill Svanur minn eins og þín er von og vísa.  Við skulum vona að kaffibandalagið verði að veruleika.  Ég er viss um að það verður til heilla fyrir þjóðina. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.5.2007 kl. 16:01

3 identicon

Sæll, góð grein, sammála þér að mestu leiti.

Bendi samt á að "Vinnuþjörkun", eins og þú kallar það, er tilkomin vegna lágrar framleiðni á hverra unna klukkustund hjá okkur Íslendingum.  Það er langt mál að tilgreina ástæðurnar, en hluti af henni er úrelt fyrirkomulag í ríkisrekstri og vernd starfsstétta hjá ríkinu.  Líkurnar á að vinstri öflin taki á því mætti teljast litlar, það má samt ekki afskrifa samfylkinguna hún virðist hafa smá tilfinningu fyrir því að við millifærum ekki bara peninga á milli handa þar til öllum líður vel.  Það þarf kerfisbreytinga og oft óvinsælar ákvarðanir til þess að svo verði!

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 17:11

4 identicon

Já há það var aldrei.. ég sé að við erum bara sammála um það mesta... svona það mesta en ekki það helsta.. en allt sem þú segir í þessari grein er ég þó algjörlega sammála. 

Annars var hún einkar ánægjuleg skoðanakönnunin í kvöldfréttum stöðvar 2. Samfylking og Vinstri grænir með meira atkvæðamagna bak við sig en afturhaldsstjórnin til samans! Gleðifréttir

Björg F (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 00:33

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir athugasemdir öll

Þú ert að segja Jósep að ástæða þess að við vinnum svona marga tíma sé léleg framleiðni.  Mér finnst þetta frekar ótrúlegt þar sem þjóðir eins og Ítalía vinna mun minna en við og ekki eru þeir sérlega þekktir fyrir eljusemi. 

Það er góð grein um þetta í VR blaðinu sem heitir "Meira kaup fyrir minni vinnu", skrifuð af Þorvaldi Gylfasyni prófessor í hagfræði við HÍ. 

A grafi sem sýnt er í greininni er það Holland, Noregur, Frakkland, Þýskaland, Luxemborg, Danmörk, Austurríki, Sviss, Svíþjóð, Belgía, Ítalía, Brétland, Írland, Finnland, Portúgal, Japan, Ástralía, Nýja-Sjáland, Kanada, Spánn og Ungverjaland sem vinna minna en við á árinu 2005.  Fyrstu 7 löndin eru undir 1500 stundum en við erum u.þ.b. 1800 stundir á ári.  Þjóðir sem unnu meira en við voru USA, svo Austur-Evrópa, Tyrkland, Malta, Kýpur, Eystrasaltslöndin og loks Suður-Kórea.

Ástæðurnar nefndi Þorvaldur að Vestur-Evrópuþjóðirnar hafi tekið hagsældina meira út í minni vinnu, breytilega "vinnumenningu" eftir löndum, skattbyrði dragi úr vinnugleði, hærri laun verkamanna í Evrópu minnki eftirspurn eftir vinnuafli þannig að vinnan skreppur saman og  skortur á almannatryggingum (t.d. í USA) veldur óöryggi og því lengri vinnutíma.   Þorvaldur nefnir ekki að framleiðni kunni að vera lægri á Íslandi, en sjálfsagt er að skoða það betur.    Hann nefnir að landsframleiðsla á mann sé meiri í USA en í Evrópu að Luxemborg undanskilinni.  Hins vegar er landsframleiðsla á vinnustund meiri í sjö Evrópuríkjum en í USA.  Fyrrnefndi mælikvarðinn tekur ekki tillit til tómstunda og nær því ekki að fanga þá lífskjarabót, sem felst í minni vinnu við gefnum tekjum. 

Hann bætir því við varðandi Ísland að hér er lítið atvinnleysi og oft fá menn að vinna eins mikið og þá lystir.  Hér er einnig erfitt að ná endum saman vegna úrelts landbúnaðarkerfis (hátt matarverð), veikri hagstjórn (verðbólga) og fákeppni á fjármálamarkaði, sem heldur vöxtum heima fyrir hátt yfir heimsvöxtum.    Fleira nefnir hann til en þetta er mjög athyglisverð grein og mæli ég með lestri á henni.

Svanur Sigurbjörnsson, 11.5.2007 kl. 01:55

6 identicon

það má reyndar taka fram að í Noregi þá fá menn ekki borgaðan matartíman eins og hér, svo 7 og hálfur stunda vinnudagur hjá þeim er jafn langur okkar 8 tíma vinnudegi, nema við fáum matinn borgaðan

Björg F (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 02:14

7 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæll Svanur. Mæl þú manna heilastur! Nú vil ég Svan á þing!

Viðar Eggertsson, 11.5.2007 kl. 11:46

8 identicon

sæll,

Allt saman rétt hjá þér, eða Þorvaldi. Þorvaldur er nú reyndar maðurinn sem kynnti mér þessar staðreyndir á sínum tíma. Ég mun seint segjast vita betur en hann. :) 

Framleiðni á Íslandi er góð!  Hún er aftur á móti léleg per unna vinnustund.  Það er margar ástæður fyrir því að við íslendingar höfum góða framleiðni en lélega nýtingu á vinnutíma.  Helstu ástæður þess að við höldum framleiðni per landsmann uppi eru: Góð atvinnuþáttaka kvenna (en á Íslandi er hún um eða yfir 85%) meðan að hún er lægri annarssstaðar (frá 10% og uppúr), þjóðin er ung, mun yngri en flestar þjóðir, lítið atvinnuleysi, færri óvinnufærir einstaklingar á vinnualdri, þátttaka unglinga á vinnumarkaði og hún vinnur lengi!  Ef allar þessar breytur eru teknar með í dæmið og tekin er framleiðni á per unna vinnustund þá koma Íslendingar illa út í samanburði við OECD ríkin (ég hef ekki nýlegar tölur um það, hef ekki tíma til að fletta því upp), en í kringum 1998 vorum við með lægri framleiðni en Tyrkir! en hún hefur farið batnandi.

Það er rétt hjá þér að helsta ástæða þess að við þurfum að vinna lengi eru háir skattar og verðlag, m.a. vegna landbúnaðarvara.  En þessi hlutir eru einmitt háir vegna lélegrar framleiðni í þessum geirum, sérstaklega ber að nefna allt sem ríkið kemur nálægt!

Ég tíðkaði það all lengi að vinna hálfa og heilu sólahringana og er því algerlega á því að það þarf að takast á við þetta vandamál ef við getum skilgreinum of mikla vinnu, sem vandamál.  Ég er reyndar á því að þessi mikla vinna sé mjög svo misskipt á milli atvinnu-stétta á Íslandi.  Hjá mörgum stéttum er það nær eina leiðin til að lifa af, en hjá öðrum er þetta bara samningsatriði um ofskrifaðan vinnutíma eða útreiknaðan vinnutíma í samningum.

Þorvaldur sagði einu sinni sögu (ef ég man það rétt), í kennslutíma.  Sagan var um Japana sem var í heimsókn á Íslandi og var spurður um þessa vinnuáráttu Íslendinga!  Japaninn játt því,  jú að Íslendingar ynnu lengi.  En bætti því við, að þeir ynnu á móti alls ekki mikið!

Allavega þá tengjast hlutir saman, hver ákvörðun hefur sýnar afleiðingar.  Oftar en ekki koma afleiðingarnar af ákvörðunum okkar á óvart, sérstaklega ef ekki hefur verið reynt að hugsa fyrir þeim og því þarf að huga vel að hugsanlegum afleiðingum áður en ákvarðanir eru teknar.

Tökum sem dæmi hækkun á persónuafslætti.  Hugsanlega góð aðgerð til að bæta hag lægri launaða stétta en  hugsanlega einskiss nýt aðgerð vegna þess að laun munu einfaldlega, með tímanum, lækka um sömu krónutölu.  Þannig að eftir vissan tíma stöndum við í sömu sporum, einu sem grætt hafa á aðgerðinni eru launagreiðendur sem borga lág laun, þeir sem hafa tapað á móti eru skattgreiðendur.  Hvað ber að gera næst? Hækka persónuafsláttinn aftur! 

Ég er reyndar þessarar skoðunar að þetta muni gerast, þ.e. tel hækkun persónuafsláttar einfaldlega vera hækkun á niðurgreiðslu á lágum launum og sé að miklu leiti sóun sem muni ekki gagnast láglaunafólki nema í mjög skamman tíma.  Það er auðvitað bara mín skoðun.  Ég get auðvitað haft rangt fyrir mér, en er það örugglega ekki bara af því að það er vond hugsun, og mönnum langi því ekki, að ég hafi rétt fyrir mér og útiloki því þann möguleika. :)

Jósep Húnfjörð (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 18:05

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir Viðar.  Kannski maður bjóði sig fram næst.  Fyrst þarf maður að finna góðan flokk til að vinna með.   Nú hefst leitin.

Takk fyrir pistilinn Jósep.  Auðvitað hjálpar hækkun á persónuafslætti ekki mikið gagnvart lélegri launastefnu og grófri misskiptingu í þjóðfélaginu en hún er sú skattalækkun sem gagnast talsvert þeim lægst launuðu og lífeyrisþegum.  Hátekjuskattur er ekki heldur framtíðarlausn og skekkir launasamanburð.  Það er reyndar með ólíkindum hvað lítið hefur heyrst frá láglaunafólki í þessari kosningabaráttu.  Málefni innflytjenda hafa látið mun hærra, en kannski er það af því að innflytjendur eru hin nýja láglaunastétt landsins. 

Svanur Sigurbjörnsson, 13.5.2007 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband