Sterkur listi - baráttan heldur áfram!

Úrslit prófkjörsins koma mér ekki sérlega á óvart því Árni Páll hefur verið mjög áberandi í fjölmiðlum undanfarna mánuði og komið fram af mikilli festu og öryggi.  Það stimplar sig í huga fólks og gefur tiltrú.  Hann er mikill talsmaður aðildar að ESB og hefur sérþekkingu á þeim málum, sem hann hefur látið óspart í ljósi t.d. á málefnafundum bæjarmálafélaganna í SV-kjördæmi.   Aðildarviðræður við ESB er í miklum brennidepli hjá virku fólki í flokknum og því er eðlilegt að það vilji styrk Árna Páls á því sviði í fremstu víglínu.  Ég sé hann fyrir mér sem utanríkisráðherra.  

Auk Árna Páls komu Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lúðvík Geirsson sterkt til greina í forystusætið og var víst mjótt á mununum með að Lúðvík kæmist upp fyrir Árna Pál.  Bæði Lúðvík og Þórunn eru verulega frambærilegir stjórnmálamenn og hafa þekkingu og reynslu til að leiða lista.  Það hefur líklega háð Lúðvík eitthvað að hann hefur ekki verið áberandi í landsmálapólitíkinni og því á hann eftir að sanna sig á þeim vettvangi þrátt fyrir mikla reynslu og góða stöðu í sveitastjórnarmálum.  Þórunn kann að hafa liðið fyrir að hafa verið ráðherra í ríkisstjórn sem endaði með ósköpum en fjórða sætið er vel skipað með hana þar.  Katrín Júlíusdóttir spilaði mjög skynsamlega úr sínu og náði því í 2. sætið.  Hún nýtur þess að vera komin með tveggja ára reynslu á þingi og hafa ekki verið í eldlínu ásakana í efnahagshruninu.  Katrín er því eflaust enn í hugum fólks sem ferskur vindur endurnýjunar og glæsilegur fulltrúi kvenna á þingi. 

Magnús Orri Schram var sigurvegari nýliða í hópnum og náði 5. sætinu, sem verður jafnframt baráttusæti flokksins í alþingiskosningunum.  Ég hef trú á því að Magnús Orri eigi eftir að standa sig verulega vel í þeirri baráttu enda er hann mjög skipulagður og kemur máli sínu vel til skila.  Hann er búinn að starfa lengi með Samfylkingunni, m.a. sem kosningastjóri og því er hann vel að því kominn að fá þennan góða stuðning í sínu fyrsta prófkjöri.

Amal Tamimi mun fá 6. sætið því samkvæmt fléttureglunni þarf Magnús M. Norðdahl að færast niður.  Vinni listinn 5 þingsæti 25. apríl, verður Amal fyrsti varaþingmaður flokksins í kjördæminu og mun líklega fá að verma eitthvað bekki Alþingis, því ósjaldan þurfa þingmenn einhver leyfi frá störfum á fjögurra ára tímabili.  Þetta er sigur fyrir baráttu Amal fyrir jafnrétti og gegn mismunun að hvaða tagi sem er.  Hún talar máli aðflutts fólks og hefur kynnt sig m.a. á litháísku og ensku á vefsíðu sinni.

Magnús M. Norðdal er mikill talsmaður mannréttinda og jafnaðar  og á mikla reynslu að baki í stjórnmálastarfi.  Ég hefði viljað sjá hann ofar á lista en þegar einvalalið manna er til staðar geta ekki allir verið á toppnum í einu.   Hans tími kemur síðar enda er hann þrautseigur með eindæmum.

Sætin 8 til 15 voru ekki gefin upp opinberlega, en ég get sagt ykkur að ég fékk atkvæði frá 766 kjósendum og er ég mjög ánægður með það.  Ég tók þátt aðeins til reynslu, með skömmum fyrirvara og hafði ekki byggt upp nein tengslanet fyrir prófkjörið eins og tíðkast hjá reyndum stjórnmálamönnum.  Ég lít á þetta prófkjör einungis sem eitt skref af mörgum sem ég þarf að taka ásamt öðrum til að bæta mannréttindi og lýðræði á Íslandi.   Baráttan heldur áfram.

Þátttakan er búin að vera mjög lærdómsrík og hefur styrkt þá skoðun mína að frambjóðendur Samfylkingarinnar eigi skilið að fá góða kosningu 25. apríl nk. vegna góðra málefna og mannkosta. 

Ég var ánægður að heyra að umræðan um aflagningu kvótakerfisins er langt frá því að vera dauð innan flokksins og almennur áhugi á mannréttindum er mikill.  Margir tóku undir með mér um mikilvægi jafnrétti lífsskoðunarfélaga og kröfuna um eina hjónabandslöggjöf.

Með þennan mannauð ætti flokknum að vegna vel í SV-kjördæmi í komandi alþingiskosningunum.  Knörrinn er ferðbúinn og kominn með byr í seglin!

 


mbl.is Árni Páll sigraði í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Drengilega mælt Svanur - þú hefðir mátt lenda ofar á lista.

Gangi þér allt í haginn.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 15.3.2009 kl. 10:11

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Ólína

Svanur Sigurbjörnsson, 15.3.2009 kl. 12:22

3 identicon

Ég var svo sannarlega að vona að þú næðir takmarki þínu. Settu markið enn hærra næst, það vekur athygli og þá færðu betri kosningu. Gangi þér vel, við þurfum svona menn í áhrifastöður.

Valsól (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 14:30

4 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sammála Ólínu, drengilega mælt. Gangi þér vel.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 15.3.2009 kl. 15:57

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Valsól og Ingibjörg. 

Svanur Sigurbjörnsson, 15.3.2009 kl. 16:30

6 Smámynd: TARA

Tek undir með öllum hér að ofan...

TARA, 15.3.2009 kl. 17:40

7 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Já, leitt að þú skyldir ekki hafna ofar. Hefði stutt þig enda tel ég okkur eiga mikla samleið í ýmsum stefnumálum.

Hilmar Gunnlaugsson, 15.3.2009 kl. 20:09

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Tara og Hilmar.  Gott að fá hvatningu :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 16.3.2009 kl. 01:24

9 identicon

Sæll, Svanur og fyrst þú minnist á kvótamál hvet ég þig til þess að halda þeim kyndli á lofti innan samfylkingar, ekki veitir af.  Gott að þú sjáir úrslit dagsins með jákvæðum augum enda hefur Jóhanna sannað að tímar koma.

lýður árnason (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 03:16

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já blessaður Lýður.  Ég mun halda kvótamálinu á lofti enda var það ein helsta ástæða þess að ég gaf xF krafta mína um tíma.   Skarphéðinn Skarphéðinsson meðframbjóðandi minn (á skarpi.123.is) er vel kunnur atvinnumálunum og talaði fyrir afnámi kvótakerfisins eins og ég.  Fleiri munu leggjast á árarnar í þeim bát í Samfylkingunni.  Ertu með?  ;-) 

Svanur Sigurbjörnsson, 16.3.2009 kl. 04:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband