Færsluflokkur: Afbrot og réttarfar
Hreinn viðbjóður - og viðurkenndur í þokkabót
13.8.2009 | 17:00
Mál af þessu tagi fylla mann óhug og viðbjóði yfir menningu sem getur látið svona sæmdarsvik og sæmdarmorð líðast. Það er eitthvað mikið að í þjóðfélagi sem leggur það að jöfnu að hlaupast undan ráðhag foreldra um að giftast manni eftir þeirra vilja og að fyrirgera rétti sínum til lífs. Fari allur postmodernismi (menningarleg afstæðishyggja í siðferði) fjandans til því svona hluti er aldrei hægt að réttlæta. Fari þessar testósterónfnykjandi karlveldisbullur norður og niður, því verri verður ekki kúgun kvenna en þetta.
Læknir (karlmaður um þrítugt) frjá Jórdaníu sem ég kynntist í New York í sérnámi mínu þar á árunum 1998 - 2001, sagði mér frá ýmsum háttum í menningu sinni. Hann útskýrði að hann myndi ekki taka konu sína til baka í þriðja sinn ef að hann myndi fyrirgefa henni tvisvar fyrir "misgjörðir". Þriðja skiptið væri alger skilnaður og þá ætti hún enga möguleika á því að giftast aftur, hvorki honum né öðrum körlum. Ég lýsti yfir undrun minni á þessu og þá sagði hann þessi "gullnu" orð sem ég gleymi seint:
Mannréttindin eru ágæt en þau eru ekki fyrir okkur
og hló svo við af miklu sjálfsöryggi. Hann eignaðist skömmu síðar stúlku með konu sinni og sagði brosandi að faðir hans hefði sagt:
Þú gerir bara betur næst!
Þá talaði hann um hversu Ísraelsmenn væru slæmir og hefðu rekið föður hans og fjölskylduna af landi þeirra í Palestínu. Það væri ekki þeirra val að vera Jórdanir nú. Ég átti bágt með að vökna um augun, þó að í þeim efnum hefði hann ýmislegt til síns máls.
Viðbjóður! Það er bara ekkert annað orð betra um þessi smánarlegu morð sem kennd eru við heiður. Hvaða heiður?
Myrti systur sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Afbrot og réttarfar | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Átti krók á móti bragði þjófs í Barcelona
9.7.2009 | 15:18
Ákaflega sjaldan hef ég lent í því að vera rændur og aldrei svo ég viti til af vasaþjófi, en sú lukka rann út að morgni dags í Barcelona fyrir um viku síðan.
Ég fór með spússu (esposa) minni og vinum til Barcelona til þess m.a. að fara á U2 tónleika. Morgun einn fyrir um viku síðan fórum við í lestarferð með neðanjarðarkerfinu og var margt um manninn. Þegar ég kom inn í lestina náði ég að grípa um stöng sem stóð fyrir miðju gólfi, beint fyrir framan útgöngudyrnar. Ég var klæddur í rúmlega hnésíðar stuttbuxur með víðum hliðarvösum og geymdi veskið mitt hægra megin í vasa sem lokað var aftur með smellu. Síðastur farþega inní lestina var ungur sólbrúnn maður, vel til hafður, sem vildi ná taki á miðjustönginni sem ég og fleiri héldu í. Eftir að lestin fór af stað skipti hann um hendi og tók með þeirri vinstri í súluna og var þá klesstur upp við mig á afkárlegan máta. Ég sá að hann hefði auðveldlega getað tekið í handfang við hurðina og leiddist þetta. Ég sagði því við hann á ensku: "Pardon, but I suggest that you use your right hand to hold onto the pole" því staða hans inní þvögunni var mun betur til þess fallin að hann notaði þá hægri. Hann gerði það og svo leið nokkur stund þar til að lestin staðnæmdist við næstu stöð.
Hurðin opnaðist og fóru margir úr lestinni og þar á meðal þessi ungi maður (líklega liðlega tvítugur) með vandræðaganginn. Skyndilega verður mér ljóst að eitthvað gæti verið að og ég þreifa niður í buxnavasann og finn strax að veskið mitt er farið. Ég beið ekki boðanna og rauk út á eftir unga manninum. Hann var rétt kominn út og viti menn, hann hélt á veskinu mínu fyrir framan sig þannig að ég þekkti það strax. Ég hrifsaði það hratt úr höndunum á honum og fór rakleiðis aftur inní lestina. Ég rétt sá svipinn á þjófnum og var hann frekar svipbrigðalaus og reyndi hann ekki að beita neinu ofbeldi og var hálf lamaður þarna á stöðvarpallinum í smá stund. Líklega hefur hann óttast að ég reyndi að kalla í lögreglu, en þetta gerðist hratt þannig að ég geri mér ekki grein fyrir því hvað hann gæti hafað hugsað. Feginleikinn yfir því að hafa endurheimt veskið (með peningum og kortum í) var mikill og ég prísaði mig sælan yfir því að þetta endaði ekki illa.
Eftirá að hyggja held ég að þetta hugboð mitt um að maðurinn væri að stela af mér hafi byggst á því að ég lærði á 7 ára dvöl minni í New York (1998-2004) að maður yrði alltaf að hafa varann á sér varðandi eitthvað sem gæti gerst misjafnt eða ógnað manni í umhverfinu. Þá var þjófnaður á hjóli dóttur minnar úr lokaðri hjólageymslu á Rekagranda ári áður, einnig til þess að ýta undir varkárni hjá manni hvað þetta varðar. Þjófurinn í Barcelona leit ekki út fyrir að vera fátækur maður eða einhver krimmi. Hann var ósköp venjulegur að sjá og því var ekkert sem varaði mann við annað en frekar sérkennilegur vandræðagangur hans með að koma sér fyrir í lestinni.
Ég segi því: Varið ykkur í mannþröng í útlöndum, sérstaklega í lestarkerfunum þar sem þjófar geta notfært sér það að maður uppgötvi þjófnaðinn ekki fyrr en lestin er farin af stað á ný.
Tónleikar U2 voru svo af sjálfsögðu alveg frábærir og gleðin var óspillt fyrst að þessu eina atviki var forðað frá því að gera ferðina að hrakför.
Afbrot og réttarfar | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gagnsemi?
9.10.2007 | 16:36
Ég ber mikla virðingu fyrir hugsjónum og baráttu John Lennons og Yoko Ono hefur verið fánaberi hennar síðan hann var myrtur. Hins vegar er ég efins um gagnsemi hluta eins og upplýstra friðarsúlna. Vissulega er viðburðurinn og upplýstur himininn áminning um að gleyma ekki friðarbaráttu og þjáningum þeirra sem verða fyrir barðinu á stríði, en hverju fær þetta áorkað á endanum? Tryggir þetta einhverjar framkvæmdir? Hætta talibanar og Al-quada við sitt jihad? Róast herskáir Baskar? Fæðast nýjar hugmyndir og nálganir að friðarferlum? Mætti verja fénu sem fer í fyrirbærið í eitthvað annað gagnlegra?
E.t.v. kann ég ekki að meta nóg framtak frægs fólks til að vekja athygli á ákveðnum málaflokkum og er ekki nógu menningarlega sinnaður. Maður fær svolítið á tilfinninguna að í enn eitt skiptið sé fræg manneskja að vekja mest athygli á sjálfri sér og sínum nánustu með flottum minnisvörðum og yfirborðslegri umfjöllun um frið. Auðvitað þykir okkur Íslendingum þægilegt að geta baðað okkur í sviðsljósi þessa dáða fólks og hirt upp nokkra brauðmola í leiðinni, en er þetta ekki pínulítið gervilegt? Verður uppskeran einhver önnur en sú að okkur líði örlítið betur með okkur sjálf? Er eitthvað af viti í gangi hér? Er búið að bjóða einhverjum stríðandi aðilum í umræður í tengslum við þetta? Það hefði ég viljað sjá.
Ég vona að ég hafi hryllilega rangt fyrir mér og að þessi viðburður sé mikilvægur og marki einhver skref í átt til friðar í heiminum. Ljóssúlan verður án efa stórkostleg sem slík og þetta verður voða kósí viðburður og stemming, en þangað til ég sannfærist um eitthvert raunverulegt gildi hennar er hún nánast bara "symbolic" í mínum huga.
Ein friðarsúla nægir Yoko Ono | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Afbrot og réttarfar | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Kompás leiðir líkur að stórfelldu misferli af hálfu stjórnanda á meðferðarheimilinu Byrginu
18.12.2006 | 16:40
Það er stórvafasamt fyrir fjölmiðla að vasast í möguleg sakamál en ég skil samt löngun þeirra að vilja fletta ofan af einhverju sem lítur ekki vel út. Hættan við þetta er sú að sýnd séu gögn í röngu samhengi þannig að sök gæti virst mun stærri en í raun er, nú eða einhver bendlaður við mál að ósekju. Dóm götunnar er erfitt að taka til baka. Í svona málum þarf mikillar nákvæmni við og gæta þess að allar upplýsingar séu réttar og metnar út frá vitnisburði allra. Þetta ætti því að vera í höndum rannsóknarlögreglu.
En hvað á að gera ef stjórnendur svona stofnunar, starfandi fagaðilar þar, heilbrigðisyfirvöld, fjármálaeftirlit og lögregluyfirvöld standa sig ekki? Hvað á að gera ef það er ekki hlustað á þetta fólk sem kvartar? Ef enginn þorir að kæra þó nægar ástæður séu fyrir hendi? Verða þá ekki einkaaðilar með hjálp fjölmiðla að grípa inní? Einhvers staðar þarf að byrja baráttuna og fjölmiðlar hafa geysilegan áhrifamátt og því óbeint vald til þess að hreyfa við hlutum. Ég er ekki viss um að það sé alltaf hægt að álasa fjölmiðlum fyrir svona umfjöllun. Fjölmiðlar eru nokkurs konar sjáaldur þjóðarinnar og þessar fréttir hljóta að hafa nokkurn fælimátt gagnvart illvirkjum.
Í kjölfar svona frétta hefur skort vitræna siðferðislega umræðu um hlutverk fjölmiðla og fólk hefur varpað fram ásökunum fram og til baka. Það er auðvelt að áfellast fjölmiðla, sérstaklega ef sá aðili sem um er rætt fremur sjálfsmorð, en ég held að hvert tilfelli verði að skoða fyrir sig. Málfrelsi þarf að koma með ábyrgð og hina ýmsu siðferðislegu verðmæti eða hagsmuni þarf að meta hverju sinni. Ég sé t.d. ekki tilgang í því að birta frétt um útbrunninn glæpamann sem er hættur að vera nokkrum ógnun en meti þáttagerðamaður það svo að efnið sé áríðandi vegna tregðu í löggæslu- og réttarkerfinu, neyðar þolenda og hugsanlegrar áframhaldandi hættu af brjótanda, get ég hugsanlega séð að varfærin frétt um málið þjóni tilgangi og geti verið til gagns þegar á heildina er litið. Í því sambandi þarf að taka í reikninginn að ættingjar brjótanda geta liðið fyrir fréttina og því þarf ástæðan fyrir birtingunni að vera þeim mun sterkari.
Í þessu tilviki þar sem maðurinn er umsjónarmaður meðferðarheimilis er um mjög stóra hagsmuni að ræða, þ.e. hagsmuni mikils fjölda fólks. Heilsa og líðan margra til ófyrirséðrar framtíðar er í húfi. Þá virðast einnig miklir fjárhagslegir hagsmunir í veði. Sé um mikla sóun á fé ríkisins til meðferða að ræða er það stóralvarlegt mál. Margar heilbrigðisstofnanir eru sveltar fjárveitingum og þurfa sífellt að skera við nögl og takmarka starfsemi sína. Það er verulega alvarlegt mál ef tugum milljóna króna er skotið undan af ófaglæruðum aðilum sem byggja meðferðir á halelújasamkomum og múgsefjun. Þetta er bæði fjárhagslegt og faglegt ábyrgðarleysi af hálfu yfirvalda. Svona starfsemi á ríkið ekki að styðja.
Það þarf að koma trúarofstæki út úr áfengis- og fíkniefnameðferðum. Það samræmist ekki mannréttindum né faglegum starfsaðferðum að fólk sé ítrekað hvatt til að trúa á æðri mátt í svokallaðri tólf spora meðferð sem ekki virðist mega hreyfa við. Það er margt gott í þessum sporum og víkur það að innri skoðun og breytingu á hegðun en tengingu þeirra við trúarbrögð þarf að linna. Í byrginu virðist hafa farið fram öfgakennd útgáfa af þessum tólf sporum og kristni. Það er stutt í öfgarnar þegar opnað er á "fagnaðarerindið". Sjálfmiðað fólk getur notfært sér veikleika eiturlyfjaneytenda og notað erindi í biblíunni til að véla fólk til ákveðinna skoðana og hegðunar. Þegar trúariðkun er í höndum slíkra glæpamanna er ekki spurt "af hverju". Fólkið bara fylgir og hlýðir.
Vonandi kemur eitthvað jákvætt út úr þessari frétt Kompás þó mörg munu tárin falla. Það er deginum ljósara að meðferðarkerfi fíkla þarf að skoða vandlega og ríkið og heilbrigðiskerfið þarf að taka fulla ÁBYRGÐ!
Afbrot og réttarfar | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)