Mikil fjölgun húmanískra giftinga í Skotlandi

Á nokkrum árum hefur fjöldi húmanískra giftinga á Skotlandi nærri nífaldast (frá 81 upp í 710 í fyrra) og eru nú fjórða algengasta form giftinga á meðal lífsskoðunarhópa þar, en borgaralegar giftingar án afskipta lífsskoðunarfélaga eru algengastar þar.  Karen Watts and Martin Reijns, at their Edinburgh Zoo wedding

Sagt er frá þessu í frétt BBC á sunnudaginn 20. júlí síðastliðinn.  Þessi fjölgun gerist á sama tíma og giftingum fækkar í heild hjá trúfélugum. 

Hér má lesa aðra frétt um málið og heimsækja hér vefsíðu skoskra húmanista, en þeir hafa fengið samþykkt lög í Skotlandi þar sem þeir mega ganga frá lagalegu hlið giftingarinnar rétt eins og trúfélögin.  Því er ekki til að dreifa hérlendis.

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hóf formlega sína athafnaþjónustu 29. maí síðastliðinn og hafa athafnarstjórar félagsins stýrt tveimur giftingum og þrjár til viðbótar eru í undirbúningi á næstu mánuðum.  Þetta fer rólega af stað en án efa mun vaxandi fjöldi fólks nýta sér þennan möguleika í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Glæsilegt. Skotarnir eru skynsamir, enda kunna þeir að meta alvöru viskí!

mbk, 

Kristinn Theódórsson, 22.7.2008 kl. 01:50

2 identicon

Flott, heimurinn er á hraðri leið í trúfrelsi

DoctorE (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 12:28

3 Smámynd: Kolgrima

Það er nú þegar val á milli borgaralegrar giftingar og kirkjubrúðkaups - hverju hefur Siðmennt við að bæta? Og af hverju ætti Siðmennt að geta gefið fólk lagalega saman frekar en til dæmis ég og þú?

Doksi, heimurinn? Eða Vesturlönd?

Kolgrima, 22.7.2008 kl. 14:24

4 identicon

Allur heimurinn Kolgríma... mark my words.

Persónulega finnst mér að ef mig og einhverri dömu langar að gifta okkur... að ég geti gert það sjálfur.. nú eða kjellingin ;)
Þú mátt nú hoppa á brúðgumanum eða visa versa ulala

Annars finnst mér giftingar fáránlegar, þannig er ég bara

DoctorE (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 15:38

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Kristinn, DoctorE og Haukur

Sæl Kolgríma

Munur á borgaralegri giftingu hjá sýslumanni og veraldlegri/húmanískri giftingu hjá athafnarstjóra Siðmennt er sá að sú fyrrnefnda er stutt lagaleg athöfn sem fer ekki alltaf fram á þeim tíma eða stað sem parið hefði kosið, en sú síðarnefnda er lengri og inniheldur persónulegt ávarp til parsins, siðræna hugleiðslu um lífið og hjónabandið auk tónlistar, ljóða, ávarpa aðstandenda, söngs og annað sem fólki dettur í hug að hafa við athöfnina.  Athafnarstjóri Siðmenntar getur komið hvar sem er og hvenær sem er (að gefnum fyrirvara á beiðni) til að leiða pör saman til hjónabands.  Sem sagt athöfn með aðkomu Siðmenntar yrði bæði persónulegri og hátíðlegri en hægt er að fá hjá sýslumönnum, enda hlutverk þeirra f.o.f. lagalegt. 

Þú spyrð einnig "Og af hverju ætti Siðmennt að geta gefið fólk lagalega saman frekar en til dæmis ég og þú?"

Þú gætir rétt eins spurt eins varðandi trúfélög og einstaklinga, þ.e. af hverju fá þau lagalegan rétt til þess en ekki einstaklingar?  Það er ekki óeðlilegt að félög sem sérhæfi sig í stjórnun giftinga fái lagalegan rétt til að skrá hjón, t.d. vegna þess að þau eru taldir ábyrgir aðilar og fyrst að það er farið fram á athöfn, því ekki að sameina þá lagalegu (borgaralegu) og persónulegu (trúarleg eða veraldleg) í eina til hagræðis?  Siðmennt er lífsskoðunarfélag, rétt eins og trúfélögin, þ.e. félag sem fjallar um siðferði, heimsmyndina (þekkingarfræði) og félagslegar (persónulegar) athafnir fjölskyldna.   Þannig ætti Siðmennt að fá lagaleg réttindi til giftinga rétt eins og trúarlegu lífsskoðunarfélögin, fyrst að þau hafa þennan rétt á annað borð.

Mörgum finnst þó að ekki eigi að blanda saman lagalega og persónulega (trúarlega, lífsskoðunarlega) þætti giftinga og því ættu allir að þurfa afgreiðslu eða athöfn hjá sýslumanni óháð því hvort að fólk vilji svo sýna persónulegu trúarathöfn í kirkju eða siðræna veraldlega athöfn hjá Siðmennt.   Þannig er skipulagið víða í Evrópu, t.d. Hollandi, en aftur í Skotlandi er þetta eins og hjá okkur nema að húmanistafélag þeirra hefur fengið sömu réttindi og trúfélögin til að ganga frá lagalegu hliðinni einnig.

Ef þú lest síður Siðmenntar um húmanískar/veraldlegar giftingar hlýtur þú að skilja þennan mun enn betur.

Svanur Sigurbjörnsson, 22.7.2008 kl. 18:40

6 Smámynd: Kolgrima

Ég skil þennan mun á umgjörð og er alls ekki á móti því að fólk sé gefið saman af athafnastjóra Siðmenntar, síður en svo

Ég er bara að velta því fyrir mér hvað þarf til til að athafnastjóri félags fái heimild til að framkvæma athafnir sem hafa jafnmiklar lagalegar afleiðingar og gifting. Og af hverju eitt félag ætti að fá þetta umboð frekar en annað. 

Ég ætla ekki að verja rétt klerka til lagalegra hjónavígslna en þeir eru að minnsta kosti ríkisstarfsmenn með giftingar í starfslýsingu!

Kolgrima, 22.7.2008 kl. 21:18

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Kolgríma á ný

Það er skiljanlegt að fólk fari að hugsa þessa hluti frá grunni þegar félag eins og Siðmennt kemur inn í dæmið út frá áður óþekktum vinkli hérlendis og er það vel.

Ákvörðunin um að taka ábyrgð á hinum lagalegu afleiðingum hjónabands er fyrst of fremst í hendi parsins sem er að fara að giftast.  Það sem snýr að þeim sem staðfestir bindinguna á táknrænan máta þannig að um lagalegan gjörning sé að ræða lýtur að því að fá staðfestingu þess að aðilar að verðandi hjónabandi séu ekki giftir fyrir án löglegs skilnaðar og hafi náð lögaldri og séu sjálfráða.  Svo þarf að tilkynna giftinguna lögaðilum þannig að það liggja ákveðnar skyldur þar. 

Af hverju eitt félag frekar en annað?  Skýringin liggur í því að sú ákvörðun og verknaður að ganga í hjónaband er siðræn eðlis, þ.e. þetta er loforð um tryggð, vináttu, sameign, sambýli og stofnun einhvers konar fjölskyldu. Þetta er jafnframt opinberun á þessu fyrir framan alla sem eru parinu náin.  Þó að þessa hluti þurfi ekki að gera formlega þá er þetta mikils virði fyrir marga og gjafir hjálpa fólki að stofna búið sitt þó sá þáttur vegi minna í velmegunarríkjum.  Giftingar hafa heilmikið félagslegt og siðrænt gildi og því er við hæfi að það séu fulltrúar þess siðræna félags (lífsskoðunarfélags), sem parið telur sig samsamast best, sem leiði athöfnina og fari yfir þær hugmyndir sem að baki liggja. Auðvitað má hugsa sér að einhverjir sjálfstæðir (óháðir félagi) aðilar taki að sér giftingar en það hlýtur að vera krafa hvers pars að ákveðnum hugmyndum og formi sé framfylgt auk gæða í framkvæmd athafnarstjórnunarinnar.  Félag (eða jafnvel sjálfstæðir menntaðir athafnarstjórar) sem fjallar um siðræn efni og sérhæfir sig í athafnstjórnun er þannig hæft til að fá umboð til að gifta á persónulegan og lagalegan máta.  Hins vegar má alveg aðskilja lagalega hlutann frá og fólk geti bara skráð sig gift hjá sýslumanni í votta viðurvist án þess að um sérstök lagaleg (borgaraleg) athöfn fari fram þar. 

"[klerkar] eru að minnsta kosti ríkisstarfsmenn með giftingar í starfslýsingu!" segir þú.

Þarf ekki að huga að því hvers vegna klerkar eru með giftingar í starfslýsingu rétt eins og athafnarstjórar Siðmenntar?  Það liggur eitthvað að baki og hef ég reynt að útskýra það hér að ofan, þ.e. siðræna tengingin.  Hér skiptir megin máli hvort viðkomandi er hæfur í verkið, hvort sem að hann/hún er klerkur eða athafnarstjóri hjá veraldlegu lífsskoðunarfélagi. Hvort að viðkomandi sé ríkisstarfsmaður eða ekki skiptir ekki máli.  Það geta fleiri framkvæmt lagaleg störf en ríkisstarfsmenn, þú hlýtur að sjá út fyrir það enda fullt af klerkum í óháðum söfnuðum sem eru ekki á launum hjá ríkinu.   Það er því ekkert "að minnsta kosti" við það að vera "ríkisstarfsmaður með giftingu sem starfslýsingu" og að auki ættu lífsskoðunarfélög (eins og Þjóðkirkjan) ekki að vera ríkisrekin heldur óháð ríkinu.   

PS: Vinsamlegast athugaði að orðmyndin sem Siðmennt notar (samkvæmt ráði Íslenskar málstofu Árnastofnunar HÍ) er athafnarstjóri en ekki athafnastjóri

Svanur Sigurbjörnsson, 23.7.2008 kl. 00:47

8 Smámynd: Kolgrima

Gott svar, takk  

Máltilfinnig mín brást mér! Mér fannst líka þetta orð athafnastjóri grunsamlega undarlegt án þess að átta mig á af hverju.

Ég er sammála þér um aðskilnað ríkis og kirkju og verð æ staðfastari í þeirri skoðun þrátt fyrir hamingju mína með minn séra.  Rétt eins og kirkjunnar menn eiga ekki að þurfa að þjóna tveimur herrum, þá er ekki líðandi að opinberir starfsmenn haldi þing þar sem þeir láta í ljósi skoðanir á ákveðnum hópum fólks. 

Hins vegar hlustaði ég á umræðu í sjónvarpi um þessi mál þar sem Bjarni Harðarson benti á að kirkjan hér á landi væri mun hófsamari en víða í hinum vestræna heimi. Hafi ég skilið orð hans rétt, þá vildi hann meina að það væri ef til vill einmitt vegna þess að hún er ríkiskirkja sem verður að starfa í sátt við samfélagið. Hún þarf ekki að höfða til ákveðinna hópa til að lifa af en verður að halda sig innan ákveðins ramma.

Hér eru sértrúarsöfnuðir og trúarleg sjónvarpsstöð sem byggja afkomu sína á frjálsum framlögum. Mér óar við vexti þeirra og viðgangi og finnst starf þeirra með þeim hætti að ég velti því alvarlega fyrir mér hvort Bjarni hafi ekki nokkuð til síns máls. Að það sé þrátt fyrir allt skárra að hafa ríkiskirkju sem fólk getur leitað til með þessar hefðbundnu athafnir án tillits til skoðana og trúar en að mismunandi öfgafullum sértrúarsöfnuðum vaxi fiskur um hrygg (ekki bein tilvitnun í Bjarna).

Þetta eru bestu rök fyrir ríkiskirkju sem ég hef heyrt! 

Kolgrima, 23.7.2008 kl. 15:18

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Kolgríma

Já það er ekki rétt að prestar hins lúthersk-evangelíska söfnuðar á Íslandi séu að velja á milli þess hvort að þeim þóknist að gefa saman samkynhneigða eða ekki á fullu kaupi hjá allri þjóðinni. 

Það eru fleiri en Bjarni Harðarson sem hafa bent á að hugsanlega sé betra að hafa þjóðkirkju á ríkisspenanum en að hún missi mátt sinn með því að öðlast sjálfstæði og þurfi að standa sjálf í lappirnar.  Það eru fleiri en Bjarni sem hafa ekki meira traust til almennings í landinu en svo að það fari að snúa sér til meira bókstafstrúandi trúarsafnaða fari svo að Þjóðkirkjan missi mötunarvélina sína og sérstöku vernd.  Richard Dawkins, prófessor við Oxford og einn frægasti trúleysingi heimsins, er einn þeirra og sá málflutningur er einn af því fáa sem ég er ekki sammála honum um.   Bent er á að í USA þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju hafi ríkt frá stofnun landsins og sjálfstæði frá UK hafi frjálsum einkareknum trúarsöfnuðum vegnað svo vel að líklega væru bandaríkjamenn minna bókstafstrúaðir ef þar hefði verið þjóðkirkja frá upphafi líkt og tíðkast hefur í Norður-Evrópu.  Ég held að þetta sé of mikil einföldun á þróun mála í USA og það sé ekki horft á aðra þá þætti sem skópu landið eins og t.d. að það byggðist upp af stórum hluta til af landnemahópum sem voru mjög trúaðir og voru að flýja ofríki ríkiskirkna í Evrópu.   Þetta voru púritanarnir í Nýja-Englandi, kvekararnir í Philadelphiu og mikil flóra nýrra greina út úr kaþólsku og mótmælendakirkjunni sem urðu til upp úr miðri 16. öld og þurftu nýjan heim þar sem þeir gætu lifað í friði.  Mannfjöldi USA var því aldrei einkennandi af stórum ráðandi rétttrúnaðarhópi líkt og svo mörg ríki Evrópu höfðu þróast í á hinum myrku miðöldum.   Þetta frelsi í USA hefur bæði framkallað margt að göfugusta og fallegasta sem þjóðir hafa geta státað sig af en einnig ýmislegt af því ljótasta og lágkúrulegasta sem hægt er að finna.  Bandaríska þjóðin er einstök í fjölbreytileika sínum og vídd mannlífs.  Við viljum að sjálfsögðu ekki hafa hér það sem hefur farið miður þar eða sjá uppgang hópa með kreddufullar, réttarfarslega og siðferðislega frumstæðar hugmyndir, en það er mikil einföldum að halda að fullkominn aðskilnaður lífsskoðunarfélaga (trúarlegra eða veraldlegra) frá ríkinu muni gera þjóðina ístöðulausa og leitandi í bókstafstrú.  Fólk leitar fyrst og fremst eftir hamingju og sátt við aðra.  Ef lagaramminn, menntakerfið, dómkerfið, heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið veita fólki öryggi og góða afkomu, verður minni þörf fyrir gervilausnir og költ sem lofa örvæntingafullu fólki himininn.  Áður en við höfðum gagnleg vísindi, tæki og tækni til að vinna á þeim fjölmörgu sjúkdómum sem við höfum öðlast í dag, leitaði fólk mikið til galdramanna og hvers kyns kuklara eða fyrirbæna til að reyna eitthvað í ráðaleysi og örvæntingu.  Nú er búið að leysa þetta mikið til af hólmi en því miður er kuklið ekki alveg farið.  Líkt og með blekkinguna um æðri mátt lifir blekkingin um bót meina sinna í höndum lofandi einstaklinga sem halda að staðreyndir lífsins séu samkvæmt upplifun hvers og eins.  

Tilgátan um að best sé að hafa ríkiskirkju til að halda aftur af bókstafstrú er byggð á þeirri forræðishyggju telja hina völdu ríkistrú hina bestu (eða skástu) til að ríkja yfir landinu og njóta áhrifa inní löggjöfina langt umfram aðra lífsskoðunarhópa.  Fólkið í landinu fær ekki einu sinni að kjósa um það hver eigi að vera þjóðkirkjan.  Það var ákveðið með valdboði árið 1000 og aftur með siðaskiptunum upp úr miðri 16. öld.  Hugsanlega er þetta gott forræði en fær þjóðin nokkuð um það að segja?  Ég vildi sjá húmanískar hugmyndir sem hina ríkjandi menningu í landinu því að ég teldi það kerfi siðrænna hugmynda fremri kristninni, en þröngvun þeirra gilda uppá aðra með ríkisrekinni áróðursvél gengi gegn sjálfri húmanískri hugmyndafræðinni.  Það eina sem ég tel að verði að ganga yfir alla er að ekki er hægt að merkja lög landsins merkimiðum ákveðinna stjórnmálaflokka eða lífsskoðunarhópa.   Lög endurspegla siðræna afstöðu sem lýðræðislega kosið þing ákveður og þar er ekki hægt að hampa ákveðnum hópum.   Til þess að löginn virki sem siðrænn mótor og leiðabók til verndar öllum þegnum landsins og lögreglan/dómkerfið sem verndari þeirra og úrskurðarvald, mega lögin, lögreglan og dómkerfið ekki vera fulltrúar bara sumra hópa í landinu.  Þannig getur ekki staðist að ríkið reki trúfélag sem er í eðli sínu ekki fyrir nema ákveðið fólk í landinu.   Það væri hið sama á sviði stjórnmálanna ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi sérstaka vernd forsetans samkvæmt stjórnarskrá og væri rekinn fjárhagslega af ríkinu.  Hann héti þá Þjóðarflokkurinn og um þá stöðu væri ekki kosið og börn mæðra í þeim flokki yrðu skráð beint inn í hann eftir fæðingu.   Vilji fólk áfram Þjóðkirkju af hræðslu við jafnræði lífskoðunarfélaga og að eitthvað svo gott gæti tapast úr þjóðfélaginu sem Þjóðkirkjan hefur þakkað sjálfri sér einni fyrir (um leið og hún hefur gefið eftir smám saman til að rýmka fyrir mannréttindum vegna baráttu annarra) í aldanna rás, þá hefur ekki nóg lærst um mikilvægi frelsis og jafnréttis á öllum sviðum.  Þá erum við enn að iðka alræðishyggju og forræðishyggju fortíðar, enn að stunda hlekkjun hugarfarsins og gefa rétttrúnaðarhugsun og kreddufestu sérréttindi og óáskorað vald. 

Hvernig getur það verið rétt að prestur úr einum trúarhópi landsins fái að lesa ritningu og halda einhverja hugvekju yfir þjóðkjörnum þingmönnum í sömu kirkjunni við setningu þingsins ár eftir ár?  Hvernig er hægt að samrýma slíkt lýðræðislegri hugsjón sem þetta land á að byggjast á?  Hvers vegna má helst ekki gagnrýna þetta og hvers vegna er ekki hlustað?  Hvers vegna eru þetta ekki mál sem rædd eru fyrir kosningar? 

Ef við viljum ekki að bóksstafstrú nái taki á fólki þarf að vinna gegn því með ákveðinni barnavernd þar sem þeim er tryggð menntun í almennu kerfi og kennd gagnrýnin hugsun og hvernig sönn þekking verður til.   Ríkisrekið trúarkerfi er ekki lausin að mínu mati.

Svanur Sigurbjörnsson, 24.7.2008 kl. 01:14

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott mál. Ég vona að þið farið að jarða líka. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.7.2008 kl. 10:21

11 Smámynd: Sigurður Rósant

Skref í rétta átt, að Siðmennt geti nú næstum því gefið saman karl og konu í hjónaband á sambærilegan hátt og trúfélög, ef ég skil umræðuna rétt.

Kolgríma veltir upp skemmtilegri hlið málsins - "Og af hverju ætti Siðmennt að geta gefið fólk lagalega saman frekar en til dæmis ég og þú?"

Já, er svona athöfn/aðgerð eitthvað flóknara fyrirbæri en að selja bíl, leigja út fasteign eða skrifa undir ráðningarsamning?

Er ekki nóg að formið eða pappírarnir séu löglega upp settir og útfylltir af þeim sem eiga þarna hagsmuna að gæta? Síðan er þetta mál tveggja hagsmunaaðila sem skráð er sem gjörningur hjá fógeta, sem aftur gætir þess að þarna hafi öllum lagalegum hliðum hjónabandsins verið gert fullnægjandi skil. Ekki tvíkvæni, nauðungarhjónaband o.s.frv.

Siðræni hlutinn getur svo farið fram í veislu eftir á með þeim hætti sem hentar hverju sinni, eða látinn liggja milli hluta ef parið óskar þess. Ég get ekki séð að Húmanistar eða einhverjir -istar þurfi að vera með puttann í svona samböndum.

Sigurður Rósant, 26.7.2008 kl. 11:41

12 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Gott að þú ert kominn á stjá hérna eftir smá hlé

Flott hjá skotunum!  Ég hef aldrei gift mig og er ekkert hlynnt giftingum.  Hef aldrei viljað gefa einhver heit sem ég er ekkert viss um að ég geti staðið við   Ég hef bara lifað í synd

Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.7.2008 kl. 01:02

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir öll

Nú er síðan kominn í gang eftir bilun og viðgerð hjá blog.is, en viti menn... forsíðumyndin mín breyttist úr Tjörninni í Reykjavík í appelsínubörk.  Þá eru einnig nokkrir hér í athugasemdunum búnir að missa smámyndina sína.  Annars sýnist mér þetta nú allt saman virka samt og enginn texti tapaður og það er fyrir mestu.

Ásthildur Cesil - við erum farin að jarða líka - og stýra nafngjafarathöfnum.  Kíktu endilega á www.sidmennt.is

Sigurður Rósant - Ég er sammála þér í því að það má gifta á marga vegu, einnig borgaralega án afskipta lífsskoðunarfélaga.  Hins vegar verð ég að árétta að þó að Siðmennt bjóði uppá athafnarstjóra til að stýra þessum athöfnum og hann/hún fari með hugvegju/ávarp í tilefninu, þá er félagið ekki með "puttann í svona samböndum" eins og þú nefnir það.  Ahafnirnar fara fram að beiðni fólksins sem biður um þær og það þarf ekki að skrá sig í Siðmennt frekar en það vill. 

Margrét St - gott að sjá þig sömuleiðis.  Afstaða þín er fullkomlega gild og það er ábyrgðarhlutur að gefa loforð sem maður telur að e.t.v. sé óraunhæft að gefa.  Gifting eða ekki gifting skiptir ekki öllu máli - það að koma hreint fram skiptir mestu.  

Svanur Sigurbjörnsson, 29.7.2008 kl. 11:17

14 identicon

Það var eitt sem stakk mig kæri Svanur - það var þessi hérna setning:

Ef við viljum ekki að bóksstafstrú nái taki á fólki þarf að vinna gegn því með ákveðinni barnavernd þar sem þeim er tryggð menntun í almennu kerfi og kennd gagnrýnin hugsun og hvernig sönn þekking verður til.

Því ég tel mig mjög sanntrúaða - og samkvæmt minni trú má maður alls ekki þröngva trúnni uppá nokkurn mann - í Biblíunni stendur að allir menn eigi frjálst val og frjálsan vilja og að maður eigi að elska alla menn hverrar trúar sem þeir eru.
Ég veit samt að margt trúað fólk er ekki að fara eftir þessu því miður - en þá er það líka að ganga í eigin vilja - ekki þeim kærleika og þeirri virðingu fyrir mönnum sem Jesús kenndi okkur. Svo þess vegna skil ég svo sem þessi skrif þín - en verð alltaf svo leið samt yfir þessu.

Ása (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 20:21

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Ása Gréta

Það eru margar skilgreiningar á því hvað er að vera "sanntrúaður" og meira að segja margar ólíkar innan sama trúfélags.  Þú trúir á hinn "kærleiksríka Jesú" og talar um að hann myndi ekki þröngva trú uppá aðra.  Hann segir þó í Biblíunni að hann sé kominn með sverð og það eigi breiða út trúnna um allan heim.  Þetta var tekið eins og það stóð, án afsláttar og fólk neytt til kristinnar trúar ellegar drepið eða útskúfað um gervalla Evrópu og síðar víðar.  Í dag er búið að fegra Jesú í samræmi við nútímalegt siðferði sem komst á fyrir tilstuðlan framfara á upplýsingartímanum (frá u.þ.b. 1650) og áfram.  Eftir að upp komst að Biblían reyndist hvað eftir annað úreltur pappír stóð fátt eftir nothæft nema kærleikurinn og nokkur góð boðorð.  Guðfræðingar og prestar urðu því að endurkynna Jesú fyrir þjóðum sínum upp úr 7. áratug síðustu aldar þegar síðustu stóru vígi aftarhaldshyggjunnar og forræðishyggju kirkjunnar féllu.  Útkoman var silkiþveginn Jesú og ljóðræn túlkun á Biblíunni sem var gerð að tákni frekar en lesefni.  Jesú var seldur lýðnum því nú dugði ekki að troða honum ofan í fólk sem hafði öðlast áður óþekkt frjálsræði og meðvitund um réttindi sín sem einstaklingar í lýðræðislegu þjóðfélagi.   

Leiði þinn yfir skrifum mínum er skiljanlegur ef þú ert trúuð.  Því get ég því miður ekki breytt.  Þannig eru einfaldlega hlutirnir þegar fólk er ekki sömu sannfæringar.  Við getum þó rætt málin með fullri virðingu fyrir hvort öðru og það er alltaf ánægjulegt.  Lifðu heil!  Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 6.8.2008 kl. 23:47

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gaman að sjá svona agaða og pena umræðu. Gleðifréttir frá Skotlandi. Þeir eru nú það frjálslyndir að ganga í pilsum karlarnir, svo það kemur kannski lítið á óvart. Annars eru Íbúar bretlandseyja að mestum hluta, trúlausir, efasemdarmenn eða gætiekkiveriðmeirasama menn. Það trúarofstæki og konfliktar í trúmálum, sem þar er að finna, er nánast einvörðungu út af uppvöðslu Múslima þar á bæ og umburðarlyndis pólitískra rétthugsunarhænsna fyrir því.

Þú sér um siðmenntaða þáttinn Svanur. Ég tek að mér skítverkin og skítkastið hér á blogginu. Það er fín verkaskipting.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.8.2008 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband