Orð í tíma töluð - fyrir löngu síðan

 Á vef Vantúar rakst ég á eftirfarandi tilvitnun í Níels Dungal læknis sem árið 1948 gaf út bókina "Blekking og þekking".  Mér finnst þessi orð hans eiga sérstaklega við í dag, ekki síður en í hans samtíma. 

 "Hver einasti læknir, sem hefir augun opin, gerir sér ljóst hve fyrirhafnarsamt það er að öðlast þekkingu um starfsemi mannslíkamans. Og hver einasti menntaður læknir veit, að engin framför hefir nokkurntíma orðið á því sviði nema fyrir einbeitingu á athugun, gagnrýni, vinnu og þolinmæði. En að öll afskipti trúarbragða af heilbrigðismálum, sem í gegn um aldirnar hafa verið mjög mikil, hafa, eins og allt annað sem er byggt á fáfræði og blekkingum, reynst lítilsvirði og ekki komið að gagni við lækningu á nokkrum sjúkdómi.

Og þegar menn sjá í gegn um blekkingarhulu töfrakenndra helgiathafna og vita hve einskisverðar þær hafa reynst til lækninga, er þá nokkur furða þótt menn verði tortryggnir á önnur heilög „sannindi", sem ekki eru skilningarvitunum aðgengileg?"

Níels Dungal, læknir

Smá djús til að sötra á yfir páskana.  Eigið þá annars gleðilega!  Páskaegg nr 3? eða stærra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Af hverju finnst þér þeta eiga sérstaklega við í dag?

Án þess að ég hafi sérlega verið að fylgjast með því þá hef ég ekki orðið var við að trúin, allavega ekki kristin trú ,hafi verið að þvælast fyrir læknum. Eina sem ég man eftir eru blóðgafir til Vottanna.

Er ég svona illa upplýstur?

Landfari, 21.3.2008 kl. 12:19

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þessi orð eiga sem betur fer minna við í norðvestur Evrópu en áður, en víða annars staðar, sérstaklega í Afríku á þetta við.  Landlæknir vitnaði nýlega um það hvernig trú fólks á galdra (tengt trúarbrögðum frumbyggja) kemur í stað lækninga með hörmulega afleiðingum.  Maður sem ólst upp í Suður-Afríku sagði mér í gær að sumir ættbálkar þar trúðu því að hægt væri að borða mold til að lækna blindu og galdramenn fengju mikið fé fyrir loforð um að endurvekja ættingja frá dauðum.

Í Evrópu er það aðallega Kaþólska kirkjan sem skiptir sér að siðferðislegum ákvörðunum lækna með andstöðu sinni gegn fóstueyðingum, stofnfrumurannsóknum, notkun getnaðarvarna og líknardrápi.  Andstaða hennar gegn noktun smokka hjálpar ekki beint í Afríku þar sem milljónir manna eru veikir af eyðni.   Vottarnir eru einnig dæmi eins og þú nefnir Landfari.  Þá eru ýmsir söfnuðir í USA sem hafa áhrif á læknisfræðina.    Samkvæmt könnun þar nýlega láta 14% lækna þar trúnna stýra vissum ákvörðunum sínum frekar en það sem kennt er í læknaskólum.  Þetta eru hlutir er varða kynfræðslu, getnaðarvarnir, fóstureyðingar aðallega.  Þá kemur þetta t.d. inní hjá lyfjafræðingum einnig því það hafa risið mál vegna þess að lyfjafræðingar hafa neitað konum um að fá afgreidda "eftirápilluna" til getnaðarvarnar. 

Hér heima vandamál sem tengjast trú og læknisfræði lítilsháttar og ætla ég ekki sérstaklega út í þau.  Hins vegar er "frændi" trúarbragðanna, kuklið, grasserandi hér og hefur skemmandi áhrif á menntun þjóðarinnar, utan stöku heilsuskaða vegna seinkaðrar eða rangrar meðferðar.  Sem betur fer gerist það ekki oft en vaxandi kukl er áhyggjuefni.

Svanur Sigurbjörnsson, 21.3.2008 kl. 12:47

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Trúarbrögð gegna almennt ekki því hlutverki að veita lækningu við sjúkdómum. Það er fullkomlega kristin afstaða að viðurkenna hlutverk sérmenntunar og fagþekkingar, vísinda og fræða, hverra á sínu sviði. Trúin ryðst ekki inn á þann vettvang til að ráðast á eða vefengja t.d. hlutverk læknisins. Engu að síður á hitt að vera hafið yfir efa, að ef til er miskunnarfullur Guð sem mátt hefur til að skapa og leiða heiminn, þá er máttur hans til kraftaverka ekki fyrir fram útilokaður. Í kristnum heimildum sést svo, að sá máttur var Jesú frá Nazaret gefinn, í fjölda kraftaverka hans. Þetta var svo sannarlega "skilningarvitunum aðgengilegt" á hans tíma, enda mörg vitni að kraftaverkum hans.

Níelsi P. Dungal var margt mjög vel gefið, en árásir hans á kristindóm voru einmitt þess háttar útúrdúr frá hans eigin sérfræðum, sem hann höndlaði illa, og hefði hann betur látið ógert að misnota orðstír sinn í læknisfræði til að útbreiða þá ósanngjörnu gagnrýni á kristindóminn, sem hann hætti sér þá út í, en gerði kröfu til meiri söguþekkingar en hann hafði á færi sínu. Um upplýst og rökleg svör gegn riti hans Blekkingu og þekkingu (1947) má vísa til ritgerðar (og sérprents) eftir hinn ágætlega lærða séra Benjamín Kristjánsson: Blekking Dungals og þekking.

Sjálfum rennur mér blóðið hér til skyldunnar að leggja inn athugasemd, því að ég er einn þeirra, sem á sínum tíma létu Blekkingu og þekkingu Dungals rugla sig í ríminu og hrekja sig út í harðvítuga andstöðu við kristindóm og kirkju. Þá átti maður margt ólært, en losnaði við þessa óværu um hálfum áratug síðar.

Jón Valur Jensson, 21.3.2008 kl. 12:51

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þá má ekki gleyma 12 sporum AA sem sum eru fín en innihalda trú eða traust á einhvern æðri mátt.  Þannig hafa AA samtökin viljandi eða óviljandi orðið ein mestu trúboðssamtök landsins.  Æðri máttur virkar hér læknisfræðilega sem "placebo" eða lyfleysa, en sú notkun er ekki talin góð latína almennt innan greinarinnar.  Þá er þess skemmst að minnast hvernig blanda trúar og eftirmeðferðar á sérstöku meðferðarheimili hafði slæmar afleyðingar í tilviki Guðmundar í Byrginu og hans heilaga sæði.  Þar fór fram víðtækur trúarlegur heilaþvottur undir verndarvæng ríkisins. 

Svanur Sigurbjörnsson, 21.3.2008 kl. 13:02

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Innlegg mitt hér var skrifað áður en ég sá þetta svar Svans hér, sem vistað er fjórum mínútum á undan mínu. Vissulega eru til galdralækningatrúarbrögð af þessu tagi. Ef Svanur kynnti sér störf kristniboða, t.d. okkar íslenzku manna í Konsó í Eþíópíu, kæmist hann að raun um, að kristnun þess fólks færir því frelsi undan bæði galdralæknum og þeirri trú á illa anda, sem oft er forsenda galdralækninganna. Kristindómurinn vinnur þar með sekúaliseringu samfélagsins, ekki á móti henni. En sekúlarisering (að veraldleg og náttúrleg svið verði séð og viðurkennd sem slík, ekki sem eitthvað yfirnáttúrlegt) er allt annar handleggur en sekúlarisminn, þ.e. hin algera veraldar- og efnishyggja, sem hafnar því, að líka sé til hið andlega, guðlega svið tilverunnar – að til sé Guð handan þessa heims (og þó í honum um leið).

Það er leitt að sjá lækni mæla hér fósturdeyðingum bót, í formi gagnrýni hans á kaþólsku kirkjuna fyrir að beita sér gegn þeim. Það hlutverk er reyndar alls ekki bundið við þá kaþólsku kirkju, því að fjöldi annarra kristinna manna hafna fósturdeyðingum, og m.a.s. Þjóðkirkjan okkar íslenzka hefur eindregið gagnrýnt þær og lagzt gegn þeim með samþykktum bæði Kirkjuþings og Prestastefnu og í mörgum safnaðarfélögum sínum. Þar að auki er svo mikill fjöldi trúlausra manna, sem hafnar fósturdeyðingum, þ.á m. fjöldi lækna og vísindamanna á því sviði.

Kaþólska kirkjan hefur ekki sýnt andstöðu við stofnfrumurannsóknir nema í þeim tilfellum, þegar verið er að deyða eða nota fósturvísa í þeim tilgangi, til tilrauna eða gernýtingar þeirra. Stofnfrumurannsóknum, sem miðast við að nota stofnfrumur úr fullorðnum eða þess vegna ungum börnum, sem og úr fylgjunni, naflastrengnum eða húðflögum í legvatninu, hefur hún ekkert á móti, en tekur að vísu afstöðu gegn klónun mannvera.

Afstaða kirkjunnar til eyðni birtist einkum í viðamiklu starfi hennar að uppihaldi sjúkrastofnana sem sinna eyðni- og alnæmisjúklingum (26.7% þeirra heilbrigðisstofnana sem meðhöndla eyðni árið 2006 voru kaþólskar) og í hvatningum hennar til sinna trúuðu til að vera skírlífir (stunda ekki kynlíf utan hjónabands), sem er öruggari leið til að forðast smit en smokkar. Þó er hjónum siðferðislega leyfilegt að nota smokka til að forðast HIV-smit, ef annað þeirra er talið smitað – það er afstaða kirkjunnar manna, sem ég tek t.d. undir, ekki aðeins af því að hún segir það, heldur var þetta siðfræðilega grunduð ályktun mín út frá kristnum frumreglum löngu áður en fréttist um þessa afstöðu kirkjunnar.

Jón Valur Jensson, 21.3.2008 kl. 13:24

6 Smámynd: Landfari

Mér finnst þetta nú vera fyrir neðan beltisstað að blanda Guðmundi og Byrginu í þessa umræðu um trúarbrögð og lækningar. Það hefur alltaf verið hægt að rugla í auðtrúa og niðurbrotnu fólki, sumthvert með lélega sjálfsímynd. Burt séð frá hvort Guðmundur gerði slæma hluti þarna í Byrginu (það er ekki búið að dæma í hans málum og ljóst að sumar sem kærðu upphaflega héldu að það væri peningur í þessu fyrir þær) þá hafa sumir komið þaðan betri menn (konur eru líka menn) þannig að ekki hefur þetta verið alsæmur staður.

Hvað er að því að nota lyfleysur ef þær hjálpa fólki. Ég held að líkami og sál vinni það mikið saman að oft geti maður hluti ef maður hefur nógu mikla trú á sjálfum sér til að geta það. Á sama hátt geta menn orðið líkamlega veikir ef þeir bara trúa því nógu sterkt sjálfir. Það er ekki hægt að neita því að trúin á eithvert æðra máttarvald hefur hjálpað mörgum til betra lífs. Á sama hátt hafa menn notað trúgirni fólks til slæmra hluta. Það þarf ekki að kasta rýrð á trúarbrögð. Hef ekki lesið Kóraninn en verið sagt að í honum sé ekki að finna neitt sem getir réttlætt þau ofbeldisverk sem framin hafa verið í nanfi Islam. Þetta sé skrumskæling ofbeldishneigra manna til að finna réttlætingu á gjörðum sínum.

Þó einhvers staðar hafi staðið á blaði að heimilið á Beiðavík hafi átt að vera rekið kristilegum anda er það ekki áfellisdómur yfir kristinni trú hvernig þar til  tóks. Ofbeldishneigðir menn geta alltaf fundið afsökun (misgóðar að vísu) fyrir ofbeldisverkum líkt og alkahólistar eiga alltaf nóg af ástæðum til að drekka. Þessar afsakanir duga þeim til að réttlæta verk sín þó enginn með heilbrigða skynsemi kaupi þær.

Landfari, 21.3.2008 kl. 16:26

7 identicon

Trúarbrögð eru misheppnuð vísindi.

Ekkert páskaegg fyrir mig, fékk reyndar að smakka hjá stráksa mínum í gær og sagði honum að Jesú hafi dáið og komið úr páskaeggi ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 18:03

8 Smámynd: Víðir Ragnarsson

Rétt athugað hjá "Landfara" að samspil hugarástands og líkama getur vissulega haft áhrif. Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að mikið veiku fólki getur beinlínis hrakað í heilsu ef það veit að fólk biður þeim fyrirbæna. Þá er ég ekki að tala um svona loddara, heldur fyrirbænir almennt.

það er samt oft sem yfirnáttúrulegum vættum er þakkað fyrir bata sem læknavísindin geta ekki skýrt en við ættum samt ekki að vanmeta mátt líkamans til að lækna sig sjálfan. Það þarf ekki trú á hindurvitni til, sérstaklega ekki þegar slík trú getur verið til hins verra.

Víðir Ragnarsson, 21.3.2008 kl. 21:27

9 Smámynd: Árni þór

Takk fyrir Jón Valur, Landvari og víðir fyrir góð svör.

Smá innlegg:
Kristin trú og læknishjálp eiga vel saman.
Guð gaf manninum visku til að nota hana en að reyða sig á visku og útiloka Guð sem gefur hana er heimska.
Það er ekkert af því að fara til læknis ef þörf er á, ég var til dæmis hjá tannlækni í vikunni.
Þó svo að ég fari til tannlæknis þá hætti ég ekki að eiga samfélag við Guð.
Ég fékk hita í fyrradag og lét biðja fyrir mér og ég var hitalaus daginn eftir án þess að taka meðul.
Ég hef orðið mikið veikur og hef leitað læknis en ég bið samt til Guðs um lækningu og handleiðslu.

Ég hef orðið vitni að Guð lækni fólk og geri kraftaverk fyrir fyrirbæn hérna heima og í Afríku, kristin trú hefur það gildi að hún upplýsir fólk eins og til dæmis á mörgum stöðum í Afríku, eyðir fáfræði og bölvun galdratrúar.
Margar kristnar kirkjur taka að sér börn sem enginn vill með hafa og gefa þeim húsaskjól, mat og menntun og aðstoð sem innifelur lyf og læknishjálp.
Kærleikur í verki og fyrirgefning er mannbætandi, margir þjást og eru andlega og jafnvel líkamlega veikir vegna skorts á fyrirgefningu og biturleika.

Árni þór, 21.3.2008 kl. 22:17

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það má vera Jón Valur að margt af því sem kristniboð hafi fært Afríkubúum hafi verið til bóta og framfara miðað við þá galdratrú og fáfræði sem þar ríkti og er því miður enn mikill hluti af veruleika fólks þar.   Þannig varð ákveðinn aðskilnaður við galdratrú þeirra og í þeim skilningi sekularisering.  Hins vegar tel ég að það hefði betur lært hreinan veraldlegan húmanisma en kristnina.  Um það verðum við ekki sammála.

Þér hefur verið sagt alrangt um Islamstrú Landfari.  Það má fylla 5 síður af A5 blaði með tilvitnunum úr Kóraninum þar sem hvatt er til fordæmingar, hegninga eða drápa á "infidels" eða fólk annarra trúa.  Ég hvet þig til að lesa um Kóraninn frá gagnrýnendum eins og Ibn Warraq ("Why I am not a muslim").  Sam Harris fjallar einnig um Kóraninn í bók sinni "The end of faith".   Einnig má lesa um raunsanna mynd af Islam í mjög einlægri bók múslímakonunnar Irshad Manji "The trouble with Islam today - A wake-up call for honesty and change".  Ekki láta einhvern segja þér um Islam, heldur kynntu þér málin sjálfur, sérstaklega áður en þú ferð að skrifa um málið.

Það er nú einmitt þetta tal um kraftaverk sem hefur farið illa með margan sjúklinginn (eða ástvini þeirra) og haldið þeim í falskri von um bata.  Það er miklu heilbrigðara að faðma staðreyndir, lífsins, berjast en taka síðan því sem að höndum ber með stóískri ró.   Þá er það einnig slæmt fyrir ástvini þeirra sem mikið veikir eru að hanga í trú á kraftaverk.  Ég hef séð hvernig slíkt veldur þráhyggju og afneitun á veruleikanum langt fram yfir þann tíma sem ætla mætti að sá veiki eigi einhverja von um bata.  Það var hreinlega sorglegt og afkárlegt að vera vitni að og gerði þeim veika ekkert gott því þessir ástvinir voru ekki í takt við raunveruleika þess veika.

Svanur Sigurbjörnsson, 22.3.2008 kl. 12:28

11 Smámynd: Sigurður Rósant

Árni Þór - "Ég hef orðið vitni að Guð lækni fólk og geri kraftaverk fyrir fyrirbæn hérna heima og í Afríku"

Það væri fróðlegt að sjá einhverja góða staðfestingu á þessum vitnisburði þínum. T.d. skýrslu eða vottorð um ástand sjúklings fyrir og eftir "lækningu".  Í þeim tilvikum sem ég hef séð af slíkum lækningum, hefur alltaf verið um fals og blekkingar að ræða. Aldrei neinar staðfestingar sem fólk vill leggja fram, vitnisburði sínum til sönnunar.

Vertu heill í vitnisburði þínum.

Sigurður Rósant, 22.3.2008 kl. 15:49

12 identicon

Trú von.... þú gleymir að nefna að kristin trú er að drepa milljónir í afríku með smokkabanni sínu.
Trú læknar ekki og hefur aldrei gert, það má vera að einn og einn alki geti nýtt sér þetta en það gæti hann gert með hverju sem er per se.
Bottom line er að það er ekkert atriðið í mannkynssögunni sem segir að kristin trú lækni, zero... bara það að enginn hafi fengið nýja útlimi í gegnum geimgaldrakarlinn er sönnun fyrir því að hann er ekki til og hefur aldrei verið til nema sem ímyndun í höfði trúaðra.
Það er árið 2008 og þú trúir þessu kjaftæði.

DoctorE (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 11:57

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vissulega gerast kraftaverk, en þau eru ekki endilega að þakka trú eða Kristi.  Það er einfaldlega eitthvað sem við getum ekki útskýrt, sem gerist.  Eitthvað sem Kristnin hefur eignað sér eins og svo margt annað eins og til dæmis allt það góða í manneskunni á að vera vegna innrætingar frá biblíunni.  En er biblían ekki líka meða ofbeldisfyllstu rita heimsins ef grannt er skoðað.  Þeir hafa líka tekið til sín allar uppákomur fólks gegnum tíðina, eins og jól og páska.  Allt þetta var til staðar áður en kristnin kom.  En þeir yfirtóku heiðnu uppákomurnar og gerð þær að sínum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2008 kl. 15:28

14 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Þótt seint sé ætla ég að segja gleðilega páska en netið hefur verið bilað hjá mér En ég er semsagt búin að borða páskaegg og annað góðgæti í óhófi

Ég er alveg á því að fólk eigi að leita til lækna með veikindi sín og fá úr því skorið hvað er að. Ég var mjög ánægð hérna fyrir nokkrum árum þegar ég veiktist alvarlega að fá góða læknisþjónustu og fá bót meina minna, sem var ekkert sjálfgefið. 

Ég þekki það af eigin raun að taka í öxlina á sjálfri mér (huglægt) og segja ........hingað og ekki lengra Margrét, nú drífur þú þig í gang.  Það svínvirkar!

Rannsóknir hafa sýnt að lítið sem ekkert er að marka hin svokölluðu "kraftaverk" eða "lækningar" á samkomum ofurtrúaðra, þar sem í lang, lang flestum tilfellum gengur "lækningin" til baka.

Ég skil heldur ekki af hverju "guð" ætti að vera að eyða orkunni sinni í fólk með bakvandamál eða meltingartruflanir, þegar það er svona mikið um hræðilega hluti í heiminum sem hann ætti að einbeita sér að og reyna að laga.

Það er nóg af úrræðum fyrir fólk með bakverki og meltingartruflanir og ýmsa sjúkdóma. Stundum veit fólk oft hvert vandamálið er en það forðast að horfast í augu við það og vill bara að "guð" taki það í burtu. 

Hvernig er hægt að losna við vandamál ef enginn skilningur er á því og ef fólk horfist ekki í augu við rót vandans? 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 25.3.2008 kl. 01:49

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Margrét

Gleðilega eftir-páska! Nú hefst baráttan við að losna við páskaeggin. 

Já akkúrat, það er óskynsamlegt að binda vonir við falsvonir. 

Sæll Haukur

Þetta eru sniðug dæmi hjá Mark Vuletic um það hvernig siðferðishugsun guðs gæti verið miðað við hvernig hann á að vera alsjáandi (omniscient) og alvitandi en aðhafast ekkert þegar fólk virkilega þarfnast hans.  Takk fyrir hlekkinn.

Svanur Sigurbjörnsson, 26.3.2008 kl. 00:11

16 identicon

Sæll Svanur minn - Guð gefur okkur frjálsan vilja og val og er ekkert að blanda sér í okkar mál nema við veljum Hann - við þurfum að leita til Hans og þá mætir hann okkur!!
Guð blessi þig og umvefji!

Ása (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 22:28

17 identicon

Nokkur vídeó fyrir að kíkja á inná þessari síðu

http://enoch.blog.is/blog/truin_a_jesu/entry/469416/

Ása (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 22:34

18 Smámynd: Sigurjón

Jamm, Ása.  Guð var nú ekki alltaf jafn ,,líberal" og þú segir.  Skv. biflíu ykkar kristinna drap hann fiska og börn, bara til að kenna Egyptalandsfaraó lexíu.  Nær hefði verið fyrir almáttugan guðinn að birtast bara faraó einfaldlega og slá hann utan undir...

Það er ekkert ,,lógískt" við sögur biflíunnar eða trú á guð eða vætti.  Læknisfræði er hins vegar lógísk og ætla ég því að binda lag mitt við hana; ekki þetta fáránlega bull sem sumir vilja boða sem heilagan sannleik, en geta svo ekki sannað það á nokkurn hátt. 

Sigurjón, 30.3.2008 kl. 03:42

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir velviljan Ása Gréta.

Samkvæmt þinni túlkun á Guði, skiptir hann sér bara af þeim sem trúa á hann.  Við hin sem teljum hann ekki til nema í hugum trúaðra erum laus við afskipti hans.  Þú ert greinilega trúuð og samkvæmt því sem þú segir ertu í einkaklúbbi með guði.  Svo segirðu: "Guð blessi þig og umvefji!".   Sérðu ekki mótsögn í þessari ósk þinni? 

Svanur Sigurbjörnsson, 30.3.2008 kl. 14:09

20 Smámynd: Landfari

Það er rétt hjá þér Svanur að maður á kansk ekki að vera tjá sig mikikið um hluti sem maður þekkir ekki. Ég ef hinsvegar engann tíma til ð fara í einhverjar pælingar á Kóraninum en þætt vænt um ef þú þekkir þetta svona vel að fá ábndingu um hvar í honum þetta er.

Hitt er svo annað það er nú líka í Biblíusögunum sem maður lærði í barnaskóla sitthvað afbrigðilegt eins og þegar Abraham að mig minnir árri að fórna syni sínum til að þóknast Guði.

Það er hellingur af muslimum sem ditti aldrei í hug að beita neinu viðlíka ofbeldi og framið hefur verið í nafni Islam en eru samt góðir og gegnir muslimar. Hættan stafar af ofsatrúarmönnum sem horfa blint á bókstafinn og hafa kanski einhverja rangtúlkun í huganum. Svoleiðis karakterar eru lík til kristnir eins og múslimar.

Held að þröngsýni og skortur á umburðarlyndi sé það hættulegasta í fari manna. Ekki hvort eða hvaða trú þeir hafi.

Landfari, 1.4.2008 kl. 01:11

21 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Algjörlega sammála. Trúarbrögð hafa ekkert að gera í læknisfræði, lögreglu, áfengismeðferð og slíku, að mínu mati. Eitt sem ég tek ekki undir hjá þér er að mér finnst óþarfi að taka alla von frá fárveiku fólki. Það er nóg að segja að hlutirnir séu alvarlegir, það borgi sig að gera ráðstafanir og allt það, en gefa fólki smá von ... eyðileggja ekki síðustu stundir þess. Ég trúi ekki á kraftaverk en vildi, held ég, halda í einhverja von, ég er viss um að mér myndi líða betur í banalegunni. Fólk ætti alla vega að hafa val um þetta. Sumir vilja vita svona hluti, ekki þó allir. Veit um fólk sem hefur lent á geðdeild eftir beinskeyttar fréttir í þessa veru ... veit líka um konu sem var gefið hálft til eitt ár. Hjónin seldu fyrirtækið, ferðuðust um allan heim og komu svo heim til að hún gæti dáið. Þetta varð hálfvandræðalegt allt saman, hún lifði í þrjú ár eftir greiningu, lyfin virkuðu betur en læknar áttu von á. Hjónin hefðu varið tímanum á annan hátt ef þeim hefði einungis verið sagt að þetta væri alvarlegt krabbamein. Ég treysti læknum svo vel að ef einhver þeirra segði mér að ég ætti hálft ár eftir ólifað myndi ég einfaldlega hlýða því.

Guðríður Haraldsdóttir, 10.4.2008 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband