Skammsýn samlíking

Í Kastljósi kvöldsins voru rithöfundarnir Auður Jónasdóttir og Haukur Már Helgason til viðtals og spjalls um nýútkomna bók þeirra; "Íslam án afsláttar". 

Í bókinni eru ýmsar greinar um Íslam og ýmis mál sem hafa komið upp í samskiptum múslima og annarra þegna landanna í kringum okkur.  Talsvert er fjallað um "skopmyndamálið" svokallaða, en það átti sér stað eftir að danskt dagblað birti skopmyndir af Múhameð spámanni múslima.  Trúarleiðtogar múslima þar í landi fóru til miðausturlanda og fengu þar hjálp við að skipuleggja mótmæli í miklum fjölda Íslamskra landa.  Þessi mótmæli fóru gjörsamlega úr böndunum og sendiráð Dana voru sums staðar brennd og danskar útflutningsvörur hunsaðar.  Ofbeldi braust út á sumum stöðum.  Þessi ofbeldisfullu og hatrömmu viðbrögð voru réttlætt með því að guðlast hefði verið framið og að það væri eðlilegt að múslimum sárnaði verulega.

Nú er ég ekki að skrifa þetta til að dæma þessa bók enda hef ég ekki lesið nema lítinn hluta af henni.  Ég er að skrifa um það sem kom fram í Kastljósinu en þar lýstu þau Auður og Haukur Már kaldhæðnum skopmyndum sem áttu að vera móðgandi fyrir það sem Íslendingum væri "heilagt".  Merkilegt var að aðeins ein myndanna beindist að algengustu trú landsmanna, kristninni og gat ég ekki greint hvað ætti að vera meiðandi við hana.  Allar hinar myndirnar beindust að mögulegum siðferðislegum veikleikum þjóðarinnar eins og efnishyggjunni og ímyndinni um hreinan kynstofn sem sumir rækta með sér (Skopmynd: Iceland - purest blood in the world). 

Í allri umræðunni sem fram fór í Kastljósinu var ekki vikið að aðal atriðum þessa skopmyndamáls eftir myndbirtingu Jyllandsposten um árið.  Aðal atriðið er að trúarhugmyndir eiga ekki að teljast heilagar og eiga ekki að njóta sérréttinda umfram aðrar.  Skopmyndir eru leyfðar og ekkert réttlætir ofbeldisfullar aðgerðir vegna þeirra, hvorki í nafni trúarlegrar móðgunar né annars.  Háð er vandmeðfarið og þegar gert er grín að minni máttar er oft gengið yfir strik velsæmis.  Nú var ekki um minni máttar að ræða og þó svo þannig væri málum háttað, er aldrei hægt að réttlæta rangt með röngu.   Hugmynd þeirra Auðar og Hauks Más um að leyfa okkur Íslendingum að finna til einhvers konar sams konar særinda eða móðgunar vegna skopmynda missir algerlega marks. 

Í umræðu um málfrelsi og aftur trúfrelsi sagði Haukur Már að enginn hefði velt fyrir sér málfrelsi og rétti þeirra sem létu lífið í róstursömum mótmælum gegn skopmyndunum.  Ríkistjórn þeirra landa þar sem þetta gerðist hefðu sent her á mótmælendur og drepið suma þeirra, sagði Haukur Már.  Á manni nú að líða illa yfir því að hafa gagnrýnt þessa fánabrennandi, hatursfullu mótmælendur sem hótuðu Dönum limlestingum?  Eiga gerðir þeirra að afsakast vegna enn verri gerða stjórnvalda í löndum þeirra?  Nei, það er Haukur Már sem er ekki að sjá hinn siðferðislega kjarna þessa máls.  Það verður ekki liðið að fólk, sama hverrar trúar það er, fari með ofbeldi og efni til haturs og skemmdaverka fyrir sakir teiknimynda.  Það fólk sem ætlar að nærast á frelsi og umburðarlyndi vestrænna þjóðfélaga þarf sjálft að virða það frelsi og sýna umburðarlyndi í verki.  Réttindi, frelsi og skyldur þjóðfélagsins ganga á báða vegu, ekki bara handa sjálfvöldum útvöldum einstaklingum eða hópum. 

Það er ekki vel til fundið að reyna að benda á einhvern flein í auga okkar varðandi þetta skopmyndamál.  Maður geldur ekki stríðni með ofbeldi og skemmdaverkum, skop með skotum, móðgun með drápum, gagnrýni með hatri eða frelsi með kröfu um sérréttindi.   Við höfum okkar vandamál og ófullkomleika en við þurfum ekki lama dómgreind okkar og ákvörðunarrétt með tilbúinni sektarkennd og ótta við að móðga framandi menningu (menningarleg afstæðishyggja). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

Sammála.

Linda, 11.1.2008 kl. 01:11

2 identicon

Ágætspistill hjá þér, þó smáathugasemd um af hverju teiknimyndirnar af Múhameð voru teiknaðar. Það var ekki til að stríða múhameðstrúarmönnum. Kaare Bluitgen, danskur rithöfundur og blaðamaður, skrifaði barnabók um Múhameð og reyndi árangurslaust að fá teiknara til að myndskreyta bókina. Enginn þeirra þorði að myndskreyta barnabóka um Múhameð og báru fyrir sig ótta við viðbrögð múhameðstrúarmanna. Bluitgen sagði ritstjóra Jyllands-Posten frá þessu og það var þá sem hann ákvað að láta á það reyna hvort teiknararnir hefðu ástæðu til að óttast viðbörgð múhameðstrúarmanna. Ritstjórinn fékk 40 teiknara til að teikna Múhameð og af þeim myndum voru 12 valdar og birtar í Jyllands-Posten. Framhaldið þekkir fólk og getur því svarað spurningunni: Höfðu teiknararnir ástæðu til að óttast afleiðingar þess að myndskreyta barnabók um Múhameð? Af viðtalinu í Kastljósi í kvöld virðist sem fólkinu gangi annað til en að halda sannleikanum til haga og verður það rós í þeirra hnappagat

Guðrún (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 03:24

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það má geta þess að Múllarnir bættu um betur, þegar þeir kynntu málið fyrir hinum múslimska heimi og settu inn nokkrar myndir í viðbót af múhameð sem svíni m.a. Sumar þessara mynda voru augljóslega teiknaðar af þeirra mönnum sjálfum til að hnykkja á ofstækinu og ná sem mestu fári út úr þessu en aðrar myndir voru téknar af handahófi af netinu m.a. og voru tilefni þeirra í flestu tilfellum ekki í neinum tengslum við Múhameð eða fylgismenn hans. 

Það sem kynti þó mest undir þessu máli voru vestrænir fjölmiðlar, sem voru óþreytandi í að segja frá þessum birtingum í þessu frekar lítt lesna blaði auk þess að birta ofstækisfull viðbrögð múslima og sóttu þá helst í þá, sem þekktir voru af ofstæki og öfgum í þeirra hópi.  Þetta var aldrei augljósara en í tilfelli lítils bæjarblaðs í norður svíþjóð, sem gerðist sekt um svipaða hluti. Enginn hefði tekið eftir þessu án ítarlegrar umfjöllunnar stærri fjölmiðla um birtinguna og viðbrögð við henni.  Það er augljós vilji vestrænna fjölmiðla, sem og Múslima sjálfra til að ala á óeiningu og hatri og virðast slík tækifæri tekin opnum örmum í málefnaþurrð til stuðnings trúarlegs ósættis.

Annars er taktík Biskupsins okkar ekki ósvipuð taktík Múslimskra múlla.  Hann móðgast og mistúlkar og gerir sjálfan sig að píslarvætti í ímynduðum árásum vantrúar á grunndvöll kirkjunnar og sakar vantrúarmenn jafnvel um árás á börnin í formi þess að neita þeim um litlujólin. Tilefni til skoðanaskipta var kallað árás og aðför. Allt var dregið til: Tilfinningasemi, heilög hneykslan, píslarvætti og you name it.

Það gleymist þó í rökleiðslum hans að ekki er verið að knýja á um kennslu í trúleysi og eflingu vantrúar, heldur aðeins að skólarnir verði undanskildir áróðri um afstæða hluti og börnum gefið tækifæri á að móta sínar trúarskoðanir með viti og þroska.  Ég sagði við séra Svan að það væri undarlegt þetta offors um að ná til óvitanna en engra annara, því ekki er kirkjan að sækjast í framhaldskólana, þar sem fólk hefur snefil af þroska og gagnrýnni hugsun.  Þá gaf hann það í skyn að ég væri að kalla hann barnaníðing og hef ég látið það eiga sig að ræða málin við hann síðan.  Suma forpokun´á maður ekki séns í.  Sá vægir sem vitið hefur meira.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 08:17

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svona svo rétt sé haft eftir, þá spurði Svavar mig hvort ég væri að saka hann um að vera sólginn í börn.  Þann skilning lagði hann í orð mín. Áður hafði hann hinsvegar sakað aðra um að hafa sakað sig um hinn ósegjanlega glæp,  af sama eða svipuðu tilefni.  Þessir menn hafa jú lifibrauð sitt að túlka texta, svo það er eins gott að vera mjög afdráttalaus í orðræðum við þá.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 08:31

5 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Góður punktur Jón Steinar og fullkomlega réttmætur..."Annars er taktík Biskupsins okkar ekki ósvipuð taktík Múslimskra múlla.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 11.1.2008 kl. 08:48

6 identicon

Auðvitað eiga trúarhugmyndir fólks ekki að vera "heilagar" og auðvitað má gera grín að þeim. Ég held hins vegar að þú ættir endilega að lesa þessa bók. Í henni kemur meðal annars fram að Jyllandsposten hafði áður hætt við að birta myndir sem þóttu særa trúartilfinningu kristinna (og gyðinga líka ef ég man rétt), hakakrossinn er bannaður í Þýskalandi og víðar.

Þú talar um fánabrennandi mótmælendur. Bíddu, er ekki allt í lagi að brenna fána? Er það ekki hluti af málfrelsinu? Rétturinn til þess að móðga hlýtur að verða að fela sjálfkrafa í sér réttinn til þess að verða móðgaður, ekki satt? Í þessu máli verðum við að greina kjarnann frá hisminu. Málfrelsið á að vera algilt, en það felur líka í sér að það má mótmæla á friðsaman hátt, brenna fána og sniðganga vörur frá ákveðnu landi. Ég man hvað mörgum þótti meira að segja hið síðastnefnda vera öfgafullt á meðan umræðan stóð sem hæst.

Hins vegar er auðvitað grafalvarlegt mál að hóta einhverjum limlestingum og dauða og getur ekki fallið undir málfrelsiskröfuna. Við bara verðum að gera skýran greinarmun á því annars vegar og öllu hinu hins vegar. Hversu margir ætli hafi í raun hótað dönunum ofbeldi og morðum? Ætli þeir mótmælendur sem voru drepnir af her og lögreglu í eigin landi hafi allir haft það á samviskunni að hafa hótað slíku?

Hildur (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 09:58

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Guðrún

þú skrifaðir: "Höfðu teiknararnir ástæðu til að óttast afleiðingar þess að myndskreyta barnabók um Múhameð?"

Athyglisvert, en þessar teikningar voru ekki af þeirri gerð sem maður setur í barnabók.  Múhameð var sýndur með sprengju í höfðinu ef mig misminnir ekki.  Tilgangurinn hlaut því að vera að hæðast að Íslamstrú og hugsanlega kanna viðbrögðin út frá því.  Getur það ekki staðist? 

Þú sagðir svo: "Af viðtalinu í Kastljósi í kvöld virðist sem fólkinu gangi annað til en að halda sannleikanum til haga og verður það rós í þeirra hnappagat"  Hvað áttu við með þessu?  Vantar ekki lítið "ekki" þarna, þannig að það standi "... gangi ekki annað til ..."  Fólkið er væntanlega rithöfundarnir.

Svanur Sigurbjörnsson, 11.1.2008 kl. 10:28

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Jón Steinar

Já það er rétt - það kom í ljós að Imamarnir höfðu sjálfir bætt við meira móðgandi myndum til að kynda betur undir.  Tilgangurinn helgar víst meðalið.

Svanur Sigurbjörnsson, 11.1.2008 kl. 10:31

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Hildur. 

Ég var einmitt að benda á það að við (vesturlandabúar) værum ekki fullkomin en það afsakar ekki þessi viðbrögð við skopmyndunum.  Það er hægt að benda á endalaus dæmi um ósamræmi hér en þau eru sjaldnast þannig að ofbeldi og skemmdarverk brjótist út vegna teiknimynda.

Er ekki lagi að brenna fána?  Jú þú hefur frelsi til þess en það gefur út skilaboð haturs til heillar þjóðar.  Frelsi verður ekki aðskilið frá ábyrgð.  Skopmyndirnar fólu í sér ákveðna gagnrýni og það er ekki sama og hatur.  Hótanir um limlestingar eiga ekki heldur réttmætan stað í mótmælum.  Það að sniðganga vörur er einnig mun alvarlegra en að gagnrýna. Það veldur efnahagslegum skaða og kemur niður á fólki sem kom ekki nálægt þessum skopmyndum.  Væri það Danska ríkið sem hefði ákveðið að hunsa vörur frá Íslömskum löndum af fyrra bragði, væru slík mótviðbrögð skiljanleg en það var alls ekki tilfellið.  Viðbrögð þessara íslömsku mótmælenda voru ekki í samræmi við það sem vakti þau. 

Svanur Sigurbjörnsson, 11.1.2008 kl. 10:41

10 identicon

Takk fyrir svarið, þú svaraðir í raun á allan þann hátt sem ég hefði viljað að þú svaraðir til þess að ég gæti ítrekað þann punkt sem ég er að reyna að koma á framfæri.

Við erum alveg sammála um að ofbeldi og skemmdarverk eru ekki afsakanleg, hvað þá í kjölfar skopmynda. Hins vegar var skopmyndunum ætlað að vera ögrandi, eins og til dæmis þeirri sem sýndi Múhammeð sem sjálfsmorðsárásarmann. Nú er ég rammtrúlaus og skráð í Siðmennt og því eru spámenn mér aldrei á nokkurn hátt heilagir. Mér yrði hins vegar brugðið ef ég sæi íslenska fánann brenndan. Þar kemur mitt gildismat inn í málið. Ég móðgast ekki yfir sama skopinu og heittrúuðum múslimum en það er ekki þar með sagt að ég dragi mörkin hvergi. Ætli það sé nokkuð meira absúrd að líta á skopmyndir af spámönnum sem skilaboð haturs til heillar trúar heldur en að líta á fánabrennur sem skilaboð haturs til heillar þjóðar?

Og þetta með að sniðganga vörur, auðvitað hefur það efnahagslegar afleiðingar og á að hafa það. Slíkar sniðgöngur bitna vissulega oftar en ekki á röngum aðilum, en það breytir því ekki að sú að gerð, að kaupa ekki (sem við Íslendingar eigum sennilega einna erfiðast með að skilja), er ekkert öfgafull í sjálfu sér. Neytendur hafa rétt á að velja og hafna, alveg sama hver hvöt þeirra er.

Ég veit ekki hvort þú skilur hvað ég er að fara, en ég má til með að rifja upp setningu í bókinni þar sem vitnað er í blökkumannaleiðtoga í Suður Afríku (man því miður ekki nafnið) þar sem hann sagði um hvítu mennina: "Það er ekki nóg með að þeir níðist á okkur heldur vilja þeir líka gefa okkur fyrirmæli um hvernig við eigum að bregðast við níðingsskapnum"

Hildur (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 11:02

11 identicon

Sæll, Svanur, því miður þá virðist þú misskilja innlegg mitt. Myndirnar 12 sem valdar voru og birtar í Jyllands-Posten eru augljóslega ekki myndir sem hæfa í barnabók - enda segi ég það ekki. Ég er að halda til haga ástæðunni fyrir því að ritstjóri Jyllands-Posten fékk teiknara til að teikna Múhameð og ástæðan var ótti. Ástæðan fyrir því að 40 teiknarar voru fengnir til að teikna Múhameð er að teiknarar þorðu ekki að myndaskreyta barnabók um Múhameð.  Það segir hvergi, eins og þú virðist skilja málið, að myndirnar í Jyllands-Posten séu myndirnar sem áttu að vera í barnabókinni - enda augljóst að svo er auðvitað ekki. Teiknararnir sem teiknuðu fyrir Jyllands-Posten voru beðnir um að teikna karlinn eins og þeir sæju hann. Nei, það vantar ekki orðið "ekki" í setninguna í fyrra innleggi mínu. Mér finnst að fólkið í Kastljósi leggi lítið upp úr sannleikanum vegna þess að þegar þau gera sér mat úr teikningunum í Jyllands-Posten þá horfa þau vitsvitandi fram hjá ástæðunni fyrir því að teikningarnar voru upphaflega teiknaðar, þ.e. að danskir teiknarar þorðu ekki að myndskreyta danska barnabók. Ástæðan var ekki að Danir móðguðu múhameðstrúarmenn, heldur að Danir verðu rétt sinn til að mega myndskreyta barnabók um Múhameð eins og aðrar barnabækur.

Guðrún (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 15:15

12 Smámynd: Halla Rut

Ég verð bara að segja að þetta var eitt aumasta viðtal sem ég hef séð enda leyndi sér ekki brosandi vanþóknunarsvipurinn á spyrjandanum en henni fannst Haukur greinilega vera mjög grunnur. Ekki gat ég séð neitt við þessar myndir sem var eitthvað móðgandi fyrir okkur enda held ég að það sé mjög erfitt að móðga okkar köldu þjóð. Fannst þetta allt mjög kjánalegt og mundi kjósa þetta sem leiðinlegasta viðtal ársins þó það sé rétt að byrja.

þessum ofsamönnum er alveg sama um þessar myndir þeir notuðu bara tækifærið til að gera uppþot. Enda var þetta tilvalið til að æsa lýðinn. Fátt er betra en fáviska og blind trú ef stofna á til uppreisnar.

Góður pistill hjá þér og sannur. Sömuleiðis þá þykja mér skrif Jóns Steinars þarfarorð. Það er ekki tauti við þessa menn komið Steinar. Þeir snúa út úr og geta aldrei svarað spurningum beint heldur þylja bara texta upp úr sinni sannleiksbók eða koma með einhvert tilfinningar mjálm sem vegur að mans eigin ágæti og manngæsku.  

Halla Rut , 11.1.2008 kl. 15:30

13 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég er sammála síðasta ræðumanni.  Pistillinn er mjög  góður og athugasemdir Jóns Steinars fínar.

Margt öfgatrúfólk er fullt af reiði, hatri og ótta og þarf því lítið til að gera úlfalda úr mýflugu sem sannar bara það að öfgatrú og trúarofstæki er stórhættulegt og mjög skaðlegt þeim sem ánetjast því svo ég tali ekki um fólk sem þeim mislíkar við.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 11.1.2008 kl. 17:43

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Guðrún á ný

Takk fyrir þessar útskýringar.  Ég skil nú hvað þú meinar.  Það er gott innlegg í umræðuna að teikningarnar voru settar inn í kjölfar þess að enginn þorði að teikna í barnabókina.  Ég hafði heyrt af þessu en vissi ekki af þessu samhengi. 

 "Rós í hnappagat" er yfirleitt meint til hróss þannig að ég var ekki viss um hvað þú meintir en þú áttir við hið öfuga.  Þú ert eins og rithöfundurinn Kurt Vonnegut, þ.e. notar öfugmæli (sem ekki alltaf skiljast sem slík).   Nú skil ég og er hjartanlega sammála þér. 

Svanur Sigurbjörnsson, 11.1.2008 kl. 21:54

15 identicon

Your imaginary friends love you but everyone else think you are an asshole er ágæt lýsing á þessu ofstækisliði, hvaða söfnuði sem það tilheyrir nú

DoctorE (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 22:20

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Hildur

Þú segir: "Ætli það sé nokkuð meira absúrd að líta á skopmyndir af spámönnum sem skilaboð haturs til heillar trúar heldur en að líta á fánabrennur sem skilaboð haturs til heillar þjóðar?"

Þetta er punktur hjá þér.  T.d. að nefna tuskubangsa "Mohamed" er hrikaleg vanvirðing gagnvart Íslam og varðar handtöku, fangelsun og trúlega nokkuð mörg vandarhögg (Málið í Afríku nýlega).  En kannski er það ekki hatursfullt að brenna fána, t.d. fána Íslands.  Haukur hér (sbr færslu 14) ætlar e.t.v. að brenna einn.  Gallinn við að ef Haukur gerir það yrði hann líklega álitinn listamaður í gjörningarham eða hreinlega hlegið að honum því allir vissu að hann væri að leika en ekki mótmæla.  Ef Salman Tamini gerði það, yrði það e.t.v. tekið alvarlega, þ.e. ef honum tækist að gera það án þess að brosa (allt misskilningur he he).  Kannski eru þessi fánabrennandi múslimar bara hin mestu grey og bjóða svo alla Dani velkomna til landa sinna og heimila þegar þeir eru búnir að brenna svolítið, hoppa og garga, skjóta af byssum í loftið og hreyfa sig svolítið.  Skítt með fánann, hann var hvort eð er bara tuska.  Kannski er það oftúlkun að þeir oftúlki skopmyndirnar því þeim hefur verið kennt að það megi bara alls ekki teikna Mohameð, hvað þá með sprengju í höfðinu.  Þá er það ekki þeim að kenna - þeir bara vita ekki betur og bera því ekki ábyrgð.  Það hlýtur bara að vera  íslamshatandi manneskja sem teiknar skopmynd af Mohamed spámanni.   Slíkt fólk á ekki skilið að eiga sendiráð í löndum Islams og því best að brenna þau. 

Múslimar líta e.t.v. fyrst og fremst á sig sem múslima, en aftur Dani (eða Íslendingur) lítur f.o.f. á sig sem dana (frekar en t.d. kristinn).  Islamistar líta á Allah sem leiðtoga í bæði trúarlífi og pólitík.  Hann og spámaður hans Mohameð eru þeim allt.  Það er ágætt að skilja þennan hugsunarhátt en við getum samt gagnrýnt þessi viðbrögð, því við teljum það ekki rétt að setja slíka helgi á trúarleiðtoga eða trúarbrögð. 

Varðandi það að sniðganga vörur þjóðar.  Þú segir það ekki "öfgafullt" þar sem það byggist bara á því að nota höfnunarrétt sinn.   

Hugsanlegt dæmi: Köttur rússneska sendiráðsins á Íslandi er drepinn af íslenskum geðsjúklingi sem einnig sletti kúaskít á sendiráðið.  Rússar (sem í þessu dæmi álíta ketti heilaga) fyllast viðbjóði yfir þessu og eftir mótmælagöngur í Moskvu, ákveða að kaupa hvorki síld né skreið af Íslendingum í 2 ár.  Fjögur útflutningsfyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi verða gjaldþrota í kjölfarið og John Watson hjá Sea Shephards sprengir Perluna í loft upp til að hefna kattardrápsins en þessi kattartegund var á lista hans yfir friðuð dýr.   Öll grenitré í Öskjuhlíð soðna og ...

Nei að gríni slepptu þá eru slík mótmæli ekki réttmæt og valda skaða.  Hver telur það rétt að hengja bakara fyrir smið?  Sjálfsagt kemur það ekki í heild ekki mikið niður á Dönum, sem eiga ágætlega milli hnífs og skeiðar, að sniðganga útflutning þeirra í Íslömskum ríkjum en engu að síður er það röng hugsun að refsa bara einhverjum vegna þess að þeir eru landar þeirra sem móðguðu.  Hvað felst í orðinu "öfgafullt"?  Öfgafullt er væntanlega eitthvað sem er siðferðislega slæmt og hefur slæmar afleiðingar.  Mér finnst orðið ákaflega gagnslítið í umræðum því það getur haft mjög mismunandi þýðingu eða merkingu í hugum fólks.  Það er ekki sama hver "hvöt" fólks er þegar það ákveður að hafna viðskiptum við einhvern.  Vissulega hefur það rétt til þess en það fer ekki endilega saman við siðferðislegt réttmæti.  Þú hefur rétt til að hætta að kaupa íslenska mjólk sem einstaklingur en þegar þú ert farin að hvetja alla þjóðina til þess vegna þess að þú komst að því að einn sunnlensku bóndi fór ekki að reglum um lífræna ræktun, ertu komin á mjög hálan ís.  Kannski er ég of viðkvæmur fyrir þessu en ég tel svona aðgerðir ekki réttar.  Mér finnst einnig svívirðilegt af USA að setja allsherjar viðskiptabann á þjóðir sem stýrt er af harðstjórum eða kommúnistum.  Slíkt kemur bara niður á hinum almenna borgara.

Svanur Sigurbjörnsson, 11.1.2008 kl. 23:08

17 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Fín grein Svanur, ég er hjartanlega sammála þér.

Brynjólfur Þorvarðsson, 11.1.2008 kl. 23:08

18 identicon

Mig langar að benda ykkur á þessa klippu, alveg magnað dæmi
http://www.youtube.com/watch?v=owCXbDVTLRE

DoctorE (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 00:13

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Jón Steinar

Ég er sammála þér um viðbrögð biskups við þeirri kröfu Siðmenntar að lög dragi ekki taum eins trúfélags og að trúarleg starfsemi eða trúboð eigi ekki heima í skólum landsins.   Hann notaði orð eins og "frekur minnihluti" og "hatrömm samtök" og "árásir á kristnina" til þess að hræra upp hræðslu meðal fylgismanna sinna.  Þá viðhélt hann  rangindum um afstöðu Siðmenntar til kristinfræðslu.   Þá var einnig talað um "ólæsi á íslenska menningu" ef bla bla bla eitthvað .. minni kristni.. bla bla sem aldrei stóðst.  Guðni Ágústson tók svo þátt í að þyrla upp rykskýinu, en þá fyrst varð Þorgerður Katrín að verja virkilega frumvarpið og nota rök sem Siðmennt hefði verið stolt af í eftirminnilegum Kastljósþætti.   Guðni hélt í lambakjötið sitt dauðahaldi en átti ekki svör við klappi á kollinn og festu menntamálaráðherrans.  Karl sannaði ágæti hins kristilega siðgæðis með með útbreiddum örmum sínum og skilningi á því að barnaskólar eru menntastofnanir en ekki "sóknarfæri" eins og einhver sagði á kirkjuþingi 2006. 

Svanur Sigurbjörnsson, 12.1.2008 kl. 00:26

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Doktorinn E hinn magnaði

Hvernig líður míní mí? 

Þetta er virkilega þörf fréttamynd sem þú bentir á DoktorE -  Babtistar með rétttrúnaðarstefnu í bullandi trúboði í Írak undir hvatningu G W Bush.  Hvar endar þetta?

Svanur Sigurbjörnsson, 12.1.2008 kl. 00:45

21 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Brynjólfur

Svanur Sigurbjörnsson, 12.1.2008 kl. 00:46

22 Smámynd: Björn Heiðdal

Þið kristnu eigið að skammast ykkar fyrir að ráðast á heilagasta stað múslima og sprengja hann í loft.  Svo stundið þið bara trúboð ofan á brennandi líkum smábarna í Írak og fyllist eldmóð af brunafýlunni.  Kristið fólk er upp til hópa stórhættulegt og þekkir varla muninn á réttu og röngu.  Ef kristinn maður eða kona sér særðan einstakling á ráfi fyrir framan sig eru meiri líkur en minni að viðkomandi keyri framhjá frekar en að rétta hjálparhönd.  Í mörgum dæmum hefur kristið fólk keyrt yfir saklausa vegfarendur og stungið af.   Svona framkoma sýnir að kristið fólk gefur skít í náungann.  Margir kristnir karlmenn líta á það sem rétt sinn að nauðga konum og hafa konur þurft að stunda sérstakar auglýsingaherferðir með yfirskriftina "nei þýðir nei" til að ráða bót á þessu "vandamáli".

Kristnir karlmenn lemja konur sínar og nauðga stjúpbörnum án þess að íslenskir dómstólar taki hart á því.  Menn fá í mesta lagi nokkra mánuði í fangelsi ef brotið var sérstaklega gróft og lítið um málsbætur.  En málsbætur geta verið að konan bauð upp á þetta og hann hafi séð eftir þessu með börnin.  Margt ungt kristið fólk leggur stund á skemmdarstarfsemi og veggjakrot sem flokkast þó undir saklaust grín í samanburði við allt ofbeldið sem ungir kristnir karlmenn nota á saklaus fórnarlömb.

Nú er ég ekki að alhæfa um alla kristna einstaklinga og íslensku þjóðina því það eru til góðir kristnir menn einhverstaðar.  Menn sem hvorki nauðga, lemja eða krota á veggi en kannski stela þeir bara í staðin.

Björn Heiðdal, 12.1.2008 kl. 01:26

23 Smámynd: Halla Rut

Björn: Oftar en ekki finnst mér trúað fólk nota trú sína til að réttlæta gerðir sínar frekar en að sýna náunga sínum kærleik eða hjálpsemi.  Það getur gert það sem það vill og segist ekki þurfa að svara til neins nema Guðs. Og hvað er þægilegra en að svara bara til einhvers sem aldrei svarar, gagnrýnir eða refsar.  Ég segi við alla sanntrúaða sem sitja heima í fallegu húsunum sínum og aka um á dýru bílunum sínum; hvar er hjálpsemin við alla sem eiga ekki neitt og eru vanmáttar. Hvar er eftir eftirfylgininn við orð Jesú um að sá sem á tvo kirtla skuli gefa þeim sem engan á annan þeirra. Það er sem ég segi, þessi gervi trú er eingöngu til að friða eigin sálu og samvisku, svona eins á plástur á blæðandi sál.

Halla Rut , 12.1.2008 kl. 12:09

24 identicon

Það er nú ástæða fyrir því að menn tala um "Bullandi trúboð", þetta er ekkert annað en fargin bull, það versta er að þetta bull kostar mannkynið svo óhemju mikið.
Þar sem bönn virka ekki gegn þessu þá er hin augljósa leið til lagfæringar að kynna fólki sem telur að þetta allt sé svo gott hvert innihald biblíu er, fólk veit yfirhöfuð ekki hvað það er að tilbiðja það sér bara það sem að því er haldið af trúarpostulum, þeir sýna bara meint góðverk en eru hættir að nefna öll þau voðaverk sem meintur guð á að hafa framið samkvæmt ferilskrá sinni svo maður tali ekki um handbrúður hans hér á jörðu

Disclaimer
Guð er ekki til

DoctorE (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 13:22

25 identicon

Svanur, í kjölfar þess að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak sniðgekk ég allar amerískar vörur í marga mánuði og hið sama gilti um ýmsa aðra. Það bitnaði í sjálfu sér held ég ekkert á Bush sjálfum eða repúblikönum á þingi, en ég tel mig samt sem áður hafa verið í rétti til þess að gera þetta. Hið sama gildir um múslima sem sniðgengu danskar vörur. Af hverju er verið að fjargviðrast út af því þar sem það er fullkomlega leyfilegt alveg sama óháð því hvort það sé rökrétt eða skili árangri? Þeir sem hvað hæst fjargviðrast yfir þessu eru flestir hneykslaðir á því að múslimar skuli hafa leyft sér að móðgast yfir höfuð útaf myndum sem voru birtar gagngert til þess að ögra þeim, en á sama tíma kalla þeir það öfgafullt að brenna fána. Ef það vefst ekki fyrir mönnum að teikningar á Múhammeð séu leyfilegar vegna málfrelsis, hvers vegna í lífinu vefst það fyrir þeim hvort fánabrennur séu leyfilegar með vísun í málfrelsi? Ég minni á að þú talaðir um skilaboð haturs til heillar þjóðar. Bíddu og hvað með það? Má ekki segja ljótt um heilar þjóðir? Er það ekki málfrelsi sem við erum að reyna að verja? Þín rök snúast um túlkunaratriði á því hvaða skilaboð fánabrennur fela í sér vs múhammeðsteikningarnar. Er ekki einfaldast að verja rétt fólks til að brenna fána með nákvæmlega sömu rökum og réttur fólks til að teikna múhammeð er varinn? Hvort tveggja þykir af ákveðnum hópum (trúar- eða þjóðar) vera vanvirðing og fela í sér skilaboð haturs. En það hlýtur að mega móðga -OG það hlýtur líka að mega verða móðgaður.

Hvað múhammeðsteikningarnar varðar þá verð ég bara að segja að ekkert mál hefur að mínu mati opinberað á jafn augljósan hátt hræsni vesturlandabúa (-ekki allra, ég tek það fram-). Það hefur aldrei verið þannig hérna á Vesturlöndum að ALLT sem hefur birst á prenti hefur verið varið. Heldurðu að það séu margir í Þýskalandi sem myndu verja það ef Süddeutsche Zeitung birti myndir af hakakrossinum með undirfyrirsögninni "Sieg heil!"? Færi einhver að hneykslast á gyðingum ef þeir brygðust ókvæða við slíku efni? Hvað ef kynferðisníðingsskapur gegn börnum yrði teiknaður á mjög grafískan hátt í Mogganum? Myndi nokkrum ritstjóra detta í hug að birtast svoleiðis?

Nei bæði afleiðingar nasisma og níðingsskapur gegn börnum eru eitthvað sem langfæstum Vesturlandabúum finnst rétt að skopast með. Rétturinn til þess að birta skopmyndir af slíku felur ekki í sér réttleysi til þess að mótmæla því ef það er gert. Auðvitað eiga engin trúarbrögð að vera undanskilin því að um þau sé fjallað og jafnvel skopast að, en um leið og við erum farin að berjast gegn því að trúmenn megi móðgast og mótmæla þá erum við í raun ekkert skárri en þeir sem berjast gegn málfrelsi.

Í nútmalýðræðisríki hlýtur eftirfarandi að gilda:

Málfrelsi er við lýði

Að sniðganga vörur er hverjum frjálst -og sökum málfrelsis má að sjálfssögðu hvetja alla til þess að taka þátt í því.

Það má teikna Múhammeð og það má bregðast við með að brenna fána þó svo að hvort tveggja geti sært.

Það má fara í skipulegar mótmælagöngur.

Það má EKKI brenna hús og meiða.

Þannig að allt ofangreint, nema hið síðastnefnda, það má. Og það er engum skylt að vera samkvæmur sjálfum sér eða rökréttur þótt það væri auðvitað æskilegt að fólk sé það. Þegar þú talar um hatursfulla fánabrennandi múslima þá hlýturðu að verða að aðgreina þá sem láta sér nægja að nýta sér málfrelsi sitt annars vegar og þá sem brenna sendiráð og meiða hins vegar. Skilurðu?

Þú segir:

Kannski er ég of viðkvæmur fyrir þessu en ég tel svona aðgerðir ekki réttar. 

Og ég er sammála. Mér finnst þú líka of viðkvæmur og í raun ekkert minna viðkvæmur en þeir múslimar sem láta myndir af spámanninum fara fyrir brjóstið á sér.

Hildur (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 15:25

26 Smámynd: Björn Heiðdal

Kristið bókstafsfólk eru sauðir sem líta á aðrar manneskjur sem mögulega sauði eða úlfa.  Allt er annað hvort svart eða hvítt.  Yfir sauðahjörðinni ríkir síðan fjárhirðir sem skýlir sér á bak við ósýnilegan guð svona til að geta varpað ábyrgðinni á bullinu sem vellur út um bæði munnvikin á einhvern annan.  Ég er ekki að búa þessu vitleysu til þetta bara stendur hérna og þess vegna verðum við að fara eftir þessu.  En fjárhirðanir hirða líka peningana af sauðunum.  Þetta er ástæðan fyrir því að leiðtogar safnaða kalla sig fjárhirða(hirða peninga) og félagsmenn sína sauði(auðvelt að plata). 

Björn Heiðdal, 12.1.2008 kl. 15:38

27 identicon

Það versta er að loforðið falska um eilíft líf gerir það að verkum að fólk ber ekki virðingu fyrir eina lífinu sem það á; Það á einbýlishús og flottan bíl á himnum, keyrir trúarölvað á órannsakanlegum vegum hins ímyndaða guðs sem hefur mjög svo forneskjulega þrár og þarfir fyrir sig og þræla sína.
Hugsið málið, ef þetta er ekki púra geðveiki þá veit ég ekki hvað geðveiki er

DoctorE (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 15:48

28 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Hildur

Einhvern vegin erum við ekki alveg að ræða þessi á sömu blaðsíðunni ef svo má segja.  Ég ég aðrar hugmyndir um hvernig maður eigi að nota frelsi sitt til tjáningar og mótmæla en þú.   Hjá mér snýst þetta um aðeins meiri ábyrgð en að gera bara allt sem maður kemst upp með án þess að brjóta lögin eða reyna að valda einhverjum sem býr í sama landi og Bush og hans stríðshaukar, efnahagslegum skaða.  Sumar mótmælahreyfingar fara eftir mottóinu "tilgangurinn helgar meðalið" og í því sambandi er ýmislegt sjálfniðurlægjandi eða truflandi fyrir vinnu og jafnvel öryggi fólks iðkað til þess eins að fá ahygli fréttastöðva.  Minna fer fyrir uppbyggilegum og málefnalegum málaflutningi.  Mér sýnist að flest fólk sé orðið dauðþreytt á svona skrípaleik og þessir mótmælendur vinna ekki hug fólks.  Aftur Ómari Ragnarssyni (sem dæmi) tókst með sjónvarpsefni og bók þar sem hann kafaði í málin að vinna hug og fylgi margra þannig að útkoman varð stór ganga niður laugaveginn sem fór friðsamlega og virðulega fram. 

Þú segir "Af hverju er verið að fjargviðrast út af því þar sem það er fullkomlega leyfilegt alveg sama óháð því hvort það sé rökrétt eða skili árangri?

Svar mitt:  Af því að árangur skiptir máli.  Ef að þú ætlar að mótmæla einhverju, ertu væntanlega að gera það til að skila árangri, annars ertu að sóa tíma þínum.  Markmið mótmæla er að reyna að fá fram breytingar til hins betra og ef þér er sama um það, ertu búin að fyrirgera tilgangnum og setja þig í stöðu sem er ekki hægt að verja siðferðislega.  Ef þér er sama um árangurinn fá mótmælin á sig blæ hefnigirni og gremju sem skilar engu.  Þitt er valið.  Þú hefur frelsið til að gera uppbyggilega hluti eða bara sóa tíma þínum, svo lengi sem þú skaðar engan beint.

Svo segir þú: "Og ég er sammála. Mér finnst þú líka of viðkvæmur og í raun ekkert minna viðkvæmur en þeir múslimar sem láta myndir af spámanninum fara fyrir brjóstið á sér."

Hef ég farið út á götu og barið mér um brjóst og brennt flögg eða trúartákn af því að lífsskoðunarfélag mitt var kallað "hatrammt" af Karli Sigurbjörnssyni?  Hef ég farið út í álíka lýsingar á Þjóðkirkjunni til baka til þess að svala gremju minni?  Hef ég misst mig yfir því að sumir bókstafstrúaðir hér á blogginu hafi farið mjög niðrandi orðum um Siðmennt og haldið við ranghugmyndum um stefnu félagsins í menntamálum?  Nei, ég hef haldið mig við málefnalega gagnrýni í þeim miðlum sem mér er heimilt að tjá mig í og haldið mig frá þeim fúla pitti sem skítkast á milli manna er.  Hvernig í ósköpunum getur þú borið saman viðbrögð mín í formi skriflegrar gagnrýni við viðbrögð þessa umræddu múslima/Islamista við skopmyndunum?  Ég vona að þú sjáir að samanburður þinn er ekki sanngjarn.  Ég vona að þú hafir bara verið að velgja mér aðeins undir uggum í stríðni. 

Svanur Sigurbjörnsson, 12.1.2008 kl. 18:04

29 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Svanur , þú hefur ekki barið brjóst þér og sagt biskup Íslands vera "HATRAMMAN" (sem hann þó hefur verið í garð siðmenntar) og það virðist sem fólk hreinlega NEITI AÐ SJÁ HVAÐ ER AÐ GERAST?... Bæði í muhameðsskopmyndamálinu og biskupíslandshatramurmálinu?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.1.2008 kl. 22:29

30 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hæ Anna

Já það er eins og sumt fólk kveiki ekki á því að þessi viðbrögð eru ekki afsökunarverð.  Þú ert komin með ágætis heiti á þessi mál he he. 

Nei ég fann ekki þörf fyrir að senda biskup neitt sem telst niðrandi í orðabókinni, en okkur í Siðmennt fannst sjálfsagt að gefa honum tækifæri til að biðjast afsökunar, draga orð sín til baka eða leiðrétta möguleg mistök (e.t.v. lét hann þetta út úr sér í einhverju heilögu bræðiskasti) þó ekkert af því gerðist.   Þvert á móti áréttaði hann viðhorf sitt.  Mér varð hugsað um siðferðislega dómgreind hans og það er ljóst að þeir 48 einstaklingar sem skráðu sig í Siðmennt í desember voru ekki alveg sammála greiningu hans á "200 manna klúbbnum" (svo ég vitni í orð fyrrv. skólastjóra Hofsstaðarskóla í Kastljósinu síðasta vetur, en þá skráðu sig einnig slatti af fólki í félagið).

Svanur Sigurbjörnsson, 13.1.2008 kl. 00:35

31 identicon

Þú getur leitt biskup að altarinu en þú getur ekki látið hann segja neitt af vit

DoctorE (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 01:06

32 identicon

Þú misskilur mig. Það sem ég var að meina var að ef þér er misboðið að sjá fólk brenna danska fánann eða sniðganga vörur eftir þjóðerni þeirra ertu jafn viðkvæmur og múslimar sem móðgast yfir skopmyndum af Múhammeð. Það er svo allt annar handleggur hvernig fólk bregst við hlutunum og ég minni þig á að það brugðust ekki allir móðgaðir múslimar við skopmyndunum með því að gera allt þetta sem þér finnst óréttlætanlegt. Margir, og sennilega flestir, létu sér nægja að bera sinn harm í hljóði eða skrifa/tala/blogga um hann.

Þú mátt annars alveg hafa þínar skoðanir á mótmælaaðgerðum af öllu tagi. Það eru ekki allir á því að mótmælaaðgerðir eigi að vera "ómóðgandi", heldur er markmiðið með þeim oft að rugga bátnum, alveg sama þótt þær móðgi fólk. En þú mátt móðgast yfir mótmælaaðgerðum alveg eins og múslimar mega móðgast yfir Múhammeðsteikningum.

Annars ítreka ég að ég hvet þig eindregið til að lesa þessa bók.

Hildur (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 16:45

33 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ok, ég skil hvað þú meinar nú Hildur.  Það er frekar erfitt að skilgreina "viðkvæmur" en líklega á það við það að mammi sárni eitthvað eða taki eitthvað meira nærri sér en "normal" manneskjan.   Fyrir þann sem finnst eitthvað alveg góðu lagi eða alveg ásættanlegt er manneskja viðkvæm sem tekur sama hlut nærri sér.  Það er rétt hjá þér að fólk sem er viðkvæmt fyrir einhverju tjáir það á mismunandi vegu eða dregur sig í hlé.   Það virðist þó vera þannig að þeir sem hafa sig frami fá frekar á sig álit um viðkvæmni.  

Mér finnst reyndar munur á því þegar manneskja fellur saman (eða lamast af svekkelsi og reiði / sorg /ótta) og því að taka á málinu af yfirvegun og markvissum aðgerðum.  Báðir telja það sem hafði áhrif á þá vera rangindi sem hafði áhrif á þá en sá síðari gerði eitthvað í því og/eða lét ekki brjóta sig niður.  Ég tel það því frekar viðkvæmni þegar manneskja lætur endurtekið tilfinningar bera sig ofurliði og ná ekki að vinna úr þeim öðru vísi en að bera þær utan á sér. 

Ég skal fá mér bókina og reyna að finna tíma til að lesa hana.  Bk - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 13.1.2008 kl. 21:47

34 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

átsjh Haukur

Svanur Sigurbjörnsson, 13.1.2008 kl. 21:50

35 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

En það sem Haukur var að benda á og kemur fram í grein hans í bókinni að á sama tíma og við vildum verja rétt dagblaðs til að ögra og móðga minnihlutahóp með skrípamyndum af því sem blaðið visi að var hópnum heilagt - þá voru tugir manna drepnir til að bæla niður mótmælin gegn teikningunum - og okkur fannst það ekkert athugavert. Lögregla drap tugi mótmælenda öðrum til aðvörunar til að þagga niður í málfrelsi þeirra um dónaskap dana - en við sjáum ekki þann sjónarhól á málið jafnvel þegar hann er matreiddur ofaní okkur.

Tilgangurinn er að benda á að ögranir af þessu tagi þjóna stríðsæsingamönnum í báðum heimum og ekki síður í okkar heimshluta, en alls ekki hagsmunum almennings hér eða þar sem vill ekkert fremur an frelsi og frið.

Helgi Jóhann Hauksson, 18.1.2008 kl. 06:46

36 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þ.e. hér á landi var sagt frá því að svo og svo margir hefðu látist í mótmælunum, svona eins og þeir hefðu sprungið af mótmælum líklega eins og litli nerastrákurunn sem söng þar til hann sprakk eða hve rþeirra sem það var, en þegar betur var að gáð þá voru þeir sem dóum af mótmælum allir skotnir af lögreglu til að stöðva tjáningu á andúð í garð myndbirtinganna. -Enginn varði tjáningafrelsi þessa fólks heldur ekki Egill.

Helgi Jóhann Hauksson, 18.1.2008 kl. 07:37

37 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Helgi Jóhann

Já ég var akkúrat að svara þeirri ábendingu Hauks í blogginu og fannst hún ekki þjóna tilgangi varðandi kjarna þessa teiknimyndamáls og fjallaði raun um annan vanda, sem er í þessum löndum múslima.  Auðvitað eru þessar ögranir óþarfar en þær eru samt ákveðinn mælikvarði á það við hverjum maður má búast við frá móðguðum islamista.  Vesalings kennslukonan í Sudan sem nefni óvart tuskubangsann Mohamed og var handtekin fyrir vikið er dæmi um hversu úrkynjuð þessi siðferði er. 

Hörð viðbrögð lögreglu í þessum löndum eru annað vandamál og kemur í raun þessu teiknimyndamáli ekkert við þó að mótmælin hafi stafað frá þeim.  Sama hverju hefði verið að mótmæla, ofbeldið hefði átt sér stað.  Vissulega er rétt að vekja athygli á því ofbeldi lögreglu en það er ekki kjarni málsins varðandi birtingu skopmyndanna. 

Svanur Sigurbjörnsson, 21.1.2008 kl. 17:10

38 Smámynd: Vendetta

"Kristnir karlmenn lemja konur sínar og nauðga stjúpbörnum án þess að íslenskir dómstólar taki hart á því." (Björn Heiðdal).

Börn, ertu ekki að gleyma því, að börnum er nauðgað daglega í múslímskum löndum, t.d. Pakistan og Bangla-Desh. M.. ég hef fjallað um þetta á bloggsíðu minni. Þetta er leyfilegt skv. sharia-lögum og engum er nokkurn tíma refsað. Nauðgun á börnum er ófyrirgefnalegur, hvort sem það gerist í kristnu eða múslímsku landi. En þetta var víst ekki góður punktur hjá þér, þar eð ofbeldi gegn konum og stúlkubörnum er lífsstíll í múslímalöndum.

Hvar sem fólk fylgir kreddum trúarbragða, ríkir ófriður, misrétti og ofbeldi. Þegar Cristobal Colón og Córtez og hinir kristnu Spánverjar, þ.á.m. Jesúítarnir gengu berskerksgang í leit þeirra að gulli í Nýja heiminum, slátruðu þeir innfæddum indíánum á flestum eyjum í Karabíska hafinu, í milljónatali. Ekki bara það, heldur skemmtu þeir sér við að pynta og limlesta indíána, þ.á.m. ungabörn. Samt gerðu þeir innfæddu engar árásir á Spánverjana og voru alveg undirgefnir. En þetta var allt gert í nafni Krists og kardínálum og prelátum kaþólsku kirkjunnar þótti þetta bara eðlilegt. Þessi svartasti blettur í sögu kirkjunnar má aldrei gleymast og aldrei fyrirgefast, ekki frekar en helförin í Evrópu.

Það er mikilvægt, að sem flestir taki upp baráttuna gegn  skipulögðum, herskáum ein- og fleirgyðistrúarbrögðum, hverju nafni sem þau nefnast. Islam, kristni, hindúismi, gyðingdómur eru rætur flestra meina í þjóðfélaginu í dag, alveg jafnt og hervæðing, sem byggist á heimsvaldastefnu og græðgi.

Ég er ekki þekktur fyrir að koma með mikið af slagorðum, en hér er eitt: Eliminate your God. Today.

Vendetta, 27.1.2008 kl. 23:55

39 Smámynd: Vendetta

Annað eldra mál, sem er skylt teiknimyndamálinu, er þegar Salman Rushdie gaf út The Satanic Verses. Ayatollahinn Khomeiny sendi út fatwa og skrílnum í borgum Írans skipað út á göturnar til að krefjast dauða yfir Rushdie. Þetta fólk hafði ekki hugmynd um, hvað stóð í bókinni og fékk aldrei að lesa hana. Svona er heimskan mikil þegar öfgatrú er annars vegar. Og ríkisstjórn Poul Nyrups í Danmörku sýndi heigulsátt, eins og Dönskum yfirvöldum einum er lagið, þegar þeir neituðu að taka á móti og vernda Rushdie í nokkra daga, þegar hann hugðist heimsækja Danmörku. En þeir létu lögguna löngu síðar í hópatali gæta stríðsglæpamanns frá Írak svo hann yrði ekki fyrir aðkasti frá Kúrdum.

Vendetta, 28.1.2008 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband