Stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar - lifandi land
1.4.2007 | 21:03
Íslandshreyfingin - lifandi land opnaði heimasíðu sína í gær og þar er birt hnitmiðuð stefnuskrá og svo ítarlegri aðgerðaáætlun. Veffangið er www.islandshreyfingin.is Nú er kjörið tækifæri til að kynna sér stefnu okkar nýja flokks sem tekur ábyrga afstöðu til allra þjóðmála.
Efnt verður til stofnfundar ungliðahreyfingar flokksins á morgun mánudag 2. apríl kl 20:00 á kosningaskrifstofunni á 2. hæð Kirkjuhvols, Kirkjustræti 4, Reykjavík. Allt ungt fólk á aldrinum 18-25 ára sem vill starfa með flokknum er hvatt til að koma.
Þá er búið að stofna blogg fyrir á www.islandshreyfingin.blog.is þar sem flokksfélagar munu kynna stefnumál flokksins í greinum og gefa kost á athugasemdum lesenda.
Í gær var tímamótakosning í Hafnarfirði. Naumur meirihluti Hafnfirðinga sagði nei við stækkun álversins í Straumsvík þrátt fyrir að Alcan varaði við því að þeir myndu líklega pakka saman og fara eftir 6 ár. Um 450 manns vinna við álverið og þar af tæplega helmingur Hafnfirðingar. Þetta er því mjög mikilvægt mál og ljóst er að ákvörðinn var mörgum erfið. Ég tel að úrslitin séu góð því þegar til lengri tíma er litið verður að finna aðrar lausnir á atvinnuuppbyggingu en risavaxin álver. Ísland getur ekki tekið á sig ábyrgð heimsbyggðarinnar fyrir "vistvænni" álframleiðslu. Ísland á frekar að hvetja til breyttra neysluvenja og endurnýtingu málma. Það er kominn tími til að staldra við og hægja á iðnvæðingunni. Við getum ekki vaðið áfram í einhæfni og látið öll okkar egg í eina körfu. Álver eru ekki bara peningar heldur einnig lífsmáti og mótandi fyrir landslagið og umhverfi bæja. Sé ekki neyð í landinu höfum við efni á því að velja. Við höfum tíma til að byggja upp aðra atvinnustarfsemi sem gefur landinu aðra ímynd og fólkinu annars konar ævistörf. Auðvitað þurfum við ekki að taka út öll álver en líkt og í svo mörgu er betra að taka skrefin með varfærni og gæta hófs. Til hamingju Hafnarfjörður og Ísland!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.