Fundur um kennslu í kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði

Í júni í fyrra kvað Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg (MDES) upp dóm í máli nokkurra foreldra gegn norska ríkinu - svokallað Fölgerö mál.  Málið kom til vegna þess að foreldrarnir töldu að það hallaði verulega á aðrar lífsskoðanir en kristni í námsefni fagsins kristendomskunnskap med religions- og livssynsorientering (KRL, Kristni, trúarbrögð og lífsskoðanir) og þær hluta-undanþágur sem börn þeirra gátu fengið frá faginu útsettu þau fyrir mismunun.  Málið byrjaði í Noregi árið 1995 og tapaðist fyrir öllum dómstigum í Noregi.  Málið fór svo fyrir nefndarálit Mannréttindanefndar SÞ, sem ályktaði með foreldrunum.  Loks fór málið fyrir MDES og lauk í fyrra með því að dæmt var foreldrunum í vil.  Talið var að þessar hluta-undanþágur gengju ekki upp, námið væri of einsleitt af kristni og brotið væri á rétti barnanna til náms með því að setja þau í aðstæður sem brytu á rétti foreldranna til að ala þau upp samkvæmt eigin sannfæringu.

Í dag kl 16, í fundarsal Þjóðminjasafnsins mun Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi kynna þetta mál og hafa fengið hingað til lands í boði norsku húmanistasamtakanna, Human Etisk Forbund, lögfræðinginn Lorentz Stavrum, en hann flutti umrætt mál norsku foreldranna fyrir Mannréttindadómstólnum í Strasbourg.   Upplýsingarnar koma því hér frá fyrstu hendi og frá manni sem gerþekkir málið.

Mál þetta komst í hámæli fyrir ári síðan þegar menntamálaráðherra bar upp þá tillögu að orðalagið "kristið siðgæði" skyldi víkja fyrir nokkrum vel völdum orðum sem lýstu almennt viðurkenndum siðferðisgildum eins og umburðarlyndi og virðingu.   Ástæða þessa var m.a. niðurstaða þessa dóms í máli norsku foreldranna gegn norska ríkinu, en einnig vegna "fjölda ábendinga" aðila í þjóðfélaginu.  Þetta var rétt hugsað hjá ráðherra og ráðgjöfum hennar og þjónaði þeim tilgangi að eyrnamerkja ekki starfsemi skóla einhverri einni trú þó svo að hún væri stærst í landinu.  Þá þjónaði þetta einnig tilgangi þess að taka tillit til vaxandi fjölbreytileika í lífsskoðunum í landinu.

Það fór þó svo að varðmenn ítaka Þjóðkirkjunnar og kristni í landinu hættu ekki að nagast í ráðherra og menntamálanefnd fyrr en samþykkt var að setja "kristileg arfleifð" inn í lagatillöguna þannig að enn hefði kristnin sérstakan sess í lögunum.   Einn prestssonur, alþingismaður í Framsóknarflokknum sem átti sæti í nefndinni komst að þeirri "snilldar" niðurstöðu að Fölgerö málið hefði alls ekki fjallað um þess konar orðalag í lögum og að það væri viðurkennt að kristni ætti að skipa stóran sess í námsefni þjóða þar sem hún hefði haft mikil áhrif.  Strangt til tekið var þetta rétt hjá Framsóknarmanninum svona rétt eins og þegar þjófur finnur gat í skattalögum og telur sig hafa allan rétt til að notfæra sér það.  Málið er að tilgangur dómsins var að hnekkja á mismunun og gera börnum frá ólíkum heimilum þar sem mismunandi lífsskoðanir ríkja, kleift að sækja skólana.  Ef þingmaðurinn hefði skilning á því sæi hann e.t.v. að það þjónar akkúrat tilgangi jafnréttis að taka út orðalag í lögum um grunnskóla sem gerir eina trú rétthærri en aðrar.  Það er kannski ekki vona að þingmaðurinn hafi haft skilning á því þar sem formaður hans, Guðni Ágústsson sagði þegar hann í desember 2007 var spurður af stjórnanda Kastljóss að því hvað kristið siðgæði væri , að það "væri að verja hagsmuni Þjóðkirkjunnar".  blink blink

Í inngangi að Aðalnámskrá grunnskóla um nám í kristin fræði, siðfræði og heimsspeki segir m.a.:

Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið.  Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum.  Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. 

Þetta hljómar ekki illa en þó ber að varast að taka uppeldishlutverkið frá foreldrum.  Ég er algerlega sammála því að þjóðfélagið byggist á ákveðnum grundvallargildum, en næsta setning í námskránni er lygi:

Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur.  Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum ... [breiðletrun er mín]

Hér er algerlega sleppt að nefna framlag frjálsrar hugsunar, upplýsingarinnar og húmanismans sem í raun þurfti að berjast gegn kreddum kristninnar síðustu aldir til að fá fram mannréttindi og einstaklingsfrelsi.  Þessar stefnur sem áttu uppruna sinn í heimspeki Forn-Grikkja og Rómverja (t.d. stóisminn) höfðu mjög mótandi áhrif á kristnina sjálfa sem er nú nær óþekkjanleg miðað við kristni miðalda.  Þessi setning sem er svona sett fram í Aðalnámsskrá er því lygi þó svo kristnin hafi haft manneskjulegan boðskap inní annars mjög tvíræðu trúarriti sem fékk ekki að njóta sín fyrr en að upplýsingin hafði sigrað.

Það er fleira í Aðalnámsskrá sem er í þessum dúr.  Áróður Þjóðkirkjunnar fyrir eigin ágæti og nauðsynleika er allsráðandi í skránni.  Aðrir hlutir eru nefndir á hraðbergi.  Þessi námsskrá gefur verulega skakka mynd af því hvaða hugmyndafræði er í raun mest mótandi á vesturlöndum og það þarf að laga verulega til í markmiðum þessarar greinar.   Kristnin verður áfram stór hluti, en veraldlegri siðrænni hugmyndafræði þarf að gera skil með sanni.

Fjölmennum á fundinn í dag!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli Jón

Þetta er góð grein sem fjallar um mikilvægt mál. Ég mæti á fundinn!

Óli Jón, 9.10.2008 kl. 13:40

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Óli Jón.  Sjáumst!

Svanur Sigurbjörnsson, 9.10.2008 kl. 13:44

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þess má geta að nýjasta Aðalnámskráin tók gildi í ágúst 2007.  Stjórn Siðmenntar vakti athygli Þorgerðar Katrínar í nóvember 2007 á því að námsskráin væri ekki í samræmi við jafnrétti lífsskoðana og að stórlega skorti á að veraldlegum lífsskoðunum væru gerð nægilega góð skil.  Stjórnin hvatti hana til að endurskoða námsskrána hið fyrsta en hún sagði það ekki koma til greina.  Hún lýsti því yfir að hún væri kaþólsk og því teldi hún kristni eiga ríkulegan sess í námsefninu.  Amen.

Svanur Sigurbjörnsson, 9.10.2008 kl. 13:54

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég vil benda á umfjöllun Vantrúar í dag um þetta og skemmtilegt innlegg Reynis þar sem hann minnir á texta John's Lennon í laginu "Imagine"

Imagine there's no heaven It's easy if you try No hell below us Above us only sky Imagine all the people Living for today...

Imagine there's no countries It isn't hard to do Nothing to kill or die for And no religion too Imagine all the people Living life in peace...

You may say I'm a dreamer But I'm not the only one I hope someday you'll join us And the world will be as one

Imagine no possessions I wonder if you can No need for greed or hunger A brotherhood of man Imagine all the people Sharing all the world...

You may say I'm a dreamer But I'm not the only one I hope someday you'll join us And the world will be as one

Megi minning hans lengi lifa!

Svanur Sigurbjörnsson, 9.10.2008 kl. 13:59

5 Smámynd: Sigurður Rósant

Já, spennandi. Og hvað sagði Lorentz Stavrum ?

Mælir hann ekki með að við trúfrjálsir krefjumst þess að kristinfræðikennsla verði alveg lögð niður í grunnskólum?

Sigurður Rósant, 9.10.2008 kl. 20:43

6 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Þetta var góður og áhugaverður fundur. Þjóðin er svo samdauna kirkjunni að hún er hætt að koma auga á kreddurnar sem leynast í opinberum skjölum ríkisins. Ég fagna því að Siðmennt sé að vekja athygli á þessu máli.

Eins og þú réttilega bentir á Svanur, hefur frelsi og réttlæti hreint ekki alltaf tónað vel við kristna kirkju og því seint hægt að halda því fram að hún sé undirstaða þeirra mannréttinda og lífskjara sem við njótum í dag.

Það er líka margt athugavert við að börn séu látin læra biblíusögur á undan öðrum skýringum á eðli heimsins. Biblíusögur ættu að mínu mati að vera söguleg fræðsla, kannski á framhaldskólastigi, en ekki sjálfsagður lærdómur á unga aldri.

Fáum þessu breytt til hins eðlilegra.

mbk,

ps. það var gaman að sjá Ásatrúarfulltrúa þarna og heyra hversu vandaður hennar málflutningur var.

Kristinn Theódórsson, 10.10.2008 kl. 09:40

7 identicon

Aldrei hefur það verið mikilvægara en nú að taka ríkiskirkju af spenanum.... við erum að henda ~6 milljörðum í ekki neitt nema kufla og ímyndaða vini þeirra.
Núna þegar við erum að skríða inn í moldarkofana aftur þá er það krafa mín að þessari hjátrú og sundrungarafli veriði sagt upp hið snarasta & peningar notaðir í það sem skiptir máli, fólkið.

Það var ekki kristilegt siðgæði sem skapaði frelsið okkar... frelsið kom ekki fyrr en kirkjur og kuflar voru þvinguð í mannlegt siðgæði.
Hvers vegna er fólk að halda í þá hluti sem klárlega gera ekkert nema að sundra okkur sem manneskjur.... fólk verður að gera sér grein fyrir því að trúarbrögð spila inn á lægstu hvatir mannkyns... sjálfselskan trónir á toppnum.

DoctorE (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 11:01

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sigurður R - Nei auðvitað mælti Lorentz EKKI með því að afnema kristinfræðikennslu, en lagði til að kennt yrði fag sem inniheldur fræðslu um vítt svið lífsskoðana, bæði trúarlegra og veraldlegra. 

Kristinn - Gaman að sjá þig á fundinum.  Lorentz kom með marga góða punkta.  Ég birti bráðum video með honum.  Sammála því að fulltrúi ásatrúarfólks var mjög hæf.

Heyr heyr DoctorE!

Svanur Sigurbjörnsson, 11.10.2008 kl. 04:22

9 Smámynd: Sigurður Rósant

Æ, það er sorglegt að Lorentz Stavrum sér ekki nauðsyn á því að leggja niður kristinfræðikennslu. En það er svona þegar menn eru með hausinn á kafi í lögfræði og yfirlýsingafögrum námskrám. Þá sjá þeir ekki hversu gagnslaus kristinfræðikennsla er og tilgangslaus í höndum mis áhugasamra kennara.

Mér sýnist þetta umrædda mál vera eins og kraminn fiskur sem verið er rembast við að búa til seljanlega afurð úr.

Sigurður Rósant, 11.10.2008 kl. 11:45

10 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Sigurður Rósant: Hvers vegna í ósköpunum vilt þú að kennsla um kristna trú verði lögð niður í grunnskólum? Nú er ég þeirrar skoðunar að kennsla í kristinfræði sé oft meingölluð og ótrúlega hlutdræg kristnum sjónarmiðum miðað við fræðslu um önnur trúarbrögð, einkum vegna þess að prestar þjóðkirkjunnar eru oftast höfundar kennslubókanna.

Hins vegar sé ég enga glóru í því að menntun um þau trúarbrögð verði sleppt í skólum þótt mér t.d. þyki kristinn boðskapur oft æri vafasamur.

Kristján Hrannar Pálsson, 11.10.2008 kl. 20:41

11 Smámynd: Sigurður Rósant

Kristján Hrannar: Ég hef kynnt mér námsefni í kristnum fræðum frá ca. 1960 og til dagsins í dag. Kennt þetta námsefni á árunum 1973 - 1984 eða yfir 20 ára tímabil. Einnig haft sérstakan áhuga á því að kenna það á sem hlutlausastan máta. Námsefni um Hindúisma, Búddisma, Gyðingdóm og Islam hef ég einnig kennt frá því það námsefni kom út á 8. áratugnum og með sama hugarfari.

Niðurstaða mín af þessum kynnum námsefnisins og reynslu minnar sem miðlari þess er einfaldlega á þá vegu að hér geti ekki verið annað á ferðinni en innræting kristinna kenninga í koll blásaklausra ungmenna.

Ef við gerðum þetta sama við stefnu Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins eða Sósíalistahreyfingarinnar og semdum námsefni og reyndum að kenna á hlutlausan máta, gætum við þá forðast innrætingu?

Ekki veit ég um reynslu þína Kristján, en ef hún er ekki í þeim mæli sem mín reynsla er, taktu þér þá einhverja kennslubók í hönd, farðu yfir hana og gáðu hvort þú kemst ekki að sömu niðurstöðu.

Bókin "Brauð lífsins" sem gefin var út 1994, höfundar Sigurður Pálsson og Iðunn Steinsdóttir, er t.d. full af yfirlýsingum sem við getum kallað 'innrætingu'. bls. 8 "Þá sagði Drottinn við Móse. "Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa ykkur"....

Slíkar yrðingar, þó að séu í formi sögu, eru innrætandi og móta viðhorf lesandans, sem eru börn í þessu tilviki.

Ef börnum yrði sleppt við slíkan lestur þar sem svona yrðingar koma fyrir aftur og aftur, er hægt að tala um hlutlausa fræðslu. Samning námsefnis án tilvitnunar í sögur Biblíunnar er ógjörningur og þar af leiðandi er sama hvort höfundurinn er prestur eða algjörlega trúlaus, hann kemst ekki hjá því að leggja innrætandi texta fyrir lesandann.

Saga Sjálfstæðisflokksins t.d. kæmi út á sama hátt og ógjörningur væri að koma í veg fyrir innrætingu af svipuðu tagi.

Að auki eru kennarar mjög illa undir það búnir að svara spurningum forviða barns á t.d. þessa vegu: "Af hverju lætur Guð ekki rigna brauði yfir börnin sem svelta í Afríku eða Indlandi líka?"

Betra þykir mér að sleppa þessu fagi alveg og efla kennslu í íslenskri málnotkun, stærðfræði eða öðrum raungreinum. Þetta fag skilur ekki eftir neina þekkingu á kristindómi, hvorki sögulega né kenningarlega. Námsefnið öll þessi ár fer inn um annað og út um hitt, eins og stundum er sagt.

Sigurður Rósant, 11.10.2008 kl. 22:47

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það er margt til í því sem þú segir en ég held að það sé samt betra að reyna að kenna um trúarbrögð og lífsskoðanir á eins fræðilegan máta eins og hægt er, heldur en að sleppa því.  Það er uppgjöf að sleppa því og með því að fá enga fræðslu um þessi efni verður það undir heppni eða óheppni komið hvað börnin munu læra um þessa hluti síðar meir í lífinu.  Jafnvel þó einhver hlutdrægni fylgi af hálfu kennarans eða námsefnisins, þá er betra að hafa fengið umfjöllun um efnið en ekki.  Hins vegar er spurning um hvenær eigi að byrja á svona námsefni.  Lífsskoðanir, rétt eins og stjórnmál geta verið mjög flókin.  Ég tel rétt að byrja á að kenna einfalda rökfræði og einfalda heimspeki og siðfræði áður en annað er kennt.  Það skiptir auðvitað mjög miklu máli hvernig nálgunin er en að sleppa því að kenna um trúarbrögð finnst mér ekki lausnin.

Hvað með framhaldsskólana Sigurður?  Finnst þér í lagi að kenna þetta þar? 

Svanur Sigurbjörnsson, 12.10.2008 kl. 15:23

13 Smámynd: Sigurður Rósant

Kristinfræði eða trúarbragðafræði er ekki kennd í framhaldsskólum eftir því sem ég best veit.

Undantekning getur þó verið í einhverjum sérskólum eða sem valgrein á einhverjum brautum framhaldsskólanna.

Á háskólastigi í Kennaraháskólanum er eða var þetta valfag. Ef þetta er ennþá valgrein, þá geta menn ímyndað sér hve kennarar geta verið vanbúnir undir að kenna þetta fag.

Kennarinn hefur lítil sem engin áhrif á hvernig nemandinn tileinkar sér boðskap (trúboð) námsefnisins. Einstaka kennari sem er trúaður getur þó notfært sér tækifærið og stundað hörku trúboð í Jesú nafni.

Sigurður Rósant, 12.10.2008 kl. 16:51

14 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Sæll Sigurður:

Mér finnst skrýtin rök að ekki sé hægt að fjalla um tiltekið málefni án þess að gera það á hlutdrægan máta. Það er vel hægt að fræða grunnskólanema um frönsku byltinguna eða kristnitökuna á Íslandi án þess að reka áróður fyrir málstað hvorra aðila fyrir sig. Þrátt fyrir þína löngu og sjálfsagt lærdómsríku reynslu sem kennari er það flestum ljóst að hægt er að fræða fólk um hlutina á hlutlausan máta - annars ertu að gengisfella velflesta skólakennslu hins vestræna heims á þeim forsendum að ómögulegt sé að fræða um hlutina á hlutlausan máta, og slík hugsjón finnst mér votta af ákveðinni uppgjöf. Var sögukennslan sem ég fékk um gríska goðafræði í MR óhjákvæmilega blönduð áróðri kennarans um mikilvægi þess að dýrka Seif? Mér finnst í rauninni samasemmerki þitt á milli boðskaps og trúboðs fáránlegur - þótt ég efist ekki um forskot þitt sem trúlauss einstaklings að fræða nemendur um trúarbrögð heimsins.

Kristján Hrannar Pálsson, 14.10.2008 kl. 23:53

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég vissi að trúarbragðafræði er ekki kennd í framhaldskólum en þar sem þú vilt ekki kenna hana í grunnskólum, þá vildi ég spyrja þig hvort að þú teljir að framhaldsskólanemar geti numið efnið.

Kennarinn getur ekki tekið ábyrgð á því hvort að einhver nemandi fari að taka eitthvað sem kennt er á fræðilegan máta, bókstaflega.  Við verðum að taka einhverja áhættu í lífinu og ef við óttumst að kenna börnum hugmyndafræði, þá læra þau heldur ekki neitt.  Væri það ekki alger uppgjöf? 

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2008 kl. 00:02

16 Smámynd: Sigurður Rósant

Kristján Hrannar - Af skrifum þínum get ég mér þess til að þú hafir ekki orðið við áskorun minni um að kíkja aðeins í kennslubók í kristnum fræðum fyrir grunnskóla.

Þú kýst hins vegar að sneyða hjá umræðuefninu og fara út í sögukennslu í grunnskóla og menntaskóla

Þú segir: "Mér finnst í rauninni samasemmerki þitt á milli boðskaps og trúboðs fáránlegur"

Ef þú heldur þig við texta kennslubóka í kristnum fræðum fyrir grunnskólabörn, en ferð ekki út í texta sögukennslubóka, ættirðu að átta þig á því hvað ég er að fara.

Svanur -  Hvers vegna ertu að spyrja mig um það sem ekki er og ekki stendur til að gera? Trúarbragðafræði er/var einungis kennd í 7. eða 8. bekk grunnskóla. Þ.e. einn vetur. Margir skólar slepptu þessu fagi vegna þess að kennarar voru ekki undir það búnir að kenna þetta námsefni.

Ég hélt hins vegar að aðal deilumálið væri kristinfræðikennslan en ekki trúarbragaðafræðin. Hugmyndafræði sú er birtist í trúarbrögðum er svo mismunandi og túlkuð á svo margvíslegan máta að ekki er auðvelt fyrir þann sem aldrei hefur velt slíkum 'ideologium' fyrir sér að fjalla um þær gagnvart börnum án þess að hans sannfæring skíni í gegn.

Kristinfræði í grunnskólum getur aldrei verið kennd á fræðilegan máta, hvorki með þeim kennslubókum sem til eru, né með þeim kennslubókum sem til geta orðið í þeim efnum. Ef þið Svanur og Kristján efist um orð mín, ættuð þið að sækja hið snarasta um að fá að spreyta ykkur á nokkrum kennslustundum í þessum fræðum í næsta grunnskóla. Ykkur yrði örugglega vel tekið eins og öðrum kennaranemum - og kæmuð reynslunni ríkari til rökræðna við mig. Þið sjáið að enginn starfandi grunnskólakennari telur ástæðu til að setja ofan í við mig við þetta spjallborð. Hljóta að vera sammála mér.

Sigurður Rósant, 16.10.2008 kl. 23:37

17 identicon

Fjármála og bankaheimurinn hefur lítið sem ekkert tileinkað sér kristilegt siðgæði, og árangurinn kemur í ljós þessa daganna . Já, já pantiði bara meiri afkristnun og sökkvið svo dýpra með mommonsdýrkandi "útrásarvíkingum" sjálfum ykkur og öðrum til eilífrar tortímingingar .

Já, og hvað vilja menn svo í stað kristnifræðikennslu í skólum ? Hlutabréfaviðskifti kannski ?

conwoy (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 17:46

18 Smámynd: Kristinn Theódórsson

"kristilegt siðgæði"

Er það eitthvað í ætt við það "umburðalyndi" sem þú sýnir samkynhneigð Convoy?

mbk,

Kristinn Theódórsson, 20.10.2008 kl. 18:05

19 identicon

Kristilegt siðgæði innifelur ekki kynvilluvæðingu í sér . Kristilegt siðgæði býður þess í stað upp á meðferð til að losna við "öfug-hvatir" sem valda samkynhneigð . En þegar kristnir  bjóða samkynhneigðu fólki upp á meðferð til að verða eins og eðlilegt fólk, er það kallað illum nöfnum,(kristna fólkið) og tækifærið notað í leiðinni til að afbaka kristin viðhorf og gildi . Sorgleg fáviska og þröngsýni almennings á sér engin takmörk .

conwoy (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 18:53

20 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Það er nú heila málið Conwoy, "kristilegt siðgæði" hefur oft einkennst af tilraunum til að hola öllum ofan í sama mótið og fordæma hluti sem ekki passa inn í "kassann".

Menn fordæma nýja þekkingu, hegðun og menningu í nafni kristninnar sem ekki í fljótu bragði hentar söfnuðunum eða einhverjum klerkum sem þykjast þekkja vilja Guðs betur en aðrir.

Hefurðu þá samúð með málstað þessara aðila og þessa manns?

Kristinn Theódórsson, 20.10.2008 kl. 19:00

21 identicon

Kristilegt siðgæði hefur ekki þau einkenni að "hola" fólki í eitthvað ákveðið mót . Þeir sem tileinka sér kristilegt viðhorf, meiga ekki  taka þátt í því að skapa eitthvað þægilegt svigrúm, til þess að allir geti unað í sátt og samlyndi með allrahanda syndir innann borðs .

Þeir sem vilja endilega lifa syndugu lífi, eins og t.d samkynhneigð, meiga það alveg mín vegna . En svoleiðis fólk á ekki að skipa kristnu fólki að umbera þetta líferni, og allra síst að knýja presta til að afneita þessu líferni sem villu . Bókin sem kristnir byggja trú sína á, hefur aldrei talað um annað en að kynvilla sé villa . En ennfremur segir bókin, að allar misjafnar og vafasamar hvatir séu læknanlegar . 

conwoy (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 19:49

22 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Nei viti menn.  Ótrúlegt hversu fyrirsjáanlegt þetta er.  Mér var akkúrat að detta í hug að heitkristnir myndu nú kenna Mammon eða skorti á kristni um fall útrásarinnar og ég setti athugasemd um það við blogg mitt um "Nauðsynlegan aðskilnað trúarbragða og stjórnmála" rétt áðan.   Svo er það næsta sem ég sé er að hér mætir conwoy og er kominn með þessa réttlætingu fyrir kristnina sína.  Hann bætir um betur og reynir að koma guðsóttanum í okkur:

"sökkvið svo dýpra með mommonsdýrkandi "útrásarvíkingum" sjálfum ykkur og öðrum til eilífrar tortímingingar"

Alveg stórkostlegt.  Hlið helvítis hafa opnast og bahhhhaaaaaa  woohhhaaaa  ... tortímingin er á næsta leyti.  Guðleysingjar landsins - tökum höndum saman svo við lendum ekki í tortímingareldinum woahhhhh...bú!

Svanur Sigurbjörnsson, 22.10.2008 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband