Veraldlega grunnskóla takk!

Menntamálaráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla fyrir Alþingi á haustþingi 2007. Í frumvarpinu er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um kristilegt siðgæði barna er ákvæði um að efla almenna siðferðisvitund þeirra. Í frumvarpi til laga um grunnskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um að starfshættir skólans skuli mótast af kristilegu siðgæði verði ákvæði um umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.


Ég er mjög ánægður með lagatillögu Þorgerðar Katrínar því hún tekur nú mjög mikilvægt skref til enn betri veraldlegs grunns í íslensku laga- og menntakerfi. Sem betur fer er sjaldgæft að lagagreinar hafi skírskotun í einhver ákveðin trúarbrögð og fyrir því eru góðar ástæður. Á síðustu 5 öldum eða svo hafa hin vestrænu þjóðfélög smám saman skilið mikilvægi þess að skilja að trú og stjórnmál því trúarleg íhlutun í veraldlegt vald endaði alltaf með hörmungum. Í dag hefur fólk trúfrelsi en hinn sameiginlegi lagalegi og stjórnarfarslegi grunnur þjóðanna verður að vera óháður trú og laus við slíka merkimiða. Öðru vísi var og er ekki hægt að útfæra jafnrétti og koma í veg fyrir sérréttindi fjölmennra trúarhópa á kostnað annarra.


Þróun í siðferði síðustu alda átti sér stað vegna aukinnar áherslu á sjálfstæði manneskjunnar og rétt hennar til að hafa áhrif á stjórnarfar og val til menntunar og atvinnu. Manngildishyggja og veraldlegt siðferði, sem hefur það eitt að marki að hámarka hamingju og lágmarka þjáningar með rökfræðilegri nálgun olli straumhvörfum. Bandaríkjamenn stofnuðu ríki með aðskilnaði ríkis og kirkju, sigruðust á þrælahaldi og verkamenn fengu verkfallsrétt og vinnutímavernd. Baráttukonur beggja vegna Atlantshafs áunnu konum rétt til fjárhagslegra eigna og svo kosningarétt þrátt fyrir mikla andstöðu íhaldssamra stjórnmálaafla og kirkjuleiðtoga. Byltingin gegn alræðisvaldinu var löng og ströng en náði loks stórum áfangasigri með lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og stofnun Sameinuðu Þjóðanna. Þær byggja sína mannréttindasáttmála á algildum siðferðisverðmætum óháð trúarbrögðum eða menningarheimum og því eru þeir leiðbeinandi fyrir allar þjóðir, allt fólk á jörðinni.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg í sumar var skýr og fordæmisgefandi. Trúarlegt starf í opinberum skólum á ekki að eiga sér stað og lög um opinbera menntun geta ekki dregið taum ákveðinnar trúar eða ríkjandi kirkjudeildar. Tíma barna og kennslu í opinberum skólum verður að vernda frá trúboði eða pólitískri innrætingu. Kennarar eða leiðbeinendur barna geta ekki yfirfært sín persónulegu trúarbrögð á skólastarfið og eiga að halda bænum, ritningarlestri, kirkjuferðum eða heimsóknum presta frá reglubundnu skólastarfi. Það á að láta hverri fjölskyldu það eftir í sínum einkatíma hvert uppeldi barna þeirra verður hvað varðar lífsskoðanir og trúarbrögð. Hlutverk skóla er að mennta en ekki innræta. Þannig skal fræða um trú, heimsspeki, húmanisma, trúleysi, efahyggju og samanburð lífsskoðana á hlutlausan máta með námsefni sem er tekið saman af fagfólki en ekki ákveðnum trúar- eða lífsskoðunarhópum.


Þann 10. desember s.l. átti Mannréttindayfirlýsing SÞ 60 ára afmæli og því væri samþykkt þessa frumvarps á Alþingi nú eitt það besta sem ráðamenn þjóðarinnar geta gert til að heiðra yfirlýsinguna og tryggja betur mannréttindi barna í landinu. Ég vona að um þetta náist þverpólitísk samstaða. Styðjum frumvarpið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel að orði komist hjá Samhyggð !

conwoy (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 09:52

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Svanur þetta trúleysis trúboð þitt er farið að verða svolítið leiðinlegt dæmi um þegar minnihluti og það lítill minnihluti treður skoðunum sínum upp á meirihlutann í nafni mannréttinda, og þar sem þú kynnir þig sem lækni á ég þá á hættu að þú troðir til dæmis hugsanlegum skoðunum þínum á með dauðvona og aldraðra upp á okkur af sama ofsa.  Tek fram að ég hef ekki hugmynd um hverjar þær eru en óttast hverjar þær geta verið.  Því ofsatrúarmenn eins og þú hafa oftast öfgafullar skoðanir á öllu og þú kemur mér fyrir sjónir eins og ofsatrúaður trúleysingi.

Einar Þór Strand, 22.12.2007 kl. 10:47

3 identicon

Sammála þér Svanur. Mér finnst alltaf jafnundarlegt að trúleysi sé kallað ofstæki. Eigðu gleðileg jól. Mín góðu jól hafa aldrei tengst trú.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 11:10

4 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Þetta er nauðsynleg barátta hjá Svani og ég skil ekki orð Einars Þórs hvernig gagnrýni á trúarbrögð geti flokkast undir "trúleysis-trúboð". Ekki eru þeir sem hafa áhuga á stjórnmálum stimplaðir sem kommúnistar þegar þeir gagnrýna frjálshyggjustefnu eða meintir óvinir bænda þegar þeir gera athugasemdir við t.d. byggðastefnu Framsóknarflokksins.

Kristján Hrannar Pálsson, 22.12.2007 kl. 12:52

5 Smámynd: Þór Hauksson

Guð gefi ykkur gleðileg jól!

Þór Hauksson, 22.12.2007 kl. 13:54

6 identicon

Allt í ofsatrúarruglukollum sem eins og vanalega telja mannréttindi vera spurningu um vilja meirihluta, púra kristilegt siðgæði í sinni tærustu mynd.

Spiderman gefi ykkur gleðileg jól, já sumir vaxa aldrei upp úr súperhetjuþörf sinni, sumir menn bara verða að hafa súperhetju til þess að afsaka eigin aumingjaskap 

DoctorE (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 15:25

7 Smámynd: Óli Jón

Þetta er góður pistill hjá greinarhöfundi og ég er honum fyllilega sammála í einu og öllu. Við eigum að sinna skólastarfi á vísindalegum og faglegum grunni og þar á trúarlegt starf eða iðkun ekki erindi. Með þessari breytingu er aðeins verið að gera sjálfsagðan og eðlilegan aðskilnað skýrari og er hún því tímabær og afar kærkomin.

Óli Jón, 22.12.2007 kl. 17:10

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Bandaríkjamenn stofnuðu ríki með aðskilnaði ríkis og kirkju, sigruðust á þrælahaldi og verkamenn fengu verkfallsrétt og vinnutímavernd.

Ef þú vilt fá stuðning við aðskilnað ríkis og kirkju geturðu ekki valið verri fyrirmynd en Bandaríkin, ef það á að stuðla að meiri réttindum þeirra sem minna mega sín. Hvergi í hinum vestræna heimi er valtað eins mikið yfir réttindi bandarísks verkafólks og í Bandaríkjunum.

Aðild að verkalýðsfélögum er litin hornauga af atvinnurekendum í Bandaríkjunum, enda er mjög lítið hlutfalla launþega í stéttarfélögum þar. Sumarfrí eru stutt og taki menn meira en viku í sumarfrí geta þeir búist við því að skrifborðið þeirra sé tómt og það sé búið að ráða annan í staðinn fyrir þá.

Ég veit ekkert um hvort þessi lélegu réttindi séu afleiðing af aðskilnaði ríkis og kirkju, en þetta var allavega léleg auglýsing um kosti þannig aðskilnaðar, hafi verið ætlunin að sýna fram á kosti hans.

Theódór Norðkvist, 22.12.2007 kl. 21:11

9 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Gleðileg jól minn kæri bloggvinur og hafðu það sem allra best og þið öll  Present 





Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.12.2007 kl. 21:56

10 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Theodór: Engin ástæða er að óttast til að ástandið versni á sama veg og í BNA þótt ríki og kirkja væru aðskilin. Nær væri að tala um Frakkland og Holland þar sem engin ríkiskirkja er og trúarbrögð hafa lítil ítök í samfélaginu.

Reyndar er merkilegt að skoða Bandaríkin í ljósi þess að þeir sem stóðu að sjálfstæðisbaráttu þeirra voru margir hverjir trúlausir og töldu trúarbrögð skaðleg samfélaginu. Þeir væru ábyggilega ekki ánægðir með ástandið í dag þar í landi. 

Kristján Hrannar Pálsson, 22.12.2007 kl. 23:22

11 identicon

Sæll Svanur

Ágæt skrif hjá þér.  Með gildum rökum styður þú hversvegna forráðamenn eiga að hafa forgöngu og mikinn rétt á að ráða um hverslags lífsspeki börnin þeirra kynnast (óháð hvert val þeirra er).  Aum viðbrögð rökþrota andstæðinga þinna sína reyndar hvernig farið getur ef gleymist að kenna gagnrýna hugsun í heimaranni.   Verra er ef hugleysi sem birtist sem skrif undir dulefni fylgja þeim líka sem vegarnesti út í lífið.

Ragnar S. Ragnarsson

Ragnar S. Ragnarsson (IP-tala skráð) 23.12.2007 kl. 01:58

12 Smámynd: Óli Jón

Varðandi innlegg 10: Það er langt til seilst að taka BNA sem dæmi um land sem fer einhvern varhluta af áhrifum kristinnar trúar. Ef eitthvað er þá eru áhrif kristni þar svo mikil að mörgum þykir nóg um. Til dæmis er svo langt gengið að í mörgum skólum hefur sköpunarkenningin jafna stöðu á við þróunarkenninguna. Ekki þarf að fjölyrða um hversu fráleitt þetta er og má líkja þessu við að Grimms-ævintýrin væru kennd í verkfræðideild HÍ vegna þess að þar kemur fram að hægt sé að búa til hús úr piparkökum. Trúaðir í BNA þurfa því ekki að kvarta undan því að þeir hafi ekki áhrif. Mitt mat er að BNA hafi þrifist vel þrátt fyrir ofur ítök trúarinnar, óformleg sem formleg, og í því ljósi er hægt að skrifa fyrirvaralaust undir greinina sem er kveikjan að þessum athugasemdaþræði.

Hvað varðar skólana þá er það skoðun mín að trúleysi sé hið náttúrulega og hlutlausa ástand mannsins sem skólinn á að standa vörð um og sem slíkt ekkert betra eða verra en trú. Það er síðan hvers og eins að finna trúarþörf sinni, ef einhver er, útrás með þeim hætti sem viðkomandi fellur best og nýta þá m.a. til þess hlutlæga og hlutlausa vitneskju sem skólinn hefur látið í té. Einstaklingurinn hefur í raun ekki frjálst og hlutlaust val þar sem ríki og kirkja eru í einni sæng.

Óli Jón, 23.12.2007 kl. 03:17

13 Smámynd: Egill Óskarsson

Góður pistill Svanur. Ég er nýbyrjaður í leikskólakennaranámi og hyggst fara 'alla leið' og klára með master (jafnvel doktor ef metnaður og annað leyfir) þannig að ég hafi kennsluréttindi á öllum skólastigum (eða allavega leik-, grunn- og framhaldskóla) og ég verð virkilega ánægður ef að orðalagið í frumvarpinu fær að halda sér. Ég reyndar tek undir með Karli V. þingmanni Samfylkingar sem vildi láta bæta orðinu 'kærleik' inn í rununa sem er þarna.

Til þeirra sem mótmæla þessu í nafni kristins siðgæðis, hvað nákvæmlega er það við umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi (kærleika) og virðingu fyrir manngildi sem ekki rímar við ykkar hugmyndir um kristið siðgæði? Miðað við umræðu seinustu tveggja vikna dettur mér helst í hug umburðarlyndið, sáttfýsin og virðing fyrir manngildi (sbr. innlegg Conwoy (sem var þó að bregðast við kommenti tröllsins Samhyggðar), Einars og Ragnars). 

Egill Óskarsson, 23.12.2007 kl. 04:12

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Alveg er nú dæmigert og í raun ekki svaravert þegar andstæðingar kristins siðgæðis leggja það að jöfnu við sjúkar skoðanir jaðartilfella eins og hins svokallaða Conwoys, Samhyggðar og Ragnars Arnar. Þegar allir vita að þessir menn eru annað hvort að gera at eða bilaðir.

Því miður er þessi undanlátssemi menntamálaráðherra vísbending um að afkristnunar- og niðurrifsöfl eru að sækja á og við því verður að bregðast, eigi Ísland ekki að sökkva í sama fen og margar nágrannaþjóðir, þar sem menn verða liggur við að fara í felur, vilji þeir stunda heilbrigt kristilegt líferni.

Ég hef áður sagt hvað það er athugavert við að taka kristilegt út. Hvað er umburðarlyndi og jafnrétti? Er það umburðarlyndi að fallast á heiðursmorð Kúrda á dætrum sínum af því þær vilja ekki láta selja sig fertugum körlum fyrir eina geit? Er það umburðarlyndi að ef manneskja snýr frá Íslam til kristinnar trúar að samþykkja að hún sé réttdræp, eins og fram kemur í Íslam?

Umburðarlyndi gagnvart satansdýrkun? Umburðarlyndi gagnvart því að íslamistar megi sniðganga íslensk lög vegna trúar sinnar við að slátra lömbum á ómannúðlegan hátt?

Theódór Norðkvist, 23.12.2007 kl. 05:07

15 Smámynd: Óli Jón

Varðandi innlegg 16: Mér finnst langt til seilst að ætla að heiðursmorð verði lögleyfð hér ef tilvísun í "kristilegt siðgæði" er fjarlægt úr lögum um skólana. Það er jafn fráleitt að ætla að einstaklingar verði allt í einu réttdræpir ef þeir taka upp kristna trú fyrir aðra. Með þessu er verið að gefa sér að maðurinn sé í raun bara skynlaus skepna sem aðeins er haldið í skefjum með hömlum kristilegs siðgæðis, en þeir vita sem það vilja að svo er ekki. Stórkostleg menningarsamfélög blómguðust og þrifust löngu áður en kristilegt siðgæði kemur til sögunnar og það er á reynslu þeirra sem hið kristilega siðgæði er í raun grundvallað.

Frumvarpi menntamálaráðherra er ekki ætlað að afkristna íslenska þjóð, enda er ráðherra sjálfur góður og gegn kaþólikki sem augsýnilega er svo örugg í sinni trú að hún telur hana ekki þurfa á neinni opinberri meðgjöf að halda. Hún gerir sér hins vegar grein fyrir hvar grundvallar mannréttindi liggja og gerir það sem gera þarf til að vernda þau.

Óli Jón, 23.12.2007 kl. 14:26

16 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Svanur

Þetta er flott færsla hjá þér! Guðmundur Finnbogason sálfræðingur og heimspekingur rannsakaði íslenskt skólakerfi fyrir Alþingi í aðdraganda fræðslulaganna 1907 og skrifar árið 1903: "Foreldrarnir eiga rétt á að uppala börn sín í þeirri trú sem þeir sjálfir aðhyllast, og þar sem allir greiða jafnt að tiltölu kostnaðinn við skólahaldið, geta auðvitað allir gjört sömu kröfur til skólans." (Lýðmenntun, 1994, bls. 115)

Nú er um helmingur Íslendinga kristinn eins og kom fram í Gallupkönnun 2004 og lífsgildiskönnuninni evrópsku 1999/2000 (sjá nánar á blogginu hjá mér). Veraldlegur skóli er hlutlaus skóli, kristinn skóli gengur gegn lífsskoðunum helmings landsmanna.

Annars óska ég öllum gleðilegra jóla!  Golden Ornament 

Brynjólfur Þorvarðsson, 23.12.2007 kl. 18:01

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ætla bara að óska þér gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs með þökk fyrir skemmtilegt fjaðrafok hér í bloggheimum, síðustu misseri. Mig langar í lokin að koma með tillögu að hugtakabreytingu, þar sem orðið "Veraldlegt" á sér djúpar rætur í Biblíumáli og þykir ekki par dyggðugt.  Hvernig væri að nota orðið "Jarðbundinn"  í staðinn, sem lýsa myndi betur því ginnungagapi, sem um ræðir á milli geistlegra og jarðbundinna gilda. (eða a maður að segja draugslegra í stað geistlegra?)

Jón Steinar Ragnarsson, 23.12.2007 kl. 21:35

18 Smámynd: Egill Óskarsson

Theódór, er í alvörunni svona erfitt að halda sig á málefnalegum nótum í þessari umræðu? Hver hefur talað um að vilja afnema orðalagið 'kristilegt siðgæði' útúr skólalögum og leyfa í stað þess umburðarlyndi gagnvart ofbeldi og morðum? Væri ekki betra svona til þess að reyna að halda þessari umræðu á svona nokkurn vegin eðlilegu plani að hætta þessu marklausa bulli?  Það er verið að tala um að breyta orðalagi í lögum, meginhugsunin hlýtur að halda sér, þ.e. að börnum verði kennd sú siðfræði sem við lifum jú lang flest eftir, sama hvort og hvaða trú við aðhyllumst.

Egill Óskarsson, 25.12.2007 kl. 03:27

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gleðileg jól og farsælt komandi ár Svanur minn.  Megi gæfan fylgja þér og þínum.   Takk fyrir gamla árið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.12.2007 kl. 14:40

20 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég verð að segja, þó það séu jólin, að það kemur úr frekar harðri átt, þegar Egill Óskarsson sakar mig um ómálefnalegheit sem segir sjálfur:

Til þeirra sem mótmæla þessu í nafni kristins siðgæðis, hvað nákvæmlega er það við umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi (kærleika) og virðingu fyrir manngildi sem ekki rímar við ykkar hugmyndir um kristið siðgæði? Miðað við umræðu seinustu tveggja vikna dettur mér helst í hug umburðarlyndið, sáttfýsin og virðing fyrir manngildi (sbr. innlegg Conwoy (sem var þó að bregðast við kommenti tröllsins Samhyggðar), Einars og Ragnars). 

Er þetta svona málefnalegt, eða er Egill í fullri alvöru að halda því fram að þessir menn séu góð dæmi um kristilegt hugarfar?

Theódór Norðkvist, 27.12.2007 kl. 10:35

21 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sael verid thit oll og takk fyrir athugasemdir

Eg hef verid fjarverandi svo eg hef ekki komist i ad svara.  Segi nu samt eftira Gledileg jol!

That er med olikindum hvad hinn kristni kaerleikur tekur a sig skringilegar myndir her hja sumum "kommenterum".  Fer nu ekki nanar ut i that.  Hver daemir fyrir sig.

He, he ja Egill.  That er helst thetta med umburdarlyndid sem virdist ekki pass i tulkun og framkvaemd sumra a Kristnu sidferdi.  Sorglegt.  Gangi thjer vel i naminu.

Brynjolfur. Takk fyrir abendinguna um Gudmund Finnbogason.  Eg var einmitt ad skoda bok i oktober sem var samantekt um aevi hans og storf.  Merkilegur madur thar.

Hey heyr Oli Jon!

Jon Steinar.  Ja eg er nokkud sammala thjer.  Ordid "jardbundinn" er skemmtilegt og that ma velta thessu fyrir ser.

Gledileg Jol og farsaelt nytt ar Margret, Jon Steinar, DoktorE, Asthildur Cesil, Brynjolfur, Oli Jon, Holmdis og allir sem kostudu kvedju.  Sjaumst a nyju ari!

Svanur Sigurbjörnsson, 27.12.2007 kl. 12:12

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Biðst nú velvirðingar á því að hafa ekki kastað kveðju á síðuhöfund. Gleðileg jól, Svanur og gangi þér vel á nýju ári, megir þú einnig komast til trúar á lifanda Guð. Ég tel að læknar vinni starf Frelsarans og finnst það alltaf skjóta skökku við að þeir kasti rýrð á lækninn mesta. En það er önnur saga.

Ég vil gjarnan skýra það nánar út hvers vegna ég er harður andstæðingur þess að kasta kristilegu siðgæði út úr grunnskólalögum. Ég er ekki að neita því að menn geta aðhyllst ágætis siðgæði, þó þeir hnýti ekki þessu lýsingarorði "kristilegt" framan við það.

Það er bara veruleg hætta á því að ef þetta verður niðurstaðan, þá verði menn að koma sér saman um einhver viðmið og ég óttast að siðgæði og stefna í grunnskólum muni útvatnast í einhverja moðsuðu sem engum líkar.

Það vill nefnilega gerast þegar menn fara að taka þá afstöðu í lífinu að engin algild viðmið séu til, að þá verði tekinn lægsti samnefnari allra menningarheima og lífsskoðana og við munum dragast aftur úr í mannréttindum og þjóðfélagslegu réttlæti og lífskjörum.

Það akkeri sem er í kristinni kenningu hefur fleytt okkur þangað sem við erum komin í dag. Ég er alls ekki að segja að allt sé fullkomið hér en við stöndum í fararbroddi á flestum sviðum.

Theódór Norðkvist, 27.12.2007 kl. 12:57

23 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll Svanur, gleðileg jól og takk fyrir góðan pistil. Ég vona sannarlega að frumvörpin breytist ekki í meðförum þingsins hvað þennan þátt varðar. Að þingmönnum beri gæfa til að fella úr lögum kristilega ákvæðið. Það er alveg ótrúlegt hversu oft þarf að tyggja ofan í suma að með því er ekki verið að draga úr fræðslu um kristni.  

Kristín Dýrfjörð, 28.12.2007 kl. 15:39

24 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Theodór

Gleðilegar hátíðir!

Þú þarft ekki að óttast að merkimiðinn "kristilegt siðgæði" hverfi úr lögum, þegar þau siðferðisgildi sem sett eru í staðinn eru í fullu samræmi við það sem ég vona að þú teljir gott kristilegt siðgæði. 

Siðfræði nútímans grundvallast á þeirri grunnhugmynd sem Emmanuel Kant (19. öld) færði svo góð rök fyrir (og John Stuart Mill), en það er sjálfræði einstaklingsins.  Hver manneskja er fær um að breyta hegðun sinni samkvæmt innri löngun til að gera gott og fylgja ekki alltaf náttúrulegum sjálflægum löngunum.  Þetta er hinn frjálsi vilji, en án hans getum við ekki talað um siðferðislega ábyrga manneskju.  Þannig hefur hin siðaða manneskja skapað sér hugarfarslegan aga (samvisku) til góðra verka og hefur þau að markmiði frekar en algera eiginhagsmuni.   Góðar lesningar eru m.a. "Siðfræði" eftir Pál Skúlason eða Blackwell útgáfur á "Ethics in Practice" og "Ethical theory" eftir Hugh LaFollette.  Einnig mæli ég sérstaklega með bók A.C. Grayling; What is good? The Search for the Best Way to Live.

Kristín - sömuleiðis - hafðu það gott um hátíðirnar!  Akkúrat - meiri fræðslu

Jón Grétar - Þó að fólki skjátlist um  ákveðna hluti (jafnvel stóra hluti) þarf ekki að þýða að það sé "nautheimskt lið".  Innræting frá barnsaldri hefur mikil áhrif og skortur á kennslu í rökfræði og sjálfstæðri hugsun getur leitt fólk með eðlilega og jafnvel góða greind út á rangar brautir í lífinu.  Ég skil pirring þinn en ég skil einnig pirring Theódórs sem telur nokkra hér "bilaða" því að þeir eru á annarri skoðun en hann.  Hvorki hann né þú skyldu falla í þá gryfju að slá einhverjum allsherjar gæðadómum á andmælendur ykkar með þessu móti.  Reynum að halda lágmarks virðingu fyrir hvort öðru og deila án meiðyrða.  Þannig iðkum við best málfrelsið og sjálfræðið sem er okkur svo dýrmætt.  Annars er ég þér algerlega sammála.  Húmanistar vilja ekki banna trú eða kristni, heldur að lífsskoðanir og trú sem boðun eða starfsemi sé algerlega utan skólanna.

Svanur Sigurbjörnsson, 31.12.2007 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband