Cheerios-bandalag?
23.4.2007 | 00:52
Nú virðist sem Kaffi-bandalagið sé nær úti. Frjálslyndir ofgerðu innflytjendamálinu og fengu xS og xV á móti sér. Samfylkingin missti axlarböndin og expressovélina þegar Jón Baldvin jarðaði flokkinn sinn í Silfri Egils í vetur og hefur verið hálf vængbrotin síðan. Mulningsvélar xD og xB fóru í gang og þeir fylgismenn þeirra sem alltaf eru að nöldra um hversu þeir standa sig illa en þora ekki að kjósa neitt annað þegar nær dregur, fóru til síns heima. Ingibjörg Sólrún átti skikkanlegan Landsfund en hún bar sig of mikið saman við stóra xD. Það styrkti hana og flokkinn að fá Monu Sahlin og þá norsku en enn vantar einhverja sannfæringu. Það er reyndar einvalalið í Samfylkinginunni. Í gær skrifaði Ingibjörg Sólrún í Mbl og sagðist geta leiðrétt launamisrétti kynjanna. Vissulega er umræðuefnið þarft en hún þarf að velja aðra slagi líka. Hún þarf að sýna að hún sé fulltrúi beggja kynja. Hún er kona og því gæti körlum fundist að hún sniðgangi þá. Feministinn Steingrímur J. Sigfússon á ekki við þann vanda að stríða einfaldlega vegna þess að hann er karl. Honum hefur tekist að sanna sig sem fulltrúa jafnréttis.
Nú hamast Jón Baldvin við að laga þá skemmd sem gagnrýni hans á Samfylkinguna olli. Hann kryfur Steingrím J til mergjar í lesbókargrein Mbl fyrir viku síðan og nú í Blaðinu nýlega tekur hann efnhagsstjórn og utanríkismál xD og xV til bæna. Landbúnaðarstefnu xB tekur hann í nösina á þeim forsendum að hún ali á okursamfélagi í skjóli tvöfalt hærri verndartolla en tíðkast í ESB. Það er ekki hægt annað en að dást að málflutningi hans fyrir mesta parta. Hann leiðir að því líkur að xS sé rétti valkosturinn af því að hinir eru hreinlega ómögulegir. Hvergi fer hann beinum fögrum orðum um forystu, frambjóðendur eða skipulag Samfylkingarinnar. Einhver maðkur virðist vera í mysunni sem þó ætti að vera vel æt. Ekki eyðir hann miklu púðri í Frjálslynda enda hafa þeir sýnt mikinn dugnað við að veikja traust kjósenda á sér, sérstaklega kvenna. Hann sýnir Íslandshreyfingunni samúð en framboðið kom of seint fram og hefur ekki náð megin tilgangi sínum, þ.e. að ná fylgi á meðal umhverfiselskandi fólks í xD og xB.
Nú í síðustu Capacent Gallup könnun og könnun Fbl liggur fyrir að með atkvæðum til handa xF, xÍ og Baráttusamtakanna, falla 8.2-8.4% atkvæða dauð niður haldi þau áfram framboði. Eitt höfuð markmið þessa framboða er að fella ríkisstjórnina því hún hefur verið hinn stóri þrándur í götu þeirra í málefnum aldraðra, umhverfisins og fiskveiðikerfisins. Réttast væri að þessi framboð drægju sig til baka og bæðu kjósendur sína að kjósa xS eða xV, nái þeir ekki 5% hálfum mánuði fyrir kosningar. Auðvitað er ekki búast við því að xF hætti því þeir hafa 3 (+2 gefins) þingmenn fyrir sem munu berjast til þrautar til að halda vinnu sinni og áhrifamætti en hin framboðin tvö hafa ekki eins miklu að tapa. Sjálfsagt vill xÍ ekki verða þess valdandi að xF haldi velli þar sem Frjálslyndir styðja stóriðju og því má segja að það aukamarkmið xÍ haldi þeim að hluta til gangandi. Baráttusamtökin eru gjörsamlega andvana fædd, því eins máls flokkar eiga hreinlega ekki erindi á Alþingi, sama hversu göfugt málefnið er. Þau ættu hiklaust að draga framboð sitt til baka og hjálpa þannig við að fella ríkisstjórnina. Þora þau að meta stöðuna kalt?
Ein rökin fyrir því að kjósa annað en núverandi ríkisstjórnarflokka er "spillingin" í kerfinu. Jón Baldvin leiðir að því líkur að langur tími við völd leiði óumflýjanlega af sér misnotkun á kerfinu og óeðlilega valdbeitingu. Á hinn bóginn má segja að langur tími við stjórnvölin skili af sér dýrmætri reynslu og það er ekki sjálfgefið að fólk spillist með tímanum. Hins vegar eru ýmsar vísbendingar um spillingu og misnotkun valds.
Stjórnarflokkarnir búa við óeðlilegt ráðherraræði og hin óbreytti þingmaður má síns lítils. Stór mál fyrir þinginu fá oft skelfilega lítinn umræðutíma og eru keyrð í gegn án þess að gefa stjórnarandstöðu tækifæri til að koma með ábendingar sem gætu reynst þarfar. Engar tillögur stjórnarandstöðunnar eru samþykktar bara af því að þær koma frá þeim. Það er eins og það sé ekki sama hvaðan gott kemur. Þá voru samþykktir Halldórs og Davíðs um að taka þátt í lista hinna viljugu þjóða sérlega óforskammaðar og ólýðræðislega teknar. Margt hefur verið gagnrýnisvert í einkavæðingu bankanna og mannréttindamálum er illa sinnt. Íslandi hefur eina af ströngustu innflytjendalöggjöfum álfunnar og er hin ómannúðlega "24 ára" reglan eitt dæmið um slíkt.
Framsóknarflokkurinn hefur raðað sínu fólki í stöður í stjórnkerfi heilbrigðiskerfisins og gæðingar þeirra gera endalausar skoðanakannanir á heilsugæslustöðvunum sem kosta mikið en skila engum nýjum ákvörðunum. Miðstýring hefur aukist og stöðvarnar fá nær ekkert sjálfstæði auk þess sem búið er að skera á rannsóknarstarfsemi heilsugæslulækna. Forvarnarstarfi er hvergi nógu vel sinnt. Framsókn hefur haldið Heilbrigðisráðuneytinu í 12 ár og er að gera lækna brjálaða. Geir lýsti yfir sterkum vilja til að taka yfir heilbrigðisráðuneytið í næstu ríkisstjórn en það er snjöll taktík. Með þessu sefar hann óánægða sjálfsstæðismenn sem fá nú trú á því að heilbrigðiskerfinu verði kippt í liðinn.
Er spilling? Ég hef ekki óyggjandi svar en stjórnarmistök og bíræfni stjórnarflokkana s.l. 12 ár nægja mér til að kjósa annað. Óskastjórnin mín er Samfylkingin, Vinstri grænir og Íslandshreyfingin. Í þessum flokkum er mikið af hæfileikafólki og nægri reynslu til að halda þétt um stjórnvölin.
Með nýjum flokkum í ríkisstjórn munu koma aðrar áherslur og þjóðin þarf slíka breytingu. Það þarf að hleypa fersku blóði inn og hrista upp í ráðuneytunum og stjórnsýslunni. Mannréttindamálin og velferðarmálin þurfa meiri athygli og framþróun. Umhverfið og náttúran þurfa hvíld. Efnahagskerfið þarf kælingu og þ.a.l. mun hægja á streymi útlendinga hingað og þeir sem fyrir eru fá meiri athygli til aðlögunar. Þessir hlutir fást ekki með núverandi stjórnvöldum. Núverandi stjórnvöld eru of nátengd stóriðju og hagsmunaðilum til þess að geta breytt stefnu sinni. Fái þau umboð enn á ný mun ekkert halda aftur af þeim til frekari stóriðju. Þau hafa dælt í kerfið peningum undanfarna mánuði til að gera fólk ánægt. Ég dáðist að þjóðinni lengi vel því fólk virstist ekki bíta á agnið og hver könnunin af fætur annarri sýndi að stjórnin var fallin, en nú hefur mörgu hugsandi fólki brostið kjarkur og það hlaupið í "öryggið" hjá xD. Ég skora á þetta fólk að hugsa lengra en þeirra eigin hagsmunir ná til. Ég skora á það að hugsa um heildarhagsmuni þjóðarinnar, um gildi þess að hrista duglega upp í kerfi sem er að rotna og gefa þjóðinni frí frá stóriðju næstu árin.
Samkvæmt könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins kom í ljós að aðeins örlítið brot barna okkar vill vinna í verkavinnu þegar það vex úr grasi. Flest vilja verða "sérfræðingar" á einhverju sviði. Vissulega verður það alltaf svo að ákveðinn hluti þjóðarinnar mun vinna verkavinnu en það er ekki rétt að hunsa þennan vilja. Það væri heimskt að setja öll eggin í stóriðjukörfuna og reyna ekki til þrautar að skapa hér sterkara (verk)menntasamfélag með fjölbreytni að leiðarljósi, jafnframt því að geta sagt með stolti að við hefðum staðist það að leggja náttúruna undir mengandi og plássfrekan iðnað. Það er áhyggjuefni að aðeins 2% barnanna sáu fyrir sér vinnu við tölvur og því þarf a leggja meira fé til menntunar og fjölbreytni í þeim geira. Það er mikil framtíð í hugbúnaðargerð og þarna þarf að verpa nýjum eggjum.
Fyrst að Kaffi-bandalagið kólnaði er ekki bara tilvalið að stofna til Cheerios-bandalags? Cheerios hringirnir rúlla og það þarf nýtt bandalag einmitt að gera. Ég vil biðja stjórnarandstöðuflokkana að ganga nánast bundnir til kosninga, þ.e. að þeir lofi að leita f.o.f. samstarfs innbyrðis eftir kosningar. Framkoma þeirra í garð hvors annars þarf að endurspegla samstarfsvilja. Hér er tækifæri til að sýna eitthvað fram yfir stjórnarflokkana sem hamast nú við að níða hvorn annan niður. Hér gildir hið sígilda; sameinuð stöndum við og sundruð föllum við. Cheerios í skálina takk!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:37 | Facebook
Athugasemdir
Já umræðan átti vissulega rétt á sér og var þörf, rétt eins og umræða um öll kjaramál. Frjálslyndir áttu hól skilið (þó það sé reyndar bara eðlilegur hlutur) fyrir að koma henni á skrið. Hins vegar hafa vissir þættir umræðunnar hjá þeim farið úrskeiðis og þar á ég við um skrif um að Ísland sé fyrir Íslendinga og það að fjölmenningasamfélög gangi ekki upp (sbr skrif Jóns M og Viðars G). Þá er einnig mjög vafasamt að fara að tala um sjúkdóma og glæpi á meðal innflytjenda. Það þyrfti að sýna fram á raunverulega hættu (umfram þá hættu sem Íslendingar skapa sjálfir t.d. með ferðalögum sínum erlendis) með rannsóknum áður en slíkt er talið til. Þá hafa Frjálslyndir ekki skoðað nægilega vel innflytjendalöggjöfina eða hafa ekki kveikt á því að berjast fyrir því að "24-ára" reglan verði lögð niður. Hún er mjög ómannúðleg og stenst ekki stjórnarskrá, eins og dómstólar hafa úrskurðaðn nýlega.
Ég er ekki málsvari neins stjórnmálaflokks þannig að það er bara stefna "mín" en ekki "okkar" sem á við í mínum svörum.
Svanur Sigurbjörnsson, 27.4.2007 kl. 14:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.