Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Tekist á um Vinaleiðina

Á fimmtudaginn n.k. verður haldinn málþing um Vinaleiðina á vegum félags SUS, Huginn í Garðabæ.  Fundarstaður verður í Tónlistarhúsi Garðabæjar að Kirkjulundi 11 (hljómar eins og heimavöllur Þjóðkirkjunnar), kl 20:00.  Þingið er opið öllum.

Til máls í framsögu taka Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, f.h. Þjóðkirkjunnar og Bjarni Jónsson, f.h. Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.   Þessir sömu ræðumenn voru meðal mælenda á málþingi sem félag nemenda í Kennaraháskóla Íslands héldu fyrir nokkrum vikum. 

Trúarleg starfsemi í skólum er alvarleg tímaskekkja.  Mismunun gagnvart minnihlutahópum er tímaskekkja.  Við höfum vel flest okkar vaxið uppúr þessum rangindum á síðasliðnum 60 árum eða svo og siðferði nútímamannsins hefur þróast með þeirri jarðbindingu gildismatsins sem húmanisminn í kjölfar Frönsku borgarabyltinganna hafði í för með sér.  Sex af fyrstu forsetum Bandaríkjanna voru svokallaðir "deistar" og trúðu ekki á guð nema að því leiti að eitthvað guðlegt gæti hafað hafið allt saman en síðan hefði náttúran tekið við.  Deistar trúðu ekki á persónulegan guð og Thomast Jefferson frægasta dæmið.  Annar merkur maður var Abraham Lincoln en hann sagði Biblíuna ekki sína bók. 

Allar framfarir í mannréttindum síðustu alda og áratuga hafa byggt á því að rökstuðningur sigraði kreddur og lýðræðishugmyndin spratt uppúr heimsspekinni.  Upp úr myrkri miðalda stigum við m.a. vegna þess að kirkjan var aðskilin frá ríkisvaldinu.   Framfarirnar urðu þrátt fyrir afturhaldssemi kirkjudeilda en ekki vegna framfara innan þeirra sjálfra.  Framfarir vestrænna kirkjudeilda fylgdu svo í kjölfarið vegna þess að kenningar eins og þróunarlögmál Darwins brutu niður hindurvitni eins og sköpunarsöguna og þar með stóran hluta af heimsmynd trúaðra.   Lengi vel þráuðust trúarleiðtogar við og deildu hart á þróunarkenninguna, en til þess að halda velli og einhverri virðingu urðu kirkjurnar að gefa eftir.  Þannig er saga stóru kirknanna s.l. 2-3 aldir.  Bókstafurinn hefur vikið fyrir húmanískum viðmiðum sem smám saman hafa orðið hornsteinn nútíma siðferðis. 

Það er því alger tímaskekkja að kirkjan vaði á ný inn í ríkisstofnanir (aðrar en sína eigin) með afkárleika eins og upprisuna, kraftaverkalækningar og meyfæðingar í farteskinu.  Það þarf ekki persónudýrkun á sögupersónunni Jésú til að skilja væntumþykju og tillitssemi.  Nútíma sálfræði / hugfræði / hegðunarfræði byggir á mun flóknari og þróaðri hugsun en er að finna í Biblíunni eða námsefni presta í HÍ.  Prestar eða djáknar eru ekki fagfólk nema í guðfræði og eiga ekki faglegt erindi við börn nema að foreldrar þeirra vilji tala við þá í kirkjum landsins um trúarlegt uppeldi.

Prestarnir segja; "á forsendum barnanna" eða "á forsendum skólanna".   Hvernig í ósköpunum eiga börnin að fara í viðtal við fulltrúa trúarbragða á eigin forsendum?  Getum við ætlast til að börn hafi mótaðar skoðanir og prestar gæti sín að ýta ekki við þeim?  Getum við ætlast til að barni sem líður illa stýri viðtali á sínum forsendum?  Það er leiðbeinandans, þ.e. þeim fagaðila sem treyst er fyrir barninu, að stýra viðtalinu og hjálpa barninu á þeim forsendum sem viðkomandi telur barninu fyrir bestu.  Þannig eiga "forsendur skólanna" að virka.  Skólinn á ekki að sætta sig við neitt nema fullnumið fólk í klínískri sálfræði, félagsfræðinga og námsráðgjafa til þess að ráðleggja foreldrum, börnum og stundum kennurum um það sem börnunum er fyrir bestu. 

Þjóðkirkjan getur ekki troðið sér inn í skólanna af því að hún er enn stærst.  Það er með ólíkindum sá félagslegi vanþroski og skortur á réttsýni sem forysta Þjóðkirkjunnar hefur sýnt í þessu máli.  Hún neitar að sjá að skólar eru ekki vettvangur trúarlegrar þjónustu eða starfsemi, sama hver á í hlut.  Hið veraldlega húmaníska umhverfi verður að vernda í skólum landsins því það er hið eina umhverfi sem er trúarlega hlutlaust.    Líkt og með stjórnmálaskoðanir á hvert barn rétt á því að fá skólagöngu og opinbera þjónustu í friði frá trúarskoðunum.  Það þýðir ekki fyrir kirkjuna að segja að þeir tali ekki um trú í Vinaleiðinni.   Það er aldrei hægt að líta á starfsemi presta eða djákna, í störfum á vegum kirkjunnar sem annað en trúarlega og er því beint eða óbeint trúboð í eðli sínu. 

Vinaleiðin og trúarleg starfsemi í skólum skal út.  Byggja þarf upp stuðningskerfi skólanna með faglegum leiðum og er það hlutverk yfirvalda og skólanna.  Bjóðum börnunum aðeins upp á það besta.


Duga góðar meiningar?

Í liðinni viku veitti Fréttablaðið í annað sinn félagasamtökum og einstaklingum viðurkenningar og Aðstandendafélag aldraðra heiðraðverðlaun fyrir framúrskarandi störf í þágu samfélagsins.  Veitt voru verðlaun í ýmsum flokkum eins og "uppfræðari ársins", "framlag til æskulýðsmála", "hvunndagshetjan", "til atlögu gegn fordómum", "samfélagsverðlaun" og "heiðursverðlaun".    Veittar voru viðurkenningar fyrir 3 útnefningar og svo valinn einn verðlaunahafi þeirra á meðal.  Ég var viðstaddur athöfnina og var þetta sérlega ánægjuleg stund.  Ljóst var að reynt var að styðja grasrótina í þjóðfélaginu og fólk sem hefur haft hugsjónir að leiðarljósi varð fyrir valinu. 

Fátt kom mér sérlega á óvart varðandi útnefningarnar nema að maður nokkur fékk verðlaun "hvunndagshetjunnar" fyrir að brugga og gefa lúpínuseyði til handa krabbameinsveikum til fjölda ára.  Einnig kom mér á óvart að eigendur náttúrulækningabúðarinnar Yggdrasil, fengu tilnefningu í einum flokknum fyrir það að hafa þraukað í 25 ár og komið fólki til hjálpar með aðferðum sínum (eða eitthvað á þá leiðina).  Þessi tvö fannst mér hafa fengið viðurkenningar fyrir það eitt að hafa sýnt viljan fyrir verkið en vissulega má segja að slíkt sé til vissrar eftirbreytni. 

Hvunndagshetjan heiðruðMér fannst það verulega dapurt að sjá það enn aftur að ósannaðar aðferðir fólks sem hefur heilsubót að áhugaefni en lítinn vísindalegan grunn, fái athygli og viðurkenningu.  Hvað með allt það góða vísindastarf sem er í gangi í landinu?  Mátti ekki verðlauna faglært fólk?  Stóð virkilega ekkert uppúr í vísindastarfi?  Voru ekki neinar hetjur þeirra á meðal?   Eru vísindamenn ekki hvunndagslegir?  Trúlega ekki.

Hvað verður næst?  Fær konan sem vill bjarga fólki úr klóm myglusveppanna verðlaun næst? eða konan sem hlustar á blómin?  Kukl er vaðandi í fjölmiðlum og fjölmiðlafólk og almenningur er farinn að trúa á það blint.  Þessi viðburður sýndi enn aftur hversu langt við erum leidd í kuklvæðingunni.  Við þessu þarf að sporna til þess að endurheimta virðingu fólks og skilning á vísindum.  Kukl er bara hindurvitni en ekki valkostur til að byggja framtíðina á.   Til þess að við förum ekki tvö skref afturábak meðan við tökum þrjú fram, þarf að huga að rökfræðimenntun þjóðarinnar.  Við getum ekki látið vel markaðssettar blekkingar frá USA og víðar, stjórna lífi okkar.    Sá tími og fé sem einstaklingar tapa daglega á þessu hérlendis er nú þegar umtalsverður og á eftir að verða geigvænlegur með þessu áframhaldi.  Dæmi; maður borgar 5000 kr fyrir að láta "græðara" greina sig með einhverjum rafblöðkum og tölvuforriti að hann hafi ofnæmi fyrir fjölmörgum fæðutegundum.  Það kostar svo margar læknisheimsóknir og hugsanlega raunverulegt ofnæmispróf til að sannfæra viðkomandi að ekkert ofnæmi sé á ferðinni.  Miklum tíma og fé þessa einstaklings og skattgreiðenda er þannig varið í vitleysu. 

Vissulega var það krúttlegt að maðurinn gaf sín lúpínuseyði veiku fólki og kannski er hann að vissu leyti hvunndagshetja en... stöldrum við og hugsum um fordæmisgildið áður en við förum að verðlauna slíkt opinberlega.


Góður mánudagur á Alþingi

Í dag tók Sigurlín Margrét sæti á alþingi í stað Gunnars Örns Örlygssonar sem tók sér barneignarfrí.   Það er sérlega ánægjulegt að það virðist ætla að nást þverpólitísk samstaða úr öllum flokkum um að styðja frumvarp Sigurlínar Margrétar um táknmálið.   Hún situr á þingi óháð og er það eflaust málinu til hjálpar.  Hins vegar er hún þannig persóna að hún á virðingu allra og þarf ekki "óháða" stöðu til.    Við, samherjar hennar og Margrétar Sverrisdóttur getum brosað breitt því Sigurlín Margrét verður framarlega í okkar framboðshóp í komandi kosningum.  Það er vel því hinn nýi flokkur verður skipaður mörgum sterkum konum og málefni minnihlutahópa verða í hávegum höfð.  Við fögnum því í dag og mig grunar að það verði ekki í síðasta sinn.


Hvort sem okkur líkar betur eða verr

Nú er í hámælum haft að erlent fyrirtæki auglýsi ferð til landsins í vafasömum tilgangi.  Af heimasíðu snowgathering.com að dæma þá er um að ræða 4-5 daga ferð til Íslands til þess að klæmast á snævi þöktu hálendi Íslands.  Af dagskránni að dæma er ekki að sjá neina fundi eða ráðstefnu heldur ferðir um náttúru Íslands og svo út á skemmta sér á kvöldin, m.a. á "striptease", þ.e. nektarstað.   Ég get því ekki séð annað en að þetta sé fyrirtæki í klámiðnaðnum sem er að skipuleggja einkaskemmtiferð fyrir klámfíkna karla og með þeim komi konur með til að veita þeim "showið" en það er ekki neitt í dagskránni um skipulögða ráðstefnu til að ýta undir klám, eins og mér hefst virst á fréttum.   Kannski hafa menn aðrar upplýsingar en liggja fyrir á þessari heimasíðu. 

Nú getur manni verið í nöp við nektarklúbba, klámblöð og auglýstar nektarsýningarferðir en það er tjáningafrelsi við lýði í landinu og fólk hefur frelsi til að gera ýmislegt í sínum einkatíma sem maður er ekki beinlínis hrifinn af.  Það er þó ekki hægt að banna slíkt nema ákveðið sé með lögum að fara útí slík afskipti.  Á móti geta þeir sem eru andsnúnir þeirri hegðun fólks að bera sig gegn gjaldi, mótmælt og það kröftuglega - ekkert nema sjálfsagt við það.  Það má líka reyna að fá lögum breytt og taka þann slag með rökræðu hvort að slíkt sé nauðsyn.  Hins vegar er EKKI hægt að krefjast þess að stjórnvöldum nú að gripið sé inní frelsi fólks til að ráðstafa eigin fé og tíma hér að hluta til í klám.  Slíkt væri yfirgangur og óeðlileg beiting valds. 

Þjóðkirkjan lætur nú hátt og mótmælir komu þessa fólks í náttúru- og klámferð.   Hún hvetur stjórnvöld til að grípa inní.   Forráðamenn Þjóðkirkjunar eru sem sagt að biðja yfirvöld um að skerða frelsi þessa fólks án þess að hafa til þess lagalegan ramma.

Ég vil minna á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem kirkjan fer fram á skerða frelsi fólks og nýlegt dæmi í því samhengi var beiðni biskups til löggjafavaldsins að gefa ekki trúfélugum leyfi til að gefa saman samkynhneigð pör.  Sú beiðni var virt af sitjandi sjórnarflokkum og setti það skugga á annars góðar lagabreytingar í jafnréttisátt fyrir samkynhneigða.  Nú er ég ekki að segja þessi mál séu sambærileg að eðli en í báðum tilvikum er kirkjan að fara fram á óeðlileg afskipti stjórnvalda.  

Svona er þetta, hvort sem okkur líkar betur eða verr.


mbl.is Þjóðkirkjan og prestafélag Íslands harma klámráðstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýyrði: smalræði

Í ljósi viðburða síðustu mánaða legg ég til að orðið "smalræði" verði tekið upp sem hugtak yfir aðferðir þeirra sem mest geta smalað fólki til að kjósa sjálfan sig í hæfileikakeppnum eða til ábyrgðarstarfa í félagasamtökum eða stjórnmálaflokkum.  "Smalræðið" er ólíkt lýðræðinu að því leyti að sérstakir áhangendahópar og jafnvel keypt atkvæði ráða mestu um úrslitin.  Þegar lýðræði virkar rétt, eru það þorri manna sem ekki á tilfinningaleg tengsl við keppandann eða frambjóðandann og hafa ekki orðið fyrir einhliða áeggjan einhvers eins, sem ráða úrslitum í kosningunni. 

Smalræði er raunverulegt vandamál á Íslandi og víðar í heiminum í dag.  Lýðskrumarar notfæra sér smalræðið og fólk í sjálfbyrgingslegu framapoti leitar skjóls í því.  Hver þorir orðið að standa á eigin verðleikum?  Án stuðningsmannavélar telur fólk sig glatað og er það því miður með vissri réttu í þessum óbilgjarna heimi.  Það þarf að taka prófkjör og kosningamál til alvarlegrar endurskoðunar.    Viljum við áfram sjá hina hæfileikaríku og ábyrgðarfullu fótum troðna?  Ekki ég.


Keppandinn minn - kosningaskrípaleikur X-factor

Það var átakanlegt að sjá Sigurð Ingimarsson, þ.e. Sigga, kosinn af símakosningu í annað af neðstu sætunum og svo dæmdan út af Ellý í X-factor í gærkveldi.   Þjálfararnir Einar Bárðarsson og Páll Óskar héldu höndum fyrir vitin af óhug yfir þessari niðurstöðu.   Það voru sjálfsagt blandaðar tilfinningar hjá Páli Óskar því stelpurnar hans, GÍS-dúettinn, voru einnig neðstar og rétt sluppu við fallexina.  

Það vakti FORUNDRUN mína að það þessi tvö voru mjög frambærileg og a.m.k. fjórir flytjendur sem stóðu sig verr.  Að mínu mati voru Gylfi, Jóhanna, Inga og Allan með lakari flutning.  Áberandi best voru Jógvan, Guðbjörg og Siggi.   Hara systurnar og GÍS voru mitt á milli. 

Hvað gerðist?  Það virðist deginum ljósara að þeir keppendur sem eiga duglegustu stuðningsmennina komast áfram og gildir þá einu hversu vel þeir eru að því komnir að fá brautargengi.  Áhugi fólks sem ekki þekkir keppendur á því að eyða fé í að kjósa er takmarkaður og því eru það f.o.f. stuðningsmannahóparnir sem kjósa og gera það margoft.  Þetta er því enn eitt dæmið um skrípaleik smalamennskunnar, brotalöm á því sem annars gæti kallast eðlilegur vilji fjöldans. 

Það er ábyrgðarhlutur að halda svona keppni, þó svo hér sé f.o.f. um skemmtun að ræða.  Keppendur og leiðbeinendur þeirra leggja mikið á sig til að gera sitt besta og setja sig í þá viðkvæmu aðstöðu að hljóta dóm áhorfenda og dómara úr öðru liði.  Það er hlutverk þeirra sem halda keppnina að gæta þess að kosningarfyrirkomulagið sé þannig úr garði gert að ekki geti komið upp veruleg "áhangendaskekkja" en slíkt er kallað "bias" í tölfræðinni.  Það er ekki sjálfgefið að kosningakerfi sem notað er hjá milljónaþjóðum virki á okkar litla Íslandi.  Hér er hættan á því að áhangendahóparnir hafi veruleg áhrif á niðurstöðuna. 

Niðurstaðan í gær setti þessa keppni verulega niður.  Markmið þessarar keppni var m.a. það að fólk á öllum aldri gæti látið ljós sitt skína.  Það er ljóst að Siggi leið fyrir að vera af léttasta skeiði og syngja lög sem eru ekki í tísku í dag.  Hann höfðaði því ekki til æskunnar sem hringir hve mest inn til að kjósa.  Inga er enn inni en hún nýtur góðs af því að vera krúttleg, jákvæð og brosandi.  Hún hefur staðið sig mjög vel en hefur ekki það "talent" sem Siggi augljóslega hefur. 

Það var aðdáunarvert af hve mikilli hógværð og yfirvegun Siggi tók þessari óréttlátu niðurstöðu.  Salurinn stóð upp og klappaði fyrir honum.  Einar Bárðar, þjálfari hans var sleginn og sagðist efast stórlega um dómgreind Ellýar á söngvurum eftir þetta.  Ellý hafði orðið fyrir gagnrýni stelpnanna í GÍS í þættinum áður og var e.t.v. hrædd við að ef hún hefði sent þær út, hefði hún fengið ásakanir fyrir að taka ákvörðun út frá persónulegum nótum. 

Eftir stendur að ekki er hægt að ákvarða hvar Siggi stóð meðal þeirra bestu.  Það var tekið af honum það tækifæri að fá að standa eftir meðal fjögurra bestu og sýna sig og sanna enn frekar.   Hann á eflaust eftir að fá mikla samúðarbylgju og nú er það hans að berjast áfram og gera það sem hann elskar að gera.  Þrátt fyrir allt hefur keppnin sýnt þjóðinni að hér fer mikið efni og ég vona að ég eigi eftir að njóta söngs hans í framtíðinni.  Gangi þér allt í haginn Siggi!  Frábær framistaða og framkoma til mikillar fyrirmyndar!


Landið okkar

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem vilja nú vernda náttúru landsins í auknu mæli.  Ég ólst upp við mikla náttúruunun móður minnar og afa.  Þær fjölmörgu ferðir sem ég fór á barnsaldri á áttunda áratugnum, í háfjallarútum í Þórsmörk, norður Sprengisand, suður Kjöl, Álftavatn og fleiri staði, voru mér ógleymanlegar.  Ég hafði einnig unun af því að keyra fjölfarnar leiðir eins og yfir Hellisheiðina eða skoða svæðin kringum Vatnsendahæð og Elliðavatn. 

Nú hefur gleði mín minnkað yfir því að eiga heima á okkar ótrúlegu eyju.  Þegar ég fer austur fyrir fjall blasa við mér hræðilega ljót og áberandi risastór rör við rætur Hengilsvæðisins og á fjallshryggjum má sjá fjöldan allan af mannvirkjum.  Allt í kringum Vatnsendahæð og nánast ofan í Elliðavatn og Rauðhóla er nú byggð, þannig að svæðið hefur misst talsvert af sjarma sínum.  Hin fallega hlíð ofan Rauðavatns er nú sjónmenguð af stórhýsi Morgunblaðsins.  Búið er að planta iðnaðarhúsum langt inní hið dásamlega Hafnarfjarðarhraun.  Nú á að reisa byggð í fagurgrænum hlíðum Helgafells ofan við Kvosina í Reykjadal, Mosfellsbæ og ég sé fram á það að missa þetta fagra útsýni þaðan sem ég bý hinum megin í dalnum. 

Ef til vill er þetta alger tilfinningasemi í mér og ég ætti að skilja að með auknum fólksfjölda verður að breiða út byggðina.   Einnig ætti ég að skilja að kall á aukna velmegun ekki seinna en í gær, hefur í för með sér úrræði eins og aukna stóriðju og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir.  Samt líður mér ekkert betur með þetta.  Ég fylgist bara með landinu hverfa undir steinsteypu, malbik, rör, gufumekki og háspennumöstur.  Ég fer að spyrja mig (og aðra), er þetta óumflýjanlegt?  Er græðgi okkar og velmegunarþrá svo takmarkalaus að við viljum engu fórna fyrir ósnert land?  Þurfum við að byggja í hverja einust hlíð sem okkur er næst?  Þurfum við að virkja hvert einasta fljót eða háhitasvæði bara af því að við getum það?

Ég vil leyfa mér að segja að svarið hljóti að geta verið nei.  Nú er nauðsyn að staldra við og hugsa.  Byggðarþróun þéttbýliskjarna verður að snúa frá núverandi kapphlaupi um fallegustu staðina.   Hús koma ekki í staðinn fyrir óspillt land.  Þó að byggðin verði eitthvað sundurlaus, þá verður að hlífa náttúruperlum nágrenisins.   Stöðva þarf þessa gegndarlausu stóriðjustefnu þrátt fyrir að vatnsaflsvirkjanir séu ekki efnamengandi.  Álverin menga loft og land auk þess að vera lýti.  Það yrði t.d. mikill missir af því að höfn yrði reist í Straumsvíkinni sjálfri.  Svæðið þar er geysilega fallegt.

Ómar Ragnarson, Andri Snær, Vinstri grænir og fleiri hafa vakið þessu máls.  Þessi uppvakning verður að halda áfram og þróast.  Við höfum nægar heilafrumur við Íslendingar til þess að finna aðrar lausnir á "velmegunarvanda" okkar.    Áframhaldandi uppbygging í vistvænum ferðamannaiðnaði á eftir að skila okkur miklu.  Landið okkar er auglýsingin okkar.  Ekkert kemur þar í staðinn.  Sýnum þolinmæði og þrautsegju svo afkomendur okkar geti borið okkur vel söguna.


Dramatískar niðurstöður úr skoðanakönnun Blaðsins

Blaðið birti í dag á forsíðu niðurstöður skoðanakönnunar sem fór fram eftir Landsþing Frjálslynda flokksins 27. janúar s.l.  Óheppilegt var að tölur um úrtaksstærð og fleira voru birtar aftast í fréttinni inní blaðinu þannig að þær fóru framhjá mörgum.

Samkvæmt Blaðinu var úrtakið í könnuninni 750 manns með jafnri kynjadreifingu og úr öllum kjördæmum. Svarhlutfallið var 88.8 prósent eða 666 manns.  Af þeim tóku 53 prósent afstöðu eða 353 manns.   Hér eru því um 666 manns, en það er minna úrtak en kannanir Gallup notast við en aðeins stærra en það sem Fréttablaðið hefur byggt á samkvæmt heimildum mínum.  Hátt hlutfall þeirra sem taka ekki afstöðu (47%) vekur athygli og skiptist það niður í 39% sem sögðust óákveðnir og 8% sem sögðust ekki ætla að kjósa.  Ekki fékk ég gefnar upp tölur um skekkjumörk.

Þessi könnum sem í fyrstu virtist vera illa gerð er því ágætlega hönnuð utan þess að úrtakið er heldur lítið.  Sé úrtakið ekki minna en úr könnun Fréttablaðsins fyrir viku síðan má taka jafn mikið mark á þessari könnun og þeirri.  Munurinn er sá að hið pólitíska landslag hefur stórbreyst eftir Landsþing Frjálslynda flokksins og viðtal Egils Helgasonar í Silfri Egils við Jón Baldvin Hannibalsson.

Í ljósi viðburða og hegðan forystumanna Frjálslyndra undrar mig ekki hrun flokksins.  Þeir vanmátu stórlega Margréti Sverrisdóttur og það fólk í trúnaðarstörfum flokksins sem jafnframt tók ákvörðun um að segja sig úr honum.  Skoðanakönnum Fréttablaðsins fyrir um viku síðan gaf forsmekkinn því fylgið fór niður í 9% úr 11% þar þrátt fyrir að könnunin næði einungis af 1/5 hluta yfir tímabilið eftir Landsþingið.  Niðurstaða könnunar Blaðsins, 3.1% fyrir Frjálslynda er afhroð og þó við gæfum okkur 50% skekkjumörk þannig að fylgið væri 4.6% hið mesta (og 1.6% hið minnsta) væri niðurstaðan samt slæm fyrir þá sem eftir standa í flokknum.   Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn fær mikið af fylginu og Framsókn einnig en eflaust eru margir af þeim stóra hóp sem eru að gera upp hug sinn spenntir að vita hvað Margrét og hennar samherjar munu gera ásamt mögulegum öðrum framboðum sem hafa verið nefnd til sögunnar.   Gagnrýni Jóns Baldvins á Samfylkinguna olli því hugsanlega að fylgi hennar hrapaði enn frekar og skrið hennar niður á við hefur náð því sögulega lágmarki að vera undir fylgi Vinstri grænna. 

En höldum okkur fast.  Framundan er spennandi mánuður og aðrar skoðanakannanir eiga eftir að varpa frekara ljósi á þróunina.  Stefnumálum Frjálslyndra ásamt nýjum viðbótaráherslum verður best varið hjá nýjum flokki sem nú er í mótun.


Nýtt stjórnmálaafl

Vel miðar í starfi samherja Margrétar Sverrisdóttur og undirbúningur framboðs er í gangi.  Ég vonast til að sjá flokk sem mun taka það besta úr hægri og vinstri stefnum og skilgreini sig sem breiðan miðjuflokk.  Ekki er komið nafn á flokkinn og verður það ákveðið í sameiningu með öllum þeim sem munu leggja sitt á vogarskálarnar fyrir góðu brautargengi hans.  Ljóst er að mikill hluti úr kjarna Frjálslynda flokksins er með okkur og margt nýtt hæfileikaríkt og duglegt fólk hefur bæst í hópinn.   Kynjahlutfall er jafnt, jafnvel aðeins fleiri konur og er það sérlega ánægjulegt.  Frjálslyndi flokkurinn hefur misst mikið af þeim konum sem þar voru en konur voru í minnihluta þar fyrir líkt og í svo mörgum stjórnmálaflokkum hingað til.  Nú er tækifæri til að breyta þessu.

 


Fylgi Frjálslyndra minnkar

Í Capacent Gallup könnun sem birt var í kvöld og gerð var á dögunum 3. til 30. janúar kom í ljós að fylgi Frjálslyndra fer minnkandi og er nú 9% í stað 11% í síðustu könnun.  Þetta er talsvert hrap og verður að teljast ósigur fyrir forystu flokksins.  Líklega hrapar  fylgið enn meira í næstu könnun því aðeins 1 vika af 4 sem könnunin tekur yfir er eftir landsþing Frjálslyndra.  Áberandi er að konur eru bara um 36% af fylgjendum Frjálslyndra og það hlutfall á eftir að minnka enn meir í kjölfar þess að Margréti var ekki veitt brautargengi í flokknum.  Kosningabandalag Nýs afls manna og forystunnar sá fyrir því að hún kæmist ekki að þó að meðal venjubundinna flokksmanna væri hún mun vinsælli en Magnús Þór.   Það sést nú á því að mikill meirihluti hins virka kjarna flokksins fyrir landsþingið hefur sagt sig úr honum og sumir þeirra sem þó héldu áfram studdu hana í kosningunni.  Einungis með gríðarlegri smölun á fólki sem vissi lítil deili á flokksstarfinu, tókst þremur þingmönnum og Nýju afli á Útvarpi Sögu að vinna Margréti.  Það fréttist alltaf á Íslandi þegar fólk kemur illa fram og þjóðin kveður upp sinn dóm.  Réttast væri að lýsa kosninguna á Landsþinginu ógilda og setjast við samningaborðið.  Stefna Frjálslyndra þarf á sameinuðu afli að halda. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband