Reynsla mín af kosningabaráttu í prófkjöri

Atkvæðin rúlla inn! 

Nú er liðinn einn sólarhringur frá því að kosning hófst í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi og hafa liðlega 300 manns hafa kosið skv. bráðabirgðatölum um þátttöku frá kjörstjórn.  Það telst góð byrjun og lofandi fyrir mikla þátttöku.

Ég er einn af 15 frambjóðendum og er þetta í fyrsta sinn sem ég tek þátt í prófkjöri.  Hópurinn er breiður og sterkur þannig að ég geri mér engar grillur um sæti framarlega þó auðvitað tæki ég slíku tækifæri fagnandi ef það gæfist.  Kosningabaráttan hefur farið einstaklega vel fram og frambjóðendur sýnt vináttu í garð hvors annars og verið í alla staði málefnalegir.  Skipulag kjörstjórnar hefði mátt vera aðeins betra, en hefur verið í öllum aðal atriðum mjög traust.  Það er mikilvægt að það má raða 6-8 frambjóðendum á kjörseðlinum því þá verður kosningin tölfræðilega marktækari fyrir 8 efstu sætin.  Samkvæmt reglunum eru 5 efstu sætin bundin, þ.e. kjörstjórn má ekki breyta röð þeirra nema til að uppfylla fléttulistaákvæðið.  

Það er sérlega jákvætt að fjöldi karla og kvenna í kjöri er jafn og gerðist það án þess að nokkrum þrýstingi væri beitt til að fá konur til framboðs.  Slíkt er merki þroskaðs flokks.  Fléttureglan gæti orðið einhverjum körlum til bjargar, en ekki konum.   Ég lít á það sem jákvætt "vandamál".

Það er búin að vera jákvæð og skemmtileg reynsla að funda með íbúum sveitarfélaganna í kjördæminu og hvernig sem fer í prófkjörinu þá tel ég að þau mál sem ég ber fyrir brjósti hafi nú heyrst víðar og vonandi vakið fleiri til umhugsunar.  Þau tvö mál sem ég var sá eini sem hélt á lofti í framboðsræðunum svo ég viti til voru:

  1. Eina hjónabandslöggjöf fyrir alla.
  2. Jafnrétti lífsskoðunarfélaga - aðskilnaður ríkis og einnar kirkju í stjórnarskrá og lögum.

Allir frambjóðendur höfðu sínar málefnaáherslur eða leiðir en gegnumsneitt var ánægjulegt að heyra að mikil samstaða var um að:

  1. Lyfta þjóðinni úr öldudal græðgi og spilltra stórnmála.  Bæta lýðræðisskipan.
  2. Að stjórnarsamstarf við xD sé óhugsandi og lýsa eigi yfir áhuga á samstarfi með Vg.
  3. Að lágmarkskrafa og nauðsynlegt sé að fara í aðildarviðræður við ESB.
  4. Stefna að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu og veðja ekki á fá stór egg.
  5. Greiðsluaðlögun og stuðningur við fjölskyldurnar í landinu. 
  6. Efla klassíska jafnaðarstefnu- skipta kökunni jafnt og búa öllum jöfn tækifæri.

Hægt er að kjósa fram til 16:00 á laugardaginn séu menn félagar í xS eða hafi skráð sig á stuðningsmannalista flokksins fyrir 10. mars sl. 

Ég ætla ekki að spá um úrslit, en hver sem þau verða mun Samfylkingin hafa á að skipa mjög traustu fólki - með hjartað á réttum stað - fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl næstkomandi.  

Um stefnumál mín má lesa um í framboðsgreinum mínum merktum I-V hér neðar á blogginu. 

Ég hvet þá sem þetta lesa að taka þátt í skoðanakönnunum mínum hér í dálknum hægra megin. 

Ég þakka öllum meðframbjóðendum og þeim sem hafa veitt mér stuðning undanfarnar 2 vikur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Eg hefði svo gjarnan  viljað styðja þig í prófkjörinu, en hef átt í vandræðum með að gera það þar sem ég var ekki á íbúaskrá 1. des 2008. Ég er aftur á móti á kjörskrá, en það dugar víst ekki. Ég geri það sem ég get með mínu eina atkvæði á kjördag. Gangi þér vel.

Ásta Kristín Norrman, 13.3.2009 kl. 02:47

2 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Gaman að lesa svona jákvæðan og málefnalegan texta hjá þér.

Eitthvað í þessa veru á að fjalla um stjórnmál!

Gangi þér vel!

Jón Ragnar Björnsson, 13.3.2009 kl. 06:16

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Ásta, ég veit að þú reyndir að skrá þig.  Skipulag prófkjara hvað varðar atkvæði erlendis frá er ekki frágengið. 

Takk Jón Ragnar, já nóg er af bölmóðnum og ef neikvæðnin heldur áfram þá byggist ekki upp traust gagnvart Alþingi.  Með betri orðstír fáum við betra fólk á þing, sama hvaða flokk er um að ræða.

Svanur Sigurbjörnsson, 13.3.2009 kl. 11:03

4 identicon

Hvernig er þetta með ykkur læknana, þið virðist margir sækja á önnur mið.
Er svona lítið aðdráttarafli í læknastarfinu, öll þessi ár sem fóru í að læra dæmið og svo bara stjórnmál.
What gives?

P.S. Gangi þér vel.

DoctorE (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 14:11

5 identicon

DrE, þú ættir að taka prófkjöri hans fagnandi. Svanur, ég myndi kjósa þig ef ég gæti. Gangi þér vel

baddi (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 15:18

6 identicon

Baddi.. .ég var ekki að segja að ég væri neitt á móti þessu.. bara pæling með .. well það sem ég sagði.

Svanur verður örugglega topp gaur

DoctorE (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 15:26

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll DoctorE

Það þyrfti fleiri lækna í stjórnmálin því þeir hafa víðtæka menntun og reynslu úr mannlífinu.  Það er ekki allsherjartrygging fyrir góðri stjórnmálastefnu en eykur samt talsvert líkur á því.

Ég lít á stjórnmálaþátttöku mína að vissu leyti sem læknisstarf.  Á meðal stórtækustu framfara í heilbrigði og sjúkdómavörnum þjóða hafa orðið vegna mikilvægra pólitískra ákvarðana.  Með því að koma inn með þekkingu mína á því sviði í stjórnmálin, get ég sinnt læknishugsjóninni einnig.  Tveir fyrir einn!

Einnig tel ég þátttöku mína í stjórnmálum vera hluti af þroskaferli mínu sem manneskja.  Það er mjög gefandi og þroskandi að læra á þá innviði þjóðfélagsins og mannlífssins sem snúa að stjórnmálunum og maður fær tækifæri til að tala við margt áhugavert og skemmtilegt fólk, og hlusta á áhyggjur fólks og hugmyndir um bætt líf og bætt þjóðfélag.

Vonandi svarar þetta spurningunni kæri MeðDoktor_aðviðbættu-E!

Svanur Sigurbjörnsson, 13.3.2009 kl. 15:32

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Kærar þakkir Baddi fyrir stuðninginn!

Svanur Sigurbjörnsson, 13.3.2009 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband