Býð mig fram í 3-6. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi!

Kæru lesendur moggabloggs

Ég hef skráð mig í prófkjör Samfylkingarinnar á Kraganum sem mun fara fram með netkosningu félaga og skráðra stuðningsmanna Samfylkingarinnar dagana 12.-14. mars (fim-lau) nk.

Svanur SigurbjörnssonÞetta er í fyrsta sinn sem ég býð mig fram á lista til alþingiskosninga, en áður kom ég að stjórnmálastarfi í Frjálslynda flokknum og Íslandshreyfingunni.  Það kom aldrei til þess að ég byði mig fram með þessum flokkum því mér leist ekki nógu vel á gang mála hjá þeim þegar dró nær kosningum.  Valdabarátta og ósætti gekk að þeim fyrrnefnda nær dauðum og hinn þjáðist af óskipulagi og ólýðræðislegum vinnubrögðum.  Ég gekk því í Samfylkinguna 1 mánuði fyrir kosningarnar fyrir 2 árum.   Samfylkingin hefur höfðað til mín frá því að hún var stofnuð, en ég var ekki nógu sáttur við að mér fannst skorta á baráttu gegn kvótakerfinu og jafnræði lífsskoðunarfélaga (t.d. afnám ríkistrúar).  Þó að enn skorti þar á, hefur flokkurinn alla möguleika á því að bæta þar um og sá mannauður sem þar er, er grundvallarforsenda þess að hægt sé að koma góðum málum gegnum Alþingi.  Þau tæpu 2 ár nú sem ég hef verið í Samfylkingunni hafa sannfært mig um að hér sé flokkur sem hafi mestu möguleikana á því að gera þjóðinni hve mest gagn næstu árin.  Í framboði nú í prófkjörinu í SV-kjördæmi er jafnt hlutfall kvenna og karla, en það ber því vitni að flokkurinn hefur náð þeim þroska að hann höfðar jafnt til beggja kynja.  Þetta er einn sá besti gæðastimpill sem flokkur eða félag getur fengið. 

Í mínum huga eru það tvenns konar málefni sem skipta okkur mannfólkið mestu.   Það eru annars vegar lífsskoðunarmál og hins vegar stjórnmál.  Þessi mál skarast oft og eru hver öðru háð.

Lífsskoðunarmálin varða siðferði okkar, tengsl, fjölskyldulíf og hverju við trúum að sé gild þekking.  Þau snúast einnig um félög og leiðtoga tengdu þessu.  Trúarleg lífsskoðunarfélög eru fjölmennust og trú á guð eða guði hefur ráðið hugum margs fólks með góðu eða illu um þúsundir ára.  Veraldleg lífsskoðunarfélög (húmanistar, efahyggjufólk, skynsemishyggjufólk o.fl.) hafa fengið að anda frjálst í aðeins nokkra áratugi þó hugmyndafræði þeirra sé miklu eldri og má t.d. rekja til ýmissa hugsuða Forn-Grikkja.  Lífsskoðunarmálin eru f.o.f. mikilvæg því þau taka afstöðu til þess hvernig við breytum siðferðilega og innifala spurningar og svör um það hvaðan siðferði okkar kemur.  Lög og mannréttindi byggja algerlega á siðferðinu og því hafa lífsskoðanir veruleg áhrif á þjóðfélagsgerðina og réttarfarið.  Þær eru því valdamiklar og afdrifaríkar, rétt eins og stjórnmálaskoðanir.  Það vald sem þær fela í sér er best aðskilið frá öðrum valda- og menntastofnunum ríkisins, því út á það gengur trygging lýðræðisins.  Valddreifingin er líflína siðaðs þjóðfélags og forsenda þess að ekki skapist spilling.  Við Íslendingar stöndum okkur ekki nógu vel í þessu tilliti.

Stjórnmálin ganga út á það hvernig við getum lifað farsællega saman í landfræðilega afmörkuðum hrærigraut og í sátt við aðra grauta heimsins.  Í gegnum mannkynssöguna er afrekalisti okkar mannanna hreint hörmulegur.  Það er mesta furða að við höfum ekki endanlega tortímt hvort öðru og miklu af öðru lífi jarðarinnar með.  Þrátt fyrir djúpa efnahagskreppu nú hafa síðastliðin 64 ár friðar á milli stórvelda gefið tilefni til bjartsýni og ástæðu til að brosa (sjá mynd af mér ;-)  Hugmyndum okkar um mannréttindi og framkvæmd þeirra hefur fleygt fram, en því miður hefur mikill fjölda þjóða utan hins vestræna heims ekki notið ávaxtanna af þessu.  Við skynjum æ meir að mannkynið er ein heild og afdrif fátækra í Afríku eða Indlandi varða okkur öll.  Við viljum geta skoðað alla náttúru heimsins og ferðast án þess að óttast um öryggi okkar.  Siðferðisvitund okkar krefst þess nú að við kaupum ekki bara kaffi á hræódýru verði því kaffibóndinn í Guatemala á ekki að vera þræll, heldur njóta sanngirni og virðingar eins og við teljum sjálfsagt hér heima.  Slíkt minnkar einnig áhuga þeirra á því að rækta plöntur fyrir eiturlyf og það minnkar líkur á notkun eiturlyfja hér heima. 

Stjórnmálin ganga út á að:

  • Halda vörð um dýrmæt siðferðisgildi, t.d. verndun lífs, frelsis og eigna fólks með lögum og réttarkerfi.  Gæta mannréttinda.
  • Búa til samtryggingu
    • Fjárhagsleg - varasjóðir, félagsaðstoð, húsnæðiskerfi
    • Heilsufarsleg - heilbrigðiskerfi, hreinlæti o.s.frv.
    • Menntunarleg - fólk geti menntað sig óháð efnahag.
    • Menningarleg - verndun og vöxtur menningu.  Söguritun og fornleifar.
  • Byggja upp sameiginlega aðstöðu til að ferðast og koma saman.  Samgöngukerfi.
  • Reka eða styðja við ákveðna atvinnuvegi - stundum bara til að koma á legg, stundum alla tíð.
  • Tryggja samráðsvettvang og fjölmiðlun - flæði upplýsinga til allra
  • Hafa samskipti og samvinnu (og viðskipti) við aðrar þjóðir og bandalög þjóða.
  • Vernda umhverfið og hindra spillingu landsins.   Gæta að öðru dýralífi. ;-)
  • Tryggja dreifingu valds og stefna að sem mestri hamingju fyrir sem flesta. 

Síðast en ekki síst er það stjórnmálanna að greina á milli þess sem ríkið á að skipta sér af eða tengjast og þess sem það á að láta vera utan sinna anga.  Þetta er mikilvægt bæði vegna þess að ríkið á ekki að láta fé í starfsemi sem á að vera rekin af óháðum aðilum og vegna þess að ríkið þarf að halda jafnræði og hlutleysi gagnvart ólíkum þegnum sínum. 

Ríkið á fyrst og fremst að tryggja farvegi og aðstöðu, en ekki vera handbendi eða sjóður fyrir forréttindahópa.  Það virðist sem að þetta ættu allir að skilja, en raunveruleikinn er annar í íslensku þjóðfélagi.  Hér ríkir mismunun á ýmsum sviðum:

  • Launamisrétti kvenna og karla - enn eigum við nokkuð í land, heil 15% eða svo.
  • Atvinnuréttindi í sjávarútvegi - kvótakerfi í bága við mannréttindi (skv. MRNSÞ)
  • Hagkerfi sem þjónar vel fyrirtækjum en illa einstaklingum.  Fólkið situr í súpunni og þarf að greiða alls kyns gjöld tengd lánum og húsnæðiskaupum.  Launafólkið ber skattbyrðarnar.
  • Undanfarin 17 ár hafa stöðuveitingar verið veittar flokksgæðingum xD og xB.  Gengið fram hjá hæfu fólki sem stöðuveitinganefndir hafa mælt með. 
  • Lífsskoðunarfélögum mismunað og haldið uppi ríkistrú.  Ímyndið ykkur að einn stjórnmálaflokkur yrði sérstaklega verndaður með stjórnarskrárákvæði, sem "þjóðflokkurinn" og um hann mætti aldrei kjósa því hann hefði flesta skráða félaga frá fæðingu.  Það er ekki siðaðri þjóð sæmandi að hafa ríkistrú í formi þjóðkirkju, sem auk milljarða króna í fyrirgreiðslum og launum, fær sérstakan aðgang að hugum þingmanna fyrir hverja þingsetningu.  Trúarleg lífsskoðunarfélög utan þjóðkirkjunnar fá smá kökubotn (sóknargjöld) en veraldleg lífsskoðunarfélög (aðeins Siðmennt nú) fá ekki einu sinni mylsnu.  Ljótt mál!
  • Jafnréttislöggjöf á Íslandi er um 15 árum á eftir ESB og það vantar skilvirkt eftirlitskerfi t.d. stjórnsýslustofnun sambærileg við Jafnréttisstofu.  Tryggja þarf betri og auðveldari aðgang að dómskerfinu.  Lög þurfa að ná til fjölþættrar mismununar og fleiri jaðarhópa.
  • Innleiða þarf alla ESB löggjöfina um bann við mismunun en ríkisstjórnir xD hafa talið það óþarfa í sinni valdatíð.

Úr þessum málum og fleirum vil ég að bætt verði úr.  Ég mun útlista það frekar í blogggreinum og víðar á næstu 2 vikum.   Af mörgu er að taka og siðferði stjórnmálanna sjálfra er eitt af þeim mikilvægustu málum sem taka þarf til hendinni í.  Vinnubrögð ríkisstjórna, ráðherraveldið og fleira þarf gagngera endurskoðun. 

Ég leita eftir stuðningi félaga í Samfylkingunni (eða skráðra stuðningsmanna) í SV-kjördæmi til að berjast fyrir þessum málum á Alþingi og til þess þarf að kjósa mig í 3-6. sæti í prófkjörinu, helst 4. eða 5. sæti. 

Hér má sjá nánar um reglur og fyrirkomulag prófkjörsins ásamt lista yfir alla frambjóðendur.

Svanur Sigurbjörnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ef þú ferð þarna inn þá á ég von á frumvarpi um aðskilnað ríkis og kirkju auk þess að taka út fáránlega refsilögjöf gegn guðlasti, sem hefur sex mánaða fangelsisvist að hámarksrefsingu. Þó ekki væri fyrir annað þá myndi ég kjósa Samfó, þótt það verði með gallbragð í munni.  Annars er afstaða Samfó til Evrópusambandsins það sem kemur algerlega í veg fyrir að ég geti kosið hana.

Hefði viljað sjá þig á nýjum lista. L-listanum t.d. Þessi Samfylking hefur spilað rassgatið úr buxunum fyrir löngu.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.3.2009 kl. 05:33

2 identicon

Ef ég gæti kosið í Kraganum, þá fengir þú mittt atkvæði, ekki spurning.

Valsól (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 07:59

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Þú fengir sömuleiðis mitt atkvæði ef ekki væri fyrir kjördæmakerfið.  Gangi þér vel!

Róbert Björnsson, 1.3.2009 kl. 08:02

4 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Gangi þér vel. Muna ALDREI styðja stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn... :P

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 1.3.2009 kl. 10:01

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk öll

Ég ber virðingu fyrir málflutningi og reynslu þeirra sem hafa starfað lengi í flokknum og sækjast nú eftir fyrstu sætunum.  Að auki er þetta mitt fyrsta framboð og því tel ég ekki rétt að sælast eftir toppsætunum.  Hins vegar munu öll atkvæði sem setja mig í 1-5. sæti hjálpa mér og þar sem ég mun hafa ákveðna málefnalega sérstöðu mun stuðningurinn að vissu marki endurvarpa stuðning við þau málefni.

Svanur Sigurbjörnsson, 1.3.2009 kl. 11:27

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Óska þér velgengni. Myndi sko kjósa þig ef ég gæti!

Guðríður Haraldsdóttir, 1.3.2009 kl. 14:25

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er hissa á því að þú skulir vera samfylkingarmaður, þar sem þessi flokkur var flokka ötuastur að verja Baugsmylluna á sínum tíma og viðhalda þeirri stjórnskipan með Sjálfstæðisflokki, sem flokkast ekki undir neitt annað en Kleptocracy.  Ég á þó von á því að ef þú kemst á þing, þá muni heilindi þín, samfélagsvitund og greind sporna gegn þeirri hugsýki í þessum flokki og vonandi breyta siðgæðinu innanfrá.  Ekki vanþörf þar á.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.3.2009 kl. 16:17

8 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Samfylkingin hefur höfðað til mín frá því að hún var stofnuð, en ég var ekki nógu sáttur við að mér fannst skorta á baráttu gegn kvótakerfinu ...

Býst þú við að áherslur breytist hjá Samfylkingu varðandi kvótakerfið? ISG sinnti því ekkert að vinna í því þegar hún var í síðustu ríkisstjórn.

Gangi þér annars vel!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.3.2009 kl. 19:16

9 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Æ, auðvitað átti:

"Samfylkingin hefur höfðað til mín frá því að hún var stofnuð, en ég var ekki nógu sáttur við að mér fannst skorta á baráttu gegn kvótakerfinu og jafnræði lífsskoðunarfélaga" að vera í gæsalöppum, þetta voru þín orð í blogginu.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.3.2009 kl. 19:16

10 identicon

Heill og sæll; Svanur, sem þið önnur, hér á hans síðu !

Svanur minn ! Fremur; hugði ég, að pjakkurinn með ljáinn, kæmi til að sækja mig í kvöld, en að þú, raunsæis maðurinn (þó ei séum alltaf sammála, þó stundum samt), gengir til liðs, við einn hinna þriggja frjálshyggju flokka landsins.

Jóhanna; mín kæra spjallvinkona ! Lygar ISG; frænku minnar, frá Haugi í Gaulverjabæjarhreppi, og hennar fólks - sem hártoganir, um endurbætur á kvótakerfinu, ættu að vera þér, sem okkur hinum, löngu ljósar.  

Minni ykkur öll; á einarða baráttu sjóhunda- og þungavigtarflokks Guðjóns Arnars, og hans fólks, fyrir raunverulegum endurbótum, jafnt sjómönnum, sem bændum, til hins mesta gagns, þá frá líður, með þeim vopnum, sem þeim má takast að ná, á ný, gott fólk.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 21:47

11 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl öll á ný.

Ég er sammála þér Jón Steinar í því að xS var of lengi í stjórn með xD, en frá flokknum komu þó þau mikilvægu skilaboð að það ætti að kjósa á ný.  Ingibjörg Sólrún hékk of lengi á samstarfinu þó og var næstum búin að fella Samfylkinguna á tíma, áður en hún tók af skarið með það sem þurfti að gera.

Jóhanna, hvort að xS komi til með að gera eitthvað sómasamlegt í sjávarútvegnum verður að koma í ljós.  Ég mun a.m.k. reyna að hafa þar áhrif á.  Í róti efnahagsmála nú ætti að liggja ákveðið tækifæri.  Umræðan þarf að komast á yfirborðið. 

Svanur Sigurbjörnsson, 1.3.2009 kl. 22:10

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Annars óska ég bjórunnendum til hamingju með 20 ára afmæli bjórleyfisins!

Svanur Sigurbjörnsson, 1.3.2009 kl. 22:11

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Kærar þakkir Guðríður

Svanur Sigurbjörnsson, 2.3.2009 kl. 01:23

14 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Lýst vel á framboð þitt Svanur, það er gott innlegg til kallsins um nýtt hæft fólk. Reikna með að hvetja fólk til að hafa þig með.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.3.2009 kl. 03:02

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyirr það Helgi Jóhann.

Ég bið fólk um að kjósa mig alls ekki af því að ég er nýr í framboði, heldur út á það sem ég hef fram að færa og af hverju það þekkir félagslega hegðun mína og störf.  Ég met mikils reynslu ef með henni fer þroski.  Það er ekki árafjöldinn sem skiptir máli heldur hvað manneskjan gerði við þann tíma og hvaða lærdóm hún dró.

Svanur Sigurbjörnsson, 2.3.2009 kl. 15:08

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Kæri Jón Steinar

Þú nefndir L-listann.  Ég sé að það er flokkurinn sem Bjarni Harðar er með í að stofna.  Skoðanir og yfirgangur þess manns eru mér nóg til að þar myndi ég aldrei una mér.  Þórhallur Heimisson er heldur ekki maður sem ég lít á sem vænlegan stjórnmálaleiðtoga.  Mér þætti undarlegt ef að þú styddir framboð þeirra, miðað við þær skoðanir sem þú hefur haldið uppi á blogginu.  xS er auðvitað með fullt af vandamálum rétt eins og allir flokkar en hann hefur þó lýðræðislega byggingu og jafnræði í kynjaskiptingu þar ber vott þroska sem fáir flokkar bera.  Í xS er mikill mannauður og það er eitthvað til að byggja á, hvað sem svo ýmsum vandamálum líður.   ;-)

Svanur Sigurbjörnsson, 3.3.2009 kl. 17:31

17 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Haukur.  E.t.v. verður maður í baráttunni aftur þá.

Svanur Sigurbjörnsson, 3.3.2009 kl. 17:32

18 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hæ Svanur.

Ég er svo ringluð á allri þessari kjördæma - eitthvað Ef ég get kosið þig þá mun ég gera það og setja þig í fyrsta sæti.  

Margrét St Hafsteinsdóttir, 3.3.2009 kl. 21:28

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk kæra Margrét.  Þú getur kosið mig ef að þú átt lögheimili í einhverju sveitarfélaganna kringum Reykjavík (Kraganum).  :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 3.3.2009 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband