Ég treysti Jóhönnu - látum ekki óttapólitík byrgja okkur sýn!

Eftir fyllerí frjálshyggjunnar upplifir þjóðin sára timburmenn og reynir hvað hún getur til að brosa í gegnum höfuðverkinn og sjá fram á bjartari dag eftir þennan.  Efnahagstefna Sjálfstæðismanna, með Framsókn í farteskinu, beið afhroð þó margt hafi byggst upp í formi steinsteypu og verslunarmiðstöðva.  Mikill hluti þjóðarinnar fríkaði út líkt og eftir vist á Kvíabryggju og sletti úr klaufunum í nýfengnu frelsi sem EES samningurinn tryggði og einkavinavæðing framkvæmdavaldsins. Góðæri um allan hinn vestræna heim, með auðfengnu lánsfé og opnun landamæra austur fyrir gamla járntjaldið, ýtti undir myndun loftbólunnar.  Heimurinn var nýbúinn að jafna sig á "litlu-bólu", þ.e. dot-com hruninu rétt eftir aldamótin, en hafði því miður ekkert lært af því.  Gamall og bældur kapítalismi fékk endurnýjun lífdaga og það þótti ekki skammarlegt að vera með ofurlaun og bilaða starfslokasamninga.  Sjálfstæðisflokkurinn fitnaði líka og fékk duglega styrki frá vinum sínum í fjármálageiranum.  Þannig var hægt að fjármagna skuggalega dýrar kosningaherferðir og vinna inn atkvæði á lokasprettinum.  Kosningasérfræðingar xD vita nefnilega að það er svo mikið af fólki sem fylgist almennt ekki með stjórnmálum og heldur að þau snúist eingöngu um fjármál.  Með því að beita óttaáróðri með flottum auglýsingum tekst þeim alltaf að fá kjarklítið fólk og fáfrótt til liðs við sig.  Þannig tekst þeim að beina huga fólks frá því hvaða ótta þeir sjálfir ollu og hver raunveruleg forgangsröðun eigi að vera. 

Dæmi:

  • Sjálfstæðismenn smyrja á báða stjórnarflokkana nú að þeir ætli að hækka skatta eftir kosningar og að heimilin hafi ekki efni á auknum sköttum.   Sannleikurinn:  Aðeins xVg hafa sagt að líklegt verði að það þurfi að hækka skatta eitthvað og setja á hátekjuskatt.  Samfylkingin hefur ekki útilokað þetta, en vill forðast það.   Málið er að það er ekki góðæri nú eins og þegar xD og xB áttu sín sukkár.  Við viljum halda uppi skammlausu velferðarkerfi og það kostar hreinlega peninga.  Við gætum þurft að taka á okkur tímabundna skattahækkun.
  • Sjálfstæðismenn saka báða flokkana um að ætla að taka upp eignaskatt að nýju og benda á að það komi verst niður á öldruðum.   Sannleikurinn:  Aðeins xVg hefur lýst yfir þessum hugmyndum og það er sterk andstaða gegn eignaskatti innan xS. 

Helst hræðsluvopn sjálfstæðismanna nú er skattagrýlan.  Himinn og jörð farast hjá þeim ef skattar myndu hækka örlítið á fyrirtæki eða einstaklinga.  Þeir reyna nú stíft að koma þeim ótta í fólk að skattar verði of þungbærir næsta kjörtímabil og fljótt er gleymt hjá þeim að efnahagsleg óreiða og sjálftökuháttur er það sem virkilega þarf að varast. Svo þykjast þeir vera með ábyrga peningastefnu en vilja ekki einu sinni setja aðildarviðræður um ESB aðild á dagskrá.  Áfram halda þeir með óttastjórnmálin, sem er í anda G. W. Bush jr. 

Á hinn bóginn lýsa sjálfstæðismenn yfir því að það ætti að taka upp Evruna einhliða, sem allir málsmetandi hagfræðingar hafa sagt algerlega óraunhæfan kost.  Þetta er ekki flokkur sem veit í hvorn fótinn hann eigi að stíga í, í því máli sem hann hefur hreykt sér mest af, fjármálunum.  Í áratugi hefur annar óttaáróður xD verið sá að vinstrimenn geti ekki komið sér saman um hluti vegna sundrungar.  Að hluta var þetta rétt, en sundrungin er hjá þeim sjálfum eftir hrun þeirra.  Í ljós hefur komið að límið sem hélt saman flokknum var einveldið og skoðanakúgunin.  Þegar valdið af ofan molnar, tekur við ringulreið.  Neyðarlegur hláturinn yfir ræðu gamla einræðisherrans opinberaði þetta virkilega.  Sjálfstæðisflokkurinn er brotinn valdgræðgisflokkur sem hefur molnað siðferðilega og hangir nú í gamalli kosningabrellu - að boða skattaóttann.  Flokkur sem hafði ekki einu sinni kjark til að taka af stimpilgjöld (1.5% lántökuskattur af húsnæðislánum)  í valdatíð sinni með xB í 12 ár.  Flokkur sem tekjutengdi lífeyri gamalmenna og hóf að taka gjöld af þeim sem leggjast ættu inn á spítala.  Flokkur sem höndlaði löggjöf um mannréttindi sem afgangsstærðir og hélt íslensk lög vera best í heimi.  Flokkur sem lét persónuafsláttinn rýrna að verðmæti á meðan flokksgæðingarnir skömmtuðu sér ofurlaun í bönkum og þjónustufyrirtækjum á samningi við hið opinbera.  Kjörorðin "stétt með stétt" urðu í raun "auðmannastétt yfir brauðmolastétt". 

Óttumst við virkilega mest skattahugmyndir xVg nú fyrir þessar kosningar?  Gleymum ekki síðustu 18 árum!


mbl.is Reiðubúin að leiða næstu stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég veit ekki hvað skal segja, en ég var að tala við vin minn í gær og sagði að við ættum að svara Sjálfstæðisflokknum með stórum auglýsingum um það hverjir bjuggu til þetta umhverfi sem olli hruninu, því málið er að þessi taktík Sjálfstæðismanna er farin að virka, ég hef heyrt fólk segja að það ætlaði ekki að kjósa VG eða Samfylginguna út af því að það eigi að hækka skatta. Við getum auglýst á móti að ef Sjálfstæðisflokkurinn verði kosinn þá þurfi fólk að fara borga fyrir börnin sín í skólann. Við getum líka minnt á að mútuþægnum flokkum er ekki treystandi fyrir stjórn landsins. Ég veit ekki hversu langt ætti að fara í þeim málum, en við eigum ekki að taka skítkastinu liggjandi.

Kveðja, Valsól

Ég var á fundi í gærdag með frambjóðendum norðvesturkjördæmis og þar sagði oddviti Sjálfstæðismanna eftirfarandi: ,,hvaða máli skiptir það hvort farið verður í ESB núna í ár eða á næsta ári. Mér finnast þessi ummæli furðuleg. Það er eins og allir viti að við verðum að fara í ESB, en enginn þorir að viðurkenna það. Það er ömurlegt ef heimilin þurfa kannski að þola þennan gjaldmiðil árinu lengur vegna pólitísks fíflagangar.

Valsól (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 05:53

2 identicon

Samfylkingin tók við góðu búi fyrir tveim árum síðan, fékk viðskipta og bankamálaráðuneytin m.a. og báru fulla ábyrgð eftir það á Íslensku bönkunum. Því miður keyrði Samfylkingin bankana heimilin og fyrirtækin í þrot. Samfylkingingin vann skemmdarverk á Íslensku samfélagi og er svo siðblind að hún kennir alltaf öðrum um en axlar enga ábyrgð. Fólk kallaði á hið nýja Ísland, Er ellilífeyrisþeginn sem Samfylkingin neyddi til að taka að sér formennsku dæmi um hið nýja Ísland. Nei ég held því fari fjarri.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 10:22

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hæ Valsól

Já, mikilvægur punktur þetta með skólana.  Sjálfstæðisflokkurinn fær inn skatta með því að leggja þá á notendur þjónustunnar.  Við erum meira minna öll notendur opinberrar þjónustu þannig að þetta eru alveg jafn miklir skattar og ef aukin skattprósenta væri lögð á alla, bara óréttlátari.

Sæll Ómar.  Það er ágæt venja að heilsa á bloggi.   Þá er líka ágætt að halda sig við sama lit og aðrir í texta. 

Í fyrsta lagi þá er ekki til neitt sem heitir "viðskipta og bankamálaráðuneytin" því það er bara eitt ráðuneyti og það var undir stjórn hins ábyrga Björgvins G. Sigurðssonar, sem var eini ráðherrann í þeirri ríkisstjórn sem sagði af sér.  Sjálfstæðisflokkurinn hafði bæði forsætis og fjármálaráðuneytin og báru því mikla ábyrgð á fjármálunum.  Að auki var Davíð Oddsson, yfirmaður Seðlabankans og starfaði náið með Geir Haarde, en bankinn tilheyrir forsætisráðuneytinu.  Báðir flokkarnir báru ábyrgð, en Samfylkingin kom bara inn á síðustu metrunum.  Sú þróun sem undirbjó jarðveg þessarar bólu og siðspillingar var sett af stað af xD og xB fyrir 18 árum síðan.  Öðru svara ég ekki enda nefnt í greininni. 

Svanur Sigurbjörnsson, 20.4.2009 kl. 11:27

4 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Jóhanna hefur ávallt verið mikil baráttukona fyrir félagslegu réttlæti og lætur sitt ekki eftir liggja nú rétt fyrir kosningar með heimsókn sinni til eldri borgara. Hún er skynsöm kona og er ánægjulegt að sjá hversu vel hún leggur sig fram við störf sín og sinnir þeim af kostgæfni.

Það er óskandi að hún haldi áfram að vinna störf sín vel og leiði Íslendinga út úr þeirri kreppu sem við erum nú í.

Hilmar Gunnlaugsson, 20.4.2009 kl. 15:45

5 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Bar ekki prófkjörsbarátta þín afhroð í aðdraganda þessara kosninga?

Seðlabankinn tilheyrir ekki forsætisráðuneytinu heldur heyrir það undir forsætisráðuneytið hvað varðar skipun seðlabankastjóra. Seðlabankinn er því sjálfstæð stofnun sem lýtur ekki ægivaldi misvitra stjórnmálamanna sem sveiflast líkt og strá í rokviðri ástandsins.

Magnús V. Skúlason, 20.4.2009 kl. 15:54

6 Smámynd: Brattur

Sjálfstæðiflokkurinn getur aldrei upphafið sig á eigin verðleikum... þeir þurfa alltaf að benda á hvað aðrir eru slæmir... það finnst mér léleg aðferðafræði...
Nú eru þeir í meiri vandræðum en áður að segja út á hvað Sjálfstæðisflokkurinn gengur...

Gengur Sjálfstæðisflokkurinn t.d. út á "trausta efnahagsstjórn" ???

Þeir hafa flaggað því í gegnum tíðina að þeir séu þeir einu sem kunni og geti séð um efnahagsmál landsins... nú eru þeir bara hlægilegir ef þeim dettur í hug að tala um hvað þeir eru klárir að stjórna efnahagsmálunum, flokkurinn sem setti þjóðina á hausinn...

Brattur, 20.4.2009 kl. 22:19

7 Smámynd: Sigurjón

Sæll Svanur.

Rétt er það að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki atkvæðisins verður, en það er Samfylkingin ekki heldur.

Svo að lokum mætti nefna að Valsól heilsaði ekki og er auk þess nafnlaus. Ómar þorir alla vega að koma fram undir nafni...

Sigurjón, 21.4.2009 kl. 16:40

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Sigurjón

Já margir heilsa ekki eða setja kveðju og maður gleymir því stundum sjálfur.  Maður reynir þó að gera það alltaf hjá þeim sem maður hefur ekki sett athugasemdir hjá áður, þ.e. kynna sig til umræðunnar a.m.k. einu sinni.  Valsól þekki ég vel hér.

Þú hefur sagt mér þetta álit þitt um xD og xS.  Hvaða flokkur er skástur að þínu mati? 

Sæll Hilmar

Góð orð um Jóhönnu og það álit nær út fyrir flokkslínur því hún hefur notið 60-70% fylgis sem ráðherra og þingmaður.

 Sæll Magnús

Ég set ekki sömu mælikvarða og þú á þátttöku í prófkjöri.  Mín þátttaka snýst um málefnin og ég hef þolinmæði til að vinna þeim fylgis smám saman.  766 atkvæði af 2800 í fyrstu tilraun er ljómandi gott og þau málefni sem ég barðist fyrir voru flest samþykkt á landsfundi xS. 

Þó seðlabankastjóri hafi haft framkvæmdalegt frelsi frá ráðanda sínum forsætisráðherranum, þá voru þeir úr sama flokki og tengdust frá menntaskólaárum sínum.  Eitt eru lög í þessum efnum, annað veruleikinn. 

Sæll Brattur - sammála!

Svanur Sigurbjörnsson, 22.4.2009 kl. 00:58

9 Smámynd: Sigurjón

Blessaður aftur.

Fyrir mér er þetta ekki spurning um hvaða flokkur er góður, heldur hver er minnst vondur.

Í flýti myndi ég segja að VG væri minnst vondur af þessum fjórum ,,gömlu", en það er spurning hvort það er bara vegna þess að hann hefur haft lítil tækifæri á að klúðra málum, þó heiðarleg tilraun hafi verið gerð nú í síðustu ríkisstjórn.  Ég er auk þess alls ekki nógu vinstrisinnaður til að vera VG.

Af hinum þremur sem bjóða fram núna er ekki gott að segja.  Frjálslyndir hafa ekki verið í stjórn, en þeirra barátta virðist snúa að einum afmörkuðum málaflokki og það er sjávarútvegurinn.  Gott og blessað, en svo tekur hann bara upp hin og þessi mál eftir hentugleik, sbr. útlendingahatrið.  Hann er því ekki merkilegur pappír fyrir mér.

Lýðskrumræðishreyfingin er annaðhvort misheppnað grín eða sorgleg bilun, þannig að ég ætla ekki að fjölyrða um það frekar.

Þá er það bara Borgarahreyfingin eftir.  Hún er, að því ég fæ bezt séð, minnst vond af þessu öllu saman.  Ástæðan er sú að það fólk hefur ekki stjórnað hér áður, er ekki með hagsmuni í fyrirtækjum eða fjármálastofnunum og hefur þar af leiðandi ekki hagsmuna að gæta.  Ég myndi því fyrirfram treysta því fólki bezt af þessum öllum til að gæta hlutleysis á þingi og raunverulega vinna að málum af heilindum.

Ég vil taka það fram að ég er ekki sammála öllu sem Borgarahreyfingin hefur sett fram, en flestu er ég sammála og mér finnst það nánast allt mjög mikilvægt, sérstaklega á þessum tímum byltinga og hruns.  Því fer x-ið mitt við O á kjördag.

Þetta var miklu lengra mál en ég bjóst við, en svona er kjaftavaðallinn á manni stundum...

Góðar stundir...

Sigurjón, 22.4.2009 kl. 01:31

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Sigurjón.  Ég skil vel afstöðu þína.  Borgarahreyfingin hefur staðið sig vel í nokkrum kjördæmum og komið með skynsamar tillögur.  Málefni þeirra fara að mörgu leyti saman með xS, en eru eitthvað öðru vísi.  Ég á erfitt með að kjósa flokk á þing sem er ekki með stefnumál í öllum helstu málum því á þinginu er ekki bara kosið um einhver tiltekin mál.  Ég geri þá kröfu til flokka að þeir hafi nægilega breidd til að hafa tekið afstöðu til alls sviðs stjórnmálanna.   xO eru líklega góður kostur fyrir þá sem finna sig ekki í gömlu flokkunum lengur.   Þrátt fyrir að Guðjón Arnar hafi góða þekkingu á velferðarmálunum og útvegnum, þá er hann, Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson búnir að sigla flokknum í algert strand með þaulsetu sinni og vanhæfni til að sætta ólíkar persónur innan flokksins.  Það er því líklegt að xF þurrkist út sem þingflokkur að þessu sinni. 

Svanur Sigurbjörnsson, 22.4.2009 kl. 09:49

11 Smámynd: Sigurjón

Sælir.

Það eru einmitt þau mál sem brýnust eru sem Borgarahreyfingin stendur fyrir. Þegar þau eru komin í gegn, mun þetta fólk annað hvort ekki bjóða sig fram aftur, eða bjóða sig fram í persónukjöri, því það vakir ekki fyrir frambjóðendum X-O að stofna flokk eða vera endilega atvinnupólitíkusar.  Þeim er einfaldlega nauðugur einn kostur þar sem persónukjör er ekki í boði í dag...

Það er einn kosturinn sem ég sé við X-O: Það er ekki verið að búa til einhver pen og fín áhugamál um hitt og þetta meðan heimilin blæða út.  X-O tekur afstöðu til allra mikilvægustu málana strax.  Hin málin mega bíða þar til þessi eru komin á hreint.

Skál! (í XO koníaki...)

Sigurjón, 22.4.2009 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband