Keppandinn minn - kosningaskrípaleikur X-factor

Það var átakanlegt að sjá Sigurð Ingimarsson, þ.e. Sigga, kosinn af símakosningu í annað af neðstu sætunum og svo dæmdan út af Ellý í X-factor í gærkveldi.   Þjálfararnir Einar Bárðarsson og Páll Óskar héldu höndum fyrir vitin af óhug yfir þessari niðurstöðu.   Það voru sjálfsagt blandaðar tilfinningar hjá Páli Óskar því stelpurnar hans, GÍS-dúettinn, voru einnig neðstar og rétt sluppu við fallexina.  

Það vakti FORUNDRUN mína að það þessi tvö voru mjög frambærileg og a.m.k. fjórir flytjendur sem stóðu sig verr.  Að mínu mati voru Gylfi, Jóhanna, Inga og Allan með lakari flutning.  Áberandi best voru Jógvan, Guðbjörg og Siggi.   Hara systurnar og GÍS voru mitt á milli. 

Hvað gerðist?  Það virðist deginum ljósara að þeir keppendur sem eiga duglegustu stuðningsmennina komast áfram og gildir þá einu hversu vel þeir eru að því komnir að fá brautargengi.  Áhugi fólks sem ekki þekkir keppendur á því að eyða fé í að kjósa er takmarkaður og því eru það f.o.f. stuðningsmannahóparnir sem kjósa og gera það margoft.  Þetta er því enn eitt dæmið um skrípaleik smalamennskunnar, brotalöm á því sem annars gæti kallast eðlilegur vilji fjöldans. 

Það er ábyrgðarhlutur að halda svona keppni, þó svo hér sé f.o.f. um skemmtun að ræða.  Keppendur og leiðbeinendur þeirra leggja mikið á sig til að gera sitt besta og setja sig í þá viðkvæmu aðstöðu að hljóta dóm áhorfenda og dómara úr öðru liði.  Það er hlutverk þeirra sem halda keppnina að gæta þess að kosningarfyrirkomulagið sé þannig úr garði gert að ekki geti komið upp veruleg "áhangendaskekkja" en slíkt er kallað "bias" í tölfræðinni.  Það er ekki sjálfgefið að kosningakerfi sem notað er hjá milljónaþjóðum virki á okkar litla Íslandi.  Hér er hættan á því að áhangendahóparnir hafi veruleg áhrif á niðurstöðuna. 

Niðurstaðan í gær setti þessa keppni verulega niður.  Markmið þessarar keppni var m.a. það að fólk á öllum aldri gæti látið ljós sitt skína.  Það er ljóst að Siggi leið fyrir að vera af léttasta skeiði og syngja lög sem eru ekki í tísku í dag.  Hann höfðaði því ekki til æskunnar sem hringir hve mest inn til að kjósa.  Inga er enn inni en hún nýtur góðs af því að vera krúttleg, jákvæð og brosandi.  Hún hefur staðið sig mjög vel en hefur ekki það "talent" sem Siggi augljóslega hefur. 

Það var aðdáunarvert af hve mikilli hógværð og yfirvegun Siggi tók þessari óréttlátu niðurstöðu.  Salurinn stóð upp og klappaði fyrir honum.  Einar Bárðar, þjálfari hans var sleginn og sagðist efast stórlega um dómgreind Ellýar á söngvurum eftir þetta.  Ellý hafði orðið fyrir gagnrýni stelpnanna í GÍS í þættinum áður og var e.t.v. hrædd við að ef hún hefði sent þær út, hefði hún fengið ásakanir fyrir að taka ákvörðun út frá persónulegum nótum. 

Eftir stendur að ekki er hægt að ákvarða hvar Siggi stóð meðal þeirra bestu.  Það var tekið af honum það tækifæri að fá að standa eftir meðal fjögurra bestu og sýna sig og sanna enn frekar.   Hann á eflaust eftir að fá mikla samúðarbylgju og nú er það hans að berjast áfram og gera það sem hann elskar að gera.  Þrátt fyrir allt hefur keppnin sýnt þjóðinni að hér fer mikið efni og ég vona að ég eigi eftir að njóta söngs hans í framtíðinni.  Gangi þér allt í haginn Siggi!  Frábær framistaða og framkoma til mikillar fyrirmyndar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Allt byggist þetta á smölun sbr. Sylvía Nótt í Eurovision í fyrra, svo við tölum nú ekki um Landsþing FF um daginn.  Sá þetta reyndar ekki, hef ekki Stöð 2, en við sáum jú samtakamátt íslensku þjóðarinnar í fyrra, þegar við héldum Magna inni í Rock Star að minnsta kosti þremur vikum lengur en við hefði mátt búast. 

Sigríður Jósefsdóttir, 17.2.2007 kl. 15:42

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Nákvæmlega.  Allt eru þetta dæmi um sigur "smalræðisins"!

Svanur Sigurbjörnsson, 17.2.2007 kl. 16:27

3 identicon

Kæri Svanur, snilldar vel orðuð hugleiðing hjá þér og er ég henni hjartanlega sammála. Lét þessi sömu orð falla við kellu mína í gærkvöldi eftir þetta "slys" að Ellý hefði ekki haft kjark til að send Gís heim eftir orðaskak þeirra í þættinum þar á undan og commentið hennar Ellýar að keppendur ættu ekki að svara dómurunum og það með hálfgerðum skætingi. Annars vísa ég í áður póstað comment við blogg Ómars ragnarssonar sem ég skrifaði inn þar í morgun og stend við það hvar og hvenær sem er. Kveðjur frá Akureyri.

p.s. Þótt ég búi á Akureyri þekki ég hvorki haus né sporð á Sigurði kaftein. Segi þetta bara af þeirri einföldu ástæðu að Siggi er hreint frábær söngvari. Held reyndar líka mikið upp á Guðbjörgu og Jógvan.

Þröstur Óskar Kolbeins (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 18:24

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Þröstur Óskar

Ég las athugasemd þína á síðu Ómars.  Ég tek undir það að það er leiðinlegt að sjá hversu neikvæð Ellý er út í flest nema eigin keppendur og er t.d. með grettur framan í kynninn sem er að reyna að grínast og halda þessu léttu.  Útkoman verður frekar döpur.  Kær kveðja norður - SS

Svanur Sigurbjörnsson, 18.2.2007 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband