Ákveðni eða yfirgangur - Þurfum við frussandi fréttamenn?

Fyrir fréttamenn í ljósvakamiðlum verður það að teljast mikill kostur að vera fylginn sér og sýna ákveðni, en það er talsverður munur á því að vera böðull í fréttamannslíki yfir í það að vera hnitmiðaður og faglegur í vinnubrögðum. 

Endurkastið

Undanfarið hafa sumir fjölmiðlamenn farið á nornaveiðar í kreppunni sem riðið hefur yfir.  Helgi Seljan hjá RÚV hefur að vísu hegðað sér mun verr áður en fékk fyrst nú á dögunum að heyra það eins og sagt er.  Forsætisráðherra kallaði hann dóna þannig að allir heyrðu þegar Helga hélt sig einan fréttamanna hafa leyfi til að halda spurningum áfram eftir að ráðherrann hafði sagt fjölmiðlafundi slitið.  Í atgangi funda sem þessa var þetta ekki stór sök en trúlega var þetta bara kornið sem fyllti mælinn hjá Geir Haarde, því Helgi hefur lengi iðkað það að koma fram með ótrúlegum fruntaskap í viðtölum sínum í Kastljósinu og er rödd hans oftar en ekki hlaðin tilfinningum vantrausts og fyrirlitningar, rétt eins og hann búist alltaf við því versta í fari viðmælenda sinna.  Spyrlar eins og Helgi virðast reyna að koma viðmælendum sínum úr jafnvægi með hraða og innígripum þannig að nær ómögulegt er að koma einhverju heilsteyptu til skila.  Þjóðin hefur kvartað yfir því að það vanti gott og hæfileikaríkt fólk á alþingi, en hver vill starfa við slíkt þegar umræður um stjórnmál í sjónvarpi ná ekki upp fyrir sandkassastigið?

Helgi Seljan er ekki sá eini sem hefur verið kallaður dóni af Geiri Haarde en síðasta vor fékk annar fréttamaður þann heiður þegar hann kom ómeldaður inní Stjórnarráð til Geirs og fór að spyrja spurninga á tröppunum.   Geir er heldur ekki sá eini stjórnmálamaður sem hefur gert athugasemdir við framkomu fréttamanna uppá síðkastið. 

Í viðtalsþætti nýlega ámynnti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra þáttastjórnendur og sagði ábyrgð þeirra væri mikil í svona erfiðum tímum.  Hún kvartaði yfir því að geta ekki lokið við setningar sínar og ekki að ósekju.  Það er óþolandi fyrir hvern sem er að vera truflaður í sífellu þegar talað er fyrir fram alþjóð og fá ekki frið til að skýra út sitt mál sem best maður má.  Hvernig er hægt að ætlast til að gæði svara stjórnmálamanna séu mikið meira en í lágmarki þegar samtölin líkjast meira orðaflaumskeppni í ætt við Skaftárhlaup frekar en vandaðri köfun í viðfangsefnið? 

 

Súrt silfur 

Egill Helgason reyndi hvað hann gat til að svínbeygja og logsjóða Jón Ásgeir Jóhannesson í Silfrinu sínu síðastliðinn sunndag.  Hann ætlaði sér svo innilega að vera Hrói höttur okkar Íslendinga og fletta ofan af útrásarhöfðingjanum.  Æsingurinn var gífurlegur.  Ásakanir í formi spurninga flæddu úr munni Egils og Jón Ásgeir þurfti að segja ítrekað "Egill, þú veist..." og horfa einbeittur í augu hans til þess að reyna að róa hann niður.  Egill virðist elska það þegar eitthvað niðurrif og upplausn er í gangi.  Ég man vel þegar hann ól á klofningi innan Frjálslynda flokksins fyrir tæpum 2 árum síðan með því að etja saman fólki og spá hinu versta.  Það hlakkaði í honum.  Hann hafði rétt fyrir sér á endanum, en hann lagði sitt á árarnar til að svo yrði.  Nú er ég ekki í aðstöðu til og hef ekki þekkingu til að dæma um það hvort að Jón Ásgeir eða aðrir stórfjárfestar eigi einhverja sérstaka sök á því hvernig komið er fyrir bönkum og fjárfestingarfyrirtækjum Íslendinga, en sú bombardering sem Egill lét hrynja á honum færði mann ekki neitt nær því að vita sannleika málsins.  Jón Ásgeir á a.m.k. vissa virðingu skilið fyrir að koma fram í fjölmiðlum nú tvisvar til að útskýra það sem að honum snýr, sem er meira en aðrir stórfjárfestar hafa gert.  Hvort að allir eru ánægðir með svörin er annað mál en hann sýnir þó ábyrgð og svarar fyrir sig.  Spurningar Egils voru ómarkvissar og lýstu ekki þekkingu á málum.  Hann talaði um fjárglæframenn og var fullur af reiði og hefnd.  Skyldi hann hafa tapað fé á mörkuðum?  Spyr sá sem ekki veit.  Lét hann persónulegar ófarir ráða ferðinni eða er Egill Helgason bara ekki betur af manni gerður en þetta?  Hvers vegna er RÚV alla landsmanna með mann í vinnu sem spúir móðgunum yfir viðmælendur sína og hellir sér yfir þá með offorsi?  Er faglegur metnaður í þessari ríkisstofnun að nálgast frostmarkið?

 

Hvernig á að grilla?

Auðvitað þarf stundum að endurtaka spurningarnar þegar viðmælandinn reynir að forða sér með því að snúa út úr, ég er ekki að kvarta yfir vel ígrundaðri grillun þegar hún á við.  Grillun er hins vegar ekki mæld í hávaða eða talhraða heldur innihaldi.  Ætli fréttamaður sér að upplýsa eitthvað eða fá fram sannleika er hægt að nota alls kyns rökfastar nálganir og góður fréttamaður þekkir þegar verið er að komast undan ábyrgð með því að snúa útúr eða svara með allt öðru.  Helgi Seljan verður ekki ásakaður um að vilja ekki kafa ofan í málin en offorsið er slíkt að viðmælandinn fer í baklás.  Fréttmaður þarf að afla sér ákveðinnar virðingar til að öðlast traust og öfluga viðveru sem erfitt er að hunsa.  Fréttamaður þarf að sýna sjálfsöryggi þess sem hefur þekkingu á viðfangsefni sínu og með fagmennsku laðar fram fagmennsku í viðmælanda sínum.  Helgi hefur sýnt merki framfara undanfarið og þótti viðtal hans við forsetann nýlega vera með ágætum. 

 

Hvað er til ráða?

Vissulega þurfum við að finna hvar brestirnir urðu og hvar ábyrgð lykilmanna í fjármálageiranum lá, en það verður ekki gert með æsingi og flumbrugangi.  Þjóðin þarf ekki reiða fréttamenn með ómarkvissar árásir út í loftið til þess að gera þetta áfall subbulegra en það er.  Það er eðlilegt að fólk reiðist vegna ástandsins en þeirri reiði þarf að finna farveg til uppbyggilegrar rannsóknar, breyttra viðskiptahátta og framfara í fjármálastjórnun.  Líklega þarf að skipta í brúnni sums staðar og takast á við fólk sem hefur farið illa með fé og fjárfestingar, en því skal ekki gleyma að hér er um mjög flókið ástand að ræða og alhæfingar geta verið mjög varasamar.  Mikilvægt er að byggja upp betra viðskiptasiðferði og efla ábyrgðatilfinningu þess fólks sem tekur stóru ákvarðanirnar í fjármálageiranum.  Hugsunin um "að taka bara af því að ég get það" hefur sýnt sig að leiðir til hörmunga á endanum.  Þegar frelsi manna til athafna er mikið, er auðvelt að misnota það og því miður virðist stór hluti hins kapítalíska heims hafa gert einmitt það, með keðjuverkandi áhrifum.  Nú tala forystumenn stærstu iðnríkja heims um að það þurfi að herða á öllum reglum.  Það er ljóst að skepnuna þarf að temja.  Nú er bara spurningin; hversu oft þurfum við að hrasa á leiðinni áður en við lærum að byggja okkur ekki hallir úr sykri?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Frábær pistill hjá þér, en ansi langur líkt og þeir verða oft hjá mér.

Sammála þér varðandi Helga.

Ég veit ekki með Egil og Jón Ásgeir. Mér hefði þótt allt í lagi að vera reiður, en Egill var ekki nógu málefnalegur og harðskeyttur í spurningum sínum og það kom í raun ekkert út úr þessu. Jón Ásgeir var mikið rólegri og yfirvegaðri heldur Egill. Jón Ásgeir er auðvitað vanur að eiga við allskonar fólk og plata fólk upp úr skónum. Menn verða ekki svona "ríkur" - er hann kannski ekkert ríkur lengur - nema að vera svona.

Ég skil hvað þú átt við með uppgjörið. Ég skil hins vegar einnig reiði fólks eins og mín, sem reynir að vera með allt sitt á þurru: vel menntaður, með ágætis tekjur og er hjá ríkinu, gerir skammtíma- og langtímaáætlanir, er í greiðsluþjónustu og búinn að vera í mörg ár, keypti engin hlutabréf, tók aðeins eitt bílalán í myntkörfu, átti 60% í húsinu sínu og hélt að það væri í raun í góðum málum. 

Ég var með allt í skilum og fína í ágúst og síðan ríður þetta á og maður er bara farinn að pæla í því, hvort maður hafi þennan vetur af ef verðbólgan fer í 20-30%, gengið heldur áfram að vera svona eða fellur meira o.s.frv.

Og þetta allt út af einhverjum 20-30 gráðugum kaupsýslumönnum og meðreiðarsveinum þeirra!

Fólk vill uppgjör við stjórnmálaflokkinn sinn (í mínu tilfelli Sjálfstæðisflokkurinn), þingmennina og ráðherra sína, eftirlitsstofnanir og Seðlabankann og síðan þarf maður að gera upp við sjálfan sig, sem er sennilega erfiðast!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 14.10.2008 kl. 17:57

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Svanur.

Ég tek undir þessar ábendingar þínar í öllum meginatriðum. Egill missti stjórn á aðstæðunum í viðtali sínu við Jón Ásgeir og um leið og tilfinningarnar báru hann ofurliði stöðvaðist upplýsingastreymið. Jón Ásgeir var ekki lengur í viðtali, heldur  sat hann undir stórskotahríð þar sem ekki var lengur rúm fyrir rökræðu.

Þetta var afleitt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 14.10.2008 kl. 21:49

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Guðbjörn

Já, þetta er hræðileg óvissa sem þú og margir landsmenn eru í nú.  Traustið er einnig brostið.  Við greiddum stimpilgjöld, lántökugjöld, verðtryggingu, vexti og svo uppgreiðslugjöld ef að manni lánaðist að greiða eitthvað upp hraðar, þannig að gróðinn var bankanna.  Svo þegar búið er að klúðra öllu fjárfestingarævintýrinu er það ríkið, fólkið í landinu sem þarf að bera endanlega ábyrgðina.  Í uppgjörinu sem þú nefnir þarf að endurskoða verulega hvernig við veljum fólk inn á prófkjörslista.  Það þarf hæfara og sérstaklega siðsamara fólk í stjórnmál.  Flokksgæðingastarfsemi þarf að víkja.  Losa þarf kirkjuleg tök á stjórnmálum og efla gagnrýna hugsun og ábyrga sjálfsskoðun.  Setja þarf siðareglur rétt eins og ýmsar aðrar stéttir hafa.  Flakk stjórnmálamanna milli flokka gengur ekki.

Sæl Ólina

Takk fyrir innlitið Vestfjarðahetja.  Já, það má segja - þetta var afleitt.  Þú ættir nú að þekkja vel fréttamennskuna úr þínum reynsluheimi og því gott að heyra að þú sért sammála.

Svanur Sigurbjörnsson, 14.10.2008 kl. 23:07

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ég er alveg sammála, verst bara að rólegir og málefnalegir fréttamenn eru oft ranglega sakaðir um að vera of vægir við viðmælendur sína og vilja sanna hið gagnstæða. Held að það sé alla vega oft raunin, því miður.

Guðríður Haraldsdóttir, 15.10.2008 kl. 00:30

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Guðríður

Já það er mikil til í því hjá þér.  Því miður fanga þeir oftast athygli fólks sem busla mest.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2008 kl. 00:38

6 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég er algerlega sammála þér, Svanur, þakka þér fyrir þennan pistil. 

Ég hef lengi verið á leiðinni að gera alvarlegar athugasemdir við framkomu spyrla í Kastljósi og víðar, þá allra mest og helst við framkomu Helga Seljans, sem mér finnst gersamlega óverjandi á köflum og afskaplega hvimleið og lágplana nær alltaf.

Egill í Silfrinu olli mér gífurlegum vonbrigðum með því að hoppa svo gersamlega út úr hlutverki sínu í þættinum sl. sunnudag, verða ófaglegur og missa sjónar á aðalatriðum. Agaleysið hjá okkur Íslendingum birtist víða.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 15.10.2008 kl. 12:02

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Guðný Anna

Já og það eru fleiri sammála okkur.  Ólína Þorvarðardóttir bloggaði um þetta og í Mbl í gær þriðjudag skrifar Ólafur M. Jóhannesson ritstjóri sérstakan dálk á blaðsíðu 27 sem ber heitið "Fréttatrúður" og er þar að tala um ómálefnalega framkomu Egils.

Já agaleysið birtist víða. 

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2008 kl. 13:31

8 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Svanur! Þakka þér góðan pistil með skýrum rökfærslum. Ég tek undir öll megiatriði sem þú nefnir og hef oft undrað mig á því hve lítill metnaður er hjá stjórnendum þessara fjölmiðla, fyrir faglegri þekkingu efnahagsmála hjá umsjónamönnum viðtalsþátta um þau mál.

Ég held að það sé rétt sem kemur fram hjá Guðríði, að fréttamenn séu að reyna að svara óánægju vegna lélegra þátta, með því að vera með meiri hávaða og yfirgang. Það er slæmur misskilningur á þeirri óánægju sem látin hefur verið í ljós. Hún snýst, að mínu mati, fyrst og fremst um alvarlegan þekkingarskort fjölmiðlafólks á flæðileiðum efnahagsmála. Þess vegna skilja þeir iðulega ekki þau svör sem lögð eru fram og geta því ekki undið málefnið áfram af þekkingu og fengið þannig heilstæða mynd, sem menn geta svo verið sammála eða ósammála.

Í pistli þínum nefnir þú spursmálið um hver ástæða þessa mikla hruns hafi verið. Hún er mjög skýr fyrir mér, kannski af því ég þekki málin innanfrá, var í hagdeild banka.

Höfuðástæðurnar eru einkum tvær. Annars vegar tóku bankarnir alltof mikið af erlendum skammtímalánum. Meginhluti bankalána milli landa eru í skammtímalánum en ekki langtíma afborgunarlánum. Þetta, ásamt söfnun þeirra á skuldastöðu í gegnum svokölluð "Jöklabréf", skapaði þeim gífurlega mikla greiðslubirgði, vegna endurgreiðslu þessara skammtímalána. Ferlið, hvernig fjármögnun þessara greiðslna var alltaf fjármögnuð með nýjum og hærri erlendum lántökum, var eignatryggð með stöðugt hækkandi hlutabréfaverði og fleiri álíka þáttum.

Mikið af þessu erlenda lánsfé hafði verið lánað út til langtímafjárfestinga í fasteignabyggingum en einnig til kaupa á hlutabréfum, og útlánin einungis tryggð með veði í bréfunum sjálfum. Hlutabréf þessi voru að meginhluta til í fyrirtækjum sem voru einskonar "sýndarveruleiki", því þau voru það sem kallað er "tröppunarleið" til hækkunar á verði hlutabréfa aðalfyrirtækis samstæðunnar.

Þegar verðmæti hlutabréfa fóru að falla mikið á síðasta ári og byrjun þessa árs, hætti innstreymi hækkunarferlis eigna, sem sjálfkrafa varð hindrun bankanna í aukningu erlendra lána. Vegna þessa gátu þeir ekki fjármagnað þau erlendu lán sem töpuðust vegna þess að þeir lánuðu þetta fé út aftur til hlutabréfakaupa, sem á þessum tíma voru orðin verðlítil eða verðlaus. Þá hófu bankarnir, afar hljóðlega samt, svokölluð "veðköll", þegar þeir kröfðu lántakendur um önnur veð fyrir lánum sínum, en bara hlutabréfin verðlausu.

Þegar þessar þrengingar höfðu gengið yfir í nokkra mánuði, hófst umræða um svokallaða "lausafjárþurrð" og að eigendur Jöklabréfa ætluðu ekki að gefa út ný bréf í stað þeirra sem væru á gjalddaga. Þar sem bankarnir höfðu tekið mikið meira fjármagn að láni erlendis en þeir áttu fræðilegan möguleika að endurgreiða við eðlilegt tekjustreymi, varð algjör stöðvun á lánalínum.

Bankar okkar voru í töluverðri sérstöðu í þessu ferli. Bankar annarra þjóða voru erlendar skuldir sem ákveðið hlutfall af landsframleiðslu, þannig að þjóðir þeirra gátu komið þeim til hjálpar. Þeir voru ekki stærri en efnahagur þjóðarinnar. bankarnir okkar voru hins vegar 12 sinnum ÖLL landsframleiðsla okkar, þannig að þjóðin átti ekki fræðilega möguleika á að bjarga þeim.

Hver ástæða þessarar hegðunar bankanna er, er í eðli sínu augljós. Spurningin er hins vegar, eins og í flestum öðrum löndum, hvers vegna eftirlitskerfi og leikreglur voru svo lélegar sem raun ber vitni. Það er framtíðarverkefnið.

Guðbjörn Jónsson, 15.10.2008 kl. 14:56

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Tek heilshugar undir með þér.  Fréttamaður tapar strax og hann missir jafnvægið.  Hann verður undir um leið og hann ákveður svarið og vill ekki heyra neitt annað.  Og það sem meira er, eins og í tilfellinum með JÁJ, að við sem erum að hlusta á missum af tækifærinu á að heyra skýringuna/afsökunina/réttlætinguna.  Við missum af tækifærinu á að meta sjálf svar viðmælandans vegna þess að spyrillinn var með fyrirfram mótaðar hugmyndir um svarið.  Slíkt er slæm fréttamennska.

Minnir mig raunar á svar sem Sverrir Hermannsson gaf á sínum tíma, þegar hann var menntamálaráðherra.  Hann hafði skipað nefnd til að fjalla um eitthvað álitaefni tengt LÍN.  Fréttamaður útvarps spurði hann hvenær væri að vænta þess að nefndi lyki störfum.  Þá svaraði Sverrir: "Það á nú ekki að taka langan tíma, þar sem niðurstaðan er þegar kunn."  Í því viðtali brást fréttamaðurinn, eins og svo oft gerist, og spurði ráðherrann ekki af því hvað hann ætti við heldur lét gott heita.

Marinó G. Njálsson, 15.10.2008 kl. 15:48

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir góð innlegg Guðbjörn Jónsson og Marinó G.

Fróðlegt að fá þessar útskýringar Guðbjörn, svona mini-hagfræðikúrs :-)  Sammála þér um framtíðarverkefnið.

Já sláandi dæmi Marinó.  Spyrjandi þarf einnig að leggja vel við eyru og nýta tækifæri sem gefast í svörum.   Það tekst síður í einhverjum æsingi þó auðvitað þurfi að setja sig í ákveðnar stellingar og halda góðri einbeitingu.  Það er nokkur galli að fréttamenn okkar eru margir hverjir mjög ungir og skortir reynslu, þekkingu og viðtalstækni.  Vonandi haldast einhverjir efnilegir í þessu svo meiri þroski náist með tímanum. 

Svanur Sigurbjörnsson, 16.10.2008 kl. 10:04

11 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Það er allavega ekki rétta aðferðin til að ná upplýsingum upp úr fólki að vera með árásir og dónaskap. Miklu betra að beita góðum sálfræðiaðferðum til að fá fólk til að tala   Annars takk fyrir góðan pistil Svanur og bestu kveðjur til þín

Margrét St Hafsteinsdóttir, 16.10.2008 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband