Kæri sjálfstæðismaður - ertu sem límdur við brotna fjöl?
9.4.2009 | 16:40
Kæri sjálfstæðismaður - Það vekur hjá mér furðu að nokkuð heiðvirt fólk ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem gæti alveg eins heitið Sjálftökuflokkurinn. Sjálfsagt er ýmislegt gott við flokkinn og enn eru í honum fólk sem hefur almennan velvilja, metnað og stolt, en stefna og framistaða hans síðasta áratuginn er á við forsjá ofdrykkjusjúklings í afneitun. Hvers virði er flott ásjóna ef innviðurinn er fúinn? Metnaður er ekki nóg ef markmiðin eru þröngsýn og sjálflæg. Lítum aðeins yfir feril flokks þíns (sem rétt eftir stofnun sína tafði lögsetningu vökulaganna um 4 ár - já, stétt með stétt).
Hér er sitthvað úr "afrekalista" Sjálfstæðisflokksins:
- Einkavinavæðing í stjórnkerfinu og sölu bankanna á spottprís - með málverkasöfnum.
- Óhóf í utanríkisstefnu. Fyrirfram glötuð umsókn um sæti í öryggisráði SÞ.
- Geggjuð hugmyndafræði nýfrjálshyggju þar sem markaðurinn átti að tempra sig sjálfur,
- Hunsun viðvarana um hrun,
- Rauntekjulækkun þeirra lægst launuðustu með rýrnun persónuafsláttarins í áraraðir.
- Utanlandsferðir æðstu ráðamanna til að verja áhættusækinn fjármálageira,
- Skipun vina og ættingja í dómstóla í mótsögn við hæfnismat,
- Tregða til framfara í mannréttindum og jafnræði þó einhverjar hafi orðið. Mannréttindalöggjöf er um 15 árum á eftir þeirri sænsku til dæmis.
- Karlaflokkur
- Óhófleg kosningabarátta, ósiðleg móttaka ofurstyrkja eða styrkja frá opinberum fyrirtækjum,
- Viðhald kvótakerfis sem brýtur á atvinnuréttindum og leyfði framsal kvóta frá mikilvægum byggðarlögum. Þetta setti tóninn fyrir sjálftöku auðmanna í fjármálageiranum.
- Sjálftaka með svívirðilegum eftirlaunalögum,
- Valdhroki, ráðherraræði - nær engin góð mál þingmanna eigin flokks eða stjórnarandstöðu fengu brautargengi á þingi.
- Fjáraustur í eitt trúfélag - þjóðkirkjuna, langt umfram önnur.
- Ómannúðleg útlendingalöggjöf og fjársvelti Mannréttindaskrifstofu Íslands.
- Stuðningur við stríðsrekstur USA í trássi við SÞ.
- Fjármálaklúður, farsi og valdagræðgi í borginni - ófyrirleitinn valdaleikur með ginningu Ólafs F.
- Ráðning Davíðs Oddsonar í Seðlabankann,
- Sérhlífni eftir hrunið (engar afsagnir) og ekki brugðist við reiði þjóðarinnar.
Ég veit að ég er að gleyma fullt af "afrekum". Kannski geturðu hjálpað mér við upptalninguna.
Nú koma í ljós fjármálahneyksli flokksins, sem á sama tíma var að setja lög um fjárframlög til flokka, m.a. vegna langvarandi þrýstings frá stjórnarandstöðunni og öllu þjóðfélaginu. Geir Haarde er svo augljóslega að fela sannleikann þegar hann segir "ég einn bar ábyrgð" því hann þurfti ekki að taka það sérstaklega fram. Lítill strákur í stórum líkama. Nú er tekinn við flokknum stór strákur með bál í bláum augum sem segist ekkert vita um hvað þessar milljónir áttu að fara í, annað en "fjáröflun fyrir kosningar". Ýmsar spurningar vakna eins og hvort að stjórnendur Landsbankans (Sigurjón Árnason o.fl.) hafi með þessum 25 milljón króna styrk til xD ætlað sér að kaupa sér áframhaldandi vinnufrið með Icesave reikningana sína (stofnaðir í maí 2006) og velvild í stað gagnrýni valdamesta flokks landsins? Hver sem ástæðan var, er ljóst að þarna mynduðust óeðlileg hagsmunatengsl sem boðið gátu uppá misbeitingu valds eða vanbeitingu réttarvalds gagnvart þessari gríðarstóru fjármálabólu sem Landsbankinn var orðinn. Með sjálfstæðismann í forystu hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum var þessi mögulega vanbeiting eftirlits og aðhalds enn líklegri og með því að þiggja svona styrk er traustið rofið.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann er flokkur tækifæranna, sama hver þau eru og sama hversu siðleg eða ósiðleg þau eru. Á meðan það er löglegt er það í lagi hjá forræðismönnum flokksins. Siðferðishugsunin nær ekki lengra. Ekki vantar að flokkurinn hefur viðhaldið ásjónu ytri myndugleika en hvar er heiðurinn? Hvar er hin raunverulega reisn heiðviðra manna? Flokkurinn þykist bera hag allra stétta fyrir brjósti - "stétt með stétt!", eru ein af kjörorðum flokksins, en í tíð hans varð bilið milli efnalítilla og auðmanna aldrei stærra í Íslandssögunni og kakan stóra sem átti að hjálpa öllum var bara blekking sem molnaði eftir áratug sukks og ofurlauna.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn komu á einum þeim lægstu sköttum á fjármagn og arð fyrirtækja sem þekkist, en samt launaði þetta nýríka fólk þjóðinni með því að fela fjármagn sitt í skattaparadísum með hjálp banka sem eitt sinn voru ríkisbankar og báru eitt sinn ábyrgð gagnvart þjóðinni. Eigendur sumra stórfyrirtækja skilaðu kinnroðalaust inn skattframtali með hlægilega lágum launatekjum og fengu sínar tekjur gegnum arð sem bar aðeins 10% skatt. Kerfið sem átti að minnka stórlega undanskot frá skatti ól aðeins á meiri græðgi og undanskotum. Fylgjendur frjálshyggjunnar virðast margir hverjir ekki skilja að skattskil byggja fyrst og fremst á siðferðilegri afstöðu og ábyrgðartilfinningu heldur en nákvæmlega hver prósentan er. Nú þarf að hækka þennan skatt t.d. upp í 14% (sem áfram væri lágt) því þjóðarskútan er á kúpunni, en formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að slíkt komi ekki til greina. Hann heldur greinilega enn að fyrirtækin steli minna undan skatti ef þau þurfi nær ekkert að greiða í skatt. Hann telur að fyrirtækin geti ekki tekið á sig byrðarnar eins og aðrir, og þau megi ekki snerta. Hann telur sig hinn stóra vin einkaframtaksins og með því nái þjóðin flugi á ný.
Hvernig getur þú hugsað þér að kjósa þennan flokk sem enn segist hafa aðhyllst rétta hugmyndafræði? Hvernig geturðu kosið flokk sem klappar úr sér lófana yfir aðsóknarsjúkri og hrokafullri háðsræðu Davíð Oddssonar á landsþingi flokksins?
Kannski á Sjálfstæðisflokkurinn sér viðreisnar von en þess sjást ekki mikil merki nú. Þjóðin hefur nú einstakt tækifæri til lýðræðisbóta með breytingum á stjórnarskrá sem þarf þingið nú og þingið eftir kosningar til að samþykkja, en Sjálfstæðisflokkurinn ber við alls kyns ómálefnalegum málflutningi (kvartar yfir vinnubrögðum) og beitir málþófi til að reyna að koma í veg fyrir breytingarnar. Nú beitir flokkurinn fyrir sér félagasamtökum með dýrum auglýsingum í blöðum og sjónvarpi. Hræðslan við að dreifa valdinu og breyta því kerfi sem flokkurinn hefur nærst á og sótt völd sín til undanfarna áratugi er mikil. Flokkurinn sem viðhélt alls kyns skattníðslu í formi jaðarskatta (stimpilgjöld, tekjutengingar bóta, notendagjöld) segir nú að alls ekki megi setja á neina nýja skatta eða skattahækkanir, en jafnframt vill skera verulega niður í opinberri þjónustu og setja gjöld á veikt fólk sem þarfnast innlagnar á spítala (aðgerðir Guðlaugs Þórs). Lausnir í atvinnumálum eru áfram stóriðja og blóðmjólkun landsins gæða með nýjum haug af orkuverum. Þetta er allt blessunarlega laust við hófsemi og aðgæslu gagnvart náttúru landsins, auk þess sem eggin eiga greinilega að liggja öll í sömu álverskörfunni, háð því að álverð haldist gott.
Auðvitað má finna að ýmsu hjá stjórnarflokkunum xS og xVg, en nú eins og alltaf þarf að velja illskásta kostinn sem er í boði. Sýndu mér fram á að xD sé sá kostur og ég skal skipta um skoðun, en þangað til verð ég að efast um heilbrigða dómgreind þess sem ætlar sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 25. apríl næstkomandi. Aldrei hefur þetta verið eins skýrt í huga mér og ég skora á þig sjálfstæðismaður að líma þig ekki við brotna fjöl. Kjóstu betra siðferði og ekki aðeins efnahagslega hagsæld heldur einnig félagslega farsæld og mannvirðingu næstu 4 árin með því að kjósa annan hvorn ríkisstjórnarflokkinn! Það er ekkert að því að vera fyrrverandi sjálfstæðismaður!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Svanur,
Ekki ætla ég að draga úr ábyrgð eins stjórnmálaflokks, en mér finnst að stjórnmálaleg ábyrgð á ástandinu á Íslandi eigi að falla á þá flokka sem hafa verið við stjórn á þessum umbyltingarárum, þ.e.a.s. Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Samfylkinguna. Fyrir og eftir hrunið voru tveir flokkar við völd og báðir, a.m.k. séð héðan utanfrá, voru gersamlega með allt niður um sig. Eða voru framskóknar- og samfylkingarmenn bæði daufir og dumbir meðan þeir sátu við borð á stjórnarheimilinu?
Ríksstjórnin í heild hafði látið undir höfuð leggjast að takast á við hlutverk sitt, þ.e. að vera ríkisstjórn. Ríkisstjórnin var ekki raunverulega við völd því hún hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast, eða a.m.k. virtist ekki hafa hugmynd um það, og á það við báða stjórnarflokkana. Hvar voru varnaðarorð Samfylkingarinnar fyrir hrun? Ég man eftir að hafa séð Ingibjörgu Sólrúnu kveða nokkuð fast að í sjónvarpsviðtali s.l. sumar til að andmæla orðum einhvers erlends sérfræðing sem sagði íslenska bankakerfið vera að hruni komið. Mig minnir að hún hafi komist þannig að orði að þessi maður væri ekki með öllum mjalla. Ég reikna með því að hún hafi þar verið að hunsa viðvaranir um hrun!
Persónulega finnst mér að Samfylkingin hafi komið billega út úr þessu dæmi. Hún hefur ekki tekið á sig neinskonar ábyrgð á því sem úrskeiðis fór og það var margt eins og upptalning þín rekur. Mér finnst að Samfylkingin hafa skotið sér undan ábyrgð og ekki komið hreint fram né heldur gert hreint fyrir sínum dyrum hvað varðar undanfarin ár. Ef politískur friður á að komast á á Íslandi svo menn geti horft til framtíðar verða þessir flokkar að gera hreint hjá sér.
Kveðja frá Port Angeles, Washington
Arnór Baldvinsson (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 23:37
Segðu það sem þér sýnist um Sjálfstæðisflokkinn, Svanur, svo lengi sem þú biður engan að kjósa EBé-dindlana í Samfylkingunni.
Jón Valur Jensson, 10.4.2009 kl. 04:14
Þakka þér frábæra grein Svanur.
Það er illt til þess að vita að u.þ.b fjórðungur þjóðarinnar virðist ekki gera sér grein fyrir hvert Sjálfstæðisflokkurinn hefur stefnt síðustu tæpa tvo áratugi, með þeim afleiðingum sem við þekkjum nú. Aðferðir fylgjenda sjálftökuflokksins til réttlætingar eru óhugnalegar. Með smjörklípu aðferð DO og " ekki bara ég, líka þú" hljómar kjánalega og sýnir eingöngu vanmátt til varnar á spillingu þeirri, sem hefur viðgengist undir merkjum arnarins.
Sjálfur er ég enginn ESB-sinni, en mér finnst alveg réttlátt að fólkið í landinu fái að ráða sjálft för, eins og SF vill. Ekki að ákvörðunarvald sé sett í hendur félaga JVJ sem skrifar hér að ofan. Nóg er komið af þeirra leiðsögn. Ég tel að þjóðin sé alveg dómbær sjálf í ESB málinu, eftir að kannað hefur verið hvað (möguleg) aðild veitir okkur. Þurfum ekki leiðsögn óþurftarmanna í því máli. Það er fásinna að segja að við töpum sjálfstæði og yfirráðum yfir auðlindum. Ein helsta sameign þjóðarinnar hefur verið sett í hendur örfárra manna af blá-græna bandalaginu og kemur raunar eiganda auðlindarinnar ekkert við lengur. Hver afsalaði rétti þjóðarinnar á þeirri sameign? Sömu aðilar voru langt komnir með að afsala orkulindum til þjófa og ræningja, sem lögðu þjóðina flata. Vill fólk virkilega þessa aðila við stjórnvölinn aftur? Er ekki nóg komið? Reynið að vakna nú fylgjendur sjálftökunnar. Með örlítilli rökhugsun ætti að vera auðvelt að komast að niðurstöðu. En við heilalausa ofstækisfylgjendur, er víst lítið hægt að gera. Ótrúlegt er að þannig sé ástatt með fjórðung þjóðarinnar.
alfreð guðmundsson (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 09:13
Það er kannske engin dyggð að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en það er algjört tabú að kjósa landráðamennina í Samfylkingunni. Þann flokk mun ég aldrei kjósa!
Sigurjón, 10.4.2009 kl. 09:13
Af öllu því sem býðst fyrir kosningarnar 25. apríl, er SKÁST að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Að velja sér stjórnmálaflokk til að kjósa, er svipað og að leggjast á spítala. Maður veit að stefnt er að auknu heilbrigði, en svo lendir maður í einhverjum slátraralækni sem leiðir til örkumla um styttri eða lengri tíma. Hvar ert þú annars læknir, Svanur?
Halldór Halldórsson, 10.4.2009 kl. 09:58
Tek undir með þér Svanur. Minn gamli flokkur á að fara í urðun.
Haukur Nikulásson, 10.4.2009 kl. 09:58
Halldór! Með þessa skoðun er ekki ósennilegt að þú þurfir góða meðferð.
Haukur Nikulásson, 10.4.2009 kl. 10:00
Já Svanur þetta er mikil lesning og auðvitað er margt til í þessu. Eins og sönnum Samspillingarmanni þá skautar þú auðvitað yfir öll verk Sampillingarinnar í síðustu ríkisstjórn. Þetta var svona: Allt það góða það var Samspillingunni að þakka en það vonda Sjálfstæðisflokknum að kenna. Á ég kannski að rifja upp fyrir þær ræðurnar hennar Ingibjargar Sólrúnar í ágúst og september á síðasta ári þegar hún var að dásama verk ríkisstjórnarinnar og hversu vel flokkarnir ynnu vel saman ? Það var alla vega ekkert í stíl við samantektina þína. Þetta kallast pólitískt lýðskrum !
Jóhann Ólafsson, 10.4.2009 kl. 11:05
Við þurfum siðbót í stjórnmálum, en hvernig getum við fengið hana ef við skiljum ekki vandann? Hvað er bak við tjöldin? Ég þýddi smá stubb um Fabian samfélagið sem kannski getur komið að gagni.
Fabian samfélagið
Gullvagninn (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 12:07
Góð skrif hjá þér Svanur. Það eiga eftir að verða miklar breytingar í vor. Við drögum djúpt andann og þurfum öll að hjálpa til að tryggja að þær verði samfélaginu til heilla. Mbk, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 10.4.2009 kl. 13:35
Sæll Arnór í Port Angeles, WA
Auðvitað ber Samfylkingin sína ábyrgð, en það voru ólík viðbrögð þar á bæ og hjá xD í kringum hrunið. Innan xS mátti einnig hafa ólíkar skoðanir og snemma lýstu nokkrir ráðherrar úr xS að þeir teldu að ganga ætti til nýrra kosninga. Samfylkingin var minni flokkurinn og hafði minni áhrif á fjármálin með viðskiptaráðherra á mótti bæði fjármála- og forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Að auki kemur xS nánast inn í stjórnarsamstarfið sem farþegi á þeirri rússibanaferð sem xD og xB höfuð komið af stað löngu fyrr. xD var búið að koma sér hagvænlega fyrir í öllu stjórnkerfinu og stýrðu FME og Seðlabankanum. Einnig varð Ingibjörg Sólrún að ljúka þeim skuldbindingum sem Halldór og Davíð höfðu efnt til með umsókn að Öryggisráði SÞ. Það rændi dýrmætum tíma frá henni og færði fókusinn frá innanlandsvandanum. Ég og margir voru ekki ánægðir með hversu Ingibjörg Sólrún hélt lengi í stjórnarsamstarfið við xD og hún viðurkenndi það á landsfundinum síðasta að það hefði verið margt til í því að hún, sem aldrei hefði ætlað í samstarf við xD, hefði á endanum verið síðasti vinur flokksins. Með hverri vikunni sem leið í samstarfi við xD var xS að gera sig æ meir samábyrga. Það þarf samt grænmetisheila til að ætla Samfylkingunni eitthvað í nálægð við þá stóru ábyrgð sem xD og xB báru á græðgisvæðingunni og hruni nýfrjálshyggjunnar og efnahags landsins. Þessar stefnur voru hreinlega ekki á dagskrá Samfylkingarinnar og hún var 90% af tímanum sem þetta rugl byggðist upp á, í stjórnarandstöðu. Ef þú getur sýnt mér viðlíka lista fyrir xS og ég sýni hér fyrir afglöp xD, þá skal ég skipta um skoðun.
Það var Þorgerður Katrín, en ekki Ingibjörg Sólrún sem sagði að erlendi gagnrýnandi væri ekki með öllu mjalla eða eitthvað á þá leið. Á borgarafundi í Háskólabíói baðst Þorgerður Katrín afsökunar á þessu.
Það er ekki rétt að Samfylkingin hafi ekki tekið á sig ábyrgð. Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér fyrstur manna í ríkisstjórn. Gunnar Svavarsson, fyrsti maður í SV hlýddi á kröfuna um endurnýjun og bauð sig ekki fram í prófkjörinu. Ingibjörg Sólrún setti Jóhönnu fram í forystuna og á endanum tók sér hlé, bæði af pólitískum og heilsufarslegum ástæðum. Það hefði mátt vera meiri endurnýjun á toppsætunum í kjördæmunum, en kjósendur innan flokksins hafa ekki talið að þetta fólk ætti sök á hruninu. Hvar er það nákvæmlega sem þú vilt Arnór að Samfylkingin geri hreint fyrir sínum dyrum? Það er erfitt að ræða þetta eða sjá stoð fyrir máli þínu nema að þú nefnir dæmi.
Bestu kveðjur vestur um haf - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 11.4.2009 kl. 02:17
Takk Alfreð
Ég tek undir með þér og vissulega eru ekki nærri öll kurl komin til grafar hvað ESB varðar, en það er það stórt hagsmunamál að það þarf að hefja viðræður og vita nákvæmlega út á hvað aðild gæti gengið.
Sæll Sigurjón
Þú segir það vera "algjört tabú að kjósa landráðamennina í Samfylkingunni." Ég er búinn að rökstyðja í löngu máli af hverju ég tel að sjálfstæðismenn eins og þú eigir að kjósa xS eðga xVg nú, en þú kastar bara fram fullyrðingum um landráð án nokkurs rökstuðnings. Ertu svona gífurlega hræddur við aðildarviðræður við ESB að þú teljir slíkt landráð og því tabú að kjósa xS? Vinsamlegast sýndu að þú hafir eitthvað á bak við orð þín, annað en fordæminguna.
Sæll Halldór
Hvar ég vinn mín læknisstörf kemur vali á sjórnmálaflokki ekki neitt við. Leitt að þú teljir það svona sjúkt að velja flokk til að kjósa, en ég skil þig að hluta því stjórnmálamenn gamla skólans treysta ekki kjósendum og gefa því bara upp vissar hliðar málanna og hleypa ýmsum málum hreinlega ekki inní umræðuna. Gætir þú skýrt út hvers vegna þú telur xD skástan? Þú hefur ekki sannfært mig.
Takk Haukur!
Sæll Jóhann.
Ég sagði hvergi að Samfylkingin væri alsaklaus og ætti ekki sína ábyrgð á því hvernig fór. Það er bara svo kristaltært að hún bar mun minni ábyrgð á því hvernig komið var fyrir efnahag þjóðarinnar og siðferðilegri hnignun að ég vildi gera hlut Sjálfstæðisflokksins að sérstöku umtalsefni. Ég útskýrði þetta nánar í athugasemd 11 hér að ofan. Það má ekki gerast eina ferðina enn að fólk fylgi Sjálfstæðisflokknum í blindni eins það hefur gert að stórum hluta undanfarin 16 ár. Það má ekki gerast að fólk einfaldlega gleymi hver afglöpin og valdníðslan var. Yfirlit mitt ætti hressa uppá minnið. Komdum með viðlíka lista yfir afglöp xS áður en þú sakar mig um lýðskrum. Ef þú getur það ekki, þá er ásökun þín marklaus.
Svanur Sigurbjörnsson, 11.4.2009 kl. 02:41
Sæll "Gullvagn"
Hvað heitir þú annars? Ég er hjartanlega sammála þér í því að að stjórnmálin þurfa siðbót og sá flokkur sem nær ekki að gera verulega bót þar á mun dragast aftur úr. Krafan um betra siðferði er sem betur fer það sterk í dag að sinnuleysi í þeim efnum mun tæpast ganga. Þessi texti um Fabían félagið er illa skrifaður og ber merki þeirra sem ala á samsæriskenningum ýmis konar án þess að hafa góð rök fyrir máli sínu. Það er skoðun mín eftir að hafa lesið enska textann sem þú þýddir úr. Ég þekki til Bertrand Russell (sem hann nefndi m.a.) og fæ ekki séð að sú neikvæða mynd af honum sem hann vill draga upp fái staðist. Hann er margverðlaunaður baráttumaður sem fékk m.a. bókmenntaverlaun Nóbels og var rómaður fyrir mannréttindabaráttu. Það að hann hafi verið af aðalsættum er aukaatriði. Samhengið er ákaflega slakt í textanum og það er vaðið úr einni hugmynd í aðra. Ofnotkun áhersluríks texta (stórir stafir, breiðletra o.s.frv.) ber ekki merki manns sem lært að skrifa rökfastan texta sem talar máli sínu sjálfur. Það væri fróðlegt að heyra meira um Fabían félagið en mér sýnist að þessi Allan Watt (höfundur textans) sé eitthvað steiktur.
Svanur Sigurbjörnsson, 11.4.2009 kl. 03:04
Takk Gunnlaugur - tek undir það :-)
Svanur Sigurbjörnsson, 11.4.2009 kl. 03:05
Fín grein, Svanur en jafn sorglegt að sjá að enn sjá sumir ekki að sér, sbr nokkrar athugasemdir hér að ofan.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 11.4.2009 kl. 09:07
Ég er reyndar ekki Sjálfstæðismaður lengur, þó ég hafi verið það.
Það er mjög einföld ástæða fyrir því að ég líti á xS sem landráðaflokk og það er að sá flokkur vill inn í ESB, þrátt fyrir að segjast vilja fara í ,,samningaviðræður" og svo þjóðaratkvæði. Flokkurinn er þar með búinn að gefa ESB yfirhöndina í komandi viðræðum.
Það eru einungis tvær niðurstöður sem koma til greina úr þeim viðræðum: Annars vegar sú sem ég mun sætta mig við og hún er að við höldum fullum yfirráðum yfir auðlindum okkar hér eftir sem hingað til, en fáum jafnframt sama aðgang og hin ESB-löndin að innri markaði sambandsins. Hin niðurstaðan er sú að samninganefnd Íslands mun afhenda auðlindir landsins (a.m.k. stóran hluta af þeim) í skiptum fyrir téðan aðgang.
Fyrri niðurstöðunni mun ESB ekki hafa áhuga á og seinni niðurstaðan er ekkert annað en landráð og óafsakanleg ákvörðun gagnvart framtíðarkynslóðum.
Ég ætla ekki að fara í saumana á því hvers vegna mér er svo illa við ESB, nema ég gæti nefnt eitt atriði, sem er lýðræðisnauðgun sambandsins. Á undanförnum árum hafa þjóðir sambandsins nánast hætt að leyfa borgurum landsins að kjósa um mikilvæg mál eins og t.d. Lissabon-sáttmálann og þegar eina landið sem kýs um hann hafnar honum, þá á bara að kjósa aftur þar til ,,rétt" niðurstaða kemur. Þá verður aldrei kosið aftur.
Flokkur sem er búinn að ákveða að við eigum að ganga í slíkt samband er landráðaflokkur í mínum augum!
Sigurjón, 11.4.2009 kl. 09:27
Við þurfum að setja stóra auglýsingu í alla þá fjölmiðla sem hægt er með þessum afrekum Sjálfstæðisflokksins. Það má bæta við þetta þegar Davíð sagði við fréttamann að íslendingar væru fólk sem hefði gaman af því að fá eitthvað fyrir ekki neitt, þegar hann var spurður um hvað honum finndist um biðraðir fátækra hjá mæðrastyrksnefnd. Einnig má benda fólki á fjármagnsflutninga á milli stétta þar sem skattar hafa verið auknir á lágar tekjur og millitekjur og skattar lækkaðir á háar tekjur og ofurtekjur. Hvernig í fjandanum stendur svo á því að 25% þeirra sem kjósa Ránfuglinn skuli vera verkafólk og 33% eru sjómenn. Talandi um að skjóta sig í lappirnar.
Valsól (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 10:04
Sæll Sigurjón
Gott að fá kjöt á beinin frá þér. Það er alveg skýrt af hendi xS að um aðild að ESB á að kjósa með þjóðaratkvæðagreiðslu og því yrði þjóðin aldrei neydd í Evrópusambandið. Þetta er algerlega óháð þeirri meirihlutaskoðun í flokknum að aðildin hafi fleiri og stærri kosti en galla. Þú nefndir "lýðræðisnauðgun". Ég hef ekki séð að það sé neitt sem hindri þjóðaratkvæðagreiðslur sem verði stjórnarskrárvarnar, þrátt fyrir aðild að ESB og það er því undir hverri þjóð komið hvort og hvernig þær eru notaðar. Þær eru ekki einu sinni í notknun á Íslandi nú þannig að hverju ertu að tapa? Samfylkingin berst fyrir því að koma ákvæðum um þær á í landinu. Varla væri hún að því ef að það gengi ekki upp með aðild að ESB.
Varðandi auðlindirnar þá er það mál sem ég vil fá betur á hreint og því er ég alls ekki sannfærður ESB sinni. Ég vil fá aðildarviðræður til að fá alla þessa hluti upp á borðið og taka svo ákvörðun.
Svanur Sigurbjörnsson, 11.4.2009 kl. 13:02
Kæra Valsól
Já, mikið rétt með þessi atriði og það er ótrúlegt að þetta stór hluti láglaunafólks skuli kjósa xD. Hlutfall menntafólks er hæst í Vg og það er sá flokkur sem hve harðast hefur barist fyrir kjörum láglaunafólks ásamt xS. Ef láglaunafólk veit ekki hvar atkvæði þeirra er best borgið, þá er ekki nema von að kjör þess og félagsleg réttindi batni ekki.
Svanur Sigurbjörnsson, 11.4.2009 kl. 13:07
Akkúrat kæra Hildigunnur
Svanur Sigurbjörnsson, 11.4.2009 kl. 13:08
Sælir aftur.
Írar héldu þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabonn-sáttmálann (framhald af stjórnarskrá ESB) og felldu hann. Ekki leið á löngu þar til Sarkozy, ásamt fríðu föruneyti ESB, mætti á staðinn til að reyna að ,,leysa vandann" hjá Írum. Hvaða vanda? Jú, þeir sögðu nei og það má ekki í ESB. Því verður að kjósa aftur og aftur þar til ,,rétt" niðurstaða fæst.
Heldur þú að báknið í Brüssel muni leyfa okkur 300K manna þjóðinni að neita sambandinu um eitt eða neitt? Það verður send hingað nefnd til að hóta okkur öllu illu ef við steinþegjum ekki og samþykkjum það sem kemur frá bjúrókratíunni. Hvað sem Sf. vill, þá verður það svona.
Mergurinn málsins er að Sf. lítur á það sem svo að okkur sé betur borgið innan sambandsins, án þess að samningaviðræður hafi átt sér stað. Þar með er flokkurinn búinn að ákveða hver niðurstaðan eigi að vera...
Sigurjón, 11.4.2009 kl. 15:15
Nú eru einhverjir Sjálfstæðismenn að skjóta þeirri hugmynd að forystu flokksins að eina ráðið núna sé að taka upp þá stefnu að við borgum, þ.e. að segja við okkur kjósendur að ef við kjósum Sjálfstæðisflokkinn, þá þurfum við ekki að borga. Alveg gæti maður trúað þessu sjálfstæðisliði til að taka upp svona stefnu bara til að ná krafti sínum aftur og völdum. Þetta óheiðarlega flokksapparat svífist einskis.
Valsól (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 20:01
"Sýndu mér fram á að xD sé sá kostur og ég skal skipta um skoðun, en þangað til verð ég að efast um heilbrigða dómgreind þess sem ætlar sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 25. apríl næstkomandi."
Svanur er þetta læknisfræðileg niðurstaða þín?
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 13.4.2009 kl. 09:04
Adda - þetta er skemmtilega rugluð spurning hjá þér þar sem ég blanda ekki starfi mínu við stjórnmál, en ég ætla að svara þér af gamni:
Hugtakið "heilbrigð dómgreind" er stundum nokkuð sem læknar verða að velta vöngum yfir þegar spurning er um hvort að sjúklingur hafi misst tökin á raunveruleikanum og geti e.t.v. ekki tekið ákvarðanir um líf sitt og heilsu. Í slíku tilviki er verið að tala um ansi alvarlegt stig missis á heilbrigðri dómgreind og í reynd algeran missi á dómgreind.
Í tilviki þess sem ætlar að kjósa xD eftir 18 ár af nýfrjálshyggju, græðgisvæðingu, sjálftöku, efnahagshruni og siðferðislegri spillingu á ýmsum sviðum stjórnmálanna og stjórnkerfisins, þá er um vægari skerðingu að ræða því viðkomandi er orðinn hlekkjaður hugarfarslega við þennan tiltekna flokk og hættur að beita heilbrigðri gagnrýnni hugsun varðandi val á stjórnmálaflokki. Í slíku tilviki er engu líkara en að flokkurinn sé heilagur og það sé óhugsandi að hugsa sér aðra og betri kosti. Þetta er kannski ekki ólíkt fyrirbærinu meðvirkni. Sá meðvirki lætur tilfinningar og ástfóstri ráða frekar en skynsemi og framsýni. Sá meðvirki sér ekki að með því að styðja áfram þann sem er í ruglinu, heldur vandamálið áfram að grassera og versna. Það er því ekki góð dómgreind að mínu mati og óheilbrigð pólitískt séð þó ekki gangi ég svo langt að kalla hana óheilbrigða í læknisfræðilegum skilningi.
Fyrir fólk sem hefur sett mikið starf, tengsl og fjármuni í xD skil ég vel að það vilji halda áfram að byggja upp flokkinn sinn og hefja endurbætur, en fyrir hina sem eru óháðir kjósendur, ætti það ekki að vera spurning í ljósi atburða undanfarin ár að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hæfur til að sitja í ríkisstjórn næstu árin.
Ertu sátt við greininguna Adda?
Svanur Sigurbjörnsson, 14.4.2009 kl. 17:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.