Framboðsgreinar: hluti III - nánar um þrjá málaflokka

Málefni lífsskoðana, menntunar og heilbrigðiskerfis:

·         Aftenging ríkis og trúar, þ.e. aflögn þjóðkirkju.  Jafnræði lífsskoðunarfélaga

o   Leggja af þjóðkirkju og sérstaka verndun hennar skv. stjórnarskrá.   Hún verði að taka upp annað heiti og biskup hennar verði ekki „biskup Íslands“.  Forsetinn á að vera verndari allra þegna landsins, ekki einungis eða sérstaklega evangelísk-lúterskra kristinna manna.  Alþingi komi saman í Háskóla Íslands og hlusti á stutta ræðu rektors í stað þess að fara í dómkirkju kristinna.  Einnig má sleppa alfarið slíku fyrir setningu Alþingis. 

o   Halda sóknargjaldakerfinu til handa trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunarfélögum, en önnur fjárhaldsleg tenging ríkisins við félögin verði ekki.

o   Greiða öðrum en þjóðkirkjunni jöfnunarsjóðsgjöld í 3 ár og leggja svo sjóðinn niður.  Jöfnunarsjóður byggir á 18% upphæð af sóknargjöldum.  Jafna þarf aðeins það mikla misrétti að einungis þjóðkirkjan hefur notið þessa sjóðs síðustu öld.

o   Lækka laun presta þjóðkirkjunnar um 25% á ári í 2 ár og hætta svo launagreiðslum eftir 3 ár.  Með þessu næst mikill sparnaður fyrir ríkið en vilji þjóðin ekki spara á þennan hátt verður að greiða samsvarandi launakostnað til annarra lífsskoðunarfélaga einnig.  Slíkt yrði aukning um 15% í launakostnaði í stað sparnaðar.

o   Hætta skráningu barna undir 16 ára aldri í trúfélög, þ.m.t. sjálfkrafa skráningu þeirra í trúfélag móður.  (Sóknargjöld miðast við skráða einstaklinga 16 ára eða eldri).

o   Viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög  - þau fái sóknargjöld og lagastöðu til að gifta.  Nefna í lögum um útfarir athafnarstjóra sem faglærða aðila sem stýra útförum og tryggja að óvígðir grafreitir séu í kirkjugörðum.  Rýmka lög um ráðstöfun ösku látinna. 

·         Efling menntunar.  Rökfræði, siðfræði og aðferðafræði vísinda gerð mun betur skil.

o   Bæta kjör kennara og lengja aðeins skólaárið.  Efla raunvísindi.  Áfram frían háskóla.

o   Kenna hugmyndasögu og heimspeki til jafns við aðra sögu. 

o   Efla aga og taka á gerendum eineltis í skólakerfinu.  Færa þarf úrræði í hendur kennara og skólastjórnenda svo foreldrar þurfi að gera eitthvað í málunum einnig.

·         Heilbrigðiskerfið: 

o   2 forvarnardaga á ári í formi opinna laugardaga á heilsugæslustöðvum.  Byggja upp heilsteyptari áætlun forvarna, t.d. gagnvart ristilkrabba sem verði á leitarstöð, en annað í gegnum heilsugæsluna.

o   Fimmtán tíma á ári hjá sálfræðingi gegn tilvísun frá heilsugæslulækni

o   Taka meira þátt í tannvernd.

o   Sameina spítala höfuðborgarsvæðisins undir eitt þak hið fyrsta.  Þetta á sérstaklega við um bráðamóttöku og legudeildir bráðveikra ásamt öllum skurðdeildum sem sinna bráðatilvikum.  Til að gera þetta á öruggan máta þarf nýtt hús.  Það þarf ekki að vera eins gríðarlega stórt og upphaflega var áætlað.   Slík framkvæmt gæti reynst góð innspýting í atvinnulífið.

o   Banna með reglugerð eða lögum innlagnir á ganga spítaladeilda.

 

Fleira má tína til en ég vil nefna það að í niðurstaða vinnuhópa á nýlegum fjöldafundi sem haldinn var á vegum HÍ, þar sem fólki úr ýmsum frjálsum samtökum og félögum var boðið, var sú að mikilvægast til að byggja upp "nýtt Ísland" var að efla siðfræði og siðferði í landinu, m.a. með eflingu menntunar um slíkt á öllum stigum grunnskóla.  Ég var mjög ánægður að sjá þá niðurstöðu og gefur mér von um að við getum gert breytingar á þjóðfélaginu til aukinnar farsældar (en ekki einungis hagsældar) og hamingju.

Í dag hefst skráning stuðningsmanna Samfylkingarinnar (þ.e. fólks sem vill taka þátt í prófkjörinu þó að það sé svanur-framboð3-6ekki skráðir félagar í xS) á www.samfylkingin.is og lýkur henni 10. mars.  Viljir þú lesandi góður styðja mig í að koma ofangreindum málum á framfæri og í lög okkar landsmanna getur þú skráð þig og greitt mér atkvæði í netkosningu (eða farið á kjörstað) dagana 12-14. mars í 3-6 sæti, því ofar, því betra auðvitað ;-) .  Nánari upplýsingar liggja einnig fyrir í bæklingi sem dreift er í dag til allra íbúa í SV-kjördæmi.  Skrifa má mér á netfangið svanurmd hjá gmail.com fyrir nánari upplýsingar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hér geta menn skráð sig sem stuðningsmenn og tekið þátt í prófkjörinu.  Þeir sem skrá sig fá sendar upplýsingar með lykilorði í heimabankann sinn.

Svanur Sigurbjörnsson, 4.3.2009 kl. 15:31

2 identicon

Þetta er alveg stórkostleg stefnuskrá Svanur! Ég styð allar þessar lausnir100%. Bara synd að ég bý ekki í þínu kjördæmi og þ.a.l. get ekki kosið þig!

Hope Knútsson (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 17:28

3 identicon

Sammála Hope. Þetta er algjör snilld. Er á sama báti, er ekki í þínu kjördæmi og get því ekki kosið þig!

Þorsteinn Kolbeinsson (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 18:13

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Hope og Steini. 

Svanur Sigurbjörnsson, 4.3.2009 kl. 20:10

5 identicon

Mikið er ég ánægð með að sjá þig í framboði og enn ánægðari að búa í sama kjördæmi og þú.

Ég bý nánast ofan á skrifstofu samfylkingarinnar þannig að ef þú finnur fyrir einhverjum góðum straumum "að ofan" þegar þú átt erindi þangað þá þarftu ekkert að verða ringlaður yfir því ;)

 Baráttukveðjur,  Stína í efra

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 22:15

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Stína í efra  ;-)

Gott að vita af góðum straumum þarna fyrir ofan.   Baráttukveðjur sömuleiðis - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 4.3.2009 kl. 23:44

7 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Sæll vertu og auðvitað geri ég það sem ég get til að koma þér á þing.

Mér líst mjög vel á það sem þú skrifaðir hér að ofan, en er með hugmyndir að fleiru. Ég hef verið starfandi hjúkka í 3 löndum, Svíþjóð ,Noregi og Islandi,  unnið bæði fast á sjúkrahúsum og í bæjarfélögum, fyrir utan að ég hef unnið fyrir leiguþjónustur. Ég tel mig því hafa mjög breiða reynslu.

Það sem vakti fyrst athygli mína þegar ég kom heim að vinna, var hversu margir voru inniliggjani á sjúkrahúsum sem hefðu getað legið annars staðar.  Þá á ég bæði við fólk sem hefði getað farið heim með góðri heimahjúkrun eða farið á ódýrari stofnun sem ekki hafði bráðaþjónustu. I Svíþjóð eru það bæjarfélögin sem hafa ábyrgð á allri heilbrigðisþjónustu sem ekki heyrir undir bráðaþjónustu. Ef bæjarfélagið getur ekki tekið við sjúklingi heim í hérað þegar sjúkrahúsvist er lokið, þarf bæjarfélgaið að greiða daggjöld til sjúkrahúsins. Þau gjöld eru mun dýrari en það kostar bæjarfélagið að halda uppi heimahjúkrun eða góðri ummönnunarþjónustu fyrir aldraða og fatlaða.  Svíar telja að þjónusta heimahjúkrunar undir 6 sinnum á sólarhring sé ódýrari en stofnanna vist. Þá er auðvitað átt við þjónustu allan sólarhringinn alla daga ársins.

Ég man líka eftir fattlaðri konu sem þurfti sýklalyfjagjöf í æð x 4 á sólarhring. Konan vildi fara heim, en þar sem heimahjúkrun gat ekki komið oftar en x 2 á sólarhring, þurfti konan að liggja inni á sjúkrahúsi viku lengur en hún hefði þurft ef þjónustan hefði verið betri heima.

Það er líka mjög furðulegt hvernig hjúkrunarfræðingar eru notaðir í öldrunnarhjúkrun. Á Íslandi eru hjúkkur með 4 ára háskólamenntun að hjálpa sjúklingum á fætur, baða og mata og annað sem sjúkraliðar geta gert mun betur. Mér finnst ég alls ekki of góð til að gera þessi verk, en mér finnst það sóun á fjármunum. Í Svíþjóð eru skýr skil á störfum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og ég þori að fullyrða að báðar stéttirnar eru mun ánægðari í starfi og fyrirkomulagið er mun ódýrara en á Islandi.  Hjúkrunarfræðingar hafa umsjón með skipulagningu hjúkrunar og framkvæma þau hjúkrunarverk krefjast húkrunarmenntunar, en sjúkraliðar og aðstoðarfólk sér um ummönnun.

Á venjulegum stofnunum fyrir aldraða er 1 hjúkrunarfræðingur ábyrjur fyrir 20-30 sjúklingum. Maður skipuleggur hjúkrun, leggur upp lyf í lyfjaskápana sem hver og einn sjúklingur hefur á sínu herberig og sjúkraliðar og aðstoðarfólk gefur síðan sjúklingnum.  Skipuleggur hjúkrun sjúklingsins og sér um kennslu til starfsfólks á deild (til þess þarf 4 ára háskólanám) Þeir einir meiga til dæmis gefa lyf sem ábyrjur hjúkrunarfræðingur hefur gefið leyfi til, og þarf þá viðkomandi starfsmaður að fá fræðslu frá hjúkrunarfræðingnum. Hjúkrunarfræðingur hefur einungis ábyrgð á hjúkrun sjúklinga, hefur ekki starfsmannaábyrgð eða umsjón með fasteigninni. Það þýðri að við eyðum ekki okkar tíma í að hringja inn fólk, eða finna pípara sem getur lagað stíflu í vaski.  Yfirmaður sjúkraliða er oft sjúkraliði með framhaldsmenntun í stjórnun. Á kvöldin og um helgar eru hjúkkur svo með vakt fyrir mjög stórt svæði, 15-25 000 manna íbúðarhverfi og geta sjúkraliðar og aðstoðarfólk í heimahjúkrun eða á stofnunum sem bæjarfélagið rekur, hringt í hjúkrunarfræðing og fengið aðstoð. 

Ég gæti skrifað fleiri síður um efnið, svo hafðu  bara samband ef þú ert ekki búinn að fá nóg.  

Ég vil nefna eitt dæmi sem ég varð vitni að þegar ég vann á litlu sjúkrahúsi í nágreni Rvk. Gömul kona sem bjó á elliheimili í bænum, varð lögð inná sjúkrahús með hjartabilun. Á elliheimilinu sem hún bjó á, sem og á hinum 2 elliheimilunum í bænum, voru hjfr. á bakvakt. Konan þurfti að fá Lasix og morfin og eftirlit og hefði verið hægt að gera þetta heima hjá konunni ef hjúkrunarfræðingur hefði verið til staðar. Það var ekki, svo konan var flutt um miðja nótt á sjúkrahús.  'Í bænum voru sem sagt 3 hjfr. á bakvakt, en konan flutt á sjúkrahús þar sem enginn hjúkrunarfræðingur var í aktivri vinnu. Ef þetta hefði verið í Svíþjóð, hefði verið 1 hjfr í aktivri vinnu og konan hefði fengið þjónustu þar sem hún bjó og hefði ekki þurft innlögn.

'A Islandi eru elliheimili oft undirmönnuð og þurfa sjúklingar oft að bíða lengi eftir að fá að fara á klósett. Við erum samt með fólk í vinnu sem ég tel óþarft. Það er tildæmis vaktmaður á öllum elliheimilum. á nóttunni, tæmir hann ruslið á deildunum, sér til að dyr séu lokaðar og svarar ef einhver kemur á dyrnar. Fólk er í eldhúsi við að laga mat, vinna í borðstofu og vaska upp. einn starfsmaður er oft í upplýsingadiski og gefur upplýsingar um hvar fólk býr og svo framvegis. Í ´Svíþjóð er þetta fólk ekki í vinnu, helfur er fleira fólk í ummönnun. Í andirinu er tafla með nafni íbúa og upplýsingum um hvar það býr. Fólk býr á litlum einingum oft með 16 sjúklinga. Panntað er 1 máltíð á dag frá fyrirtæki sem sérhæfir sig í að elda fyrir stofnaniri, annars sér starfsfólk deildarinnar um aðrar máltíðir, svo sem morgunverð og léttan kvöldverð. Ummönnunar fólk tæmir ruslið sjálft og fer með í ruslageymslu. Á kvöldin ganga þau um húsið og sjá til að gluggar og hurðir séu lokaðar. Ef einhver kemur eftir að búið er að loka, er hringt á dyrabjöllu. Nú er eitthver ógnvekjandi er að þvælast í kringum húsið, hringja þau á lögreglu.

Fyrirgefðu að ég fæ svona munnræpu, en ég vil frekar verða gömul í Svíþjóð en á Islandi, þó svo að Islendingar eyði meiri pening í málefnaflokkinn en svíar. ég gæti haldið mun lengur áfram, en ætla að hlífa þér í bili. Gangi þér vel og vonandi kemstu á þing.

Ásta Kristín Norrman, 5.3.2009 kl. 03:10

8 identicon

Það er löngu kominn tími til að við sem erum trúlaus fáum málsvara inn á þing. Ég geri ráð fyrir að ferming barna verði þá úti þangað til þau verða 16 ára, það væri mjög mikils virði og mikill sparnaður fyrir foreldra. Það er sorglegt hvernig þetta er orðið. fátækir foreldrar eru í miklum vanda og þurfa taka stór lán til að veita barninu sínu sambærilega athöfn og skólasystkynum. Algjörlega kominn tími til að endurskoða þetta allt saman. Einnig að á meðan prestar eru með laun frá ríkinu eiga þeir ekki að taka sér fyrir athafnir, græðgin er að drepa allt og alla, þetta er óþolandi. Vona að þú komist á þing, þú átt svo sannarlega heima þar, með þessar skoðanir.

Valsól (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 17:09

9 identicon

Gaman einnig að lesa kommentið frá þér Ásta. Ég er algjörlega sammála þér varðandi heimahjúkrunina sem gæti innleitt betri vinnu gagnvart þeim sem á því þurfa að halda. Það er fáránlegt að láta sjúkraliða með kannski þriggja ára menntun eingöngu þvo fólki, það bara getur ekki verið hagkvæmt. Ég held að það gæti misskilings innan hjúkrunarfræðistéttarinnar hérna heima sem eru hræddir við að störf verði tekin frá þeim og færð yfir til sjúkraliða, en ég segi, þetta væri svipað og ef félagsráðgjafar færu að amast við því að það sé verið að kenna félagsliða í fjölbrautarskólum vegna ótta við að missa störf fyrir vikið. Það leggur enginn að jöfnu þriggja ára nám og fjögurra til fimm ára háskólanám. Þannig er það bara og verður. Haltu þessum hugmyndum gangandi hérna heima með því að skrifa um þær, kannski verður þetta að veruleika fyrr en seinna, en eins og sagt er þá eru Íslendingar 10-15 árum á eftir hinum Norðurlöndunum.

Valsól (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 17:20

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl kæra Ásta

Við lærum einmitt mest á því að skoða hvernig aðrar þjóðir gera hlutina betur en við.  Þetta eru mjög góðir punktar um það hvernig megi fá sveitarfélög til að standa sig í að hafa hjúkrunarpláss fyrir sína aldraða og langveika.  Einnig er mikilvægt að læra af þessari heimahjúkrun Svía og efla sjálfstæði hennar.  Þá er athyglisvert hvernig verkskiptingin er betur nýtt í umönnunina á elliheimilum í Svíþjóð eins og þú lýsir.  Þetta er nokkuð sérstakt að minni sérhæfing skili sér í hærra menntaðri starfskrafti en sýnir að það má hugsa hlutina uppá nýtt og leggja meiri áherslu á að hafa fagfólkið á staðnum.

Takk fyrir stuðninginn Valsól.  Trúlausir eru um 20% þjóðarinnar þannig að þeir eiga svo sannarlega skilið að fá fulltrúa á þing.  Ég lít þó ekki á mig sem einungis fulltrúa þeirra heldur, fyrst og fremst fulltrúa jafnréttis.  :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 5.3.2009 kl. 18:01

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Langaði að benda þér á þennan "liberal" og fulltrúa elskunnar í heimi hér: http://tomasallansigmundsson.blog.is/blog/tomasallansigmundsson/#entry-822576

Þetta er falið pólitískt afl, sem þarf að taka á. Kannski að læknir geti eitthvað hnýtt í þennan áróður.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.3.2009 kl. 22:47

12 Smámynd: Gerður Pálma

Stórkostlega áhugaverð og verðug málefni sem þú telur upp og fáir eða engir aðrir hafa minnst á þó svo að þessi málefni séu undirstaða farsæls lýðræðis þjóðlífs.

Byrjunarreitur framfara er menntakerfið frá leikskóla og upp.  Það sem auðkennir íslenskst menntakerfi er að kennarar og foreldrar eru flestir ekki í sama liði.  Foreldrar hafa ekki staðið með kennurum hvorki í vinnuhagræðingu eða launamálum sem er stórkostlega furðulegt þar sem börnin eru framtíð hvers lands og því er menntun og uppeldi þeirra okkar stærsta innlegg ´fjárfesting´ til sjálfbærni.

Í raun þyrfti í upphafi hvers skólaárs að vera samskiptanámskeið foreldra og kennara.  Það verður sömuleiðis að taka tillit til þess að vera í fullorðins tölu og vera foreldri er ekki endilega samnefnari þroska, fjöldi foreldra hafa ekki haft tækifæri á að læra undirstöðuatriði þess að vera foreldri. 

Það þarf að kenna siðfræði, almenna kurteisi og leggja áherslu á samkennd, samvinnu og tjáningu strax á barnaskólastigi, það myndi skapa mýkra og notalegra samfélag.   

Kenna okkur, Íslendingum,  meiri virðingu fyrir hvert öðru og því sem um hendur okkar fara.  Við erum eyðsluklær, algjörir eyðslufíklar í raun.  Við sláum örugglega margfalt heimsmet í m2 á mann í verslunarhúsnæði.

Í stað þess að skera niður í heilbrigðisgeiranum (sem og annars staðar í þjóðfélaginu) þyrfti hugsanlega að skipuleggja betur og  fara betur með. Við ættum jafnvel að bæta enn um betur og nýta okkur það frábæra kerfi og  við höfum byggt upp og nýta þá fagmennsku sem við búum yfir sem stórkostlegt innleg í atvinnulífð, bjóða þjónustu til annarra landa þar sem fólk er á margra mánaða biðlista til þess að komast í aðgerðir af ýmsu tagi. Nóg eigum við af húsnæði fyrir lítil hjúkrunarheimili með aðgang að sjúkrahúsum.

Það ber alltof lítið á þér í Samfylkingunni, kann ekki á svona framboðsmál, en ég er viss um að stór fjöldi myndi vilja fá þig á þing. Ég allavega mun láta boð út ganga.

Gerður Pálma, 8.3.2009 kl. 19:43

13 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll félagi,

ég vil alls ekki leggja af þjóðkirkjuna. Ég get verið sammála þér um aukinn stuðning við trúfélög en ég lít svo á að það ríki trúfrelsi á Íslandi og eftir því sem ég kemst næst þá er fær hver trúarhópur greitt miðað við skráningu í félagið.

Hugmyndir varðandi skólakerfið skil ég ekki alveg, hvernig ætlar þú t.d. að bæta kjör kennara? Grunnskólakennarar falla undir sveitarfélög. Ertu að tala um háskólakennara og framhaldsskólakennara? Ég er algjörlega sammála þér varðandi það að taka þurfi fast á eineltismálum.

Varðandi heilbrigðismálin, þá segi ég aftur að ég skil þetta ekki alveg hjá þér. Ætlar þú að veita 15 tíma frípassa í sálfræðimeðferð fyrir hvern sem er gegn framvísun heimilislæknis? Hvernig ætlar þú að sameina sjúkrahúsin undir einu þaki? Vilt þú leggja af starfsemi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði? Ég las með áhuga athugasemd Ástu Kristínar, hún nefnir þar augljóst dæmi um hagræðingu í heilbrigðisgeiranum þ.e. að búa þannig um hnútana að sjúklingar sem ekki ÞURFA að vera á spítala fái aðra úrlausn. Spítalavist er ákaflega dýr kostur og í raun er allt annað ódýrara fyrir samfélagið heldur en spítalavist. Á það sannarlega mest við þegar sjúklingurinn getur veriðheima eða á annarri stofnun sem ekki er jafn dýr í rekstri og spítali.

Það sem mér líst best á í tillögum þínum er hugmyndin um 2 forvarnardaga á ári. Ég man eftir því að húðlæknar buðu uppá fría skoðun fyrir nokkru síðan og það var biðröð út úr dyrum hjá þeim.

Gangi þér vel!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 8.3.2009 kl. 19:56

14 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já málflutningur þessa Tómasar Allan er í takt við Brasílíska biskupinn sem sagði lækni hafa gert rangt þegar hann framkvæmdi fóstureyðingu á tvíburafóstrum í 9 ára stúlku sem var nauðgað.  Þetta var í fréttum nú í vikunni.  Gjörsamlega sjúkt viðhorf.

Svanur Sigurbjörnsson, 8.3.2009 kl. 20:44

15 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Gerður

Það var gaman að hitta þig í Garðabænum.

Það sem þú segir er ég algerlega sammála.  Merkilegt að foreldrar standi ekki betur að baki kennurum.  Kennarar eiga að verða hinir "nýju viðskiptafræðingar" þjóðfélagsins.  Að auki þarf að stórefla námsefni á sumum sviðum og þyrfti háskólasamfélagið (fræðimenn ýmissa sviða) að koma þar að allt frá byrjun grunnskólans og út framhaldsskólastigið.   Kennsla í lífsskoðunum og stórnmálum er varla til staðar.  Mörg börn sjá í gegnum hlutdrægnina í Kristinfræðinni og fyrirlíta fagið. 

Ég er frekar hlédræg persóna og vil ekki trana mér fram nema vel undirbúinn.  Það tekur tíma að læra og þroska með sér vítt svið stjórnmálanna og því tel ég hyggilegra að fara eftir mottóinu "góðir hlutir gerast hægt", en vissulega þarf ég nú að slá í klárinn og láta heyra í sér.  Takk fyrir hvatninguna.

Svanur Sigurbjörnsson, 8.3.2009 kl. 21:05

16 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Sæll Svanur, það hefur í sjálfu sér aldrei verið stefna Samfylkingarinnar eða vinstri manna frá fyrri tíð að kirkjan á Íslandi eigi að vera ríkiskirkja. Þetta skiptir mig engu máli í sjálfu sér en ég átta mig á því að prestar tilheyrðu yfirstéttinni áður fyrr. Ég hef nú  sungið í kirkjukórum í ca. 25 ár. Í mörg ár söng ég í Lagafellskirkju  Ég byrjaði á því þegar ég bjó í Mosfellssveit og var formaður Alþýðubandalagsfélags Kjósasýslu. Ég hef ekki haft hugmynd um það, að önnur trúfélög fái ekki greitt sóknargjöld.  Þar fyrir utan eru laun presta sem mér finnst stór spurning um..Það hefur heldur ekki verið sjónarmið vinstri manna að halda uppi bænda-stéttinni með 20 milljörðum á ári þar fyrir utan ýmis önnur sérgæska. Þó ég sé kennari, er ég ósammála um margt hjá þér  í áherslum þínum um skólamálin. T.a.m. viltu ekki útskýra þetta með agann fyrir mér.Mér finnast hugmyndir þínar í heilbrigðismálum vera allt of sértækar,  þar þurfa að koma fram almennari pólitísk sjónarmið. 

Kristbjörn Árnason, 8.3.2009 kl. 22:26

17 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Ingibjörg

Hér á landi ríkir trúfrelsi, þ.e. okkur er frjálst að trúa hverju sem við viljum og vera í hvaða trúfélagi eða veraldlegur lífsskoðunarfélagi sem er.  Aftur á móti ríkir hér ekki jafnræði eða jafnrétti lífsskoðunarfélaga, trúarlegra (trúfélaga) eða veraldlegra.  Eitt trúfélag, þjóðkirkjan nýtur forréttinda.

Misréttið felst í eftirfarandi:

  1. Aðeins þjóðkirkjan fær að njóta jöfnunarsjóðs (18% ofan á sóknargjöld) og launa frá ríkinu fyrir presta og ákveðinn fjölda manns á biskupsstofu.
  2. Aðeins þjóðkirkjan fær að njóta sérstakrar verndar forseta
  3. Aðeins þjóðkirkjan fær að ávarpa alþingismenn
  4. Aðeins þjóðkirkjan fær að vaða inní leik- og grunnskólana og boða þar trú sína.
  5. Aðeins þjóðkirkjan og kristin trúfélög fá að halda úti trúarskóla fyrir verðandi presta í Háskóla Íslands.  Svokölluð Guðfræðideild.
  6. Önnur trúfélög fá ekki úr jöfnunarsjóði né laun.
  7. Aðeins trúfélög fá sóknargjöld, en ekki veraldleg lífsskoðunarfélög.
  8. Aðeins trúfélög fá að sjá um lagalega hluta giftinga, en ekki veraldleg lífsskoðunarfélög.
  9. Veraldleg lífsskoðunarfélög (Siðmennt) fá ekkert af því sem ríkið veitir trúfélögunum, en fær þó að halda útfarir í húsum Fossvogskirkjugarðs sem eru hlaðin kristilegum táknum.
  10. Kirkjugarðsnefndir eru ekki skyldugar til að sjá fyrir óvígðum reitum.

Önnur ólög eru

  • að hægt sé að skrá börn undir 16 ára aldri opinberlega í trúfélög og gera það sjálfvirkt samkvæmt því í hvaða trúfélag móðir er í.
  • guðlastslögin.  Aðeins gagnrýni á trúarskoðanir varða við fangelsun.  Brétar afnámu sín guðlastslög í fyrra.  Verum ekki síðust til þess.

Vonandi skilurðu þýðingu þessa.  Þjóðkirkjan fær alla kökuna, hin trúfélögin smákökur (sóknargjöldin) og veraldleg lífsskoðunarfélög (Siðmennt) fær ekki einu sinni mylsnu.  Þjóðkirkjan fer hlutfallslega minnkandi og er nú rétt undir 80%.  Hana á ekki að kalla þjóðkirkju, heldur kristna evangelísk-lúterska kirkju.  Fylgjendur hennar eiga að bera hana uppi, ekki öll þjóðin.

Svanur Sigurbjörnsson, 8.3.2009 kl. 23:36

18 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Kristbjörn

Þú hefur nú eitthvað lesið færsluna mína rangt.  Öll trúfélög (trúarleg lífsskoðunarfélög) fá sóknargjöld en veraldleg lífsskoðunarfélög (Siðmennt) fá þau ekki.  Aðeins þjóðkirkjan fær svo jöfnunarsjóð og laun greidd.  Þú sérð þetta e.t.v. betur hér í færslu 17 hér að ofan.

Þetta með agann í skólunum skal ég útskýra.  Einelti er orðið mikið vandamál í skólum og þar tel ég að agavandamál spili inní, bæði vegna minni aga á heimilum og skólum.  Ég verð var við slæmar afleiðingar eineltis hjá skjólstæðingum mínum á heilsugæslunni.  Virðingarleysi barna gagnvart kennurum sínum er orðið mun algengara og hef ég reynt það sjálfur sem gestakennari og fengið það staðfest frá kennurum sem hafa kennt í áratugi.  Sumir góðir kennarar hafa einfaldlega hrökklast úr starfi vegna þessa.  Kannast þú ekkert við þessi vandamál?  Á þessu þarf að taka, bæði á heimilunum og í skólunum.  

Varðandi heilbrigðismálin.  Oft er kvartað yfir því að það vanti sértækar tillögur og því er ég að reyna að koma til móts við það, enda er ég sammála því.  Ég er þreyttur á að heyra allt of almennar yfirlýsingar sem gefa manni of lítið til kynna um hvað viðkomandi ætli að gera.  Auðvitað eru almennar yfirlýsingar eins og "ókeypis heilbrigðiskerfi fyrir alla" alltaf góðar og gildar, en meira þarf til.   Hvaða almennar línur ertu annars með í huga?

Svanur Sigurbjörnsson, 8.3.2009 kl. 23:48

19 Smámynd: Gerður Pálma

Agaleysi í Íslenskum barna- og unglingaskólum er mikið og stórt vandamál. Ekki er efniviðurinn slæmur og ekki eru kennarar slæmir en einhvers staðar er pottur brotinn og það þarf að fara algjörlega í saumana á því.  Ég hef viðmiðun t.d. við barnaskóla í Hollandi, þar er samvinna milli foreldra og kennara mjög mikil.  Foreldrar taka virkan þátt í skólastarfinu með því að taka að sér smáverkefni innan skólans, t.d. upplestrardaga, hreinsunardaga o.fl. þess háttar. 

I Hollandi er sömuleiðis ætlast til þess að fjölskyldan eigi tíma saman, þannig að fólk getur tekið hálfa vinnu og þá tveir skipt á milli sín einni vinnu, 2 eða 3 dagar eina vikuna og öfugt næstu viku. Sérnámskeið eru fyrir 2 í eitt verk, þannig að samvinnan gengur ´smurð´fyrir sig.  Skólinn er aðeins til hádegis á miðvikudögum þannig að þann daginn er gerðir hlutir eins og að fara til læknis, fara í dýragarðinn og önnur samverutækifæri fjölskyldna.  Ekki er ég að segja að allt´sé í ljóma og sóma í Hollandi en í flestu varðandi skipulag og aga samfara hlýju hver í annars garð finnst mér við geta ýmislegt af þeim lært.

í breyttri þjóðfélagsmynd sem nú samanstendur af blönduðum trúarbrögðum í sífellt stærri mynd er nauðsynlegt að kenna trúarbragðafræði en ekki taka kristni út úr með séráherslu.

Ég er algjörlega sammála að leggja niður Þjóðkirkjuna sem slíka en leggja meiri áherslu á að kenna almenna siðfræði og mannvirðingu, í þeim fræðum virðist vera stórkostlegt átak framundan nauðsynlegt ef við ætlum að endurheimta sjálfsvirðingu og þroska sjálfstæðs lýðveldis.

Gerður Pálma, 9.3.2009 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband